Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei

Það er hefð hjá mörgum að hafa pizzur á föstudagskvöldum og við höfum ekki verið nein undantekning. Fyrir mörgum árum pantaði ég mér pizzaofn frá Ítalíu og hann hefur nánast verið logandi síðan hann kom í hús. Ég elska heimagerðar pizzur og fæ seint leið á þeim.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizzurnar hjá okkur hafa tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina en botninn hefur þó alltaf verið sá sami (þú finnur uppskriftina að honum hér). Það gerðist síðan um daginn að ég datt niður á uppskrift sem var lofuð á internetinu sem sú besta og auðvitað réð ég varla við mig af spennu að prófa hana. Eftir að hafa fylgt þessari uppskrift nokkrum sinnum verð ég að taka undir hólið því hún er stórkostlega góð.

Það er gott að hafa í huga þegar verið er að gera deigið að hafa vatnið heitt, ekki sjóðandi og ekki kalt, heldur heitt eins og baðvatn fyrir barn. Notalega heitt. Síðan er brauðhveiti (t.d. þetta í bláu pökkunum frá Kornax) betra í brauðbakstur en venjulegt hveiti. Að lokum þykir mér skipta máli að hnoða deigið vel. Ég nota hnoðarann á Kitchen aid hrærivélinni og læt hann hnoða degið á hraðri stillingu í 6 mínútur (eins og uppskriftin segir til um).

Pizza

 • 1 bolli heitt vatn
 • 2 + 1/4 tsk þurrger
 • 1 msk hunang (eða sykur)
 • 2 tsk salt
 • 2 msk olía
 • 3 bollar brauðhveiti (það gæti þurft aðeins minna eða meira)

Hrærið ger og hunang út í heitt vatn í stórri skál (helst hrærivélaskál).

Pizza sem klikkar aldrei

Breiðið viskastykki yfir skálina og látið blönduna standa í 5-10 mínútur eða þar til hún byrjar að freyða.

Pizza sem klikkar aldrei

Bætið salti, olíu og helmingnum af hveitinu saman við og hrærið saman. Þegar búið er að vinna hveitið saman við vökvann er afganginum af því bætt í deigið í smáum skömmtum þar til réttri áferð er náð. Deigið á að vera aðeins klístrað en þó þannig að þegar þú snertir það þá klístrist það ekki við hendina.

Pizza sem klikkar aldrei

Þegar deigið hefur náð því stigi er það hnoðað á hraðri stillingu í 6 mínútur. Deigið á þá að vera mjúkt og gott að vinna með það. Skálin á að vera hrein, þ.e. ekkert deig fast við hana.

Pizza sem klikkar aldrei

Takið deigið úr og mótið kúlu úr því. Smyrjið skálina með olíu (til að deigið þorni ekki) og látið deigið aftur í hana. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í 1-2 klst. (mér hefur þótt 1 klst duga).

Pizza sem klikkar aldreiPizza sem klikkar aldrei

Fletjið deigið út, smyrjið pizzusósu yfir, stráið osti yfir og endið á því áleggi sem hugurinn girnist.

Pizza sem klikkar aldreiPizza sem klikkar aldrei

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ég fékk tölvupóst frá Svanhvíti systur minni sem býr í Kaupmannahöfn þar sem hún sagðist vera orðin langeyg eftir uppskrift að kökunni sem ég bauð henni og manninum hennar upp á þegar þau voru stödd hér á landinu um daginn. Maðurinn hennar var svo hrifinn af kökunni að hann hefur ekki hægt að hugsa um hana. Svanhvít ætlar því að baka hana fyrir hann og ég stekk að sjálfsögðu til og birti uppskriftina hér í einum grænum.

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ég fékk uppskriftina senda eins og bréf frá himnum eftir að hafa setið og velt því fyrir mér hvað ég ætti að hafa í eftirrétt handa þeim. Unnur, mágkona mín sem er búsett í Svíþjóð, hafði keypt sér matreiðslublað þar sem þessa uppskrift var að finna. Hún veit hvað ég er veik fyrir góðum kökum og ákvað því að taka mynd af uppskriftinni og senda mér. Ég hugsaði extra hlýtt til hennar að kvöldi sama dags þegar ég bar kökuna fram, aðeins of mikið bakaða en samt svo dásamlega góða.

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ostakökubrownies

Browniesdeigið:

 • 200 g smjör
 • 200 g dökkt súkkulaði
 • 4½ dl flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 3 egg
 • 2 dl hveiti

Ostakökudeigið:

 • 200 g rjómaostur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 1 dl flórsykur
 • 1 egg

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið. Hakkið súkkulaðið og látið það bráðna í smjörinu. Hrærið saman flórsykur, vanillusykur og egg. Hellið blöndunni í súkkulaðismjörið. Hrærið hveitinu varlega saman við.

Ostakökudeigið: Hrærið rjómaost, vanillusykur, flórsykur og egg saman þar til blandan verður slétt.

Setjið smjörpappír í skúffukökuform (ca 25×35 cm). Setjið súkkulaðideigið í formið. Hellið ostakökudeiginu yfir og blandið deigunum varlega saman með skeið. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mínútur. Látið kólna í forminu og skerið svo í bita.

Bismarkrjómi

 • 1 dl bismarkbrjóstsykur
 • 3 dl þeyttur rjómi

Myljið bismarkbrjóstsykurinn fínt niður. Þeytið rjómann og blandið saman við bismarkmulninginn.

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Ég hef verið hrifin af tælenskum mat frá því að ég smakkaði hann fyrst og þessi einfalda uppskrift vakti því strax áhuga minn. Mér finnst vera eitthvað notalegt við svona mat. Mat sem er bragðgóður og hollur en tekur ekki nokkra stund að reiða fram. Slíkar uppskriftir geta reynst mikill fjársjóður þegar lítill tími gefst í eldhúsinu og allir eru svangir.

Það er kannski ekkert sérlega framandi við þessa uppskrift en hún er svo einföld og bragðgóð að mér finnst ekki annað hægt en að birta hana hér. Hún er algjör draumur eftir langan dag, þegar góður matur lokkar meira en að standa yfir pottunum.

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Einfaldur og fljótlegur tælenskur kjúklingaréttur

 • 3 kjúklingabringur
 • 1 spergilkálshaus
 • 1 rauð paprika
 • 2 rauðlaukar
 • 1 dós kókosmjólk
 • 2 tsk fiskisósa
 • 3 msk tamari
 • 0,5 dl rauður chili, fræhreinsaður og hakkaður smátt
 • 2 msk engifer, fínhakkað
 • ferskt kóriander

Skerið kjúklingabringurnar og grænmetið í bita. Sjóðið í kókosmjólkinni þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til með fiskisósu og tamari. Stráið hökkuðu chili, engifer og kóriander yfir. Berið fram með hrísgrjónum eða núðlum.

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Ég hef varla stigið fæti inn í eldhús þessa vikuna og hef því ekki haft frá miklu að segja hér á blogginu. Ég hefði svo sem getað litið inn oftar, látið vita af mér og birt myndir frá hversdagsleikanum, en ég efast um að það sé áhugi fyrir því nema að það fylgi uppskrift með. Því fór sem fór og ég bæti það vonandi upp á næstu dögum.

Á sprengidag fórum við í árlegt matarboð til mömmu og borðuðum, eins og vera ber, á okkur gat. Mér finnst saltkjöt og baunir svo æðislega gott og mamma gerir það best af öllum. Á miðvikudagskvöldinu fór ég í saumaklúbb til Áslaugar vinkonu minnar og fékk alveg æðislegan mat, indverskan kjúklingarétt og karamellufylltar súkkulaðikökur með sjávarsalti, bornar fram með ís og berjum. Ég vildi óska þess að Áslaug fengist til að halda úti matarbloggi, þá værum við í góðum málum. Ég var ekki lengi að sníkja uppskriftirnar og hlakka til að borða þessar dásemdir aftur. Á fimmtudagskvöldinu fórum við Öggi með vinafólki okkar, Ernu og Óla, á Grillmarkaðinn. Maturinn þar er svo ótrúlega góður og ég gæti í alvöru lifað á sætkartöflufrönskunum þar. Vikan hefur því verið frábær matarvika hjá mér án þess að ég hafi haft neitt fyrir henni.

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Um helgar er ég vön að baka köku til að eiga með kaffinu. Uppskriftina að þessari súkkulaðiköku fékk ég úr bók frá sænska kaffihúsinu Rosendals Trädgårdscafé. Þetta er ein af fjölmörgum matreiðslubókum sem ég keypti mér þegar við bjuggum í Svíþjóð og mér þykir alltaf jafn gaman að skoða hana. Uppskriftirnar eru girnilegar og hafa reynst vel. Þessi kaka var engin undantekning og það var barist um síðustu sneiðina. Ísköld mjólk er ómissandi með.

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Súkkulaðikaka með þykkri súkkuklaðisósu

Kakan:

 • 100 g smjör
 • 1 ½ dl mjólk
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 ½ msk kakó
 • 1 msk vanillusykur

Bræðið smjörið og blandið saman við mjólkina. Látið blönduna verða volga. Hrærið egg og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Blandið saman hveiti, lyftidufti, kakói og vanillusykri og blandið saman við eggjablönduna á víxl með mjólkurblöndunni. Setjið deigið í smurt hringform (ca 23 cm). Bakið í 175° heitum ofni í ca 30 mínútur.

Súkkulaðisósan:

 • 50 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 1½ tsk hveiti
 • 2 msk sykur
 • 1 msk kakó
 • kókos til að strá yfir kökuna

Bræðið smjörið í potti og hellið mjólkinni saman við. Blandið hveiti og sykri saman við kakóið. Setjið blönduna í pottinn og hrærið vel saman. Látið blönduna sjóða þar til hún er orðin að þykkri sósu. Hrærið stöðugt í pottinum og passið að sósan brenni ekki við botninn.  Breiðið sósuna yfir kökuna þegar hún hefur aðeins kólnað og stráið kókos yfir.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Á morgun er Valentínusardagurinn. Ég elska alla svona daga og skil ekki þegar verið er að bölva því að Íslendingar séu að elta amerískar hefðir, að við eigum bóndadag og konudag sem dugi vel. Hvernig er hægt að vera á móti auka degi sem snýst um að gera vel við ástina sína, sérstaklega í þessum annars litlausa mánuði.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Við Öggi ætlum út að borða annað kvöld og ég er búin að hlakka til alla vikuna. Ef við hefðum ekki ákveðið að fara út að borða hefði ég lagst yfir uppskriftabækurnar og fundið eitthvað gott til að elda fyrir okkur. Öggi hefði komið með blóm heim og ég hefði lagt fallega á borð og kveikt á kertum.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Í síðustu viku voru systir mín og fjölskylda sem búa í Danmörku stödd á landinu. Þau komu í mat til okkar og ég eldaði kjúklingabringur með fyllingu sem er svo góð að það er engu líkt. Með kjúklingabringunum bar ég fram sæta kartöflumús og gott salat. Uppskriftina fékk ég hjá vinkonu minni um árið og hef oft dregið fram þegar ég vil slá í gegn. Þessi réttur klikkar aldrei og því þykir mér upplagt að elda þessa dásemd fyrir ástina sína annað kvöld, á sjálfan Valentínusardaginn.

Kjúklingabringur með himneskri fyllingu og sætri kartöflustöppu

Fylling:

 • 200 g döðlur
 • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
 • 1 poki furuhnetur
 • smá ólívuolía
 • vel af fersku rósmarín
 • Gullostur (eða annar góður hvítmygluostur)
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • svartur pipar

Ristið furuhnetur á pönnu. Skerið  döðlur, sólþurrkaða tómata og rósmarín smátt og steikið í ólívuolíu á pönnu. Pressið eða saxið hvítlaukinn smátt og steikið með í lokin. Setjið ostinn í bitum á pönnuna og látið bráðna. Bætið furuhnetum saman við og piprið.

Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og skerið rauf ofan á þær. Setjið fyllinguna í raufarnar og yfir bringurnar. Setjið álpappír yfir formið (lokið því vel) og setið það í 200° heitan ofn í 40 mínútur. Undir lokin er hægt að taka álpappírinn af til að fá fallegan lit á kjúklingabringurnar.

Sæt kartöflustappa:

Afhýðið sætar kartöflur, skerið þær í bita og sjóðið þar til þær eru orðnar mjúkar. Hellið vatninu frá og stappið með vel af smjöri og púðursykri. Piprið með svörtum pipar. Smakkið til og stappan verður æði.

Nutellaformkaka

Nutellaformkaka

Gleðilegan bolludag! Ég vona svo sannarlega að bolludagurinn hafi verið ykkur ljúffengari en mér. Í gærkvöldi bakaði ég 10 stórar vatnsdeigsbollur og í morgun fór ég á fætur fyrir allar aldir til að setja á þær svo að krakkarnir gætu tekið með sér bollu í nesti í skólann. Ég hugsaði með mér að mikið yrði notalegt að koma heim úr vinnunni í dag og fá rjómabollu. Þegar ég kom heim mætti ég þó alsælum börnum með rjóma út á kinnar og galtómu kökufati.

Nutellaformkaka

Þar sem ég náði ekki að mynda eina einustu rjómabollu áður en þær kláruðust þá ætla ég að gefa uppskrift að annari dásemd, mjúkri Nutellaformköku, sem ég var með í kvöldkaffi í vikunni sem leið. Kökuna bakaði ég aðallega vegna þess að ég keypti mér nýtt kökuform sem mér þótti svo fallegt og langaði að prófa að baka í því. Krakkarnir voru að vonum ánægð með nýbakaða köku og kalda mjólk fyrir svefninn og voru á einu máli um að kakan væri stórgóð.

Nutellaformkaka

Nutellaformkaka

 • 2 + 3/4 bolli hveiti (420 g)
 • 2 ½ tsk lyftiduft
 • ¼ tsk salt
 • 1 bolli smjör við stofuhita (135 g)
 • 2 bollar sykur (465 g)
 • 4 stór egg
 • 1 bolli Nutella (300 g)
 • 1 bolli nýmjólk

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti og leggið til hliðar. Hrærið saman í annarri skál smjör og sykur þar til blandan verður ljós og létt, það tekur um 3 mínútur.   Hrærið einu eggi í einu saman við og þar á eftir Nutella. Setjið helminginn af þurrefnunum í deigið og helminginn af mjólkinni. Hrærið saman og endurtakið með afganginum af þurrefnunum og mjólkinni. Hrærið þar til allt hefur blandast en varist að hræra deigið of lengi.

Setjið deigið (sem er frekar þykkt) í smurða formkökuformið og bakið í 45-55 mínútur.

Hvítlaukshummus

Hvítlaukshummus

Ég sá að það var beðið um uppskriftina að hummusnum sem ég var með á New York Times-brauðinu þegar ég var með chili con carne. Uppskriftin er sáraeinföld og því gott að eiga hana í handraðanum.

Það er yfirleitt tahini í hummus en þar sem ég á það aldrei til hef ég notað þessa uppskrift sem ég fann hjá Cörlu. Okkur þykir hún öllum góð og með nýbökuðu New Yorks Times-brauði er það gjörsamlega ómótstæðilegt. Það tekur enga stund að útbúa hummus og ef þú átt ekki matvinnsluvél er hægt að nota töfrasprota til að mauka hráefnin saman.

Hvítlaukshummus

Hvítlaukshummus

 • 1 dós kjúklingabaunir, vökvanum hellt af og baunirnar skolaðar
 • 2 hvítlauksrif, afhýdd og gróflega hökkuð
 • safi af 1 sítrónu
 • 1/4 bolli ólívuolía
 • 1 tsk cummin
 • sjávarsalt
 • 1/2 tsk cayenne pipar (ath. að hann er sterkur og því óvitlaust að byrja með minna magn og smakka til)
 • paprikukrydd og/eða steinselja til skrauts

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og maukið þar til blandan er slétt. Setjið í skál og skreytið með smá olívuolíu, papriku og steinselju.

Chili con carne

Chili con carne

Síðasta vika var annasöm og til að létta á heimilisstörfunum tók ég á það ráð að elda stóran skammt af chili con carne. Það tekur enga stund að elda þennan rétt, hráefnið er ódýrt og maturinn æðislega góður. Það er því mesta furða að ég skuli ekki elda hann oftar.

Uppskriftin er stór og dugði okkur fjölskyldunni vel í þrjár mismunandi máltíðir, hver annarri betri. Ef tíminn er með ykkur þá er ekki verra að láta réttinn sjóða við vægan hita í lengri tíma en uppskriftin segir til um. Smakkið síðan til og hann verður stórgóður.

Fyrsta kvöldið bar ég réttinn fram með sýrðum rjóma, New York times-brauði og heimagerðu hummus.

Chili con carne

Kvöldið eftir hitaði ég réttinn upp og setti hann í tortillabrauð ásamt sýrðum rjóma, avokadó, rauðlauk, papriku, káli og fetaosti.

Chili con carne

Þriðja kvöldið var afgangurinn settur á pizzur.

Chili con carne

Chili con carne

 • 1200 g nautahakk (2 bakkar)
 • 3 msk olía
 • 2½ tsk salt
 • ½ tsk svartur pipar
 • 1-2 tsk chilipipar
 • 2 rauðlaukar
 • 3 hvítlauskrif
 • 3 dósir hakkaðir tómatar
 • 1 box ferskir kirsuberjatómatar
 • 1 dl chilisósa
 • 2 tsk paprikukrydd
 • 1 tsk sambal oelek (eða 2 msk tabasco)
 • ½ tsk kanil
 • 1 tsk cummin
 • 2 msk balsamik edik
 • chili explosion
 • 2-3 dósir baunir (ég notaði blöndu af nýrnabaunum, pintobaunum og cannellinibaunum)

Steikið nautahakkið og kryddið með salti, pipar og chilipipar. Setjið yfir í stóran pott.

Afhýðið og hakkið lauk og hvítlauk og steikið í olíu. Setjið í pottinn með nautahakkinu. Setjið hakkaða tómata, heila kirsuberjatómata og chilisósu í pottinn og hrærið öllu saman. Kryddið með paprikukryddi, kanil, cummin, chili explosion, balsamikediki og sambal oelek. Látið sjóða í 10 mínútur.

Hellið vökvanum af baununum og skolið þær í köldu vatni. Bætið baununum í pottinn og látið allt sjóða saman þar til baunirnar eru orðnar heitar.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Það fjölgar jafnt og þétt í lesendahópnum hér á blogginu og í janúar voru heimsóknirnar rúmlega 200 þúsund. Ég býð nýja lesendur velkomna og þakka gömlum tryggðina. Ég get ekki þakkað nógu vel fyrir mig og mun seint geta lýst því hvað þið bæði gleðjið mig og gefið mér mikið. Takk og aftur takk ♥

Laugardagurinn var viðburðamikill og þeir sem fylgja mér á Instagram gátu fylgst með reglulegum uppfærslum frá júróvisjónkvöldinu okkar. Við byrjuðum daginn eldsnemma á fimleikamóti þar sem Gunnar nældi sér í gullverðlaun og enduðum daginn á sigri í söngvakeppninni. Eftir keppnina fögnuðum við með hópnum á Tapasbarnum og þegar leið á nóttina sóttum við Malínu og sofandi englakroppa úr pössun og bárum heim.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Gærdagurinn fór í það að slappa af og njóta þess að gera ekki neitt. Við vorum uppgefin og hvíldin var kærkomin. Við gerðum vel við okkur og fengum okkur súkkulaðiköku sem okkur þykir betri en allt gott.  Hún er mjúk, með miklu súkkulaðibragði og dásamleg í alla staði. Kakan geymist vel og helst mjúk þar alveg þar til hún er búin.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

 • 3 bollar hveiti
 • 2½ bolli sykur
 • 1 msk + 1 tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 1 bolli kakó
 • 1 + 1/3 bolli canola olía (eða önnur bragðdauf olía)
 • 1 ½ bolli buttermilk (ég set 1 msk af sítrónusafa í bolla, fyllti hann svo af mjólk og læt blönduna standa í 10 mínútur (geri 1 ½ porsjón fyrir þessa uppskrift). Það má þó líka nota súrmjólk í staðinn fyrir buttermilk)
 • 3 stór egg
 • 1 ½ bolli nýuppáhellt sterkt kaffi
 • 1 tsk vanilludropar

Hitið ofninn í 175°. Smyrjið 2 bökunarform og setjið bökunarpappír í botninn á þeim.

Setjið hveiti, sykur, matarsóda, salt og kakó í hrærivélaskál og hrærið saman.  Með hrærivélina stillta á hægan hraða er olíu og buttermilk hrært saman við þurrefnin og þar á eftir eggjunum, einu í einu. Hrærið heitu kaffi í mjórri bunu saman við og að lokum vanilludropum. Hrærið saman þar til blandan er slétt og kekkjalaus. Skiptið deiginu í bökunarformin og bakið í 30-35 mínútur eða þar til prjóni stungið í kökurnar kemur með mjúkri mylsnu upp.

Súkkulaðikrem

 • 680 g suðusúkkulaði
 • 1 ½ bolli rjómi

Grófhakkið súkkulaðið og setjið ásamt rjómanum í skál yfir vatnsbaði. Leyfið súkkulaðinu að bráðna og hrærið síðan í blöndunni með píski. Látið kremið kólna áður en það er sett á kökuna (kremið þykkist við það).

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Þar sem heimilislífið snýst um júróvisjón þessa dagana þá þykir mér við hæfi að koma aftur með tillögu að kvöldmat fyrir júróvisjónkvöldið. Fyrir síðustu helgi birti ég uppskrift að frábærum mexíkóskum rétti sem ég má til með að stinga aftur upp á fyrir annað kvöld ef þið hafið ekki þegar prófað hann. Nú kem ég þó með nýja tillögu sem mér þykir ekki síður góð.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Ég eldaði þessa kjúklingabita og sætu kartöflufranskar um síðustu helgi. Uppskriftirnar sá ég hjá Ambitious Kitchen og vissi strax að ættu eftir að falla vel í kramið hjá mannskapnum. Kjúklingurinn er marineraður í grískri jógúrt, hunangi og dijon sinnepi sem gerir hann mjúkan og bragðgóðan. Þar á eftir er honum velt upp úr Kornflakes sem gefur honum stökka húð. Þetta getur ekki klikkað. Sætu kartöflufranskarnar eru hreinlega of góðar og við gátum ekki hætt að borða þær. Öggi sá síðan til þess að hunangssinnepssósan kláraðist upp til agna. Namm!

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar

 • 4 kjúklingabringur (ég notaði kjúklingalundir)
 • 2 bollar grísk jógúrt
 • 2 msk hunang
 • 2 msk dijon sinnep
 • 1/4 tsk sjávarsalt
 • 2 ½ bolli kornflakes

Hitið ofninn í 175°. Skerið kjúklingabringurnar í strimla (eða notið kjúklingalundir). Hrærið saman grískri jógúrt, hunangi, salti og dijon sinnepi í stórri skál. Bætið kjúklingnum í skálina og blandið saman þannig að marineringin hjúpi kjúklinginn. Setjið plastfilmu yfir kjúklinginn og geymið í ískáp í 20 mínútur.

Setjið helminginn af kornflakesinu í poka og myljið. Setjið helminginn af kjúklingnum í pokann og hristið hann svo að kornflakesið hjúpi kjúklinginn. Raðið kjúklingnum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og spreyjið smá af olíu yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

Bakaðar sætar kartöflufranskar

 • 2-4 stórar sætar kartöflur
 • 1-2 msk maizena mjöl
 • 1-2 ólívuolía
 • sjávarsalt
 • krydd eftir smekk

Hitið ofninn í 210°. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og spreyjið smá olíu á hann. Afhýðið kartöflurnar., skerið í strimla á stærð við franskar kartöflur og setjið í stóra skál. Stráið maizenamjöli yfir og hristið vel svo að mjölið myndi létta húð um kartöflurnar. Setjið ólívuolíu yfir og hristið aftur þannig að kartöflurnar fái létta olíuhúð (þið gætuð þurft að bæta við meiri olíu). Dreifið úr kartöflunum á bökunarpappírnum þannig að þær myndi einfalt lag og liggi ekki saman. Bakið kartöflurnar í 15 mínútur, snúið þeim og bakið áfram í 15 mínútur til viðbótar. Fylgist með kartöflunum undir lokin og passið að ofbaka þær ekki.

Hunangssinnepssósa

 • 1/4 bolli majónes
 • 1/4 bolli dijon sinnep
 • 2 msk hunang

Hrærið majónesi og sinnepi vel saman. Bætið hunangi saman við og hrærið aftur þar til allt hefur blandast vel. Geymið í ískáp þar til sósan er borin fram.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu