Föstudagskvöld og góð ídýfa

Föstudagskvöld og góð ídýfaÞá er besta kvöld vikunnar enn og aftur runnið upp. Ég dundaði mér í sumarfríinu við að prjóna vettlinga, fyrst fyrir mig en þá langaði Malínu líka í þannig að ég prjónaði aðra fyrir hana. Þá langaði Gunnari líka í vettlinga og ég byrjaði að prjóna fyrir hann en lagði þá frá mér áður en ég kláraði og í prjónakörfunni hafa þeir legið síðan. Nú er hins vegar farið að kólna svo í veðri að verkefni kvöldsins er að klára vettlingana þannig að hann geti farið að nota þá.

Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa Föstudagskvöld og góð ídýfa

Sjónvarpssnarlið í kvöld er einfalt og gott. Avokadó er stappað í botn á skál, sýrður rjómi settur yfir og að lokum salsasósa yfir allt. Borið fram með nachos (helst svörtu Doritos). Súpergott!

Föstudagskvöld og góð ídýfa

Eigið gott föstudagskvöld 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Litla gula hænan

Litla gula hænanÉg var svo lánsöm að fá að gjöf kjúklinga frá Litlu gulu hænunni um daginn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er um velferðarkjúklinga að ræða, sem fá óerfðabreytt fóður, gott rými til að athafna sig og fara út að leika sér þegar veður leyfir. Hversu dásamlegt! Kjúklingarnir eru sælir og dafna eftir því. Mér þykir framtakið til fyrirmyndar og vert að skoða þegar kemur að kjúklingakaupum.

Litla gula hænan

Kjúklingurinn var pattaralegur og flottur. Ég nuddaði hann með sítrónu og kryddaði með kryddi lífsins, rósmarín og salti. Eftir það skar ég hálfa sítrónu í fernt og 1 sólóhvítlauk í báta og setti inn í kjúklinginn. Kjúklingurinn fór eftir það í ofnpott, lokið á og inn í 190° heitan ofn (án blásturs) í 2 klst. Það stóð nú ekki til að hafa hann svo lengi í ofninum og ég var hrædd um að hann væri orðinn þurr en þær áhyggjur voru óþarfar, kjúklingurinn datt af beinunum og var dásamlega meyr og góður.

Litla gula hænan

Þessi kjúklingur er góður fyrir líkama og sál. Ég bar hann fram með kartöflumús, maísbaunum sem ég hitaði í bræddu smjöri og saltaði með góðu salti, rifsberjahlaupi og sósu sem hefur lengi verið í uppáhaldi. Uppskriftin af henni hefur áður komið á bloggið en þolir vel að vera birt aftur.

Ljúffeng rjómasósa:

 • 2,5 dl rjómi (1 peli)
 • 1 dós sýrður rjómi (34%)
 • 1-2 kjúklingateningar
 • 1-2 msk rifsberjahlaup
 • 1-2 msk sojasósa
 • salt og hvítur pipar
 • maizena til að þykkja (má sleppa)

Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur. Byrjið á 1 kjúklingateningi, 1 msk af rifsberjahlaupi og 1 msk af sojasósu, smakkið til og bætið við eftir þörfum. Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Hakk og spaghettí

Hakk og spaghettíMér þykir hakk og spaghettí vera frábær hversdagsmatur. Það tekur svo stutta stund að útbúa hann og ef ég á sýrðan rjóma og chili explotion krydd þá þykir mér útkoman alltaf verða góð. Þegar ég veit að það stefnir í seinan dag þá tek ég stundum upp á því að gera kjötsósuna kvöldið áður og hita hana síðan bara upp daginn eftir á meðan spaghettíið sýður. Ef það verður afgangur nýti ég hann alltaf. Þeir fara ýmist í nestisbox inn í frysti, á brauðsneiðar smurðar með tómatsósu, kjötsósu og osti inn í ofn eða á pizzur. Þá set ég pizzasósu yfir botninn, krydda með oregano, set síðan kjötsósuna og toppa með rifnum osti. Einfalt og stórgott!

Hakk og spaghettí

Hakk og spaghetti

 • 1 laukur, hakkaður
 • 25 g smjör
 • 2 msk ólívuolía
 • paprikukrydd
 • 1/2 fræhreinsað chili, hakkað
 • 3 hvítlauksrif, hökkuð
 • 500 g nautahakk
 • 400 g hakkaðir tómatar (1 dós)
 • 1½ tsk tómatpuré
 • 4 msk tómatsósa
 • 3 msk kálfakraftur (kalvfond)
 • 1 dl sýrður rjómi
 • chili explotion (krydd í kvörn frá Santa Maria)
 • salt og pipar

Hakkið laukinn og mýkið hann í smjöri og ólívuolíu við mjög lágann hita í um 10 mínútur. Saltið, piprið og kryddið með paprikukryddi. Bætið hökkuðu chili og hvítlauk saman við og látið malla aðeins áfram á pönnunni með lauknum. Bætið nautahakkinu á pönnuna. Þegar nautahakkið er fullsteikt er tómötum, kálfakrafti, tómatpuré og tómatsósu hrært saman við. Látið sjóða við vægan hita eins lengi og kostur er en að minsta kosti í 30 mínútur. Ef ykkur þykir blandan verða þurr þá bætið þið smá vatni og ólívuolíu saman við. Kryddið með salti, pipar og chili explotion. Að lokum er sýrðum rjóma hrært út í og látin sjóða með síðustu mínúturnar.

Berið fram með pasta og ferskrifnum parmesan. Ef þið eigið ferska basiliku skuluð þið ekki hika við að saxa hana yfir!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósuUm helgar þykir mér notalegt að hægelda mat. Að kveikja á útvarpinu og dunda mér hér heima á meðan kvöldmaturinn sér um sig sjálfur á eldavélinni eða í ofninum. Kjötið verður svoooo meyrt að það nánast dettur í sundur. Brjálæðislega gott!

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Það rifjaðist upp fyrir mér í gærkvöldi að ég á eftir að setja inn uppskrift af dásamlegum hægelduðum kótilettum sem ég eldaði tvær helgar í röð um daginn. Þegar ég var með þær í fyrsta sinn hugsaði ég með mér að þetta væri nú eitthvað fyrir mömmu. Helgina eftir eldaði ég því kótiletturnar aftur og bauð henni til okkar. Hún dásamaði þær við hvern bita og við vorum sammála um að þetta er frábær helgarmatur.

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu (uppskrift fyrir 4)

 • 6 svínakótilettur
 • 1 gulrót
 • 1 gulur laukur
 • 1 lárviðarlauf
 • salt og pipar
 • vatn
 • 1 msk kálfakraftur (kalvfond)
 • 2 dl rjómi
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 1 msk sojasósa
 • salt og pipar
 • sykur

Saltið og piprið kótiletturnar og brúnið þær á báðum hliðum á rúmgóðri pönnu. Skerið lauk í báta og gulræturnar í sneiðar og bætið á pönnuna, hellið síðan vatni svo rétt fljóti yfir. Setjið kálfakraft og lárviðarblað í og látið sjóða undir loki við vægan hita í 2-3 klukkustundir. Snúið kótilettunum gjarnan annað slagið.

Takið kjötið af pönnunni og sigtið sósusoðið. Setjið soðið aftur á pönnuna (laukurinn og gulrótin eiga ekki að vera með), hrærið rjóma og sýrðum rjóma saman við og smakkið til með sojasósu, salti og pipar. Setjið smá sykur í sósuna og leggið kótiletturnar í og látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Berið fram með kartöflum og rifsberjahlaupi

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ómótstæðilegt guacamole

ómótstæðilegt guacamoleÉg byrjaði helgarfríið á að missa símann minn sem varð til þess að skjárinn dó, í annað sinn á rúmum mánuði. Ég heyri hann hringja og sms koma, en get ekki svarað. Glatað en samt pínu hvíld, ótrúlegt en satt. Helgin hefur fyrir vikið verið dásamlega afslappandi og góð. Ég fylgdist spennt með fimleikunum, fékk gæsahúð og hélt inn í mér andanum þegar íslensku hóparnir kepptu. Svakalega megum við vera stolt af þeim! wholefoodsguacamole4 (1 of 1)

Þegar ég var í Orlando í vor fékk ég mér guacamole úr Whole foods á hverjum degi og í gærkvöldi prófaði ég uppskriftina sem er á heimasíðunni þeirra. Ég veit ekki hvort þetta sé sama uppskrift og þeir selja í búðinni en þessi er svakalega góð. Svo góð að það er ekki hægt að hætta að borða það. Uppskriftin er stór og ég tók helminginn frá til að eiga í kvöld.

wholefoodsguacamole1 (1 of 1)

Mér þykir best að geyma guacamole inn í ísskáp í hreinum nestispoka sem ég loka þannig að það sé ekkert loft í honum. Þá helst það grænt og fallegt. Þó að eflaust sé algengast að borða guacamole með nachos eða mexíkóskum mat þá þykir mér það líka frábært í salat (t.d. kjúklingasalat og ekki skemmir fyrir að mylja nachos yfir), á hamborgarann, hrökkbrauðið eða einfaldlega á gott ristað brauð.

Ómótstæðilegt guacamole

 • 4 þroskuð avokadó
 • 1/4 bolli þunnt sneiddir kirsuberjatómatar
 • 1 msk fínhakkaður rauðlaukur
 • 1 jalapeno, fræhreinsað og fínhakkað (ég sleppti því)
 • um 1 ½ tsk grófhakkað kóriander
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • safi af hálfu lime
 • 1/2 tsk cumin
 • 1/2 tsk chiliduft
 • salt og pipar

Blandið öllu saman fyrir utan avokadó og látið standa í hálftíma. Stappið avokadóið gróflega með gaffli og hrærið saman við tómatahræruna. Berið fram með nachos eða því sem hugurinn girnist.

wholefoodsguacamole3 (1 of 1)

P.s. á meðan ég man, það eru amerískir dagar í Hagkaup og þegar ég fór þangað áðan sá ég að það er til nóg af marshmallowkremi. Ég fæ reglulega fyrirspurnir um hvar það fáist og núna er því um að gera að byrgja sig upp til að hægt sé að njóta þessarar dásemdar yfir jólahátíðina.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Einfalt og hollt lágkolvetna granóla

Lágkolvetna granóla

Upp á síðkastið hafa virku dagarnir hjá mér byrjað á ab-mjólk með heimagerðu granóla. Það er svo fljótgerður, hollur og góður morgunverður sem endist mér vel fram að hádegi. Ég kaupi nánast aldrei tilbúið granóla því mér þykir heimagert svo mikið betra og þegar ég geri það sjálf þá veit ég líka hvað er í því. Það er svo svakalega lítið mál að gera granóla að það nær engri átt. Tekur enga stund og það er svo góð tilfinning að eiga þetta í skápnum.

Lágkolvetna granólaÉg hef prófað ýmsar uppskriftir (þetta er enn í algjöru uppáhaldi) og ákvað núna síðast að prófa uppskrift sem ég sá á lágkolvetnasíðu (og ef einhver heldur núna að ég sé á lágkolvetnafæði þá er svarið nei, svo sannarlega ekki!) og hafði fengið góða umsögn. Næst mun ég auka kókosmjölið í uppskriftinni því ég hefði viljað hafa það örlítið sætara en það gæti líka verið sniðugt að bæta rúsínum í það.

Lágkolvetna granóla

Granóla (uppskrift frá 56kilo.se)

 • 2 dl hakkaðar möndlur
 • 2 dl hakkaðar heslihnetur
 • 1 dl sólblómafræ
 • 1 dl graskersfræ
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1/3 dl hörfræ
 • 1 tsk vanilluduft (eða vanillusykur)
 • 1 msk kakó
 • 3 msk kókosolía (látið hana bráðna svo hún verði fljótandi)
 • 1 msk hunang (má sleppa)

Lágkolvetna granólaBlandið öllu saman og dreifið úr á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Bakið við 150° í um 20-30 mínútur (fylgist með undir lokin svo það brenni ekki). Hrærið nokkrum sinnum í granólanu á meðan það er í ofninum.

Lágkolvetna granóla

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Fyllt rúnstykki

Fyllt rúnstykkiÉg datt niður á uppskrift af þessum fylltu rúnstykkjum fyrir nokkrum árum og er alltaf jafn ánægð með þau, hvort sem um hádegisverð eða léttan kvöldverð sé að ræða. Uppskriftin er svo sem hvorki merkileg né heilög en sem grunn að fyllingu er passlegt að miða við 1 egg + 1 dl af rjóma fyrir tvö rúnstykki. Síðan má krydda eftir smekk og fylla með osti og því sem hugurinn girnist. Beikon, skinka, pepperoni, sveppir, paprika, aspas… í raun bara það sem er til á heimilinu, þetta klikkar aldrei!

Fyllt rúnstykki

Aðferðin er einföld. Skerið lokið af rúnstykkinu, takið innan úr þeim þannig að það myndist góð hola og fyllið hana með osti (mér þykir gott að nota bragðmikinn ost eins og t.d. sterkan gouda) og skinku (eða öðru áleggi). Hrærið saman eggi, rjóma og kryddið með salti og pipar (hér notaði ég líka ítalskt salatkrydd sem ég átti en t.d. töfrakrydd, krydd lífsins eða hvítlaukskrydd gæti verið gott). Hellið eggjahrærunni yfir fyllinguna í rúnstykkinu (hún passar í tvö rúnstykki) og setjið smá rifinn ost yfir. Setjið lokið á rúnstykkið og pakkið því inn í álpappír. Bakið við 200° í um 30 mínútur. Berið fram heitt með góðu salati.

Fyllt rúnstykki

Allt hráefni í þessa uppskift fæst í

HAGKAUP