Fiskbakan frábæra

Fiskbakan frábæra

Sumarið 2001 voru matreiðsluþættir með Jamie Oliver sýndir í sænska sjónvarpinu. Ég missti helst ekki af þætti og þegar mér leist vel á uppskriftirnar reyndi ég að skrifa þær niður. Það var oft hægara sagt en gert og á endanum gafst ég upp og keypti mér matreiðslubókina. Síðan þá hef ég eignast margar bækur eftir hann og hef enn ekki verið svikin af uppskriftunum.

Fiskbakan frábæra

Það var þetta sumar sem ég eldaði í fyrsta sinn fiskbökuna hans Jamie Oliver. Okkur þótti hún stórgóð og um daginn fékk ég æðislega löngun í að elda hana aftur. Ég dró því gömlu bókina fram og mánudagsfiskinum var reddað.

Fiskbakan frábæra

Jamie Oliver segir að rétturinn eigi að vera heimilislegur og tilgerðarlaus og ber hann fram með bökuðum baunum og tómatsósu, sem sé ósmekklegt en gott eins og hann vill hafa það. Samsetningin kann að hljóma furðulega en hún kemur á óvart og allt fer þetta mjög vel saman.

Fiskbakan frábæra (uppskrift frá Jamie Oliver)

 • 6 stórar kartöflur, afhýddar og skornar í bita
 • ólífuolía (eða smjör)
 • salt og nýmalaður svartur pipar
 • múskat (má sleppa)
 • 2 egg
 • 2 stórir hnefar af spínati
 • 1 laukur, saxaður smátt
 • 1 gulrót, skorin í tvennt og söxuð smátt
 • 2,5 dl rjómi
 • 2 vænir hnefar af rifnum cheddar- eða parmesanosti
 • safi úr 1 sítrónu
 • 1 kúfuð teskeið enskt sinnep
 • stór hnefi af steinselju, söxuð smátt (má sleppa)
 • 450 g ýsu- eða þorskflök, roðflett, beinhreinsuð og skorið í ræmur

Hitið ofninn í 230°.

Setjið kartöflurnar í sjóðandi saltað vatn og látið þær sjóða í 2 mínútur. Setjið eggin varlega út í og sjóðið þau í 8 mínútur. Eggin eiga þá að vera orðin harðsoðin og kartöflurnar líka soðnar. Gufusjóðið spínatið um leið í sigti ofan á pottinum (það tekur bara um 1 mínútu). Takið spínatið úr sigtinu, kreistið varlega úr því umframvætu og leggið til hliðar.

Takið eggin úr pottinum, kælið undir köldu vatni, takið utan af þeim og skerið í fernt. Leggið til hliðar.

Stappið kartöflurnar og setjið ólívuolíu eða brætt smjör saman við þær (ég nota alltaf smjör). Kryddið með salti, pipar og jafnvel smá múskati. Leggið til hliðar.

Steikið lauk og gulrót í ólífuolíu við vægan hita í um 5 mínútur. Hellið þá rjóma yfir og hitið að suðu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið osti, sítrónusafa, sinnepi og steinselju saman við.

Setjið fiskinn, spínatið og eggin í eldfast mót. Hellið rjómasósunni með grænmetinu yfir og endið á að setja kartöflumúsina ofan á. Setjið í ofn í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar á lit. Berið fram með bökuðum baunum og tómatsósu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Súkkulaðisjeik

Súkkulaðisjeik

Ískaldur og svalandi súkkulaðisjeik er alltaf viðeigandi og stórgóð leið til að lífga upp á hversdagsleikann. Við fengum okkur þennan í eftirrétt í vikunni og glösin voru ekki lengi að tæmast. Krakkarnir gáfu þumalinn upp og mig grunar að blandarinn okkar fái litla hvíld á næstunni.

Súkkulaðisjeik

Súkkulaðisjeik (2 glös) – Uppskrift frá Mitt Kök

 • 4 dl mjólk
 • 2 dl vanilluís
 • 3 msk Nesquik
 • 1 tsk vanillusykur

Mixið allt saman í blandara eða með töfrasprota. Hellið í glös og skreytið með þeyttum rjóma, súkkulaðispæni og súkkulaðisósu.

Súkkulaðisjeik

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Pulled chicken

Pulled Chicken

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag var Malín búin að baka bollakökur með súkkulaðikremi. Þær voru svo mjúkar og góðar að ég hefði getað borðað þær allar. Ég elska að koma heim þegar krakkarnir hafa bakað og finnst það vera dásamlegur hversdagslúxus að fá kökubita eftir vinnudaginn.

Pulled ChickenPulled ChickenPulled Chicken

„Pulled pork“ eða rifið svínakjöt hefur verið vinsæll réttur undanfarin ár (þú getur séð uppskriftina sem ég nota hér). Kjötið setjum við ýmist í hamborgarabrauð, tortillavefjur eða tacoskeljar ásamt grænmeti og oftast smá sýrðum rjóma. Það má svo bera herlegheitin fram með góðu salati, kartöfubátum (þessir eru í algjöru uppáhaldi), nachos eða hverju sem er.

Ég prófaði um daginn að skipta svínakjötinu út fyrir kjúkling og var mjög ánægð með útkomuna. Eldunartíminn var mun styttri og eldamennskan gerist varla einfaldari. Við settum kjúklinginn í tortillakökur ásamt káli, rauðri papriku, tómötum, avokadó, kóriander og sýrðum rjóma. Brjálæðislega gott!

Pulled ChickenPulled Chicken

Rifinn kjúklingur

 • 900 g kjúklingabringur
 • 2½ – 3 dl barbeque sósa
 • 1 laukur, skorin í þunna báta
 • paprikuduft
 • olía

Hitið ofninn í 130-140°. Steikið kjúklingabringurnar á pönnu þar til þær eru komnar með smá steikingarhúð. Kryddið með paprikudufti og leggið yfir í eldfast mót eða ofnpott. Sáldrið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið laukbátana og barbequesósuna yfir. Setjið lok á ofpottinn eða álpappír yfir eldfasta mótið (þó ekki nauðsynlegt). Eldið í miðjum ofni í um 2½ klst, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Kjúklingurinn á að detta hæglega í sundur þegar gaffli er stungið í hann. Tætið kjúklinginn í sundur (t.d. með tveimur göfflum) og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Eftir kvöldmatinn í gær létum við okkur dreyma um góðan eftirrétt. Eftir að hafa velt upp öllum mögulegum eftirréttum sem okkur komu til hugar komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði mest í þessa köku, brownieköku með daim og jarðaberjafrauði. Ég hefði gefið mikið fyrir sneið af henni, þó ekki væri nema smá flís til að njóta eftir matinn. Hún er svo æðislega góð, með ríkulegum súkkulaðibotni og fersku jarðaberjafrauði sem fer saman eins og hönd í hanska.

Það er óhætt að segja að kakan hafi farið sigurför um sænska matarbloggheima og ég hef ekki tölu á þeim bloggsíðum sem ég hef séð uppskriftina á. Mér þykir það alltaf góðs viti að sjá sömu uppskrift á mörgum stöðum og þær uppskriftir hafi undantekningarlaust reynst mér góðar.

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Ég verð að viðurkenna að matarlím fældi mig lengi vel frá uppskriftum en ég er sem betur fer komin yfir það. Ég gerðist meira að segja svo djörf að bæta auka matarlímsblaði í þessa köku þar sem ég las í umsögnum að hún ætti það til að vera ekki nógu stíf. Upphaflega uppskriftin gerði ráð fyrir 5 matarlímsblöðum en ég nota 6 blöð og hef aldrei lent í vandræðum.

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Brownie botn:

 • 110 g smjör
 • 2 1/3 dl sykur
 • 1 msk sýróp
 • 2 egg
 • 1 1/2 dl hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • 1 1/2 tsk vanillusykur
 • 1 dl kakó
 • 2 stk. stór Daim (56 g hvor pakkning), grófhakkað

Jarðaberjafrauð:

 • 5-6 matarlímsblöð
 • 1/2 kg jarðaber
 • 3 eggjarauður
 • 2 dl flórsykur
 • 6 dl rjómi

Skraut

 • 1 kg jarðaber

Brownie botn: Hitið ofninn í 175°. Hrærið smjör, sykur og sýróp saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið eggjunum saman við. Bætið hveiti, salti, vanillusykri, kakói og grófhökkuðu Daim út í og hrærið saman. Setjið deigið í smurt smelluform sem er 24 cm í þvermál og bakið í 20 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en jarðaberjafrauðið er gert.

Það getur verið gott að losa um kökuna í forminu áður en jarðaberjafrauðið er sett yfir hana, til að það sé einfaldara að flytja kökuna yfir á kökudisk þegar hún er tilbúin.

Jarðaberjafrauð: Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í 5 mínútur. Maukið jarðaber í matvinnsluvél eða með töfrasprota og leggið til hliðar.  Hrærið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Léttþeytið rjómann í annarri skál. Hitið 1/10 af jarðaberjamaukinu í potti. Takið matarlímsblöðin úr vatninu, kreystið mesta vökvann frá þeim og bætið blöðunum í pottinn. Látið þau bráðna við vægan hita í jarðaberjamaukinu. Þegar matarlímsblöðin hafa bráðnað er blöndunni hrært saman við restina af jarðaberjamaukinu.

Blandið eggjablöndunni varlega saman við jarðaberjamaukið og hrærið síðan rjómanum varlega saman við þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir brownie botninn. Látið kökuna standa í að minnsta kosti 4 tíma í ísskáp áður en hún er borin fram. Það má einnig frysta kökuna og þá er hún tekin út og látin standa við stofuhita 4 tímum áður en hún er borin fram.

Setjið jarðaber yfir kökuna áður en hún er borin fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

VikumatseðillVikumatseðillVikumatseðillVikumatseðill

Ég verð að viðurkenna að þó að snjórinn hafi sína kosti þá gleðst ég yfir því að rýrnun hans þessa dagana. Við áttum skemmtilega daga í brekkunni í vetur en í dag fögnum við því að geta farið með strákana niður á Klambratún með nýju Penny-hjólabrettin sem þeir fengu í jólagjöf. Ég vona að það verði hægt að renna sér þar á klakalausum og nokkuð sandlitlum stígum.

Vikumatseðillinn er hér á sínum stað. Ég veit að pylsugratínið á fimmtudeginum er tilhlökkunarefni hjá fjölskyldunni minni en mér þykir föstudagurinn standa upp úr þessa vikuna, enda sjálfur bóndadagurinn þá.

Bresk fiskibaka

Mánudagur: Bresk fiskbaka að hætti Gordon Ramsey er æðislegur réttur og þó það taki svolítinn tíma að útbúa hana þá finnst mér tímanum klárlega vel varið.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Þriðjudagur: Ljúffengur pestó og fetafylltur kjöthleifur er réttur sem ég fæ ekki nóg af.

Basiliku og parmesan tómatsúpa

Miðvikudagur: Basiliku og parmesan tómatsúpa passar vel í miðri viku og mér þykir kjörið að bera hana fram með uppáhalds brauðinu mínu, New York Times brauði.

Pylsugratín með kartöflumús

Fimmtudagur: Pylsugratín með kartöflumús er réttur sem vekur alltaf lukku hjá fjölskyldunni.

KasjúhnetukjúklingurKlessukökumuffins

Föstudagur: Bóndadagur! Ég elska daga sem þessa. Í ár hef ég hug á að elda kasjúhnetukjúkling og bjóða síðan upp á  klessukökumöffins í eftirrétt.

IMG_8796

Með helgarkaffinu: Skúffukaka og ískalt mjólkurglas svíkur seint. Þessi uppskrift er ein af uppáhalds!

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Ég dáist að fólki sem byrjar árið á heilsuátaki. Ég skil ekki hvernig það er hægt í þessum leiðinlegasta mánuði ársins. Hjá mér snýst janúar oftast um að dekra meira við mig, að láta meira eftir mér og njóta meira. Að gera mánuðinn eins góðan og ég mögulega get. Ég borðaði súkkulaði eftir morgunmatinn alla síðustu viku og fannst það dásamleg byrjun á deginum. Síðan gerði ég pestóböku í kvöldmatinn eitt kvöldið og fannst hún vera æðislegur endir á deginum.

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Það er eins með þessa uppskrift og svo margar aðrar, hún hefur verið í fórum mínum í fleiri ár og ég furða mig á því hvað það tók mig langan tíma að koma því í verk að elda hana. Bakan er nefninlega æðislega góð. Ég held að uppskriftin komi upphaflega úr sænska matreiðslublaðinu Allt om mat, en ætla ekki að sverja fyrir það.

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Mér þykir alltaf gaman að bera bökur fram því þær eru svo fallegar á borði, sérstaklega þegar þær eru bakaðar í bökuformum með lausum botni (þau fást víðast hvar fyrir lítinn pening).

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Skelin:

 • 3 dl hveiti
 • 125 g smjör, kalt úr ísskáp
 • 2 msk kalt vatn

Blandið hveiti og smjöri saman í grófa mylsnu í matvinnsluvél, með gaffli eða með fingrunum. Bætið vatninu saman við og vinnið snögglega saman í deig. Þrýstið deiginu í botn á 24 cm bökumóti með lausum botni og stingið yfir bontinn með gaffli. Látið standa í ísskáp í 30 mínútur.

Fyllingin:

 • 2 paprikur, gul og rauð
 • 2 rauðlaukar
 • 1 kúrbítur
 • 1 msk ólívuolía
 • salt
 • svartur pipar
 • 3 egg
 • 2 dl mjólk
 • 1 dl pestó

Hitið ofn í 250°. Skerið paprikur í bita, rauðlauk í þunna báta og kúrbít í sneiðar. Setjið á ofnplötu, dreypið ólívuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Bakið í miðjum ofni í 15-20 mínútur.

Hrærið saman eggjum, mjólk og pestó.

Þegar grænmetið hefur bakast er ofnhitinn lækkaður í 200°. Forbakið bökuskelina í miðjum ofni í um 10 mínútur. Setjið þá grænmetið í botninn og hellið eggjablöndunni yfir. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mínútur.

Berið bökuna fram með góðu salati og jafvel salami, hráskinku og ólívum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Í gær áttum við Malin mæðgnadag, nokkuð sem við höfum verið duglegar með upp á síðkastið. Mér þykir tíminn líða svo hratt, finnst svo stutt síðan hún var lítil og skrýtið að hugsa til þess að í haust byrji hún í menntaskóla. Ég nýt þess svo að eiga þessar stundir með henni, bara við tvær. Í gær röltum við Laugarveginn, kíktum í búðir og enduðum á Laundromat þar sem við fengum okkur að borða. Eftir það hittum við Ögga og strákana og fórum svo í afmælisveislu. Þaðan fórum við til mömmu í pizzuveislu/kveðjupartý fyrir systur mína sem flaug heim til Köben í dag. Ég er strax farin að sakna hennar.

Vikumatseðill

Ég fékk ábendingu frá lesenda um að setja vikumatseðlana undir uppskriftaflipann til að gamlir vikumatseðlar verði aðgengilegri. Mér þykir þetta góð ábending og lofa að þetta stendur til bóta hjá mér. Þar til ég kem mér í að laga þetta þá bendi ég á að það má finna alla vikumatseðlana með því að velja vikumatseðlar undir efnisflokkaleitinni hér til hliðar.

Matseðill vikunnar er einfaldur og góður. Tælenska kjúklingaenchiladas á föstudeginum er ó svo gott og tilhlökkunarefni fyrir vikuna.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Mér þykir ofnbakaður fiskur í paprikusósu æðislega góður og hef ekkert á móti því að byrja vikuna á honum.

Einfalt og stórgott lasagna

Þriðjudagur: Einfalt og stórgott lasagna borið fram með salati og jafnvel hvítlauksbrauði. Drjúgt og alltaf afgangur til að taka með í nesti daginn eftir eða að nýta í kvöldmat daginn eftir.

Grjónagrautur

Miðvikudagur: Þar sem það er eflaust til afgangur af lasagnanu (nema það hafi verið tekið í nesti) þá þykri mér sniðugt að gera grjónagraut í dag fyrir krakkana og njóta afganganna sjálf. Þau taka grautnum alltaf fagnandi en ég er minna hrifin af honum. Ódýrt, einfalt og góð nýting á hráefnum þar sem afgangurinn af lasagnanu mun klárast.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Fimmtudagur: Spaghetti með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu er enn ein dásemdin úr smiðju Nigellu. Einfaldur og stórgóður réttur.

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Föstudagur: Tælenskt kjúklingaenchiladas má gjarnan vera á disknum mínum alla föstudaga. Stórkostlega góður réttur!

Eplakaka

Með helgarkaffinu: Mér þykir eplakaka með marsípani fara vel með helgarkaffinu.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP