Milljón dollara spaghetti

Ég get ekki á mér setið og hreinlega verð að þakka allar heimsóknirnar sem matarbloggið mitt hefur fengið. Síðan ég byrjaði að blogga í sumar hafa þær aukist jafnt og þétt og í síðasta mánuði voru heimsóknirnar rétt um 95.000! Mér þykir svo ofboðslega vænt um að svona margir skuli hafa áhuga á að fylgjast með litla blogginu mínu. Öll kommentin, like-in á Facebooksíðunni og tölvupóstarnir sem ég hef fengið, ég á ekki orð til að lýsa því hvað þetta gleður mig mikið. Kveðjurnar hlýja mér út veturinn og vel það. Þúsund þakkir og knús til ykkar allra.

Ég eldaði um daginn rétt sem allir elska, milljón dollara spaghetti. Uppskriftin er amerísk og er góð eftir því. Ég veit ekki hvaðan rétturinn fékk þetta stórfenglega nafn en hann er bæði fjölskylduvænn og góður.

Milljón dollara spaghetti

  • 450 gr nautahakk (eða 1 bakki)
  • 1 dós pastasósa
  • 225 gr rjómaostur
  • 1/4 bolli sýrður rjómi
  • 225 gr kotasæla
  • 110 gr smjör
  • 225 gr spaghetti
  • rifinn cheddar ostur

Hitið ofninn í 180°. Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu. Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og kotasælu þar til það hefur blandast mjög vel. Steikið nautahakkið á pönnu og kryddið eftir smekk. Hellið vökvanum frá og brúnið hakkið vel. Hellið pastasósu yfir og látið sjóða við vægan hita í smá stund.

Leggið smjörklípur í botninn á eldföstu móti (ef smjörið er kallt er gott að nota ostaskera í verkið). Setjið helminginn af spaghettíinu í botninn á eldfasta mótinu. Hellið rjómaostablöndunni yfir spaghettíið og dreifið vel úr henni. Setjið afganginn af spaghettíinu yfir rjómaostablönduna, leggið nokkrar smjörklípur yfir og endið á að hella hakksósunni yfir spaghettíið.  Dreifið vel úr hakksósunni og bakið í 30 mínútur. Eftir 30 mínútur er rétturinn tekinn úr ofninum og rifnum cheddar osti dreift yfir. Setjið réttinn aftur í ofninn í 15 mínútur.

Ein athugasemd á “Milljón dollara spaghetti

  1. Þetta lítur hrikalega vel út. Þarf að prufa þetta fljótlega.
    Er annars ekkert hissa á viðbrögðunum sem þú færð mín kæra. Þetta er allt svo lekkert og ljúft hjá þér 😉

  2. Ekkert smá girnó 😉 Er að spá í að hafa þetta annaðkvöld 😉 Ein spurning, seturðu líka smjörklípur á spaghettíð sem er ofan á rjómaostablöndunni ?

  3. Ég skil sko vel þessar frábæru viðtökur sem bloggið hefur fengið elsku Svava!
    Er að spá í að leggja í þennan rétt í kvöld. Lítur gífurlega vel út ;0). Knús frá Svíden Luv B

  4. Hæ.
    Hef aldrei prófað að nota cheddar ost, nota yfirleitt gratínost eða ísbúa t.d. ofan á lasagna, hvað er það við þennan ost sem gerir hann hentugan ofan á þennan rétt?

  5. Prófaði þennan rétt sem var mjög vinsæll á heimilinu, hugsa að ég minnki aðeins smjöroskakotasælusýrðurrjómi – blönduna næst, en verður pottþétt eldað aftur. Cheddar osturinn kom skemmtilega út, hafði aldrei notað hann áður, gefur extra gott og sérstakt bragð.

  6. takk fyrir frábæra uppskrift, barnabörnin mjög hrifin, ég er búin að elda þó nokkuð
    eftir uppskrifunum þínum allt mjög gott, takk fyrir.

  7. Sæl Svava,

    Ég prufaði þennan rétt í gærkvöld, bauð mömmu og pabba í mat og þau urðu stórhrifin og strákarnir mínir tveir líka.
    Einfaldur og fljótlegur og rosa góður.
    Ég kíki á síðuna á hverjum degi og fylgist spennt með hvort það komi eitthvað nýtt inn sem ég get prufað. 🙂

    1. Gaman að heyra að rétturinn hafi vakið lukku. Mér þykir hann svo fjölskylduvænn og virðist falla í kramið hjá öllum aldri. Að þú kíkir hingað inn á hverjum degi hlýjar mér. Takk ♥

  8. Ég prófaði þessa um daginn. Maðurinn minn er ekkert sélega hrifin af pasta en þessi réttur sló svakalega í geng sem er frábært því ég er mikið fyrir pastarétti ! þessu á eftir að vera oft eldaður aftur !

  9. Ég er að gera þetta núna í 3ja skipti og elska það 🙂 En ég reyndar tók mig til og betrumbætti það aðeins…. Ég hræri púrrulaukssúpudufti út í kotasælu/rjómaostahræruna… Það er GEGGJAÐ gott og gerir réttinn bara betri 🙂

  10. Vinsælasti rétturinn þegar að fjöldsk kemur saman, takk fyrir allar uppskriftirnar, nota mjög mikið þetta blogg 🙂

  11. Eldaði þennan í gær og hann sló alveg í gegn. Takk fyrir þessar góðu uppskriftir. Nota síðuna þína mikið en hef ekki látið heyra í mér fyrr.

  12. Takk fyrir frábæra síðu,búin að prufa nokkrar uppskriftir, sem voru allar góðar. Núna var ég að gera þessa sem er alveg „million“ .En var í vandræðum með pastasósuna,það er hægt að fá svo margar stærðir af krukkum og dósum að maður fær valkvíða!! Hvð er ca. mikið magn sem á að nota í þennan góða rétt ??

    KV. Eva G

  13. Þessi réttur er algjör dásemd, ég eldaði hann fyrir 30 stælta stráka í hádegismat og þeir voru meira en sáttir með matinn og spyrja hvenær ég ætli að hafa milljónamatinn aftur 🙂🙃

  14. Lítur vel út!! Ætli sé hægt að gera þetta af freezer meal 😛 ? frysta í álbökkum og henda svo inní ofn þegar þörf er á =)

Skildu eftir svar við Helga Hætta við svar