Torta di Pernilla

Torta di Pernilla

Við Öggi áttum 11 ára brúðkaupsafmæli 20. júlí sl. Þá vorum við stödd í sveitinni og héldum upp á daginn með því að grilla ljúffengt lamba prime og í eftirrétt bakaði ég súkkulaðiköku. Ég birti mynd af kökunni á Facebook og núna eru sumir súkkulaðielskendur orðnir langeygir eftir uppskriftinni. Ó, hvað ég skil það vel.

Torta di Pernilla

Kakan er algjör draumur og það er nánast skylda að bera hana fram með rjóma og berjum. Hún er blaut í sér og mér þykir hún best eftir að hafa fengið að standa í ískáp. Það má segja að kakan sé eins og konfektmoli, dásamlega góð og lítil sneið dugar.

Torta di Pernilla

Torta di Pernilla (uppskrift úr bókinni Pernillas Praliner)

 • 250 g dökkt súkkulaði
 • 5 egg
 • 1 msk hveiti
 • 200 g brætt smjör
 • 3 dl sykur

Glassúr

 • 1 dl rjómi
 • 150 g dökkt súkkulaði
 • 25 g smjör
 • 1 dl flórsykur

Hitið ofninn i 175°. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Takið bráðið súkkulaðið af hitanum og hrærið eggjum, einu í einu, saman við með skeið. Bætið hveiti, smjöri og sykur varlega saman við og hrærið saman í slétt krem. Smyrjið 24 cm kökuform með lausum botni. Hellið deiginu í formið og bakið í miðjum ofni í 25 mínútur. Kakan á að vera blaut í miðjunni en tekur sig þegar hún kólnar.

Glassúr: Setjið rjómann í pott og hitið að suðu. Takið pottinn af hitanum. Brjótið súkkulaðið og setjið ásamt smjörinu í rjómann. Hrærið þar til allt hefur bráðnað saman (það gæti þurft að hita aðeins undir pottinum).  Hrærið flórsykri saman við. Setjið glassúrinn aðeins í ískáp til að hann þykkni og verði kremkenndari. Breiðið glassúrinn yfir kökuna þegar hún hefur kólnað að fullu.

Torta di Pernilla

Drømmekage frá danska bakaríinu Lagkagehuset

Drømkage

Mér áskotnaðist dásamlegt danskt kökublað frá vinkonu minni um daginn. Blaðið er æðislegt og ég á örugglega eftir að baka flest allt í því en það sem vakti fyrst áhuga minn voru uppskriftir sem danska bakaríið Lagkagehuset gaf. Ég hef aldrei farið í Lagkagehuset en systir mín sem býr í Kaupmannahöfn er tíður gestur þar og ég varð spennt að prófa uppskriftirnar.

Drømkage

Á föstudaginn bakaði ég fyrstu uppskriftina sem að bakaríið gaf, Drømkage. Í kökunni eru meðal annars 8 egg og fræ úr tveimur vanillustöngum og því kannski engin furða að hún hafi vakið lukku hjá bakariinu. Þrátt fyrir kókosmjöl í deiginu og kaffi í ofanbráðinni þá minnir kakan óneitanlega á gömlu góðu sjónvarpsköku okkar íslendinga. Þessi er bara aðeins þéttari í sér.

Drømkage

Öggi vill meina að þessi danska útgáfa sé með betri kökum sem hann hafi smakkað og dásamar hana við hvern bita. Ég tek ekki svo djúpt í árina en á þó líkt og hann erfitt með að standast kökuna því hún er stórgóð. Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar að prófa.

Drømkage

Drømmekage

 • 375 g mjúkt smjör
 • 375 g sykur
 • 8 egg
 • 475 g hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • fræ úr tveimur vanillustöngum
 • 1,5 dl mjólk
 • 100 g kókosmjöl

Ofanbráð

 • 3/4 dl vatn
 • 1 ½  tsk Nescafé
 • 150 g smjör
 • 150 g kókosmjöl
 • 300 g púðursykur
 • 75 g sýróp

Hitið ofninn í 180°. Hrærið smjör og sykur vel saman. Bætið eggjunum, einu í einu, saman við og hrærið í deiginu á meðan. Blandið hveiti, lyftidufti og fræjum úr vanillustöngum saman og hrærið í deigið. Hrærið að lokum mjólk og kókosmjöli í deigið.

Setjið deigið í bökunarpappírsklætt bökunarform sem er um 25 x 35 cm að stærð. Bakið kökuna í 35-40 mínútur.

Ofanbráð: Hitið vatnið í potti og leysið neskaffið upp í því. Bætið smjörinu saman við og látið það bráðna í blöndunni. Setjið restina af hráefnunum saman við og hrærið vel saman yfir lágum hita.  Breiðið blöndunni yfir kökuna og bakið hana í 8 mínútur til viðbótar.

Tortillavefjur

Vikan

Eins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust áttað sig á þá hef eytt undanförnum dögum í sveitinni. Mér þótti það æðislegt fyrir utan að vera ekki nettengd og geta því ekki uppfært bloggið. Verst þótti mér að hafa ekki haft vit á að láta ykkur vita af því áður en ég fór en satt að segja áttaði ég mig ekki á því fyrr en á hólminn var komið að það var vonlaust að blogga í stöpulu 3G sambandi. Því fór sem fór en nú er ég mætt aftur, vonandi tvíelfd til leiks.

Mér hlotnaðist sá heiður að vera matgæðingur vikunnar í nýjasta tölublaði Vikunnar (held reyndar að það fari úr búðum á morgun).  Í blaðinu má finna stutt viðtal við mig ásamt því að ég gef ég fjórar uppskriftir sem að mér þykja hver annarri betri.  Tvær þeirra hafa þegar verið birtar hér á blogginu fyrir all nokkru og þola vel að vera rifjaðar upp.

Hamborgarar

Annars vegar eru það þessir hamborgarar. Það væri synd að láta grillsumarið líða án þess að prófa þá. Það er svo einfalt að útbúa hamborgara og þeir verða svo mikið betri þegar þeir eru heimagerðir. Þessi uppskrift er einföld en stórgóð.

Kartöflur

Hins vegar eru það kartöflur sem við fáum ekki nóg af og eru með bestu kartöflum sem ég hef smakkað. Það er ótrúlega einfalt að útbúa þær og ég hef borið þær oftar á borð en ég vil viðurkenna. Það er svo þægilegt að henda þeim í ofninn á meðan kjötið eða hamborgararnir eru grillaðir og satt að segja get ég borðað þær einar og sér. Algjörlega  ómótstæðilegar!

Tortillavefjur

Í blaðinu gef ég einnig uppskriftir af tortillavefjum og súkkulaðipavlovu en þær hafa hvorugar verið birtar hér á blogginu áður. Tortillavefjurnar eru frábærar á veisluborðið en ég hef líka boðið upp á þær sem snarl með fordrykk. Það má útbúa fyllinguna deginum áður og þá tekur enga stund að smyrja henni á tortilluvefjurnar og rúlla þeim síðan upp daginn sem á að bera þær fram. Uppskriftina fékk ég hjá kærri vinkonu, Ernu, fyrir mörgum árum og hef notað hana óspart síðan.

Tortillavefjur

 • 400 g rjómaostur
 • 1 lítill púrrulaukur
 • 1 lítil rauð paprika
 • 1 lítið rautt chili (ferskt)
 • 150 g góð skinka
 • 8 tortillakökur

Sneiðið púrrulauk fínt, saxið papriku, kjarnhreinsið og fínhakkið chili og skerið skinku smátt. Hrærið öllu saman við rjómaostinn.

Tortillavefjur

Smyrjið hrærunni á tortillakökur, rúllið þeim upp og skerið í bita.

Tortillavefjur

Tacolasagna

Tacolasagna

Við erum loksins komin í langþráð sumarfrí. Á þriðjudaginn unnum við Öggi okkar síðasta vinnudag fyrir frí og í gær vann Malín sinn síðasta dag í unglingavinnunni og kláraði jafnframt hraðlestrarskólann sem hún ákvað af eigin frumkvæði að fórna sumrinu í. Við erum því öll komin í sumarfrí núna og ráðum okkur varla fyrir gleði.

Glymur

Heppnin var með okkur í gær, á okkar fyrsta sumarfrísdegi, þegar sólin ákvað að glenna sig og við tókum snögga ákvörðun um að drífa okkur með strákana á Glym. Við höfum gengið á Glym síðustu sumur og krökkunum þykir það æðisleg ævintýraför.

Glymur

Náttúrufegurðin þar er ólýsanleg og gönguleiðin skemmtileg. Þessar ferðir okkar hafa staðið svolítið upp úr eftir sumarið og strákarnir hafa beðið spenntir í sumar eftir að fara. Í gær var allt eins og það átti að vera, veðrið var fallegt, útsýnið stórbrotið og við snérum endurnærð heim.

Glymur

Það var þéttsetið við eldhúsborðið um helgina þegar við vorum með matarboð tvö kvöld í röð. Við buðum mömmu til okkar annað kvöldið og ég prófaði nýja uppskrift af tacolasagna sem vakti mikla lukku og verður klárlega oftar á borðum hjá okkur í framtíðinni. Mér þykir svo mikill fjársjóður í svona uppskriftum, sem eru góðar en einfaldar, og því ekkert mál að blása til veislu með lítilli fyrirhöfn. Frábær föstudagsmatur sem ætti að falla vel í kramið hjá matargestum. Prófið!

Tacolasagna

Tacolasagna

 • 1 poki nachos flögur (ég notaði ostanachos frá Santa María)
 • 300 g nautahakk
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 bréf tacokrydd
 • 1 púrrulaukur
 • 1 dl ólívur
 • 225 g tacosósa
 • 400 g niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°.

Setjið nachos í botn á eldföstu móti.

Tacolasagna

Brúnið nautahakk á pönnu og blandið pressuðu hvítlauksrifi og tacokryddi saman við.

Tacolasagna

Setjið nautahakkið yfir nachosið.

Tacolasagna

Skerið púrrulaukinn í sneiðar og ólívurnar í tvennt og stráið yfir nautahakkið.

Tacolasagna

Blandið tacosósu og niðursoðnum tómötum saman og setjið yfir púrrulaukinn og ólívurnar.

Tacolasagna

Hrærið sýrða rjómann svo hann þynnist aðeins (setjið jafnvel 1 msk af vatni saman við hann) og breiðið hann yfir tómatsósuna.

Tacolasagna

Endið á að strá rifnum osti yfir.

Tacolasagna

Bakið í miðjum ofni í 25-30 mínútur.

Tacolasagna

Berið fram með góðu salati og jafvel guacamole, sýrðum rjóma eða salsa.

Tacolasagna

Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur

Ég hef áður sagt frá vöffluæðinu sem virðist ganga árstíðarbundið yfir heimilið og enn og aftur ætla ég að bjóða upp á nýja vöffluuppskrift. Ég held í alvöru að þessi sé best, eða í það minnsta deili toppsætinu með hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflunum, þó að hráefnalistinn sé ekki með hefðbundnu móti. Mig rekur ekki minni til að hafa séð kornsterkju og grænmetisolíu í íslenskum vöffluuppskriftum en hér bregður báðum þessum hráefnum fyrir og gera vöfflunni góð skil. Stökk að utan, mjúk að innan. Þannig vil ég hafa vöfflurnar og þannig eru þessar. Dásamlegar með sultu og rjóma og fara stórvel með sunnudagskaffinu.

Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur (uppskrift frá Food 52)

 • 1½ bolli hveiti
 • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
 • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
 • 2 egg
 • 3 tsk sykur
 • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur.

Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni. Berið fram með sultu og rjóma, smjöri og hlynsýrópi eða hverju því sem hugurinn girnist.

Syndsamlega góðar vöfflur

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Vikan hefur verið annasöm og lítill tími gefist til að blogga. Mér þykir það svolítið leiðinlegt því ég hef verið verið svo spennt fyrir að gefa uppskrift af þessum fylltu kjúklingabringum sem slógu í gegn hér um síðustu helgi.

Ég hef aldrei kynnst neinum sem eru jafn hrifnir af pestói og Öggi og Jakob eru. Þeim þykir allt með pestói gott og þegar ég bauð upp á þessar pestófylltu kjúklingabringur um síðustu helgi hrósuðu þeir matseldinni við hvern bita. Þetta sló einfaldlega í gegn. Ég mæli með að þið prófið. Uppskriftin miðast við eina kjúklingabringu og ber að stækka eftir fjölda matargesta.

Þetta er ekki flókið. Byrjið á að setja kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þið getið. Ekki hafa áhyggjur af útlitinu, það fer í felur undir lokin.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Smyrjið pestóhrærunni yfir bringuna, en skiljið um sentimeter eftir meðfram könntunum. Rúllið bringunni upp og festið hana saman með tannstönglum. Aftur, ekki hafa áhyggjur af útlitinu. Hún verður fallegri.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Dýfið kjúklingabringunni í hrært egg og veltið henni síðan upp úr parmesanhveitiblöndu. Setjið í eldfast mót eða ofnskúffu.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Bakið í ofni og þessi dásemd mun taka á móti ykkur.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur – uppskriftin miðast við 1 kjúklingabringu

 • 1 stór kjúklingabringa
 • 1 msk grænt pestó
 • 1 msk sýrður rjómi
 • 1 msk rifinn mozzarella ostur

Hrærið saman pestó, sýrðum rjóma og mozzarella osti. Setjið kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þú nærð henni.  Takið kjúklingabringuna úr plastpokanum og smyrjið pestóhrærunni yfir hana en látið hana þó ekki fara alveg að köntunum. Rúllið kjúklingabringunni upp og festið hana saman með tannstönglum.

 • 1 egg
 • 1½ msk fínrifinn parmesan
 • 1½ msk  hveiti (eða möndlumjöl ef þið eigið það)
 • svartur pipar

Hrærið eggið og setjið í grunna skál. Blandið saman parmesan og hveiti í annari skál og kryddið til með svörtum pipar. Dýfið kjúklingabringunni í eggjahræruna og síðan í parmesanhveitiblönduna. Passið að kjúklingurinn sé vel hjúpaður. Setjið kjúklinginn í smurt eldfast mót og bakið við 190° í 30-35 mínútur.

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Mamma hefur alltaf verið mikill eldhúsdundari og hefur safnað uppskriftum svo lengi sem ég man eftir mér. Uppskriftabækurnar hennar eru æðislegar, með handskrifuðum uppskriftum í bland við blaðaúrklippur sem hafa verið límdar inn. Persónulegar og fallegar, alveg eins og mamma er.

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Um daginn þegar ég var hjá henni lá ein af uppskriftarbókunum á eldhúsborðinu. Þegar ég fór að blaða í hana sá ég að bókin var stútfull af skemmtilegum uppskriftum. Ég nældi mér í nokkrar hversdagsuppskriftir úr henni og við höfum notið góðs af þeim upp á síðkastið. Ég var búin að gefa eina fiskuppskrift úr bókinni (þú finnur hana hér) og hér kemur önnur sem er skemmtileg útfærsla á steiktum fiski. Einfaldari gerist hann varla og allir voru á einu máli um að maturinn væri stórgóður.

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Steiktur fiskur í kókoskarrý

 • ýsu- eða þorskflök (ca 600-800 g)
 • 2 dl hveiti
 • 1 dl mjólk
 • 1 tsk karrý
 • ½ tsk timjan
 • 1 egg
 • 2 msk kókosmjöl
 • salt
 • pipar

Öllum hráefnum, fyrir utan fiskinn, er hrært saman í skál. Fiskurinn er skorinn í bita og látinn liggja í blöndunni í 1-1½ klst. Steikið fiskinn á pönnu og berið hann fram með hrísgrjónum og karrýsósu.