Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Ég viðurkenni fúslega að mér þykir ósköp ljúft að fá svona 4 daga vinnuvikur inn á milli. Páskafríið er nýbúið og strax að koma helgi aftur. Lúxus! Ég nýti hvert tækifæri sem gefst til að vera með plokkmat, eins og osta og góðar pylsur, í kvöldmat. Með góðu víni eru ostadiskar og plokkmatur með því besta sem ég veit.

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Þar sem helgin nálgast óðum þá má ég til með að gefa hugmynd að æðislegri viðbót við plokkmatinn, ofnbökuð fetaostaídýfa með kirsuberjatómötum og tabaskó. Ídýfan er líka frábær sem forréttur eða í saumaklúbbinn. Uppskriftina fékk ég hjá stelpu sem vann með mér og ég hugsa alltaf hlýlega til hennar þegar ég ber þessa dásemd á borð. Einfalt og stórgott, alveg eins og ég við hafa það!

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

 

Ofnbökuð fetaostaídýfa með kirsuberjatómötum

Setjið heilan fetakubb í eldfast mót. Sáldrið smá ólífuolíu yfir og kryddið með oregano. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og raðið yfir ostinn og í kringum hann ef það er pláss í eldfasta mótinu. Setjið að lokum smá tabaskó sósu yfir allt. Bakið við 180° í 20-30 mínútur, eða þar til ídýfan lítur vel út.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Gleðilega páska

Gleðilega páska

Heimilið fylltist af páskablómum eftir ferminguna og þær hafa verið eina páskaskrautið þetta árið. Það var nánast einum of mikið af þeim á tímabili, sama hvert maður leit þá blöstu við gul blóm. Núna þegar sjálfur páskadagur er runninn upp hafa blómin hins vegar öll sungið sitt síðasta og ég gleymdi að kaupa mér páskaegg. Það er því fátt sem minnir á páskana hér heima í dag. Ég mun þó að halda fast í þá hefð að elda lambakjöt á páskadegi, það geri ég alltaf. Ég keypti lambahrygg fyrr í vikunni sem ég á eftir að ákveða hvernig ég ætla að matreiða og ætla því að leggjast yfir uppskriftir á meðan ég narta í páskaeggið hennar Malínar.

Langaði aðallega bara að kíkja inn og óska ykkur gleðilegra páska!

Gleðilega páska

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

 

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Páskafríið í ár hefur verið óvenju ljúft og við höfum lítið annað gert en að slappa af og borða. Við byrjuðum fríið á að bjóða mömmu og bróður mínum hingað í kjúklingaborgara sem voru bornir fram í smjörsteiktu brioche brauði, með æðislegri hvítlaukschilisósu, pækluðum rauðlauk og gúrku, avokadó og helling af kóriander. Súpergott!! Sem meðlæti djúpsteikti ég bæði venjulegar franskar og sætkartöflufranskar. Mamma sagðist aldrei hafa fengið jafn góða borgara og bróðir minn borðaði svo yfir sig að hann var enn saddur daginn eftir.

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Kjúklingaborgarar (uppskrift frá Matplatsen)

 • 4 brioche hamborgarabrauð
 • 4 kjúklingabringur (150 g hver)
 • 1 dl hveiti
 • 2 tsk chilikrydd
 • 2 tsk kúmín (ath. ekki kúmen)
 • 1 msk paprikukrydd
 • 1 tsk salt
 • 1-2 egg
 • 2-4 dl panko (japanskt rasp)
 • kóriander og avókadó til að bera kjúklingaborgarann fram með

Ef kjúklingabringurnar eru þykkar þá er byrjað á að skera þær í tvennt til að fá þær þynnri. Kjúklingabringurnar eru síðan barðar út t.d. með buffhamri.

Blandið hveiti og kryddum saman í grunna skál. Hrærið eggið aðeins upp og setjið í aðra skál. Setjið panko í þriðju skálina. Veltið kjúklingabringunum fyrst upp úr hveitiblöndunni, síðan egginu og að lokum panko. Djúpsteikið kjúklinginn við 160° þar til hann er gylltur og stökkur. Látið renna af honum á eldhúspappír.

Takið brioche hamborgarabrauðin í sundur og steikið í smjöri á pönnu við miðlungshita þar til þau hafa fengið fallegan lit.

Hvítlaukschilisósa:

 • 4 hvítlauksrif
 • hálft lime
 • 1 dl mæjónes
 • 1 dl sýrður rjómi
 • chilisósa eftir smekk (byrjið með 2 msk og smakkið ykkur áfram)

Pressið hvítlaukinn og safann úr lime og blandið með mæjónesi og sýrðum rjóma. Bætið chilisósunni saman við að lokum eftir smekk.

Hraðpækluð gúrka:

 • 1 agúrka
 • 1 msk borðsedik
 • 1 dl vatn
 • 2 msk sykur
 • salt og svartur pipar

Skerið gúrkuna í þunnar sneiðar með ostaskera. Blandið borðsediki, vatni og sykur saman og smakkið til með salti og pipar. Hellið yfir gúrkuna.

Pæklaður rauðlaukur:

 • 2 rauðlaukar
 • safinn úr 2 lime
 • 1/2 dl eplaedik
 • salt

Skerið rauðlaukinn í þunnar sneiðar og blandið saman við hin hráefnin. Látið standa í amk 15 mínútur áður en borið fram.

Setjið hamborgarana saman með sósu, djúpsteiktum kjúklingnum, avókadó, pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og helling af kóriander.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Æðisleg snickersmarengsterta og myndir úr fermingu strákanna

IMG_6128

Vikurnar hafa hreinlega horfið að undanförnu en núna eru strákarnir mínir fermdir og lífið að falla í rólegra horf. Við áttum yndislegan fermingardag. Erna vinkona hjálpaði mér í undirbúningnum og viku síðar þegar hún fermdi Gumma sinn hjálpaði ég henni. Við vinkonurnar græjuðum því tvær fermingar með viku millibili! Ég var spurð hér á blogginu hvað ég ætlaði að bjóða upp á í fermingunni og ég lét það í hendur strákana að velja það. Þeir voru ekki í vandræðum með að ákveða sig, brauðtertur, kökur, osta og súkkulaðimús!

Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens SnickersmarensSnickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens SnickersmarensSnickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens Snickersmarens SnickersmarensSnickersmarens

Það er óhætt að segja að ég gekk of langt hvað varðar magn veitinga og hefði getað fætt hálfan Kópavog í viku með því sem var í afgang eftir veisluna. Ég hóaði því í nágrannana og lét þá taka hluta til sín, börnin hennar Ernu mættu með brautertur og ávaxtaspjót í nesti í skólann daginn eftir og ég fór með hluta í vinnuna til mín. Þar var ég spurð hvort uppskriftin af marengskökunni væri ekki örugglega á blogginu en hún var ekki hér, heldur gaf ég hana í MAN fyrir nokkru síðan. Það er því löngu tímabært að birta hana hér á blogginu.

Snickersmarens

Snickersmarengsterta

 • 4 eggjahvítur
 • 2 dl sykur
 • 1 dl púðursykur
 • 5 dl Rice Krispies

Stífþeytið eggjahvítur, sykur og púðursykur saman. Hrærið Rice Krispies varlega saman við. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír, setjið deigið á og mótið um 25 cm hring úr því. Bakið við 150° í 60 mínútur. Látið botninn kólna áður en kremið er sett á.

Krem:

 • 4 eggjarauður
 • 3 msk sykur
 • 2 snickers (samtals 100 g)
 • 60 g smjör

Bræðið Snickers og smjör saman við vægan hita og látið aðeins kólna. Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Hrærið öllu varlega saman og setjið kremið yfir botninn.

Yfir tertuna:

 • 5 dl rjómi
 • 2 snickers (samtals 100 g)
 • ber

Þeytið rjóma og hakkið snickers. Setjið þeytta rjómann yfir kremið og stráið hökkuðu snickersi yfir. Skreytið með berjum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

 

Tómatsúpan á Nordstrom café

Tómatsúpa

Sagan segir að tómatsúpan sem fæst á kaffihúsum Nordstrom verslana í Bandaríkjunum sé stórkostlega góð. Mér hefur aldrei dottið í hug að fara á kaffihúsið þegar ég hef verið í Nordstrom, það eru svo margir aðrir matsölustaðir í Bandaríkjunum sem mér þykja meira lokkandi. En kannski hef ég verið að missa af einhverju stórkostlegu?

Tómatsúpa

Nordstrom hefur gefið út matreiðslubækur og í einni þeirra leynist uppskriftin af tómatsúpunni vinsælu. Krakkarnir hættu ekki að dásama hana þegar ég prófaði uppskriftina hér heima. Grilluð ostasamloka færi vel með en hér var boðið upp á nýbakað New York Times-brauð með osti. Krakkarnir voru í skýjunum! Einfaldur,  barnvænn, ódýr og góður hversdagsmatur.

Tómatsúpa

 • ⅓ bolli ólívuolía
 • 4 stórar gulrætur, afhýddar og skornar í teninga
 • 1 stór laukur, sneiddur
 • 1 msk þurrkuð basilika
 • 3 dósir heilir tómatar
 • 1 líter vatn
 • 2 kjúklingateningar
 • ½ líter rjómi
 • salt og pipar
Hitið ólívuolíuna yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og eldið þar til byrjar að mýkjast, um 10 mínútur, bætið þá basiliku saman við og eldið þar til grænmetið er orðið alveg mjúkt, eða um 5 mínútur til viðbótar. Bætið tómatdósunum, vatni og kjúklingateningum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, eða upp til 45 mínútur ef þú hefur tíma. Setjið súpuna því næst í matvinnsluvél eða setjið töfrasprota í pottinn og maukið súpuna. Bætið rjómanum saman við og hitið aftur. Smakkið til með salti og pipar.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Tælenskur kjúklingur með kókos

Tælenskur kjúklingur með kókos

Við Malín ætlum að eyða kvöldinu saman yfir Jane the virgin en ég sagði henni að ég yrði fyrst að fá að blogga örstutt því ég luma á svo æðislegri uppskrift. Þessi réttur getur ekki annað en vakið lukku, sósan er svo brjálæðislega bragðgóð,  bæði bragðmikil og með smá sætu. Þið verðið að prófa!

Tælenskur kjúklingur með kókos

Tælenskur kjúklingur með kókos

 • 3-4 kjúklingabringur
 • 4 dl rjómi
 • ½ dós sýrður rjómi (má sleppa)
 • 1 dl chilisósa
 • ½ – 1 dl ostrusósa
 • 1 rauð paprika
 • 1 gul paprika
 • 1 lítill púrrulaukur
 • lítill brokkólíhaus
 • 2 tsk rifið engifer
 • 1 tsk sambal oelek
 • 2-3 pressuð hvítlauksrif
 • 2 msk sojasósa
 • 1 msk mango chutney
 • 2 msk kókosmjöl
 • salt og pipar

Skerið kjúklingabringurnar í bita, saltið og piprið og steikið upp úr olíu. Takið af pönnunni.

Skerið grænmetið í strimla og snöggsteikið, kryddið með salti og pipar og setjið hvítlaukinn með á pönnuna. Bætið kjúklingnum á pönnuna ásamt öllum öðrum hráefnum fyrir utan kókos, látið hann með undir lokin. Látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, eða þar til sósan fer að þykkna. Leyfið réttinum gjarnan að standa í smá stund og hitið hann jafnvel aftur áður en hann er borin fram.

Tælenskur kjúklingur með kókos

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP