Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Mér þykir ótrúlegt að fyrsta aðventuhelgin sé runnin upp. Þegar hausta tekur byrja ég að hlakka til aðventunnar og það er hálf galið að þessi barnalega tilhlökkun skuli ekki eldast af mér. Desember hefur einfaldlega alltaf verið uppáhalds mánuðurinn minn því hann er svo skemmtilegur. Ég elska jólaundirbúninginn, hátíðleikann og hefðirnar og þar að auki eiga ég, strákarnir og tvær af mínum bestu vinkonum afmæli í desember. Ég hef því fulla ástæðu til að gleðjast yfir því að desembermánuður sé loksins að bresta á.

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Það kemur eflaust engum á óvart að ég mér þykja smákökur ómissandi á borðum yfir aðventuna. Þegar ég bakaði sörurnar um síðustu helgi átti ég nokkrar eggjahvítur afgangs sem mér þótti kjörið að nýta í marenstoppa. Ég hafði keypt súkkulaði með frönsku núggati, sem ég held að sé nýjung frá Nóa Síríus, og ákvað að prófa að grófhakka það og setja í toppana. Við smökkuðum á kökunum áður en þær voru settar í frystinn sem varð til þess að það hefur fækkað verulega í kökuboxinu í vikunni, þó að enginn vilji kannast við að hafa stolist í þær. Kökurnar eru jú bakaðar til að njóta þeirra og ég sé ekki eftir einni einustu ofan í nautnaseggina.

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g ljós púðursykur
 • 300 g Síríus rjómasúkkulaði með frönsku núggati

Stífþeytið eggjahvíturnar og púðursykurinn. Grófhakkið súkkulaðið og hrærið varlega saman við.

Mótið litla toppa með teskeiðum á bökunarpappírsklædda plötu og bakið við 150°í ca 15 mínútur.

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Fljótlegar og ljúffengar smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur

Það hefur verið í nógu að snúast undanfarna daga og því ekki gefist mikill tími til að dunda sér í eldhúsinu. Á morgun verður 10. bekkur með kökusölu í skólanum og Malín á að koma með tvær kökur. Ég sé því núna fram á notalega kvöldstund í eldhúsinu með jólalögin í bakgrunninum og bökunarlykt í húsinu.

Smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur

Á sunnudaginn var útstáelsi á okkur þar sem við fórum í afmæli, á bókamessuna og þaðan í Garðheima að endurnýja útiseríuna. Við komum seint um síðir heim og reiddum fram ljúffengar pizzur á svipstundu. Mér þykir gott að eiga smjördeig í frystinum og þarna kom það sér mjög vel. Ég flatti nokkrar plötur út, smurði tomato & garlic stir through (úr glerkrukku frá Sacla) yfir og toppaði ýmist með marineruðum paprikubitum (líka úr glerkrukku frá Sacla) eða ferksrifum parmesan. Þegar pizzurnar komu úr ofninum þá settum við hráskinku, ruccola og ferskrifinn parmesan yfir. Svakalega fljótlegt og gott!

Smjördeigspizzur

Það er hægt að leika sér endalaust með hráefnin og útfærsluna en svona voru pizzurnar hjá okkur.

Smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur (hugmyndin kemur héðan)

 • smjördeig
 • Stir through með tómat og hvítlauk
 • marineraðir paprikubitar í kryddolíu
 • ferskur parmesan
 • hráskinka
 • ruccola

Hitið ofninn í 190°.

Afþýðið smjördeigið (ef þið eruð með frosið) og fletjið út. Smyrjið stir through yfir og stráið parmesan osti eða marineruðum paprikubitum yfir. Brjótið upp á kantana og penslið þá með upphrærðu eggi. Bakið í 10 mínútur. Takið úr ofninum og setjið hráskinku og ruccola salat yfir og toppið með ferskrifnum parmesan.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Mér þykir tíminn fljúga frá mér þessa dagana. Helgin leið á ógnarhraða og í gærkvöldi var okkur boðið í mat til mömmu þar sem við fengum æðislega blálöngu með ólívum, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og fleira góðgæti og borið fram með sætri kartöflustöppu. Synd að myndavélin gleymdist heima því annars hefði ég myndað og sníkt uppskriftina fyrir ykkur.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Það er þó hvergi að örvænta því ég luma á æðislegri uppskrift sem ég ætlaði að deila með ykkur í gær en komst aldrei í það. Ég lét nefnilega verða af því að prófa kjúklingauppskrift sem ég hef horft hýru auga til allt árið en af óskiljanlegum ástæðum látið þar við sitja. Þegar við vorum að gæla við þá hugmynd að elda eitthvað gott á laugardagskvöldinu ákvað ég að nú væri tími til kominn að prófa uppskriftina. Það reyndist frábær ákvörðun því rétturinn var æðislegur og vakti gífurlega lukku meðal viðstaddra. Uppskriftin er ykkar ef þið viljið líka prófa. Ég mæli með því!

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu (uppskrift frá Matplatsen)

 • 800 g kjúklingabringur

Tómatsósa:

 • 1 dós hakkaðir tómatar (ég mæli með Hunt’s roasted garlic, passaði súpervel)
 • 3 msk tómatpuré
 • ½ rauð paprika
 • ½ gul paprika
 • 1 tsk ferskt rautt chili (ég tók fræin úr, krakkana vegna)
 • 1 hvítlauksrif
 • salt og pipar

Ostasósa:

 • 1 msk smjör
 • 1 msk hveiti
 • 3 dl mjólk
 • 50 g sterkur gouda ostur
 • salt og pipar

Toppur:

 • 2 fínhakkaðir skarlottulaukar
 • 1-2 dl kasjúhnetur
 • fersk basilika

Hitið ofninn í 200°.

Byrjið á tómatsósunni. Skerið paprikur í teninga og fínhakkið chili og hvítlauksrif. Setjið í matvinnsluvél ásamt tómötum og tómatpure og mixið saman í 10 sekúndur. Þetta er líka hægt að gera með töfrasprota.  Saltið og piprið.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Ostasósan: Bræðið smjörið í potti og hrærið hveitinu saman við. Setjið 1,5 dl af mjólk saman við og látið suðuna koma upp á meðan hrært er í pottinum. Bætið restinni af mjólkinni út í og látið suðuna koma aftur upp. Takið af hitanum og hrærið rifnum osti saman við. Saltið og piprið.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Skerið kjúklingabringurnar í bita og leggið í eldfast mót. Saltið og piprið. Hellið tómatsósunni yfir kjúklingabitana og síðan ostasósunni. Stráið hökkuðum skarlottulauk og kasjúhnetum yfir. Bakið í ofni í 20-25 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er full eldaður. Stráið feskri basiliku yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Berið fram með pasta, hrísgrjónum eða salati.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósuKjúklingagratín með tómat- og ostasósuKjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Vikumatseðill

VikumatseðillÍ gær pakkaði ég nokkrum sörum í poka, skrifaði kort til mömmu og gaf henni til að eiga með helgarkaffinu. Hún varð svo ánægð með uppátækið. Mér þykja sörur ómótstæðilega góðar og alveg ómissandi um jólin.

Vikumatseðill

Í dag ætlum við að kíkja á bókamessuna í Ráðhúsinu en fyrst bíður afmælisveisla. Mér finnst ég gera lítið annað en að pakka inn gjöfum þessa dagana en mun seint kvarta undan því, mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að pakka inn. Í dag á tónlistarmaður afmæli og því fengu nótur að prýða pakkann. Merkispjaldið prentaði ég út á netinu.

Matseðill vikunnar býður upp á sitt lítið af hverju. Hakkabuffið á fimmtudeginum er tilhlökkunarefni en ég held að ekkert toppi orange chicken réttinn á föstudeginum.

