Hægeldað nautachilli

Hægeldað nautachilliNú er löng helgi framundan og eflaust einhverjir farnir að huga að matseðli helgarinnar. Um daginn eldaði ég nautachillirétt sem okkur þótti æðislegur og ég má því til með að stinga upp á honum sem helgarmatnum. Rétturinn þarf sinn tíma á pönnunni og því upplagt að nýta frídag í eldamennskuna. Þetta er kjörinn réttur fyrir saumaklúbbinn eða matarboð því hann verður bara betri eftir að hafa staðið í ísskáp í nokkra daga. Mér þykir oft þægilegt að geta unnið á undan mér þegar ég á von á gestum.

Hægeldað nautachilli

Ég bar réttinn fram með tortillum, guacamole (ég kaupi tilbúið ferskt guacamole í Hagkaup), sýrðum rjóma, pækluðum rauðlauk og nachos. Ekki skemmir fyrir að bjóða upp á kaldan Corona bjór með. Súpergott!

Hægeldað nautachilli

Hægeldað nautachilli

 • 1,2 kg nautakjöt
 • 1 tsk salt
 • 150 g beikon
 • 2-3 msk ólívuolía
 • 1 laukur, fínhakkaður
 • 2 chili, fínhökkuð
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 400 g hakkaðir tómatar í dós (1 dós)
 • 1 msk limesafi
 • 4 dl vatn
 • 1 msk maizenamjöl + vatn
 • salt og pipar

Kryddblanda

 • 1 msk chilikrydd
 • 2 tsk cumin
 • 1 tsk oreganó
 • 0,5 dl vatn

Skerið mestu fituna af nautakjötinu og skerið kjötið síðan í 3 cm þykka bita. Saltið með 1 tsk af salti og blandið saman í skál. Leggið til hliðar.

Blandið kryddum í kryddblöndunni saman og leggið til hliðar.

Steikið beikonið á djúpri pönnu á miðlungsháum hita þar til það verður stökkt. Takið beikonið af pönnunni og leggið til hliðar. Setjið beikonsteikingarfituna í skál og geymið.

Steikið kjötið í skömmtum í blöndu af beikonsteikingarfitu og ólívuolíu. Steikið þar á eftir fínhakkaðan laukinn. Bætið hökkuðu chili og hvítlauk á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur til viðbótar. Bætið þá kryddblöndunni á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur.

Bætið nautakjöti, hökkuðum tómötum, limesafa og vatni á pönnuna. Setjið lok yfir og látið chiliréttinn sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir. Bætið beikoni saman við undir lokin og látið sjóða með síðustu 5 mínúturnar.  Blandið maizenamjöli og smá vatni saman í skál og hrærið saman við chiliréttinn. Látið sjóða aðeins áfram, rétturinn mun þykkna við þetta. Smakkið til með salti og pipar. Berið strax fram eða látið réttinn standa í ísskáp í 2-3 daga – hann verður bara betri við það!

Hægeldað nautachilli

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í HAGKAUP

 

Vikumatseðill

VikumatseðillÞessar vikur bjóða upp á hvern aukafrídaginn á fætur öðrum og fjögurra daga vinnuvikur fara að vera hversdagslegar. Þvílíkur lúxus! Ég sé fram á rólega viku og bind miklar vonir við að veðrið verði til friðs og hægt verði að viðra sig á milli máltíða. Matseðill vikunnar er einfaldur og góður. Ég vona að vikan verði það líka ♥

Vikumatseðill

Ítalskur lax með fetaostasósu

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Innbakað nautahakk

Þriðjudagur: Innbakað nautahakk

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Miðvikudagur: Tómatsúpa

Einfaldur kvöldverður og dásamlegur eftirréttur

Fimmtudagur: Þunnbrauðsvefja með pylsum og kartöflumús

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Föstudagur: Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Skúffukaka með karamellukremi

Með helgarkaffinu: Skúffukaka með karamellukremi

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Pannacotta með hindberjasýrópi

Pannacotta með hindberjasýrópiSólin skín, það er laugardagur og í dag fæ ég manneskju sem ég hef saknað heim eftir 9 daga fjarveru. Ég fæ fiðring í magann við tilhugsunina…

Pannacotta með hindberjasýrópi

Í kvöld ætla ég að elda marbella kjúkling handa okkur og gera einhvern góðan eftirrétt. Mig langar mest í pannacotta og ætla að fletta uppskriftabókunum í von um að finna það sem ég hef í huga. Um daginn gerði ég pannacotta með hindberjasýrópi sem var æðislegt og verður jafnvel aftur fyrir valinu í kvöld. Frábær eftirréttur sem hægt er að gera tilbúinn áður en gestirnir koma og mun vafalaust vekja lukku.

Pannacotta með hindberjasýrópi

Pannacotta með hindberjasýrópi (fyrir 4) – uppskrift frá Matplatsen

 • 5 dl rjómi
 • 1 vanillustöng
 • ½ dl sykur
 • 2 matarlímsblöð

Hindberjasýróp

 • 200 g frosin hindber
 • 1 dl sykur
 • 1 heilt stjörnuanis

Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn. Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið úr henni í pott. Fínhakkið stöngina og látið hana líka í pottinn. Hellið rjóma og sykri yfir og hrærið saman. Hitið upp að suðu og látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Takið matarlímsblöðin úr vatninu, kreistið mesta vatnið frá og setjið þau í pottinn. Hrærið varlega í pottinum þar til matarlímsblöðin hafa bráðnað. Setjið pannacottað í 4 skálar og kælið í að minnsta kosti 3 klst.

Gerið sýrópið á meðan pannacottað stífnar í ísskápnum. Bræðið sykur í potti við vægan hita. Passið vel að hann brenni ekki og reynið að hræra sem minnst í honum. Þegar sykurinn hefur bráðnað nánast að fullu er frosnum hindberjum og stjörnuanis bætt saman við og hrært vel í. Frosin hindberin valda því að sykurinn harðnar aftur en hann mun bráðna fljótlega. Látið sýrópið sjóða í um 10 mínútur. Látið það kólna aðeins og látið það síðan renna í gegnum sigti til að fá hreint rautt sýróp án kjarna.

Hellið þunnu lagi af sýrópinu yfir pannacottað og skreytið ef til vill með berjum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Bernaise sósa

Bernaise sósaNú fer vonandi tími grillkvölda að renna upp og hann er svo kærkominn. Það jafnast fátt á við góða grillsteik á sumarkvöldum. Mér þykir meðlætið ekki minna mikilvægt en kjötbitinn og góð sósa getur hreinlega fullkomnað máltíðina.

Bernaise sósa

Ég elska bernaise sósu og þessi uppskrift er mín uppáhalds. Hún er himnesk! Uppskriftina fann ég á heimasíðu Hagkaups og hún kemur upphaflega frá Rikku. Ég mæli með að þið prófið, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!
 BERNAISE SÓSA
 • 350 g smjör
 • 4 eggjarauður
 • 2 msk hvítvínsedik
 • 1/2 msk sterkt sinnep
 • karrý á hnífsoddi
 • cayenne pipar á hnífsoddi
 • 1/4 nautakraftskubbur
 • 1/2 msk þurrkað estragon
 • Sjávarsalt og nýmalaður pipar
Bræðið smjörið í potti við vægan hita. Setjið eggjarauðurnar í pott ásamt ediki, sinnepi, karrý og cayenne pipar og þeytið vel yfir vatnsbaði þar til að blandan verður ljós og létt. Gætið þess að eggjarauðurnar hlaupi ekki. Leggið pottinn á vinnuborðið og hellið smjörinu smám saman við og hrærið vel á milli. Þegar 1/3 af smjörinu er kominn saman við blönduna er kjötkraftskubbi og estragoni bætt við og síðan haldið áfram að bæta smjörinu smám saman við þar til að það er uppurið. Kryddið til með salti og pipar.
Bernaise sósaBernaise sósa
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Massarína með súkkulaði

Massarína með súkkulaðiÍ gær komu strákarnir heim frá Kaupmannahöfn og það var betra en orð fá lýst. Það sem við höfum saknað þeirra! Það fylgir þeim svo mikið líf og gleði. Þeir voru alsælir með ferðina og komu færandi hendi, bæði með gjafir til allra og bestu flodeboller (rjómabollur? krembollur? Ég er ekki viss…) í heimi. Þeir kunna þetta bræðurnir!Massarína með súkkulaði

Ég var búin að lofa þeim vöfflukaffi við heimkomuna en ákvað að gera betur og skellti líka í köku sem ég hef verið að bíða eftir tækifæri til að prófa. Massarína með súkkulaðibitum. Ég veit nú ekki alveg hvað gerðist því súkkulaðibitarnir sukku allir á botninn á kökunni en það kom ekki að sök, hún var dásamlega góð.

Massarína með súkkulaði

Massarína með súkkulaði

 • 200 g marsípan
 • 200 g sykur
 • 200 g smjör
 • 4 egg
 • 120 hveiti
 • 150 suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 180°.

Rífið marsípanið gróft og hrærið því saman við sykurinn. Bræðið smjörið og hrærið því saman við marsípan/sykurblönduna þar til blandan myndar jafnan massa. Hrærið eggjunum saman við, einu í einu. Hrærið hveitinu saman við og að lokum hökkuðu súkkulaði. Setjið deigið í 22 cm form  og bakið í um 35 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Sænskar pönnukökur

Sænskar pönnukökurÉg hef alltaf verið ferlega klaufsk þegar kemur að íslenskum pönnukökum og hef satt að segja aldrei komist upp á lagið með að steikja þær þunnar og fallegar. Framan af kenndi ég pönnukökupönnunni um en eftir að tengdamamma mín steikti fullkomnar pönnukökur trekk í trekk á henni neyddist ég til að horfast í augu við að klaufaskapinn yrði ég að skrifa á mig.

Sænskar pönnukökurÞað er mér til happs að okkur þykja sænsku pönnukökurnar ekki síðri og meira að segja örlítið betri en þær íslensku. Það er nefnilega ekkert mál að steikja þær því þær eru aðeins þykkari. Ég virðist svakalega flink þegar ég sný þeim með að henda þeim í loftið og grípa aftur með pönnukökupönnunni en það er þó ástæða fyrir þeim stælum. Ég næ ómöglega að snúa þeim öðruvísi án þess að rífa þær með spaðanum! Það er svo einfalt að gera þetta svona, þegar pönnukakan er orðin laus frá pönnunni þá er tímabært að snúa henni. Þegar seinni hliðin losnar þá er pönnukakan tilbúin. Pönnukökurnar eru þá brotnar saman og bornar fram með sultu og rjóma.

Sænskar pönnukökur

Sænskar pönnukökur (uppskrift frá Kokaihop)

 • 2,5 dl hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • smá vanillusykur
 • 6 dl mjólk
 • 4 egg
 • 1 msk sýrður rjómi
 • 3 msk smjör til að steikja upp úr (ég nota mun meira)

Blandið þurrefnum saman í skál. Bætið mjólk og sýrðum rjóma saman við og hrærið vel saman. Hrærið að lokum eggjunum í blönduna. Steikið upp úr smjöri.

Sænskar pönnukökurSænskar pönnukökur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

VikumatseðillNý vika framundan og fyrsta heila vinnuvikan mín í hálfan mánuð. Ég get ekki beðið! Þessi vika verður frábrugðin öðrum að því leyti að strákarnir fara með mömmu til systur minnar í Köben á miðvikudagsmorgni og verða út vikuna. Ég mun sakna þeirra hrikalega en þeir hafa talið dagana í fleiri vikur og ráða sér varla af tilhlökkun. Í fjarveru þeirra verður fámennt við matarborðið en það má þó alltaf gera vikumatseðil og hér kemur mín tillaga.

Vikumatseðill

Steiktur fiskur í pulsubrauðiMánudagur: Steiktur fiskur í pulsubrauði

Ofnbakaðar kjötbollurÞriðjudagur: Ofnbakaðar kjötbollur

Skinku- og spergilkálsbakaMiðvikudagur: Skinku- og spergilskálsbaka

TacolasagnaFimmtudagur: Tacolasagna

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýiFöstudagur: Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Syndsamlega góðar vöfflurMeð helgarkaffinu: Vöfflur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP