Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Ég dáist að fólki sem byrjar árið á heilsuátaki. Ég skil ekki hvernig það er hægt í þessum leiðinlegasta mánuði ársins. Hjá mér snýst janúar oftast um að dekra meira við mig, að láta meira eftir mér og njóta meira. Að gera mánuðinn eins góðan og ég mögulega get. Ég borðaði súkkulaði eftir morgunmatinn alla síðustu viku og fannst það dásamleg byrjun á deginum. Síðan gerði ég pestóböku í kvöldmatinn eitt kvöldið og fannst hún vera æðislegur endir á deginum.

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Það er eins með þessa uppskrift og svo margar aðrar, hún hefur verið í fórum mínum í fleiri ár og ég furða mig á því hvað það tók mig langan tíma að koma því í verk að elda hana. Bakan er nefninlega æðislega góð. Ég held að uppskriftin komi upphaflega úr sænska matreiðslublaðinu Allt om mat, en ætla ekki að sverja fyrir það.

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Mér þykir alltaf gaman að bera bökur fram því þær eru svo fallegar á borði, sérstaklega þegar þær eru bakaðar í bökuformum með lausum botni (þau fást víðast hvar fyrir lítinn pening).

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Skelin:

 • 3 dl hveiti
 • 125 g smjör, kalt úr ísskáp
 • 2 msk kalt vatn

Blandið hveiti og smjöri saman í grófa mylsnu í matvinnsluvél, með gaffli eða með fingrunum. Bætið vatninu saman við og vinnið snögglega saman í deig. Þrýstið deiginu í botn á 24 cm bökumóti með lausum botni og stingið yfir bontinn með gaffli. Látið standa í ísskáp í 30 mínútur.

Fyllingin:

 • 2 paprikur, gul og rauð
 • 2 rauðlaukar
 • 1 kúrbítur
 • 1 msk ólívuolía
 • salt
 • svartur pipar
 • 3 egg
 • 2 dl mjólk
 • 1 dl pestó

Hitið ofn í 250°. Skerið paprikur í bita, rauðlauk í þunna báta og kúrbít í sneiðar. Setjið á ofnplötu, dreypið ólívuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Bakið í miðjum ofni í 15-20 mínútur.

Hrærið saman eggjum, mjólk og pestó.

Þegar grænmetið hefur bakast er ofnhitinn lækkaður í 200°. Forbakið bökuskelina í miðjum ofni í um 10 mínútur. Setjið þá grænmetið í botninn og hellið eggjablöndunni yfir. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mínútur.

Berið bökuna fram með góðu salati og jafvel salami, hráskinku og ólívum.

6 athugasemdir á “Pestóbaka með bökuðu grænmeti

 1. Ég bara verð að þakka þér, Svava, fyrir þessa dásamlegu síðu, það streymir um mann gleðitilfinning við að lesa hana. Og ég á líka að skila kveðju til þín frá strákunum mínum sem elska allt sem ég elda og baka, það er nánast allt úr þínum uppskriftum 🙂 Takk takk 🙂

  1. Takk Kristín Júlía fyrir fallega kveðju. Skilaðu bestu kveðjum til strákanna þinna, það gleður mig mikið að heyra að þeir séu hrifnir af uppskriftunum 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s