Mexíkósk kjúklingabaka

Ég ákvað fyrir viku að gera þessa böku í kvöld og er búin að hlakka til í allan dag.  Okkur finnst hún æðislega góð og það er ekki hægt annað en að elska hana. Hún er einföld, fljótgerð og fullkominn endir á vinnuvikunni.  Þið bara verðið að prófa.

Botn

 • 3 dl hveiti
 • 100 gr smjör
 • 2 msk vatn

Fylling

 • 3 kjúklingabringur
 • 1 laukur, hakkaður
 • nokkrir niðurskornir sveppir
 • 1 rauð paprika, skorin smátt
 • 150 gr. rjómaostur
 • 1/2 dós chunky salsa
 • 3 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°. Blandið hráefninu í botninn saman þannig að það myndi deigklump, fletjið hann út og fyllið út í bökumót (ég nota oft bara venjulegt kökuform). Forbakið í ca 10 mínútur.

Bræðið smjör á pönnu og mýkið laukinn, sveppina og paprikuna við miðlungsháan hita. Á meðan passar vel að skera kjúklingabringurnar í lekkera bita. Þegar grænmetið er tilbúið er það tekið af pönnunni og kjúklingabitarnir steiktir upp úr smjöri. Bætið grænmetinu aftur á pönnuna ásamt rjómaostinum og salsasósunni og leyfið að malla saman um stund.

Setjið fyllinguna í forbakaðan botninn og stráið rifnum osti yfir. Bakið þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Berið fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma og guacamole.

Lasagna með rjómakremi

Í gær fengum við óvæntan matargest þegar Eyþór bróðir kom til að horfa á leikinn hjá okkur. Ég var ekki í vandræðum með að ákveða hvað ég ætti að elda því mig er búið að langa í þetta lasagna í nokkurn tíma. Ég prófaði þessa uppskrift fyrst fyrir nokkrum vikum og er búin að hugsa um hana síðan. Mér fannst því kjörið tækifæri að draga uppskriftina aftur fram og bjóða Eyþóri upp á.

Það sem gerir þetta lasagna frábrugðið því lasagna sem ég geri hvað oftast er balsamik edikið sem fer ákaflega vel með nautakjötinu og tómötunum. Það er heldur ekki notuð klassísk béchamel sósa eða kotasæla heldur er þeytt saman rjóma og sýrðum rjóma í þykkt krem sem er bragðbætt með góðu jurtasalti. Ég hef stundum búið til jurtasalt sjálf og finnst það langbest en það dugar vel að nota gott jurtasalt sem fæst í búðinni.

 • 600 gr nautahakk
 • 1 stór gulur laukur
 • 1 kúrbítur
 • 1 dl balsamik edik
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • jurtasalt
 • pipar
 • smá sykur
 • oregano, timjan og marjoram
 • 3 dl sýrður rjómi
 • 2 dl rjómi
 • jurtasalt
 • 2 dl rifinn ostur
 • lasagneplötur

Hitið ofninn í 200°. Afhýðið og fínhakkið laukinn, skerið kúrbítinn í litla bita og mýkið á pönnu. Takið af pönnunni og steikið nautahakkið.  Þegar nautahakkið er tilbúið þá er kúrbítnum og lauknum bætt aftur pönnuna ásamt balsamik edik, tómötum, jurtasalti, pipar, sykri og kryddjurtum og leyft að sjóða um stund.

Hrærið saman sýrða rjómanum, rjómanum og jurtasaltinu þar til það verður að þykku kremi.

Takið eldfast mót og setjið til skiptist lag af kjötsósunni og lasagna plötur. Endið á kjötsósunni og hellið rjómakreminu yfir. Setjið að lokum rifinn ost yfir og bakið neðarlega í ofninum í ca 30 mínútur.

Berið fram með góðu salati og hvítlauksbrauði.

Matur hjá mömmu

Mamma hefur alltaf verið mikil áhugamanneskja um mat og er dugleg prófa nýja rétti. Hún er snillingur í eldhúsinu og það er alltaf gaman að fara í mat til hennar. Í kvöld bauð hún okkur lax og ég fékk hana til að gefa uppskriftina til að setja hingað inn. Ég mæli með því að þið prófið þennan rétt því hann er algjört æði.

 • 2 laxaflök (1,6 – 2 kg)
 • safi úr 2-3 sítrónum
 • paprikuduft
 • salt
 • pipar
 • 1 stór krukka sweet mango chutney
 • 1 lítil krukka mango chutney
 • 300 gr grófsaxaðar pistasíuhnetukjarna

Leggið flökin á álpappír og kreistið sítrónurnar yfir þau. Kryddið með paprikudufti, salti og pipar. Hrærið saman sweet mango chutney og mango chutney og smyrjið því á flökin. Að síðustu er hnetukjörnum dreift yfir. Bakið í 200 gr. heitum ofni í 15-20 mínútur (eftir stærð laxaflakanna). Stillið ofninn á grill síðustu 2-3 mínúturnar og fylgist vel með því að hneturnar brenni ekki. Einnig má elda laxinn á útigrilli.

