Pizza með karamelliseruðum lauk og pipruðu beikoni

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Það er tvennt sem ég er ákveðin í að gera í dag. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að brjálæðislega góðri pizzu og síðan ætla ég að setjast niður og svara tölvupóstum og spurningum sem ég hef fengið frá ykkur í vikunni. Ég vona að þið fyrirgefið seinaganginn. Mér þykir svo gaman að heyra frá ykkur en næ ekki alltaf að svara strax.

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Um síðustu helgi breytti ég út af vananum og bauð upp á föstudagspizzuna í nýrri útfærslu. Eða bæði og, ég prófaði að gera pizzu með karamelliseruðum lauk og pipruðu beikoni en til vonar og vara gerði ég líka hefðbundna pizzu.

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Ég hefði betur sleppt varaskeifunni því nýja pizzan reyndist ólýsanlega góð. Svo góð að ég sá eftir að hafa bara gert tvær því þær hreinlega hurfu af borðinu. Sætur laukurinn og salt beikonið passa stórkostlega vel saman og osturinn fullkomnar veisluna.

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Ég held að það gæti verið gaman að bjóða upp á pizzuna sem forrétt og bera hana þá fram með ísköldum bjór í flöskum. Ég er sjálf ekki mikið fyrir bjór en grunar að hann færi vel með pizzunni. Það er kannski eitthvað til að prófa um helgina?

Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni

Pizza með karamelliseruðum lauk og pipruðu beikoni

 • 8 þykkar beikonsneiðar, skornar í bita
 • 2 msk ósaltað smjör
 • 2 laukar, skornir í þunnar sneiðar
 • ¼ tsk salt
 • 1 msk púðursykur
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 tsk ferskmalaður pipar
 • 350 g óðalsostur, rifinn (ég mæli sérstaklega með honum, hann passar svo vel á pizzuna)

Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið beikonið svo að fitan byrjar að renna af því og beikonið er aðeins byrjað að steikjast. Það á eftir að klára steikinguna í ofninum. Færið beikonið af pönnunni yfir á disk þaktan eldhúspappír og myljið pipar yfir. Látið fituna vera áfram á pönnunni, lækkið hitan í lágann hita og bætið smjöri saman við. Þegar smjörið er bráðnað er laukurinn settur á pönnuna ásamt salti. Setjið lok yfir og eldið við vægan hita í klukkustund, en hrærið í lauknum á 10 mínútuna fresti. Eftir klukkustund er púðursykri bætt á pönnuna og látið krauma áfram undir loki í 15 mínútur. Hrærið hvítlauk saman við og takið af hitanum. Færið laukinn yfir í skál og leggið til hliðar.

Fletjið pizzubotnana út og stráið helmingnum af ostinum yfir þá. Setjið laukinn yfir ostinn og þar á eftir beikonið. Endið á að setja ost yfir og bakið við 180° í 30-35 mínútur, eða þar til botninn er gylltur og osturinn bránaður og kominn með fallegan lit.

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Síðasta helgin fyrir skólasetningu er runnin upp og haustið framundan. Mér þykir þetta einn af bestu tímum ársins, hálfgerð áramót þegar allt byrjar upp á nýtt. Best þykir mér þó að allt fer í rútínu á ný. Ég er svo mikil rútínumanneskja að það nær engri átt.

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Við ætlum að njóta þessarar síðustu helgar sumarfrísins hjá krökkunum. Við fórum út að borða saman í gærkvöldi og í dag liggur leiðin í bókabúðirnar að kaupa skóladót. Öggi mun þeyta skífum í brúðkaupi í kvöld og við Malín ætlum að nýta kvöldið í að merkja skólabækurnar og horfa á stelpumynd.

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Áður en dagurinn fer í gang hér á heimilinu nýti ég tímann í að blogga því mig langar svo að gefa ykkur uppskriftina af þessari ljúffengu bananaköku með súkkulaðibitum sem ég baka reglulega og fer afskaplega vel með helgarkaffinu. Kakan er fjölskylduvæn og fellur í kramið hjá öllum aldurshópum. Hún endist ekki lengi á borðinu, enda svo sem ekki ætluð upp á punt.

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

 • 5 dl hveiti
 • 3/4 tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 3 þroskaðir bananar
 • 1 dl hnetusmjör
 • 1 ¼ dl sykur
 • 1 dl púðursykur
 • 3/4 dl súrmjólk
 • 75 g brætt smjör
 • 2 egg
 • 100 g hakkað suðusúkkulaði (eða það súkkulaði sem þú velur)

Hitið ofninn í 175°. Smyrjið formkökuform og klæðið með bökunarpappír.

Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál. Stappið bananana í annarri skál  og blandið hnetusmjöri, sykri , súrmjólk, smjöri og eggjum saman við þá. Hrærið blöndunni saman í kekkjalaust deig. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman þar til deigið er slétt. Hrærið að lokum súkkulaðibitunum í deigið.

Setjið deigið í formið og bakið í miðjum ofni í um 60 mínútur, eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur þurr upp.

Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum, og súkkulaðisósu

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Ég hef fengið fyrirspurnir um uppskriftina að þessari dásemd sem ég birti mynd af hér á blogginu í júní. Það er tvennt sem ég bara skil ekki, hvernig gat ég gleymt að setja inn uppskriftina og hvernig gat sumarið liðið svona fljótt? Mér finnst eins og ég hafi bakað kökuna síðast í gær.

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Mér þykir þessi pavlova hafa allt og vera draumi líkast. Hún er svo góð og hráefnin passa svo fullkomlega saman. Það er varla hægt að lýsa því en kakan er svo mikil súkkulaðisæla að hún gerir alla glaða og lífið örlítið betra.

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Til að flýta fyrir er kjörið að baka botnana kvöldið áður en það á að bera kökuna fram. Setjið hana síðan saman samdægurs og geymið í ískáp þar til veislan hefst. Það eiga allir eftir að falla í stafi við fyrsta bita – ég lofa!

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu (uppskrift frá Lindu Lomelino)

Súkkulaðimarensbottnar:

 • 50 g dökkt súkkulaði (70%)
 • 6 stórar eggjahvítur
 • 3 dl sykur
 • 3 msk kakó
 • 1 msk maizena mjöl
 • 1 tsk hvítvínsedik

Mascarponekrem:

 • 250 g mascarpone ostur
 • 2-3 msk sykur
 • 5 dl rjómi
 • 2 msk espresso

Fylling:

 • Maltesers
 • Daimkúlur
 • Ristaðar pekanhnetur (ristaðar í 175° heitum ofni í 5 mínútur)

Súkkulaðisósa:

 • 3/4 dl sykur
 • 1 dl sterkt kaffi
 • 3 msk kakó

Súkkulaðimarensbottnar

Brjótið súkkulaðið í bita og bræðið það varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið kólna.

Hitið ofninn í 175°. Teiknið tvo eða þrjá hringi sem eru um 15 cm í þvermál á bökunarpappír. Staðsetjið þá eins langt frá hvor öðrum og mögulegt er. Snúið bökunarpappírnum við og leggið hann á ofnplötu.

Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja að mynda froðu og bætið þá sykrinum smátt og smátt saman við. Þeytið áfram þar til blandan er orðin stífþeytt. Það á að vera hægt að halda skálinni á hvolfi án þess að marensdeigið renni úr henni. Sigtið kakó og maizenamjöl út í deigið, bætið hvítvínsediki saman við og blandið öllu vel saman. Hrærið að lokum bræddu súkkulaðinu gróflega í marensdeigið.

Skiptið marensdeiginu jafnt á hringina á bökunarpappírnum. Botnarnir eiga eftir að renna aðeins út þegar þeir bakast. Setjið marensinn í ofninn og lækkið hitann í 125°.  Bakið marensinn í 60-75 mínútur. Botnarnir eiga að vera harðir og stökkir við kantana en seigir  í miðjunni. Slökkvið á ofninum en látið botnana vera áfram á eftirhitanum í honum, með ofnhurðina hálfopna þar til ofninn er orðinn kaldur.

Mascarponekrem:

Hrærið mascarponeostinn og sykurinn saman þar til blandan verður mjúk og kremkennd. Bætið rjómanum saman við og þeytið þar til blandan þykknar. Bætið espresso saman við og þeytið áfram þar til það hefur blandast saman við kremið.

Súkkulaðisósa:

Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið í 3-5 mínútur eða þar til sósan hefur tekið að þykkna aðeins. Látið kólna.

Setja kökuna saman:

Leggið fyrsta botninn varlega á kökudisk og smyrjið helmingnum af mascarponekreminu yfir. Stráið grófhökkuðu maltesers, daimkúlum og ristuðum pekanhnetum yfir. Leggið seinni botninn yfir og smyrjið því sem eftir er af mascarponekreminu yfir. Skreytið með maltesers, daimkúlum, pekanhnetum og súkkulaðisósu. Látið tertuna gjarnan standa í ískáp í að minnsta kosti klukkutíma áður en hún er borin fram.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Mamma keypti hluta úr nauti beint frá býli í vor og gaf okkur… ja eflaust bróðurpartinn af því. Ég hef aldrei smakkað jafn gott kjöt og hef legið á því eins og ormur á gulli.

Um daginn datt ég niður á uppskrift af gúllas sem vakti áhuga minn, þó aðallega vegna þess að í henni voru sólþurrkaðir tómatar og bjór. Ég ákvað að uppskriftin væri nógu spennandi til að splæsa gúllasbitunum frá mömmu í hana.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég byrjaði eldamennskuna um leið og ég kom heim úr vinnunni því ég hafði tekið eftir að rétturinn ætti að sjóða við vægan hita í tvo tíma áður en gulrótum og kartöflum væri bætt út í og þá soðið áfram í hálftíma. Það er því óhætt að segja að rétturinn er ekki reiddur fram í snatri.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég verð að viðurkenna að þegar ég var búin að brúna kjötið, laukinn og hvítlaukinn og hellti því næst bjórnum á pönnuna féllu á mig tvær grímur. Mér leist ekkert á þetta lengur en það var ekki aftur snúið úr þessu. Það var ekki fyrr en kjötkrafturinn, sólþurrkuðu tómatarnir og kryddin voru komin út í, byrjað að sjóða og dásamlegur ilmur tók að berast frá pottinum að ég andaði léttar. Það lék engin vafi á að þetta yrði gott.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Þó að eldunartíminn sé langur þá fer ekki mikill tími í að útbúa réttinn. Aðalatriðið er að byrja nógu snemma og síðan er hægt að dunda sér við önnur störf á meðan rétturinn sýður við vægan hita á pönnunni.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

Ég bar nýbakað New York-times brauð fram með réttinum. Ég mæli með því. Stökk skorpan og mjúkt brauðið fer vel með gúllasinu og ég get lofað að þú átt ekki eftir að geta hætt að dýfa brauðinu í sósuna. Notalegur og góður matur, sérstaklega núna þegar fer að hausta.

Gúllas með sólþurrkuðum tómötum

 • um 900 g nautagúllas
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 laukur, hakkaður
 • 4 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 litil bjórdós (33 cl.). Ég var með Víking.
 • 2 msk Worcester sósa
 • 4 bollar vatn
 • 2 nautateningar
 • 1 grænmetisteningur
 • ½ bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
 • ½ tsk salt
 • ½-1 tsk paprika
 • ½ msk dijon sinnep
 • rauðar kartöflur, skornar í fernt
 • gulrætur, skornar í sneiðar

Hitið ólívuolíu í stórum potti eða djúpri pönnu og brúnið kjötið á öllum hliðum. Færið kjötið yfir á hreinan disk og setjið lauk og hvítlauk í pottinn. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er bjórnum hellt yfir. Hrærið í pottinum þannig að krafturinn á botninum blandist í vökvann. Bætið Worcester sósu, vatni, krafti, sólþurrkuðum tómötum, salti, papriku og sinnepi í pottin og látið suðuna koma upp. Bætið kjötbitunum í pottinn og lækkið hitann í væga suðu. Látið lokið á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir. Bætið þá kartöflum og gulrótum í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur til viðbótar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er tekinn 1 bolli af vökva úr pottinum, hrært 2 msk af hveiti saman við og hrært aftur út í pottinn. Þetta er gert til að þykkja sósuna. Berið réttinn fram með góðu brauði með grófri skorpu.

Kotasælupönnukökur

Kotasælupönnukökur

Ég elska, elska, elska morgnana um helgar. Mér þykja þeir eitt það besta við helgarnar. Að geta byrjað daginn rólega, læðst fram á náttsloppnum, kveikt á útvarpinu og útbúið morgunmat. Öggi kemur oftast skömmu seinna fram og ef ég er ekki búin að leggja á borð þá gerir hann það. Þetta er notaleg stund og það ríkir kyrrð í húsinu sem er dásamlegt að hefja daginn í. Við erum oftast bara tvö á fótum og dundum okkur við þetta yfir spjalli um allt og ekkert. Þegar allt er tilbúið kveikjum við á kertum og vekjum krakkana. Virku morgnarnir eru hrein andstæða við helgarnar, þegar allir eru að flýta sér og enginn tími gefst til að njóta stundarinnar. Mér þykir leiðinlegt að byrja dagana þannig en einfaldlega næ ekki að koma okkur fyrr á fætur. Það að virku morgnarnir séu svona misheppnaðir veldur því eflaust að við njótum helganna enn betur.

Kotasælupönnukökur

Við erum ekki föst í sama morgunmatnum um helgar. Upp á síðkastið hef ég oftast fengið mér hrökkbrauð með osti og linsoðið egg en þess á milli gert amerískar pönnukökur, beikon og eggjahræru. Stundum setjum við bara morgunkorn, múslí, ab-mjólk, heimabakað brauð (þetta hefur lengi verið í uppáhaldi) og álegg á borðið. Síðan hef ég alltaf góðan djús með klökum í (Heilsusafi og rauður Brazzi verða oftast fyrir valinu).

Kotasælupönnukökur

Um síðustu helgi prófaði ég í fyrsta sinn að gera kotasælupönnukökur og bar þær fram með jarðaberjum og hlynsírópi. Aldrei hefði mig grunað að þær ættu eftir að vekja jafn mikla lukku og þær gerðu. Pönnukökurnar voru léttar í sér og fóru stórkostlega vel með fersku jarðaberjunum og hlynsírópinu. Ljúffengari morgunmat hef ég sjaldan fengið. Í fyrramálið ætla ég að endurtaka leikinn og ég hef hlakkað til þess alla vikuna. Dagurinn getur varla byrjað mikið betur en svona.

Kotasælupönnukökur

Kotasælupönnukökur (uppskrift úr The Weelicious Cookbok) – uppskriftin gefur um 18 litlar pönnukökur

 • 3 egg
 • 1 bolli kotasæla
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 msk hunang eða agave síróp
 • ½ bolli hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • ¼ tsk salt
 • smjör, olía eða olíusprey

Setjið fyrstu 4 hráefnin í skál og hrærið þeim saman. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman.

Kotasælupönnukökur

Hitið pönnu við miðlungsháan hita og setjið smá af olíu eða smjöri á pönnuna. Setjið um 1 msk af deiginu á pönnuna fyrir hverja pönnuköku.  Steikið í 2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til pönnukakan er gyllt á lit og steikt í gegn.

Kotasælupönnukökur

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hefur verið mikið um sætindi hér upp á síðkastið og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég missti mig í sætindunum í sumar.  Ég fékk ekki einu sinni móral, ja nema kannski út af öllu Lindubuffinu. Allt hefur þó sinn tíma og til að bæta upp fyrir allt þá eldaði ég ljúffengan og bráðhollan kjúklingarétt þegar við vorum í sveitinni.  Ætli ég hafi ekki eldað hann kvöldið sem ég áttaði mig á því að ég hafði borðað 5 kassa af Lindubuffi á þremur dögum og fannst ég skulda mér góðan kvöldverð.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hafa eflaust margir eldað sína útgáfu af þessum kjúklingarétti og það væri gaman að heyra hvernig þið gerið hann. Okkur þykir rétturinn mjög góður og ekki skemmir fyrir hvað hann er hollur. Fyrir utan að kjúklingurinn er steiktur á pönnu þá fer allt hráefnið í eitt eldfast mót og inn í ofn. Einfaldara getur það varla verið.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það gæti þótt tómlegt að bera kjúklingarétt fram án meðlætis en mér þykir það sem leynist í eldfasta mótinu standa fyrir sínu eitt og sér, enda er allt þar. Spínat, sætar kartöflur, kjúklingur, tómatar, fetaostur, furuhnetur…. þetta getur ekki klikkað! Það má þó auðvitað vel bera brauð eða salat fram með réttinum og það myndi ég eflaust gera ef ég væri með matarboð en fyrir okkur fjölskylduna dugar þetta vel svona.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Ég verð að viðurkenna að ég er sérlega skúffuð með myndatökuna hér hjá mér og íhugaði að gefa ekki uppskriftina út af því hversu lélegar myndirnar eru. Ég kenni sumarbústaðarbirtunni um, viðarveggjum og lofti sem gáfu myndunum gulan blæ. Eða að Lindubuffið hafi gert mig hálf sloj. Jú, það hlýtur að vera ástæðan. Ég kenni Lindubuffinu um og treysti því að þið dæmið ekki réttinn af myndunum.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

 • 1 stór sæt kartafla
 • 1 poki spínat
 • 4-5 kjúklingabringur
 • 1 krukka fetaostur
 • 1 lítill rauðlaukur, skorinn fínt
 • heilsutómatar eða konfekttómatar, skornir í bita
 • furuhnetur
 • balsamik gljái

Hitið ofninn í 180°. Skrælið sæta kartöflu og skerið í sneiðar eða sneiðið með ostaskera. Látið kartöflusneiðarnar í eldfast mót, setjið smá ólífuolíu yfir, saltið og piprið og setjið inn í ofn í 15 mínútur eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið stutt (lokið þeim) á heitri pönnu. Kryddið eftir smekk (mér þykir t.d. gott að nota fajita krydd).

Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 15 mínútur eru þær teknar út. Setjð spínat yfir sætu kartöflurnar og kjúklinginn yfir spínatið. Stráið tómötum og rauðlauk yfir og hellið að lokum fetaostinum ásamt olíunni yfir allt. Setjið í ofn og bakið í 30 mínútur.

Á meðan rétturinn er í ofninum eru furuhnetur ristaðar.  Þegar rétturinn kemur úr ofninum er furuhnetunum stráð yfir og balsamik gljáa dreypt yfir.

Kaffi- og valhnetukaka

Kaffikaka með valhnetum

Sumarfríið mitt er á enda og það vekur blendnar tilfinningar. Kvíði fyrir að þurfa að vakna aftur á morgnanna en tilhlökkun að hitta vinnufélagana á ný. Mest hlakka ég þó til að lífið falli í rútínu aftur. Ég virka best í rútínu, þegar ég hef verkefni til að takast á við og þarf að skipuleggja mig. Ég geri alltaf vikumatseðil og versla inn fyrir vikuna á laugardögum en um leið og ég fer í sumarfrí hætti ég því. Ég veit ekki af hverju, þetta bara gerist ósjálfrátt og veldur því að við eyðum meiri pening í mat og borðum oftar en ekki síðri mat en við erum vön að gera. Hlaupum í búðina rétt fyrir lokun og kaupum það sem bregður fyrst fyrir augum. Núna hlakka ég til að koma þessu í réttan farveg aftur.

Kaffikaka með valhnetum

Við erum búin að eiga gott sumarfrí og gerðum margt af því sem ég ætlaði mér að gera í fríinu. Þó ekki allt. Ég var til dæmis staðráðin í að hreyfa mig á hverjum degi. Ég gerði það ekki en borðaði hins vegar Lindubuff á hverjum degi. Það var ekki fyrr en um daginn þegar ég fékk Ögga með mér í bíltúr rétt fyrir miðnætti til þess eins að kaupa mér kassa af Lindubuffi að ég áttaði mig á því að þetta væri komið út í vitleysu. Ég hef ákveðið að kveðja Lindubuffið eftir helgina. Þegar lífið fer í rútínu aftur.

Sumarfríið á enda

Við gengum á Glym, rétt eins og undanfarin sumur. Malín fór ekki með okkur enda upptekinn unglingur í unglingavinnu. Strákunum þótti þetta einn af hápunktum sumarsins og vilja ólmir fara aðra ferð sem fyrst.

Sumarfríið á enda

Við áttum ljúfa daga í sumarbústað og vorum heppnari með veðrið en við höfðum þorað að vona. Eins og lög gera ráð fyrir þá borðuðum við hverja dásemdina á fætur annari á milli þess sem við þvældumst um sveitirnar. Við skemmtum okkur konunglega.

Sumarfríið á enda

Við fórum á Geysi og náðum næstum því að eyðaleggja myndavélina okkar þegar þessi mynd var tekin. Þegar Strokkur gaus var ekki annað hægt en að smella myndum af strákunum flýja vatnsgusuna úr honum. Það kostaði þó vatnsgusu yfir myndavélina sem þurfti að fara í viðgerð í kjölfarið.

Sumarfríið á enda

Strákarnir urðu rennblautir. Öggi smellti af þessari skemmtilegu mynd og það var ekki fyrr en við komum heim sem við tókum eftir henni. Strákarnir eru að dansa bræðradans sem að þeir sömdu og það er hrein tilviljun að maðurinn í græna bolnum stendur í sömu stellingu og þeir. Okkur þótti það bráðfyndið.

Sumarfríið á enda

Við Öggi fórum í brúðkaup og höfum sjaldan skemmt okkur jafn vel. Eyþór og Soffía voru svo fallegt brúðpar að það var ekki hægt að hætta að horfa á þau.

Sumarfríið á enda

Við fórum út í Viðey. Ég skammast mín að segja frá því að þetta var í fyrsta sinn sem ég fer þangað. Það var svo fallegt að rölta þar um. Ævintýri líkast.

Sumarfríið á enda

Við spiluðum kubb.

Sumarfríið á enda

Og körfubolta í náttbuxum.

Sumarfríið á enda

Við Öggi fórum með kærum vinum út að borða á Kopar. Við pöntuðum okkur ævintýraferð af matseðlinum og vorum hvergi svikin. Hver rétturinn var öðrum betri. Frábært kvöld í frábærum félagsskap. Við sátum á efri hæðinni og útsýnið frá borðinu okkar var engu líkt.

Sumarfríið á enda

Ég bakaði köku sem við fórum með í nestisferð í Guðmundarlund. Við áttum æðislegan dag þar með krökkunum, spiluðum kubb og gæddum okkur á nýbakaðri kaffiköku. Ó, hvað ég elska kaffikökur. Þessi var sérlega ljúffeng. Ég læt að lokum uppskriftina fylgja ef þig langar að prófa.

Kaffikaka með valhnetum

Kaffi- og valhnetukaka (uppskrift úr matreiðslubók Nigellu Lawson, Kitchen)

 • 50 g valhnetur
 • 225 g sykur
 • 225 g mjúkt smjör
 • 200 g hveiti
 • 4 tsk instant espresso duft (eða 2 tsk Nescafé leyst upp í 1 msk af sjóðandi vatni)
 • 2 ½ tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 4 stór egg
 • 1 – 2 msk mjólk

Glassúr

 • 350 g flórsykur
 • 175 g mjúkt smjör
 • 2 ½ tsk instant espresso duft (leyst upp í 1 msk af sjóðandi vatni)
 • um 10 valhnetur til skrauts

Hitið ofninn í 180°. Klæðið botninn á tveimur 20 cm kökuformum með smjörpappír og smyrjið hliðarnar. Setjið valhnetur og sykur í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til hneturnar og sykurinn eru orðin að fíngerðum hnetusykri. Bætið smjöri, hveiti, espresso dufti, lyftidufti, matarsóda og eggjum í matvinnsluvélina og vinnið saman í slétt deig. Látið að lokum mjólk renna niður troðarann á meðan matvinnsluvélin gengur.  Skiptið deiginu í formin og bakið í 25 mínútur. Látið kökubotnana kólna alveg áður en glassúrinn er settur á.

Glassúr: Setjið flórsykur í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til flórsykurinn er kekkjalaus. Bætið smjöri saman við og látið vélina ganga þar til flórsykurinn og smjörið er orðið að mjúku kremi. Leysið kaffiduftið upp í sjóðandi vatni og bætið því í matvinnsluvélina. Látið vélina vinna kaffið snöggt saman við kremið.

Setjið annann kökubotninn á hvolf á kökudisk (þannig að sú hlið sem snéri niður í kökuforminu snúi upp). Breiðið helmingnum af glassúrnum yfir og leggið síðan seinni botninn ofan á þannig að slétta hliðin á honum (sú sem séri niður í kökuforminu) leggist yfir kremið (s.s. sléttu hliðarnar mætast í miðjunni). Breiðið restina af kreminu yfir.  Skreytið kökuna með valhnetum.

Kaffikaka með valhnetum