Nutellaostakaka með Oreobotni

Nutellaostakaka með Oreobotni

Börnin mín gætu lifað á Nutella og Malín veit fátt betra en ostakökur. Þegar ég datt niður á uppskrift af Nutellaostaköku á Pinterest var ég því ákveðin í að gera vel við okkur og bjóða upp á kökuna við fyrsta tækifæri.

Nutellaostakaka með Oreobotni

Ég finn alltaf tilefni fyrir eftirrétt. Það dugar að allir séu heima eða gott sjónvarpsefni til að njóta eftirréttarins yfir. Mér þykir það lífga upp á daginn og færa honum örlítinn hversdagslúxus.

Nutellaostakaka með Oreobotni

Þessi ostakaka er æðisleg og krakkarnir voru fljót að hreinsa skálina þegar ég var búin að hræra í fyllinguna. Tilbúna kakan vakti ekki minni lukku og hreinlega hvarf úr skálunum. Núna er beðið eftir að ég bjóði aftur upp á hana, sem ég mun svo sannarlega gera fljótlega!

Nutellaostakaka með OreobotniÞað tekur stutta stund að útbúa þessa dásemd og hráefnalistinn er einfaldur. Þið finnið Cool Whip í frystinum í Hagkaup og best er að láta það þiðna í ísskáp. Það tekur um 4 klst.

Nutellaostakaka með Oreobotni (fyrir 4-6)

Botn:

 • 12 Oreo kexkökur
 • 3 msk smjör, brætt

Fylling:

 • 225 g Philadelphia rjómaostur
 • 2/3 bolli Nutella
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 askja (225 g) Cool Whip (fæst í Hagkaup), sem hefur þiðnað í ísskáp í amk 4 klst.

Botn: Myljið Oreo kexkökurnar (t.d. í matvinnsluvél), bræðið smjörið og hrærið saman. Skiptið blöndunni jafnt á milli þeirra skála eða glasa sem á að bera kökurnar fram í, þrýstið blöndunni í botninn og leggið til hliðar.

Fylling: Setjið rjómaost og Nutella í skál og hrærið saman með handþeytara eða í hrærivél þar til blandan er mjúk og einlit. Hrærið vanilludropum saman við.  Notið sleikju til að blanda Cool Whip saman við blönduna, vinnið allt varlega saman þar til blandan er orðin einlit og engar rendur í henni. Setjið fyllinguna yfir Oreobotninn (ég setti fyllinguna í sprautupoka og sprautaði henni í skálarnar). Setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp þar til borið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Fiskur í okkar sósu

Fiskur í okkar sósu

Fyrir mörgum árum reif ég blaðsíðu úr Morgunblaðinu, setti í plastvasa og hef passað eins og gull síðan. Ástæðan er einfaldlega sú að blaðsíðan hefur að geyma eina af mínum uppáhalds fiskiuppskriftum. Uppskriftina gaf kona sem hafði átt fiskbúð á Lækjargötu í Hafnarfirði en selt hana. Hún var svo indæl að gefa lesendum blaðsins nokkrar uppskriftir og sú sem er í mestu uppáhaldi hjá mér segir hún að hafi selst eins og heitar lummur í fiskbúðinni. Ég er ekki hissa því rétturin er æðislegur. Sósuna má búa til fyrirfram og hafa tiltæka í ísskápnum en ég sé enga ástæðu til þess því það tekur enga stund að útbúa hana.

Rétturinn hét Fiskur í okkar sósu í blaðinu og hét það eflaust í fiskbúðinni líka. Ég vona að nafnið valdi ekki misskilningi því þó ég vildi glöð hafa fundið sósuna upp sjálf þá gerði ég það ekki. Ég hef ekkert átt við uppskriftina enda þykir mér hún stórgóð eins og hún er.

Fiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósu

Fiskur í okkar sósu (uppskrift fyrir 4-5)

 • 1/2 líter súrmjólk
 • 1 bolli majónes
 • 1 tsk karrý
 • 1/2 tsk túrmerik
 • 1 tsk aromat
 • 1 tsk season all
 • 1 niðurskorið epli
 • 1/4 dós brytjaður ananas
 • 800 g beinlaus ýsa eða þorskur
 • rifinn ostur

Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn í stóra bita og setjið í eldfast mót. Setjið epli og ananas yfir fiskinn. Hrærið súrmjólk, majónesi, karrý, túrmerik, aromat og season all saman og hellið yfir fiskinn, eplið og ananasinn. Stráið rifnum osti yfir og setjið í ofninn í 20 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum og salati.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vöfflur

Á þriðjudaginn er vöffludagurinn í Svíþjóð og ég verð seint þekkt fyrir að láta svo gott tilefni til að borða vöfflur framhjá mér fara. Mér þykja vöfflur æðislega góðar og baka þær oftar en góðu hófi gegnir. Uppskriftin sem ég nota oftast er hér. Þó að vöfflur með þeyttum rjóma og góðri sultu standa alltaf fyrir sínu þá getur verið gaman að breyta til og bera vöfflurnar t.d. fram með Nutella og bönunum eða sem eftirrétt með góðum ís, ferskum berjum og heitri súkkulaði- eða karamellusósu.

Það eru engar vöfflur á matseðli vikunnar en þar má þó finna eitt og annað gott. Ég fékk tölvupóst frá lesanda um daginn sem ætlaði að gera rjómalöguðu kjúklingasúpuna og mig hefur langað í súpuna síðan. Hún fór því beint á vikumatseðilinn. Eins þykir mér mexíkóska lasagnað hennar Nigellu æðislegt og góður endir á vinnuvikunni.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Mánudagur: Mér þykir fiskréttur með blaðlauk og sveppum passa vel eftir helgarmatinn.

Skinku- og spergilkálsbaka

Þriðjudagur: Skinku- og spergilkálsbaka er létt og góð máltíð sem ég ber fram með salati.

Rjómalöguð kjúklingasúpa

Miðvikudagur: Ljúffeng rjómalöguð kjúklingasúpa sem lífgar upp á hversdagsleikann.

Pylsupottréttur

Fimmtudagur: Þessi bragðgóði pylsupottréttur með beikoni og sweet chili rjómasósu gleður okkur alltaf.

Mexíkóskt lasagna með avokadó-salsa

Föstudagur: Þetta mexíkóska lasagna með avokadó-salsa er réttur sem ég hef oft gripið til þegar ég á von á gestum. Það er hægt að undirbúa hann deginum áður og þá er lítið mál að hóa í vini í mat eftir vinnu á föstudegi. Rétturinn vekur alltaf lukku.

Bananakaka með Nutella kremi

Með helgarkaffinu: Bananakaka með Nutella-kremi kætir börn sem fullorðna og fer stórvel með helgarkaffinu.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Sloppy Joe

Sloppy Joe

Þegar við fórum heim frá Orlando langaði mig allra helst til að fylla ferðatöskurnar af matreiðslubókum. Ég hafði nokkrum dögum áður eytt góðum parti úr degi í Barnes & Nobles, í hættulega þægilegum hægindastól, og flett hverri bókinni á fætur annarri. Mig langaði í svo óteljandi margar, enda úrvalið æðislegt, en ég hef sem betur fer í gegnum tíðina áttað mig á því hvaða matreiðslubækur ég nota og hverjar enda upp í hillu. Uppskriftir með framandi hráefnum, flóknum eldunaraðferðum og engum myndum ná sjaldan til mín.

Sloppy Joe

Á endanum fengu þrjár matreiðslubækur að fylgja mér heim, tvær eftir Ree Drummond (sem er eflaust betur þekkt sem The Pioneer Woman) og síðan áhugaverð bók sem ég greip á hlaupum í Target eitt kvöldið, Fifty Shades of Chicken. Á kápunni stendur að bókin sé „The New York Times Bestseller“, hún hefur fengið góða dóma og uppskriftirnar lofa góðu. Það var þó ekki fyrr en ég var komin heim og fór að fletta bókinni betur að ég áttaði mig á að hún er skrifuð í anda Fifty Shades of Grey.  Uppskriftirnar hafa kjánalega klámfengna forsögu, inn á milli fallegra mynda af kjúklingaréttum má finna myndir af karlmanni sem er ýmist ber að ofan eða í svuntu einni klæða að stússast í eldhúsinu og uppskriftirnar heita nöfnum eins og Roast Me All Night Long Chicken og Happy Ending Chicken. Þetta er allt voða girnilegt og flott en ég veit ekki,  getur maður boðið tengdaforeldrum sínum í kjúkling sem heitir Sexy Sliders? Ég er alla vega orðin spennt að prófa uppskriftirnar og á eflaust eftir að hóa í saumaklúbbinn í Jerked-Around eða Please Don´t Stop Chicken fljótlega.

Sloppy Joe

Bækur Ree Drummond eru af öðrum toga enda mjög fjölskylduvænar og ég fæ ekki betur séð en að uppskriftirnar séu dásamlegar. Síðasta föstudagskvöld vígði ég aðra bókina þegar ég eldaði rétt sem heitir Sloppy Joe. Uppskriftin kom úr The Pioneer Woman Cooks, Food From my Frontier, og var stórkostlega góð. Svona matur hittir alltaf í mark hér heima. Það varð smá afgangur af hakkblöndunni sem var settur í frysti og mun fara ofan á pizzu næst þegar við höfum pizzukvöld.

Sloppy Joe

Sloppy Joe (lítillega breytt uppskrift frá The Pioneer Woman)

 • 600 g nautahakk
 • 1 græn paprika, skorin smátt
 • 1 laukur, skorinn smátt
 • 3 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 bolli tómatsósa
 • 2/3 bolli vatn
 • 2 msk púðursykur
 • 1 tsk chiliduft
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk rauðar piparflögur (red pepper flakes)
 • Chili Explosion krydd (má sleppa en mér þykir það alltaf gefa hakkréttum svo gott bragð)
 • Worcestershire sósa eftir smekk
 • Tabasco sósa eftir smekk
 • Salt og pipar eftir smekk
 • 6 hamborgarabrauð

Brúnið nautahakkið á pönnu. Hellið fitunni af og bætið papriku og lauki á pönnuna. Steikið áfram og bætið hvítlauk á pönnuna. Hellið tómatsósu og vatni á pönnuna á hrærið öllu saman. Bætið púðursykri, chilidufti, sinnepsdufti, piparflögum, chili explosion, worcestershire sósu, tabasco sósu, salti og pipar á pönnuna. Hrærið öllu saman og látið sjóða undir loki við vægan hita í 20 mínútur.

Smyrjið hamborgarabrauðin með smjöri og steikið á pönnu (með smjörhliðina niður) þar til þau hafa fengið gyllta og stökka húð. Setjið nautahakksböndina á hamborgarabrauðin og berið fram með frönskum, salati, snakki eða því sem hugurinn girnist. Við settum ýmist sýrðan rjóma eða kokteilsósu á hamborgarabrauðin áður en nautahakksblandan fór á. Súpergott!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

vikumatseðill

Erna vinkona mín gaf mér æðislegan handáburð fyrir jól. Mér þykir lyktin af honum svo fersk og fullkomin í alla staði og varð því að vonum glöð þegar ég rak augun í handsápu frá sama merki í Hagkaup um daginn. Núna standa sápan og handáburðurinn við baðvaskinn og gefa hversdagsleikanum örlitla fegurð. Þær eiga þó kannski betur heima við eldhúsvaskinn, sérstaklega með tilliti til þess að lyktirnar koma frá ávöxtum og kryddum.

Eftir að hafa lýst með fjarveru sinni undanfarnar vikur þá er vikumatseðillinn hér aftur á sínum stað. Ég vona að þið finnið eitthvað á honum sem ykkur líkar.

Fiskur með beikoni og eggjasósu

Mánudagur: Mér þykir fiskur með beikoni og eggjasósu vera ljúffeng byrjun á vikunni. Samsetningin kemur skemmtilega á óvart!

Ofnbakaðar kjötbollur

Þriðjudagur: Kjötbollur vekja alltaf lukku hér á bæ og okkur þykja þessar ofnbökuðu kjötbollur æðislegar.

Blómkálssúpa

Miðvikudagur: Blómkálssúpan stendur alltaf fyrir sínu og fellur í kramið hjá öllum aldurshópum.

Sveppapasta

Fimmtudagur: Sveppapasta er fljótlegt og gott. Það er ekki svo galið að bera það fram með New York Times-brauði.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Föstudagur: Mér þykir mexíkóskur mangókjúklingur vera fullkominn föstudagsmatur. Ég ber hann fram með salati (iceberg sem hefur legið í ísköldu vatni og er því brakandi stökkt) með rauðri papriku, rauðlauki, kokteiltómötum, miklu avókadó, fetaosti og mulnu nachos (svart Doritos).

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Með helgarkaffinu: Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma lífga upp á hvaða dag sem er og sóma sig vel með helgarkaffinu.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Tobleronemús

Tobleronemús

Ég hef eytt síðustu dögum í að kynna mér menntaskólana með Malínu. Mér þykir svo ótrúlegt að það sé komið að þessu og langar allra mest til að stöðva tímann. Hún ákvað að heimsækja skólana sem koma til greina áður en hún tekur lokaákvörðun og ég reyni hvað ég get að sitja á skoðunum mínum og hafa sem minnst áhrif á hana. Það er jú hún sem ætlar að eyða næstu árum á skólabekk, ekki ég. Ég nýt þess þó að taka þátt í þessu með henni, að skoða skólana og heyra hvað henni finnst. Hún hefur alltaf haft sterkar skoðanir og verið skynsöm, ég hef því engar áhyggjur yfir að hún velji annað en rétt.

Tobleronemús

Mér datt í hug að setja inn uppskrift af æðislegri súkkulaðimús sem gæti verið sniðugt að bjóða upp á um helgina. Ég gaf uppskriftina í nýjasta tölublaði MAN magasín. Ég veit ekki hvort ég hafi sagt frá því áður en ég hef gefið uppskriftir í MAN frá upphafi og ef þið hafið ekki skoðað blaðið hvet ég ykkur til þess því það er æðislegt. Ég verð alltaf jafn glöð þegar ég kem heim og nýtt tölublað bíður mín.

Tobleronemús

Tobleronamús

 • 100 g Toblerone
 • 100 g dökkt Toblerone eða suðusúkkulaði
 • 4 eggjarauður
 • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið það kólna örlítið og hrærið síðan eggjarauðum saman við þar til blandan er slétt. Léttþeytið rjómann og hrærið honum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum. Setjið í skálar og látið standa í ísskáp þar til Tobleronemúsin hefur stífnað.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Heima er best!

Þá er ég komin aftur heim eftir yndislegar vikur í Orlando. Ég hafði hugsað mér að blogga í fríinu en þegar á hólminn var komið hafði ég enga löngun til að sitja við tölvuna. Það fór svo að ég kom varla nálægt henni allt fríið og sit því í súpunni núna. Það hafa aldrei beðið mín jafn margir óopnaðir tölvupóstar og ég vona að þið fyrirgefið mér ef ég hef ekki svarað ykkur. Endilega sendið mér aftur póst ef svo er.

Cocoa Beach

Það er yndislegt að vera í Florida og ný ævintýri bíða á hverjum degi. Við fórum í skemmtigarða, á tónleika, á ströndina, í hjólaskautahöll, í siglingu, á nýja veitingastaði á hverju kvöldi og svo mætti lengi telja en það sem stóð upp úr var þegar við keyrðum út fyrir Orlando og leigðum okkur kajak. Það var búið að vara okkur við krókódílum í vatninu og við sáum nokkra, þar af einn sem fór alveg upp við kajakinn okkar. Þvílíkt ævintýri og svo æðislega skemmtilegt.

Ég hef enga uppskrift til að deila hér í kvöld enda hef ég varla eldað nokkuð af viti síðustu vikurnar. Undir lokin á fríinu gat ég ekki beðið eftir að komast aftur heim í eldhúsið mitt og hef síðustu daga legið yfir uppskriftum til að prófa. Mig langaði bara til að kíkja hingað inn til að senda ykkur smá kveðju. Ég var farin að sakna ykkar.

Ég sá að Facebook-fylgjendur Ljúfmetis eru að nálgast 13.000! Ég er orðlaus og þakklát inn að hjartarótum. Takk, takk, takk! Þið gleðjið mig meira en ég mun nokkurn tímann fá lýst.

Screen Shot 2014-03-10