Frábærar fylltar tortillur

Frábærar fylltar tortillurEins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa kannski áttað sig á þá eyddi ég helginni á Akureyri. Við keyrðum norður á fimmtudagskvöldinu og áttum yndislega helgi í góða veðrinu fyrir norðan. Föstudeginum var eytt í glampandi sól og hita og um kvöldið fórum við út að borða á Rub 23 (sushipizzan þar er orðin ómissandi í Akureyrarferðum). Á laugardeginum keyrðum við á Húsavík, í Ásbyrgi og á Dettifoss og enduðum á að sækja okkur tælenskan þegar við komum aftur á Akureyri. Á sunnudeginum keyrðum við heim og mér leið eins og ég væri að koma úr sumarfríi, svo afslappandi hafði helgin verið.

Frábærar fylltar tortillur

Þar sem við lögðum af stað í seinna fallinu á fimmtudeginum þá vorum við búin að kaupa osta, pestó, baquette, gott álegg, rauðvín og fleira góðgæti til að gæða okkur á þegar við komum norður. Í gærkvöldi nýttum við það sem eftir var af góðgætinu í tortillur sem fengu að fara á grillið þar til þær voru heitar í gegn og osturinn var bráðnaður. Við áttum rauðvínstár sem við fengum okkur með og úr varð heljarinnar veisla.

Frábærar fylltar tortillur

Þessar fylltu tortillur eru frábærar sem léttur hádegis- eða kvöldverður með salati en passa líka vel í saumaklúbbinn, sem smáréttur eða forréttur. Það má leika sér endalaust með fyllinguna og það er t.d. sniðugt að setja líka ruccola eða spínat í þær. Mér þykir passa vel að bera þær fram með sýrðum rjóma með graslauk og lauki.

Frábærar fylltar tortillur

Fylltar tortillur

 • tortilla pönnukökur
 • Philadelphia rjómaostur
 • Filippo Berio pestó
 • hráskinka og/eða salami
 • rauð paprika, skorin fínt
 • rauðlaukur, skorinn fínt
 • hunang
 • furuhnetur
 • tamarin sósa (má sleppa)
 • ostur, t.d. hvítmygluostur, fetaostur eða mozzarella
 • hvítlauksolía (eða önnur olía)

Þurrristið furuhneturnar á pönnu. Þegar þær eru farnar að fá gylltan lit eru þær tilbúnar (passið að þær brenni ekki). Mér þykir gott að hella smá tamarin sósu yfir undir lokin og láta hana sjóða inn í hneturnar. Fyrir 1 poka (ca 70 g) af furuhnetum er passlegt að nota 1 msk af tamarin sósu.

Smyrjið tortillupönukökurnar með rjómaosti. Smyrjið síðan pestó yfir hálfa tortilluna og raðið síðan hráskinku, papriku og rauðlauki yfir. Sáldrið smá hunangi yfir. Setjið ristaðar furunhetur yfir og nokkrar ostsneiðar. Klemmið vel saman og penslið með hvítlauksolíu. Grillið á báðum hliðum þar til osturinn er bráðnaður.

Frábærar fylltar tortillurFrábærar fylltar tortillurFrábærar fylltar tortillurFrábærar fylltar tortillurFrábærar fylltar tortillurFrábærar fylltar tortillurFrábærar fylltar tortillurFrábærar fylltar tortillur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Grillaður ananas með vanilluís og dásamlegri súkkulaðisósu

Grillaður ananas með vanilluís og dásamlegri súkkulaðisósuÞað virðist fylgja sumrinu að ískaup aukast á heimilinu og veðrið virðist ekki hafa nein áhrif á það. Það er bara eitthvað svo ferskt og svalandi við ísskál eftir matinn eða yfir sjónvarpinu. Ég hef áður gefið uppskrift af súkkulaðisósu sem er æðisleg með ís (þú finnur hana hér) en þessi er einfaldari, með færri hráefnum og svo sannarlega ekki síðri. Grillaður ananas með vanilluís og dásamlegri súkkulaðisósuÞetta er ekki flókið enda er það einfalda oft það besta. Ferskur ananas er skorinn í sneiðar og grillaður. Nusco heslihnetu- og súkkulaðismjör er hitað í potti með nokkrum matskeiðum af rjóma eða mjólk (ég nota bara það sem ég á að hverju sinni) og síðan er veislan fullkomuð með góðum ís. Það verður enginn svikinn af þessu!Grillaður ananas með vanilluís og dásamlegri súkkulaðisósuGrillaður ananas með vanilluís og dásamlegri súkkulaðisósuGrillaður ananas með vanilluís og dásamlegri súkkulaðisósu

 • ferskur ananas
 • góður ís
 • 1/2 krukka Nusco heslihnetu- og súkkulaðismjör
 • nokkrar matskeiðar rjómi eða mjólk

Skerið ananasinn í sneiðar og grillið á báðum hliðum. Hitið Nusco heslihnetu- og súkkulaðismjör í potti með nokkrum matskeiðum af rjóma eða mjólk, þar til réttri þykkt er náð. Berið grillaðan ananasinn fram með góðum ís og heitri súkkulaðisósunni.

grillaðurananas14

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Grilluð Tandoori lambalund með salati, nanbrauði og raita

Grilluð Tandoori lambalund með salati og raita

Eftir nánast grilllaust sumar í fyrra, þar sem gamla grillið söng sitt síðasta bæði hvað varðar gæði og útlit (undir lokin leit það út eins og klippt úr hryllingsmynd), tók ég fagnandi á móti góða veðrinu í gær með spánýju grilli sem mér þykir svo fínt að ég tími varla að nota það. Það er stórt, fallegt og dásamlegt í alla staði. Best af öllu er þó að nú get ég notið grillmats aftur án þess að eiga þá hættu að heilbrigðisyfirvöld banki upp á. Algjör lúxus!Grilluð Tandoori lambalund með salati og raita

Það var frábært grillveður og því upplagt að prófa nýja grillið. Það vildi svo heppilega til að mamma fékk sér göngutúr til okkar fyrr um daginn og kom færandi hendi, með lambalundir. Það var því nokkuð borðleggjandi að setja þær á grillið. Þar sem við fórum fullseint að huga að kvöldverðinum ákváðum við að gera einfalda marineringu og setja lundirnar í salat.Grilluð Tandoori lambalund með salati og raita

Á grillið fór líka grænmeti og keypt nan brauð og herlegheitin voru síðan borin fram með raita sósu. Þetta var æðisleg máltíð! Við gátum ekki hætt að dásama hana og borðuðum á okkur gat.Grilluð Tandoori lambalund með salati og raita

Mér var bent á það fyrir nokkru að nota PAM sprey á grillið til að maturinn festist síður við það. Það hefur virkað stórvel og því gef ég þessa grillábendingu áfram til ykkar. Vonandi fáum við nú gott grillsumar!

tandoori11

Grilluð Tandoori lambalund með salati

 • ½ dl Tandoori spice marinade frá Patak´s
 • 3 msk hrein jógúrt
 • 350 g lambalundir
 • 1 rauð paprika
 • 1 gul paprika
 • 1 rauðlaukur
 • spínat
 • kirsuberjatómatar

Hrærið saman Tandoori spice marinade og hreinni jógúrt. Leggið lambakjötið í marineringuna og látið standa í 30 mínútur. Takið kjötið úr marineringunni og grillið, penslið kjötið með marineringunni sem varð eftir þegar þið snúið kjötinu.

Skerið paprikur og rauðlauk gróft og grillið (endilega leikið ykkur með þetta og notið það grænmeti sem þið eruð í stuði fyrir).

Setjið spínat í skál. Dreifið grilluðu grænmeti yfir ásamt kirsuberjatómötum. Skerið lambakjötið i sneiðar og setjið yfir salatið. Skreytið með myntu og raita sósu.

Grilluð Tandoori lambalund með salati og raitaGrilluð Tandoori lambalund með salati og raitaGrilluð Tandoori lambalund með salati og raita

Raita (uppskrift frá Ree Drummond)

 • 1 stór gúrka
 • 2 bollar hrein jógúrt
 • 3/4 tsk cumin
 • 1/4 tsk mulið kóriander (krydd, ekki ferskt)
 • 1/8 tsk cayenne
 • safi úr 1 sítrónu
 • salt og pipar
 • 1/4 bolli hökkuð fersk mynta

Skerið gúrkuna í tvennt, eftir henni endilangri. Notið skeið til að skrapa kjarnann úr og rífið síðan gúrkuna með rifjárni. Setjið rifna gúrkuna í eldhúspappír og kreistið safann frá.

Hærið saman í skál jógúrt, cumin, kóriander, cayenne, sítrónusafa, salt og pipar. Bætið gúrkunni saman við og hrærið saman. Bætið þá myntunni saman við og hrærið. Smakkið til. Setjið plast yfir skálina og látið standa í ísskáp þar til sósan skal borin fram. Best er að útbúa sósuna nokkrum tímum áður.

Meðlæti: 

 • Nan brauð frá Patak´s

Penslið brauðið með vatni og grillið í 1 mínútu á hvorri hlið.

Grilluð Tandoori lambalund með salati og raita

Allt hráefni í þessar uppskriftir fæst í

HAGKAUP

Kaldhefaðir kanilsnúðar

Kaldhefaðir kanilsnúðarÞegar Malín átti afmæli í byrjun maí vöktum við hana, líkt og hefðin gerir ráð fyrir, með afmælissöng og morgunverði í rúmið. Það beið síðan eitt og annað á morgunverðarborðinu frammi en allra vinsælastir voru nýbökuðu kanilsnúðar sem höfðu fengið að hefast í ísskáp yfir nóttina.

Kaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðar

Þetta er algjör lúxusuppskrift því það þarf ekkert annað að gera um morguninn en að setja ofnskúffuna inn í heitan bakaraofninn og bíða eftir að bökunarlyktin fylli húsið. Hálftíma síðar eru nýbakaðir kanilsnúðar komnir á borðið sem þú getur annað hvort smurt með Nutella, gert glassúr eða einfaldlega sigtað flórsykur yfir áður en þeir eru bornir fram. Dásamlega ljúffengt!Kaldhefaðir kanilsnúðar

Kaldhefaðir kanilsnúðar – örlítið breytt uppskrift frá Bakverk och fikastunder

 • 25 g ferskt ger
 • 2 dl köld mjólk
 • 1 egg
 • 0,5 dl sykur
 • smá salt
 • um 6 dl hveiti
 • 75 g smjör við stofuhita
 • egg (til að pensla snúðana með)

Leysið gerið upp í mjólkinni og látið blandast vel. Hrærið upp eggið og hrærið því út í gerblönduna. Hrærið sykri og salti saman við. Hrærið um 4 dl af hveiti saman við, bætið smjörinu út í og síðan restinni af hveitinu. Hnoðið deigið þar til það er jafnt og kekkjalaust. Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni (uppskrift hér fyrir neðan) yfir. Rúllið deiginu upp og skerið í 15 sneiðar. Klæðið skúffukökuform (um 22×32 cm) með bökunarpappír og raðið snúðunum í það. Leggið viskastykki yfir og látið standa í ísskáp yfir nóttu. Takið úr ísskápnum um morguninn, penslið snúðana með upphrærðu eggi (hér má líka strá perlusykri yfir) og bakið í 200° heitum ofni í 22-25 mínútur.

Fylling

 • 150 g smjör við stofuhita
 • 3 msk kanil
 • 1,5 dl sykur

Hrærið öllu saman.

Kaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðar

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Kjúklinganaggar

KjúklinganaggarMér hefur alltaf þótt kjúklinganaggar vera hálfgerður krakkamatur. Þeir eru á barnamatseðlum, bornir fram með tómatsósu og frönskum kartöflum og krakkarnir elska þá. Mér þykja þeir mjög góðir en þeir eru þó sjaldan mitt fyrsta val þegar kemur að kvöldmat. Um daginn rakst ég síðan á uppskrift af kjúklinganöggum á Pinterest sem ég ákvað að gera fyrir krakkana. Maður er jú alltaf að reyna að slá í gegn hjá þeim. Uppskriftinni breytti ég lítillega og skrifaði hana hjá mér, sem betur ferð því þeir heppnuðust frábærlega. Krakkarnir elskuðu naggana og við fullorðna fólkið líka. Frábær föstudagsmatur sem hægt er að bera fram með frönskum, salati, í tortillavefjum… möguleikarnir eru endalausir!

Kjúklinganaggar

Kjúklinganaggar

 • 1/2 bolli bragðdauf olía
 • 900 g kjúklingabringur, skornar í bita
 • salt og pipar
 • 5 dl panko (japanskur brauðraspur, ýmist í sömu hillu og venjulegur raspur eða í asísku deildinni)
 • 1 ½ dl ferskrifinn parmesan
 • 2 tsk hvítlaukskrydd
 • 1 tsk reykt paprikukrydd
 • 3 dl hveiti
 • 3 egg, hrærð

Hitið olíuna við miðlungsháan hita í djúpri pönnu. Kryddið kjúklingabitana með salti og pipar. Blandið saman panko, parmesan, hvítlaukskryddi, reyktu paprikukryddi, salti og pipar. Leggið til hliðar. Setjið hveiti í skál og leggið til hliðar. Hrærið egg í skál og leggið til hliðar. Veltið nú kjúklingabitunum fyrst upp úr hveiti, dýfið þeim síðan í eggjahræruna og veltið svo upp úr pankoblöndunni. Setjið kjúklingabitana þar eftir á pönnuna, 5-6 bita í einu, og djúpsteikið þar til gylltir og stökkir (tekur um 3-4 mínútur). Þegar kjúklingabitarnir eru teknir upp úr olíunni eru þeir lagðir á eldhúspappír. Berið strax fram.

KjúklinganaggarKjúklinganaggarKjúklinganaggarKjúklinganaggar

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Einfalt hvítlauksbrauð

Einfalt hvítlauksbrauð

Ég hef eflaust sagt frá því áður að ég er áskrifandi af Bon Appétit. Áskriftin hefur vissulega veitt mér margar ánægjustundir en einhverja hluta vegna hef ég ekki verið nógu duglega að nýta mér uppskriftirnar. Það var svo um daginn að ég var með pastarétt í matinn og mundi þá eftir að ég hafði séð spennandi uppskrift af hvítlauksbrauði kvöldið áður í Bon Appétit blaði. Þetta er hálfgerð svindluppskrift því brauðið er keypt tilbúið og poppað upp með parmesan, kryddjurtum og smjörsteiktum hvítlauki. Himnesk blanda!

Einfalt hvítlauksbrauðEinfalt hvítlauksbrauðEinfalt hvítlauksbrauðEinfalt hvítlauksbrauðEinfalt hvítlauksbrauð – uppskrift úr Bon Appétit

 • 1 heill hvítlaukur
 • 1/2 bolli ósaltað smjör
 • 1 bolli rifin parmesan ostur
 • 2 tsk hakkað oregano
 • 1 tsk rifið sítrónuhýði
 • 1/2 tsk rauðar piparflögur (crushed red pepper flakes)
 • salt
 • Baquette

Bræðið smjörið í potti og bætið hvítlauksrifunum heilum en afhýddum í pottinn. Látið sjóða við miðlungsháan hita þar til hvítlaukurinn hefur fengið gylltan lit og mjúka áferð, það tekur um 15-20 mínútur. Passið að hafa hitann ekki of háan. Setjið hvítlaukinn ásamt smjörinu í skál og látið kólna.

Bætið parmesan, oregano, sítrónuhýði og piparflögum í skálina með hvítlauknum/smjörinu og stappið saman í mauk. Smakkið til með salti.

Hitið grillið á bökunarofninum. Skerið baguetta í tvennt eftir því endilöngu og síðan í þvert (þannig að það sé í passlegri stærð fyrir hvern og einn). Setjið álpappír á bökunarplötu og raðið baguette sniðunum á plötuna með sárið niður (skorpuna upp). Setjið í ofninn í um 2 mínútur, eða þar til skorpan hefur fengið gylltan lit. Takið úr ofninum og látið kólna aðeins. Snúið brauðinu þá við, smyrjið hvítlauksmaukinu yfir og setjið aftur í ofninn þar til osturinn er gyllur, um 2 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Nautahakks og makkarónupanna

Nautahakks og makkarónupannaMér þykir þessi vorönn hafa liðið svakalega hratt og nú er síðasta skólavikan fyrir sumarfrí runnin upp hjá strákunum. Eins og oft vill verða í lok annar (og í lífinu almennt!) þá er í nógu að snúast og kannski ekki alltaf tími til að standa yfir pottunum. Þá er gott að geta gripið til einfaldra uppskrifta og ekki skemmir fyrir þegar hún er svona góð. Krakkar elska þennan mat og á meðan ég kýs að raspa parmesan yfir diskinn minn vilja krakkarnir bara tómatsósu. Einföld, ódýr og stórgóð máltíð!

Nautahakks og makkarónupanna

Nautahakks- og makkarónupanna (uppskrift fyrir 4-5)

 • 1 laukur, hakkaður
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 msk ólívuolía
 • 500 g nautahakk
 • 2 dósir (samtals 800 g) hakkaðir tómatar
 • 1 dós (400 ml) vatn
 • 225 g makkarónur, óeldaðar
 • salt og pipar
 • parmesan til að rífa yfir (má sleppa)

Steikið lauk og hvítlauk í ólívuolíu við vægan hita þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar. Brúnið nautahakkið,  hellið vökvanum frá og kryddið hakkið eftir smekk. Bætið tómötum, vatni (notið aðra tómatdósina til að mæla vatnið), hráar makkarónur, salt, pipar, lauk- og hvítlauksblönduna og grænmetistening á pönnuna og látið sjóða í 15-20 mínútur, eða þar til makkarónurnar eru mjúkar. Berið fram með góðu brauði og/eða salati. Í þetta sinn voru það kirsuberjatómatar sem fengu að skreyta réttinn hjá mér.

Nautahakks og makkarónupanna

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP