Mokkakaka

Í kvöld ætlum við Öggi að bregða undir okkur betri fætinum og fara á Grillið á Hótel Sögu með vinnufélögum mínum. Við ætlum að byrja kvöldið í for-fordrykk í heimahúsi, færa okkur síðan yfir í fordrykk á Mímisbar og þaðan í þriggja rétta kvöldverð á Grillinu. Það er því skemmtilegt kvöld framundan og ég má ekkert vera að því að sitja við tölvuna.

Þar sem ég mun ekki elda í kvöld datt mér í hug að gefa uppskriftina að kökunni sem er hér efst á síðunni, sjálfri forsíðumyndinni. Kakan er æðislega góð og passar vel með kaffinu um helgina.

Mokkakaka

Botn:

 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 1 ½ dl mjólk
 • 4 ½  dl hveiti
 • 3 tsk lyftiduft
 • 150 gr smjör
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 msk kakó

Glassúr:

 • 3 ½  dl flórsykur
 • 50 gr brætt smjör
 • 4 msk kaffi
 • 1 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • kókosmjöl til að setja yfir kökuna

Hitið ofninn í 225°. Hrærið egg og sykur létt og ljóst. Blandið hveiti og lyftidufti saman og hrærið saman við eggjablönduna á víxl við mjólk og brætt smjör. Hrærið að lokum kakói og vanillusykri saman við deigið. Setjið deigið í skúffukökuform sem hefur verið klætt með bökunarpappír og bakið í ofninum í ca 15 mínútur.

Hrærið hráefnunum í glassúrinn saman og breiðið yfir kökuna. Stráið að lokum kókosmjöli yfir.

Heitur Nutella-súkkulaðidrykkur

Haustflensan hefur gengið yfir heimilið í vikunni. Öggi var heima með Gunnar veikan á þriðjudaginn og í morgun vaknaði Jakob veikur. Ég er búin að vera heima með honum í dag og við erum búin að hafa það mjög huggulegt þrátt fyrir slappleika. Við Jakob erum alveg sammála um að heitt súkkulaði sé allra meina bót og ákváðum að gera heitan Nutella-súkkulaðidrykk. Við þeyttum líka rjóma og hökkuðum súkkulaði sem við settum yfir. Þetta höfðum við tilbúið þegar Malín og Gunnar komu heim úr skólanum við slógum rækilega í gegn með uppátækinu.

Ég má til með að gefa uppskriftina, þó einföld sé, að Nutella-súkkulaðidrykknum því hann er algjört æði og krakkarnir eru sammála um að hann sé mun betri en venjulegt heitt súkkulaði. Uppskriftin kemur frá The Sisters Café.

Heitur Nutella-súkkulaðidrykkur (fyrir 1)

 • 2 msk Nutella
 • 1 bolli mjólk

Hitið Nutella og mjólk saman í potti. Hellið heitri súkkulaðimjólkinni í könnu, setjið væna rjómaslettu og hakkað súkkulaði yfir og njótið.

Gróft brauð með rúgmjöli og tröllahöfrum

Við höfum ekki átt gott brauð í nokkra daga og við Öggi vorum farin að sakna þess að fá okkur væna brauðsneið á morgnana. Ég ákvað því að baka brauð í gærkvöldi og þvílíkur munur það er að byrja daginn svona vel.

Það er svo myndarlegt að segjast baka brauð í hverri viku en satt að segja þá er það bæði fljótlegra en að fara út í búð og svo margfalt betra. Brauðið er gerlaust og þarf því ekki að hefast, það er bara öllu blandað vel saman og sett í form áður en það fer inn í heitan ofninn.

Þó að þetta brauð sé í algjöru uppáhaldi hjá okkur, ásamt speltbrauðinu, þá þótti okkur rúgmjölsblandan í þessu grófa brauði skemmtileg tilbreyting. Næst ætla ég að prófa að bæta rúsínum í það, ég gæti trúað að það væri gott.

Gróft brauð með rúgmjöli og tröllahöfrum

 • 5 dl rúgmjöl
 • 5 dl hveiti
 • 1 dl tröllahafrar
 • 1 dl hörfræ
 • 1 tsk salt
 • 1 msk matarsódi
 • 1 dl týtuberjasulta (ég nota lyngonsylt sem fæst í Ikea)
 • 2 msk síróp
 • 5 dl jógúrt (eða ab-mjólk eða súrmjólk)
 • graskersfræ til að strá yfir brauðið

Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum þurrefnunum saman. Hrærið týtuberjasultu, sýrópi og jógúrti saman við þurrefnin og blandið vel. Setjið deigið í smurt brauðform. Stráið graskersfræjum yfir og bakið í neðri hlutanum á ofninum í ca 1 klukkustund.

Blómkálssúpa

Ég var ekkert að flækja hlutina í kvöld og eldaði blómkálssúpu í matinn. Okkur finnst hún alltaf jafn góður og notalegur matur. Blómkálssúpuna elda ég oft enda einföld, fljótleg og að mínu mati mjög góður hversdagsmatur. Það þarf bara að eiga blómkálshaus og smá rjómaslettu til að geta töfrað fram góðan kvöldverð á svipstundu.  Ég á alltaf baguette brauð frá Délifrance í frystinum sem ég kaupi frosið í matvörubúðinni og þykir þægilegt að geta gripið í og hitað til að hafa með súpunni.

Ég geri alltaf súpur frá grunni og get ekki ímyndað mér að pakkasúpur séu góðar. Það er án nokkurns vafa hægt að finna fínni uppskriftir að blómkálssúpum en okkur þykir þessi svo góð og hún klikkar aldrei.  Í kvöld ákvað ég að skrifa niður hvernig ég geri súpuna ef einhvern langar að prófa. Uppskriftin er ekki heilög og mér dytti ekki í hug að fara út í búð eftir öðru hráefni en blómkálinu. Ef ég á ekki rjóma þá nota ég meiri mjólk, ef ég á ekki grænmetistening þá nota ég bara kjúklingatening og öfugt. Það virðist ekki skipta neinu máli, súpan verður alltaf góð.

Blómkálssúpa

 • stór blómkálshaus
 • 50 gr smjör
 • 1 dl hveiti
 • 6-7 dl soð
 • 2 dl rjómi
 • 3 dl mjólk
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 kjúklingateningur
 • hvítur pipar
 • salt

Skerið blómkálshausinn niður og setjið í pott. Hellið vatni þannig að rétt fljóti yfir og sjóðið þar til blómkálið verður mjúkt.

Í öðrum potti er smjörið brætt og hveitinu hrært saman við. Bætið blómkálssoðinu smám saman í pottinn og hrærið vel á milli. Bætið rjómanum, mjólkinni og teningunum út í. Leyfið að sjóða saman um stund og smakkið til með hvítum pipar og salti. Ef súpan er bragðlítil þá er bætt við meiri krafti. Bætið að lokum blómkálinu í pottinn og leyfið að sjóða saman um stund áður en súpan er borin fram.

Ég leyfi töfrasprotanum stundum að mauka blómkálið áður en ég ber súpuna fram og hef alltaf brauð með súpunni.

Mascarpone kjúklingapasta með sólþurrkuðum tómötum og spínati

Ég elska sítrónur, hvort sem þær eru í drykkjum, mat eða bakstri. Fjölskyldan deilir ekki þessari sítrónuást með mér og í sumar þegar við hjónin gengum um Hyde Park í London og ég fékk mér sítrónuköku og Sprite þá bretti Öggi bara upp á nefið. Mér fannst það æðisleg samsetning en honum fannst það full mikið af því góða.

Þrátt fyrir þessa ást mína á sítrónum hef ég aldrei átt sítrónupressu. Ég hef alltaf kreist sítrónurnar í skál og síðan veitt steinana upp úr. Ég var búin að heyra að sítrónupressan frá Chef´n væri æðisleg og eftir að hafa skoðað hana á netinu virtist hún vera Rollsinn í sítrónupressunum. Ég var staðráðin í að panta mér hana en þegar það kom í ljós að hún kostaði 9.000 krónur með sendingarkostnaði, og þá var tollurinn eftir, ákvað ég að slaka aðeins á.

Um daginn átti ég leið í Pipar og salt á Klapparstíg og mikið varð ég glöð þegar ég sá að sama sítrónupressan fékkst þar á 4.500 krónur. Þvílík kjarakaup. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og keypti hana samstundis.

Þessi sítrónupressa er í einu orði sagt frábær. Hún er einföld í notkun, nær öllum safanum úr sítrónunni og er strax orðin eitt af mínum uppáhalds eldhúsáhöldum.

 

Ef ég á að vera hreinskilin þá hafa ekki margir beðið mig um uppskriftina að pastaréttinum sem ég eldaði á föstudaginn við lítið fögnuð barnanna. Mamma er sú eina sem var spennt að sjá uppskriftina en okkur Ögga þótti hún svo góð að ég ætla að deila uppskriftinni með ykkur. Sítrónupressan fékk að njóta sín við eldamennskuna og mér fannst sítrónukeimurinn gefa réttinum mjög gott bragð. Ég mun örugglega elda þennan rétt aftur en þá ætla ég að bæta matreiðslurjóma í uppskriftina til að fá meiri sósu. Hvítlauksbrauðið fór mjög vel með pastaréttnum og ég fer ekki af því að þetta er dásamlegur kvöldverður.

Mascarpone kjúklingapasta með sólþurrkuðum tómötum og spínati

 • 250 gr mascarpone rjómaostur við stofuhita
 • Hýði og safi úr einni sítrónu
 • 1 tsk nýmalaður pipar
 • 3-4 kjúklingabringur
 • 1 ½  msk ólívuolía
 • 2 hvítlauksrif
 • salt og pipar
 • 1/3 bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
 • 1 poki spínat (250 gr)
 • 500 gr pasta
 • Ferskrifinn parmesan

Hrærið saman fínrifið sítrónuhýði, sítrónusafa, mascarpone og pipar í skál.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í ólívuolíu við miðlungsháan hita þar til þær eru eldaðar í gegn. Bætið pressuðum hvítlauksrifjum á pönnuna og steikið áfram í 1-2 mínútur. Saltið og piprið.

Sjóðið pastað í söltu vatni eftir leiðbeiningum á pakkningu en takið það af hitanum 1-2 mínútum áður en það er tilbúið. Takið hálfan bolla af pastavatninu frá og sigtið restina af vatninu frá pastanu.

Setjið pastað aftur í pottinn og setjið pottinn á miðlungsháan hita. Hrærið mascarpone og sítrónublöndunni saman við ásamt kjúklingnum, sólþurrkuðu tómötunum og spínatinu. Þynnið sósuna með 1/4 af pastavatninu og hrærið vel saman þar til allt er orðið vel heitt. Bætið við meira af pastavatni ef þörf er á.

Rífið ferskan parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram.

 

Facebook og nýjung á síðunni

Eins og skarpir lesendur hafa kannski tekið eftir þá eru komnar tvær nýjungar á síðuna. Fyrst ber að nefna að Ljúfmeti og lekkerheit er komin á Facebook og mér þætti mjög vænt um ef þið vilduð like-a síðuna þar. Eins og staðan er núna eru þrír búnir að like-a hana, ég, Öggi og Malín. Hin breytingin er að efst á síðunni er nú kominn flipi sem heitir „Gott að vita“. Þar hef ég sett inn lista yfir hráefni sem hægt er að nota þegar það er skortur í eldhússkápunum og lista yfir mælieiningar. Þessi dálkur er enn í vinnslu og á vonandi eftir að vaxa og dafna þegar fram líða stundir.

Stórgott hvítlauksbrauð sem dugar fyrir marga

Þegar Malín kom heim frá Svíþjóð færði hún mér meðal annars eitt af uppáhalds matreiðslublöðunum mínum, ELLE mat & vin. Blaðið er stútfullt af spennandi uppskriftum og í gærkvöldi prófaði ég þá fyrstu, hvítlauksbrauð. Ég ákvað síðan að gera spaghetti með kjúklingi, mascarpone, sítrónu, spínati og sólþurrkuðum tómötum sem ég bar brauðið fram með.

Það er helst frá því að segja að bræðurnir enduðu á að borða brauð og skyr í kvöldmat. Þeim þótti pastarétturinn svo vondur að Jakob reyndi að gera sér upp ofnæmi fyrir sítrónum til að þurfa ekki að borða hann. Malín borðaði vel en líkt og bræðrum sínum þótti henni pastarétturinn ekki upp á marga fiska. Ég skil ekkert í þeim því okkur Ögga þótti þetta hinn fínasti matur og tæmdum alla diska.

Þó að bræðurnir hefðu glaðir borðað brauðið eitt í kvöldmat þá vorum við foreldrarnir ekki tilbúin að láta það eftir þeim. Ég átti jarðaberjaskyr í ískápnum sem var búið að taka af og það sem eftir var dugði varla fyrir þá báða. Ég brá þá á það ráð að þeyta rjóma og hræra saman við skyrið. Ég kallaði það spariskyr og þeim þótti það alveg meiriháttar.

Það voru þó allir á einu máli um að brauðið væri æðislega gott og það var vel borðað af því. Uppskriftin er heldur stór, heil ofnskúffa, og hentar því vel fyrir matarboð eða að skera niður afganginn og frysta.

Hvítlauksbrauð

 • 50 gr ger (1 pakki)
 • 5 dl 37° heitt vatn
 • 1 dl ólívuolía
 • 1 msk sykur
 • 2 tsk salt
 • 12-14 dl hveiti

Fylling

 • 1 dl ólívuolía
 • 1/2 bakki af ferskri basiliku (bara blöðin)
 • 2 hvítlauksrif
 • 1/2 sítróna, (bara hýðið)
 • Maldonsalt
 • pipar úr kvörn

Hrærið gerinu saman við fingurheitt vatnið og hellið ólívuolíu, sykri og salti saman við. Bætið nánast öllu hveitinu saman við og hnoðið vel saman. Passið að nota ekki of mikið af hveiti svo að brauðið verði ekki þurrt. Látið deigið hefast á hlýjum stað í 45-60 mínútur.

Klæðið ofnskúffu með bökunarpappír og stráið smá hveiti yfir. Setjið deigið á plötuna, dreifið úr því og látið það vera jafn þykkt. Látið deigið hefast aftur í 40 mínútur. Á meðan er fyllingin útbúin og ofninn hitaður í 250°.

Mixið ólívuolíuna og basilikublöðin með töfrasprota þar til úr verður slétt olía. Pressið hvítlaukinn eða hakkið smátt. Skolið sítrónuna vel og fínrífið hýðið. Hrærið öllu saman og smakkið til með maldonsalti og pipar.

Þegar brauðið er búið að hefast eru gerðar litlar holur um allt brauðið með fingrinum. Penslið fyllingunni yfir brauðið og bakið í miðjum ofni þar til það fær fallegan lit, ca 15-20 mínútur. Látið brauðið kólna undir viskastykki.