Núðlusúpa í boði Jakobs.

Kjúklingalaksa

Eins og áður hefur komið fram hér á blogginu hafa börnin séð um kvöldmatinn einu sinni í viku í október og í gær var komið að Jakobi.  Að hann valdi að elda núðlusúpu kom engum að óvörum.  Það nær engri átt hvað drengurinn getur borðað af núðlusúpum. Helst vill hann fá þær í morgunmat en þar drögum við mörkin.

Það var líf og fjör þegar Jakob tók yfir eldhúsið, rétt eins og við var að búast. Hér er hann búinn að sjóða núðlurnar og byrjaður að raða í skálarnar.

Núðlusúpa í boði Jakobs.

Í pottinum sauð súpan sem var smökkuð til þar til hún þótti „pörfekt“.

Núðlusúpa í boði Jakobs.Jakob var búinn að útbúa nafnspjöld sem hann setti á eldhúsborðið.  Hann borðar ekki kóriander en er þeim mun hrifnari af baunaspírum. Diskurinn hans fékk því tvöfaldan skammt af spírunum og engan kóriander.

Núðlusúpa í boði Jakobs.Uppskriftin kemur úr sænsku matreiðslubókinni Kärlek, oliver och timjan og var með fyrstu uppskriftunum sem birtust hér á blogginu. Góð vísa er þó sjaldan of oft kveðin og því birti ég hana skammlaust aftur núna.

Núðlusúpa í boði Jakobs.

Núðlusúpa með kjúklingi

 • 200 gr eggjanúðlur
 • 4 skarlottulaukar
 • 100 gr ferskar baunaspírur eða 50 gr ferskt spínat
 • 1/2 lime í þunnum sneiðum
 • 2 kjúklingabringur
 • 1 msk jarðhnetuolía eða önnur olía
 • 5 cm bútur af fersku engiferi
 • 2 hvítlauksrif
 • 1/2 – 1 ferskt rautt chili
 • ca 2 msk rautt curry paste
 • 4 dl kókosmjólk
 • 4 dl vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 1-2 msk fiskisósa
 • ferskt kóriander eða basilika

Takið hýðið af laukunum og skerið hann í þunnar sneiðar. Skolið baunaspírurnar eða spínatið vel. Skolið lime-ið og skerið í mjög þunnar sneiðar. Skrælið engiferið og skerið í örþunnar sneiðar. Takið hýðið af hvítlauknum og skerið í þunnar sneiðar. Fræhreinsið chili og skerið í þunna strimla. Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Leggið þetta til hliðar á meðan súpan er undirbúin.

Leggið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið þar til þær eru tilbúnar (ca 5 mínútur). Látið renna af núðlunum í sigti og skiptið þeim í 3 skálar. Setjið laukinn, baunaspírurnar eða spínatið og limesneiðarnar ofan á.

Steikið hvítlaukinn í olíu, bætið engiferi og curry paste í pottinn. Það er mikilvægt að láta curry paste-ið hitna það mikið að það sjóði því þá fyrst kemur bragðið fram og það fer að ilma dásamlega í eldhúsinu.

Bætið núna kókosmjólkinni saman við í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli þannig að curry paste-ið nái að blandast vel með kókosmjólkinni í hvert skipti. Bætið síðan vatninu út í og kjúklingakraftinum. Látið suðuna koma upp og bragðbætið með fiskisósunni. Leggið kjúklingabitana í og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til kjúlingabitarnir eru soðnir í gegn. Smakkið súpuna til og bætið ef til vill meiri fiskisósu út í og jafnvel smá sykri.

Bætið súpunni í skálarnar (ofan á núðlurnar, baunaspírurnar og limesneiðarnar) og látið hana standa í 2 mínútur til að brögðin nái að blandast. Skreytið með fersku kóriander eða basiliku  og leggið rauðu chilistrimlana yfir.

Tortellini í pestósósu

Ferskt tortellini í pestósósuUm helgar eyði ég yfirleitt meiri tíma í kvöldverðinn. Þá vil ég bjóða upp á betri mat og nýt þess að hafa góðan tíma í eldhúsinu. Það gerist þó að tíminn hleypur frá mér og þá þykir mér gott að eiga góðar uppskriftir sem tekur stuttan tíma að matreiða.

Á laugardaginn áttum við Malín mæðgnadag og komum seint heim. Við eyddum deginum tvær saman, litum í búðir og á kaffihús, keyptum smá jólaskraut og enduðum á því að gera vikuinnkaupin. Þegar við komum heim fór ég í eldhúsið og útbjó ljúffengan pastarétt sem tók svo stuttan tíma að elda að Öggi rétt náði að leggja á borð og kveikja á kertum áður en maturinn var tilbúinn.

Ferskt tortellini í pestósósu

Það sem gerir réttinn svona fljótlegan er að ég notaði ferskt tortelini sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Mér þykir ferskt tortellini sérlega gott og það er hægt að leika sér endalaust með það. Á laugardaginn bjó ég til sósu úr pestó, rjóma og ferskrifnum parmesan og blandaði saman við pastað ásamt rauðri papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum sem ég skar niður á meðan ég beið eftir að suðan á pastavatninu kæmi upp.  Það væri líka hægt að bæta við ólívum, salami, sólþurrkuðum tómötum, ruccola, spínati eða hverju því sem hugurinn girnist. Með góðu pasta er ekki hægt að mistakast og best af öllu, ljúffeng máltíð stóð á eldhúsborðinu á innan við korteri.

Ferskt tortellini í pestósósu

Tortellini með rjómapestósósu

 • 2 pokar ferskt tortellini með þurrkaðri skinku og osti
 • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
 • 1 dl grænt pestó
 • 1 dl ferskrifinn parmesan
 • 1 rauð paprika
 • 1/2-1 rauðlaukur
 • 1 pakki kirsuberjatómatar (250 g)

Ferskt tortellini í pestósósu

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningu á pakkningu. Ég var með pasta frá RANA sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Setjið rjóma og pestó í pott og hitið við vægan hita þar til blandan þykknar örlítið. Hrærið parmesan út í og leggið til hliðar.

Skerið papriku og rauðlauk í fína bita og kirsuberjatómata í tvennt. Hrærið um helmingi af pestósósunni saman við pastað og blandið svo papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum saman við. Myljið svartan pipar yfir og endið á að rífa vel af parmesanosti yfir diskinn. Berið fram með því sem eftir var af pestósósunni, ferskum parmesan og hvítlauksbrauði.

Vikumatseðill

Núna þegar veturinn nálgast með hraði, það er farið að kólna í veðri og meira að segja þarf að draga rúðusköfuna fram suma morgna þykir mér enn mikilvægara að vera skipulögð í matarinnkaupum. Mér hryllir við tilhugsunina að þurfa að fara í búðina eftir vinnu og ákveða hvað eigi að vera í matinn. Nei, stórinnkaup um helgar er það sem hentar mér.

Hér kemur mín tillaga að vikumatseðli fyrir næstu viku. Ekki fúlsa við pylsuréttinum á fimmtudeginum, hann er ljúffengur og krakkarnir elska hann. Ég vona að matseðillinn nýtist ykkur og enn fremur vona ég að þið vikan verði ykkur góð.

Steiktur fiskur í parmesanraspi

Mánudagur: Mér þykir Steiktur fiskur í parmesanraspi vera góð byrjun á vikunni. Við fáum okkur hrásalat og hvítlaukssósu með honum.

Ofnbakaðar kjötbollur

Þriðjudagur: Ofnbakaðar kjötbollur með kartöflumús og sósu er einn af uppáhalds hversdagsmatnum mínum.

Sveppasúpa

Miðvikudagur: Sveppasúpa er einföld og ódýr máltíð sem passar vel í miðri viku.

Pylsupottréttur

Fimmtudagur: Pylsupottréttur með beikoni og sweet chili rjómasósu. Fljótlegt og  hentar því vel á fimmtudögum. Ekki skemmir fyrir hvað þetta er vinsælt hjá krökkunum.

Fylltar tortillaskálar

Föstudagur: Mér þykja fylltar tortillaskálar vera fullkominn föstudagsmatur. Einfaldar, fljótgerðar og súpergóðar!

Mokkakaka

Með helgarkaffinu: Mokkakakan fer alltaf vel með kaffinu. Ég hef bakað hana svo óteljandi oft og fæ ekki nóg af henni.

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

Ég ætlaði að gefa ykkur þessa uppskrift í gær en tíminn hljóp frá mér. Núna er þó kvöldið laust og helgin framundan, nokkuð sem mig hefur hlakkað til í allan dag. Í kvöld bíða pizzur, nammi, sjónvarpssófinn og prjónarnir. Ég get varla hugsað mér betra föstudagskvöld.

Ef þið eruð að velta fyrir ykkur kvöldmatnum fyrir annað kvöld þá er ég með góða tillögu, nefnilega frábæran kasjúhnetukjúkling. Mér þykir hann slá flestu við og passa vel um helgar, sérstaklega á föstudagskvöldum þegar allir eru þreyttir eftir vikuna en langar að hafa góðan kvöldmat. Þá er þessi réttur himnasending því hann er æðislega góður og  það tekur enga stund að matreiða hann.

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

 • 700 g kjúklingabringur, skornar í bita
 • 1 msk kornsterkja (maizena mjöl)
 • ¾ tsk gróft salt
 • ¼ tsk mulinn pipar
 • 2 msk grænmetisolía
 • 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 8 vorlaukar, hvítu og grænu hlutarnir aðskildir og hvorir um sig skornir í litla bita
 • 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • 3 msk hoisin sósa
 • 125 g kasjúhnetur, ristaðar

Ristið kasjúhneturnar með því að dreifa úr þeim á bökunarplötu og setja þær í 175° heitan ofn í 10 mínútur. Fylgist með þeim undir lokin svo þær brenni ekki.

Veltið kjúklingabitunum upp úr kornsterkju þar til hún hjúpar þá. Kryddið með salti og pipar.

Hitið 1 msk af olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið helminginn af kjúklingabitunum á pönnuna og steikið þar til þeir hafa fengið fallega húð. Það tekur um 3 mínútur. Færið kjúklingabitana yfir á disk.

Setjið 1 msk af olíu og það sem eftir var að kjúklingnum á pönnuna ásamt hvítlauknum og hvíta hlutanum af vorlauknum. Steikið þar til kjúklingabitarnir hafa fengið fallega húð og hrærið oft í pönnunni á meðan. Bætið fyrri skammtinum af kjúklingabitunum á pönnuna og bætið hrísgrjónaediki saman við. Látið sjóða saman í um 30 sekúndur eða þar til edikið hefur gufað upp.

Bætið hoisin sósu og ¼ bolla af vatni á pönnunna. Hrærið í pönnunni og látið sjóða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það ætti að taka um 1 mínútu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið græna hlutanum af vorlaukunum og ristuðu kasjúhnetunum saman við. Berið strax fram með soðnum hrísgrjónum.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Þar sem ég fæ reglulega fyrirspurnir um hvar Marshmallow creme fáist þá má ég til með að benda á að það fæst núna á amerískum dögum í Hagkaup. Það hefur verið erfitt að fá marshmallow creme hér á landi en annað slagið dúkkar það upp og þá er um að gera að hlaupa til svo hægt sé að baka frosnu bismarkbökuna með marshmellowkreminu. Ef þið hafið enn ekki gert hana þá hvet ég ykkur til þess.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég birti uppskriftina af bökunni fyrir tæpu ári síðan en hún þolir vel að vera birt hér aftur. Mér þykir hún ómissandi sem eftirréttur um jól eða áramót og ekki skemmir fyrir að hægt sé að gera hana með góðum fyrirvara og geyma í frysti.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Botn:

 • 20 súkkulaðikexkökur, t.d. Maryland
 • 2 msk kakó
 • 25 g brætt smjör

Bismarkkrem

 • 5 dl rjómi
 • 1 dós marshmalowkrem (fæst t.d. í Hagkaup, sjá mynd)
 • Nokkrir dropar af piparmintudropum
 • nokkrir dropar af rauðum matarlit
 • 1 dl bismarkbrjóstyskur + nokkrir til skrauts

Súkkulaðisósa:

 • 125 g dökkt súkkulaði
 • 75 g smjör
 • ½ dl sykur
 • ½ dl sýróp
 • ½ dl vatn
 • smá salt

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Setjið kex, kakó og brætt smjör í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið blöndunni í smelluform með lausum botni (það getur verið gott að klæða það fyrst með smjörpappír) og setjið í frysti.

Þeytið rjómann og blandið marshmallowkreminu varlega saman við. Passið að hræra marshmallowkreminu ekki of vel saman við rjómann, það á að vera í litlum klessum í rjómanum. Hrærið nokkrum dropum af piparmintudropum saman við (smakkið til, mér þykir passlegt að nota ca 1 tsk.).  Setjið um þriðjung af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Myljið bismarkbrjóstsykurinn í mortéli og blandið honum saman við stærri hluta kremsins. Takið kökubotninn úr frystinum og breiðið kreminu með bismarkbrjóstsykrinum yfir hann.  Hrærið nokkrum dropum af rauðum matarlit saman við kremið sem var lagt til hliðar og breiðið það yfir hvíta bismarkkremið. Notið hníf til að mynda óreglulega áferð í kremið.

Frystið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkutíma. Takið hana úr frystinum 10-15 mínútum áður en það á að bera hana fram. Skreytið með bismarkbrjóstsykri.

Setjið öll hráefnin í súkkulaðisósuna í pott. Látið suðuna koma upp við vægan hita og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur eða þar til sósan er orðin þykk og glansandi.

Berið sósuna fram heita eða kalda með kökunni.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Heimagert snickers

Heimagert snickers

Það hefur verið í ýmsu að snúast upp á síðkastið því fyrir utan bloggið hef ég verið að gefa uppskriftir í MAN magasín og um helgina vann ég sem matarstílisti, bæði við myndatöku fyrir auglýsingu og við upptöku á sjónvarpsauglýsingu. Ótrúlega skemmtileg verkefni sem hafa komið til mín þökk sé blogginu. Þakklæti mitt liggur hjá ykkur sem lítið hingað inn því hvað væri bloggið án ykkar!

Heimagert snickers

Í fyrsta tölublaði MAN magasín gaf ég uppskrift af heimagerðu snickers sem ég held að verði seint toppað. Í hinum fullkomna heimi væri þetta snickers alltaf til hér heima og enginn myndi borða það frá mér. Ég hef grínlaust útbúið það og falið bak við kartöflupokann í neðstu skúffunni í ísskápnum hér heima því ég tími ekki að gefa með mér af því. Það er ólýsanleg tilfinning að vita af snickersinu liggjandi þar og geta fengið mér bita af góðgætinu þegar enginn sér til.

Heimagert snickers

Snickers

 • 150 g mjólkursúkkulaði eða rjómasúkkulaði
 • 150 g suðusúkkulaði
 • 200 g sykurpúðar (marshmellows)
 • 100 g smjör
 • 2 msk hnetusmjör
 • 100 g salthnetur
 • 400 g rjómakaramellur eða kúlur
 • 2 msk mjólk

Bræðið súkkulaðið (bæði mjólkur- og suðusúkkulaði) saman yfir vatnsbaði. Klæðið form í stærðinni 21 x 15 sm með bökunarpappír. Setjið um helming af súkkulaðiblöndunni í botninn á forminu og setjið formið að því loknu í frysti.

Bræðið sykurpúða með smjöri og hnetusmjöri í potti. Þegar blandan hefur bráðnað saman er salthnetum hrært saman við. Takið súkkulaðið úr frystinum og hellið sykurpúðablöndunni yfir. Setjið formið aftur í frysti.

Bræðið karamellurnar (eða kúlurnar) með mjólkinni í litlum potti. Blandan á bara að verða fljótandi. Takið formið aftur úr frystinum og hellið karamellunni yfir sykurpúðablönduna. Setjið formið aftur í frysti.

Ef súkkulaðið er byrjað að storkna þá er það brætt aftur. Hellið súkkulaðinu yfir karamelluna þegar hún hefur tekið að harðna. Látið snickersið standa í ískáp í að minnsa kosti klukkustund. Skerið kanntana af og skerið það síðan niður í passlega stórar snickersstangir eða snickersbita.

Heimagert snickers

Vikumatseðill

Mér sýndist tillagan að vikumatseðlinum sem ég setti inn síðasta sunnudag falla í góðan jarðveg og endurtek því leikinn. Nú geng ég þó skrefinu lengra og sting líka upp á köku til að eiga með helgarkaffinu. Þessi vika býður upp á rétti heimshorna á milli og ég vona að þið finnið eitthvað sem ykkur líkar.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur með paprikusósu. Það getur verið gott að nota smurosta í sósur og hér passar paprikusmurosturinn mjög vel með fiskinum.

Spaghetti bolognese

Þriðjudagur: Spaghetti bolognese. Klassískt og gott. Mér þykir sýrði rjóminn lyfta réttinum upp á hærra plan og verð alsæl ef það er afgangur í nestiboxið daginn eftir.

Grjónagrautur

Miðvikudagur: Ofnbakaður grjónagrautur sem gerir eldamennskuna eins einfalda og hægt er.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Fimmtudagur: Þessar bragðmiklu tælensku núðlur með kjúklingi munu lífga upp á daginn.

Mexíkósk kjúklingabaka

Föstudagur: Mexíkósk kjúklingabaka. Súpergóð baka sem passar vel á föstudagskvöldum. Berið hana fram með salati, nachos, guacamole og salsasósu og hamingjan verður taumlaus.

Silvíukaka

Með helgarkaffinu: Silvíukaka. Ljúffeng kaka sem tekur enga stund að reiða fram og hráefnið í hana er yfirleitt til í skápunum. Ein af uppáhöldunum hér á bæ.