Kjúklinga Pad Thai

Kjúklinga Pad Thai

Nú er enn ein helgin handan við hornið og í þetta sinn sit ég á hreint út sagt frábærum föstudagasrétti sem ég eldaði síðasta föstudag við gífurlegar vinsældir hér heima. Rétturinn var svo vinsæll að afgangurinn var borðaður í morgunmat á laugardagsmorgninum og fengu færri en vildu.

Kjúklinga Pad Thai

Ég hef aldrei áður endað Pad thai en hef hins vegar margoft keypt mér Pad thai á veitingastöðum því mér þykir það svoooo gott. Ég held að ástæðan fyrir því að ég hef ekki eldað það fyrr er að ég klúðraði einhvern tímann hrísgrjónanúðlum þegar ég sauð þær og síðan þá hef ég haldið mér frá þeim. Núna klúðraðist hins vegar ekkert enda svo sem erfitt að klúðra svona einfaldri eldamennsku.

Kjúklinga Pad Thai

Það eina sem er tekur tíma við þennan rétt er að skera niður kjúklinginn og grænmetið. Ég mæli því með að byrja á að sjóða núðlurnar og á meðan þær sjóða að skera niður allt sem þarf að skera niður. Að því loknu tekur enga stund að koma réttinum saman.

Kjúklinga Pad Thai

Uppskriftin er stór og dugar vel fyrir 6 manns. Við vorum 5 í mat og áttum smá afgang sem Jakob náði að fá sér í morgunmat daginn eftir, við litlar vinsældir Gunnars sem einfaldlega var ekki nógu snöggur á fætur. You snooze you lose…

Kjúklinga Pad thai

Kjúklinga Pad Thai (uppskrift frá Cooking Classy)

  • 280 g hrísgrjónanúðlur  (Thai rice noodles)
  • 500 g  kjúklingabringur, skornar í strimla
  • 2 msk grænmetisolía
  • 1/4 bolli púðursykur
  • 1/4 bolli sojasósa
  • 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 1 msk ferskur limesafi
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 1 rauð paprika, skorinn í þunna strimla
  • 1 1/2 bolli gulrætur, skornar í strimla á stærð við eldspítur
  • 2 hvítlauksrif
  • 4 vorlaukar, hvíti hlutinn er fínhakkaður og græni hlutinn skorinn í sneiðar
  • 2 bollar baunaspírur (ég var með eina dós af niðursoðnum)
  • 3 stór egg
  • 1/2 bolli salthnetur, hakkaðar gróflega
  • 1/3 bolli kóriander, hakkað

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka (passið að sjóða þær ekki of lengi og kælið þær um leið og þær koma úr pottinum).

Hrærið saman púðursykri, sojasósu, hrísgrjónaediki, limesafa og fiskisósu. Setjið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður (það tekur um 4-6 mínútur). Takið kjúklinginn af pönnunni. Setjið papriku og gulrætur á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur, bætið þá hvítlauk, vorlauk og baunaspírum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur til viðbótar. Ýtið grænmetinu til hliðar á pönnunni og brjótið eggin í miðjuna. Hrærið í eggjunum þar til þau eru fullelduð. Bætið kjúklingi, núðlum og sósu á pönnuna og blandið öllu vel saman. Steikið saman í 1-2 mínútur. Stráið fersku kóriander og salthnetum yfir og berið fram.

5 athugasemdir á “Kjúklinga Pad Thai

Færðu inn athugasemd