Árið sem leið…

Áramót

Eins og hefð er fyrir þá eyði ég síðasta degi ársins í eldhúsinu og ég myndi ekki vilja eyða honum öðruvísi. Við eigum von á góðum gestum í mat í kvöld og eins og önnur gamlárskvöld ætlum við að bjóða upp á kalkún með tilheyrandi meðlæti. Mér þykir alltaf jafn gaman að elda kalkún og dunda mér við að útbúa meðlætið. Síðan hef ég alltaf tvenna eftirrétti á þessu síðasta kvöldi ársins og í ár gerði ég ísböku með bourbon-karamellusósu og marensrúllu með ástaraldin.

Áramót

Eitt af því sem mér þykir standa upp úr þegar ég lít yfir liðið ár er þetta blogg mitt sem mér þykir orðið svo vænt um. Bloggið hefur fært mér svo margar gleðistundir og skemmtileg verkefni. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu margar heimsóknir og mikla athygli það hefur fengið. Á hálfu ári hefur Ljúfmeti og lekkerheit fengið 4 heilsíður í Morgunblaðinu, 3 heilsíður í Gestgjafanum, heilsíðu í Fréttablaðinu auk þess að hafa fengið nokkrar minni umfjallanir í öllum þessum blöðum. Ég man þegar ég fékk 46 heimsóknir á fyrstu dögunum og furðaði mig á hve margir væru að lesa bloggið. Í dag skipta heimsóknirnar þúsundum á hverjum degi og mig sundlar af tilhugsuninni einni saman. Ég náði ekki að blogga eins reglulega og ég vildi í desember og fann hvað ég saknaði þess. Núna horfi ég fram á betri bloggtíð og fer full tilhlökkunar inn í nýja árið.

Ég vil frá dýpstu hjartarótum þakka ykkur fyrir árið sem er að líða, öll fallegu og hlýju kommentin og tölvupóstana sem ég hef fengið og hafa glatt mig meira en orð fá lýst. Mér finnst ég hafa eignast fullt af nýjum vinum og er þakklát fyrir að þið lesið bloggið mitt. Ég óska ykkur gleðilegs árs og vona að nýja árið færi ykkur stóra drauma og lítið mótlæti, mörg hlátursköst og fá tár, mikla gleði, litlar áhyggjur, og fullt af ljúfmeti.

Áramót

Vinsælustu uppskriftir ársins

Áramót

Nú þegar líður að áramótum þykir mér áhugavert að líta yfir bloggárið og skoða hvaða færslur hafa verið vinsælastar á líðandi ári. Helst hefði ég viljað raða í sætin eftir fallegustu myndunum og eigin smekk en það væri þó hálfgert svindl. Þar að auki hefði það varla verið vinnandi vegur fyrir mig að velja á milli uppskrifta. Ég verð þó að segja að ég sakna þess að sjá ekkert brauð á listanum því þau eru mörg í miklu uppáhaldi hjá mér og það sem ég baka hvað oftast.

Það vekur athygli mína að það er engin nýleg færsla á listanum sem fær mig til að efast um hversu marktækur hann sé. Það er hins vegar gaman að rifja þessar uppskriftir upp og ætla því að láta vaða og birta hér lista yfir 10 vinsælustu uppskriftirnar á þessu fyrsta bloggári mínu.

Milljón dollara spaghetti

Það kemur mér ekki á óvart að Milljón dollara spaghettíið vermi toppsætið yfir vinsælustu uppskriftir ársins hér á blogginu. Þessi réttur er mjög fjölskylduvænn og æðislega góður. Ef þið hafið ekki eldað þennan rétt þá mæli ég með að þið látið verða að því.

Mjúk kanilsnúðakaka

Í öðru sæti yfir vinsælustu uppskriftir ársins er mjúka kanilsnúðakakan. Þessi kaka er frábær með kaffinu, lungamjúk og dásamleg. Hún endist aldrei lengi á borðinu og klárast alltaf á svipstundu.

Mexíkósúpa

Þriðja vinsælasta uppskriftin er mexíkósk kjúklingasúpa. Ég hef eldað þessa súpu oftar en eðlilegt getur talist, enda er hún bæði einföld og góð. Krakkarnir elska hana en ég er hrifnari af kjúklingasúpunni með ferskjunum. Hún er 11 vinsælasta uppskriftin á blogginu og náði því ekki á topp 10 listann.

Grískur ofnréttur

Í fjórða sæti er grískur ofnréttur. Hér er annar réttur sem ég mæli svo sannarlega með að þið prófið. Ég hef eldað hann bæði fyrir matarboð og saumaklúbba og hann vekur alltaf lukku. Mér þykir þessi réttur svo æðislega góður og svo sannarlega eiga heima ofarlega á vinsældarlistanum.

Mexíkósk kjúklingabaka

Mexíkóska kjúklingabakan er í fimmta sæti á listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar. Hún er algjört æði og ég er ánægð með að hún sé á topp fimm listanum.

Tacobaka

Í sjötta sæti er tacobakan. Líkt og mexíkóska kjúklingabakan finnst mér hún vera frábær föstudagsmatur og áður en ég byrjaði að blogga hafði ég gefið mörgum þessar tvær böku-uppskriftir eftir að hafa boðið upp á þær.  Ég ber báðar þessar bökur fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma og helst salsa sósu og guacamole. Þetta klikkar aldrei.

Kjúklingur í mildri chilisósu með krumpuðum kartöflum

Í sjöunda sæti er kjúklingur í mildri chili-rjómasósu með krumpuðum kartöflum. Bragðgott og ljúffengt.

Grjónagrautur

Ofnbakaður grjónagrautur er í áttunda sæti. Ég ætlaði varla að trúa því að grjónagrautur næði inn á topplistann og viðurkenni fúslega að mér þykir hann ekki eiga heima þar. Að baka grjónagrautinn í ofni þykir mér hins vegar langbesta eldunaraðferðin að það eitt og sér þykir mér réttlæta sætið.

Súkkulaði- og bananabaka með rjóma

Í níunda sæti er súkkulaði- og bananabaka með rjóma. Mér þykir þessi baka svo stórkostlega góð og hefði viljað sjá hana ofar á lista. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er eflaust búin að bjóða öllum sem ég þekki upp á hana. Klárlega uppskrift sem engin má láta framhjá sér fara.

Silvíukaka

Síðast en ekki síst er Silvíukakan. Þessi kaka er mjög vinsæl hér á heimilinu og ég baka hana oft með kaffinu. Það tekur enga stund að gera hana og hráefnið er alltaf til í skápunum.

Ég get þó ekki endað færsluna án þess að minnast á kjúklingabökuna með sweet chili (sem er nýtt uppáhald hjá okkur), uppáhalds brauðið okkar Ögga sem við virðumst ekki ætla að fá leið á, orange chicken sem er svo sjúklega gott, spaghetti bolognese sem ég get borðað í hvert mál og granóla með pekanhnetum sem er hrein dásemd út á ab-mjólkina.

Að lokum vill Öggi fá að mæla með hnetusmjörskökunni sem hann getur ekki hætt að hugsa um og biður mig um að baka við hvert tækifæri sem gefst.

 

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég lofaði í gær að setja inn uppskrift að þessari dásamlegu böku sem ég bauð upp á í afmælisveislu strákanna í dag. Þetta er ein af þeim uppskriftum sem mér þykir mikill fjársjóður að eiga. Ekki bara er einfalt að útbúa bökuna og hægt að gera hana með góðum fyrirvara heldur er hún líka alveg stórkostlega góð.

Við héldum afmælisveislu strákana í dag og þeir vildu bjóða fjölskyldunni í súpu og kökur í hádeginu. Það kom mér ekki á óvart að þeir vildu hafa  Mexíkóska kjúklingasúpu því hún er í miklu uppáhaldi hjá þeim. Í eftirrétt vildu þeir fá að skreyta venjulega skúffuköku og síðan bakaði ég silvíuköku, möndluköku og síðast en ekki síst þessa frosnu bismarkböku með marshmellowkremi.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég hef bakað þessa frosnu bismarkböku nokkrum sinnum áður og hún slær alltaf í gegn. Í fyrra vorum við með hana í eftirrétt um áramótin sem vakti mikla lukku. Bakan er sæt en jafnframt fersk og passar því vel eftir mikla máltíð. Þar að auki þykir mér frábært að vera með eftirrétt sem hægt er að útbúa með góðum fyrirvara þegar mikið stendur til í eldhúsinu, eins og svo oft vill vera um áramótin.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ef þið eruð að leita að eftirrétti fyrir áramótin þá er þessi kaka mín tillaga. Það má gera hana strax í dag og geyma í frystinum þar til hún verður borin fram. Uppskriftin kemur úr sænskri matreiðslubók, Vinterns söta.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Botn:

 • 20 súkkulaðikexkökur, t.d. Maryland
 • 2 msk kakó
 • 25 g brætt smjör

Bismarkkrem

 • 5 dl rjómi
 • 1 dós marshmalowkrem (fæst t.d. í Hagkaup, sjá mynd)
 • Nokkrir dropar af piparmintudropum
 • nokkrir dropar af rauðum matarlit
 • 1 dl bismarkbrjóstyskur + nokkrir til skrauts

Súkkulaðisósa:

 • 125 g dökkt súkkulaði
 • 75 g smjör
 • ½ dl sykur
 • ½ dl sýróp
 • ½ dl vatn
 • smá salt

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Setjið kex, kakó og brætt smjör í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið blöndunni í smelluform með lausum botni (það getur verið gott að klæða það fyrst með smjörpappír) og setjið í frysti.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Þeytið rjómann og blandið marshmallowkreminu varlega saman við. Passið að hræra marshmallowkreminu ekki of vel saman við rjómann, það á að vera í litlum klessum í rjómanum. Hrærið nokkrum dropum af piparmintudropum saman við (smakkið til, mér þykir passlegt að nota ca 1 tsk.).  Setjið um þriðjung af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Myljið bismarkbrjóstsykurinn í mortéli og blandið honum saman við stærri hluta kremsins. Takið kökubotninn úr frystinum og breiðið kreminu með bismarkbrjóstsykrinum yfir hann.  Hrærið nokkrum dropum af rauðum matarlit saman við kremið sem var lagt til hliðar og breiðið það yfir hvíta bismarkkremið. Notið hníf til að mynda óreglulega áferð í kremið.

Frystið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkutíma. Takið hana úr frystinum 10-15 mínútum áður en það á að bera hana fram. Skreytið með bismarkbrjóstsykri.

Setjið öll hráefnin í súkkulaðisósuna í pott. Látið suðuna koma upp við vægan hita og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur eða þar til sósan er orðin þykk og glansandi.

Berið sósuna fram heita eða kalda með kökunni.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Í dag er engin venjulegur dagur því hér fögnum við stórafmæli. Það er ótrúlegt að liðin séu 10 ár síðan við Öggi keyrðum snemma morguns á fæðingadeildina í Uppsölum. Ég man að við stoppuðum á ljósum á leiðinni og mér var litið á bílana í kringum okkur og sagði við Ögga; „Hugsa sér, hér er allt þetta fólk á leið til vinnu en við erum að fara að eignast tvö börn“. Lítið vissum við hvað biði okkar og hversu óendanlega mikla gleði þessir bræður ættu eftir að færa okkur.

Við fögnuðum deginum að ósk afmælisbarnanna á Hamborgarafabrikunni. Um helgina verður afmælisboð og þeir hafa beðið um að hafa mexíkóska kjúklingasúpu og kökur í eftirrétt.

Desembermánður hefur verið sá annasamasti sem ég man eftir og mér finnst ég varla hafa gert neitt af viti í eldhúsinu. Ég eldaði þó æðislegan kjúklingarétt um daginn sem ég átti eftir að setja inn. Þessi réttur sló í gegn á heimilinu og við mælum heilshugar með honum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

 • 600 g kjúklingabringur (eða úrbeinað kjúklingalæri)
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 75 g marineraðir sólþurrkaðir tómatar + 1 tsk olía
 • 1 tsk salt + 3/4 tsk salt
 • ferskmalaður pipar
 • 1 lítill púrrulaukur
 • 1 msk + 1 msk olía
 • 1 dl vatn

Hitið ofninn í 200°. Mixið sýrðum rjóma, sólþurrkuðum tómötum og 1 tsk af olíunni af tómötunum saman með töfrasprota. Kryddið með 1 tsk salti og nokkrum snúningum úr piparkvörninni. Fletjið bringurnar út (ef þær eru mjög þykkar getur verið gott að kljúfa þær) og setjið 1/3 af tómatamaukinu á þær. Rúllið bringunum upp og festið með tannstöngli. Kryddið með 3/4 tsk salti og smá pipar og brúnið á pönnu í 1 msk af olíu  þannig að bringurnar fái fallegan lit. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í ofninn í ca 10 mínútur.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er sósan útbúin. Hreinsið púrrulaukinn, kljúfið hann og skerið í þunnar sneiðar. Steikið púrrulaukinn í 1 msk af olíu í ca 3 mínútur. Bætið því sem eftir var af tómatmaukinu á pönnuna ásamt vatni og látið sjóða saman í ca 1 mínútu.  Takið kjúklinginn úr ofninum og hellið sósunni yfir hann. Setjið aftur í ofninn þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, eða ca 10 mínútur.

Berið kjúklinginn fram með pasta og ruccola eða spínati.

Ofnbakaður kjúklingur með sólþurrkuðum tómötum

Bismark ís

Bismark ísGleðileg jól kæru lesendur. Ég vona að þið hafið átt góð jól með góðum mat og í góðum félagsskap.

Síðustu dagar fyrir jól voru ekki verið eins og við hefðum kosið þar sem Gunnar veiktist og  hefur legið fárveikur síðan á fimmtudag. Ekki það skemmtilegasta rétt fyrir jól. Í morgun vaknaði hann þó öllu hressari, enda búinn að vera á sýklalyfjum í fjóra daga og fyrir löngu kominn með nóg af ástandinu.

Hefðinni samkvæmt var möndlugrauturinn í hádeginu á aðfangadag. Gunnar var lystarlaus og fékk tvær skeiðar af grautnum á diskinn sinn, bara til að vera með. Heppnin var þó með honum og hann fékk möndluna. Mér fannst hún ekki geta farið á betri stað.

Bismark ís

Á Þorláksmessukvöldi setti Öggi upp nýtt ljós í borðstofunni. Mig hefur lengi langað í þetta ljós eftir danska arkitektinn Simon Karkov og mamma ákvað að gefa okkur það í jólagjöf. Það sem ég hafði hins vegar ekki áttað mig á er að ljósið kemur í 69 bútum sem þarf að pússla saman. Það má því segja að ljósið Norm 69 hafi verið jólapússlið í ár og líkt og önnur jól þá gat ég ekki hætt að pússla fyrr en því var lokið.

Bismark ís

Ég átti afmæli tveimur dögum fyrir jól og fékk svo ótrúlega fallegar gjafir. Meðal annars bættist í Marimekkoskálasafnið mitt frá Ittala, mamma gaf mér rauðu skálina og Svanhvít systir hvítu frostuðu skálina. Mér þykja þessar skálar svo æðislega fallegar og setti strax sörur og kókostoppa í þær. Ég verð að muna að setja inn uppskriftina að kókostoppunum því þeir eru æði!

Bismark ís

Enn fleiri Ittala vörur komu síðan úr jólapökkunum. Malín var svo sæt og var búin að kaupa handa okkur Kivi-stjaka. Ég átti nokkra stjaka fyrir og þessi fellur vel inn í safnið. Þess að auki fengum við tvenna túrkislitaða Kastehelmi stjaka og eina skál, bæði líka frá Ittala.

Bismark ís

Strákarnir voru búnir að útbúa æðislegar gjafir handa öllum. Jakob saumaði svuntu handa mér og sat eftir síðasta daginn í skólanum til að klára hana. Hann ætlaði að bródera Ljúfmeti og lekkerheit á hana en náði því ekki. Gunnar smíðaði skeið handa mér og brenndi í hana mamma á skaftið. Þeir bræddu mömmuhjartað með þessum gjöfum, litu karlarnir mínir. Öggi fékk skurðbretti frá Gunnari og kertastjaka frá Jakobi sem hann hafði skrifað Nolli undir, því honum þótti það nafn passa músinni svo vel.

Bismark ís

Gjöfin sem kom mér þó mest á óvart kom frá Ögga og krökkunum, nýr Iphone. Ég er heimsins versti símanotandi, týni símanum oft á dag og heyri aldrei í honum þegar hann hringir. Fjölskyldan bindur miklar vonir við breytta tíma með þessum glansandi flotta hvíta síma og ég hef þegar lofað að passa vel upp á hann. Full af spennu og tilhlökkun ákváðum við svo að koma honum í gang strax um kvöldið. Það fór þó svo að þegar Öggi ætlaði að setja hann upp fyrir mig þá passaði gamla simkortið ekki í hann. Eftir að hafa leitað ráða á netinu ákváðum við að sníða það til eftir kortinu úr símanum hans Ögga og láta síðan Global-hnífinn skera simkortið mitt til. Þetta fór þó ekki betur en svo að nú virka hvorugt kortið og við hjónin því bæði símalaus þar til verslanir opna á fimmtudaginn.

Bismark ís

Núna er víst ekki lengur til setunnar boðið þar sem við erum á leiðinni í jólaboð. Ég ætla að enda þetta ruglingslega innlegg með uppskrift að ís sem mér þykir bæði jólalegur og góður.

Bismark ís

 • 3 dl rjómi
 • 3 eggjarauður
 • 1 msk vanillusykur
 • 3 msk flórsykur
 • 2 dl mulinn bismarkbrjóstsykur

Skraut

 • grófmulinn bismarkbrjóstsykur

Myljið bismarkbrjóstsykurinn í smáa bita.

Hrærið eggjarauður og flórsykur saman í skál þar til blandan verður ljós og létt.

Stífþeytið rjóma og vanillusykur í annari skál. Hrærið stífþeyttum rjómanum saman við eggjarauðublönduna með sleif og bætið bismarkbrjóstsykrinum út í.

Setjið blönduna í form og frystið í amk 5 klst áður en ísinn er borinn fram. Skreytið með grófmuldum bismarkbrjóstsykri.

Bismark ís

Rocky Road

Rocky road

Ég hef aldrei verið mikið fyrir konfekt og geri sjaldan ef nokkurn tímann konfekt fyrir jólin. Ég hef þó alltaf verið mikill sælgætisgrís og það eru fáir sem komast með tærnar þar sem ég hef hælana í þeim efnum.

Rocky Road

Sú hefð hefur myndast á síðustu árum að ég geri „Rocky Road“ fyrir jólin og því kallast það einfaldlega jólanammið hér á bæ. Okkur þykir það betra en orð fá lýst og þegar líður að jólum er beðið með eftirvæntingu eftir að ég hefjist handa.

Rocky Road

Það er mjög einfalt og tekur ekki nokkra stund að töfra þessa dásemd fram. Dumle karamellur, sykurpúðar, salthnetur, pistasíukjarnar og gott súkkulaði. Þetta getur ekki klikkað. Setjið molana í fallega glerkrukku og gefið ástvinum til að njóta yfir jólin.

Rocky Road

Rocky Road

 • 600 g dökkt súkkulaði (veljið það súkkulaði sem ykkur þykir gott)
 • 2 pokar Dumle karamellur (skornar í tvennt)
 • 2 lófafylli litlir sykurpúðar (ef það eru notaðir stórir þá eru þeir klipptir niður)
 • 140 g salthnetur
 • 70 g pistasíukjarnar

Skerið Dumle karamellurnar í tvennt og setjið í skál ásamt sykurpúðum og salthnetum. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið aðeins. Bætið súkkulaðinu í skálina og blandið öllu vel saman.

Setjið smjörpappír í skúffukökumót og hellið blöndunni yfir. Dreifið úr henni þannig að hún verði um 3 sm þykk. Stráið pistasíukjörnum yfir og látið kólna. Skerið í bita og njótið.

Kjúklingabaka með sweet chili

Kjúklingabaka með sweet chili

Borðstofuborðið hefur verið undirlagt af jólapappír, skrautmiðum og borðum um helgina og hefur einna helst minnt á verkstæði jólasveinsins. Á bak við aðventustjakann má sjá glitta í hluta af jólagjöfum sem var pakkað inn og bíða nú eftir að rata í réttar hendur.

Eins og ég vona að einhverjir hafi tekið eftir þá er komin ný forsíðumynd hér efst á blogginu. Fjölskyldan hefur síðustu mánuðina verið að benda mér á að sumarlega myndin af skúffukökunni og kaffibollanum í grasinu hafi sungið sitt síðasta og núna fór ég loksins í það að skipta henni út. Ég er mjög ánægð með útkomuna og vona að þið séuð það líka. Eina af myndunum tók ég einmitt í gær þegar ég gerði botninn í bökuna sem við vorum með í kvöldmat.

Kjúklingabaka með sweet chili

Þessi baka er æðislega góð og með góðu salati er hún fullkomin máltíð. Ekta helgarmatur sem passaði vel á laugardagskvöldi. Klárlega ein af uppáhalds bökunum.

Kjúklingabaka með sweet chili

Bökuskel:

 • 5 dl hveiti
 • 250 g kalt smjör, skorið í teninga
 • 1 tsk salt
 • 3-4 msk kalt vatn

Fylling:

 • 3 kjúklingabringur
 • 5 dl sýrður rjómi
 • 3 tsk sambal oelek
 • 1/2 appelsínugul paprika
 • 2 skarlottulaukar
 • 1 dl sweet chili sósa
 • salt
 • 2-3 msk maizena
 • mozzarella ostur

Vinnið hráefnin í skelina saman í deig og þrýstið í botninn og upp kantana á bökuformi. Setjið í ískáp á meðan fyllingin er gerð.

Skerið kjúklingabringurnar í smáa bita og steikið á pönnu. Þegar kjúklingurinn er steiktur er hökkuðum lauk og papriku bætt á pönnuna og steikt þar til orðið mjúkt. Hrærið sýrðum rjóma, chilisósu og sambal oelek saman við og látið suðuna koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur og smakkið til með salti. Þykkið með maizena.

Setjið fyllinguna í bökuskelina og bakið við 200° í 30 mínútur. Takið þá bökuna úr ofninum, stráið rifnum mozzarella yfir og setjið aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar.

Kjúklingabaka með sweet chili

Sörur

Sörur

Mér þykja sörurnar vera ómissandi á aðventunni, rétt eins og saffransnúðarnir, og það kæmi ekki til greina að láta aðventuna líða án þeirra. Það jafnast ekkert á við að setjast niður með krökkunum eftir vinnu með heitan saffransnúð og á kvöldin með Ögga og sörurboxinu. Þetta er desemberdekur sem er mér kært og ég mun halda í.

Það tók mig þó nokkurn tíma að finna góða uppskrift að sörum og þegar mér fannst ég vera komin með réttu uppskriftina þá skrifaði ég hana inn í eina af uppskriftarbókum mínum og kallaði þær Svövur. Það var gert í gríni en nafnið hefur haldist við þær hér á bæ, mér til mikils heiðurs. Ég á þó ekkert í uppskriftinni heldur einfaldlega valdi hana úr hópi uppskrifta sem ég hafði sankað að mér.

Sörur

Ég veit að þetta eru ekki fljótbökuðustu smákökurnar en tíminn sem fer í þær er hverrar mínútu virði og vel það. Ég hef lagt það í vana minn að baka botnana deginum áður en ég set kremið og hjúpinn á. Fljótlegast er að setja kremið í sprautupoka og sprauta því beint á botnana og fallegastar verða þær með því að nota teskeið til að dreifa úr kreminu þannig að það sé þykkast í miðjunni og þynnist út að köntunum. Ég vil hafa sörurnar þannig að kremið í miðjunni sé ekki þynnra en botninn. Síðan nota ég Nóa-Síríus súkkulaði til að hjúpa þær með því mér þykir það svo gott. Það má þó vel nota hvaða súkkulaði sem er, t.d. bragðbætt súkkulaði eins og appelsínusúkkulaði.

Sörur

 • 200 g möndlur
 • 180 g flórsykur
 • 3 eggjahvítur
 • salt á hnífsoddi

Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Bakið í ca 12 mínútur.

Sörur

Krem

 • 5-6 msk sýróp (velgt)
 • 6 eggjarauður
 • 300 g smjör
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk kaffiduft (instant kaffi sem ég myl fínt í mortéli)

Velgjið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.

Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kanntana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.

Sörur

Hjúpur

 • 400 g suðusúkkulaði

Sörur

Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.

Einfalt fiskgratín með sveppum

Fiskgratín með sveppum

Þó að mig langi allra mest að setja inn uppskriftina að sörunum sem ég baka alltaf fyrir aðventuna eða góðu kókostoppunum sem ég bakaði um helgina þá sé ég hag minn vænstan í því að gefa frekar uppskrift að þessum fiskirétti. Ástæðan er sú að ég er farin að hræðast að lesendur haldi að við borðum fátt annað en smákökur og sætindi þessa dagana og kippist orðið við í hvert skipti sem síminn hringir af hræðslu við að Lýðheilsustöð sé að hringja til að lesa yfir mér.

Svo ég eldaði fisk. Einfalt og mjög gott fiskgratín sem öllum líkaði vel. Mér brá þó heldur í brún þegar ég sá myndirnar sem ég tók því þær voru svo hræðilega ljótar. Sveppirnir líta út eins og nautahakksklessur og nánast ómöglegt að átta sig á að þarna sé fiskgratín á ferð. Þið takið vonandi viljann fyrir verkið og trúið mér þegar ég segi að rétturinn var svo mikið betri en myndirnar gefa til kynna.  Okkur þótti hann stórgóður og ég ætla að elda hann fljótlega aftur.

Fiskgratín með sveppum

Einfalt fiskgratín með sveppum

 • 700 g þorskur eða ýsa
 • 1 tsk + ½ tsk salt
 • 250 g sveppir
 • 2 msk bragðdauf olía
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 dl rjómi
 • ½ – 1 msk maizena
 • ½ – 1 grænmetisteningur
 • 1 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Saltið fiskinn með 1 tsk af salti og leggið hann i eldfast mót. Skerið sveppina í sneiðar og steikið í olíu í um 5 mínútur. Skalið og fínhakkið hvítlaukinn og steikið hann með sveppunum síðustu 2 mínúturnar. Kryddið með ½ tsk af salti og hellið rjóma saman við. Látið sjóða í 2 mínútur og bætið þá maizenasterkju í sósuna. Setjið grænmetiskraft út í og látið sjóða um stund. Hellið sveppasósunni yfir fiskinn, stráið rifnum osti yfir og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.

Saffransnúðar með marsípani

Saffransnúðar með marsípani

Í gær tendruðum við annað aðventuljós, Betlehemljósið, og í dag eru bara tvær vikur til jóla. Ótrúlegt hvað þessar vikur líða hratt. Mér finnst ég ekki enn hafa náð að skreyta almennilega en það stendur þó til bóta í vikunni.

Ég man varla eftir jafn annasamri og skemmtilegri viku eins og þeirri sem leið. Eftir saumaklúbba og gönguhóp fyrripart vikunnar fór ég á jólahlaðborð á Kolabrautinni á föstudagskvöldinu og á Frostrósartónleikana á laugardagskvöldinu. Við Öggi vorum sérlega spennt fyrir tónleikunum því við buðum Malínu með okkur en það hefur lengi verið draumur hjá henni að fara á Frostrósartónleika.  Hún var að vonum glöð þegar við sögðum henni að við værum að fara og það var ekki annað hægt en að smitast af upplifun hennar á tónleikunum. Í vikunni ætlum við Öggi enn og aftur í Hörpu og þá á jólatónleika KK og Ellenar. Þau hafa lengi verið í uppáhaldi og jóladiskurinn þeirra hljómar hér allan desembermánuð. Ég get því varla beðið.

Saffransnúðar með marsípani

Öggi kom mér á óvart með annarri aðventugjöf. Núna gaf hann mér æðislega bók, stútfulla af girnilegum súkkulaðiuppskriftum. Við Malín erum búnar að liggja yfir bókinni, flett síðunum fram og til baka og okkur langar í allt sem í henni er. Kannski jólagjafahugmynd fyrir sælkera?

Ég endaði vikuna á því að baka jólasnúðana okkar og hef aldrei áður verið jafn sein í því.  Ég hef bakað þessa snúða í mörg ár og hef þá alltaf tilbúna fyrir aðventuna. Þeir eru með því besta sem við fáum og það var því mikil gleði á heimilinu þegar ilmurinn af þeim fór að berast um húsið.

Saffransnúðar með marsípani

Uppskriftin hefur verið í fórum mínum síðan á Svíþjóðarárum okkar. Ég man að það var engin önnur en Charlotte Perelli, sænska söngkonan sem sigraði Eurovision 1999 við lítinn fögnuð íslendinga, sem gaf þessa uppskrift. Ég er eflaust ein af fáum íslenskum aðdáendum hennar og þykir jólaplatan hennar, Rimfrostjul, með þeim fallegri sem ég veit um.

Uppskriftin er mjög stór og ég frysti snúðana alltaf um leið og þeir koma úr ofninum. Það jafnast fátt við að hita sér snúð með kaffinu á aðventunni og þó uppskriftin sé stór þá klárast snúðarnir alltaf fyrir jól.

Saffransnúðar með marsípani

Saffransnúðar með marsípani

 • 300 g smjör
 • 1 líter mjólk
 • 2 pokar þurrger
 • 2 dl sykur
 • 1 tsk salt
 • 2,2-2,5 lítrar hveiti (ég mæli það aldrei heldur nota bara eins mikið og mér þykir þurfa)
 • 1 g saffran

Fylling

 • brætt smjör
 • rifið marsípan
 • kanilsykur
 • vanillusykur (má sleppa)

Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið blönduna í 37°.

Setjið gerið í skál og hellið mjólkurblöndunni yfir. Bætið saffran saman við og hrærið aðeins í blöndunni. Bætið sykri og salti saman við.

Hellið hveitinu í lítramál beint úr pokanum (þessu hef ég alltaf sleppt) og bætið saman við mjólkurblönduna. Farið varlega af stað með hveitið og ekki setja allt í einu. Vinnið deigið vel saman og hafið það eins blautt og þið komist upp með til að snúðarnir verði ekki þurrir.

Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur (ég læt það oft hefast aðeins lengur). Hnoðið deigið þá á hveitistráðu borði. Skiptið deiginu í þrjá hluta og fletjið hvern hluta út í aflanga köku.

Smyrjið bræddu smjöri yfir deigið, stráið kanilsykri síðan yfir smjörið, þar næst rifnu marsípani og að lokum smá vanillusykri. Rúllið deiginu upp í rúllu, skerið í sneiðar og setjið í stór muffinsform.

Látið snúðana hefast undir viskastykki í 30 mínútur.

Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir þá.

Bakið við 250° í 5-8 mínútur.

Saffransnúðar með marsípani