Blóðappelsínu ostakaka

Blóðappelsínu ostakaka

Þegar ég verslaði inn um helgina sá ég að ávöxtur mánaðarins í Hagkaup er blóðappelsína. Þær voru svo girnilegar að ég greip tvo poka með mér. Við vorum fljót að klára fyrri pokann, enda gjörsamlega ómótstæðilegar kaldar og safaríkar úr íssápnum, en hinn fékk að fara í ostaköku sem ég hef haft augastað á og beðið eftir tækifæri til að baka.

Blóðappelsínu ostakaka

Ég var svo heppin að eiga von á tengdaforeldrum mínum í mat kvöldið eftir og gat því boðið þeim upp á ostakökuna í eftirrétt. Kakan vakti mikla lukku því bæði er hún falleg á borði og smakkast dásamlega. Frískandi og fullkominn eftirréttur að mínu mati.

Blóðappelsínu ostakaka

Ég bakaði kökuna deginum áður og gerði efsta lagið daginn sem ég bar hana fram. Í fljótu bragði lítur kakan kannski út fyrir að vera flókin og tímafrek en svo er nú ekki. Það tekur enga stund að gera kökuna og það er jafnvel betra að gera hana með dags fyrirvara, sem mér þykir geta verið mikill kostur.

Nutella

Að lokum vil ég benda á að á morgun er alþjóðlegi Nutella-dagurinn og því um að gera að nýta tækifærið og bjóða upp á góðgæti með Nutella í. Þú finnur nokkrar góðar uppskriftir hér á blogginu, t.d. þessa mjúku Nutellaformköku sem er æðisleg með kaldri mjólk, bananaköku með Nutellakremi sem hefur fengið mikið hrós, bananabrauð með Nutella sem á eftir að hverfa ofan í mannskapinn á svipstundu, hnetusmjörs- og Nutella kökur, hafrakökur með bönunum og Nutella, hnetusmjörs- og bananapönnukökur með Nutellasýrópi sem slá alltaf í gegn á morgunverðarborðinu og heitur Nutella súkkulaðidrykkur sem tekur enga stund að gera.

Blóðappelsínu ostakaka

Botninn

  • 200 g Digestivekex
  • 50 g piparkökur
  • 100 g smjör

Lag 1

  • 450 g Philadelphia ostur
  • um 1 msk rifið hýði af blóðappelsínu (passið að taka bara ysta lagið og ekki hvíta hlutann, hann gefur beiskt bragð)
  • 2 msk safi úr blóðappelsínu
  • 3 egg
  • 1¼ dl sykur

Lag 2

  • 3 dl sýrður rjómi
  • 3 msk sykur
  • 1 msk vanillusykur

Lag 3

  • 1½ dl safi úr blóðappelsínum
  • 2 matarlímsblöð

Hitið ofninn í 180°.

Myljið kexin og blandið bræddu smjöri saman við. Þrýstið blöndunni í botn á 24 cm kökuformi og bakið í 5-10 mínútur.

Setjið öll hráefnin í lag 1 í matvinnsluvél og vinnið saman í jafnt deig (það er líka hægt að nota töfrasprota). Hellið deiginu yfir forbakaðann kexbotninn og bakið neðarlega í ofninum í 25 mínútur. Passið að baka kökuna ekki lengur svo hún verði ekki þurr.

Hrærið hráefnunum í lag 2 saman og breiðið yfir kökuna. Bakið í 5 mínútur til viðbótar. Látið kökuna kólna alveg (helst í ísskáp yfir nóttu) áður en lag 3 er sett yfir.

Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn. Hitið safann úr blóðappelsínum í potti. Takið af hitanum, kreystið vökvann frá matarlímsblöðunum og bætið blöðunum í pottinn. Hrærið þar til matarlímsblöðin hafa bráðnað. Látið kólna aðeins áður en blöndunni er hellt varlega yfir kökuna. Látið kökuna standa í ísskáp þar til hlaupið hefur stífnað.

Berið kökuna fram kalda úr ísskáp og gjarnan með þeyttum rjóma.

4 athugasemdir á “Blóðappelsínu ostakaka

  1. Sæl, skoða síðun þína reglulega! Ég vildi bara deila því með þér að við erum nokkrar saman í matarmömmuklúbb, hittumst alltaf á miðvikudögum með krílin í hádeginu og borðum tveggja rétta a.m.k. Síðan þín er frekar mikið notuð í að finna nýja spennandi rétti og kökur 🙂

Færðu inn athugasemd