BBQ-Pizza

BBQ-Pizza

Mér hlotnaðist sá heiður að fá að gera nokkrar grilluppskriftir fyrir Hunt´s núna nýlega. Uppskriftirnar munu síðan birtast í grillbæklingi sem verður dreifður í verslanir á næstunni. Fjölskyldan varð himinlifandi yfir því kröftuga forskoti á grillsumarið sem fylgdi í kjölfarið og naut þess svo sannarlega að gæða sér á afrakstrinum. Þetta var æðislega skemmtilegt verkefni og því verður ekki neitað að grillaður matur er dásamlegur. Ég er ekki frá því að allur matur verði örlítið betri þegar hann er grillaður.

BBQ-Pizza

Ég fékk leyfi til að birta uppskriftirnar hér og þar sem ég fæ ekki betur séð en að veðurspáin bjóði upp á grillveður á morgun ætla ég að stinga upp á að föstudagspizzan verði þessi ljúffenga grillaða BBQ-pizza. Ég held að það verði enginn svikinn af henni og hér heima var barist um síðustu sneiðarnar. Föstudagspizzan gerist varla betri!

BBQ-Pizza

BBQ-Pizza (uppskriftin miðast við eina 16“ pizzu)

 • Pizzadeig (keypt eða heimagert)
 • 2 kjúklingabringur frá Rose Poultry
 • ½ rauðlaukur
 • 1 dl maísbaunir
 • ½ dl. Hunt´s Orginal BBQ Sauce
 • 50 g Philadelphia rjómaostur
 • 60 g mozzarella ostur, rifinn
 • 60 g cheddar ostur, rifinn
 • ferkst kóriander

Sósa: Hunt´s BBQ orginal sósa og Philadelphia rjómaostur eru sett í matvinnsluvél og unnið saman.

Grill er hitað og áleggið á pizzuna haft tilbúið. Kjúklingabringur eru kryddaðar eftir smekk, eða marineraðar í BBQ-sósu, grillaðar og skornar í þunnar sneiðar. Rauðlaukur er skorinn í þunnar sneiðar.

Pizzadegið er flatt út, sett á heitt grillið og grillað þar til botninn er orðinn stökkur (ef grillið er 200° heitt þá tekur það um 3-4 mínútur). Botninum er þá snúið við og álegginu raðað yfir á þann hátt að fyrst er sósan smurð yfir botninn, þar á eftir er helmingur af ostinum settur yfir, síðan kjúklingurinn, rauðlaukurinn og maísbaunirnar, og að lokum seinni helmingurinn af ostinum. Grillinu er síðan lokað og pizzan grilluð áfram þar til osturinn hefur bráðnað.

Áður en pizzan er borin fram er fersku kóriander stráð yfir hana.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Ég veit ekki hvað er með mig en ég fæ oft svo svakalega löngun í köku og mjólk á kvöldin. Þá baka ég köku eftir kvöldmatinn og hef kvöldkaffi áður en krakkarnir fara að sofa. Mér þykir svo notalegt að setjast niður með þeim yfir spjalli, nýbakaðri köku og köldu mjólkurglasi og varla hægt að enda daginn betur.

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Þessi kaka gladdi okkur eitt kvöldið í vikunni og vonandi nokkra vinnufélaga mína daginn eftir. Ég var alla vega spurð hvort að uppskriftin færi ekki á bloggið og það gleður mig alltaf. Svo hér kemur hún, á bloggið eins og lofað var. Dásamleg í alla staði og passar stórvel við náttföt, kertaljós og ískalda mjólk.

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

 • 2 egg
 • ½ dl sykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk lyftiduft
 • 75 g smjör, brætt
 • 3/4 dl mjólk
 • 2  1/4 dl hveiti

Glassúr

 • ½ msk vanillusykur
 • 3 dl flórsykur
 • 35 g smjör, brætt
 • 2-4 msk vatn

Til að strá yfir kökuna

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°. Hrærið egg og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið hinum hráefnunum saman við og hrærið snögglega saman í deig. Passið að hræra ekki of lengi því þá er hætta á að kakan verði þung í sér og seig. Setjið deigið í smurt form (um 24 cm í þvermál) og bakið kökuna í 15-20 mínútur, eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr: Hrærið öllum hráefnum saman í skál. Notið vatnið til að ná réttri áferð og þykkt á glassúrnum.

Þegar kakan hefur kólnað þá er glassúrinn settur yfir hana og kókosmjöl stráð strax yfir glassúrinn.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Ég get ekki hætt að gleðjast yfir veðurblíðunni sem hefur verið undanfarna daga. Lífið verður svo mikið skemmtilegra þegar veðrið er svona gott. Það er eins og allt lifni við, hverfið iðar af lífi og krakkarnir gefa sér varla tíma til að koma inn að borða. Á sunnudaginn borðuðum við morgunmatinn úti á palli í fyrsta sinn á þessu ári og bæði mánudag og þriðjudag borðaði ég hádegismat undir berum himni, í glampandi sólskini. Það er ekki annað hægt en að gleðjast yfir svona ljúfum dögum.

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Um síðustu helgi leitaði ég enn og aftur í smiðju Ree Drummond þegar mig langaði að vera með góðan helgarmorgunverði. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég hef enn ekki orðið fyrir vonbrigðum með uppskrift frá henni. Þessi var engin undantekning og sló rækilega í gegn hjá krökkunum. Hræruna er hægt að útbúa deginum áður og geyma í ísskáp í lokuðu íláti. Þá tekur enga stund að reiða morgunverðinn fram.

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru (fyllingin dugar á 6 beygluhelminga)

 • 6 beikonsneiðar, steiktar og hakkaðar
 • 6 harðsoðin egg, skurnin tekin af og eggin hökkuð
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur
 • 1/2 bolli majónes
 • 1/2 msk Dijon sinnep
 • 1/4 tsk hvítlauksduft
 • 1/2 tsk Worcestershire sósa
 • 3 beyglur

Hrærið beikoni, eggjum, cheddar osti, majónesi, dijon sinnepi, hvítlauksdufti og Worcestershire sósu saman.

Kljúfið beyglurnar og hitið þær í 200° heitum ofni í 3-4 mínútur. Setjið þá fyllinguna yfir beyglurnar og hitið í 4 mínútur til viðbótar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Það er orðið langt síðan ég birti hér hugmynd að vikumatseðli. Þið vitið vonandi að ef ykkur vantar hugmyndir að kvöldmat þá getið þið skoðað fyrri matseðla hér. Þessi vika mun hins vegar bjóða upp á svo margt gott og ég veit ekki hvort ég geti beðið eftir japanska kjúklingasalatinu fram á föstudag. Namm!

Fiskur í okkar sósu

Mánudagur: Fiskur í okkar sósu er réttur sem ég fæ ekki leið á.

DSC_7163

Þriðjudagur: Það er orðið allt of langt síðan ég eldaði lasagna með rjómakremi og það kemur því ekki degi of snemma á matseðilinn. Uppskriftin er drjúg og það verður alltaf smá afgangur til að hita upp daginn eftir.

Grjónagrautur

Miðvikudagur: Ég er ekki mikið fyrir grjónagraut en krakkarnir elska hann. Ég hef ekkert fyrir þessum ofnbakaða grjónagrauti og nýti tækifærið til að bjóða þeim upp á hann þegar ég veit að ég mun geta fengið mér afgang frá kvöldinu áður.

Brauð með ítalskri fyllingu

Fimmtudagur: Brauð með ítalskri fyllingu. Ég elska brauð og því kannski engin furða að ég fæ ekki nóg af þessari dásemd.

Japanskt kjúklingasalat

Föstudagur: Japanskt kjúklingasalat þykir mér vera ljúffengur endir á vinnuvikunni. Brjálæðislega gott!

Kladdkaka

Með helgarkaffinu: Sænsk kladdkaka með vanillurjómakremi og jarðaberjum svíkur engan.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Tacopizzubaka

Tacopizzubaka Mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar það líður svona langt á milli bloggfærslna. Undanfarnir dagar hafa satt að segja þotið hjá og ég veit varla í hvað tíminn er að fara. Ég hef bara verið upptekin við að dekra við sjálfa mig. Fara í kvöldgöngur og baka súkkulaðikökur með kvöldkaffinu. Ég hef líka gert ýmislegt gott í eldhúsinu og uppskriftirnar bíða eftir að komast hingað inn. Tacopizzubaka Tacopizzubaka Á morgun er föstudagur og helgarfrí framundan. Ég ætla því að gefa uppskrift af einföldum, fljólegum en umfram allt góðum föstudagsmat, tacopizzuböku. Það kann að hljóma sem vesenisréttur en er það svo sannarlega ekki. Sé pizzadeigið keypt tilbúið þá þarf lítið annað að gera en að steikja hakkið og raða þessu saman. Ef þið nennið ekki að hakka lauk þá sleppið þið honum. Ef þið eruð í stuði til að hakka meira, bætið við papriku! Þetta er súpereinfalt og æðislega gott. Ekta föstudagsmatur! Tacopizzubaka   Tacopizzubaka

 • pizzadeig (keypt virkar stórvel)
 • 500 g nautahakk
 • 1 poki tacokrydd
 • 1/2 laukur, hakkaður
 • 1-2 tómatar, skornir í sneiðar
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1-2 tsk paprikukrydd
 • vel af chili explosion kryddi (verið óhrædd, það er ekki sterkt!)
 • rifinn ostur

Steikið nautahakkið með hökkuðum lauki í smá smjöri. Kryddið með tacokryddinu og hellið smá vatni yfir (1/2-1 dl). Steikið áfram þar til vatnið er horfið.

Kryddið sýrða rjómann með paprikukryddi og chili explosion.

Fletjið pizzadeigið út og setjið í smurt smelluform. Látið deigið ná vel upp hliðarnar. Setjið nautahakkið yfir pizzadeigið, raðið tómatsneiðum yfir og setjið sýrða rjómann yfir tómatana. Stráið rifnum osti yfir og leggið pizzadeigið yfir ostinn meðfram kanntinum. Bakið við 200° í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit.

Berið fram með sýrðum rjóma, salati og nachos.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Þær eru ljúfar vikurnar núna og mér þykja allir þessir auka frídagar gera það að verkum að það er alltaf föstudagur. Ég vil alltaf hafa góðan mat á föstudagskvöldum og oftar en ekki langar mig að enda vinnuvikuna á góðum heimagerðum skyndibita. Við kaupum sárasjaldan tilbúinn skyndibita og erum satt að segja ekkert sérlega hrifin af honum. Það þýðir þó ekki að við séum bara í hollustunni heldur er bara hægt að gera svo mikið betri mat heima á stuttum tíma og fyrir minni pening.

Steiktar quesadillas með kjúklingiSteiktar quesadillas með kjúklingiSteiktar quesadillas með kjúklingiSteiktar quesadillas með kjúklingi

Um daginn prófaði ég að hálfpartinn djúpsteikja quesadillas og útkoman varð brjálæðislega góð. Aðeins óhollara en hefðbundin quesadilla, en svo gott að okkur hefði ekki getað verið meira sama. Einfalt, fjótlegt og svo ólýsanlega gott. Það er hægt að leika sér með fyllinguna eftir því hvað er til í ísskápnum og það er um að gera að nota afgang af kjúklingi sé hann til staðar. Þetta er að mínu mati fullkominn föstudagsmatur!

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Steiktar quesadillas með kjúklingi

 • 3 kjúklingabringur, skornar í bita
 • 3 msk fajita krydd
 • 1/2 dl vatn
 • 1/2 rauðlaukur, skorinn í fína strimla
 • 3 msk maisbaunir
 • 8 tortillur (minni gerðin)
 • rjómaostur
 • rifinn cheddarostur

Meðlæti: sýrður rjómi, guacamole, salsasósa, salat, tómatar, gúrka, avokadó, nachos… gefið hugmyndafluginu lausan tauminn!

Kjúklingabringur eru skornar í fremur smáa bita og steiktir á pönnu þar til þeir eru næstum eldaðir í gegn. Þá eru þeir kryddaðir með fajita kryddi, 1/2 dl af vatni hellt yfir og látið sjóða þar til vatnið er gufað upp. Bætið rauðlauk og maísbaunum á pönnuna og steikið áfram þar til laukurinn er mjúkur.

Smyrjið tortillakökurnar með rjómaosti, setjið um 3-4 msk af kjúklingablöndunni á annan helminginn og stráið cheddarosti yfir. Brjótið hinn helminginn yfir þannig að myndist hálfmáni. Þrýstið brúnunum saman. Hitið 2,5 dl af bragðlausri olíu á pönnu. Setjið tortillakökurnar varlega í olíuna og steikið á hvorri hlið þar til fallega gylltar.

Berið fram með sýrðum rjóma, guacamole, salsa, salati, tómötum, avokadó eða hverju því sem hugurinn girnist. Ég mæli þó með að enda á að mylja svart Doritos yfir.

Steiktar quesadillas með kjúklingi

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP