Vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2013

Vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2013

Þá er síðasti dagur ársins runninn upp. Við verðum með okkar árlegu kalkúnaveislu í kvöld og ég ætla að eyða deginum í eldhúsinu. Mér þykir það góð og afslappandi tilhugsun. Hálfgert dekur að geta eytt heilum degi við það sem mér þykir skemmtilegt. Það er alltaf ákveðin stemmning sem að fylgir þessum degi, tilhlökkun fyrir kvöldinu og nýju upphafi.

Vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2013

Þegar ég lít yfir liðið ár fyllist ég gleði yfir því hvað bloggið mitt hefur vaxið og dafnað vel á árinu. Heimsóknum hefur fjölgað jafnt og þétt og hafa farið hátt í 23.000 á annasömustu dögunum. Mér þykir óraunverulegt að það séu svona margir sem kíkja hingað inn og fæ fiðrildi í magann við tilhugsunina. Ég vil þakka ykkur fyrir samfylgdina, öll kommentin og alla tölvupóstana sem ég hef fengið frá ykkur á árinu. Þið hafið fegrað árið með fallegum orðum og ég mun seint ná að lýsa því hversu vænt mér þykir um þau. Frá dýpstu hjartarótum þakka ég fyrir mig.

Þessi síðasta bloggfærsla ársins er færsla númer 300 sem ég birti hér á blogginu og mér þykir við hæfi að enda hana með upprifjun á vinsælustu uppskriftunum á árinum sem leið. Ég óska þess að nýja árið færi ykkur gleði, gæfu og góðar stundir.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Mér þykir hálf kómískt að vinsælasta uppskrift ársins sé kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti þar sem ég var óörugg með að setja hann á bloggið því mér þóttu myndirnar svo ómöglegar. Það virtist þó ekki koma að sök því uppskriftinni hefur verið deilt yfir 5 þúsund sinnum og á toppsætið yfir vinsælustu uppskriftir ársins.

Einföld og góð skúffukaka

Í öðru sæti er einföld og góð skúffukaka. Ég vil ekki vita hversu oft ég hef bakað þessa köku, enda ekki hægt að fá nóg af skúffuköku og ísköldu mjólkurglasi. Namm! Hér er önnur góð skúffukökuuppskrift sem ég baka líka oft, en komst þó ekki á listann.

Mexíkósúpa

Í þriðja sæti er mexíkósk kjúklingasúpa. Ég fæ ekki leið á þessari súpu og gleðst yfir því að sjá þennan trygga vin svona ofarlega á listanum.

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu prýðir fjórða sæti vinsældarlistans. Mér þykir hún eiga sætið fyllilega skilið, enda stórgóð kaka sem allir falla fyrir.

Hakkbuff með fetaosti

Hakkabuff með fetaosti er fimmta vinsælasta uppskrift ársins. Mér þykir þetta vera hversdagsréttur eins og þeir gerast bestir.

Bananabrauð

Uppáhalds bananabrauðið okkar nældi sér í sjötta sæti listans. Æðislegt brauð sem hverfur alltaf á svipstundu af borðinu.

Milljón dollara spaghetti

Í fyrra var milljón dollara spaghetti vinsælasta uppskrift ársins en í ár er hún í sjöunda sæti. Fjölskylduvænn réttur sem svíkur seint.

Mexíkósk kjúklingabaka

Í áttunda sæti er ein af mínum uppáhalds bökum, nefnilega mexíkósk kjúklingabaka.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka er níunda vinsælasta uppskrift ársins. Kakan er draumi líkast, lungamjúk og bragðgóð. Ég bakaði hana síðast fyrir viku, við miklar vinsældir heimilismanna.

Fylltar tortillaskálar

Að lokum, tíunda vinsælasta uppskrift ársins 2013 er fylltar tortillaskálar. Æðislegur réttur sem gaman er að bera fram.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Eru þið búin að kíkja á útsölurnar? Ég ætla að halda mér frá þeim en gerði þó eina undantekningu og keypti mér þriggja hæða fatið sem þið sjáið hér fyrir ofan í Ilvu fyrir 1500 krónur. Mér þótti það svo fallegt og kjörið til að bera fram sætindin í um áramótin.

Tillögur af eftirréttum fyrir gamlárskvöld

Ég ætla að gera hlé á vikumatseðlinum þessa vikuna þar sem áramótin einkenna hana með viðeigandi frídögum. Ég er alltaf með heilsteiktan kalkún á gamlárskvöld en í ár ætla ég að bregða út af vananum og prófa smjörsprautuðu kalkúnabringurnar frá Hagkaup. Ég hef heyrt vel af þeim látið og hlakka til að prófa. Við verðum líka með kalkúnabringur í salvíusmjöri sem Öggi fékk í jólagjöf frá vinnunni sinni. Hvað eftirréttinn varðar þá hallast ég að því að gera tíramísú úr nýju bókinni hennar Rikku, Veisluréttir Hagkaups, sem ég fékk í afmælisgjöf. Ég hef undanfarin jól gert tíramísú eftir gamalli uppskrift frá Rikku en þar sem ég get ómögulega fundið hana þá ætla ég að prófa nýju uppskriftina (þú finnur hana hér). Kannski er þetta sama uppskriftin en ég man þó að sú gamla var með núggatsúkkulaði.

Ef þið eruð líka í eftirréttahugleiðingum fyrir komandi veisluhöld þá er ég með nokkrar tillögur sem ég mæli með:

Ísbaka með bourbon karamellu

1. Ísbaka með bourbon karamellu. Brjálæðislega góð baka úr smiðju Nigellu Lawson sem ég er að gæla við að bæta á eftirréttaborðið hjá mér um áramótin.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

2. Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi. Ég á hálfa böku í frystinum síðan um daginn sem ég hef bannað fjölskyldumeðlumum að snerta því ég ætla að draga hana fram um áramótin, þó að það sé búið að borða helminginn af henni! Ég þarf bara aðeins að fegra bökuna með jólastafabrjóstsykri eða bismarkbrjóstsykri og þá mun hún sóma sér vel á eftirréttaborðinu.

Oreo-ostakaka

3. Oreo-ostakaka þykir mér fara vel á eftirréttaborðinu og get lofað að hún mun falla í kramið hjá öllum aldursflokkum.

Súkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

4. Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu er algjör bomba og fullkomin áramótaterta. Það væri smart að stinga stjörnuljósum í hana rétt áður en hún er borin fram.

súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi

5. Einföld súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi er einfaldur eftirréttur sem krakkarnir mínir elska. Mér þykir hnetumulningurinn ómissandi með.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili

Í gærmorgun hélt Öggi til vinnu eftir jólafrí en ég nýt góðs af því að vera í fríi til 2. janúar. Mér þykir það æðislegur lúxus að geta verið hér heima á náttfötunum fram eftir degi með krökkunum í jólafríinu þeirra. Í gær var heldur engin venjulegur dagur því strákarnir áttu afmæli. Við héldum afmælisveislu um síðustu helgi og í gær fórum við út að borða og síðan biðu afmælisgjafir og gleði hér heima eftir það.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Við erum búin að eiga yndisleg jól. Höfum borðað mikið, sofið mikið, lesið jólabækurnar, farið út á sleða og í gönguferðir á milli þess sem við klæddum okkur upp og fórum í jólaboð. Núna tek ég árs fríi frá jólamat fagnandi, enda búin að borða yfir mig og vel það af jólamat undanfarna daga. Í kvöld verður kjúklingur hér á borðum og uppskriftin er ekki af verri endanum. Hún kemur úr bók sem ég pantaði mér á netinu fyrir ári síðan og hefur verið mikið notuð síðan þá. Ég mæli svo sannarlega með réttinum enda bæði einfaldur og æðislega góður.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili (uppsrift úr Arla kökets bästa)

 • 500 g kjúklingafilé
 • 4 dl vatn
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 4 dl kúskús
 • 1-2 púrrulaukar
 • 2 hvítlauksrif
 • smjör
 • 2 dl appelsínudjús
 • 3/4 dl sweet chilisósa
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 1 tsk japönsk sojasósa
 • 2 dl jógúrt án bragðefna
 • salt

Hitið vatn og kjúklingakraft að suðu og hrærið kúskús saman við. Takið potinn af hitanum, setjið lokið á og látið standa í 6 mínútur.

Skerið kjúklinginn í bita og púrrulaukinn í strimla. Afhýðið og hakkið hvítlaukinn. Steikið kjúklinginn í smjöri á pönnu. Takið kjúklinginn af pönnunni þegar hann er steiktur. Setjið hvítlauk og púrrulauk á pönnuna og steikið þar til fer að mýkjast.  Bætið appelsínudjús, sweet chilisósu, kjúklingateningi, sojasósu og kjúklingi á pönnuna. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hitanum og hrærið helmingnum af jógúrtinni saman við. Smakkið til með salti.

Hrærið kúskús upp með gaffli. Berið fram með kjúklingnum og því sem eftir var af jógúrtinni.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Gleðileg jól

Gleðileg jól

Ég velti því fyrir mér hvort ég sé ein hér á netinu í dag en átta mig svo á því að það getur ekki verið. Veðurspáin er slæm og eflaust margir að leita frétta af veðri og jafnvel einhverjir að kanna opnunartíma verslana því það gleymist að kaupa konfekt eða rjóma. Þetta er svo stór dagur, aðfangadagur jóla, og ég vona að lífið sé að leika við ykkur. Hér sefur fjölskyldan og ég er ein á fótum. Það er algjör þögn í húsinu og eina birtan er frá jólatréinu, aðventuljósum og kertaljósum sem ég kveikti áður en ég kom mér fyrir hér í stofusófanum. Friðurinn er svo notalegur að ég tími ekki að kveikja á útvarpinu.

Gleðileg jól

Við eigum von á mömmu til okkar í möndlugraut í hádeginu og síðan fer Öggi með krakkana að keyra út jólagjafirnar. Ég verð hér heima á meðan og undirbý jólin. Set dúk á borðið, tek fram sparistellið og set jólanammið í skálar á milli þess sem ég hræri í pottum og smakka til sósuna. Í kvöld borðum við hamborgarhrygg, opnum gjafir og lesum jólakort yfir konfekti og appelsíni.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og vona að jólahátíðin fylli hug ykkar og hjörtu af gleði, birtu og yl.

Gleðileg jól

Aðventugjafir

Aðventugjafir

Mér þykir gaman að færa fólki aðventugjafir og hingað til hafa þær gjafir sem ég hef gefið verið matarkyns. Það er svo einfalt að setja nokkrar sörur, smákökur eða jólasælgæti í fallegan poka og hnýta slaufu um hann. Ég held að allir verða glaðir af þess háttar gjöfum, ja nema kannski þeir sem eru í megrun en þeim er þá nær að standa í slíkri vitleysu í sjálfum jólamánuðinum.

Aðventugjafir

Um daginn fór Öggi til Péturs vinar síns og þá nýtti ég tækifærið og sendi Pétri piparmyntustykki. Ég vona að honum hafi þótt þau góð en er mest hrædd um að Öggi hafi borðað þau frá honum á meðan þeir sátu yfir kaffibolla og tölvuuppfærslum. Öggi vill nefnilega meina að piparmyntustykkin fari glæsilega með kaffinu og fær sér varla kaffibolla hér heima án þess að brjóta sér bita af þeim.

Aðventugjafir

Um daginn færði ég svo mömmu og tengdamömmu sinn hvorn pokann af heimagerðu granóla með pekanhnetum. Þær urðu mjög glaðar en eflaust varð ég glöðust af öllum því mér þótti svo gaman að færa þeim þetta. Ég er með æði fyrir þessu granóla og hef upp á síðkastið byrjað dagana á skál með ab-mjólk og vænum skammti af granóla. Það er æðislega gott og ekki skemmir fyrir hversu einfalt er að útbúa það.

Aðventugjafir

Granóla með pekanhnetum

 • 3 bollar tröllahafrar
 • 1 bolli grófsaxaðar pekanhnetur
 • 2 tsk kanil
 • ¼ tsk salt
 • ½ bolli ljós púðursykur
 • ¼ bolli vatn
 • 2 msk bragðlaus olía
 • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 150° og leggið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Blandið tröllahöfrum, pekanhnetum, kanil, vanillusykri og salti í skál. Blandið ljósum púðursykri og ¼ bolla af vatni saman í pott og hitið að suðu yfir miðlungsháum hita. Hrærið í þar til sykurinn hefur bráðnað. Bætið olíunni saman við. Takið pottinn af hitanum og hellið yfir þurrefnin. Hrærið í blöndunni þar til allt hefur blandast vel.

Skiptið blöndunni á bökunarplöturnar og dreifið úr þeim. Bakið í 15 mínútur, hrærið í granólanu og færið plöturnar þannig að sú sem var ofar í ofninum fari fyrir neðan og öfugt. Bakið áfram í 10-15 mínútur til viðbótar eða þar til granólað er komið með fallegan lit. Tröllahafrarnir geta verði mjúkir þegar þeir koma úr ofninum en þeir verða stökkir þegar þeir kólna. Látið kólna alveg á bökunarplötunum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Þá er síðasta vikan fyrir jól runnin upp og ekki seinna vænna en að fara að klára það síðasta fyrir jólin. Við erum búin að því helsta en eigum eftir að versla jólamatinn og skreyta tréið. Gunnar æfir sig af kappi fyrir sína fyrstu jólatónleika í tónlistarskólanum og við hin bíðum spennt eftir að fá að njóta þeirra á fimmtudaginn.

Mangókjúklingur

Við áttum æðislega helgi sem einkenndist af notalegheitum og afslöppun. Við keyptum jólatré, horfðum á jólamyndir, buðum mömmu í aðventukaffi og borðuðum góðan mat. Ég eldaði mangókjúkling sem okkur þótti sérlega góður og krakkarnir voru alsælir með.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Uppskriftir af mangókjúklingum hafa verið vinsælar og eflaust eiga flestir sína uppáhalds uppskrift. Ætla ég að bera í barmafullan lækinn og gefa enn eina uppskriftina af mangókjúklingi? Já, svo sannarlega! Þessi uppskrift er nefnilega ekki eins og þær hefðbundu því hún er með sýrðum rjóma (sem gerir alltaf allt svo gott), tómatpuré, epli og hot mango chutney sem gerir réttinn dásamlega bragðgóðan. Verið óhrædd við að nota sterkt mango chutney því sýrði rjóminn mildar það og eftir situr ljúffengt bragð sem er ó, svo gott.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

 • 500 g kjúklingabringur
 • 1 rauð paprika
 • 1 græn paprika
 • ½ grænt epli
 • salt og pipar
 • 2 msk tómatpuré
 • 1 msk hveiti
 • 1 dós sýrður rjómi (2 dl.)
 • 1 krukka hot mango chutney (2,5 dl.)
 • 2 dl mjólk
 • 1 kjúklingateningur

Skerið kjúklingabringur og grænmeti í bita. Steikið kjúklinginn í smjöri eða olíu við háan hita. Saltið og piprið. Bæti paprikum og epli á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið tómatpuré á pönnuna, stráið hveiti yfir og blandið saman þannig að hveitið verði ekki að kekkjum. Setjið sýrðan rjóma, mango chutney, mjólk og kjúklingateningi á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður, 5-10 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og/eða salati.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Gleðilegan þriðja í aðventu kæru lesendur. Hjá okkur stendur til að kaupa jólatréð í dag og síðan verðum við með þriðja aðventukaffið okkar. Það er orðið að miklu tilhlökkunarefni að fá heitt súkkulaði með rjóma og dásamlegar eplaskífurnar hér á sunnudögum. Í dag munu saffransnúðarnir einnig standa á borðum og svo auðvitað smákökurnar. Það er því full ástæða að hlakka til.

Matseðill vikunnar er í léttari kantinum, enda kannski full þörf á þegar jólavikan er handan við hornið. Ef þið hafið ekki eldað kjúklingasúpuna með ferskjunum þá hvet ég ykkur til að prófa hana. Hún er ó, svo góð og ekki síðri daginn eftir.

lax

Mánudagur: Lax með mango chutney og pistasíuhnetum er enn eitt góðgætið sem ég fékk hjá mömmu. Æðislegur réttur!

Makkarónuskúffa Markoolio

Þriðjudagur: Makkarónuskúffa Markoolio er barnvænn réttur sem tekur stutta stund að gera. Það er um að gera að poppa réttinn upp ef vilji er fyrir hendi, t.d. með beikoni, papriku eða bragðmiklum osti. Krakkarnir mínir eru þó hæstánægð með réttinn eins og hann er.

Grænmetislasagne

Miðvikudagur: Mér þykir grænmetislasagna vera sniðugur leikur fyrir jólin og þessi uppskrift er ekki af verri endanum.

Tælenskt kjúklingasalat

Fimmtudagur: Tælenskt kjúklingasalat sem er dásemdin ein.

Kjúklingasúpa

Föstudagur: Himnesk kjúklingasúpa með ferskjum hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég smakkaði hana fyrst.

Brauð

Með helgarkaffinu: Þar sem það er mikil matarveisla framundan með sætum eftirréttum í löngum röðum þá ætla ég að stinga upp á hollu og góðu brauði til að eiga um helgina. Þetta er það brauð sem ég baka oftast og finnst frábært að byrja dagana á vænni sneið.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP