Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum

Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Gleðilegt sumar! Ég hef ekkert á móti því að kveðja veturinn í bili og tek fagnandi á móti björtum morgnum og lengri dögum. Þvílíkur munur! Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumVið höfum að mestu eytt þessum fyrsta sumardegi hér heima í algjörri afslöppun og varla hreyft okkur lengra en út á pall. Það virðist vera það sem við gerum þessa dagana. Um leið og við fáum frídag þá dundum við okkur hér heima fram eftir degi, borðum gott og tökum lífinu með ró. Það er notalegt en öllu má nú ofgera. Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumTælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumTælenskar kjúklingaenchiladas með granateplumTælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Mig langar til að gefa ykkur uppskrift að sumarlegu enchiladas sem ég eldaði um daginn og eru jafn dásamlega góðar og þær eru fallegar. Ég veit að langir hráefnalistar lokka sjaldan en mikið gæti þó leynst í skápunum. Granateplasafann fæst í litlum fernum sem dugar í þessa uppskrift. Þegar það er búið að hafa hráefnin til þá er sáraeinfalt að setja réttinn saman og það tekur stutta stund. Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum Tælenskar kjúklingaenchiladas með granateplum

Sósa:

 • 1 ½  bolli sæt tælensk chili sósa
 •  ½  bolli sojasósa
 • 1/3 bolli púðursykur
 • 1 msk hnetusmjör
 • 1 msk tómatpaste
 • 3/4 bolli granateplasafi (úr fernu)
 • 1/4 boll rice vinegar
 • safi úr 1 lime
 • 1 tsk fiskisósa
 • 2 hvítlauskrif, pressuð eða rifið
 • 2 msk engifer, rifið
 •  ½ tsk rauðar piparflögur
 •  ½  tsk pipar

Vefjur:

 • 2 kjúklingabringur, eldaðar og tættar
 • 1 rauð paprika, sneidd í þunnar sneiðar
 • 1 appelsínugul paprika, sneitt í þunnar sneiðar
 • 1 ½ bolli rifinn mozzarella ostur
 • 8-10 tortillur

Meðlæti: avokadó, granatepli, ferskt kóriander og sýrður rjómi

Hitið ofn í 175°.

Byrjið á að gera sósuna. Setjið öll hráefnin í sósuna í pott, látið suðuna koma upp og lækkið þá hitan. Látið sósuna sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur eða þar ti lhún hefur þykknað örlítið. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Setjið tættan kjúkling, sneiddar paprikur, kóriander og 3-4 dl af rifnum mozzarella osti í skál. Þegar sósan er tilbúin eru 2 dl af sósunni bætt í skálina og öllu blandað vel saman.

Setjið smá af kjúklingablöndunni í miðjuna á hverri tortilla og rúllið upp. Raðið upprúlluðum tortillum í eldfast mót og látið samskeytin snúa niður. Hellið því sem eftir var af sósunni yfir tortillurnar og endið á að setja gott handfylli af rifnum mozzarella yfir. Bakið í 30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður. Áður en rétturinn er borinn fram er niðurskorið avokadó, kóriander og granateplafræ sett yfir. Mér þykir síðan mjög gott að bera réttinn fram með sýrðum rjóma.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Gleðilega páska. Ég vona að þið hafið átt gott páskafrí og notið með ykkar nánustu. Hjá okkur hafa síðustu dagar einkennst af góðum mat og afslöppun. Veðrið hefur gert okkur kleift að dóla heima í náttfötunum fram eftir degi án nokkurs samviskubits og við höfum notið rólegheitana.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ég byrjaði páskafríið á að gera granóla með pekanhnetum og morgunverðir undanfarna daga hafa verið létt ab-mjólk með fullt af granóla og ferskum bláberjum. Dásamlega gott!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Í gær saumaði ég gjafapoka sem ég síðan fyllti með heimagerðu granóla, páskalakkrísnum frá Johan Bulow, súkkulaði og fleira vel völdu góðgæti sem við Malín færðum síðan vinkonu minni til að njóta yfir páskana. Okkur þótti það persónulegra en að gefa hefðbundið páskaegg og skemmtilegri gjöf. Nokkurs konar heimagert páskaegg!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Á föstudaginn buðum við mömmu í mat og ég eldaði hægeldað nautakjöt og kartöflugratín sem ég bar fram með fersku salati og tveimur sósum. Nautakjötið var innra læri sem var einfaldlega nuddað með olíu, kryddað með vel af pipar og maldon salti og steikt snögglega við háan hita á öllum hliðum. Eftir það setti ég kjöthitamæli í kjötið og stakk því inn í 120° heitan ofn þar til mælirinn sýndi 70°. Það tók um tvo og hálfan tíma. Mér hefði þótt passlegt að hafa kjötið í 65° en smekkur manna er misjafn og sumir vildu ekki hafa kjötið rautt. Þegar kjötið kom úr ofninum vafði ég álpappír um það á meðan kjötið jafnaði sig.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Með kjötinu gerði ég kartöflugratín eftir uppskrift frá Pioneer Woman. Ég kann varla við að birta hér þriðju uppskriftina úr sömu bókinni, The Pioneer Woman cooks, Food From My Frontier, en gratínið var það besta sem við höfum smakkað! Ég segi bara kaupið bókina, hún er hverrar krónu virði!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ég ákvað að gera bæði bernaise sósu og piparostasveppasósu með kjötinu. Bernaise sósan var fulkomin! Æðisleg uppskrift sem ég fann á uppskriftavef Hagkaups og kemur frá Rikku. Svo dásamlega bragðmikil og góð. Þú finnur uppskriftina hér.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Piparostasveppasósan klikkar aldrei og stendur alltaf fyrir sínu. Um hálfur laukur er skorinn fínt og um 150 g sveppir sneiddir. Laukurinn er mýktur í potti í blöndu af smjöri og ólívuolíu og sveppunum síðan bætt við. Steikt þar til mjúkt og fallegt og þá er 0,5 l. rjóma/matreiðslurjóma, heilum niðurskornum piparosti og hálfum grænmetisteningi bætt í pottinn. Sjóðið við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Kryddið með smá cayenne pipar (farið varlega því hann er sterkur en smá af honum gerir kraftaverk fyrir sósuna) og bætið seinni helmingnum af grænmetisteningnum í pottin ef þörf þykir. Súpergott!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Með þessu bar ég fram gott salat með kokteiltómötum, rauðri papriku, rauðlauk, avokadó, bláberjum og fetaosti.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ljúffeng máltíð sem féll vel í kramið hjá öllum og við lágum afvelta eftir.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Eftirrétturinn var súkkulaðimúsin hennar mömmu sem ég hef þegar birt á blogginu. Þú finnur uppskriftina hér. Það hefur hins vegar komið í ljós að mamma fékk uppskriftina frá systur minni sem býr í Kaupmannahöfn og má því segja að uppskriftin flakki manna á milli, eins og góðar uppskriftir eiga til að gera.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Í dag sváfum við út og hituðum okkur crossant og pains au chocolat í morgunmat áður en páskaeggin voru opnuð. Mér þykir æðislegt að eiga það í frystinum til að hita um helgar. Einfaldara verður það varla! Fæst frosið í Hagkaup og er bæði ódýrara og betra en að fara í bakaríið.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kókoskúlur

 

KókoskúlurUm síðustu helgi gerðu strákarnir kókoskúlur sem voru svo góðar að ég gat ekki gengið framhjá ísskápnum án þess að stelast í þær. Þeir buðu síðan upp á kókoskúlurnar yfir sjónvarpinu um kvöldið við mikla lukku viðstaddra.

KókoskúlurÍ gær átti tengdamamma afmæli og þá ákváðu þeir að gera annan skammt og færa henni í afmælisgjöf. Kókoskúlurnar voru ekki lengi að hverfa ofan í gestina, enda alveg æðislega góðar.

KókoskúlurHér kemur uppskriftin ef ykkur langar til að gera vel við ykkur í páskafríinu. Það er góð afþreying fyrir krakkana að gera kókoskúlurnar og dásamlegt að eiga þær í ísskápnum til að njóta.

Kókoskúlur

Kókoskúlur

 • 100 g smjör
 • 1 dl sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 msk kakó
 • 3 dl haframjöl
 • 2 msk kælt kaffi
 • kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr

Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið vanillusykri, kakó, haframjöli og kaffi saman við og vinnið vel saman. Rúllið litlar kúlur úr deginu og veltið þeim upp úr kókosmjöli. Geymið kókoskúlurnar í ísskáp.

Kókoskúlur

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Blómkálssúpa

Blómkálssúpa

Mér þykir svo gott að vera með léttan kvöldverð annað slagið og þá koma súpur alltaf fyrst upp í hugann. Ég elska allt við þær, nýt þess að elda þær og finnst þær vera léttar og góðar í maga. Mér þykir þó nauðsynlegt að bera súpur fram með góðu brauði, helst nýbökuðu með stökkri skorpu. Ég baka yfirleitt New York Times-brauðið þegar ég ætla að bjóða upp á brauð með mat, enda þykir okkur það dásamlega gott og það tekur nákvæmlega enga stund að útbúa það. Hráefnið er svo einfalt að það er alltaf til í skápnum og það eina sem þarf að huga að er að hræra í deigið kvöldinu áður. Ég veit ekki hversu oft ég hef læðst fram úr rúminu, kveikt ljósin í eldhúsinu og hrært í deigið áður en ég fer aftur í rúmið, því að ég áttaði mig allt í einu á því að það stóð súpa á matseðlinum daginn eftir. Stundum gleymi ég mér þó alveg og þá er málunum reddað á annan hátt.

Blómkálssúpa

Þessi uppskrift kemur úr The Pioneer Woman cooks, Food From My Frontier. Ég hef áður birt æðislega uppskrift úr þessari bók (þú finnur hana hér) og þessi var ekki síðri. Það er engin furða að bókin var ein af mest seldu matreiðslubókum í Bandaríkjunum 2013 því uppskriftirnar virðast hver annarri betri.  Þessi blómkálssúpa er æðisleg en það var ekki fyrr en ég hellti vökvanum í pottinn sem ég áttaði mig á því hvað uppskriftin er stór. Hún er fyrir 10-12 manns og við vorum þrjú í mat! Ég náði sem betur fer að bjóða vinkonu Malínar til að borða með okkur og restina setti ég í nokkur nestisbox og inn í frysti. Það hentar mér mjög vel að geta gripið súpubox úr frystinum á morgnana til að eiga sem nesti í hádeginu og krökkunum að geta hitað sér hana þegar þau koma svöng heim.

Blómkálssúpa Pioneer Woman (lítillega breytt uppskrift fyrir 10-12)

 • 110 g smjör
 • 1/2 laukur, fínhakkaður
 • 1 gulrót, skorin í litla teninga
 • sellerý (ég sleppti því), skorið í litla teninga
 • 1 blómkálshaus, grófhakkaður
 • 8 bollar vatn
 • 2 grænmetisteningar
 • 1 kjúklingateningur
 • 6 msk hveiti
 • 2 bollar mjólk
 • 1 bolli matreiðslurjómi
 • salt og pipar
 • 1 stútfullur bolli sýrður rjómi

Bræðið 55 g af smjöri yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið laukinn í pottinn og steikið (eða kannski öllu heldur sjóðið) í smjörinu þar til hann er mjúkur og gegnsær, það tekur um þrjár mínútur. Bætið gulrót og sellerý í pottinn, hrærið saman við laukinn og steikið í tvær mínútur til viðbótar. Bætið blómkáli saman við, hrærið vel í pottinum, setjið lok á hann og látið sjóða við mjög vægan hita í 15 mínútur. Setjið vatn, kjúklinga- og grænmetisteninga í potttinn og látið sjóða í 10 mínútur.

Á meðan súpan sýður er útbúin einföld hvít sósa. Bræðið það sem eftir var af smjörinu (55 g) í potti yfir miðlungsháum hita og hrærið síðan hveitinu saman við. Látið sjóða við vægan hita í 2 mínútur og hrærið síðan mjólkinni saman við í smáum skömmtum. Takið pottinn af hitanum og hrærið matreiðslurjómanum saman við.

Hrærið hvítu sósunni út í blómkálssúpuna, látið suðuna koma upp og smakkið til með salti og pipar. Látið súpuna sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur. Hún mun þykkna örlítið á meðan hún sýður.

Þegar súpan er borin fram er sýrði rjóminn settur í botn á súpuskál og súpunni hellt yfir. Þar sem við vorum svo fá í mat þá setti ég  væna skeið af sýrðum rjóma í botninn á súpuskálunum okkar og svo settum við súpuna yfir. Það er síðan hrært varlega í súpunni þannig að sýrði rjóminn blandist vel við hana. Berið fram með góðu brauði.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að huga að helgarmatnum. Ég ætla því að setja inn uppskrift af einföldum en ljúffengum föstudagsmat sem tekur stutta stund að útbúa og gæti verið kjörið að enda vinnuvikuna á. Mér þykir svo notalegt að eyða föstudagskvöldunum heima og það hentar vel að borða þennan rétt í sjónvarpssófanum til að gera kvöldið enn notalegra.

Spaghetti alla carbonara

Stundum þurfa hlutirnir að gerast í einum grænum og þá koma svona uppskriftir sér vel. Þessi réttur er ó, svo góður og það tekur eflaust styttri tíma að útbúa hann en að panta pizzu. Með öðrum orðum, fullkominn föstudagsmatur!

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara (fyrir 4) – uppskrift frá Allt om mat

 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 250 g beikon
 • 50 g pecoriono ostur
 • 50 g parmesan ostur
 • 2 msk ólífuolía
 • 2 egg
 • 2 eggjarauður
 • pipar úr kvörn
 • 400 g spaghetti

Fínhakkið lauk og skerið hvítlauk í sneiðar. Skerið beikon í bita og fínrífið pacoriono og parmesan ostana.

Hitið olíuna á pönnu og steikið hvítlaukinn í henni þar til hann byrjar að fá gylltan lit. Takið hvítlaukinn af pönnunni. Setjið lauk og beikon á pönnuna (í olíuna sem hvítlaukurinn var í) og steikið þar til laukurinn er mjúkur og beikonið fallegt á litinn, það tekur um 3 mínútur. Hrærið egg og eggjarauður saman við ostana og kryddið með pipar.

Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Geymið 1 dl af pastavatninu.

Hærið saman spaghettí, lauk og beikon. Hrærið eggja- og ostablöndunni saman við og blandið vel saman. Hrærið pastavatninu saman við, smátt og smátt, þar til réttri áferð er náð. Mér þykir 1 dl. passlegt.

Berið fram með ferskrifnum parmesan, pipar og jafnvel steinselju.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Þá er enn ein vikan liðin og eins og svo oft áður nýti ég sunnudaginn í að skipuleggja komandi viku. Ég fer yfir það sem er að gerast hjá okkur í vikunni, naglalakka mig og geri vikumatseðil. Hápunktur líðandi viku var þegar við Gunnar gengum á Grimmansfell með vinnufélögum mínum. Gunnar er svo ótrúlega duglegur í fjallgöngunum og mér þykir svo gaman að hafa hann með. Þetta er ómetanleg gæðastund þó að mig langi oft á tíðum til að gefast upp og snúa við á miðri leið! Það er alltaf jafn góð tilfinning að ná toppnum og enn betri að klára göngurnar.

Vikumatseðill

Ég er stundum spurð af því hvort að ég fari eftir þeim matseðli sem ég birti hér á síðunni. Svarið er já og nei. Ég fer eftir honum að hluta til. Ef ég fylgdi þessum matseðlum þá kæmi aldrei neitt nýtt inn á bloggið! Ég geri því matseðil fyrir mig og geri síðan annan byggðann á mínum fyrir bloggið. Ég vona að þeir nýtist ykkur og létti undir í hversdagsamstrinu.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Mig langar að byrja vikuna á ofnbökuðum fiski í paprikusósu.

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Þriðjudagur: Pestóbaka með bökuðu grænmeti er bæði falleg og góð. Hún stendur vel ein og sér en gott salat fer vel með.

Mexíkósk kjötsúpa

Miðvikudagur: Mexíkósk kjötsúpa er fjölskylduvæn og tekur ekki langan tíma að útbúa. Ég ber hana fram með sýrðum rjóma og nachos eða góðu brauði (þar kemur New York Times-brauðið sterkt inn) og allir verða glaðir.

Einfaldur kvöldverður og dásamlegur eftirréttur

Fimmtudagur: Pylsur í þunnbrauðsvefju er bæði einfalt og gott. Heimagerður skyndibiti eins og þeir gerast bestir!

Satay kjúklingasalat

Föstudagur: Satay kjúklingasalat hefur lengi verið í uppáhaldi hjá krökkunum. Hollt, gott og æðislegt í alla staði.

Starbucks sítrónukaka

Með helgarkaffinu: Ég er veik fyrir sítrónukökum og finnst sítrónukakan frá Starbucks æðisleg.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Skúffukaka

SkúffukakaÍ gærkvöldi var árshátíð hjá Malínu og þar sem hún er í 10. bekk þá var þetta síðasta grunnskólaárshátíðin hennar.  Þegar ég kom heim úr vinnunni gekk ég inn í stórkostlegt ilmvatnsský og heimilið var undirlagt af stelpum í árshátíðarundirbúningi. Við eldhúsborðið var verið að græja neglur, inn á baði verið að krulla hár og það var sama hvert ég leit, alls staðar voru ummerki af því skemmtilega kvöldi sem var í vændum hjá þeim. Það var æðislegt að fylgjast með þeim, stemmningin í toppi og ekki annað hægt en að smitast af gleðinni. Eftir árshátíðina var hópurinn sóttur af limmósínu sem rúntaði um bæinn áður en þau enduðu ferðina hér heima.  Í morgun hélt gleðin áfram því Malín var búin að bjóða hópnum hingað heim í morgunverð fyrir skóla. Það var boðið upp á spæld egg, amerískar pönnukökur, snúða, vínarbrauð og ferska ávexti sem vinirnir sameinuðust í að kaupa og útbúa. Skemmtilegur endir á síðustu grunnskólaárshátíðinni. Í haust halda þau í sitthvora áttina og nýr kafli tekur við. Það eru spennandi tímar framundan hjá þeim.

SkúffukakaUm síðustu helgi bakaði ég æðislega skúffuköku og ákvað að drífa mig að setja inn uppskriftina ef þið eruð í bökunarhugleiðingum um helgina. Mér þykir skúffukaka alltaf standa fyrir sínu og vera ómótstæðileg með ískaldri mjólk. Þessi var mjög góð og ekki lengi að klárast.

SkúffukakaAð lokum langar mig til að benda ykkur á síðu á Facebook sem ég var að uppgötva, Njóttu. Þetta er lífsstílssíða fyrir þá sem kunna að meta það góða í lífinu! Á síðunni má finna uppskriftir, vínráðgjöf, hugmyndir af skreytingum fyrir matarboð, tilboð á veitingastöðum bæjarins og fl. sem nautnaseggir ættu ekki að láta framhjá sér fara. Það er flottur leikur í gangi á síðunni þar sem er hægt að vinna út að borða fyrir tvo á Lækjarbrekku ásamt veglegri gjafakörfu frá Njóttu. Þú getur tekið þátt í leiknum hér. Það verður dregin út vinningur strax á mánudaginn og síðan aftur 14. apríl. Það er um að gera að taka þátt!

Skúffukaka

 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 150 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 4 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 msk vanillusykur
 • 4 msk kakó

Glassúr

 • 75 g smjör
 • 4 msk kakó
 • 4 dl flórsykur
 • 0,5 dl kalt kaffi
 • 1 msk vanillusykur
 • 2 dl kókosmjöl til að strá yfir

Bræðið smjör og látið aðeins kólna. Hrærið egg og sykur þar til blandan er ljós og létt. Hrærið hveiti, lyftidufti, kakó og vanillusykri saman við. Hærið að lokum smjöri og mjólk varlega í deigið (svo það skvettist ekki í allar áttir). Setjið deigið í smurt skúffukökuform (eða klæðið það með bökunarpappír) og bakið við 175° í um 30 mínútur.

Glassúr: Bræðið smjör í potti. Bætið kakó, flórsykri, kaffi og vanillusykri í pottinn og hrærið saman þar til blandan er slétt. Látið kökuna kólna áður en glasúrinn er settur yfir. Stráið kókosmjöli yfir strax eftir að glassúrinn hefur verið settur á kökuna.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP