Innbakað nautahakk

Innbakað nautahakk

Í þessu fráleita vorveðri sem kvelur mig með nærveru sinni þessa dagana er þrennt sem fær mig til að brosa:

1. Á þriðjudaginn hitti ég saumaklúbbinn minn úti á Gróttu og við gengum þaðan niður í bæ í blíðskaparveðri. Þegar við komum í bæinn settumst við inn á Grillmarkaðinn og borðuðum æðislegan mat. Gott veður, stórgóður matur og frábær félagsskapur fullkomnuðu kvöldið og ég er enn í hamingjukasti.

2. Við Öggi erum að fara á árshátíð um helgina og ætlum að gista á hóteli. Við stefnum líka á fjallgöngu en ég verð að viðurkenna að veðurspáin dregur örlítið úr göngugleðinni. Ég er búin að fá mér nýjan kjól og varalit sem er klárlega út af fyrir sig ákveðið gleðiefni.

3. Innbakað nautahakk! Það þykir eflaust furðulegt gleðiefni en þegar ég sá hvað fjölskyldan var ánægð með þennan létta kvöldverð þá gat ég ekki annað en brosað.

Innbakað nautahakk

Innbakað nautahakk

 • 500 g nautahakk
 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 tsk salt
 • 3 msk tómatpuré
 • 1 tsk sambal oelek
 • 1 tsk oregano
 • 2 dl rifinn ostur
 • 2 plötur smjördeig
 • 1 egg
 • 1 msk smjör
 • timjan

Afhýðið og hakkið lauk og hvítlauk. Steikið laukana ásamt nautahakki í smjöri. Bætið salti, tómatpuré, sambal oelek og oregano saman við. Látið blönduna kólna.

Innbakað nautahakk

Rúllið smjördegsplötunum út og leggið aðra plötuna á smjörpappír. Setjið nautahakksblönduna ofan á smjördeigsplötuna og stráið osti yfir. Leggið seinni smjördeigsplötuna yfir og lokið fyrir endana. Penslið með eggi og stráið timjani yfir. Bakið við 200° í 25 mínútur. Berið fram með salati.

Syndsamlega góðar klessukökumuffins

Klessukökumuffins

Þessi helgi hefur einkennst af afslöppun og rólegheitum. Við höfum varla farið út fyrir húsins dyr og ættum að fara endurnærð inn í nýja viku. Ég lofaði uppskrift af klessukökumuffins á Facebook í gærkvöldi og núna hvet ég ykkur til að prófa þær.

Klessukökumuffins

Fyrir nokkrum árum voru þessar klessukökumuffins fastur liður í kvöldsnarlinu hjá okkur og ég man sérstaklega eftir einu sumrinu þegar við bjuggum í Uppsölum og borðuðum þær eins og enginn væri morgundagurinn. Það sumarið voru jarðaberin svo góð og ég var farin að gera kökurnar ósjálfrátt til að eiga með berjunum. Það var bara jafn sjálfsagt og að sjóða kartöflur með fiskinum. Þær voru hluti af rútínunni. Eftir að við vorum búin að borða skellti ég í kökurnar og þær bökuðust á meðan við gengum frá eftir matinn. Það voru góðir tímar.

Klessukökumuffins

Á fimmtuaginn dustaði ég rykið af uppskriftinni og bakaði kökurnar og í gærkvöldi endurtókum við leikinn. Það stefnir í annað klessukökutímabil og mér dettur ekki í hug að berjast gegn því. Þessar dásemdir mega vel vera á borðum hjá mér á hverju kvöldi því þær gera lífið örlítið ljúfara. Það besta er að hráefnið í kökurnar er svo einfalt að flestir eiga það alltaf til og það tekur enga stund að útbúa þær. Ég hef ýmist vanilluís eða þeyttan rjóma og jarðaber með kökunum, það gerir þær ómótstæðilegar. Prófið!

Klessukökumuffins

Klessukökumuffins (12 kökur)

 • 100 g smjör
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 1,5 dl hveiti
 • 1 dl kakó
 • 1 msk vanillusykur
 • 1/4 tsk lyftiduft

Bræðið smjörið. Blandið öllum þurrefnum saman og hrærið smjörinu síðan saman við. Hrærið eggjunum síðast í deigið. Skiptið deiginu í um 12 muffinsform og bakið við 175° í um 12-15 mínútur.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

 Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Þar sem ferðaþreytan hefur setið í okkur þessa vikuna vorum við staðráðin í að gera vel við okkur í lok hennar með góðum föstudagsmat. Tælenskt er í miklu uppáhaldi og þar sem það var orðið langt síðan ég eldaði núðlur urðu þær fyrir valinu.

Jakob er feikna mikill matgæðingur og er alltaf spenntur fyrir því að prófa nýjungar. Núðlur og núðlusúpur eru þó nokkuð sem hann gæti vel lifað á og þegar ég stakk upp á því að hafa núðlur í föstudagsmatinn þá var hann meira en til.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Jakob kallar ekki allt ömmu sína í þessum efnum og ég var því sérlega ánægð þegar hann sagði þetta örugglega bestu núðlur sem hann hafi smakkað. Við vorum öll sammála honum um að maturinn væri stórgóður og það var vel borðað, svo vel að Jakobi var hætt að lítast í blikuna. Honum var svo í mun að maturinn myndi ekki klárast því hann langaði að eiga afgang daginn eftir. Ég bar réttinn fram með grófhökkuðum kasjúhnetum og strákarnir fengu sér auka sweet chillisósu á diskkantinn.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Mér þykir þetta vera ekta föstudagsmatur því hann er bæði einfaldur og æðislega góður. Afganginn af sweet chillisósunni er síðan kjörið að nota sem ídýfu með því að setja hann ofan á sýrðan rjóma eða Philadelphia ost og bera fram með nachoflögum. Sjúklega gott!

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

 • 1 pakki Thai choice rice noodles
 • 7 hvítlauksrif
 • 2 stórar kjúklingabringur
 • 4 msk kartöflumjöl
 • 1 rauð paprika
 • 1 rauður laukur
 • 1 púrrulaukur
 • 1 spergilkálhaus
 • 1 dl Thai choice ostrusósa
 • 1 tsk fiskisósa
 • 5 msk Thai choice sweet chillisósa
 • 2 dl vatn
 • 1 tsk sykur
 • 50 g grófhakkaðar kasjúhnetur

Skerið kjúklingabringurnar í strimla og blandið þeim saman við kartöflumjölið. Skerið laukinn í þunna báta, paprikuna og púrrulaukinn í strimla og spergilkálið í bita. Afhýðið og hakkið hvítlauksrifin.

Hitið rapsolíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er næstum fulleldaður. Bætið hökkuðum hvítlauk, rauðlauk og spergilkáli á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur til viðbótar. Bætið ostrusósu, sweet chillisósu, fiskisósu, sykri og vatni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Bætið papriku og púrrulauk á pönnuna, sjóðið í 3 mínútur til viðbótar og takið svo pönnuna af hitanum.

Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Setjið núðlurnar í pottinn og sjóðið þær í 3 mínútur. Hellið þeim í sigti og skolið þær með köldu vatni. Látið renna vel af núðlunum og bætið þeim síðan á pönnuna. Blandið öllu vel saman og berið fram með grófhökkuðum kasjúhnetum.

Dásamlega góð sósa

Þegar við lentum í Leifsstöð á sunnudagskvöldinu var tekið á móti okkur með blómum sem hafa fegrað heimilið þessa vikuna. Ég bind miklar vonir við að þau standi alla helgina og ætla að leyfa þeim að fegra síðuna í dag.

Dásamlega góð sósa

Á þessum árstíma er ég farin að bíða eftir nýrri kartöfluuppskeru eins og barn bíður eftir jólunum. Mér þykja nýjar kartöflur svo æðislega góðar en að sama skapi lítið varið í kartöflurnar sem eru í búðunum núna. Við vorum reyndar óheppin þegar við versluðum inn á mánudaginn því kartöflurnar í búðinni voru ljótar og nautahakkið búið. Okkur langaði til að hafa kjötbollur í matinn og enduðum á að kaupa frosnar kjötbollur og skársta kartöflupokann sem við fundum. Í kvöld voru herlegheitin dregin fram, kartöflurnar soðnar og frosnu kjötbollunum raðað á ofnplötu. Til að fela hversu óspennandi kartöflurnar voru gerði ég kartöflumús og bjó síðan til sósu sem ég held að geti bjargað hvaða máltíð sem er.

Dásamlega góð sósa

Mér finnst ekki hægt að líkja heimagerðum kjötbollum saman við keyptar. Meira að segja krakkarnir höfðu strax orð á því að kjötbollurnar væru ekki eins góðar og venjulega. Ég hef sett inn uppskriftir af kjötbollum og buffum (t.d. hér, hér og hér) sem ég mæli með að þið prófið. Það er einfalt og alls ekki eins seinlegt og maður skyldi halda.

Dásamlega góð sósa

Þessi sósa er svo æðislega góð að þið verðið að prófa hana. Ég er viss um að ég hafi sett uppskriftina áður hingað inn en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Ég geri hana oft þegar ég er með heilsteiktan kjúkling og hún fer líka stórvel með kjötbollunum. Prófið!

Dásamlega góð sósa

Dásamlega góð sósa

 • 1 dós sýrður rjómi (1,5 dl)
 • 1 peli rjómi (2,5 dl)
 • 1 kjúklingateningur
 • 1 msk sojasósa
 • 1 msk rifsberjahlaup
 • salt og hvítur pipar
 • maizena til að þykkja

Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur. Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Þreytan ætlar að sitja í okkur þessa vikuna og eftir að ég kem heim á daginn vil ég helst bara slappa af hér heima og dunda mér í eldhúsinu.

Eins og svo oft eftir utanlandferðir þá stóð fiskur ofarlega á óskalistanum um kvöldmat hjá okkur. Þó að ég hefði helst viljað kaupa plokkfisk þá eru krakkarnir búin að fá nóg af honum í bili (sem mér þykir með öllu óskiljanlegt) og því keypti ég ýsuflök. Ég átti sveppi og púrrlauk í ískápnum og á sveimi mínum um búðina datt mér í hug að kaupa paprikusmurost og nota í sósu. Allt fór þetta ákaflega vel saman og úr varð frábær fiskréttur sem kláraðist upp til agna.

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

 • ýsa eða þorskur, magn eftir fjölda matargesta (ég var með rúm 800 g)
 • 1 box paprikusmurostur (250 g)
 • 1 box sveppir (250 g)
 • 1 púrrulaukur
 • 2,5 dl rjómi + 0.5 dl mjólk (eða 3 dl matreiðslurjómi)
 • 1 grænmetisteningur
 • smá cayenne pipar (farið varlega því hann er sterkur! Ég nota um 1/8 úr teskeið)
 • krydd lífsins frá Pottagöldrum (eða önnur krydd eftir smekk)
 • rifinn ostur

Hitið ofninn í 175°.

Sneiðið sveppi og púrrlauk. Hitið olíu á pönnu og steikið sveppina og púrrlaukinn. Kryddið með kryddi lífsins (eða öðrum kryddum) og hellið rjóma yfir. Hrærið smurostinum saman við í skömmtum og bætið svo grænmetisteningi út í. Leyfið sósunni að sjóða við vægan hita á meðan fiskurinn er undirbúinn.

Skolið og þerrið fiskinn og leggið í eldfast mót. Kryddið með pipar og salti og hellið síðan sósunni yfir. Setjið rifinn ost yfir og eldið í 20 mínútur, eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Þá erum við komin heim eftir frábæra eurovision-ferð. Öll plön um að blogga síðustu dagana fuku út í veður og vind þegar krakkarnir komu út til okkar og í staðin nýttum við hverja stund í að gera eitthvað skemmtilegt. Veðrið var svo gott að ég gat ómöglega slitið mig frá þeim til að fara inn að blogga. Ég var þó mikið á Instagram og setti margar myndir á dag þangað inn.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Ég fékk fallega tölvupósta frá mörgum ykkar sem hittu mig beint í hjartastað. Ég er svo þakklát fyrir að þið gefið ykkur tíma og sendið mér línu. Ég fékk bæði ábendingar um skemmtilegar verslanir í Malmö (Alma, ég fann ekki búðina þína! Langaði svo til að kíkja á hana og dró krakkana með mér í tóma vitleysu í von um að finna hana) og skemmtilega veitingastaði. Í kvöld ætla ég að setjast niður og svara bæði tölvupóstum og kommentum. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki gefið mér tíma til þess fyrr.

Þó að ferðin hafi verið æðisleg þá jafnast ekkert á við að koma aftur heim. Ég var farin að þrá að dunda mér í eldhúsinu og að borða heimalagaðan mat. Ég keypti matreiðslublöð á Kastrup sem ég las í þaula á leiðinni heim og eftir flugið var ég með fullt af nýjum hugmyndum til að prófa.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Við eyddum gærdeginum í rólegheitum hér heima, tókum upp úr töskunum, fengum gesti og versluðum inn. Öggi fór með strákana í sund seinnipartinn og á meðan eldaði ég kvöldmat. Fyrir valinu varð kjúklingalasagna sem kom skemmtilega á óvart og féll vel í kramið hjá okkur öllum, sérstaklega svöngum sundgörpum sem ætluðu ekki að hætta að borða.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

 • 3 kjúklingabringur (ca 600 g)
 • ólívuolía
 • 1 laukur, hakkaður
 • 4 hvítlauksrif
 • 150 g sveppir, sneiddir
 • 150 g spínat
 • 200 g parmesan (1 pakkning), skorinn með ostaskera eða kartöfluflysjara í þunnar sneiðar
 • 160 g rifinn mozzarellaostur (1 poki)
 • 400 g pastasósa eða góð tómatsósa
 • lasagnaplötur

Setjið kjúklingabringurnar í pott með vatni og sjóðið þar til þær eru soðnar í gegn (um 10-15 mínútur). Takið kjúklinginn úr pottinum og sneiðið hann niður í þunna bita.

Hitið ólívuolíu á pönnu við miðlungshita. Setjið hakkaðan lauk á pönnuna og steikið við miðlungshita þar til hann er mjúkur, um 5-6 mínútur. Bætið sneiddum sveppum á pönnuna og steikið í aðrar 3-4 mínútur. Bætið pressuðum hvítlauksrifum og spínati á pönnuna og steikið þar til spínatið er orðið mjúkt. Bætið sneiddum kjúklingabringum á pönnuna og takið hana af hitanum. Hrærið um 50 g af parmesan og 50 g af mozzarella saman við.

Smyrjið eldfast mót og leggið eitt lag af lasagnaplötum í botninn, síðan eitt lag af kjúklingablöndunni, pasta/tómatsósunni og af báðum ostunum. Endurtakið eins oft og hráefnið leyfir (ég náði 4 lögum). Endið á ostinum.

Bakið við 175° í 35 mínútur. Látið standa í nokkrar mínútur og berið síðan fram með góðu salati og jafnvel hvítlauksbrauði.

Ein mynd á klukkustund

Góðan dag! Er að prófa að blogga úr símanum. Ef það virkar datt mér í hug að uppfæra bloggið með nýrri mynd á klukkustundar fresti í dag. Sjáum hvort þetta gengur 🙂

20130515-094043.jpg
Morgunmaturinn á hótelinu er frábær. Við fáum okkur alltaf það sama, ég hrökkbrauð með skinku og osti, linsoðið egg, hindberjajógúrt með múslí og appelsínudjús og Öggi fær sér beikon og egg. Stórgóð byrjun á deginum.

20130515-105618.jpg
Út að prófa leiktækin sem eru fyrir utan hótelið okkar. Öggi var skynsamur og sat hjá á meðan ég fékk að finna fyrir því.

20130515-120403.jpg
Jakob svalar þorstanum á meðan við bíðum eftir strætó. Leiðin liggur í bæinn.

20130515-130428.jpg
Það er heitt í dag en smá vindur. Við kælum okkur niður með ís.

20130515-135532.jpg
Malín vill fara í HM. Gunnar styttir sér stundir á meðan og prófar hatta.

20130515-150358.jpg
Við förum aftur heim á hótel. Það ganga sérstakar eurovisionrútur um borgina fyrir okkur sem erum með aðgangspassa. Strákarnir eru spenntir fyrir rútuferðinni og vonast til að hitta eurovisionstjörnur um borð.

20130515-155518.jpg
Það voru engar stjörnur um borð í eurovisionrútunni og ferðinn heim tók bara nokkrar mínútur. Við röltum yfir á ströndina sem er við hótelið og fáum okkur að borða þar.

20130515-170007.jpg
Við Öggi höfum fengið okkur þetta cesarsalat áður í ferðinni. Það er æði og við pöntum það eina ferðina en.

20130515-170215.jpg
Öggi þarf að fara á æfingu í höllinni. Við tökum rútuna með hópnum upp í höll en tökum stefnuna svo á verlunarmiðstöðina sem er þar við hliðina á. Þar eigum við nefnilega stefnumót.

20130515-180308.jpg
Kvöldmatur. Tælenskt fyrir mig og Jakob, hamborgara fyrir hina. Strákarnir vilja sitja úti á svölum með lituðu gleri sem veldur því að myndin verður furðuleg á litin.

20130515-195613.jpg
Það er pása hjá hópnum. Öggi og Beggi koma og hitta okkur.

20130515-210242.jpg
Við röltum um og kíkjum í búðir. Malín kaupir sér snyrtivörur og er alsæl.

20130515-215005.jpg
Unnur kaupir grínhnífa handa strákunum. Þeir eru í skýjunum.

20130515-215427.jpg
Við tökum eurovisionrútuna heim á hótel og erum eina fólkið í henni.

20130515-223646.jpg
Krakkarnir eru þreyttir eftir daginn. Þau fara upp á herbergi en ég hleyp yfir í stórmarkaðinn sem er á móti hótelinu og kaupi drykki og snarl.

20130515-230016.jpg
Öggi kemur til baka frá höllinni. Hann kemur alltaf upp með drykki handa okkur á kvöldin og þó að klukkan sé orðin margt þá heldur hann í hefðina. Núna ætlum við aðeins að horfa á sjónvarpið áður en við sofnum. Það er stór dagur á morgun og við erum full tilhlökkunnar. Við kveðjum í dag.

20130516-000321.jpg