Steinseljukartöflur

 • 2-3 msk smjör
 • 1 kg forsoðnar kartöflur
 • salt
 • pipar
 • 2 bollar söxuð steinselja

Bræðið smjör á pönnu og setjið kartöflurnar á pönnuna. Kryddið með salti og pipar. Blandið steinseljunni saman við rétt áður en kartöflurnar eru bornar fram.

Með þessu var borið fram einfalt salat; spínat, klettasalatsblanda, fræhreinsuð agúrka og fetaostur.

Í eftirrétt var boðið upp á ávaxtasalat með vanilluvispi. Það var fullkominn endir á æðislegri máltíð.

Skúffukaka

Það eiga flestir sína uppáhalds uppskrift af skúffuköku og ég held að þetta sé mín. Ég gerði hana fyrst fyrir mörgum árum þegar ég eignaðist hina ein sönnu Bonniers Kokbok. Bókin er algjör biblía, hnausþykk og stútfull af uppskriftum. Mér þykir mjög vænt um hana og man enn hvað ég varð hissa þegar Kristín vinkona mín gaf mér hana í afmælisgjöf. Ég skil ekki hvernig hún nennti að burðast með hana á milli landa fyrir mig og hugsa alltaf hlýlega til hennar þegar ég dreg bókina fram.

Ég get svarið það að bókin opnast sjálfkrafa á þessari uppskrift, svo oft hef ég bakað hana. Blaðsiðan ber þess líka merki og er öll í blettum. Ef eitthvað þá gera þeir hana bara meira sjarmerandi.

Botninn

 • 200 gr smjör
 • 5 egg
 • 4 dl sykur
 • 4 dl hveiti
 • 1 dl kakó
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 dl mjólk

Hitið ofninn í 200 gráður og smyrjið skúffukökuform. Bræðið smjörið og látið það kólna. Hrærið egg og sykur þar til það verður ljóst og létt. Blandið hveiti, kakói, lyftidufti og vanillusykri saman og siktið það út í degið. Setjið smjör og mjólk út í og hrærið þar til degið verður slétt. Hellið deginu í bökunarformið og bakið í miðjum ofni í 20-25 mínútur.

Glassúr

 • 75 gr smjör
 • 1/2 dl sterkt kaffi
 • 4 dl flórsykur
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur

Bræðið smjörið. Setjið þurrefnin í skál og hrærið saman við brætt smjörið og kaffið.

Leyfið kökunni að kólna aðeins áður en glassúrið er sett á. Setjið kókosmjöið yfir kökuna og njótið.

Nýtt í eldhúsinu og dásamlegar franskar kartöflur

Á laugardaginn skein sólin og miðbærinn var fullur af lífi. Við röltum um Laugarveginn, fengum okkur núðlusúpu á Skólavörðustígnum og litum í nýju búðina hennar Heru Bjarkar, Púkó & Smart. Búðin er full af fallegum hlutum og má meðal annars finna þar góðgæti frá hinum danska Nicolas Vahé. Mig langaði í allt en lét mér nægja parmesan og basiliku salt í fallegri glerflösku með kvörn á. Síðan kolféll ég fyrir barstólnum sem búðarkonan sat á og fór það svo að við keyptum hann undan rassinum á henni. Hún átti þrjá og við keyptum tvo. Mig hefur lengið langað í hvíta, einfalda barstóla í eldhúsið en ekki fundið þá réttu fyrr en núna og ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað ég varð hamingjusöm þegar ég sá þá.

Þegar heim var komið var ákveðið að grilla hamborgara. Ég gat ekki beðið með að prófa nýja saltið og ákvað að gera heimagerðar franskar kartöflur til að hafa með hamborgurunum. Það þarf nú ekki að kenna neinum að gera franskar, kartöfurnar voru hreinsaðar og skornar niður, steiktar á pönnu upp úr góðri ólivuolíu til að fá fallega húð á þær og síðan kryddaðar með nýja parmesan og basiliku saltinu og pipar. Herlegheitunum var síðan skellt í heitan ofninn þar til þær voru tilbúnar.

Brauð

Ég baka brauð í hverri viku. Þetta brauð er eitt af uppáhalds brauðunum okkar og það brauð sem ég baka hvað oftast. Það er fljótlegt, æðislega gott og við fáum ekki leið á því. Ef það er enn til á þriðja degi þá skellum við því í brauðristina og látum smjörið bráðna á heitu brauðinu áður en við setjum áleggið á.

 • 2 dl tröllahafrar (eða venjulegir hafrar)
 • 5 dl hveiti
 • 1 dl hörfræ
 • 1 dl rúsínur
 • 1 dl hakkaðar heslihnétur
 • 2 tsk matarsóti
 • 1 tsk salt
 • 4 dl hrein jógúrt
 • 1/2 dl fljótandi hunang
 • 1/2 dl lingonsylt (fæst í Ikea)
Hitið ofninn í 190°. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið jógúrtinu, hunanginu og sultunni saman við. Ég skelli þessu öllu í KitchenAid vélina og læt hana hræra þessu saman. Degið er sett í smurt brauðform (fyrir ca. 1 1/2 líter) og bakað í neðri hluta ofnsins í 50-60 mínútur.

Midsommar

Á föstudaginn héldu Svíar upp á Midsommar. Það er æðislega gaman að vera í Svíþjóð á Midsommar, að dansa í kringum Midsommar-stöngina og að borða góðan mat. Við fáum alltaf Svíþjóðarþrá á þessum árstíma og ákváðum í ár að halda okkar eigin Midsommar hátíð. Reyndar ætluðum við hvorki að syngja né dansa heldur að elda góðan mat og horfa á sænska mynd. Það kom síðan á daginn að það voru Justin Bieber tónleikar í sjónvarpinu sem að unglingurinn mátti alls ekki missa af þannig að þetta fór nú fyrir lítið hjá okkur og það eina sem minnti mögulega á Midsommar var jarðaberjatertan sem ég gerði til að hafa í eftirrétt.

Það kom á dögunum út sænsk tertubók eftir Lindu Lomelino, Lomelinos Tårtor. Ég er alveg staðráðin í að eignast þessa bók enda búin að fylgjast með bloggi sem höfundurinn heldur í góðan tíma. Ég var svo heppin að finna uppskrift að jarðaberjatertu úr bókinni á Netinu og fannst kjörið að baka hana fyrir Midsommar hátíðina okkar. Ég breytti uppskriftinni örlítið, gerði sítrónucurd í staðin fyrir limecurd, og notaði þrjú 20 cm form í staðin fyrir tvö 15 cm. Tertan var æðislega góð og ég er spennt að prófa fleiri uppskriftir úr bókinni.

Botnar

 • 50 gr. smjör
 • 2 stór egg
 • 2,5 dl. sykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 1 dl. mjólk
 • 3 dl. hveiti
 • 1,5 tsk. lyftiduft

Hitið ofninn í 175 gráður og smyrjið tvö 15 cm bökunarform. Bræðið smjörið og látið það kólna. Hrærið egg, sykur og vanillusykur saman þar til það verður ljóst og loftkennt. Hitið mjólkina og blandið hægt út í degið. Hrærið smjörinu út í og að lokum þurrefnunum. Skiptið deginu jafnt í bökunarformin og bakið í ca 30 mínútur.

Sítrónucurd

 • 1,5 dl. sykur
 • 2 stór egg
 • hýði af 2 stórum sítrónum og ca 3/4 dl. af ferskum sítrónusafa
 • 50 gr. smjör við stofuhita

Setjið sykur, egg, fínrifið sítrónuhýði og sítrónusafann í hitaþolna skál og setjið yfir sjóðandi vatn. Hrærið stöðugt með handþeytara (ekki rafmagns) svo að eggin hlaupi ekki í kekki. Blandan á að ná svipaðri þykkt og hollandaissósa. Þegar blandan hefur náð réttri þykkt er hún tekinn af hitanum og smjörinu hrært saman við. Þegar smjörið er bráðnað er sítrónucurdið sett í lokaða krukku, það geymist í rúma viku í ískáp.

Fylling

 • 6 dl. rjómi
 • 2 msk. sykur
 • 500 gr. jarðaber
 • 1 dl. sítrónucurd

Þeytið rjómann með sykrinum. Hreinsið jarðaberin og skerið í sneiðar.

Kljúfið botnana í tvennt með góðum hníf (þá verða botnarnir fjórir). Setjið fyrsta botninn á kökudisk, breiðið jöfnu lagi af sítrónucurdinu á botninn, síðan rjóma og að lokum skífuðum jarðaberjunum. Leggið næsta botn ofan á og endurtakið þar til einn botn er eftir. Að lokum er síðasti botninn lagður efst með skornu hliðina niður, breiðið þykku lagi af rjóma yfir alla tertuna og skreytið með jarðaberjum.