Vikumatseðill

Vikumatseðill

Það sem af er helginni hef ég eytt í mestu makindum. Hitt vinkonu mína, gert vikuinnkaupin, fengið mömmu í kaffi, prjónað og borðað allt of mikið af nammi. Í dag ætla ég að rífa mig upp og ganga Sveifluháls með nokkrum vinnufélögum. Ég veit að það verður frábær ferð og ekki skemmir fyrir hvað veðrið er fallegt.

Eins og svo oft áður vil ég byrja vikuna á fiski og parmesanhjúpaður fiskur stendur efst á óskalistanum hjá mér. Pastagratínið á þriðjudeginum gæti vel dugað í tvær máltíðir, sérstaklega ef þú drýgir það með salati og brauði. Núðlurnar á fimmtudeginum koma skemmtilega á óvart og ef þið hafið ekki prófað mexíkósku kjúklingabökuna þá hvet ég ykkur til þess. Hún hefur verið í uppáhaldi hjá okkur frá því að ég gerði hana fyrst.

Steiktur fiskur í parmesanraspi

Mánudagur: Mér þykir steiktur fiskur í parmesanraspi vera góð byrjun á vikunni.

Pastagratin

Þriðjudagur: Pastagratín vekur alltaf lukku og ég elska að uppskriftin dugar okkur í kvöldmat og nesti daginn eftir.

Sveppasúpa

Miðvikudagur: Mér þykir gott að hafa súpu í miðri viku og þessi sveppasúpa er bæði einföld og góð.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Fimmtudagur: Jakob mun hoppa hæð sína þegar hann sér þessar bragðmiklu tælensku núðlur með kjúklingi á matseðlinum. Hann gæti lifað á núðlum og þessar eru mjög góðar.

Mexíkósk kjúklingabaka

Föstudagur: Þessi mexíkóska kjúklingabaka er ein af mínum uppáhalds. Ég ber hana fram með salati, nachos, salsa, sýrðum rjóma og guacamole.

möndlukaka

Með helgarkaffinu: Möndlukakan er jafn falleg og hún er góð. Ég hef ekki keypt möndluköku eftir að ég datt niður á þessa uppskrift því þessi er svo margfalt betri og það tekur enga stund að baka hana.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Nutellasjeik

Nutellasjeik

Við létum alþjóðlega Nutella-daginn ekki framhjá okkur fara, enda verð ég seint þekkt fyrir að grípa ekki tækifæri til að gera vel við mig!

Nutellasjeik

Ég gerði Nutellasjeik sem við fengum okkur eftir kvöldmatinn. Hann er svo hressandi og dásamlega góður. Einfaldara gerist það ekki og krakkarnir elska hann.

NutellasjeikNutellasjeik

Nutellasjeik (2 stór glös)

 • 2 bollar vanilluís
 • 1/2 bolli mjólk
 • 4 msk Nutella

Mixið allt saman í blandara eða með töfrasprota. Hellið í glös og skreytið með t.d. með þeyttum rjóma, súkkulaðispæni og  súkkulaðisósu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Blóðappelsínu ostakaka

Blóðappelsínu ostakaka

Þegar ég verslaði inn um helgina sá ég að ávöxtur mánaðarins í Hagkaup er blóðappelsína. Þær voru svo girnilegar að ég greip tvo poka með mér. Við vorum fljót að klára fyrri pokann, enda gjörsamlega ómótstæðilegar kaldar og safaríkar úr íssápnum, en hinn fékk að fara í ostaköku sem ég hef haft augastað á og beðið eftir tækifæri til að baka.

Blóðappelsínu ostakaka

Ég var svo heppin að eiga von á tengdaforeldrum mínum í mat kvöldið eftir og gat því boðið þeim upp á ostakökuna í eftirrétt. Kakan vakti mikla lukku því bæði er hún falleg á borði og smakkast dásamlega. Frískandi og fullkominn eftirréttur að mínu mati.

Blóðappelsínu ostakaka

Ég bakaði kökuna deginum áður og gerði efsta lagið daginn sem ég bar hana fram. Í fljótu bragði lítur kakan kannski út fyrir að vera flókin og tímafrek en svo er nú ekki. Það tekur enga stund að gera kökuna og það er jafnvel betra að gera hana með dags fyrirvara, sem mér þykir geta verið mikill kostur.

Nutella

Að lokum vil ég benda á að á morgun er alþjóðlegi Nutella-dagurinn og því um að gera að nýta tækifærið og bjóða upp á góðgæti með Nutella í. Þú finnur nokkrar góðar uppskriftir hér á blogginu, t.d. þessa mjúku Nutellaformköku sem er æðisleg með kaldri mjólk, bananaköku með Nutellakremi sem hefur fengið mikið hrós, bananabrauð með Nutella sem á eftir að hverfa ofan í mannskapinn á svipstundu, hnetusmjörs- og Nutella kökur, hafrakökur með bönunum og Nutella, hnetusmjörs- og bananapönnukökur með Nutellasýrópi sem slá alltaf í gegn á morgunverðarborðinu og heitur Nutella súkkulaðidrykkur sem tekur enga stund að gera.

Blóðappelsínu ostakaka

Botninn

 • 200 g Digestivekex
 • 50 g piparkökur
 • 100 g smjör

Lag 1

 • 450 g Philadelphia ostur
 • um 1 msk rifið hýði af blóðappelsínu (passið að taka bara ysta lagið og ekki hvíta hlutann, hann gefur beiskt bragð)
 • 2 msk safi úr blóðappelsínu
 • 3 egg
 • 1¼ dl sykur

Lag 2

 • 3 dl sýrður rjómi
 • 3 msk sykur
 • 1 msk vanillusykur

Lag 3

 • 1½ dl safi úr blóðappelsínum
 • 2 matarlímsblöð

Hitið ofninn í 180°.

Myljið kexin og blandið bræddu smjöri saman við. Þrýstið blöndunni í botn á 24 cm kökuformi og bakið í 5-10 mínútur.

Setjið öll hráefnin í lag 1 í matvinnsluvél og vinnið saman í jafnt deig (það er líka hægt að nota töfrasprota). Hellið deiginu yfir forbakaðann kexbotninn og bakið neðarlega í ofninum í 25 mínútur. Passið að baka kökuna ekki lengur svo hún verði ekki þurr.

Hrærið hráefnunum í lag 2 saman og breiðið yfir kökuna. Bakið í 5 mínútur til viðbótar. Látið kökuna kólna alveg (helst í ísskáp yfir nóttu) áður en lag 3 er sett yfir.

Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn. Hitið safann úr blóðappelsínum í potti. Takið af hitanum, kreystið vökvann frá matarlímsblöðunum og bætið blöðunum í pottinn. Hrærið þar til matarlímsblöðin hafa bráðnað. Látið kólna aðeins áður en blöndunni er hellt varlega yfir kökuna. Látið kökuna standa í ísskáp þar til hlaupið hefur stífnað.

Berið kökuna fram kalda úr ísskáp og gjarnan með þeyttum rjóma.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Puffed pancake

Puffed pancake

Um síðustu helgi prófaði ég að gera „puffed pancake“ í morgunmat. Það tók enga stund og krakkarnir voru svo ánægð með þessa byrjun á deginum að þau kláruðu pönnukökuna áður en ég náði að smakka hana. Ég hef því ekki hugmynd um hvernig hún bragðaðist en þau gáfu henni bestu einkunn. Það eru eflaust til betri uppskriftir en þessi féll vel í kramið hjá krökkunum og ég hlakka til að prófa hana aftur og smakka sjálf.

Puffed Pancake

Ég bar pönnukökuna fram með jarðaberjum, flórsykri, hlynsýrópi og rjóma en hér er tækifæri til að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Mér dettur í hug að það gæti verið gott að bera pönnukökuna fram með t.d. bláberjum, hindberjum, ávöxtum, banana, möndluflögum, kókosflögum, hlynsýrópi, sítrónusafa, Nutella…

Puffed pancake (ein pönnukaka sem hverfur á svipstundu ofan í þrjú börn)

 • 2 egg
 • ½ bolli mjólk
 • ½ bolli hveiti
 • smá salt
 • smá kanil
 • 1 msk smjör

Hitið ofninn í 215°.

Á meðan ofninn hitnar er smjörið látið bráðna í bökunarformi í ofninum. Hrærið egg, mjólk, hveiti, salt og kanil saman í skál. Hellið deiginu í heitt bráðið smjörið í bökunarforminu. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til pönnukakan er stíf og uppblásin meðfram kanntinum. Kakan sekkur aðeins niður þegar hún kemur úr ofninum. Berið strax fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP