Hafra- og speltbrauð með kúmeni

Það er langt síðan ég byrjaði að baka brauðin okkar og mér finnst vera himinn og haf á milli heimabakaðs og aðkeypts brauðs. Heimabökuðu brauðin eru stútfull af kornum og góðgæti og standa með mér allan morguninn. Þegar ég á ekki heimabakað brauð er algjör vandræðagangur á mér og ég veit ekkert hvað ég á að fá mér í morgunmat. Ég enda oftast á einhverju morgunkorni og er síðan orðin svöng aftur áður en ég næ að ganga frá diskinum.

Það tekur enga stund að baka gott brauð og auðvelt að breyta uppskriftunum eftir því sem er til í skápunum. Ég á mér tvenn uppáhalds brauð sem ég skiptist á að baka, þetta brauð og þetta hafra- og speltbrauð. Þau eru mjög ólík en mér þykja þau bæði svo góð. Þessa uppskrift fékk ég hjá Svanhvíti systur minni. Þegar hún sendi mér uppskriftina sagði hún að brauðið væri svo ljúft og gott á bragðið og ég gæti ekki verið meira sammála henni. Þess að auki er það ótrúlega fljótlegt og fullt af hollustu.

Hafra- og speltbrauð

 • 4 dl spelt (ég nota fínmalað)
 • 1 dl graskersfræ
 • 1 dl hörfræ
 • 1 dl sólblómafræ
 • 1 dl tröllahafrar eða haframjöl
 • 1 msk vínsteinslyftiduft
 • 1 1/2 tsk kúmen
 • 1/2 tsk salt
 • 2-3 msk hunang
 • 2 1/2 dl vatn
 • 1 msk sítrónusafi

Hitið ofninn í 180°. Blandið þurrefnum saman í skál ásamt hunangi, hellið vatni og sítrónusafa yfir og hrærið öllu rólega saman. Setjið í smurt brauðform og bakið í 35-40 mínútur.

Rifinn svínahnakki í BBQ-sósu

Í dag fór Malín til Svíþjóðar  og verður þar næstu tvær vikurnar. Hún er búin að hlakka til í allt sumar en ég er strax farin að telja niður dagana þar til ég fæ hana aftur heim. Við vorum með smá kveðjukvöld í gær, buðum mömmu og Eyþóri í mat og spiluðum síðan fram á kvöld.

Ég held að ég hafi aldrei haft jafn lítið fyrir matarboði og í gær. Eldamennskan stóð í 10 klukkutíma en snemma um morguninn var nánast allt klárt. Á innan við hálftíma var ég búin að koma kjötinu í ofninn, búa til ís og ganga frá í eldhúsinu.

Ég var með hægeldaðan svínahnakka í BBQ-sósu sem ég eldaði í ofnpotti í um 10 klukkustundir við 110 gráðu hita. Ég gerði ekkert við það í þessa 10 tíma heldur leyfði kjötinu að eldast í friði, án þess að ausa yfir það eða snúa því. Þegar það kom úr ofninum var það svo mjúkt að það datt í sundur, alveg eins og ég vildi hafa það. Það má segja að kjötið sé tilbúið þegar það rifnar auðveldlega í sundur með gaffli. Ég bar kjötið rifið fram í hamborgarabrauði og sem meðlæti var ég með kál, avokado, papriku, rauðlauk, tómata, beikon, ofnbakaðar kartöflur, sósur og nachos. Það gátu því allir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hægeldaður svínahnakki

 • svínahnakki í sneiðum
 • reykt paprikukrydd
 • paprikukrydd
 • cayanne pipar
 • cummin
 • maldon salt
 • BBQ-sósa
 • laukur, skorinn í grófa bita
 • hvítlaukur

Hitið ofninn í 110°. Nuddið kryddinu vel á kjötið og setjið í leirpott eða ofnpott. Skerið laukinn í grófa bita og bætið í pottinn ásamt heilum hvítlauksrifum. Hellið BBQ-sósu yfir og lokið pottinum. Setjið í ofninn og leyfið að eldast í 8-10 klukkutíma.

Þegar kjötið er tilbúið er það veitt upp úr pottinum og soðið sigtað í pott. Hendið lauknum frá. Leyfið soðinu að sjóða um stund á meðan kjötið er rifið niður (það á að gerast mjög auðveldlega eftir allan þennan tíma í ofninum). Þegar soðið hefur soðið niður er því hellt yfir niðurrifið kjötið.

Þetta er æðisleg aðferð til að elda kjötið því það verður svo bragmikið, meyrt og gott . Það er t.d. gott að setja það á samlokur, á pizzur, í tortilla kökur eða í hamborgarabrauð.

 

 

Oreo-brownies

Ég man þegar ég smakkaði Oreo-kex í fyrsta sinn. Mér fannst það allt of dökkt á litinn og gat ekki ímyndað mér að það væri gott en ég var fljót að skipta um skoðun. Ég tók fyrsta bitann og það var ekki aftur snúið.

Það er því kannski ekki skrýtið að mér finnst Oreo-ostakakanæðislega góð og þegar ég sá þessa uppskrift að Oreo-brownies, eða Oreo-brúnkum, þá langaði mig strax til að prófa þær. Þar sem við vorum með svo léttan kvöldmat í gær þá fannst mér kjörið að baka þær til að hafa í eftirrétt og mikið fannst okkur þær góðar. Það voru alsælir krakkar með mjólkurskegg langt út á kinnar sem gáfu kökunni bestu einkunn.

Uppskriftina sá ég á Pinterest og breytti henni lítillega. Ég gef hana hér með mínum breytingum. Ég gæti trúað að hún sé æðisleg nýbökuð með vanilluís og berjum. Við áttum hvorugt og fengum okkur bara mjólkurglas með henni en það kom ekki að sök. Kakan er jafnvel betri daginn eftir og því alveg óhætt að gera hana með dags fyrirvara.

Oreo-brownies

 • 165 gr smjör
 • 200 gr suðusúkkulaði, hakkað fínt
 • 3 egg
 • 2 eggjarauður
 • 2 tsk vanillusykur
 • 115 gr púðursykur
 • 50 gr sykur
 • 2 msk hveiti
 • 1 msk kakó
 • smá salt
 • 12 Oreo-kexkökur, hver kaka skorin í 4 bita.

Hitið ofninn í 180°. Smyrjið bökunarform (20 x 20 cm) og klæðið með bökunarpappír þannig að bökunarpappírinn fari yfir kantinn á bökunarforminu.

Bræðið smjör í potti við miðlunghita. Þegar smjörið er bráðið er það tekið af hitanum og súkkulaðinu bætt í pottinn. Leyfið þessu að standa í nokkrar mínútur eða þar til súkkulaðið er bráðnað og hrærið þá saman þannig að smjörið og súkkulaðið blandist vel.

Hrærið eggjum, eggjarauðum, og vanillusykri saman í stórri skál þar til blandan verður ljós og létt. Bætið sykrinum í tveimur skömmtum og hrærið vel á milli. Þegar allur sykurinn er kominn út í er hrært áfram þar til blandan verður stífari. Bætið súkkulaðinu varlega saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel. Bætið hveiti, kakói, salti og 1/3 af Oreo-kexkökunum út í og hrærið vel.

Setjið deigið í bökunarformið og stingið restinni af Oreo-kexkökunum í deigið. Bakið í miðjum ofni í 25-30 mínútur. Leyfið kökunni að kólna áður en hún er tekin úr forminu og skorin í bita. Sigtið flórsykri yfir hana áður en hún er borin fram.

Dásamlegur morgunverður

Það virðist engu máli skipta hvenær ég fer að sofa, ég er alltaf fyrst á fætur á morgnana. Mér finnst það ósköp notalegt og oftar en ekki læðist ég fram, kveiki lágt á útvarpinu, fletti blöðunum og skoða uppskriftir. Á laugardagsmorgnum geri ég yfirleitt vikumatseðilinn en í sumarfríinu hefur það alveg dottið úr rútínu. Nú er ég alltaf að plana næstu máltíð, ligg yfir uppskriftum og hleyp í búðina þess á milli.

Í morgun ákvað ég að koma fjölskyldunni á óvart og vekja þau með alvöru morgunmat. Sólin skein og ég stóðst ekki mátið að dúka borðið á pallinum og hafa morgunmatinn þar. Ég bakaði amerískar pönnukökur, steikti beikon og gerði breska morgunverðarpönnu sem ég sá í Jamie Oliver blaðinu mínu. Ég held að það sé ekki hægt að byrja daginn betur en með fjölskyldunni í sólinni yfir svona morgunverði. Krökkunum leið eins og við værum í útlöndum og ég skil það vel. Það var steikjandi hiti á pallinum og við sátum lengi yfir matnum og spjölluðum. Þetta verður endurtekið fljótlega.

Kartöflu og chorizo morgunverðarpanna að hætti Jamie Oliver

 • ólívuolía
 • 2 stórir laukar, skornir í grófa bita
 • 2 hvítlauksrif, hökkuð
 • 240 gr chorizo pylsa, hökkuð
 • 4-6 soðnar kartöflur, skornar í grófa bita
 • 4 egg
 • fersk steinselja

Hitið ofninn i 180°. Setjið ólivuolíu í ofnþolna pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn við vægan hita þar til laukurinn verður mjúkur. Bætið chorizo pylsunni á pönnunna og steikið áfram í 2-3 mínútur eða þar til hún byrjar að fá fallegan lit. Bætið soðnu kartöflunum á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur. Brjótið eggin yfir og stingið pönnunni í ofninn og bakið í 8 mínútur eða þar til eggjahvíturnar eru stífar og eggjarauðurnar fljótandi. Myljið pipar og salt yfir ásamt ferskri steinselju og berið fram.

Amerískar pönnukökur

 • 3 bollar hveiti
 • 1 bolli sykur
 • 4 tsk lyftiduft
 • 1 egg
 • mjólk eftir þörfum (ca 2 bollar)

Hrærið öllu saman þar til deigið er slétt og kekkjalaust. Steikið á pönnu í bræddu smjöri við vægan hita og snúið við þegar loftbólur myndast. Borið fram með smjöri, sýrópi, beikoni og öllu því sem hugurinn girnist.

Brauð með ítalskri fyllingu

Ég var búin að ákveða að elda allt annan mat í kvöld, en þegar ég sá þennan brauðhleif í búðinni skipti ég snarlega um skoðun. Mig langaði bara í þetta brauð með ítalskri fyllingu. Uppskriftina fann ég fyrir löngu á sænsku matarbloggi og hef eldað hana reglulega síðan. Okkur þykir þetta öllum svo gott og krakkarnir borða hann með bestu lyst þó þau þykjast ekki borða ólívur. Þetta er einfaldur réttur sem mér finnst bestur með góðu salati og ísköldu sódavatni.

Brauð með ítalskri fyllingu

 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 10 sólþurrkaðir tómatar
 • 500 gr nautahakk
 • smjör til að steikja í
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 2 msk þurrkuð basilika eða 1 box fersk basilika
 • 1-2 tsk salt
 • pipar
 • smá sykur
 • 1 dl blandaðar steinlausar ólívur
 • 125 gr ferskur mozzarella
 • 150 gr rifinn ostur
 • 1 brauðhleifur

Hitið ofninn í 175°. Hakkið lauk, hvítlauk og sólþurrkaða tómata. Steikið nautahakkið með laukunum og bætið síðan niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basiliku á pönnuna. Leyfið þessu að sjóða í 10 mínútur og bragðbætið með salti, pipar og smá sykri. Takið af hitanum og leyfið að kólna aðeins.

Skerið lok af brauðinu og takið úr því þannig að eftir standi ca 2 cm kantur um brauðið. Skerið ólívurnar smátt og mozzarella ostinn í bita. Blandið rifnum osti, ólívunum og mozzarella ostinum í kjötblönduna og fyllið brauðið með blöndunni. Leggið lokið á brauðið og pakkið því inn í álpappír. Setjið í ofninn í ca 30 mínútur eða þar til brauðið er heitt í gegn.

Berið fram heitt með góðu salati.

Sænskir kanilsnúðar

Ég hef bakað þessa snúða síðustu 10 árin og okkur þykja þeir alltaf jafn góðir. Þetta er stór uppskrift, um 40 snúðar, og ég tek alltaf hluta frá og set í frystinn um leið og þeir koma úr ofninum. Snúðarnir eru bestir nýbakaðir og geymast ekki vel nema í frysti. Þá er líka lítið mál að afþýða þá í örbylgjunni eða í ofninum í skamma stund og þeir verða eins og nýbakaðir. Það er því mjög notalegt að eiga poka af þeim í frystinum og geta töfrað fram heita snúða með lítilli fyrirhöfn.

Uppskriftina fékk ég aftan á hveitipakka þegar ég var nýflutt til Svíþjóðar og hef haldið tryggð við hana allar götur síðan. Mér finnst aðalatriðið vera að hafa deigið eins blautt og ég mögulega get því of mikið hveiti gerir snúðana þurra. Ég geri alltaf tvöfalda uppskrift af fyllingunni því hún gerir snúðana svo gómsæta. Að lokum set ég vel af perlusykri yfir snúðana áður en þeir fara fara í ofninn. Mér finnst hann alveg ómissandi.

Sænskir kanelsnúðar

 • 150 gr smjör eða smjörlíki
 • 5 dl mjólk
 • 50 gr (1 pakki) ger
 • 1 dl sykur
 • 1/2 tsk salt
 • 2 tsk kardimommur
 • 850 gr hveiti
Fylling
 • 100 gr smjör eða smjörlíki við stofuhita
 • 1 dl sykur
 • 2 msk kanill
Til að pensla snúðana
 • 1 egg
 • perlusykur

Bræðið smjörið í potti. Bætið mjólkinni í pottinn og hitið upp í 37°. Setjið gerið í skál (ég nota alltaf þurrger) og hellið vökvanum yfir. Leyfið gerinu aðeins að taka sig í nokkrar mínútur. Bætið sykri, salti, kardimommu og hveiti (ekki byrja á öllu hveitinu heldur bætið frekar við seinna) út í og hnoðið deigið vel í ca 5 mínútur með hnoðara á hrærivél eða í ca 10 mínútur í höndunum. Breiðið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast á hlýjum stað í ca 30 mínútur.

Hnoðið degið á mjöluðu borði og skiptið því niður í 4 hluta. Fletjið hvern hluta út í aflanga köku (þannig að deigið verði í laginu eins og skúffukaka). Hrærið saman fyllingunni (ég geri oftast tvöfalda uppskrift af fyllingunni) og breiðið yfir deigið. Snúið deiginu upp í rúllu og skerið í sneiðar (hver rúlla í ca 10 sneiðar). Leggið hverja sneið í möffinsform og látið hefast undir viskastykki í 40 mínútur.

Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir þá. Bakið í miðjum ofni við 225 gráður í 5-8 mínútur.

Gratíneraður fiskur með púrrulauk og blómkáli

Á flugvellinum í London keypti ég mér tímarit til að hafa í vélinni á leiðinni heim. Ég var svo heppin að það var til eintak af Jamie Oliver ársblaðinu, þ.e. blaðinu sem hann gefur út með bestu uppskriftum ársins úr Jamie Oliver blöðunum. Ég las hverja einustu uppskrift í blaðinu og eftir flugferðina gat ég ekki beðið eftir að komast heim í eldhúsið. Þar sem það er mánudagur í dag fannst mér tilvalið að byrja á að elda fiskiuppskrift úr blaðinu og valdi gratíneraðan fisk með púrrulauk og blómkáli.

Þessi réttur vakti mikla lukku hjá krökkunum. Malín bað mig um að elda hann fljótlega aftur og eftir matinn þakkaði Gunnar fyrir þennan frábæra mat. Við Öggi vorum sammála þeim og fannst hann báðum mjög góður. Ég breytti uppskriftinni lítillega og gef hana hér með mínum breytingum.

Gratíneraður fiskur með púrrulauk og blómkáli

 • 900 gr ýsa eða þorskur
 • ólívuolía
 • 50 gr smjör
 • 100 gr hveiti
 • 600 ml mjólk
 • 350 gr nýrifinn cheddar
 • 50 gr nýrifinn parmesan
 • 200 gr blómkál
 • 1-2 púrrulaukar
 • brauðraspur

Hitið ofninn í 180°. Kryddið fiskinn með salti og pipar og steikið á pönnu við háan hita í 1-2 mínútur (fiskurinn á ekki að verða fulleldaður). Takið fiskinn af hitanum og leggið til hliðar.

Skerið púrrulaukinn í grófar sneiðar og blómkálið í bita. Sjóðið saman í ca 5-7 mínútur og hellið síðan vatninu af.

Bræðið smjörið á pönnu eða í stórum potti. Bætið hveitinu saman við og hrærið vel saman. Leyfið þessu að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Bætið mjólkinni rólega saman við og hrærið stöðugt þangað til blandan er orðin að þykkri, sléttri sósu. Kryddið vel (ég notaði salt, pipar og Krydd lífsins frá Pottagöldrum) og hrærið helmingnum af báðum ostunum saman við. Bætið grænmetinu í og hrærið vel. Hrærið að lokum fiskinum út í. Setjið blönduna í eldfast mót, dreifið restinni af ostunum yfir og að lokum handfylli af brauðraspi. Bakið í ca 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og kominn með fallegan lit.

Krakkarnir mæla með að rétturinn sé borinn fram með tómatsósu.