Vikumatseðill

VikuinnkaupVikuinnkaupVikuinnkaupVikuinnkaupÞar sem það er varla hundi út sigandi í þessu veðri þykir mér kjörið að taka daginn í að gera vikumatseðil og undirbúa vikuna. Vikuinnkaupin breytast alltaf aðeins hjá mér á haustin og sérstaklega núna þegar Malín tekur með sér nesti í skólann. Það er smá áskorun að finna hentugt nesti og við erum að prófa okkur áfram.

Á matseðlinum þessa vikuna veit ég að kjötbollurnar á þriðjudeginum og pylsugratínið á miðvikudeginum eru tilhlökkunarefni hjá krökkunum en hjá mér er það kjúklingasúpan á föstudeginum sem stendur upp úr. Hún er himnesk og ef þið hafið ekki prófað hana þá hvet ég ykkur til þess. Heimagerða Snickersið er síðan hápunktur vikunnar. Hamingjan hjálpi mér hvað það er gott. Það ætti að vera til á hverju heimili. Alltaf.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Mánudagur: Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Ofnbakaðar kjötbollur

Þriðjudagur: Ofnbakaðar kjötbollur

Pylsugratín með kartöflumús

Miðvikudagur: Pylsugratín með kartöflumús

Spaghetti alla carbonara

Fimmtudagur: Spaghetti carbonara

Kjúklingasúpa

Föstudagur: Himnesk kjúklingasúpa með ferskjum

Heimagert snickers

Helgardekrið: Heimagert Snickers

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Salamisalat

SalamisalatÉg er mjög hrifin af hrökkbrauði, og reyndar öllu brauði ef út í það er farið en hrökkbrauðið er það brauð sem ég borða mest af. Finn Crisp með eggjahræru og jurtasalti fæ ég seint leið á og hef borðað í hverri viku í ár og aldir, en best þykir mér þó þetta hrökkbrauð sem ég hef ekki undan að baka því ég klára það svo fljótt. Mér þykir það æðislega gott og borða það oftast með avókadó og jurtasalti (namm) eða þessu feta- og sítrónumauki þegar ég á það til (brjálæðislega gott!). Það er skrýtið að mér dytti aldrei í hug að setja eggjahræru á heimagerða hrökkbrauðið mitt, hún fer bara á Finn Crisp. Stundum kaupi ég Wasa Sport hrökkbrauð en þá set ég smjör, soðið egg sem er á milli þess að vera lin- og harðsoðið og gúrku ofan á það. Það er eins og hver hrökkbrauðstegund eigi sitt álegg, hálf galið.Salamisalat

Ég prófaði um daginn að gera salamihræru sem hristi verulega upp í hlutunum og var skemmtileg tilbreyting á hrökkbrauðið. Mér þykir hún meira að segja passa á allar tegundir hrökkbrauða sem og á venjulegt brauð. Þetta er brjálæðislega einfalt og mjög gott. Fersk gúrkan fer vel með söltu salamipylsunni en er þó ekki nauðsynleg. Setjið hana samt á, hún setur svolítið punktinn yfir i-ið.

Salamisalat

 • 100 g salami
 • 1/2 dl majónes
 • 1 dl philadelphiaostur

Fínhakkið salami. Hrærið majónesi og philadelphiaosti saman þar til blandan er slétt. Hrærið salami saman við.

Salamisalat

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Dásamlegt sírópsbrauð

SírópsbrauðÞessar síðustu sumarvikur hafa flogið áfram og á morgun hefjast skólarnir og tómstundir á nýjan leik. Haustið hefur alltaf verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Þegar loftið er brakandi ferskt á morgnanna og hversdagsrútínan fer aftur í gang. Við ætlum að kveðja sumarið með því að fara á Justin Timberlake í kvöld og stemmningin er í toppi fyrir því.

Sírópsbrauð

Við byrjuðum daginn á löngum og góðum morgunverði. Ég bakaði sírópsbrauð í gærkvöldi og það var því fljótlegt að hafa morgunverðinn til í morgun. Mér þykir eitt það notalegasta við helgarnar vera að geta setið lengi yfir morgunverðinum. Ég næ því aldrei á virkum dögum og oftar en ekki gríp ég þá morgunverðinn með mér í bílinn.

Sírópsbrauð

Brauðið sem við gæddum okkur á í morgun er dásamlega ljúffengt, mjúkt og geymist vel. Hér áður fyrr notaði ég alltaf venjulegar rúsínur í það en eftir að ég datt niður á þessar hálfþurrkuðu rúsínur þykir mér ekkert varið í hinar. Þegar ávextirnir eru hálfþurrkaðir þá bæði helst sætleikinn í þeim og þeir haldast mjúkir og góðir. Þvílíkur munur! Ég er spennt að prófa fleiri ávexti úr þessari línu.

Sírópsbrauð

Það er bæði lítil fyrirhöfn og einfalt að baka gerlaus brauð. Það þarf bara að hræra öllu saman og setja inn í ofn. Mér þykir best að baka þetta brauð kvöldinu áður svo allt sé klárt þegar ég vakna. Ég vef því heitu inn í hreint viskastykki og set síðan glæran plastpoka utan um það. Þannig geymist það vel.

SírópsbrauðSírópsbrauð 

 • 3 ½ dl hveiti
 • 3 dl heilhveiti
 • 1 tsk salt
 • ½ sólblómafræ
 • 1 dl rúsínur (ég mæli með hálf þurrkuðu rúsínunum frá St. Dalfour)
 • ½ dl cashew hnetur
 • 5 dl súrmjólk
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 dl síróp

Hitið ofninn í 175°.  Blandið hveiti, heilhveiti, salti, sólblómafræjum, rúsínum og hnetum saman í skál og leggið til hliðar. Blandið súrmjólk, sírópi og matarsóda saman í annari skál og hrærið síðan varlega saman við þurrefnin.

Smyrjið 1,5 lítra brauðform eða klæðið það með bökunarpappír. Setjið deigið í formið og stráið smá hveiti yfir. Bakið brauðið í neðri hluta ofnsins í um 90 mínútur. Setjið álpappír yfir brauðið ef það fer að dökkna of mikið. Látið brauðið hvíla innvafið í viskastykki í 5 klukkutíma áður en það er borðið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Gott ráð!

Gott ráð!

Ég hef verið í vandræðum með að þrífa háfinn yfir eldavélinni hjá mér frá upphafi. Það var sama hvaða efni ég notaði, hann var alltaf skýjaður. Því meira sem ég þreif hann, því ljótari varð hann. Að lokum gafst ég upp.

Gott ráð!

Það var svo nýlega að ég las á einhverri amerískri síðu að besta leiðin til að þrífa stálvörur í eldhúsi væri með kókosolíu. Ég hafði ekki nokkra trú á að það myndi virka en þegar ég var í búðinni um daginn og rak augun í kókosolíu í hillunni ákvað ég að slá til. Ég hafði jú engu að tapa. Ég ætlaði ekki að trúa því en á nokkrum mínútum varð háfurinn eins og nýr. Ég gerði ekkert annað en að setja kókosolíuna í eldhúspappír (eða réttara sagt klósettpappír því eldhúspappírinn var búinn) og bera hana á. Erna vinkona prófaði líka hjá sér með sama góða árangri. Hún sagði að ég yrði að setja þetta á bloggið og nú geri ég það. Kókosolían er algjörlega málið!

Gott ráð!

Frosinn hindberjadrykkur

Frosinn hindberjadrykkurMikið er æðislegt að fá svona góða daga með sól og blíðu. Það lifnar allt við. Við kældum okkur niður í dag með æðislegum drykk sem ég hef gert nokkrum sinnum í sumar og alltaf hlotið mikið lof fyrir. Það er því tími til kominn að setja uppskriftina inn til að fleiri geti notið hennar.

Þessi frosni hindberjadrykkur er ferskur, svalandi og dásamlega góður. Krakkarnir hreinlega elska hann. Djúsinn sem ég nota, Sunquick Pink Guava & Strawberry, er í algjöru uppáhaldi hjá strákunum og þegar þeir fá að gera vel við sig verður hann fyrir valinu. Hér fer djúsinn svo vel með hindberjunum og sítrónan setur punktinn yfir i-ið. Þetta verður ekki einfaldara, öllu er hrúgað í blandarann og hann látinn ganga í smá stund. Útkoman verður hálfgert ískrap sem er fallegt í glasi og dásamlegt á bragðið.

Frosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkurFrosinn hindberjadrykkur Frosinn hindberjadrykkur (fyrir 3-4)

 • 200 g ís (ekki mjúkís)
 • 2,5-3 dl mjólk
 • 200 g frosin hindber
 • 2 tsk ferskur sítrónusafi
 • 4 msk Sunquick Pink Guava & Strawberry

Setjið öll hráefnin í blandara og látið ganga þar til blandan er slétt og mjúk.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Butter chicken

Butter chickenMér þykir alltaf verða ákveðin kaflaskil þegar verslunarmannahelgin er að baki. Þá er haustið handan við hornið og allt að fara í gang aftur. Krakkarnir fara að huga að skólasetningu og tómstundum vetrarins á meðan ég bíð með eftirvæntingu eftir að lífið falli í sína hversdagslegu rútínu.

Butter chickenButter chicken

Það er búið að vera svolítið um skyndilausnir í eldhúsinu hjá mér upp á síðkastið. Matur sem okkur þykir góður en tekur lítinn tíma að útbúa. Uppskriftir sem er sniðugt að grípa til þegar boðið er í mat án þess að hafa tíma til að undirbúa matarboðið. Þannig var það einmitt með þennan rétt. Ég var enga stund að reiða hann fram þegar ég hafði boðið í mat hér eitt kvöldið og allir voru ánægðir með matinn.  Jakob var svo ánægður að hann borðaði afganginn í morgunmat daginn eftir og hefðu glaður viljað fleiri diska.

Butter chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5)

 • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (eða kjúklingabringur)
 • 1 laukur
 • 1/2 spergilkálhaus
 • 1 krukka Butter chicken sósa frá Patak´s
 • 1-2 tsk karrý
 • 1 grænmetisteningur
 • 2-3 msk mangó chutney

Skerið kjúklinginn í bita, laukinn í báta og spergilkálið í bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er steiktur á öllum hliðum, bætið þá lauknum á pönnuna og steikið áfram þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið sósu, spergilkáli, karrý, grænmetisteningi og mangó chuthey á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og spergilkálið orðið mjúkt.

Butter chicken

Berið fram með hrísgrjónum og nan-brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP