Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Ég er búin að eiga æðislegar tígrisrækjur í frystinum um nokkurt skeið og ákvað á fimmtudaginn að láta verða af því að elda þær. Það var jú frídagur, sumardagurinn fyrsti, og því upplagt að vera með góðan kvöldmat. Ég endaði á að gera rétt sem er í svo bragðgóðri sósu að ég var farin að hræðast að hún yrði kláruð áður en ég næði að bera réttinn á borð. Það var stöðugt verið að smakka á henni!

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Þessi réttur er svo stórkostlega góður að það nær engri átt. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og köldu hvítvíni (fyrir okkur fullorðna fólkið) og það ætlaði enginn að geta hætt að borða. Í eftirrétt var ég með æðislega böku sem ég bar fram heita með ís. Ég hef aldrei séð eftirrétt klárast jafn hratt! Ég mun setja inn uppskriftina af henni fljótlega.

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Tígrisrækjur með tælensku ívafi (uppskrift fyrir 4)

 • um 1 kg tígrisrækjur
 • 2 paprikur (ein gul og ein rauð)
 • 100 g sykurbaunir
 • lítill púrrulaukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 msk rautt karrýpaste
 • 1 – 1½ teningur af kjúklingakrafti
 • skvetta af sojasósu (smakkið til, mér finnst gott að setja góða skvettu)
 • 1-2 tsk mango chutney
 • ½ hakkað ferskt rautt chilli
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml.)
 • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
 • 1 tsk Sambal oelek (chillimauk)
 • 1 msk limesafi

Strimlið paprikurnar og púrrulaukinn. Steikið grænmetið á pönnu og bætið síðan öllum hráefnum, fyrir utan rækjurnar, saman við. Látið sjóða saman þar til sósan þykknar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er rækjunum bætt á pönnuna og látið sjóða með í ca 1-2 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

 

 

Einfalt og súpergott kjúklingasalat

Einfalt og súpergott kjúklingasalat

Þá er vetrinum formlega lokið og sumarið framundan. Ljúft! Ég mun hvorki sakna þess að skafa bílinn á morgnanna né að vera aldrei heima í dagsbirtu. Veturinn hefur vissulega sinn sjarma en ég gleðst alltaf yfir árstíðaskiptum. Með hækkandi sól dregur úr lönguninni í hægeldaðar grýtur og léttari matur fer að lokka. Ég bauð upp á þetta einfalda og góða kjúklingasalat með sætum kartöfum fyrr í vikunni sem allir kunnu að meta. Ég bar hráefnin fram hvert í sinni skál þannig að hver og einn setti sitt salat saman eftir smekk. Stökkt kál og grænmeti, heitur kjúklingur, heitar sætar kartöflur, fetaostur, sweet chillisósa og stökkar hakkaðar wasabihnetur yfir. Það hljóta allir að sjá að þetta getur ekki klikkað!

Einfalt og súpergott kjúklingasalatEinfalt og súpergott kjúklingasalatEinfalt og súpergott kjúklingasalat

Einfalt kjúklingasalat

 • kjúklingur (bringur, úrbeinuð læri, heill kjúklingur…bara það sem hentar best)
 • sætar kartöflur
 • wasabihnetur
 • konfekttómatar (eða aðrir tómatar)
 • rauðlaukur
 • rauð paprika
 • fetaostur
 • salat (t.d. iceberg sem hefur staðið í ísköldu vatni, þá verður það stökkt og gott)
 • sweet chilli sósa

Byrjið á að elda kjúklinginn og sætu kartöflurnar. Kjúklingurinn er settur í eldfast mót sem hefur verið smurt með ólífuolíu. Veltið kjúklingnum upp úr olíunni og kryddið síðan eftir smekk (gott að nota vel af kryddinu, helst þannig að það hjúpi kjúklinginn alveg). Setjið álpappír yfir formið. Skerið sætu kartöflurnar í bita og setjið á ofnplötu. Sáldrið ólívuolíu yfir og kryddið með maldonsalti og pipar. Setjið nú kjúklinginn og sætu kartöflurnar í 180° heitan ofn í um 30 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður og kartöflurnar mjúkar í gegn.

Skerið papriku, tómata og rauðlauk smátt og grófhakkið hneturnar. Skerið kálið niður.

Mér þykir best að setja hvert hráefni fyrir sig í skál og bera þau þannig fram. Síðan býr hver og einn til sitt salat. Ég blanda öllu saman og set síðan sweet chillisósu yfir og enda á að strá söxuðu wasabihnetunum yfir allt. Súpergott!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Bananakaka með súkkulaðikremi

Bananakaka með súkkulaðikremi

Um síðustu helgi rak ég augun í banana í ávaxtaskálinni sem voru á síðasta snúningi. Yfirleitt enda gamlir bananar í þessu bananabrauði hjá mér (uppáhalds!) en þar sem ég hafði ákveðið fyrr um daginn að sleppa sætindum yfir helgina þá komst ekkert annað að hjá mér en að nýta bananana í köku. Helst með kremi. Þegar kakan kom út úr ofninum var ég fljót að gleyma sætindalausu helgarplönunum og það fór sæluhrollur um mig þegar ég settist niður með nýbakaða kökusneiðina með rjóma. Síðar um daginn leit mamma óvænt við og þá bauð ég henni upp á kökuna.Hún kann að meta nýbakað hún mamma. Sérstaklega þegar það er rjómi með. Og börnin gengu um í sæluvímu á meðan kakan var til, því þau elskuðu hana. Það er því óhætt að segja að kakan gerði helgina okkar örlítið ljúfari og við nutum hennar vel.

Bananakaka með súkkulaðikremi

Bananakaka með súkkulaðikremi

 • 75 g smjör
 • 2 ½ dl sykur
 • 2 msk mjólk
 • 1/4 tsk salt
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 egg
 • 2 þroskaðir bananar
 • 100 g súkkulaði
 • 2 ½ dl hveiti
 • 1 tsk matarsódi

Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið því saman við sykur, mjólk, salt og vanillusykur. Aðskiljið eggjarauður og eggjahvítur og hrærið eggjarauðunum saman við deigið. Stappið bananana og hrærið saman við deigið. Hakkið súkkulaðið og blandið saman við hveiti og matarsóda. Hrærið blöndunni síðan saman við deigið. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim að lokum í deigið. Setjið deigið í vel smurt form og bakið við 175° í 30-40 mínútur. Kakan á að vera örlítið blaut í sér þannig að ekki baka hana of lengi.

Súkkulaðikrem:

 • 30 g mjúkt smjör
 • 2 ½ dl flórsykur
 • ½ tsk vanillusykur
 • 3 msk kakó
 • 50 g philadelphia rjómaostur

Hrærið smjöri, flórsykri, vanillusykri, kakó og rjómaosti saman þar til blandan er slétt. Smyrjið yfir kökuna sem hefur fengið að kólna.

Bananakaka með súkkulaðikremi

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Brokkólí- og sveppabaka

Brokkólí- og sveppabaka

Ég er enn að reyna að vera með grænmetisrétt einu sinni í viku og það hefur gengið vonum framar. Það er svo mikið til að góðum grænmetiréttum og margir hverjir eru bæði fljótgerðir og æðislega góðir. Síðan eru þeir léttir og góðir í maga. Þessi baka er án bökubotns og það tekur því enga stund að útbúa hana. Það má síðan bera bökuna fram með góðu brauði til að gera hana að meiri máltíð.

Brokkolí- og sveppabaka

 • 250 g brokkoli
 • 150 g sveppir
 • 3 egg
 • 2 dl rjómi
 • 100 g philadelphia rjómaostur
 • 100 g kotasæla
 • 150 g fetaostur
 • basilika og pipar (gott að krydda líka með kryddi lífsins frá Pottagöldrum og paprikukryddi)
 • 2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200° og smyrjið eldfast form. Setjið brokkólí og sveppi í botninn á forminu. Hrærið eggin með rjómanum, kryddið og bætið kotasælu og fetaosti saman við. Hellið blöndunni yfir og stráið rifnum osti yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

Brokkólí- og sveppabakaBrokkólí- og sveppabakaBrokkólí- og sveppabaka

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Vikumatseðill

Ný vika framundan sem er upplagt að skipuleggja með því að gera matseðil og stórinnkaup. Það er jú fátt eins þreytandi og að rölta um matvörubúðina eftir vinnu og reyna að fá hugmynd að einhverju til að hafa í kvöldmat. Þá vil ég frekar gefa mér smá tíma á sunnudegi í að plana vikuna og þurfa síðan ekki að hugsa um það meir!

Vikumatseðill

Fiskur með eggjasósu og beikoni

Mánudagur: Fiskur með beikoni og eggjasósu

Tacobaka

Þriðjudagur: Tacobaka

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Pylsupottréttur

Fimmtudagur: Pylsupottréttur með beikoni og sweet chili rjómasósu

Grilluð humarpizza

Föstudagur: Grilluð humarpizza

Sænskar pönnukökur

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Ég er á þeirri skoðun að það sé hvorki hægt að eiga nógu margar uppskriftir að súkkulaðikökum né hægt fá leið á þeim. Góð súkkulaðikaka gleður alltaf og á þessu heimili klárast hún alltaf fljótt. Með ískaldri mjólk er ómöglegt að standast hana! Þessi uppskrift er æðisleg og vert að spara hana. Ég lofa að hún mun vekja lukku.

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðikaka (uppskrift frá Smitten Kitchen)

 • 85 g smjör, við stofuhita
 • 145 g púðursykur
 • 25 g sykur
 • 1 stórt egg
 • 1 eggjarauða
 • 175 ml súrmjólk
 • 1 tsk vanilludropar
 • 40 g kakó
 • 125 g hveiti
 • 1/4 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt

Krem:

 • 55 g suðusúkkulaði, brætt og kælt
 • 180 g flórsykur
 • 115 g smjör, við stofuhita
 • smá sjávarsalt (má sleppa)
 • 1 msk rjómi eða nýmjólk
 • 1/2 tsk vanilludropar

Kakan:

Hitið ofninn í 175° og klæðið 24 cm kökuform með smjörpappír eða smyrjið það vel.

Hrærið smjör, púðursykur og sykur saman þar til blandan verður létt. Bætið eggi, eggjarauðu og vanilludropum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Hrærið þá súrmjólk saman við. Hrærið að lokum hveiti, kakó, matarsóda, lyftidufti og salti saman við. Setjið deigið í kökuformið og bakið í 25-35 mínútur, eða þar til prjóni sem stungið hefur verið í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett á.

Kremið:

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til kremið hefur fengið slétta og létta áferð. Ef kremið er gert án matvinnsluvélar þá er byrjað á að hræra saman smjöri, flórsykri og salti í hrærivél eða með handþeytara. Bætið súkkulaði, mjólk og vanilludropum saman við og hrærið áfram þar til allt hefur blandast vel og kremið er orðið létt í sér. Setjið kremið yfir kökuna og njótið.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Nachos í kvöldmat!

Nachos í kvöldmat!

Á laugardaginn fórum við strákarnir og mamma í Smáralindina. Þar röltum við um, versluðum aðeins og enduðum ferðina á að fara í Smárabíó að sjá sænsku myndina Maður sem heitir Ove. Við mamma vorum báðar búnar að lesa bókina og vorum sammála um að myndin stóð undir væntingum, hún er yndisleg! Eftir að hafa borðað popp, gos og nammi í bíóinu var lítill áhugi á að borða kvöldmat og því var ákveðið að hafa bara snarl þegar leið á kvöldið. Snarlið endaði sem risa nachosfat sem við borðuðum yfir sjónvarpinu. Súpergott!

Nachos í kvöldmat!

Súper nachos

 • 500 g nautahakk
 • 1/2 laukur, hakkaður
 • 1/2 tsk chilikrydd
 • 1 tsk paprikukrydd
 • 1/2 tsk kúmín (ath. ekki kúmen)
 • 1/2 tsk rauðar piparflögur
 • salt og pipar
 • 1 dós pinto baunir
 • 1,5 dl vatn
 • Nachos flögur
 • 7 -8 dl rifinn ostur, t.d. blanda af cheddar og mozzarella
 • avocado
 • sýrður rjómi
 • ostasósa

Mýkið laukinn í olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Bætið nautahakkinu við og steikið þar til fulleldað. Kryddið og bætið baunum og vatni á pönnuna. Smakkið til, það gæti þurft að krydda betur. Látið malla við vægan hita á meðan hin hráefnin eru undirbúin.

Salsa sósa:

 • 5-6 plómutómata (eða aðra góða tómata), skornir í teninga
 • 1/2 laukur
 • 1 jalapeno, fínhakkað
 • 1/2 askja kóriander, saxað
 • safi af 1 lime
 • 1/2 tsk salt

Blandið öllu saman.

Sett saman:

Setjið nachosflögur í botninn á eldföstu móti. Setjið smá ostasósu yfir, síðan eitt lag af nautahakksblöndu og að lokum rifinn ost. Setjið annað lag af nachosflögum yfir, smá ostasósu, síðan nautahakksblöndu og ost. Endurtakið þannig að alls séu þrjú lög. Setjið í 180° heitan ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Setjið salsasósuna yfir ásamt avocadó, sýrðum rjóma og ostasósunni (gott að hita hana aðeins í örbylgjuofni áður).

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP