Mexíkófiskur

Mexíkófiskur

Fyrir nokkrum árum gaf Arla út matreiðslubók sem hét Fredag, eða föstudagur. Ég las góða dóma um bókina og varð ekki róleg fyrr en ég eignaðist hana, sem reyndist þrautinni þyngri þar sem það var ekki hægt að panta hana til Íslands. Þegar bókin loks varð mín las ég hana í þaula og setti hana svo upp í hillu, þar sem hún hefur fengið að dúsa alla daga síðan. Það var því tími til kominn að draga bókina fram og prófa einhverja af öllum þeim girnilegu uppskriftum sem hún hefur upp á að bjóða.

Mexíkófiskur

Fyrir valinu varð einaldur mexíkófiskur, einfaldlega af því að ég átti öll hráefnin í hann. Rétturinn hreif mannskapinn og krakkarnir hrósuðu honum óspart. Þessi verður klárlega eldaður oftar hér heima. Einfalt og stórgott!

Mexíkófiskur

Mexíkófiskur – uppskrift fyrir 4

 • 600 g þorskur eða ýsa
 • 1 tsk salt
 • 1 peli rjómi eða matreiðslurjómi (2,5 dl)
 • 1 krukka tacosósa (230 g eða um 2 dl)
 • 2 dl rifinn ostur
 • um 20 nachos flögur, muldar

Hitið ofninn í 200°. Smyrjið eldfast mót með smjöri, leggið fiskstykkin í og saltið þau. Hrærið saman rjóma, tacosósu og rifnum osti og hellið yfir fiskinn. Setjið í ofninn í 15 mínútur, stráið þá muldum nachosflögum yfir og setjið aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar (samtals 25 mínútur í ofninum).

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Meðlæti með grillmatnum

 

Meðlæti með grillmatnum

Ég lofaði viðbót í meðlætaflokkinn hér á blogginu og bæti núna tveim góðum meðlætum í hópinn, grillaðar kartöflur með rósmarín og reyktu paprikukryddi sem og marineruðum sveppum sem er gott að setja yfir grillkjötið.

Meðlæti með grillmatnum

Grillaðar kartöflur með rósmarín og reyktu paprikukryddi

 • 500 g kartöflur, skornar í teninga
 • 1 laukur, skorinn í smáa bita
 • 6 hvítlauksrif, afhýdd og hvert rif skorið í þrennt
 • 1,5-2 msk ólífuolía
 • 1 ½ tsk rósmarínkrydd (þurrkað), sem er mulið niður í mortéli
 • ½ tsk reykt paprikukrydd
 • ½ tsk salt
 • ½ tsk pipar úr kvörn

Hitið grillið í miðlungshita. Setjið kartöflubitana, laukinn, hvítlaukinn og ólífuolíuna í skál og blandið vel saman. Bætið rósmarín, reyktri papriku, salti og pipar í skálina og blandið öllu vel saman.

Takið tvö 60 cm álpappírsblöð og leggið yfir hvort annað þannig að það myndi kross. Setjið kartöflublönduna í miðjuna á krossinum og passið að þær séu í nokkuð jöfnu lagi. Brjótið álpappírinn saman yfir kartöflurnar og klípið hann saman til að loka vel fyrir. Takið þriðja álpappírsblaðið og vefjið utan um kartöflupakkann. Setjið á grillið í 20 mínútur, snúið þá pakkanum við og grillið áfram í 15-20 mínútur. Farið varlega þegar þið opnið álpappírspakkann því það kemur mikill hiti úr honum. Kartöflurnar geymast heitar í pakkanum í 10-15 mínútur.

Meðlæti með grillmatnum

Grillaðir marineraðir sveppir

Marineringin:

 • 1/4 bolli ólífuolía
 • 1/4 bolli sítrónusafi
 • handfylli af steinselju
 • 1 tsk sykur
 • 1 tsk salt
 • 1/4 tsk pipar
 • 1/4 tsk cayenne pipar
 • 1-2 hvítlauksrif
 • 1 msk balsamik edik

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og vinnið saman í nokkuð slétta blöndu.

 • 450 g sveppir
 • 10 spjót

Skerið sveppina í tvennt, setjið þá í poka og hellið marineringunni yfir. Setjið pokann í ísskáp í 30-45 mínútur.

Ef notuð eru tréspjót er best að leggja þau í bleyti í 15 mínútur svo þau brenni ekki á grillinu. Þræðið sveppina upp á spjótin (best er að snúa þeim upp á svo sveppirnir klofni ekki) og grillið í 3 mínútur á hvorri hlið.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Heimsins besti og einfaldasti ís – Nutellaís!

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Yfir Eurovision um síðustu helgi bauð ég upp á æðislegt tacogratín sem vakti rífandi lukku og ég mun setja uppskrift af hingað inn fljótlega. Það var þó eftirrétturinn sem stal senunni, Nutellaís! Einfaldasti og besti ís í heimi! Þessi er ávanabindandi…

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Ísinn var dásamaður í bak og fyrir, og kláraðist að sjálfsögðu upp til agna. Þetta verður ekki einfaldara, aðeins tvö hráefni! Þetta verðið þið að prófa.

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Nutellaís

 • 5 dl rjómi
 • 350 g Nutella

Setjið rjóma og Nutella í skál og þeytið saman þar til létt. Setjið í form og í frysti í amk 6 klst. Berið fram með ferskum berjum.

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Við nýttum veðurblíðuna um daginn og grilluðum lambakjöt. Þegar ég var að velta meðlætinu með grillmatnum fyrir mér þá áttaði ég mig á því að það vantar upp á meðlætistillögur hér á blogginu. Meðlætið skiptir jú svo miklu máli, sérstaklega með grillkjöti. Nú stefni ég á að kippa þessu í lag og set strax inn sætar parmesankartöflur sem voru svoooo góðar. Mér þykja sætar kartöflur alltaf góðar en þessar eru extra góðar með parmesanhjúp og kryddum. Frábært meðlæti!

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

 • 2 sætar kartöflur
 • 2 tsk pressaður hvítlaukur
 • 1 msk ólífuolía
 • 2 msk smjör, brætt
 • 4 msk rifinn parmesan ostur
 • ½ tsk hvítlaukssalt
 • ½ tsk ítölsk kryddblanda

Hitið ofninn í 200°.

Afhýðið kartöflurnar og skerið í 2 cm teninga. Setjið hvítlauk, olíu, smjör, hvítlaukssalt, parmesan og ítölsku kryddblönduna í plastpoka og blandið vel. Bætið sætu kartöflunum í pokann og hristið hann vel, þannig að kartöflurnar verði hjúpaðar af olíu/smjör/ostablöndunni. Setjið álpappír yfir ofnplötu, spreyið léttilega yfir með olíu og dreifið úr kartöflunum yfir. Bakið í um 20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Mæðradagsblómin frá Malínu standa einn og það kæmi mér ekki á óvart ef þau munu lifa út næstu viku líka. Ég elska afskorin blóm og vil helst alltaf vera með vönd hér heima. Með blómunum frá Malínu fylgdi sætur bangsi, meira krúttið sem hún er þessi skotta mín (sem varð 18 ára og sjálfráða á dögunum! Það sem tíminn líður…).

Vikumatseðill

Í ljósi þess að í gær var Eurovision og í dag er hvítasunna grunar mig að margir geri vel við sig í mat þessa helgina. Hér er alla vega sá hátturinn á. Ég ætla því að halda mér við mánudagsfiskinn á morgun, en þar sem þá er annar í hvítasunnu ætla ég að draga fram góðu laxuppskriftina frá mömmu. Þar slæ ég tvær flugur í einu höggi, fæ bæði veislumat og fisk, og veit að allir verða ánægðir.

Vikumatseðill

lax

Mánudagur: Lax með mango chutney og pistasíuhnetum

Chili con carne

Þriðjudagur: Chili con carne

Chili con carne

Miðvikudagur: Afgangur frá þriðjudeginum settur ofan á pizzabotn

Pasta með púrrulauk og beikoni

Fimmtudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni

Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil

Með helgarkaffinu: Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil

Öll hráefni í þessa uppskriftir fást í

HAGKAUP

5 ljúffengar tillögur fyrir Eurovision

5 ljúffengar hugmyndir fyrir Eurovision

Fyrst af öllu, TAKK fyrir öll like, komment og falleg orð sem þið hafið sent mér eftir að bloggið fór yfir 20.000 fylgjendur á Facebook. Ég get ekki fundið orð til að lýsa því hvað mér þykir vænt um að heyra frá ykkur.

Nú styttist í Eurovision og þá þarf nú heldur betur að vanda valið við veitingarnar. Það þarf að vera stemmning í þessu öllu enda um að gera að nýta öll tækifæri sem gefast til að gera sér glaðan dag og strá smá glimmeri yfir hversdagsleikann. Hér koma fimm einfaldar og góðar tillögur að kvöldverði sem passa vel fyrir eurovisionkvöldið:

Fylltar tortillaskálar

Fylltar tortillaskálar

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

BBQ-Pizza

BBQ-Pizza

Mexíókskt kújklingalasagna

Mexíkóskt kjúklingalasagna

Hamborgari

Heimagerðir hamborgarar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Banana- og súkkulaðibaka

Banana- og súkkulaðibaka

Ég fór í smá frí til Brussel og Stokkhólms í síðustu viku og skildi tölvuna eftir heima, sem varð til þess að bloggið fékk að sitja á hakanum. Hef ég sagt ykkur að ég E L S K A Stokkhólm? Hún er uppáhalds borgin mín í öllum heiminum og mér þykir alltaf jafn yndislegt að koma þangað. Í þetta sinn var það sérlega ljúft, því bæði lék veðrið við okkur og við fórum á bestu tónleika sem ég hef nokkurn tímann farið á, nefnilega Adele. Ég er enn að hugsa um hvað hún er stórkostleg söngkona og hefði helst viljað elta hana á næstu tónleika.

Ég var búin að lofa uppskrift af þessari böku sem hvarf á methraða ofan í mannskapinn hér heima um daginn. Bananar og súkkulaði er blanda sem getur ekki klikkað. Ég bar bökuna fram heita með vanilluís og sló algjörlega í gegn. Súpergóð!

Banana- og súkkulaðibakaBanana- og súkkulaðibakaBanana- og súkkulaðibakaBanana- og súkkulaðibaka

Banana- og súkkulaðibaka (uppskrift fyrir 4-5)

 • 3 bananar
 • 100 g suðusúkkulaði
 • 2 dl hveiti
 • 1 dl sykur
 • 1 msk vanillusykur
 • 125 g smjör, við stofuhita

Afhýðið bananana og skerið í sneiðar. Grófhakkið súkkulaðið.

Setjið hveiti, sykur, vanillusykur og smjör í skál og vinnið saman með gaffli eða fingrunum þannig að úr verði nokkurs konar mulningur.

Smyrjið eldfast mót, setjið bananana í botninn, súkkulaðið yfir og endið á að dreyfa mulningnum yfir. Bakið við 200° í 25-35 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið fallegan lit. Berið bökuna fram heita með vanilluís eða rjóma.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP