Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Í gærkvöldi kom ég í seint heim og þá hentaði ósköp vel að eiga hráefni í einfaldasta og fljótgerðasta pastarétt sem ég veit um. Kvöldmaturinn var kominn á borðið á innan við 15 mínútum eftir að ég kom heim og var svo dásamlega góður.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Ég nota ferskt tortellini í þennan rétt, það þarf að sjóða í 1 mínútu og er mjög gott. Salvíusmjörið tekur nokkrar mínútur að útbúa og þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með hvítlauksbrauði ásamt vel af parmesan og smá rauðu í glasinu. Dásemdar veislumatur!

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri (uppskrift fyrir 2)

 • 50 g smjör
 • 10 fersk salvíublöð
 • 1½  msk hunang
 • 2 msk balsamik edik
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn
 • parmesan
 • Ferkst tortellini, gjarnan með ostafyllingu eða skinku- og ostafyllingu

Bræðið smjörið í potti (eða á lítilli pönnu) og bætið salvíublöðunum í. Látið malla við miðlungsháan hita þar til smjörið hefur brúnast. Bætið hunangi og balsamik ediki saman við og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Blandið sósunni saman við nýsoðið tortellini og stráið ríkulega af rifnum parmesan yfir.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér hefur smjörið verið brætt og salvíu bætt á pönnuna

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér er smjörið tekið að brúnast

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Hér hefur hunangi og balsamik edik verið bætt saman við. Tilbúið!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Boeuf bourguignon

Boeuf bourguignon

Ég furða mig stundum á því hvað ég get látið mig dreyma um hluti í langan tíma án þess að fjárfesta í þeim. Ég veit til dæmis ekki hvað mig hefur lengi langað í góðan steypujárnspott og hversu oft ég hef skoðað þá, án þess að kaupa mér slíkan. Ég á einn fínan úr Ikea en hann er full lítill og mig hefur langað í stærri pott. Pott sem ég get eldað kvöldmat fyrir fjölskylduna í.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Að því sögðu get ég nú glöð sagt frá að það flutti nýr steypujárnspottur inn í eldhúsið mitt á dögunum. Hann er æðislegur! Frábært að elda í honum og fallegur á borði. Fyrir valinu varð pottur frá Pyrex, en þeir voru þróaðir í samstarfi við NASA og þola frá -40°upp í 800°hita! Pottarnir eru að fá svo frábæra dóma og eftir að ég rakst á þá í Hagkaup fannst mér spennandi að slá til. Þeir eru frábærir til að hægelda mat en einnig til að baka ofnbrauð, eins og t.d. New York times-brauðið góða.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Fyrsti rétturinn sem ég eldaði í pottinum langþráða var boeuf bourguignon, sem fékk að hægeldast yfir daginn og almáttugur minn eini hvað rétturinn var góður. Ég bar réttinn bara fram með heimagerðri kartöflumús enda þurfti ekki meira meðlæti. Kjötið bráðnaði í munni og sósan var dásamlega bragðgóð.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Boeuf bourguignon – uppskrift fyrir 6

 • 1 kg nautahnakki
 • 200 g beikon
 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 4 dl rauðvín
 • 2 msk tómatpúrra
 • 2 nautateningar
 • vatn (ca 6 dl, eða eins og þarf til að rétt fljóta yfir kjötið)
 • 10 sveppir
 • 5 perlulaukar
 • ólífuolía og smjör
 • salt og pipar
 • 2 lárviðarlauf
 • 1/2 tsk timjan
 • steinselja
Skerið kjötið í passlega stóra grýtubita og skerið beikonið í strimla. Hakkið laukinn. Bræðið smjör og olíu á pönnu við háan hita og steikið nautakjötið og laukinn, gjarnan í nokkrum skömmtum svo að kjötið brúnist vel. Saltið og piprið kjötið vel. Færið yfir í steypujárnspott og bætið vatni, rauðvíni, nautakraftsteningum, tómatpúrru og pressuðum hvítlauk í pottinn. Látið pottinn yfir miðlungsháan hita (sirka stilling 3-4 af 9). Steikið núna beikonið á pönnunni sem kjötið var á og bætið því svo í pottinn, sem ætti núna að vera byrjaður að sjóða vægt. Bætið timjan og lárviðarlaufi í pottinn og leyfið nú að sjóða í amk 1-2 klst en því lengur því betra (ég lét réttinn sjóða við mjög vægan hita allan daginn, örugglega hátt í 6 klst). Rétt áður en rétturinn er borinn fram eru sveppirnir skornir í fernt ásamt perlulauknum, steikt í vel af smjöri og síðan bætt í pottinn og látið liggja þar í smá stund. Áður en rétturinn er borinn á borð er hakkaðri ferskri steinselju stráð yfir.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Það voru blandaðar tilfinningar yfir að vakna við hvíta jörð í morgun. Gleði yfir að það styttist í skíðatímabilið og jólin en minni gleði yfir að það styttist í að skafa bílinn á morgnanna og þyngri morgunumferð en hefur verið. Ég ætla þó ekki að hugsa um það núna heldur njóta dagsins, fara í góða göngu í fyrsta snjónum þennan veturinn og fá mér heitt súkkulaði með miklum rjóma (það hlýtur að tilheyra svona dögum!). Dagurinn er svo fallegur að það væri synd að nýta hann ekki í útiveru. En fyrst, vikumatseðill!

Vikumatseðill

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki

Þriðjudagur: Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki

Gulrótar, tómata og kókossúpa

Miðvikudagur: Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Fimmtudagur: Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Mexíókskt kújklingalasagna

Föstudagur: Mexíkóskt kjúklingalasagna

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Með helgarkaffinu: Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Þetta hefur verið annasöm vika og ég er svo brjálæðislega fegin að það sé loksins komið föstudagskvöld. Ég er ekki með nein plön fyrir helgina en sé fyrir mér góðan svefn, göngutúr, heitt súkkulaði (elska að fara á Súfistann eftir göngur og fá mér heitt súkkulaði með miklum rjóma) og að sjálfsögðu góðan mat. Kvöldinu í kvöld ætlum við hins vegar að eyða í sjónvarpssófanum og á meðan ég bíð eftir að The voice byrji má ég til með að gefa uppskrift af pastarétti sem við gerðum um daginn og var svo góður. Ég er veik fyrir pastaréttum og eftir að ég keypti mér æðislegan parmesan fyrr í mánuðinum hef ég nýtt hvert tækifæri til að vera með rétti sem hægt er að rífa hann yfir. Þvílík veisla segi ég bara!

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum (uppskrift fyrir 3)

 • 250 g beikon
 • 150 g sveppir
 • 2 skarlottulaukar
 • 1-2 hvítlauksrif
 • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
 • 2,5 dl rjómi
 • 4 sólþurrkaðir tómatar + 3 msk af olíunni
 • salt og pipar
 • 1-2 dl af vatninu sem pastað var soðið í
 • 2 msk fínrifinn parmesan ostur

Sjóðið pasta í vel söltu vatni, samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið beikonið í bita og steikið. Hellið fitunni af pönnunni. Hakkið laukinn, hvítlaukinn og sólþurrkuðu tómatana, skerið sveppina í fernt og bætið á pönnuna. Steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið sýrðum rjóma, rjóma og olíunni frá tómötunum á pönnuna og látið sjóða í nokkrar mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Bæti smá af vatninu sem pastað var soðið í á pönnuna og sjóðið áfram í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hellunni og hrærið parmesan í sósuna. Berið fram með pasta og ferskrifnum parmesan.

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Nutellakökur

NutellakökurUm helgina bakaði ég kökur sem vöktu gífurlega lukku hér á heimilinu. Uppskriftina fann ég á sænska kökublogginu Bakverk och fikastunder en þar er hún ein vinsælasta uppskrift bloggsins. Það kemur mér ekki á óvart því kökurnar eru dásamlegar og það tekur nánast enga stund að gera þær.

Nutellakökur

Ef þið hafið meiri sjálfsaga en við þá væri eflaust himneskt að bera þær fram með þeyttum rjóma og berjum, eins og mælt er með, en við vorum of gráðug! Næst ætla ég að prófa það…

Nutellakökur

Nutellakökur (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)

 • 2 eggjahvítur
 • 2,5 dl flórsykur
 • 0,5 dl hveiti
 • 0,5 dl kakó
 • 1 tsk vanillusykur
 • 0,75 dl nutella

Hrærið eggjahvítum og flórsykri saman í um 1 mínútu. Hrærið kakó, hveiti, vanillusykri og nutella saman við. Notið tvær skeiðar til að gera 12 deigskammta á smjörpappírsklædda ofnplötu. Bakið við 175° í um 12 mínútur. Látið kökurnar kólna á ofnplötunni.

Nutellakökur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Þetta var nú meiri laugardagurinn, leiðindarveður og dagurinn nýttur í að sinna heimilisstörfum og versla inn. Æ það þýðir víst lítið að kvarta, það geta ekki alltaf verið jólin. Þvottakarfan er þó alla vega tóm, ísskápurinn fullur og heimilið hreint. Í dag ætla ég að drífa mig í göngutúr og hafa það síðan notalegt hér heima á meðan ég elda ekta haustmat, boeuf  bourguignon. En fyrst ætla ég að gefa tillögu að matseðli fyrir komandi viku.

Vikumatseðill

Fiskur með gulrótum í ljúffengri sósu

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Quiche Lorraine

Þriðjudagur: Quiche Lorraine

Pasta Alfredo

Miðvikudagur: Pasta Alfredo

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Fimmtudagur: Nautahakkschilli með cheddarskonsum

Grilluð humarpizza

Föstudagur: Grilluð humarpizza

Sænskar pönnukökur

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Í síðustu viku gerðum við okkur glaðan miðvikudag, eða öllu heldur glatt miðvikudagskvöld. Við gerum það ósjaldan, enda vikan þá rúmlega hálfnuð og því kjörið tilefni til að gera vel við sig. Ég eldaði einfaldan pastarétt, bakaði brauð og opnaði hvítvínsflösku. Þegar ég bar réttinn fram hugsaði ég með mér að þetta væri nú hálf ómerkileg máltíð en átti fljótt eftir að skipta um skoðun. Við gátum ekki hætt að borða því rétturinn var svo góður og daginn eftir börðust strákarnir um það sem eftir var.

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Til að gera góða máltíð betri má hafa í huga að það er mjög gott að bera pastaréttinn fram með nýbökuðu brauði og pestó. Það má þá jafnvel hræra smá pestói saman við pastað ef það er stemning fyrir því. Síðan er gott að eiga góðan parmesan til að rífa yfir og alls ekki spara hann. Og þar sem það fer hvítvín í réttinn er upplagt að bera hann fram með köldu hvítvínsglasi til að flaskan sé ekki opnuð til einskis…

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan (uppskrift fyrir 4-6)

 • 1 rauðlaukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 100 g salami (þunnt skorið, notið góða tegund)
 • 1 poki furuhnetur
 • 1 dl hvítvín
 • ólívuolía
 • 250 g ostafyllt ferskt ravioli (4 formaggi)
 • 150 g pasta
 • ruccola eftir smekk (2-3 góð handfylli)
 • parmesan (ekki spara hann)

Fínhakkið rauðlauk og hvítlauk og skerið salamisneiðarnar i fernt. Steikið lauk, hvítlauk, salami og furuhnetur í vel af ólívuolíu í 2 mínútur. Bætið hvítvíni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita. Sjóðið pastað. Hellið smá af pastavatninu á pönnuna og bætið síðan soðnu pastanu líka á pönnuna. Blandið öllu vel saman. Setjið pastablönduna í skál og blandið ruccola saman við. Rífið vel af parmesan yfir og berið fram, gjarnan með hvítlauksbrauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Ég hef viljandi dregið úr innkaupum á matreiðslubókum upp á síðkastið þar sem ég hef varla pláss fyrir þær lengur, en þessa bók gat ég ekki staðist. Hún lofar góðu, er falleg og kostar á við tímarit (rétt undir 2.000 kr í Hagkaup), þannig að ég held að ég hafi gert góð kaup. Í kvöld ætla ég að gefa mér tíma til að skoða hana og finna uppskrift til að prófa.

Það er æðisleg helgi að baki með tveimur góðum göngum, pönnukökukaffi hjá mömmu og matarboði með vinafólki. Þvílíkt veður sem við fengum og dásamlegt að fá smá frí frá rigningunni sem hefur herjað á í vikunni. Helgin var því endurnærandi bæði fyrir líkama og sál. Kvöldið fer að hluta til í að pakka með strákunum sem eru að fara í fermingarfræðsluferð í Vatnaskóg í fyrramálið. Síðan þarf víst líka að plana komandi viku og gera vikumatseðil!

Vikumatseðill

Fiskur með eggjasósu og beikoni

Mánudagur: Fiskur með beikoni og eggjasósu

Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Þriðjudagur: Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Pasta með púrrulauk og beikoni

Fimmtudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni

Gratinerað taco

Föstudagur: Gratinerað taco

Drømkage

Með helgarkaffinu:Drømmekage

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Mexíkóskt kjúklingalasagna

Mexíókskt kújklingalasagna

Síðasta sunnudag dustaði ég rykið af uppskrift sem var í miklu uppáhaldi hjá mér hér áður fyrr. Ég komst að því að hún hefu elst vel og er enn jafn góð og mig minnti. Alveg æðislega góð.

Mexíókskt kújklingalasagna

Hér áður fyrr notaði ég uppskriftina við hvert tækifæri sem gafst og bauð upp á réttinn í afmælisveislum, saumaklúbbum og matarboðum. Hann vakti nefnilega alltaf lukku og gerir það greinilega enn. Við vorum sjö manns í mat, allir borðuðu vel og það varð samt smá afgangur þannig að rétturinn er drjúgur. Ég bar lasagnað fram með salati, nachos (svart Doritos, uppáhald!), sýrðum rjóma og guacamole. Súpergott og frábær helgarmatur!

Mexíókskt kújklingalasagna

Mexíkóskt kjúklingalasagna (uppskrift fyrir 6-8)

 • 5-6 kjúklingabringur (þetta er ekki svo nákvæmt, einn poki af frosnum bringum er gott)
 • ½ laukur
 • 1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur
 • 1 bréf burritos kryddmix
 • 2 krukkur af salsa sósu (medium eða sterkar, jafnvel ein af hvoru)
 • ½ líter matreiðslurjómi
 • smá klípa af rjómaosti (má sleppa)
 • tortillur (1 pakki af minni gerðinni)
 • Mozzarella ostur

Skerið laukinn og paprikuna fínt og kjúklingabringurnar í litla bita. Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita (ég nota stillingu 7 af 9). Steikið laukinn og paprikuna þar til byrjar að mýkjast, bætið þá kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram. Hellið kryddinu yfir og steikið í smá stund til viðbótar. Hellið salsasósum og matreiðslurjóma yfir og látið suðuna koma upp. Hrærið rjómaosti saman við sé hann notaður. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Setjið tortillaköku í botn á eldföstu formi (það gæti þurft að klippa þær til þannig að þær passi betur). Setjið kjúklingasósuna yfir og síðan á víxl tortillakökur og kjúklingasósu. Endið á kjúklingasósunni. Stráið mozzarella osti yfir (mjög gott að nota ferskan) og inn í 180° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Mexíókskt kújklingalasagn

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Kjúklingur í ostrusósu

Kjúklingur í ostrusósu

Fyrir helgi prófaði ég uppskrift af kjúklingi í ostrusósu sem vakti heldur betur lukku hér heima. Betra en á veitingastöðum segjum við sem vorum í mat (allir nema Malín). Klárlega nýtt uppáhald og algjör bjargvættur þegar ekki gefst tími til að standa í eldhúsinu. Það tekur styttri tíma að elda réttinn en að sækja take away.

Kjúklingur í ostrusósu

Ég notaði saltaðar kajúhnetur og sleppti því að salta réttinn (kemur mjög vel út). Hneturnar bar ég fram sér þannig að hver og einn setti yfir réttinn sjálfur. Það má þó vel setja þær á pönnuna og láta þær hitna í réttinum. Ég mæli með að nota úrbeinuð kjúklingalæri, þau passa svo vel í þennan rétt. Það er t.d. hægt að kaupa þau frosin frá Rose Poultry.

Kjúklingur í ostrusósu

Kjúklingur í ostrusósu (uppskriftin passar fyrir 4-6)

 • 800 g úrbeinuð kjúklingalæri
 • 1 brokkólíhaus
 • 2 gulrætur
 • 1/2 stór púrrulaukur
 • 1 rauð paprika
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 lítil flaska af ostrusósu (ég notaði frá Blue Dragon, í henni eru 150 ml)
 • 1 ½ dl vatn
 • 3 msk púðursykur
 • salt og pipar (ef þið teljið þörf á, smakkið fyrst)
 • um 200 g kasjúhnetur (saltaðar)

Skerið kjúklinginn í bita og steikið upp úr olíu á pönnu. Skerið brokkólí, gulrætur, papriku, púrrlauk í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Bætið þessu á pönnuna og steikið áfram. Hrærið saman ostrusósu, vatni og púðursykri og hellið yfir. Látið sjóða í 7-8 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað aðeins og kjúklingurinn er fulleldaður. Smakkið til með salti og pipar. Stráið kasjúhnetum yfir og berið fram (eða berið hneturnar fram í sér skál).

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP