Múslíbrauð með fræjum, kornum og öðru góðgæti

Það er óhætt að segja að þessi sunnudagur hafi verið notalegur. Fyrir utan að Öggi og Gunnar rifu sig upp eldsnemma í morgun til að taka þátt í Hjartadagshlaupinu þá hefur þessum degi verið eytt hér heima í mestu makindum. Ég elska svona daga, þar sem ekkert stendur til og allir eru heima.

Á meðan Öggi og Gunnar hlupu í morgun bakaði ég nýtt brauð. Ég notaði það hráefni sem ég átti í skápunum og úr varð stórgott gróft brauð. Það er svo gaman að baka brauð og hægt að leika sér endalaust með uppskriftirnar. Ég ákvað að hafa bæði hvítt hveiti og heilhveiti en auðvitað er hægt að skipta því út fyrir hvaða mjöl sem er. Sama er með kornin og fræin, ég átti 5 korna blöndu sem ég ákvað að nota og bætti síðan sólkjarna- og graskersfræjum við. Rúsínurnar gáfu sætu og hunangið gerði allt gott. Það var ósköp notalegt að fá þá heim og setjast saman niður yfir nýbökuðu brauði.

Múslíbrauð með fræjum, kornum og öðru góðgæti

 • 4 dl hveiti
 • 3 1/2 dl heilhveiti
 • 3 1/2 dl múslí (ég var með Organic basic muesli frá Crispy Food)
 • 1 dl graskersfræ
 • 1 1/2 dl fimmkornablanda
 • 2 1/2 dl solkjarnafræ
 • 1 1/2 dl rúsínur
 • 1 tsk maldon salt
 • 3 msk fljótandi hunang
 • 1 msk vínsteinslyftiduft (má líka nota venjulegt lyftiduft)
 • 2 dl vatn
 • 7 dl ab-mjólk

Hitið ofninn í 200°. Blandið þurrefnum saman í skál. Setjið hunang, vatn og ab-mjólk saman við og hrærið öllu varlega saman. Látið deigið í smurt brauðform eða formkökuform og bakið í ca 55-60 mínútur.

Fljótgerðar speltpizzur

Ég hef lengi verið á leiðinni að gera pizzuna hennar Ebbu og lét loksins verða af því í gærkvöldi. Þessa pizzu er kjörið að gera í stórum stíl fyrir pizzuveislur því það tekur nákvæmlega enga stund að gera hana. Ég ætlaði að hafa þær tilbúnar þegar Gunnar kæmi úr fimleikunum en endaði á að þurfa að bíða með að geta sett þær í ofninn því þær voru tilbúnar áður en ég vissi af. Okkur þóttu þær mjög góðar þó að botninn hafi verið dálítið þurr. Ætli ég hafi kannski haft of mikinn hita á ofninum? Ég fann nefnilega hvergi á hvaða hita ofninn ætti að vera og tók þá djörfu ákvörðun að nota bara pizzustillinguna á ofninum mínum (220°). Það væri gaman að heyra ef einhver hefur bakað hana hvernig þetta eigi að vera.

Innskot: Nú er búið að upplýsa mig um að ofninn á að vera 180° heitur eins og kemur skýrt fram á heimasíðu Ebbu 🙂

Speltpizza

 • 250 gr spelt (helst grófmalað eða grófmalað og fínmalað til helminga)
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/2 tsk sjávarsalt
 • 1 tsk oregano
 • 2 msk kaldpressuð ólívuolía
 • 130-140 ml heitt vatn

Pizzasósa

 • Lífræn tómatsósa
 • Lífrænt tómatþykkni

Blandið þurrefnunum saman í skál og hellið ólívuolíu og heitu vatni yfir. Hrærið saman í deig og fletjið þunnt út. Uppskriftin dugar á eina ofnplötu. Leggið útflatt deigið á bökunarpappírsklædda ofnplötu og forbakið botninn í 5 mínútur.

Á meðan pizzabotninn er í ofninum passar vel að gera sósuna. Hún er mjög einföld, bara blandað saman tómatsósu og tómatþykkni til helminga.

Þegar botninn er tilbúnn er hann tekinn úr ofninum, sósunni breytt yfir og rifnum mozzarella osti. Það má síðan bæta við því áleggi sem hugurinn girnist. Setjið pizzuna aftur í ofninn í ca 5 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað. Þegar pizzan er tilbúin er salatblöðum dreift yfir hana.

Mexíkósk kjötsúpa

Ég er búin að eiga alveg frábæran matardag í dag. Ég byrjaði daginn á dásamlegu heimabökuðu grófu brauði, í hádeginu fór ég svo með vinkonum mínum á Happ þar sem ég fékk æðislega kjúklingasamloku og í kvöldmat eldaði ég síðan mexíkóska kjötsúpu sem mér þykir svo haustleg.

Þessi súpa er æðisleg á svona kvöldum. Þegar það er dimmt og kalt úti þá þykir mér svo notalegt að sitja inni með súpuskál. Það tekur stutta stund að útbúa hana og hún er mjög fjölskylduvæn. Ég ber hana ýmist fram með nýbökuðu baguette brauði eða nachos flögum.  Í kvöld bar ég hana þó fram með hvítlauksbrauði sem okkur fannst ekki svo galið með.

Ég held að uppskriftin komi upphaflega úr sænskri matreiðslubók sem er ætluð fyrir barnafjölskyldur og heitir Kom in och ät, eða Komið inn og borðið. Ég fann uppskriftina hins vegar í sænsku tímariti sem heitir Family Living þar sem höfundur matreiðslubókarinnar gaf nokkrar uppskriftir, hverri annarri girnilegri.

Mexíkósk kjötsúpa

 • 200 gr nautahakk
 • 1 laukur, fínhakkaður
 • 1 rifið hvítlauksrif
 • 3 msk ólívuolía
 • 2 tsk cummin
 • 2 tsk paprikuduft
 • 1 tsk karrý
 • 1 msk oreganó
 • 3 msk tómatpuré
 • 1 líter kjötkraftur (vatn og 1-2 kjötkraftsteningar, mér þykir gott að nota nauta- og grænmetisteninga)
 • 4 kartöflur, skornar í teninga
 • 1 rauð paprika, fínhökkuð

Steikið lauk og hvítlauk í olíunni og leggið til hliðar. Steikið nautahakk með kryddum og tómatpuré. Bætið laukunum út í ásamt kjötkrafti, kartöflum og papriku. Sjóðið í 30 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma og heitu baguette.

Sítrónusmákökur

Ég hef eytt mörgum kvöldstundum í að skoða uppskriftasíður og -blogg á netinu og hef fundið margar góðar uppskriftir fyrir vikið. Um daginn þegar ég var að ráfa um netið rakst ég á þessa uppskrift af sítrónusmákökum. Það sem vakti forvitni mína var að þær höfðu unnið smákökusamkeppni amerísks tímarits sem ég hef aldrei heyrt nefnt áður, LDS Living. Þar sem ég er bæði veik fyrir sítrónum og hef svo gaman af að nota nýju sítrónupressuna mína þá mátti ég til með að baka þær og sjá hvort þær stæðu undir væntingum.

Það kom mér á óvart hvað kökurnar voru fljótbakaðar og þær voru komnar á borðið áður en ég vissi af. Kökurnar voru bæði ferskar og sætar en samt mildar. Stökkar að utan og seigar að innan. Okkur þóttu þær mjög góðar en sítrónuformkakan hennar Nigellu er þó enn fremst í flokki yfir bestu sítrónuköku sem ég hef bakað.

Sítrónusmákökur

 • 125 gr smjör við stofuhita
 • 200 gr sykur
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 1 egg
 • 1 tsk sítrónuhýði
 • 1 msk ferskur sítrónusafi
 • 1/4 salt
 • 1/4 tsk lyftiduft
 • 1/8 tsk matarsódi
 • 200 gr hveiti
 • 75 gr flórsykur

Hitið ofninn í 175°. Hrærið smjör og sykur saman þar til það verður ljóst og létt. Hrærið vanilludropum, eggi, sítrónuhýði og sítrónusafa út í. Skafið niður með hliðunum og hrærið áfram. Bætið þurrefnunum, fyrir utan flórsykurinn, rólega saman við þar til allt hefur blandast. Ekki hræra lengur en þörf er á.

Hellið flórsykri á disk. Mótið kúlu úr teskeið af deigi (ath. deigið er mjög mjúkt og blautt) og veltið upp úr flórsykri. Leggið kúluna á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Endurtakið með afganginn af deiginu. Bakið í 9-11 mínútur.

Bresk fiskibaka að hætti Gordon Ramsey

Ég fór á bókamarkaðinn í Borgartúninu um daginn og keypti mér matreiðslubók eftir Gordon Ramsey, Eldað um veröld víða. Bókin kostaði rétt undir þúsund krónum og mér sýnist hún hafa verið hin bestu kaup. Það eru margar girnilegar uppskriftir í henni sem verður gaman að prófa.

Á meðan ég beið eftir að Öggi lyki sínum vinnudegi ákvað ég að drepa tímann í einni af fallegustu búðum bæjarins, Pipar og salt. Ég gæti eytt heilu dögunum þar og kem aldrei tómhent þaðan út. Í gær sá ég eldhúsvog sem mér fannst ég þurfa að eignast. Þeir sem hafa séð gömlu eldhúsvogina mína furða sig á að mér takist yfir höfuð að baka. Hún er  eldgömul og ónákvæm og ofan á allt þá skemmdist skálin fyrir rúmu ári síðan. Nýja vogin þykir mér hátæknileg, hún er stafræn og hægt að stilla á milli gramma og punda. Ég er í skýjunum yfir þessum kaupum.

Eftir að við komum heim eldaði ég breska fiskiböku upp úr Gordon Ramsey bókinni. Eftir á að hyggja þá hefði ég varla getað valið verri dag til að elda hana. Við komum seint heim og allir voru orðnir sársvangir. Ofan á allt var Malín með vinkonum sínum á leiðinni í félagsmiðstöðina með glæsilega sælgætisköku sem þær höfðu bakað.

Eins og mér þykir gaman að dunda mér í eldhúsinu þá þykir mér ekkert gaman að elda í svona stressi. Ég held þó að öllum hafi þótt biðin vel þess virði því bakan var stórgóð og fór vel í mannskapinn.

Bresk fiskibaka

 • 1 laukur, afhýddur og skorin í fjórðunga
 • 3-4 negulnaglar
 • 1 lárviðarlauf
 • 250 ml rjómi
 • 250 ml mjólk
 • 400 gr þétt, hvít fiskflök (ég notaði þorsk)
 • 400 gr reykt ýsa
 • 30 gr smjör
 • 2 blaðlaukar, þvegnir og skornir í þunnar sneiðar
 • 30 gr hveiti
 • maldonsalt og svartur pipar
 • lófafylli af saxaðri steinselju
 • 300 gr hrár skelflettar rækjur (ég var ekki með þær)

Þekja

 • 750 gr afhýddar kartöflur
 • 75 gr smjör í bitum
 • 50 ml heit mjólk
 • 2 eggjarauður
 • 75-100 gr rifinn cheddar ostur

Stingið negulnöglum í laukinn og setjið í pott ásamt rjóma, mjólk og lárviðarlaufi. Látið suðuna koma upp og bætið þá hvíta fiskinum og reyktu ýsunni í pottinn. Sjóðið í 3-4 mínútur, fiskurinn þarf ekki að vera soðinn í gegn. Hellið úr pottinum í sigti og geymið vökvann.

Bræðið smjör í potti og steikið blaðlaukinn þar til hann mýkist, um 4-6 mínútur. Bætið hveitinu saman við og hrærið í 2 mínútur. Hellið vökvanum af fiskinum rólega út í og hrærið vel á milli. Látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur og hrærið öðru hverju í pottinum. Kryddið með salti og pipar og bætið steinselju saman við.

Skerið afhýddar kartöflur í bita og setjið í pott með saltvatni. Sjóðið þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og stappið kartöflurnar. Hrærið smjöri og mjólk vel saman við og látið stöppuna kólna aðeins. Hrærið eggjarauðum saman við  og kryddið með salti og pipar.

Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn niður í munnbitastærð og blandið bitunum, ásamt rækjunum, saman við blaðlaukssósuna. Setjið fiskinn og sósuna í eldfast mót og breiðið kartöflustöppunni yfir. Gerið rákir með gaffli yfir kartöflumúsina og stráið rifnum cheddar osti yfir. Bakið í 25-30 mínútur eða þar til sósan í bökunni bullsýður og osturinn er kominn með fallegan lit.

Lasagna með ólívum, smjörsteiktu spínati og fetaosti.

Í gær var veðrið svo gott að við drifum okkur með vinum okkar á Úlfarsfell. Þegar toppnum var náð var komið hífandi rok og þegar niður var komið var byrjað að rigna. Það var því mjög notalegt að koma heim aftur, kveikja á kertum og byrja á kvöldmatnum.

Ég eldaði nýja útgáfu af lasagna sem okkur þótti góð  tilbreyting frá því hefðbundna. Helsti munurinn er að í því eru ólívur, smjörsteikt spínat og fetaostur. Mér þótti ánægjulegt að börnin borðuðu matinn með bestu lyst, þrátt fyrir að vera lítið fyrir ólívur.

Með lasagnanu bar ég fram ferskt salat og síðustu bitana af hvítlauskbrauðinu, sem ég hef notið að eiga í frystinum síðustu vikur.

Lasagna með ólívum, smjörsteiktu spínati og fetaosti.

 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 msk smjör
 • 400 gr nautahakk
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 2 msk tómatpuré
 • 1 kjötkraftsteningur
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 msk dijonsinnep
 • 3 msk hökkuð fersk basilika
 • 1 dl grófhakkaðar ólívur
 • nýmulinn hvítur pipar
 • 300 gr spínat
 • 1 msk smör
 • salt
 • lasagnaplötur

Ostasósa

 • 4 msk hveiti
 • 7 dl mjólk
 • 2 dl rifinn ostur
 • 1 tsk salt

Yfir lasagnað

 • 200 gr fetaostur

Hitið ofninn í 225°.  Steikið fínhakkaðan lauk og pressuð hvítlauksrif í 1 msk af smjöri í ca 3 mínútur. Bætið nautahakki á pönnuna og steikið þar til kjötið hefur brúnast. Hellið hökkuðum tómötum yfir og bætið út í tómatpuré, teningum og sinnepi. Látið sjóða án loks í ca 10 mínútur.Kryddið með basiliku og pipar og blandið ólívum út í.

Steikið spínatið í 1 msk af smjöri þar til vökvinn er farinn. Kryddið með salti.

Hrærið hveitinu saman við smá af mjólkinni þar til blandan verður slétt og kekkjalaus. Bætið restinni af mjólkinni saman við og látið suðuna koma upp. Saltið og sjóðið í ca 5 mínútur og hrærið reglulega í pottinum á meðan. Takið pottinn af hellunni og bætið rifnum osti í hann. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað.

Hellið smá af ostasósunni í botninn á eldföstu móti. Setjið til skiptist lasagnaplötur, kjötsósu, spínat og ostasósu. Endið á lasagnaplötum og ostasósu og dreifið að lokum fetaosti yfir ostasósuna.

Bakið í miðjum ofni í ca 25 mínútur.

Heslihnetuvöfflur með berjakompóti og léttu rjómakremi

Á föstudagskvöldinu var ég að leita að gamalli uppskriftarbók þegar ég rakst á amerískt morgunverðarblað frá Fine Cooking, The best of breakfast. Ég hef áður skrifað um Fine Cooking blöðin en þau hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Ég hef bæði eldað og bakað upp úr þeim og allt hefur verið meiriháttar gott.

Það er meira en ár síðan ég keypti morgunverðarblaðið og ég var búin að gleyma að ég ætti það. Ég lá yfir því allt kvöldið, las uppskriftirnar og bretti upp á hornin á blaðsíðunum. Það er langt síðan ég sá jafn girnilegt matreiðslublað og mig langar að prufa allt í því. Mér þykja uppskriftirnar margar hverjar þó frekar eiga heima á brönsborði en sem morgunverður, eins og til dæmis þessar heslihnetuvöfflur.

Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað okkur þóttu þessar vöfflur góðar. Í berjakompótinu er smá kanill og pínulítið af negul sem fyllti eldhúsið af dásamlegri lykt sem fékk okkur til að hugsa til jólanna. Það eru svo fallegir litir sem koma af berjunum og með hvíta rjómakreminu er þetta jafn fallegt og það er gott.

Helsihnetuvöfflur

 • 2/3 bolli muldar heslihnetur
 • 2 2/3 bollar hveiti
 • 1 msk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 3/4 tsk salt
 • 2 3/4 bollar sítrónumjólk (setjið 1 msk sítrónusafa í bollamál og fyllið restina  af mjólk og látið standa í 5 mínútur = 1 bolli sítrónumjólk)
 • 1/2 bolli grænmetisolía (Vegetable oil)
 • 4 stór egg
 • 1/3 bolli sykur
 • 1 1/2 tsk vanilludropar

Blandið 2 msk af hveiti saman við heslihneturnar og maukið með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið saman í stórri skál muldum heslihnetum, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti. Í annari skál er sítrónumjólk, olíu, eggjum, sykri og vanilludropum hrært vel saman. Notið stóran þeytara eða sleikju til að hræra smátt og smátt vökvanum saman við þurrefnin. Hrærið þar til allt hefur blandast, það er í góðu lagi þó það séu smáir kögglar í deiginu.

Látið deigið standa í að minnsta kosti 20 mínútur við stofuhita eða allt að tvo tíma í ískáp. Það má baka vöfflurnar á venjulegu eða belgísku vöfflujárni.

Góð ráð við vöfflubakstur:

 • Ekki stafla vöfflunum. Til að halda þeim heitum er gott að setja vöfflurnar beint á grindina í 90° heitum ofni.
 • Sýnið þolinmæði – ekki byrja að baka vöfflurnar fyrr en vöfflujárnið er búið að ná réttum hita. Ef vöfflujárnið er ekki með ljós sem gefur til kynna hvort að vöfflujárnið sé tilbúið má finna það út með því að setja nokkra dropa á vatni á það. Ef droparnir krauma á járninu þá er það tilbúið.
 • Smyrjið vöfflujárnið á milli bakstra. Það er til dæmis þæginlegt að nota PAM olíusprey til að spreyja á vöfflujárnið.

Berjakombót

 • 2 tsk maíssterkja
 • 1 msk vatn eða brandý
 • 4 bollar frosin berjablanda, afþýdd
 • 1 bolli sykur
 • fínrifið hýði af 1 sítrónu
 • 1/4 tsk kanil
 • 1/4 tsk blanda af kanil og negul

Hrærið saman maíssterkju og vatni eða brandý. Setjið þýðin berin ásamt vökvanum af þeim í pott með sykrinum, sítrónuhýðinu og kryddunum. Hrærið í pottinum og hitið við miðlungsháan hita þar til suðan kemur upp. Hrærið þá maíssterkjunni úthrærði í vatn eða brandý út í pottinn og látið sjóða í 1 mínútu. Takið pottinn af hitanum, vökvinn heldur áfram að þykkna þegar blandan kólnar. Berið berjakombótið fram heitt eða við stofuhita.

Létt rjómakrem

 • 1/2 bolli sýrður rjómi
 • 3 msk sykur
 • 1 bolli kaldur rjómi

Hrærið sýrðum rjóma saman við sykur þar til blandan er mjúk. Þeytið rjómann í sér skál þar til hann byrjar að mynda toppa. Passið að þeyta hann ekki of mikið, rjóminn á að halda formi þegar þeytaranum er lyft frá en ekki vera stífþeyttur. Notið sleikju til að hræra fyrst helmingnum af þeytta rjómanum saman við sýrða rjómann og bætið síðan restinni af rjómanum við. Hrærið með sleikjunni þar til allt hefur blandast vel.