Vikan sem leið og frábær sumarkaka

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Vikan sem leið var viðburðarík þrátt fyrir að ég hafi legið í flensu meira eða minna alla vikuna. Öggi og krakkarnir voru hress og skelltu sér í miðnæturhlaupið á mánudagskvöldinu. Á meðan sat ég heima, horfði á sjónvarpið og borðaði kassa af litlum Lindubuffum. Það sem ég naut mín. Hlaupagarparnir nutu sín líka og komu alsælir heim. Með á myndinni er Auður Hrönn, vinkona Malínar.

Hlaupagarpar

Tengdó hafa verið í fríi á Ítaliu og komu heim í vikunni. Við vorum spennt að hitta þau og buðum þeim í lasagna, án þess að átta okkur á því að þau væru eflaust komin með nóg af ítölskum mat. Þau þvertóku fyrir að hafa fengið lasagna í ferðinni og gerðu sér matinn að góðu.

Lasagna!

Tengdamamma hugsar alltaf svo vel um mig og gaf mér matreiðslublöð sem hún náði að kaupa þegar hún millilenti í Kaupmannahöfn. Það væri ekki amalegt að gæða sér á kökunum á forsíðunum.

Ný tímarit

Ég bakaði köku sem lofaði góðu en misheppnaðist. Krakkarnir voru þó ekki á sama máli og sögðu hana stórgóða.

Þau fóru langt með að klára hana.

Það fjölgaði í fjölskyldunni þegar tengdó fengu loksins hvolpinn sinn. Hvolpurinn fékk nafnið Sunna og hefur heillað okkur öll upp úr skónum.

Sunna

Föndur fyrir útskriftarköku. Eyþór bróðir útskriftaðist sem hagfræðingur frá Copenhagen Business School á dögunum og blés til veislu í gær.

Ég bakaði köku – uppskriftin er væntanleg!

Í dag átti Öggi síðan afmæli og við buðum fjölskyldunni í kaffi og kruðerí. Ég gerði köku sem vakti rífandi lukku og það er óhætt að segja að hún sé komin í uppáhald. Kakan er einföld, falleg og dásamlega góð.

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum (uppskrift úr Buffé nr. 6, 2012)

 • 1 dós sæt niðursoðin mjólk (400 g) eða tilbúin dulce de leche í krukku (fæst t.d. í Hagkaup)
 • 150 g smjör
 • 300 g digestivekex
 • 1 l. jarðaber
 • 1 poki (100 g) daimkúlur eða 3 fínhökkuð daim
 • 3 dl rjómi

Karamellan (ef notuð er tilbúin Dulce de leche er hoppað yfir þetta skref): Leggið óopnaða dós með sætri niðursoðinni mjólk í stóran pott. Hellið vatni yfir svo það nái vel yfir dósina. Látið sjóða við vægan hita í 2½ klst. án þess að vera með lok á pottinum. Passið að vatnið sé alltaf yfir dósinni, það gæti þurft að bæta vatni í pottinn þegar líður á tímann.

Takið heita dósina úr pottinum og kælið undir köldu vatni. Látið dósina kólna alveg áður en hún er opnuð. Núna er niðursoðna mjólkin orðin að karamellu.

->  það er hægt að kaupa karamelluna tilbúna í krukkum. Þá heitir hún Dulce de leche sauce.

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Smyrjið 24 cm form með lausum botni eða klæðið botninn með smjörpappír. Bræðið smjörið. Myljið digestivekexið í matvinnsluvél. Hellið smjörinu saman við og vinnið saman við kexmylsnuna. Þrýstið kexblöndunni í botninn á forminu og látið svo harðna í ísskáp í um klukkustund.

Hellið karamellunni yfir kexbotninn. Þeytið rjómann og blandið 2/3 af daimpokanum saman við. Breiðið rjómann yfir karamelluna. Leggið jarðaberin yfir og stráið restinni af daim yfir. Látið kökuna standa í ísskáp þar til hún er borin fram.

