Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Ég hef oft hugsað um það hvað ég er heppin með lesendur hér á síðunni. Ég fæ svo ótrúlega fallega tölvupósta frá lesendum sem hlýja mér meira en ég mun nokkurn tímann getað lýst og í dag fékk ég svo fallega gjöf að ég fór næstum því að gráta. Ég get með sönnu sagt að væri ekki eins að blogga án ykkar.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Gjöfin sem ég fékk var þessi dásamlega bók og inn í hana var búið að skrifa fallega kveðju til mín. Bókina ætla ég að geyma á náttborðinu mínu, stúdera makkarónubakstur fyrir svefninn og dreyma þær á nóttinni. Þúsund milljón þakkir Kristín, þú veist ekki hvað þú gladdir mig mikið.

Færslurnar eru að koma seint inn hjá mér þessa dagana og það er allt Ögga að kenna. Hann er með tölvuna OG myndavélina með sér á júróvisjónæfingum eftir vinnu og ég get því ekki bloggað á meðan. Á móti kemur að tölvan er full af myndum og myndböndum frá æfingum sem ég er spennt að hlusta á þegar Öggi kemur heim. Látið vita ef ykkur langar að sjá og ég skal athuga hvort ég geti sett eitthvað hingað inn.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Ég eldaði ljúffengan kjöthleif sem var kannski ekki mikið fyrir augað en bætti það svo sannarlega upp með bragðinu. Ég fyllti hann með fetaosti og pestói með sólþurrkuðum tómötum sem kom æðislega vel út. Fjölskylduvænt og stórgott.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

 • 600 g bland- eða nautahakk
 • 0,5 dl brauðrasp
 • 1 dl vatn
 • 1,5-2 tsk salt
 • svartur pipar
 • 1 tsk timjan
 • 1/2 tsk rósmarín
 • 1 laukur
 • 1 egg
 • fetaostur
 • pestó með sólþurrkuðum tómötum

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Hitið ofninn í 175°. Skerið laukinn í grófa bita. Blandið lauk, vatni, brauðraspi, eggi, salti, pipar, timjan og rósmarín saman og maukið með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið maukinu og hakkinu vel saman. Smyrjið eldfast mót, formið hleif úr hakkblöndunni og leggið hann í mótið. Gerið skurð í kjöthleifinn. Myljið fetaost í skurðinn og setjið pestó yfir. Lokið skurðinum vel og setjið í ofninn í 40 mínútur.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Basiliku og parmesan tómatsúpa

Basiliku og parmesan tómatsúpa

Fyrir nokkrum árum kom Jakob þeirri hefð á að hafa súpu í matinn eitt kvöld í viku. Hann fékk snemma æði fyrir súpum og það virðist ekki ætla að eldast af honum. Hann sýnir súpugerðinni mikinn áhuga, fylgist vel með því sem fer í pottinn og smakkar þær til. Það er svo gaman að fylgjast með honum, hann er svo einbeittur  við þetta og hefur oftar en ekki rétt fyrir sér varðandi hvað þarf til að gera súpuna góða.

Ég er því alltaf á höttunum eftir nýjum súpuuppskriftum og þessa fann ég á Pinterest. Uppskriftina átti upphaflega að elda í fleiri klukkutíma en það hentaði nú ekki í hversdagsamstrinu. Ég byrjaði því á að breyta eldunaraðferðinni og efast um að það hafi komið niður á bragðinu.

Súpan er elduð á þann máta að hún er þykkt með uppbakaðri smjörbollu í lok eldunartímans. Það er að sjálfsögðu hægt að sleppa því en mér þótti það gefa súpunni bæði góða fyllingu og áferð. Smjörbollan er látin hitna vel í pottinum sem gerir það að verkum að smjörið byrjar að brúnast og fær smá hnetukeim. Æðislega gott og gefur súpunni skemmtilegt bragð.

Súpan er mjúk og góð. Hún ætti að falla vel í kramið hjá tómatsúpuunendum og passar vel í þeim flensufaraldri sem nú gengur yfir landið.

Basiliku og parmesan tómatsúpa

 • 2 dósir hakkaðir tómatar
 • 1 bolli sellerý, skorið fínt niður
 • 1 bolli gulrætur, skornar fínt niður
 • 1 bolli fíhakkaður laukur
 • 1 tsk óregano (1 msk ef notað er ferskt)
 • 1 msk basil (1/4 bolli ef notað er ferskt)
 • 4 bollar vatn
 • 2 kjúklingateningar
 • ½ lárviðarlauf
 • 1 bolli parmesan ostur
 • ½ bolli hveiti
 • ½ bolli smjör
 • ½ líter matreiðslurjómi
 • salt og pipar

Bræðið smá smjör eða setjið ólífuolíu í botninn á stórum potti og mýkjið gulrætur, sellerý og lauk við miðlungsháan hita. Bætið tómötum, vatni, kjúklingateningum, oregano, basiliku og lárviðarlaufi í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur.

Bræðið smjör við miðlungsháann hita í öðrum potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið stöðugt í blöndunni í 3-5 mínútur. Hrærið varlega 1 bolla af súpunni saman við. Bætið þar á eftir 3 bollum til viðbótar og hrærið þar til blandan er orðin mjúk. Setjið allt aftur í súpuna og hrærið vel í. Blandið matreiðslurjóma, rifnum parmesan, salti og pipar út í og látið suðuna koma upp. Látið sjóða um stund við vægan hita og smakkið til með oregano, basiliku, salti og pipar. Berið súpuna fram með góðu brauði.

Súkkulaðikaka með söltu karamellufrosting

Súkkulaðikaka með söltu karamellufrosting

Það eru margar vikur síðan ég rakst á uppskriftina að þessari köku og hún hefur átt hug minn allan síðan. Ég held í hreinskilni sagt að það hafi varla liðið sá dagur síðan ég sá uppskriftina að ég hafi ekki hugsað um hana og látið mig dreyma um sneið. Ég hefði auðvitað átt að vera búin að baka kökuna löngu fyrr en mig hefur hreinlega vantað tilefni til þess.

Þegar ég sat um daginn og lét mig dreyma um kökuna tók ég ákvörðum. Ef lagið hans Ögga færi áfram í söngvakeppninni þá myndum við fagna með þessari köku. Ef lagið færi ekki áfram myndum við hressa okkur við með þessari köku. Það var því nokkuð ljóst að ég væri loksins að fara að fá kökuna og ég hef hlakkað til alla vikuna.

Súkkulaðikaka með söltu karamellufrosting

Ég er sjúk í salta karamellu og það er ekki annað hægt en að elska súkkulaði. Það liggur því í augum uppi að þessi kaka er ekkert annað en dásamleg. Það væri þó hrein lygi að halda því fram að kakan sé hrist fram úr erminni því það liðu rúmir tveir tímar frá því að ég hóf baksturinn þar til hún stóð á borðinu. Æ, mér var svo sem alveg sama. Deigið var svo gott og það er alltaf gaman að gera karamellu. Það er því óhætt að segja að mér leiddist ekki verkið og ég uppskar hreinan draum að því loknu.

Súkkulaðikaka með söltu karamellufrosting

Súkkulaðikaka með söltu karamellufrosting (uppskrift frá Inu Garten)

 • 180 g ósaltað smjör við stofuhita
 • 2/3 bolli sykur
 • 2/3 bolli ljós púðursykur
 • 2 extra stór egg (ég var með 3 meðalstór)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 bolli buttermilk (ég setti 1 msk af sítrónu í bolla og fyllti hann svo af mjólk. Lét blönduna síðan standa í 10 mínútur. Það má líka nota súrmjólk í staðinn fyrir buttermilk)
 • ½ bolli sýrður rjómi
 • 2 msk kaffi (uppáhellt)
 • 1 og 3/4 bolli hveiti
 • 1 bolli kakó
 • 1 ½ tsk matarsódi
 • ½ tsk gróft salt

Hitið ofninn í 175° og smyrjið þrenn 20 cm bökunarform.

Hrærið smjör, sykur og ljósan púðursykur saman í hrærivél á hröðum hraða í 5 mínútur. Blandan á þá að vera orðin ljós og létt. Lækkið hraðann í miðlungshraða og bætið eggjunum út í, einu í einu. Hrærið vanilludropum saman við.

Hrærið saman, í annarri skál, buttermilk, sýrðum rjóma og kaffi.

Sigtið saman í þriðju skálinni hveiti, kakói, matarsóda og salti.

Hrærið vökvablöndunni og þurrefnablöndunni á víxl saman við smjör og sykurblönduna með hrærivélina stillta á hægan hraða. Byrjið á að hræra vökvablöndunni og endið á þurrefnablöndunni.  Hrærið þar til allt hefur blandast. Skiptið deiginu á milli bökunarformanna og bakið í 20-25 mínútur, eða þar til prjóni stungið í miðjar kökurnar kemur hreinn upp. Látið kökurnar kólna alveg áður en kremið er sett á.

Söltuð karamella

 • 1 bolli sykur
 • 4 msk vatn
 • 2 tsk síróp
 • ½ bolli rjómi
 • 2 msk smjör
 • ½ tsk sítrónusafi
 • ½ tsk gróft salt eða sjávarsalt

Setjið sykur, vatn og síróp í pott og hitið við miðlungshita. Hrærið þar til sykurinn er uppleystur, setjið lok á pottinn og látið hitna í 3 mínútur. Takið lokið af pottinum og hækkið hitann í miðlungsháan og látið suðuna koma upp. Ekki hræra í pottinum en veltið karamellunni reglulega um hann svo að hún brenni ekki.  Látið karamelluna sjóða þar til hún fær fallegan gylltan lit (það tekur nokkrar mínútur). Takið af hitanum og látið standa í 30 sekúndur. Hellið rjómanum saman við karamelluna og passið vel að brenna ykkur ekki. Blandan mun krauma og er brennandi heit. Hrærið rjómanum og karamellunni saman og bætið smjöri, sítrónusafa og salti saman við. Hrærið allt vel saman. Takið 1 bolla af karamellunni frá (ath. að karamellan er þunn) og látið standa í um 20 mínútur. Hún þykknar aðeins þegar hún kólnar.

Salt karamellufrosting

 • 225 g smjör við stofuhita
 • 225 g rjómaostur
 • 3-4 bollar flórsykur
 • 1 bolli sölt karamella (uppskriftin hér að ofan)

Hrærið smjör og rjómaost saman þar til blandan er mjúk. Bætið 2 bollum af flórsykri saman við og hrærið saman. Setið söltu karamelluna saman við og hrærið saman. Bætið við því sem eftir er af flórsykrinum þar til óskaðri áferð er náð.

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Við krakkarnir ákváðum að fara ekki með Ögga í sjónvarpssal í kvöld heldur buðum mömmu til okkar í heimagerða pizzu og skammarlega mikið af snakki og nammi. Á eftir júróvisjón kemur Öggi heim og þá ætlum við að horfa saman á American Idol. Það er því óhætt að segja að það sé gott sjónvarpskvöld sem bíður okkar.

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ég er sérlega spennt fyrir að deila þessari frábæru uppskrift með ykkur. Ég elska kartöflur og hef eldað óteljandi (og misgóða) kartöflurétti í gegnum tíðina. Þegar ég sá þessa uppskrift á Pinterest réð ég varla við mig af kæti því ég var svo viss um að hún væri góð. Það bara lá í augum uppi og ég furða mig á því að ég hafi ekki eldað kartöflur svona fyrr. Þær verða svo stökkar að utan og mjúkar að innan, alveg eins og ég vil hafa þær. Að elda þær upp úr bræddu smjöri í staðin fyrir olíu gerir gæfumuninn.

Ég eldaði kartöfluhelmingana strax daginn eftir að ég sá uppskriftina og bar þá fram með pretzelpylsum sem vakti gífurlega lukku. Síðan þá hef ég eldað þá við hvert tækifæri sem gefst og við fáum ekki nóg af þeim.

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

 • 12 kartöflur
 • ½ bolli brætt smjör
 • rifinn parmesan ostur
 • hvítlauksduft
 • önnur krydd eftir smekk (mér þykir gott að nota kryddblöndu með salti, timjan og sítrónu frá Jamie Oliver)

Hitið ofninn í 200°. Skerið kartöflur í tvennt á langhliðina. Bræðið smjör og setjið í botninn á eldföstu formi (passið að hafa formið ekki of stórt, smjörið þarf að fylla vel út í formið) og rífið vel af parmesan osti yfir. Kryddið með öðrum kryddum og raðið kartöflunum í formið með sárið niður í smjörið. Bakið í 40-45 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma.

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

Nú styttist óðum í júróvisjónhelgina og við erum að vonum full tilhlökkunar. Eins og svo oft áður er Öggi með lag í keppninni (með Pétri Erni vini sínum) og mér þykir það vera eitt það fallegasta sem hann hefur samið. Eyþór Ingi syngur lagið og ég fæ gæsahúð í hvert sinn sem ég hlusta á það. Ef þig langar að heyra lagið þá getur þú gert það hér.

Æfing

Annars er ég með uppskrift að fullkomnum júróvisjónmat. Við höfum verið með æði fyrir mexíkóskum mat upp á síðkastið og um síðustu helgi prófaði ég uppskrift frá Rachel Ray. Ég sá hana elda réttinn í sjónvarpinu fyrir mörgum árum en það var þó ekki fyrr en um síðustu helgi að ég loksins lét verða að því að elda hann. Það er óhætt að segja að hann var biðarinnar virði og vel það.

Ég veit að hráefnalistinn er langur en mikið af hráefnunum gætu leynst í skápnum hjá þér. Ekki vera hrædd við kryddmagnið því kryddin fara æðislega vel saman og rétturinn er alls ekki sterkur. Ferskt kóríander og lime gefur honum ferskt bragð sem fer vel með krydduðum kjúklingnum.

Uppskriftin er stór og við nutum góðs af því að getað fengið okkur afganga daginn eftir. Mér þótti þetta frábær réttur sem var einfalt að útbúa og unun að borða. Þetta er því mín tillaga að mat fyrir júróvisjónpartýið.

Fajita ofnskúffa

Fajita ofnskúffa

 • 8 mjúkar tortillakökur
 • Pam sprey
 • 1 msk laukduft
 • 1 msk hvítlauksduft
 • 1 msk cummin
 • 1 tsk kanil
 • 1 msk chiliduft
 • 1 tsk óreganó
 • salt
 • pipar
 • 900 g kjúklingabringur
 • 4 msk ólívuolía
 • 1 flaska mexíkóskur bjór
 • 2 rauðar paprikur
 • 2 rauðlaukar
 • 3-4 hvítlauksrif
 • 2 lime
 • 1/4 bolli hakkað ferskt kóríander
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur
 • sýrður rjómi og salsa sósa til að bera fram með

Skerið tortillukökurnar í strimla og setjið á ofnplötu. Spreyið olíu yfir (ég nota PAM) og bakið við 180° í um 10 mínútur. Snúið strimlunum eftir 5 mínútur í ofninum. Takið úr ofninum og leggið til hliðar.

Blandið saman laukdufti, hvítlauksdufti, cummin, kanil, chilidufti, óreganó, salti og pipar. Skerið kjúklinginn í bita og blandið saman við kryddblönduna. Leggið til hliðar.

Sneiðið papriku og rauðlauk og rífið hvítlauk. Steikið við háan hita upp úr  2 msk af ólívuolíu í 3-4 mínútur. Bætið fínrifnu hýði og safa af 1 lime ásamt hökkuðu kóriander á pönnuna og kryddið með salti og pipar. Leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn upp úr 2 msk af ólívuolíu þar til kjúklingurinn er fulleldaður, um 5-6 mínútur. Hellið bjórflösku yfir og látið sjóða í 4-5 mínútur.

Blandið tortillastrimlum, grænmeti og kjúklingi (ásamt vökva ef einhver er) saman í stórt eldfast mót og rífið cheddar ost yfir. Setjið í 200° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram með nachos, sýrðum rjóma, salsasósu og niðurskornu lime.

Hvítlauksbrauðbollur

Hvítlauksbrauð

Í gærkvöldi horfðum við Öggi á síðasta Fraiserþáttinn og þar með lauk Fraser-maraþoni okkar. Við höfum verið að horfa á alla Fraiserþættina frá upphafi og það hefur tekið okkur heilt ár. Okkur hefur þótt svo notalegt að setjast niður á kvöldin eftir að krakkarnir eru sofnaðir og horfa á nokkra þætti og því fylgdu blendnar tilfinningar að klára síðasta þáttinn. Núna er því næsta verkefni að finna okkur nýja seríu til að horfa á. Við höfum heyrt að Breaking bad séu góðir þættir, kannski að við tékkum á þeim í kvöld.

Hvítlauksbrauð

Ég var búin að lofa uppskrift að hvítlauksbrauði sem ég baka alltaf með grænmetislagsagna. Það er nú ekki svo að ég sé alltaf að elda grænmetislasagna, síður en svo, en þegar það gerist þá er þetta hvítlauksbrauð nauðsynlegt með. Það er bæði hægt að gera þrjú snittubrauð úr deiginu eða bollur. Ég geri alltaf bollur og set rifinn ost yfir þær. Ef það er afgangur af brauðinu set ég hann í frystinn og hita svo upp næst þegar við erum með hakk og spaghetti. Gott!

Hvítlauksbrauð

Hvítlauksbrauðbollur

 • 1 pakki þurrger
 • 1½ bolli vatn
 • 1 msk sykur
 • 80 g rifinn ostur
 • 1 ½ tsk hvítlauksduft
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk basilíka
 • 1 tsk óreganó
 • 3 msk olía
 • 4-5 bollar hveiti

Leysið þurrgerið upp í volgu vatni. Bætið sykri, hvítlauksdufti, salti, basilíku, óreganó, olíu og hveiti saman við og hnoðið vel saman (ég nota hnoðarann á KitchenAid vélinni). Látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Mótið þrjú snittubrauð eða bollur úr deiginu og látið hefast aftur í 30 mínútur.  Penslið deigið með þeyttu eggi og stráið rifnum osti yfir. Bakið við 180° í 20-25 mínútur.

Grænmetislasagna

Grænmetislasagne

Það hefur verið í nógu að snúast hér í kvöld og enginn tími gefist til að blogga fyrr en núna. Ég er búin að vera á leiðinni að gefa uppskrift að grænmetislasagna sem ég eldaði um daginn og krakkarnir eru svo hrifin af. Ég furða mig á því af hverju ég elda það ekki oftar því krakkarnir borða alltaf svo vel af því og það er svo gott að vita af öllu þessu grænmeti fara í þau.

Það sem mér þykir tímafrekast við að elda grænmetislasagna er að skera grænmetið niður en að þeirri vinnu lokinni tekur litla stund að klára eldamennskuna. Uppskriftin er stór og dugar okkur í tvær máltíðir.

Ég baka alltaf sama hvítlauksbrauðið með þessu grænmetislasagna og okkur þykir það alveg ómissandi með. Uppskriftin af því kemur á morgun því nú er Öggi farinn að bíða eftir mér. Við erum að fara að horfa á allra síðasta Fraiser þáttinn og spennan er í hámarki.

Grænmetislasagne

Grænmetislasagne

 • 1 laukur
 • 3 gulrætur
 • 1 kúrbítur
 • 200 g sveppir
 • 200 g spergilkál
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
 • 2 litlar dósir tómatmauk
 • 2 tsk oregano
 • 2 tsk basil
 • 2 grænmetisteningar
 • salt og pipar
 • 1 stór dós kotasæla
 • 2-3 bollar vatn
 • lasagneplötur
 • rifinn ostur

Saxið laukinn, skerið kúrbítinn í bita og sneiðið gulræturnar og sveppina. Léttsteikið laukinn, kúrbítinn, gulræturnar og sveppina í ólívuolíu á pönnu og kryddið. Bætið niðursoðnum tómötum, tómatmauki, vatni og teningum á pönnuna og látið sjóða í 30 mínútur. Á meðan er spergilkálið skorið í bita og léttsoðið. Bætið því á pönnuna í lokin.

Smyrjið eldfast mót og setjið grænmetissósu í botninn, þá lasagnaplötur, kotasælu, aftur grænmetissósu og svo koll af kolli.  Endið á að strá vel af rifnum osti yfir. Bakið við 180° í um 40 mínútur.