Morgunverður

Morgunverður

Það væri synd að segja að ég væri mikil morgunverðarmanneskja á virkum dögum. Ég fæ mér sama morgunverðinn svo mánuðum skiptir án þess að fá leið á honum. Undanfarnar vikur hef ég fengið mér AB-mjólk með múslí, sem ég set í kaffibolla og moka í mig á hlaupum eða við tölvuna í vinnunni. Í fleiri mánuði þar á undan fékk ég mér hafragraut með kanil. Þetta snýst einfaldlega um að útbúa eitthvað fljótlegt sem stendur með mér fram að hádegi.

Morgunverður

Um helgar er þó önnur saga. Það sem ég elska helgarmorgunverðina! Að útbúa góðan morgunverð og sitja lengi yfir honum. Nú þegar börnin eru orðin svona stór og farin að sofa fram eftir fara helgarnar rólega af stað. Ég læðist um, kveiki lágt á útvarpinu, geri mér góðan morgunverð og bæði fletti blöðum og kíki á blogg á meðan ég borða hann. Mér þykir þetta alltaf jafn notaleg stund.

Morgunverður

Nú er ég búin að finna morgunverð sem hentar mér bæði á virkum dögum og um helgar. Hafragrautur! Eftir að mér var bent á að bragðbæta hann með sultu og fræjum opnaðist nýr heimur fyrir mér. Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að ég er hrifin af sultunum frá St. Dalfour en þær passa sérlega vel í grautinn þar sem í þeim er hvorki viðbættur sykur né litar- og rotvarnarefni. Ég set síðan þau fræ og ber sem ég á að hverju sinni yfir og úr verður lúxusgrautur sem tekur stutta stund að útbúa og gefur gott start inn í daginn.

Morgunverður

Hafragrautur

 • 1 dl haframjöl
 • 2 dl vatn
 • smá salt
 • sulta
 • fræ og/eða ber

Í potti: Setjið haframjöl, vatn og salt í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í skamma stund.

Í örbylgjuofni: Setjið haframjöl, vatn og salt í skál og hitið í 1 ½ – 2 mínútur á fullum styrk.

Setjið sultu og ber/fræ yfir og njótið.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Gleðilega fyrstu aðventu kæru lesendur. Mikið vona ég að lífið sé notalegt hjá ykkur, að aðventukaffið verði gott og dagurinn ljúfur. Hjá okkur býður pizzaveisla í hádeginu, aðventukaffi seinna í dag og The Good Wife maraþon í kvöld. Síðan ætla ég að gera vikuinnkaup á meðan Gunnar er á fótboltaæfingu í dag. Það er engin ástæða til að bregða út af vananum…

Vikumatseðill

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Þriðjudagur: Nautahakkschili með cheddarskonsum

Nautahakkschili með cheddarskonsum

Miðvikudagur: Afgangur frá deginum áður

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Fimmtudagur: Spaghetti með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Föstudagur: Klúbbsamloka með sweet chili majónesi

Nutellakökur

Með helgarkaffinu: Nutellakökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

 

Súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremiUm síðustu helgi bakaði ég köku til að hafa með kaffinu hér heima. Ég bakaði súkkulaðiköku sem við gæddum okkur á alla helgina. Kakan var dásamlega mjúk, með smá kaffikeim og örlítið blaut í sér. Kremið var hvergi sparað og úr varð súkkulaðibomba sem var erfitt að láta í friði.

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

Núna um helgina, þegar jólaundirbúningurinn fer af stað, þykir mér ósköp huggulegt að vera með köku á eldhúsbekknum til að geta nælt mér í sneið og sneið á milli þess sem aðventuljósunum er stungið í samband og kerti verða sett í aðventukransinn. Það er bara svo notalegt, rétt eins og desembermánuður á að vera. Með jólatónlist í hátölurum, jólaljós í gluggunum og bökunarlykt í húsinu.

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi

Botnar:

 • 2 bollar sykur (450 g)
 • 1 ¾ bollar hveiti (200 g)
 • ¾ bolli kakó (75 g)
 • 1 ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 egg
 • 1 bolli mjólk
 • ½ bolli bragðdauf olía
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 bolli sjóðandi heitt kaffi

Krem:

 • 115 g smjör
 • 2/3 bolli kakó (70 g)
 • 3 bollar flórsykur (450 g)
 • 1/3 bolli mjólk
 • 1 tsk vanilludropar

Hitið ofninn í 175° og smyrjið tvö 22 cm bökunarform með lausum botni.

Setjið öll þurrefnin í skál. Bætið mjólk, olíu og vanilludropum saman við og hrærið þar til hráefnin hafa blandast vel. Bætið heitu kaffi saman við og hrærið þar til deigið er orðið slétt. Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í 30-35 mínútur. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á.

Krem:

Bræðið smjör í potti og hrærið kakó saman við þar til blandan er slétt. Hellið súkkulaði- og smjörblöndunni yfir í skál og bætið vanilludropum og flórsykri saman við. Hrærið að lokum mjólkinni saman við í smáum skömmtum þar til réttri áferð er náð.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Pasta með salami og blaðlauki

Pasta með salami og blaðlauki

Fyrsti í aðventu er um helgina og því langþráð helgi að renna upp. Hér er búið að bíða með eftirvæntingu eftir aðventukaffinu síðan í lok sumars og núna þegar loksins er komið að þessu þá verður Malín að vinna og Gunnar á æfingu um miðjan sunnudaginn. Við þurfum því að finna góða lausn á málinu. Annað hvort höfum við aðventumorgunkaffi eða kvöldkaffi. Bæði hljómar vel í mínum eyrum.

Pasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlauki

Við ætlum að setja aðventuljósin í gluggana um helgina og jafnvel fær smá jólaskraut að koma úr kössunum. Aldrei þessu vant er ég búin að kaupa allar jólagjafirnar og pakka þeim inn, þannig að desembermánuður mun vera laus við hlaup á milli verslanna og aðallega snúast um að njóta lífsins. Nú þegar eru tvenn jólahlaðborð bókuð ásamt skötuveislu á þorláksmessu og Baggalútstónleikum um miðjan mánuð. Þess á milli ætla ég að dunda mér við smákökubakstur, fara í jólaboð og skemmta mér í jólasaumaklúbbum og vinkonuhittingum. Það sem ég ætla að njóta!

Pasta með salami og blaðlauki

Ég er kannski sein á boltann en ég rakst á ferskt grænmetispasta í búðinni um daginn. Ég vildi að ég hefði uppgötvað það fyrr því pastað er með 40% grænmeti í deiginu og er súpergott! Ég prófaði að nota brokkólípasta í pulsupastaréttinn við miklar vinsældir hjá krökkunum. Í rétti sem inniheldur nánast eingöngu pulsur, rjóma og ost þá var gott að vita af grænmeti þar með.  Síðan prófaði ég gulrótapasta í æðislegan pastarétt og útkoman var svo góð að Jakob spurði hvort við gætum ekki haft þetta á jólunum! Rétturinn passar bæði sem hversdagsréttur eða með góðu hvítlauksbrauði og rauðvíni um helgar. Það tekur svo stuttan tíma að útbúa réttinn og hann er hreint út sagt súpergóður. Vert að prófa!

Pasta með salami og blaðlauki

Pasta með salami og púrrlauk – uppskrift fyrir 4

 • 1 pakki Pastella með gulrótum
 • 100 g Frönsk salami
 • 1/2 blaðlaukur
 • 1,5 dl sýrður rjómi
 • 1,5 dl rjómi
 • 1 msk chilisósa
 • salt og pipar
 • 1 kúla af ferskum mozzarella

Hitið ofninn í 200°.

Sjóðið pastað í söltu vatni í 2-3 mínútur. Leggið til hliðar.

Skerið salami í strimla og hakkið blaðlaukinn. Steikið á pönnu við miðlungsháan hita þar til laukurinn er farinn að mýjkjast. Bætið sýrðum rjóma, rjóma og chilisósu á pönnuna og smakkið til með salti og pipar. Bætið pastanu út í sósuna og blandið vel saman. Setjið yfir í eldfast mót og leggið sneiddan mozzarella yfir. Bakið þar til osturinn hefur bráðnað.

Pasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlauki

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Sænskur heimilismatur eins og hann gerist bestur!

Kálbúðingur

Svakalega hefur kólnað hratt undanfarna daga. Ég sest ekki orðið upp í bílinn án þess að setja hitann á sætinu í botn og þegar ég fór í stutta göngu í gærkvöldi hélt ég að nefið myndi detta af mér. Það er á svona köldum dögum sem mér þykir góður heimilismatur sérlega lokkandi og þegar ég eldaði þennan dásamlega heimilismat um daginn fannst mér lífið svo ljúft, þrátt fyrir kuldann og skammdegið.

Kálbúðingur

Uppskriftin fylgir mér frá Svíþjóðarárunum og er alveg hreint æðislega góð. Þennan rétt þekkja allir sem hafa dvalið í Svíþjóð þar sem hann er vinsæll hversdagsmatur. Rétturinn er svo einfaldur og góður að mér finnst að allir ættu að prófa hann. Ég ber réttinn fram með bestu rjómasósunni (ekki sleppa henni, hún passar svo vel með), kartöflum, sultu og hrásalti fyrir þá sem það vilja. Haustleg og dásamlega góð máltíð!

Kálbúðingur

 • 1 lítill hvítkálshaus (um 1 kg)
 • smjör til að steikja í
 • 1-2 dl vatn
 • 2 msk síróp
 • salt
 • 400 g nautahakk
 • 1 egg
 • ca 1 tsk Kød & Grill krydd (eða annað krydd)
 • 1 dl vatn
 • salt og pipar

Skerið hvítkálið í litla bita og steikið þá í smjöri. Setjið smá vatn annað slagið á pönnuna svo hvítkálið brenni ekki. Saltið og piprið. Þegar hvítkálið er orðið mjúkt þá er sírópi helt yfir og látið steikjast í nokkrar mínútur til viðbótar.

Blandið nautahakki saman við egg, vatn og krydd.

Setjið helming af hvítkálinu í botn á eldföstu móti. Setjið hakkblönduna yfir og sléttið yfirborðið. Setjið seinni helminginn af hvítkálinu yfir. Bakið við 175° í um 45 mínútur. Ef hvítkálið gerir sig líklegt til að brenna þá er álpappír settur yfir.

Rjómasósa

 • 3 dl rjómi
 • 1,5 dl sýrður rjómi
 • 1 kjúklingakraftsteningur
 • 1 msk sojasósa
 • 1 msk rifsberjahlaup
 • 1 msk hveiti, hrært saman við smá vatn (eða sósuþykkir)
 • salt og pipar

Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur og smakkið til.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

 

Vikumatseðill

 

Vikumatseðill

Um næstu helgi hefst aðventan og ég get varla beðið. Krakkarnir bíða spennt eftir hefðbundna aðventukaffinu okkar með nýböuðum eplaskífum með sultu og rjóma og heitu súkkulaði með helling af rjóma og súkkulaðispæni. Ég get ekki hugsað mér neitt betra! Það er þó heil vika í herlegheitin sem þarf að skipuleggja og undirbúa. Ég undirbý vikuna líkt og áður með því að gera vikumatseðil og stórinnkaup. Mér þykir alltaf jafn góð tilfinning að vita af ísskápnum stútfullum fyrir vikuna.

Vikumatseðill

Fiskur undir krydduðum osta- og rasphjúp

Mánudagur: Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp

Gúllassúpa með nautahakki

Þriðjudagur: Gúllassúpa með nautahakki

Pulsu- og makkarónuskúffa

Miðvikudagur: Pulsu- og makkarónuskúffa

Tortillakaka með kjúklingi

Fimmtudagur: Tortillakaka með kjúklingi

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Föstudagur: Tortellini með brúnuðu salvíusmjöri

Nutellaformkaka

Með helgarkaffinu: Nutellaformkaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Ostabakki

OstabakkiOstabakkiOstabakki

Þá er aftur komið fimmtudagskvöld og bara einn vinnudagur eftir áður en helgarfríið skellur á. Þessa helgina verða strákarnir ekki heima og þá er nánast alltaf það sama í kvöldmatinn hjá okkur Hannesi, ostar og rauðvín. Áður en ég kynntist Hannesi drakk ég ekki rauðvín en hann var fljótur að koma mér á bragðið, enda mikill rauðvínsmaður. Þær helgar sem við erum bara tvö höfum við því oftar en ekki fengið okkur bíltúr í Ostabúðina eða í ostaborðið í Hagkaup (mér þykir það eiginlega betra, bæði bjóða þeir upp á meira úrval og betra verð) og eytt kvöldinu sitjandi við eldhúsborðið yfir kertaljósi, ostum og rauðvíni. Malín furðar sig oft á því hvað við getum setið lengi yfir þessu en það er bara svo notalegt!

OstabakkiOstabakkiOstabakki

Mér datt í hug að gefa hugmyndir af ostabakka, eða öllu heldur að deila með ykkur því sem við viljum hafa á ostabakkanum. Þar sem Hannes er rauðvínsspekúlantinn þá kem ég sjaldan nálægt því vali, hann sér eiginlega alfarið um það. Við höfum þó í sumar smakkað að ég held allt Alegro vínið sem Hrefna Rósa Sætran og Emil Hallfreðsson eru að flytja inn og verið ánægð með. Varðandi ostabakkann þá er gott að hafa í huga að velja frekar færri osta en fleiri. Það er engin þörf á 10 tegundum af ostum heldur er betra að kaupa 2-3 osta til að gera vínvalið auðveldara. Passið líka að taka ostana tímalega fram. Það er ekkert varið í kalda osta heldur eru þeir bestir eftir að hafa staðið við stofuhita í 2-3 tíma áður en þeir eru borðaðir. Síðan má hafa í huga að þó að ostar og rauðvín fari vel saman þá passar þurrt og sætt hvítvín líka stórvel með ostum.

OstabakkiOstabakki

Nú er ég enginn snillingur í efninu en það sem við höfum oftast á ostabakkanum er:

 • Primadonna (í rauðu umbúðunum). Uppáhald og ómissandi á ostabakkann.
 • Hvítmygluost, t.d. Auði, Ljúfling, Stóra Dímon eða Gullost.
 • Blámygluost, t.d. Ljótur (ég hef í sjálfu sér litla skoðun á þessu þar sem það er aðallega Hannes sem borðar blámygluostinn).
 • Góðar sultur. Sulturnar frá St. Dalfour eru í algjöru uppáhaldi!
 • Chorizo, góð hráskinka og sterkar pylsur. Áleggið frá Espuña og Ítalíu er gott (bæði fæst í Hagkaup)
 • Gott súkkulaði! Dökkt súkkulaði frá Himnesk með stökkri karamellu og sjávarsalti er æði en fæst því miður allt of sjaldan. Dökkar súkkulaðirúsínur fylla ósjaldan í skarðið í fjarveru þess.
 • Snittubrauð. Ég kaupi nýbakað snittubrauð og hita það aðeins áður en ég sker það niður og ber fram.
 • Þegar við vorum í Brussel í vor keyptum við „cheese baker“ sem er eldfast mót með loki, sem passar utan um osta á stærð við camembert. Þetta höfum við ósjaldan notað og það er æðislegt að hita camembert með smá karrý, hökkuðum pekanhnetum og mango chutney yfir. Ég mæli með að fjárfesta í slíku ef þið rekist á það.
 • Ólívur og pestó getur verið gott að hafa með (antipasti barinn í Hagkaup kemur hér sterkur inn)
 • Gott vín.

Síðan er auðvitað alltaf huggulegt að kaupa afskorin blóm til að fegra borðið og kveikja á kertum. Að því sögðu óska ég ykkur góðrar helgar!

Ostabakki

HAGKAUP