Banana- og súkkulaðikaka

ÍsgerðinVið höfum verið dugleg að heimsækja ísbúðirnar undanfarnar vikur. Þegar það er bjart langt fram eftir kvöldi þykir okkur svo gaman að renna í ísbíltúr eftir kvöldmat. Í vikunni skelltum við okkur í uppáhaldsísbúðina okkar, Ísgerðina, og fengum svo góðar móttökur að ég má til með að hrósa þeim fyrir góða þjónustu.

Ísgerðin

Ísgerðin er með fjölbreytt úrval af jógúrtís sem er léttur í maga og okkur þykir sérlega góður. Bragðtegundirnar eru breytilegar og þegar ég spurði fékk ég að vita að þeir eru með um 40 bragðtegundir sem þeir skiptast á að nota. Síðan er hægt að setja nammi, íssósur og ferska ávexti út á ísinn. Æðislega gott!  Afgreiðslumaðurinn var svo almennilegur að bjóða okkur innfyrir að skoða og þar var allt til fyrirmyndar, svo snyrtilegt og hreint, eins og það á að vera. Ég má því til með að mæla með heimsókn í Ísgerðina ef þið ætlið í ísbíltúr um helgina.

Ísgerðin

Önnur góð hugmynd fyrir helgina er að baka þessa banana- og súkkulaðiköku. Hún er stórgóð og fer ljómandi vel með helgarkaffinu.

Banana- og súkkulaðikaka

Banana- og súkkulaðikaka (uppskrift frá Mästerkocken)

 • 125 g smjör
 • 3 egg
 • 2 dl sykur
 • 2 dl súrmjólk
 • 4 dl hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 2 bananar
 • 2 msk kakó

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið smjörið í blönduna og bætið súrmjólk saman við. Blandið hveiti, lyftidufti og matarsóda saman og hrærið saman við deigið.

Skiptið deiginu í tvær skálar. Stappið bananana og blandið þeim í helminginn af deiginu og setjið kakó í hinn helminginn.

Smyrjið formkökuform.  Hellið bananadeiginu og kakódeiginu á víxl í formið. Gerið að lokum mynstur í deigið  með gaffli. Bakið í neðri hluta ofnsins í um 1 klst.

Banana- og súkkulaðikaka

Tælenskt kjúklingasalat

Tælenskt kjúklingasalat

Yfir vetrartímann hef ég súpu í hverri viku í matinn en þegar fer að hlýna skiptum við ósjálfrátt yfir í salat. Þó það hafi farið lítið fyrir sumrinu hér á höfuðborgarsvæðinu þá hefur gripið um sig mikið salatæði á heimilinu. Þetta kjúklingasalat hefur verið í miklu uppáhaldi í gegnum tíðina og þar þykir mér mestu skipta að nota góða satay sósu. Ég hef prófað margar tegundir en er hrifnust af sósunni frá Thai Choice. Mér þykir hún langbest og á hana alltaf til í skápnum. Upp á síðkastið höfum við þó fengið æði fyrir nýju salati sem gefur öðrum ekkert eftir og við fáum ekki nóg af því.

Tælenskt kjúklingasalat

Það sem að gerir salatið ómótstæðilegt er sósan því hún er einfaldlega himnesk. Upp á síðkastið hef ég brugðið á það ráð að skera niður hráefnið í salatið og bera það fram í litlum skálum. Hver og einn raðar svo saman sínu salati. Bæði myndar það skemmtilega stemmningu við matarborðið og allir fá það sem þeir vilja í salatið sitt. Það er svo gaman að fylgjast með því hvernig krakkarnir gera salatið sitt og það hefur komið mér á óvart hvað þau eru frökk og áhugasöm að prófa nýjar samsetningar.

Tælenskt kjúklingasalat

Sósan hefur vakið slíka lukku að við erum farin að nota hana á meira á kjúklingasalatið. Hér setti ég hana t.d. yfir kjúklingavængi við miklar vinsældir. Ég steikti kjúklinginn aðeins á pönnu, saltaði og pipraði, raðaði í eldfast mót og hellti sósunni yfir. Inn í 190° heitan ofn í 25-30 mínútur. Stráði síðan kóriander og salthnetum yfir og bar fram. Dásamlega gott.

Tælenskt kjúklingasalat

Ég satt að segja veit ekki hvaðan uppskriftin kemur upprunalega en ég hef séð hana víða á erlendum bloggum. Kannski er þetta ný tískuuppskrift í bloggheimum? Ekki yrði ég hissa því góð er hún, svo mikið er víst.

Tælenskt kjúklingasalat

 • kjúklingabringur
 • salt
 • pipar

Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og kryddið með salti og pipar.

Tælenskt kjúklingasalat

Sósan:

 • 1 bolli Thai Choice sweet chili sauce
 • ½ bolli rice vinegar
 • ½ bolli Thai Choice lite coconut milk
 • 6 msk púðursykur
 • 4 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 msk hnetusmjör
 • 2 tsk engifer, rifið
 • safinn úr 2 lime
 • 1 msk Thai Choice soya sósa

Setjið öll hráefnin í pott, hrærið þeim saman og látið suðuna koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 3-4 mínútur. Takið af hitanum og hellið helmingnum af sósunni yfir kjúklingabringurnar. Geymið hinn helminginn sem dressingu yfir salatið. Eldið kjúklingabringurnar í 190° heitum ofni í 25-30 mínútur.

Tælenskt kjúklingasalat

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er kjörið að skera niður það sem á að fara í salatið. Það er ekkert heilagt hér en mér þykir sérlega gott að hafa ferskan kóriander, gott kál (ef þið notið iceberg þá mæli ég með að skera það niður og láta það liggja í ísköldu vatni áður en það er borið fram. Kálið verður svo stökkt við það), vorlauk og salthnetur. Okkur þykir líka gott að hafa er mangó, gulrætur, rauða papriku, rauðlauk, gúrku og kirsuberjatómata.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann skorinn í sneiðar eða tættur í sundur. Raðið salatinu á disk eða fat, setjið kjúklinginn yfir, hellið sósunni yfir kjúklinginn og toppið með salthnetum, vorlauk og kóriander.

 Ef það verður afgangur af sósunni, setjið hana í lokað ílát og geymið í ískáp í allt að tvær vikur.

Vikan sem leið og stórgóður fiskréttur

Ég má til með að þakka fyrir allar kveðjurnar sem þið hafið sent mér í tilefni af ársafmæli bloggsins. Þær hafa yljað mér inn að hjartarótum og fegrað lífið síðustu daga.

Eitt af því sem er skemmtilegt við það að blogga er að við tökum fullt af myndum. Þegar ég skoða í gegnum myndasafnið slær það mig hins vegar að meiri hluti þeirra er af mat. Það er eins og lífið snúist um mat hjá okkur. Við gerum þó ýmislegt fleira en að elda, mynda og borða mat. Í síðustu viku tókum við til dæmis upp á því, ásamt fjölmörgum öðrum Kópavogsbúum, að skella okkur á 17. júní hátíðarhöldin á Rútstúni.

17. júní

Það var napurt en félagsskapurinn var góður og við skemmtum okkur konunglega. Þegar við komum heim eldaði ég kjúklingasúpu sem við borðuðum undir sæng í sjónvarpssófanum. Notalegra gerist það varla.

17. júní

Á fimmtudaginn gengum við Öggi á Móskarðshnjúka ásamt gömlum og nýjum göngufélögum. Ég var staðráðin í að ganga á Móskarðshnjúka í sumar og þegar vinnufélagi minn stakk upp á göngunni vorum við Öggi því fljót að slá til.

Móskarðshnjúkar

Það var hvasst en fallegt veður, bratt á köflum og þreytan var farin að segja til sín þegar við nálguðumst toppinn.

Móskarðshnjúkar

Fallegust og duglegust í hópnum var Katla.

Móskarðshnjúkar

Útsýnið var stórbrotið og þreytan hvarf sem dögg fyrir sólu þegar upp á topp var komið. Þegar við komum heim fór ég í heita sturtu, náttslopp og fékk mér pulsu og súkkulaðirúsínur.  Öggi segir oft að ég kunni að gera vel við mig og þar hefur hann rétt fyrir sér. Það hefði fátt getað toppað þessa máltíð og náttsloppurinn gerði stundina örlítið notalegri.

Móskarðshnjúkar

Um helgina nutum við veðurblíðunnar og fórum á flakk um bæinn. Strákarnir skemmtu sér konunglega, eins og þeim er von og vísa.

Strákarnir

Við fórum líka á hjólabrettasvæðið en þeir eru að æfa sig á hjólabretti, mér til mikillar mæðu og taugaveiklunar.

Strákarnir

Eftir daginn þótti okkur gott að koma heim. Ég bjó til hamborgara sem að Öggi grillaði og úr varð dýrindis máltíð. Uppskriftin er væntanleg!

Grillaðir hamborgarar

Eftir þetta höfum við nánast bara myndað mat. Ég er því að hugsa um að bregða á það ráð að birta hér á blogginu svipmyndir frá hversdagslífinu oftar, jafnvel í lok hverrar viku, og vonast til að það verði til þess að við myndum það oftar. Að lokum gef ég uppskrift af stórgóðum fiski sem var á boðstólnum í vikunni. Uppskriftin kemur frá mömmu og er góð eftir því.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum (uppskrift frá mömmu)

 • 6-800 g ýsa eða þorskur
 • 1 góður blaðlaukur
 • 250 g sveppir (1 box)
 • 1 bolli rifinn ostur
 • 2,5 dl rjómi  eða matreiðslurjómi
 • 2 msk sveppasmurostur (má sleppa en ég bætti við og notaði 4-5 msk)
 • ½ – 1 sítróna
 • 1-1½ tsk aromat

Kreistið sítrónu yfir fiskflökin og kryddið með aromatkryddinu. Látið standa um stund.

Skerið fiskinn í bita og raðið í eldfast mót. Sneiðið blaðlaukinn og mýkið í olíu á pönnu, takið af og steikið sveppina í smá stund. Hellið þá rjómanum yfir, setjið rifna ostinn út í ásamt sveppasmurostinum og látið sjóða þar til hann er bráðinn. Bætið loks blaðlauknum á pönnuna og kryddið með aromatkryddi eftir smekk. Hellið þessu síðan yfir fiskinn og bakið við 190° í 15-20 mínútur.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Bloggið 1. árs!

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Mér þykir ótrúlegt að hugsa til þess að í dag sé litla bloggið mitt orðið eins árs. Á þessu fyrsta ári hefur bloggið vaxið og dafnað, daglegar heimsóknir sem voru í byrjum örfáar eru í dag um 15 þúsund á bestu dögum og það gleður mig inn að hjartarótum hvað þið hafið skilið falleg spor eftir ykkur.

Bloggið væri ekkert án ykkar og það gleður mig á hverjum degi að þið lítið við hjá mér á vafri ykkar um netið. Mér þykir svo gaman að skrifa ykkur og ég stend mig að því þegar ég borða góðan mat að hlakka til að setja uppskriftina á bloggið. Mér þykir gaman að deila með ykkur uppskriftum sem að mér þykja góðar og ég hef réttlætt kaup á nýjum matreiðslubókum með þeim rökum að við erum svo mörg sem náum að nýta uppskriftirnar. Pínu galið, en alveg dagsatt.

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Mér þykir óendanlega vænt um allar kveðjur, tölvupósta og komment sem að þið hafið sent mér og þegar þið heilsið mér á förnum vegi fyllist ég af gleði. Það er svo gaman að fá andlit við bloggheimsóknirnar og ég dáist að ykkur sem hafið stigið fram og heilsað mér. Að gefa sér tíma í dagsins amstri til að staldra við og hrósa öðrum er aðdáunarvert og til fyrirmyndar.

Afmælinu ber að fagna, það er ekki spurning! Helst hefði ég viljað blása til veislu og bjóða ykkur öllum í köku og kaffi, en það væru eflaust öfgafull viðbrögð á eins árs bloggafmæli. Í staðin hófum við daginn á glettilega góðum vöfflum sem við nutum í sólinni úti á palli. Í tilefni dagsins fær síðan svo smá upplyftingu.

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Öggi kom mér á óvart og gaf blogginu logo sem hann hafði hannað í afmælisgjöf. Þið sjáið það hér efst á síðunni, á nýju forsíðumyndinni. Hugsunin á bak við hönnunina er sú að logoið eigi að líta út eins og stimpill og stjörnuna setti hann efst því hann veit hvað ég er hrifin af þeim. Mér þykir hönnunin svo falleg hjá honum og logoið hefði ekki getað verið fullkomnara. Takk elskan.

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma (uppskrift frá The sisters café)

 • 1 bolli fínmalað spelt
 • 1 msk lyftiduft
 • ¾ tsk salt
 • ½ bolli crunchy hnetusmjör
 • ¼ bolli sykur
 • 4 msk smjör, brætt
 • 2 egg
 • 1 bolli mjólk
 • ½ bolli grófhakkað suðusúkkulaði (ég notaði Konsum dropa frá Nóa Síríus)

Blandið hveiti lyftidufti og salti saman í skál.

Hrærið hnetusmjör og sykur saman í annarri skál þar til blandan verður mjúk og kremkennd, bætið þá bræddu smjöri saman við. Hrærið eggjum út í, einu í einu, og hrærið þar til deigið er orðið mjúkt og kekkjalaust. Hrærið þurrefnablöndunni varlega saman við og hrærið þar til deigið er kekkjalaust en passið að ofhræra ekki. Hrærið súkkulaðibitunum saman við.

Látið deigið standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið bakið úr því. Deigið þykknar örlítið við það. Bakið vöfflurnar á heitu vöfflujárni og berið þær fram með banarjóma.

Bananarjómi

 • 2 stórir bananar
 • ¼ bolli sykur
 • ½ tsk kanil
 • ½ tsk sítrónusafi
 • 1 bolli rjómi (1 peli)

Stappið bananana í lítilli skál og setjið sykur, kanil og sítrónusafa saman við þá. Þeytið rjómann í annarri skál. Blandið bananablöndunni saman við þeytta rjómann og berið strax fram. Mér fannst passlegt að nota helming af bananablöndunni út í rjómann – smakkið ykkur áfram.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Mér þykir þessi tími ársins alltaf svolítið ruglingslegur. Krakkarnir eru í sumarfríi en við Öggi ekki. Við hegðum okkur samt eins og við séu í fríi, förum allt of seint að sofa, borðum aðeins betri mat og lifum afslappaðra lífi.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Við einfaldlega leyfum okkur meira og undanfarna daga hef ég bakað daglega. Mér þykir fátt jafnast á við það að fá hamingjusöm börn inn á kvöldin og setjast niður með þeim yfir nýbakökuðu bakkelsi. Heyra sögur frá deginum og njóta þess að fá smá gæðatíma saman áður en þau fara að sofa.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Það hefur gripið um sig kleinuhringjaæði hjá mér og ég fæ ekki nóg af þeim. Það er svo gaman að baka kleinuhringi og enn skemmtilegra að bera þá fram. Ég hef bakað kleinuhringina hennar Nönnu (sjúklega góðir!) all oft upp á síðkastið og gæti vel gert mér þá að góðu það sem eftir er.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Í gær breytti ég þó út af vananum og bakaði bananakleinuhringi með súkkulaðiglassúr. Uppátækið sló í gegn hjá krökkunum og  Gunnar sagðist aldrei hafa smakkað neitt jafn gott. Ég hef það á tilfinningunni að ég eigi eftir að baka þessa ansi oft í sumar.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Bananakleinurhringir með súkkulaðiglassúr – uppskriftin gefur 16 kleinuhringi (uppskrift frá Heather Christo Cooks)

 • 2 bollar hveiti
 • 1 ¼ bolli sykur
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • ½ tsk kanil
 • ¼ tsk múskat
 • ¾ bolli súrmjólk
 • ½ bolli stappaður banani (ca 1 banani)
 • 2 egg
 • 2 tsk vanilludropar (ég notaði vanillusykur)
 • 4 msk smjör

Súkkulaðiglassúr

 • ½ bolli rjómi (ég myndi byrja með ¼ bolla og bæta síðan við eftir þörfum)
 • 110 g hakkað dökkt súkkulaði
 • 2 msk sýróp

Hitið ofninn í 175° og spreyið kleinuhringjamót með olíu.

Bræðið smjör í litlum potti og látið það sjóða við vægan hita þar til það hefur brúnast (passið þó vel að brenna það ekki). Setjið til hliðar og látið kólna aðeins.

Blandið öllum þurrefnum saman í stóra skál.

Blandið saman súrmjólk, stöppuðum banana, eggjum og vanilludropum í skál. Setjið blönduna saman við þurrefnin og hrærið vel saman. Bætið brúnuðu smjörinu saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel.

Setjið deigið í kleinuhringjamótið (mér þykir gott að setja deigið í poka, klippa af einu horninu og sprauta deiginu í mótið), fyllið  2/3 af hverri holu. Bakið kleinuhringina í 8-10 mínútur eða þar til þeir eru bakaðir í gegn en þó mjúkir að utan. Mér þykir gott að prufa að þrýsta á þá, ef kleinuhringurinn gefur aðeins eftir en lyftist strax aftur upp þá er hann tilbúinn. Látið kleinuhringina kólna áður en glassúrin er settur á.

Glassúr: Setjið rjóma og hakkað súkkulaði í pott og hitið að suðu. Bætið sýrópinu saman við og takið pottinn af hitanum. Hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og glassúrin er orðin sléttur og glansandi.

Dýfið kleinuhringjunum ofan í glassúrinn og njótið.

Karamellufylltur súkkulaði- og salthnetudraumur

Ævintýralegur súkkulaði- og salthnetudraumur Gleðilegan þjóðhátíðardag! Mér þykir 17. júní alltaf svo hátíðlegur og dreymir um að vera með fánastöng í garðinum til að geta flaggað. Sólin hefur látið sjá sig af og til hér fyrir utan eldhúsgluggann í morgun og ég vona að hún heiðri okkur með nærveru sinni í dag.Ævintýralegur súkkulaði- og salthnetudraumur Mér þykir tilheyra svona dögum að fá gott með kaffinu. Rjómapönnukökur og hnallþórur svíkja seint en stundum er gaman að bregða út af vananum og gera eitthvað allt annað. Þá þykir mér þessi kaka koma sterk til leiks. Ævintýralegur súkkulaði- og salthnetudraumur Ef það er til súkkulaðihimnaríki þá er þessi kaka þar. Hún er syndsamlega góð og dagsgömul er hún draumi líkast. Þegar ég bauð upp á kökuna þá kláraðist hún áður en ég hafði rænu á að taka fram vélina og mynda hana almennilega. Þið fáið því enga mynd af kökusneið í þetta sinn. Ævintýralegur súkkulaði- og salthnetudraumur Þó að kakan sé ekkert sérlega þjóðleg þá mun hún ekki svíkja neinn í þjóðhátíðarkaffinu í dag. Það er þó hætta á að hún steli senunni, enda með öllu ómótstæðileg. Berið hana fram með rjóma og fagnaðarlátunum mun seint linna.

Karamellufylltur súkkulaði- og salthnetudraumur (uppskrift frá Allt om mat)

 • 150 g smjör
 • 2 dl sykur
 • 2 egg
 • 3,5 dl hveiti
 • 1 dl kakó
 • 80 g karamellufyllt súkkulaði, t.d. Galaxy

Yfir kökuna

 • 200 g suðusúkkulaði
 • 2 dl salthnetur

Kakan: Smyrjið ca 22 cm kökuform og hitið ofninn í 200°. Bræðið smjörið í örbylgjuofni eða í potti. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður létt. Bætið hveiti og kakói út í og hrærið saman við ásamt smjörinu. Setjið deigið í formið og þrýstið karamellufyllta súkkulaðinu ofan í. Bakið í miðjum ofni í um 10-12 mínútur. Látið kökuna kólna og takið hana úr forminu.

Yfir kökuna: Bræðið súkkulaðið varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Hrærið salthnetunum saman við og breiðið yfir kökuna. Látið harðna í ískáp.