Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Ég luma enn á nokkrum eftirréttauppskriftum frá grillveislunni með júróvisjónhópnum og datt í hug að það væri kannski sniðugt að setja inn uppskriftina að barnvænu rice krispies kökunni. Hún er jú svo dásamlega einföld og góð. Það væri nú ekki úr vegi að bjóða upp á hana með kaffinu á morgun.

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Mig grunar að margir eigi þessa uppskrift en það gerir hana ekki minna góða. Mér þykir kakan algjört sælgæti og hún er í miklu uppáhaldi hjá krökkunum.  Uppskriftina fékk ég hjá mömmu en hún hefur verið í fórum hennar í fjölda mörg ár. Hún gerir kökuna oft þegar hún á von á krökkunum til sín og uppsker alltaf mikil lof fyrir.

Kakan er eins einföld og hægt er að hugsa sér og það tekur enga stund að gera hana. Uppskriftin er frá þeim tíma þegar hægt var að kaupa Nóa töggur eftir lit en mér skilst að nú séu þær bara seldar blandaðar í pokum. Þetta er þó ekki vandamál því það má bræða hvaða karamellur sem er í karamellusósuna, t.d. súkkulaðikúlur eða karamellusprengjur, eða hreinlega að kaupa tilbúna karamellusósu.

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Botn:

 • 100 g smjör
 • 100 g suðusúkkulaði
 • 100 g karamellufyllt súkkulaði, t.d. Rolo, Galaxy, karamellufyllt Pipp eða mars.
 • 4 msk síróp
 • 4-5 bollar Rice Krispies

Bræðið smjör, súkkulaði og síróp saman í rúmgóðum potti við vægan hita. Takið pottinn af hitanum og hrærið Rice Krispies saman við. Setjið blönduna í form og látið kólna í ískáp.

Bananarjómi:

 • 1 peli rjómi (2,5 dl)
 • 1 stór banani

Stappið bananann og þeytið rjómann. Blandið stöppuðum banananum varlega saman við rjómann og breiðið yfir botninn.

Karamellusósa:

 • 20-30 ljósar Nóa töggur (eða aðrar karamellur)
 • 1 dl rjómi

Bræðið töggurnar í rjómanum við vægan hita og hrærið þar til blandan er slétt. Kælið karamellusósuna áður en hún er sett yfir rjómann.

Bangkok-kjúklingur

Bangkok-kjúklingur Önnur stutt vinnuvika með frídegi í miðri viku framundan. Þetta verður skemmtileg vika því Malín verður 15 ára á föstudaginn. Hún fagnar hverju afmæli líkt og um stórafmæli sé að ræða og mér sýnist stefna í æðisleg veisluhöld. En hvað með ykkur? Eru þið farin að huga að kvöldverði fyrir annað kvöld? Ef svo er þá luma ég á stórgóðri tillögu! Bangkok-kjúklingur Mér þykir merkilegt hvað ég get stundum horft lengi á uppskriftir áður en ég ákveð að prófa þær og þannig var það einmitt með þessa uppskrift. Það eru margar vikur síðan ég sá hana fyrst og hún hefur varla vikið úr huga mínum síðan. Í gærkvöldi lét ég loks verða að því að prófa uppskriftina sem reyndist svo æðislega góð að það var rifist um að fá að taka afganginn með í nesti í dag.

Bangkok-kjúklingur

Ég breytti uppskriftinni svo lítillega að það er varla til að tala um. Í upphaflegu uppskriftinni var grillaður kjúklingur sem ég skipti út fyrir kjúklingabringur og svo bætti ég sætri kartöflu og smá hvítlauk í. Hamingjan hjálpi mér hvað þetta var gott. Ég mæli með að þið prófið.

Bangkok-kjúklingur (uppskrift frá Kokaihop)

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1 rauðlaukur
 • 1 græn paprika
 • 3 hvítlauksrif
 • 1/2 sæt kartafla
 • 1 tsk sambal oelek
 • 0,75 dl mango chutney
 • 1,5 msk sweet chillisósa
 • 1 grænmetisteningur
 • 0,5 l. matreiðslurjómi

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Leggið til hliðar.

Skerið rauðlauk, papriku og sætu kartöfluna í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Steikið rauðlauk, papriku og hvítlauk í olíu við miðlungsháan hita. Setjið sambal oelek á pönnuna og hrærið saman við grænmetið. Setjið rjóma, mango chutney, sweet chillisósu, grænmetistening, sæta kartöflubita og kjúklinginn á pönnuna og látið sjóða þar til kartöflurnar eru mjúkar.

Berið fram með hrísgrjónum.

After Eight kaka

After Eight kaka

Ég á dásamlega uppskriftamöppu sem ég útbjó á Svíþjóðarárunum okkar. Á þeim tíma notaði ég netið nánast til þess eins að skoða uppskriftasíður og í hvert sinn sem ég datt niður á spennandi uppskrift þá setti ég hana í word-skjal. Það var ekkert skipulag á þessu hjá mér og uppskriftirnar voru ekki flokkaðar eftir einu né neinu. Ég setti bara alltaf nýjustu uppskriftina neðst og lét þar við sitja. Það er kannski það sem gerir möppuna svona sjarmerandi í mínum augum. Dag einn prentaði ég word-skjalið út, setti í möppu og var þar með komin með eina af mínum bestu uppskriftabókum.

After Eight kaka

Ég hef gert margar uppskriftir úr uppskriftamöppunni en þessi uppskrift er uppáhalds. Ég hef ofnotað hana í mörg ár og veit alltaf að hún á eftir að vekja lukku þegar ég ber hana fram. Ég hef gefið mörgum uppskriftina og verið beðin um að baka hana við ýmis tilefni og furða mig því á að hún hafi ekki ratað hingað á bloggið fyrr. Það var kannski alveg í stíl við það að ég gleymdi að mynda kökuna eftir að hún var skorin og get því ekki boðið upp á mynd þar sem sést inn í kökuna. Þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að hún er mjúk, örlítið blaut og fullkomlega dásamleg.

After Eight kaka

 • 250 g suðusúkkulaði
 • 175 g smjör
 • 2 tsk nescafé (instant kaffiduft)
 • 2 dl sykur
 • 4 egg
 • 1 ½ tsk vanillusykur
 • ½ tsk lyftiduft
 • ½ dl hveiti

Glassúr

 • 25 g smjör
 • 3/4 dl rjómi
 • 200 g After Eight

Hitið ofninn í 175° og smyrjið 24 cm form.

Brjótið súkkulaðið í minni bita og setjið í pott ásamt smjörinu. Bræðið við vægan hita og hrærið reglulega í á meðan. Takið pottinn af hitanum og látið blönduna kólna aðeins.

Myljið kaffiduftið þannig að það verði fínmalað (ég nota mortél til verksins). Hrærið sykri, eggjum og kaffidufti í súkkulaðiblönduna og hrærið þar til deigið er slétt. Blandið vanillusykri, lyftidufti og hveiti saman og sigtið ofan í súkkulaðideigið. Hrærið þar til deigið er slétt.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í 55-60 mínútur.

Glassúr: Setjið smjör og rjóma í pott og hitið að suðu. Takið af hitanum og setjið After Eight plöturnar í pottinn. Hrærið þar til blandan er slétt.

Takið kökuna úr forminu og breiðið glassúrinn yfir. Berið kökuna fram með rjóma og jarðaberjum.

Twix-bitar

Twix-bitar

Gleðilegt sumar kæru blogglesendur. Ég vona að sumarið hafi byrjað vel og að það eigi eftir að leika við ykkur.

Twix-bitar

Twix-bitar

Það styttist óðum í Malmö-ferðina okkar og það kítlar í maganum þegar ég hugsa til þess. 10 dagar í Svíþjóð er ekki til að kvarta undan og ég get ekki beðið eftir að njóta alls þess sem Malmö hefur upp á að bjóða.

Twix-bitar

Twix-bitar

Ég er hrifin af Malmö. Við Öggi fórum reglulega þangað þegar við bjuggum í Svíþjóð og fyrir rúmum þremur árum fórum við í nostalgíu-helgarferð þangað. Núna erum við þó alveg tóm hvað varðar veitingastaði og fleira þannig að ef þið lumið á ábendingum um góða veitingastaði, skemmtileg kaffihús og áhugaverða staði á Malmö svæðinu þá eru þær vel þegnar.

Twix-bitar

Twix-bitar

Sem upphitun fyrir ferðina var blásið til grillveislu hjá Valla og Silju í gær. Á gestalistanum voru júróvisjónfarar ásamt mökum og börnum og taldi hópurinn um 30 manns. Við Silja erum búnar að vera að skipuleggja veisluna undanfarna daga og vorum ánægðar með hversu vel til tókst.

Twix-bitar

Silja fékk þá góðu hugmynd að láta Valla grilla kjúklingabringur ofan í mannskapinn. Hún átti æðislega uppskrift að marineringu fyrir kjúkling og svo myndi hún setja kartöflubáta í ofn, gera salat og útbúa sósur. Silja hafði rétt fyrir sér, maturinn vakti stormandi lukku og ég verð að fá hana til að gefa uppskriftina að marineringunni og sósunum til að setja hingað á bloggið. Æðislega gott.

Twix-bitar

Ég tók að mér að sjá um eftirréttina. Ég ákvað að gera After Eight-köku sem ég hef bakað óteljandi sinnum í gegnum árin og þykir alltaf jafn góð. Á meðan ég var að baka hana furðaði ég mig á því hvernig ég hafi getað bloggað í tæpt ár án þess að hafa gefið þessa uppskrift. Hálfgerður skandall af minni hálfu. Ég hef gefið flestum sem ég þekki uppskriftina og verið beðin um að baka hana fyrir annara manna veislur og gleymi svo að setja hana hingað inn. Ég prufaði síðan nokkrar nýjungar og gerði eina barnaköku sem mamma gerir svo oft fyrir krakkana mína og er í miklu uppáhaldi.

Twix-bitar

Twix-bitar

Ég ætlaði að setja inn uppskriftina að After Eight-kökunni en Öggi og Malín eru búin að dásama Twix-bitana svo mikið að ég skipti um skoðun. Þau eru komin með þessa bita á heilann og ekki að ástæðulausu. Þetta heimagerða Twix er himneskt og það var bæði gaman að útbúa það og bera fram. Uppskriftin er æðisleg og ef þú smakkar þessa dásemd einu sinni þá áttu eftir að vilja gera þá aftur og aftur því þeir eru hættulega góðir.

Twix-bitar

Twix-bitar (uppskrift frá Bakverk och Fikastunder)

Botn:

 • 125 g mjúkt smjör
 • 4 dl hveiti
 • 0,5 dl sykur

Karamella:

 • 175 g smjör
 • 2 dl sykur
 • 3 dl rjómi
 • 0,5 dl sýróp

Yfir:

 • 200 g rjómasúkkulaði

Hnoðið hráefnunum í botninn saman og þrýstið í botninn á formi sem er ca. 20 x 30 cm. Bakið við 175° í 20 mínútur.

Setjið öll hráefnin í karamelluna í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í 45-50 mínútur. Til að sjá hvort að karamellan er tilbúin er gott að setja smá af henni í glas með ísköldu vatni. Ef það gengur að hnoða karamelluna í kúlu þá er hún tilbúin. Karamellan á að vera mjúk en hægt að rúlla henni saman. Hellið karamellunni yfir botninn og setjið í ískáp í ca 15 mínútur.

Bræðið súkkulaðið og hellið því yfir karamelluna. Látið kólna í ískáp og skerið síðan í bita.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ó, hvað það er alltaf notalegt að fá frídag í miðri viku. Að geta vakað lengur, sofið út og fengið langan helgarmorgunverð án þess að það sé helgi. Frábær hversdagslúxus.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Í dag er síðasti vetrardagur og því ákváðum við að vera með góðan kvöldverð. Eftir miklar vangaveltur féll valið á tælenskan. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þar sem ég átti kjúklingabringur lá beinast við að gera kjúklingarétt. Svo var jú mikilvæg að rétturinn yrði stórgóður. Það er jú síðasti vetrardagur og allt.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ég fékk þennan kvöldverð á heilann. Það var eins og við værum að fá kóngafólk í heimsókn og ég yrði að standa mig. Ég hugsaði um hann í allan dag og um leið og ég kom heim úr vinnunni tók ég fram það sem mig langaði að setja í réttinn og byrjaði að undirbúa. Sumt var ég ekki viss um en ákvað þó að láta vaða og á pönnuna fóru meðal annars hvítlaukur og lemon grass sem reyndust fara stórvel með græna karrýinu.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Úr varð besti tælenski réttur sem ég hef nokkurn tímann borið á borð. Mér þótti hann dásamlegur. Okkur þótti það öllum. Rétturinn var svo bragðgóður og yfir hann settum við hakkaðar salthnetur, vorlauk og ferskt kóriander sem fullkomnaði allt.  Okkur tókst að kveðja veturinn með stæl og á morgun ætlum við að bjóða sumarið velkomið með grillveislu. Vertu ávalt velkomið sumar, ég vona að þú dveljir sem lengst hjá okkur.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

 • 900 g kjúklingabringur
 • 2 msk rapsolía
 • 2 -2,5 msk green curry paste frá Thai Choice
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 tsk lemon grass frá Thai Choice
 • 1 tsk hrásykur
 • 2 msk fish sauce
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml.) frá Thai Choice
 • 1 sæt kartafla, skorin í teninga
 • salthnetur, grófsaxaðar
 • vorlaukur, skorin í sneiðar
 • ferskt kóriander
 • hrísgrjón
 • lime

Hitið olíu á pönnu og setjið hvítlauk og karrýmauk saman við. Steikið við miðlungsháan hita í 1 mínútu. Bætið kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram í aðra mínútu. Setjið fiskisósu, lemon grass og hrásykur á pönnuna og látið malla í 3-4 mínútur. Bætið sætum kartöflum á pönnuna og hellið kókosmjólk yfir. Látið sjóða þar til kartöflurnar eru soðnar.

Berið fram með hrísgrjónum, limebátum, salthnetum, vorlauk og fersku kóriander.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Blómkálshrísgrjón

Blómkálshrísgrjón

Mér skilst að nýjasta trendið sé hið svokallaða LKL-mataræði, eða lág kolvetna lífsstíllinn, og full af vilja til að hanga með ákvað ég að prófa. Ég keypti mér sænska bók (íslenska bókin var ekki komin út) sem ég las spjaldanna á milli og þóttist heldur betur til í slaginn. Þeir sem þekkja mig fengu stjórnlaust hláturskast þegar ég sagði þeim frá þessum plönum mínum og þau máttu líka hlægja. Ég entist í tvo og hálfan dag, sem mörgum þótti bara nokkuð gott. Ég fékk staðfest það sem mig hefur lengi grunað, að ég er kolvetna- og sykuróð. Mér þykja bara vera svo mikil lífsgæði að borða góðan mat. Í þessa rúmu tvo daga var ég í alvöru sorgmædd yfir því að geta ekki fengið mér kökusneið með kvöldkaffinu og ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda að sleppa því að fá mér nýbakað brauð um helgar. Mér fannst ég þurfa að kveðja svo margar gæðastundir með því að segja skilið við þessi góðgæti. Svo ég gafst upp, á mettíma.

Blómkálshrísgrjón

Ég fylgdi matarræðinu sem sagt í tvo daga og annað þessara kvölda útbjó ég blómkálshrísgrjón sem meðlæti með kvöldmatnum. Þau voru glettilega góð og þó ég fylgi ekki mataræðinu þá mun ég eflaust bjóða aftur upp á þau því krökkunum þóttu þau æðisleg. Og holl eru þau, því verður ekki neitað.

Blómkálshrísgrjón

 • 1 blómkálshaus
 • smá salt

Rífið blómkálið niður á grófasta hluta rifjárnsins. Sjóðið vatn og saltið. Setjið blómkálið í sjóðandi vatnið og látið sjóða í 5 mínútur.

Ljúffengur kjöthleifur á pönnu

Kjöthleifur á pönnu

Mér þykir eitthvað notalegt við kjöthleif með kartöflum og sósu en á erfitt með að setja fingurinn á hvað það er. Krakkarnir fagna alltaf þegar þau sjá að það er kjöthleifur í matinn og við Öggi erum ekki minna hrifin.

Kjöthleifur á pönnu

Þessi kjöthleifur er einfaldur heimilismatur sem er svo góður að það ætti að bjóða upp á hann í matarboðum. Þá væri hægt að breyta til og bera hann fram með kartöflumús. Eða jafnvel ofnbökuðum kartöflubátum og góðu fersku salati. Við gerðum okkur þó soðnar kartöflur og hrásalat að góðu og áttum ekki í neinum vandræðum með það. Stórgott.

Kjöthleifur á pönnu

 • 700 g blandað hakk (nautahakk og svínahakk)
 • 1 fínhakkaður laukur
 • 1 pressað hvítlauksrif
 • 1 msk kalvfond
 • 1 egg
 • 1 tsk salt
 • pipar

Sósan:

 • 1-2 msk balsamik sýróp
 • 3 dl vatn
 • 3 dl rjómi
 • 1 msk sojasósa
 • 2 msk kalvfond
 • ca 100-200 g rjómaostur
 • salt og pipar
 • 1 dós sveppir

Hrærið öllum hráefnunum í kjöthleifinn saman. Hitið pönnu í miðlungshita og bræðið smjör á henni. Setjið kjötblönduna á pönnuna og fletjið hana út í flata köku. Steikið við miðlunghita, notið disk til að snúa kjöthleifnum og steikið á hinni hliðinni. Skerið hann í sneiðar (eins og köku) til að sjá hvort kjöthleifurinn er steiktur í gegn.

Blandið saman vatni, rjóma, kalvfond og balsamiksýrópi og hellið yfir kjöthleifinn. Látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið nokkrar sneiðar af kjöthleifnum frá og hrærið rjómaostinum saman við sósuna. Bætið sveppunum út í og látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar. Setjið kjöthleifssneiðarnar aftur á pönnuna og berið fram beint af pönnunni með kartöflum og salati.