Plokkfiskur

Mánudagur: Af hverju ekki að byrja vikuna á plokkfiski og rúgbrauði? Stórgóð máltíð að mínu mati.

Lasagnabaka

Þriðjudagur: Lasagnabaka þykir mér æðislega góð. Ég ber hana fram með salati og allir verða glaðir.

Aspassúpa

Miðvikudagur: Aspassúpa passar vel í miðri viku. Það tekur stutta stund að útbúa hana og máltíðin er ódýr.

Hakkabuff með parmesan í raspi

Fimmtudagur: Þetta hakkabuff með parmesan í raspi þykir mér stórkostlega gott.

Orange Chicken

Föstudagur: Orange chicken er ómótstæðilegur réttur sem við Öggi höfum boðið ófáum matargestum upp á við miklar vinsældir.

Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði

Með helgarkaffinu: Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði er kaka sem að mér þykir passa vel að bjóða upp á þegar aðventan gengur í garð.

Sörubakstur

Sörur

Mig langar til að byrja á að þakka ykkur fyrir allar fallegu kveðjurnar sem ég hef fengið vegna viðtalsins í kökublaði Vikunnar. Þær hlýja mér inn að hjartarótum og gleðja mig meira en orð fá lýst. Þúsund þakkir ♥

Sörur

Núna er síðasta helgi fyrir aðventu gengin í garð sem þýðir söru- og jólasnúðabaksturshelgi hjá mér. Ég vil alltaf vera búin að baka sörur og snúða til að eiga í frystinum þegar desember gengur í garð.  Ég ætlaði að flýta fyrir mér í gærkvöldi og gera sörubotnana en gat svo ekki látið þar við sitja og rétt eftir miðnætti kláraði ég að hjúpa síðustu kökurnar. Það var góð tilfinning að setjast niður með fyrstu söru ársins, vitandi af fullum boxum í frystinum og aðventunni handan við hornið.

Sörur

Ég held mig alltaf við sömu uppskriftina og birti hana hér fyrir jólin í fyrra. Leyfi henni að fylgja aftur núna.

Sörur (uppskriftin gefur 60-70 kökur)

 • 200 g möndlur
 • 180 g flórsykur
 • 3 eggjahvítur
 • salt á hnífsoddi

Sörur

Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Bakið í ca 12 mínútur.

Krem

 • 5-6 msk sýróp (velgt)
 • 6 eggjarauður
 • 300 g smjör
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk kaffiduft (instant kaffi sem ég myl fínt í mortéli)

Velgjið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.

Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kanntana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.

Sörur

Hjúpur

 • 400 g suðusúkkulaði

Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.

Kökublað Vikunnar

Kökublað Vikunnar

Eru þið búin að sjá kökublað Vikunnar?  Með hjartsláttartruflanir og kvíðahnút í maganum skoðaði ég blaðið sem mamma keypti. Ástæðan var einfaldlega sú að ég er á forsíðunni og það hefur aldrei gerst áður. Hamingjan hjálpi mér hvað ég er óvön. En kakan er draumi líkast, því get ég lofað.

Kökublað Vikunnar

Öggi skemmti sér við að taka myndir bak við tjöldin á meðan á myndatökunni stóð. Malín fylgdist áhugasöm með þegar ég var förðuð og strákarnir höfðu gaman af öllu umstanginu. Notalegast var þó þegar myndatakan var yfirstaðin og ekkert beið okkar annað en ljúffeng kakan. Það á betur við mig að borða kökuna en að standa brosandi með hana í höndunum. Það er nokkuð sem á seint eftir að breytast.

Kökublað Vikunnar

Grísk pizza

Grísk pizza

Í gærkvöldi setti ég jólatónlist á fóninn og byrjaði að pakka inn fyrstu jólagjöfunum. Það varð svo jólalegt hér heima við það eitt að heyra jólalögin að mig dauðlangaði til að setja aðventuljósin í gluggana og æða inn í geymslu eftir jólaskrautinu. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og veit fátt skemmtilegra en að undirbúa jólin.

Grísk pizza

Hér áður fyrr vildi ég alltaf geyma það fram á síðustu daga að pakka jólagjöfunum inn en eftir að hafa setið til þrjú aðfaranótt aðfangadags eitt árið við innpökkun ákvað ég að þeirri hefð yrði ég að breyta. Núna byrja ég snemma, tek eitt og eitt kvöld í að dunda mér við þetta og nýt hverrar stundar.

Mig langar að benda ykkur á að það er hægt að prenta út skemmtileg merkispjöld á síðu sem heitir Eat, drink, chic, eins og til dæmis þessa krúttlegu hreindýraknúsamiða, jólapeysumiða, jólakveðjur, þessi fallegu merkisspjöld eða hreindýraspjöldin sem ég notaði í gærkvöldi. Passið bara að kaupa fallegan pappír sem er þykkari en venjuleg blöð.

Grísk pizza

En úr jólagleðini yfir í helgina, það er föstudagur á morgun og margir með þá hefð að hafa pizzu í kvöldmatinn. Ég fór með Kristínu vinkonu minni til Boston fyrir nokkrum árum og  þar kynnti hún mig fyrir æðislegri pizzu á California Pizza Kitchen. Pizzan var grísk og þegar ég kom heim var það mitt fyrsta verk að finna uppskriftina. Nú man ég ekki lengur hvar ég fann uppskriftina en hún er stórgóð og ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þó að það taki smá tíma og hráefnalistinn er langur. Það er vel þess virði að eyða smá tíma í þessa dásemd.

Grísk pizza

Grísk pizza

 • Pizzabotn (uppskrift fyrir neðan)
 • 2 msk ólívu olía
 • 170 g ferskur, rifinn mozzarella ostur
 • 2 grillaðar grískar kjúklingabringur, skornar í sneiðar (uppskrift fyrir neðan)
 • grískt salat (uppskrift fyrir neðan)
 • 2 dl  tzatziki sósa (uppskrift fyrir neðan)
 • 30 g feta ostur
 • 2 tsk steinselja, hökkuð

Pizzabotn:

 • 1 tsk sykur
 • 2 tsk matarolía
 • 2 dl vatn (37°heitt)
 • 1 tsk ger
 • 1/2 tsk salt
 • 400 g hveiti

Hráefnið er sett í skál í þessari röð og hnoðað vel saman. Farið varlega í hveitið, setjið það smá saman út í þar til deigið sleppir skálinni. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast á meðan áleggið er undirbúið og ofninn hitaður.

Grískur kjúklingur:

 • 900 g kjúklingabringur
 • 2 msk ólíufolía
 • 0,5 dl grísk kryddblanda

Setjið kjúklingabringurnar í plastpoka og fletjið þær út með buffhamri þar til þær verða 1,5 cm að þykkt. Hrærið ólívuolíu og kryddblöndunni saman og veltið kjúklingabringunum, einni í einu, upp úr blöndunni. Setjið kjúklinginn í ísskáp í 10-20 mínútur.

Grillið kjúklinginn á grilli í 3-4 mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni við 175° í 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Grískt salat

 • 1 stór agúrka, afhýdd og skorin í teninga
 • 2 tómatar, kjarnhreinsaðir og skornir í teninga
 • 1 rauðlaukur, hakkaður
 • 1 dl kalamata ólífur, skornar í tvennt
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1 tsk rauðvínsedik
 • ½ tsk sykur
 • ¼ tsk hakkaður hvítlaukur
 • dass af þurrkuðu oregano
 • dass af grófu salti
 • dass af svörtum pipar
 • 1 msk ólífuolía

Setjið agrúrku, tómata, rauðlauk og ólífur í stóra skál. Hrærið hinum hráefnunum saman í lítilli skál og blandið svo saman við grænmetið.

Tzatziki sósa

 • 1,2 dl majónes
 • 3 msk jógúrt
 • 3 msk sýrður rjómi
 • 30 g fetaostur
 • 1 ½ msk agúrka, afhýdd og kjarninn fjarlægður, restin skorin í teninga
 • ½ tsk þurrkuð mynta

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og vinnið saman í slétta sósu.

Samsetning:

Hitið ofn í 220°. Fletjið pizzadeigið út í eina stóra pizzu eða tvær minni. Burstið ólíuolíu og stráið rifnum mozzarellaosti yfir botinn. Dreifið kjúklingasneiðum yfir ostinn og setjið pizzuna í ofninn í 8-10 mínútur eða þar til pizzabotninn er gylltur á könntunum og osturinn bránaður.

Þegar pizzan kemur úr ofninum er grísku salati dreift yfir pizzuna, fetaosti stráð yfir og að lokum tzatziki sóu. Stráið hakkaðri steinselju yfir pizzuna og berið hana fram með auka sósu til hliðar.

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Í fjarveru okkar Malínar naut Öggi þess að dekra við strákana og mér sýnist hann hafa látið um það bil allt eftir þeim. Hér var horft á hverja geimmyndina á fætur annarri, farið í Bláa lónið, kvöldmaturinn borðaður fyrir framan sjónvarpið og málaður veggur í herberginu þeirra. Yfir kvöldmatnum í gær sögðu strákarnir að þetta hefðu verið æðislegir dagar. Jú, maður þakkar!

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Öggi hafði keypt kjúklingabringur til að hafa í kvöldmatinn og þar sem við áttum pestókrukku í skápnum og fetaost í ísskápnum lá beinast við að hrúga öllu saman í einn rétt. Í eftirrétt bakaði ég síðan franska súkkulaðiköku sem við hrúguðum söltum hnetum yfir og toppuðum með karamellusósu. Ljúffengari endi á vikunni var ekki hægt að fá.

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

 • 150 g smjör
 • 150 g suðusúkkulaði, hakkað
 • 3 stór egg
 • 3 dl sykur
 • 1½ dl hveiti
 • ½ dl kakó

Hitið ofninn í 175°. Klæðið form í stærðinni 20×20 cm með smjörpappír.

Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti yfir lágum hita. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið bræddu súkkulaðiblöndunni saman við eggjablönduna. Bætið hveiti og kakói út í og hrærið saman í slétt deig. Setjið deigið í bökunarformið og bakið í 22-25 mínútur. Kakan á að vera þétt í sér, þurrari í kanntinum og svigna í miðjunni.

Kakan er best ef hún fær að taka sig í nokkra tíma áður en hún er borin fram. Skerið hana í bita, stráið vel af söltum hnetum yfir og hellið karamellusósu yfir. Við höfðum þetta einfalt og notuðum tilbúnar karamellusósur sem við áttum í skápnum og höfum verið að nota út á ís og jafnvel laumað smáveigis af í kaffibollana þegar enginn sér. Karamellusósur gera jú flest allt aðeins betra 🙂

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Vikumatseðill

Kaupmannahöfn

Eins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust tekið eftir þá hef ég eytt síðustu dögum með mömmu og Malínu hjá systur minni í Kaupmannahöfn. Við flugum út á fimmtudagsmorgun og komum aftur heim í dag. Við áttum yndislega daga saman, gengum um bæinn, sátum á kaffihúsum, litum í búðir, dáðumst af fallegum jólaskreytingum og borðuðum ris a la mande. Þess á milli nutum við þess að stjana við systurdóttur mína sem vefur okkur um fingur sér án þess að hafa nokkuð fyrir því. Á kvöldin vöktum við frameftir yfir skálum fullum af sætindum og nutum þess að vera allar saman komnar. Það gerist allt of sjaldan þar sem systir mín hefur búið úti í yfir 10 ár.

Þrátt fyrir ævintýri síðustu daga er matseðillinn hér á sínum stað. Á sunnudegi eins og hefð er fyrir en kannski örlítið seinn á ferðinni. Ég vona að það komi ekki að sök.

Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi

Mánudagur: Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi að hætti Jamie Oliver þykir mér góður réttur, eins og flest sem frá honum kemur.

Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki

Þriðjudagur: Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki er góður hversdagsmatur sem krakkarnir eru hrifnir af.

Rjómalöguð kjúklingasúpa

Miðvikudagur: Rjómalöguð kjúklingasúpa fer vel í kuldanum og myrkrinu.

Brauð með ítalskri fyllingu

Fimmtudagur: Brauð með ítalskri fyllingu fær pláss á matseðlinum því það er svo gott.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Föstudagur: Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi þykir mér æðislega góður réttur. Það tekur stutta stund að matreiða réttinn sem gerir hann að frábærum föstudagsmat.

Mjúk kanilsnúðakaka

Með helgarkaffinu: Þessi mjúka kanilsnúðakaka vekur alltaf lukku og fer því vel með helgarkaffinu.

Bláberjate möffins

Bláberjate möffins

Þegar ég kom fram í morgun blasti við mér fannhvít jörð og jólasnjór féll frá himninum. Það var engin á ferli og friðsældin var dásamleg. Þvílík fegurð. Það brá þó snögglega fyrir gleðina þegar það rifjaðist upp fyrir mér að bíllinn minn var enn á sumardekkjum. Eða kannski ekki sumardekkjum heldur heilsársdekkjum sem mér þykja ekki gera neitt gagn í hálku.  Það  var því ekkert spes að keyra í vinnuna í morgun og mikið var ég fegin þegar ég var komin á leiðarenda. Nú er næsta mál á dagskrá að kaupa ný dekk sem virka betur í vetrarveðrinu.

Bláberjate möffins

Í haust fékk Malín skyndilegan áhuga fyrir tedrykkju og skáparnir fylltust af ólíkum tesortum. Eftir að hafa horft á tepakkningarnar í nokkra daga fékk ég þá hugdettu að prófa að baka úr því. Kvöld eitt þegar rigningin dundi á gluggana og strákarnir sátu við eldhúsborðið að gera heimanámið ákvað ég að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Úr varð að ég bakaði möffins með bláberjatei sem ég sprautaði rjómaostakremi yfir og bauð upp á með kvöldkaffinu við miklar vinsældir. Bláberjateið fór vel með kreminu sem hafði sítrónukeim en auðvitað má skipta því út fyrir aðrar bragðtegundir. Uppskriftina er því auðvelt að leika sér með.

Bláberjate möffins

Bláberjate möffins (ca 12 stk)

 • 4 dl hveiti
 • 3 dl sykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 3 tepokar af bláberjate
 • 2 tsk sykur (til að merja teið með)
 • 100 g smjör við stofuhita
 • 2 dl mjólk
 • 2 egg
 • 1 tsk vanilludropar

Rjómaostakrem

 • 60 g mjúkt smjör
 • 5 dl flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • rifið hýði af einni sítrónu
 • 100 g philadelphia rjómaostur

Hitið ofninn í 175°. Myljið teið úr tepokunum með 2 tsk af sykri í mortéli. Sigtið hveiti, sykur, matarsóda, lyftiduft, temulninginn og salt í skál og bætið smjörinu og 1 dl af mjólk út í. Hærið saman í slétt deig. Hrærið því sem eftir er af mjólkinni, eggjunum og vanilludropum saman í annari skál og blandið því síðan saman við deigið. Setjið deigið í möffinsform og bakið í miðjum ofni í 12-18 mínútur (fer eftir stærð á möffinsformunum).

Hrærið öllum hráefnum í kremið saman og smakkið til með flórsykrinum. Sprautið kreminu yfir möffinsin þegar hitinn er farinn úr þeim.