Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Um daginn var ég með einn saumaklúbbinn minn hjá mér, Stjörnurnar. Ég furða mig á að það séu liðin 18 ár síðan við byrjuðum að hittast, þá allar á þeim tímamótum í lífi okkar að móðurhlutverkin voru ýmist að hefjast eða handan við hornið. Núna 18 árum síðar erum við mörgum börnum ríkari, nokkrar búnar að flytja erlendis og heim aftur, sumar sestar að erlendis og ein flutt norður í land. Engu að síður höldum við alltaf saman og þessar vinkonur mínar verða mér alltaf kærar.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Og hvað bauð ég þeim svo upp á? Sitt lítið af hverju. Osta, beikonvafðar döðlur, tapasskinku, ber, pekanhjúpaða ostakúlu, ofnbakaðan camembert og súkkulaðiköku. Einfalt, fljótlegt og gott.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Súkkulaðikakan var svakaleg, þó ég segi sjálf frá, og jafnvel betri daginn eftir. Ég bar hana fram með rjóma, saltkaramelluís frá Häagen-Dazs (ég mæli með að þið prófið hann…. eða haldið ykkur alveg frá honum því hann er ávanabindandi!) og jarðaberjum. Skothelt!

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

 • 4 egg
 • 6 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 9 msk kakó
 • ½ msk vanillusykur
 • smá salt
 • 200 g smjör

Súkkulaðikaramellukrem

 • 75 g smjör
 • ½ dl sykur
 • ½ dl sýróp
 • 1 msk kakó
 • 1½ dl rjómi
 • 200 g mjólkursúkkulaði (ég var með frá Cadbury)

Botninn:

Hrærið lauslega saman egg og sykur. Blandið hveiti, kakói, vanillusykri og salti saman og hrærið saman við eggjablönduna. Bræðið smjörið og hrærið því saman við. Setjið deigið í smurt form (ca 24 cm) og bakið við 175° í um 40 mínútur. Látið kökuna kólna.

Kremið:

Bræðið smjör í potti og bætið sykri, sýrópi, kakói og rjóma saman við. Látið suðuna koma upp á meðan þið hrærið í blöndunni og látið síðan sjóða við vægan hita í 5-10 mínútur. Takið pottin af hitanum og bætið hökkuðu súkkulaði í hann. Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellið kreminu yfir kökuna og látið hana síðan standa í ísskáp til að kremið stífni.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Það er óhætt að segja að það rættist úr 17. júní veðrinu. Okkur var boðið í grill um kvöldið til vinafólks okkar, Kristínar og Rikka. Rikki átti afmæli fyrr í vikunni og fékk ginflöskuna hér að ofan í síðbúna afmælisgjöf frá okkur. Þar sem veðrið var svo gott ákváðum við að borða úti á palli hjá þeim og enduðum á að sitja þar fram eftir kvöldi. Það er nú ekki á hverjum degi sem það er hægt, en mikið er ljúft þegar það gerist. Sól, grillmatur, hvítvín og góður félagsskapur, það gerist varla betra. Þegar leið á kvöldið var hvítvíninu skipt út fyrir G&T og áður en við vissum af var liðið langt fram á nótt. Það má jafnvel segja að það varð aðeins of mikið af ljúfa lífinu hjá okkur þarna um kvöldið og laugardagurinn fór svolítið í það að jafna sig. Maður er víst ekki tvítugur lengur. Í dag erum við hins vegar eldhress, verkfræðingurinn á leið í vinnuferð til Hollands og ég ætla að kíkja aðeins í Smáralindina. En fyrst kemur hér, eins og svo oft á sunnudögum, hugmynd að vikumatseðli.

Vikumatseðill

Ítalskur lax með fetaostasósu

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Einfalt og stórgott lasagna

Þriðjudagur: Einfalt og stórgott lasagna

Sveppasúpa

Miðvikudagur: Sveppasúpa

Parmesanbuff í rjómasósu

Fimmtudagur: Parmesanbuff í rjómasósu

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Föstudagur: Kjúklingaborgari

Drømkage

Með helgarkaffinu: Drømmekage

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kung Pao kjúklingur

 

Kung Pao kjúklingur

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Ó, hvað ég vona að veðrið haldist þurrt og að allir geta notið skemmtanahalds þar sem þeir eru. Ég ætla ekki að taka þátt í 17. júní hátíðarhöldum þetta árið (sem þykir svo sem ekki fréttnæmt þar sem ég er lítið fyrir slík skemmtanahöld, sé bara fyrir mér engin laus bílastæði og hvergi laus borð á veitingastöðum… nei, þetta er einfaldlega ekki fyrir mig) heldur er okkur boðið í grill til vinafólks okkar í kvöld. Börnin séu orðin svo stór að þau vilja helst að ég haldi mér heima á meðan þau skemmta sér á Rútstúni og ég mun ekki mótmæla því. Hef hugsað mér að fara á meðan í góðan göngutúr og síðan dunda mér í eldhúsinu þannig að það bíði þeirra nýbökuð kaka þegar þau koma heim. Smá þjóðhátíðarkaffi getur maður alltaf gert sér að góðu, ekki satt?

Kung Pao kjúklingur

Eins og alltaf fyrir helgar leitar hugurinn að helgarmatnum. Um daginn gerði ég æðislegan kjúklingarétt sem mér þykir passa vel sem helgarmatur, eða EM matur ef út í það er farið. Strákarnir voru ekki heima þetta kvöld en við sem vorum í mat voru stórhrifin af réttinum. Þegar Jakob kom heim fékk hann sér það sem eftir var og kláraði það upp til agna. Þegar ég svo spurði hvort honum hafi ekki þótt þetta æðislega gott þá svaraði hann „þetta var mjög gott en ég hef fengið betra“. What! Súpergott segjum við hin og klárlega réttur til að prófa.

Kung Pao kjúklingur

Kung Pao kjúklingur

 • 3-4 kjúklingabringur, skornar í munnbita
 • Salt og pipar
 • 1½ bolli maísmjöl
 • 3 egg
 • ¼ bolli canola olía
 • ¼ bolli soja sósa
 • ¼ bolli edik
 • 1 matskeið rautt chillí paste (t.d. Sriracha)
 • 1 tsk pressaður hvítlaukur
 • ¼ bolli púðursykur
 • ½ msk maísmjöl
 • 1 rauð paprika, hökkuð
 • ¼ bolli salthnetur
 • vorlaukur til skrauts

Hitið ofninn í 180°.

Skerið kjúklinginn í munnbita og kryddið með salti og pipar. Setjið maísmjöl í eina skál og léttilega hrærð egg í aðra skál. Hitið olíuna á pönnu.

Veltið kjúklingnum upp úr maísmjölinu, síðan eggjunum og setjið hann að lokum á pönnuna. Steikið þar til kjúklingurinn er byrjaður að brúnast. Færið kjúklinginn þá af pönnunni yfir í eldfast mót.

Hrærið saman sojasósu, ediki, chillí paste, hvítlauk, púðursykri og maísmjöli. Hellið blöndunni yfir kjúklinginn og blandið vel. Setjið hakkaða papriku og salthnetur yfir. Bakið í klukkutíma en hrærið í réttinum á 15 mínútna fresti. Berið fram með hrísgrjónum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Gærkvöldið tók óvænta stefnu þegar ég ákvað skyndilega að bjóða mömmu og Eyþóri bróður í mat og fótboltaáhorf til okkar. Þvílíkt kvöld og þvílíkur leikur! Ég hef ekki taugar í þetta og hef því blendnar tilfinningar fyrir næsta leik. Tilhlökkun og kvíði fyrir stressfaktornum sem fer upp úr öllu veldi, en það er kannski bara partur af programmet? Hvað veit ég. Ég sem hef aldrei fylgst með fótbolta sit orðið allar helgar og horfi á 4. flokk Breiðabliks keppa og núna bætist Evrópumótið við. Maður veit víst aldrei hvað bíður manns. Kannski fer ég bráðum að halda með liði í ensku deildinni eða eitthvað. Nei, ég segi bara svona…

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggirGrillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Þar sem matarboðið kom skyndilega upp og mig langaði hvorki í hamborgara né pizzu, þá ákvað ég að grípa í uppskrift sem ég fékk fyrir nokkrum árum og hefur verið notuð óteljandi sinnum hér heima, grillaðir BBQ-kjúklingaleggir. Þessi uppskrift er með þeim einföldustu og bestu, ég lofa! Kjúklingaleggirnir eru forsoðnir þannig að þeir þurfa bara stutta stund á grillinu. Með þessari eldunaraðferð fær maður safaríka og góða kjúklingaleggi en ekki þurra eins og vill verða þegar þeir eru bara grillaðir. Skotheld uppskrift sem vekur alltaf lukku!  Með matnum drukkum við Allegrini Soave sem setti algjörlega punktinn yfir i-ið. Frábært hvítvín á góðu verði.

grillaður bbq1

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Kjúklingaleggirnir eru soðnir í potti með kjúklingakrafti (ca 1 kjúklingateningur á hvern bakka af kjúklingaleggjum) í 10-15 mínútur. Þá eru þeir teknir úr pottinum og látnir kólna aðeins. BBQ-sósu er síðan penslað á kjúklingaleggina og þeir að lokum grillaðir í stutta stund þannig að BBQ-sósan karamellist utan um kjúklingalegginn. Gott er að pensla smá auka BBQ-sósu á kjúklinginn þegar hann er á grillinu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Fyrir utan heimsókn á læknavaktina í gærmorgun (sem betur fer var lítið að gera þar, enda hálf þjóðin í Color run) sem endaði á sýklalyfi, ofnæmislyfi og sterakremi, þá hefur helgin verið sérlega góð. Hápunktur helgarinnar var klárlega gærkvöldið, þegar við fórum með mömmu og Eyþóri bróður mínum á Bjórgarðinn í drykk og léttan kvöldverð og síðan yfir í Borgarleikhúsið á Mamma Mía. Þvílík sýning! Við skemmtum okkur stórkostlega og erum enn í skýjunum. Ég segi bara ekki láta hana framhjá ykkur fara!

Vikumatseðill

Fiskur með gulrótum í ljúffengri sósu

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Brokkólí- og sveppabaka

Þriðjudagur: Brokkólí- og sveppabaka

Kjúklingalaksa

Miðvikudagur: Laksa með kjúklingi

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Fimmtudagur: Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!

Föstudagur: Dásamlegur BBQ-kjúklingur með öllu í einum pakka!

Sítrónukaka með kókos

Með helgarkaffinu: Sítrónukaka með kókos

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld og helgarfrí framundan. Það er búið að vera stöðugt prógramm þessa vikuna og því ljúft að eiga rólegt kvöld framundan með mexíkóska kjúklingasúpu í kvöldmat og nammi yfir sjónvarpinu. Ég er með æði fyrir nýja nóakroppinu með piparduftinu og súkkulaðihúðuðu saltkringlunum en uppgötvaði nýlega hvað það er líka gott að blanda venjulegu nóakroppi og poppi saman. Áður en ég hendi mér í sjónvarpssófann með nammiskálarnar ætla ég þó að reima á mig skóna og taka smá göngutúr. Ég gekk 5.75 km hring hér um Kópavoginn í gærkvöldi á tímanum 54.35 sem er ekkert til að státa sér af. Í kvöld skal ég gera betur!

HAGKAUP

Lobsterroll og heimagert majónes

Lobsterroll

Síðasta föstudagskvöld var ég með svooo góðan rétt að ég má til með að setja hann inn sem tillögu fyrir helgina – lobsterroll og djúpsteiktar franskar!

Lobsterroll

Helgarmaturinn verður ekki mikið einfaldari.  Humarinn er skorinn í grófa bita og léttsteiktur á pönnu (passa að steikja hann alls ekki of lengi!). Smakkið majónes til með salti, pipar og sítrónusafa eða smá chilisósu, t.d. Sriranka eða Sambal oelek. Hrærið bragðbætta majónesinu síðan saman við humarinn. Hitið pulsubrauð í ofni og fyllið með humarblöndunni. Berið fram með djúpsteiktum frönskum og auka majónesi.

Lobsterroll

Með matnum drukkum við portúgalskt rósavín vinnufélagi minn mælti með, frá Vila Real. Létt, ferskt og smásætt vín á góðu verði (flaskan kostar undir 2.000 krónum í Vínbúðinni). Frábær sumardrykkur!

Majónes (uppskriftin gefur um 4 dl)

 • 2 eggjarauður
 • ½ msk hvítvínsedik
 • smá salt
 • smá hvítur pipar
 • 1½ msk dijonsinnep
 • 4 dl rapsolía

Passið að hafa öll hráefnin við stofuhita þegar majónesið er gert, annars er hætta á að það skilji sig.

Notið handþeytara og skál. Hrærið fyrst eggjarauðum, hvítvínsediki, salti, pipar og sinnepi saman. Setjið oíuna hægt saman við, fyrst í dropatali þar til blandan byrjar að þykkna og svo í mjórri bunu. Hrærið stöðugt í á meðan. Ef þið ætlið að bragðbæta majónesið þá er það gert í lokin.

Lobsterroll

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP