Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!Ég gæti vel lifað á súpum og ber þær á borð hér í hverri viku. Bæði þykir mér gaman að elda þær sem og mér þykir eitthvað notalegt við að setjast niður með heita súpu og gott brauð þegar það er kallt úti. Þess að auki eru þær ódýr og fljótgerður matur sem upplagt er að frysta í einstaklingsskömmtum til að eiga í nesti.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Þessi tómatsúpa er sú langbesta sem ég hef smakkað. Hráefnið er oftast til í skápnum og ég get haft hana á borðinu korteri eftir að ég kem heim. Ódýr og barnvæn máltíð sem hittir í mark hjá öllum aldurshópum.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Tómatsúpa með pasta (uppskrift fyrir 3-4)

 • 2 dl ósoðið pasta
 • 1 dós Hunt´s hakkaðir tómatar með basiliku, hvítlauk og oreganó (411 g)
 • 1 ½ dl vatn
 •  ½ laukur, hakkaður
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 ½ tsk þurrkuð basilika
 • 1 tsk sykur
 • salt og pipar

Sjóðið pastað í vel söltu vatni (verið óhrædd við að nánast missa saltstaukinn í vatnið) og skolið síðan í köldu vatni.

Hakkið og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er orðinn mjúkur en ekki farin að brúnast. Bætið öllum öðrum hráefnum fyrir utan pastað saman við og látið sjóða í 10 mínútur. Smakkið til og bætið pastanu í súpuna. Berið fram með ferskrifnum parmesan og góðu brauði.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Kjötbollur með mozzarella og basilikuEftir bolludag og sprengidag í beinu framhaldi mætti kannski ætla að enginn hefði áhuga á bollum í neinu formi á næstunni en ég þori nánast að fullyrða að þessar kjötbollur fá ykkur til að skipta um skoðun. Þær eru guðdómlegar! Ég hef bæði boðið upp á þær í matarboði sem og lífgað upp á hversdagsleikann með þeim, alltaf við rífandi lukku. Með þessum verður enginn fyrir vonbrigðum!

Kjötbollur með mozzarella og basilikuKjötbollur með mozzarella og basilikuKjötbollur með mozzarella og basiliku

Kjötbollur með mozzarella og basiliku (uppskrift frá Matplatsen)

 • 600 g nautahakk eða blanda af nauta- og svínahakki
 • 1 poki með mozzarella
 • 1/2 pakkning fersk basilika
 • 4 sólþurrkaðir tómatar
 • 1 dl rjómi
 • 1 egg
 • salt og pipar
 • smör til að steikja í

Sósa:

 • steikingarsoð
 • 2 dl rjómi
 • 100 g philadelphiaostur
 • 1/2 grænmetisteningur

Blandið hakki, eggi, rjóma, hakkaðri basiliku, hökkuðum sólþurrkuðum tómötum og mozzarella skornum í litla teninga. Saltið og piprið og mótið bollur.

Steikið bollurnar við miðlungsháan hita, í nokkrar mínútur og á öllum hliðum, í vel af smjöri. Takið bollurnar af pönnunni og hrærið rjóma, philadelphia og grænmetisteningi í steikingarsoðið. Látið suðuna koma upp og leggið síðan bollurnar í sósuna. Látið sjóða við vægan hita þar til bollurnar eru fulleldaðar. Verði sósan of þykk þá er hún þynnt með vatni.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

 

Vikumatseðill

VikumatseðillEnn ein vikan að baki og tímabært að plana þá næstu. Mér líst vel á að hafa komandi viku einfalda og elda stóran skammt af chili con carne sem nýtist í tvær og jafnvel þrjár máltíðir. Þessi uppskrift er stórgóð og fer alltaf vel í mannskapinn hér heima. Kasjúhnetukjúklinginn er upplagt að hafa á föstudagskvöldi þar sem það tekur enga stund að reiða þann dásamlega rétt fram. Möndlukökunni fæ ég ekki leið á og mun hún fara stórvel með helgarkaffinu.

Eigið góða viku kæru lesendur ♥

Vikumatseðill

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Mánudagur: Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Chili con carne

Þriðjudagur: Chili con carne

Chili con carneChili con carne

Miðvikudagur: Afgangur af chili con carne, annað hvort settur í tortillur með gómsætu meðlæti eða á pizzu.

Sveppasúpa

Fimmtudagur: Sveppasúpa og brauð

Kasjúhnetukjúklingur

Föstudagur: Kasjúhnetukjúklingur

möndlukaka

Með helgarkaffinu: Möndlukaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

M&M kökulengjur

M&M kökulengjurStundum velti ég því fyrir mér hvort það sé nokkuð notalegra en nýbakaðar kökur og köld mjólk á kvöldin. Þegar amstri dagsins er lokið og ró komin yfir, að setjast þá niður með krökkunum og spjalla um daginn og veginn á meðan mumsað er á nýbökuðu góðgæti.

M&M kökulengjur

Ég nýt þess svo að eiga þessar stundir og læt mér fátt um finnast hvaða vikudagur er. Það breytir engu. Þegar kvöldmaturinn hefur verið einfaldur þá er svo lítið mál að baka einn umgang af svona kökum, það tekur enga stund.

M&M kökulengjur

Þessar M&M kökulengjur hurfu á augabragði ofan í krakkana og ég hafði fullan skilning á því. Þær eru gjörsamlega ómótstæðilegar, hvort sem er með kaffinu eða köldu mjólkurglasi. Stökkar að utan, seigar að innan og stökkir M&M bitar þess á milli… dásemdin ein!

M&M kökulengjur

M&M kökulengjur (um 30 stykki)

 • 125 g smjör við stofuhita
 • 1 ½ dl sykur
 • 1 ½ dl púðursykur
 • 1 egg
 • 1 msk vanillusykur
 • ½ tsk matarsódi
 • smá salt
 • 3 dl hveiti
 • um 1 dl M&M smartís

Hitið ofninn í 180°. Blandið saman smjöri, sykri, púðursykri, eggi, vanilusykri, matarsóda og salti. Bætið hveitinu saman við og hrærið snögglega saman í deig. Skiptið deiginu í tvennt (eða fernt fyrir minni lengjur), rúllið því út í lengjur og leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír (passið að hafa gott bil á milli því þær renna út). Þrýstið lengjunum aðeins út og dreifið M&M yfir þær. Bakið í 15-18 mínútur (styttið bökunartíman örlítið ef þið gerið fjórar lengjur). Skáskerið lengjurnar í sneiðar þegar þær koma úr ofninum (á meðan þær eru heitar) og látið síðan kólna.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP