Plankasteik

Plankasteik

Mig hefur lengi langað að eignast steikarplanka en ekki látið verða af því að kaupa þá, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki vitað hvar þeir fást. Þegar við síðan vorum í Stokkhólmi um daginn datt ég niður á svo fína planka að við slógum til og keyptum þá. Um helgina vígðum við plankana með nautasteik, bearnaise, kartöflumús og góðu rauðvíni í glasinu. Þvílík veisla!

Plankasteik

Þar sem Gunnar var að keppa í fótboltanum um kvöldið komum við seint heim. Við gerðum okkur því einfalt fyrir og keyptum tilbúna bearnaise sósu á Askinum fyrr um daginn. Mér þykir sósan þar alveg æðislega góð og hef stundum rennt þar við og keypt hana þegar ég vil einfalda matargerðina. Annars er uppskriftin sem ég nota þegar ég geri sósuna sjálf hér. Kartöflumúsina gerði ég áður en við fórum á leikinn og því tók skamma stund að klára réttinn eftir að við komum heim.

Plankasteik

Nú veit ég ekki hvar steikarplankar fást hér heima en dettur helst í hug Kokka, Duka eða jafnvel Byggt og búið eða Byko. Ef einhver veit hvar þeir fást þá eru allar ábendingar vel þegnar. Ég mun uppfæra færsluna með upplýsingunum ef niðurstaða fæst í málið!

Uppfært: Á Facebook síðu bloggsins var bent á að plankarnir fáist í Grillbúðinni og arius.is

Plankasteik

 • 4 steikarplankar
 • 4 tómatar
 • salt
 • 600 g nautakjöt
 • salt og pipar
 • 1 búnt ferskur grænn aspas
 • bearnaisesósa (keypt tilbúin eða heimagerð, uppskriftin er hér)

Kartöflumús

 • 1 kg kartöflur
 • 2 dl rjómi eða mjólk
 • salt og pipar

Afhýðið kartöflurnar, skerið þær í bita og sjóðið í söltu vatni þar til þær eru orðnar mjúkar (það tekur um 10-15 mínútur). Hellið vatninu frá og notið kartöflupressu til að pressa kartöflurnar. Hrærið mjólk eða rjóma saman við og smakkið til með salti og pipar. Kartöflumúsin má vera örlítið blaut í sér svo hægt sé að sprauta henni á plankann og hún verði ekki of þurr í ofninum.

Skerið toppinn af tómötunum þannig að um tveir þriðju standa eftir. Setjið tómatana í dældina á plankanum, saltið sárið og setjið í 200° heitann ofn (225° ef það er ekki blástursofn) í um 20 mínútur.

Á meðan tómatarnir eru í ofninum eru kjötið og aspasinn undirbúið. Skerið endann af stilkanum af aspasnum. Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Saltið vatnið og leggið aspasinn í, látið sjóða í 2-3 mínútur. Skerið kjötið í passlegar sneiðar og steikið á háum hita á grillpönnu. Saltið og piprið.

Þegar tómatarnir hafa verið í ofninum í um 20 mínútur eru þeir teknir út. Sprautið kartöflumúsinni fyrir innan röndina á plankanum. Leggið kjötið fyrir innan kartöflumúsina og aspasinn við hliðina á kjötinu. Hækkið hitann á ofninum í 250° (275° ef það er ekki blástursofn) og setjið plankana inn í ofninn i um 12 mínútur. Setjið bearniessósu yfir og berið strax fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Ég elska þegar Hannes kemur heim á föstudögum með helgarblóm. Hann kaupir alltaf svo veglega vendi og oftar en ekki standa þeir fallegir alla vikuna.

Í dag er planið að taka geymsluna í gegn og fara í Epal að kíkja á lampa. Ég er spenntari fyrir því seinna en verð þó fegin þegar geymslan verður orðin fín. Síðan bíða vikuinnkaup. Fyrst af öllu kemur þó vikumatseðillinn!

Vikumatseðill

Mexíkófiskur

Mánudagur: Mexíkófiskur

Pulsu- og makkarónuskúffa

Þriðjudagur: Pulsu- og makkarónuskúffa

Tacos með rauðum linsubaunum

Miðvikudagur: Tacos með rauðum linsubaunum

Gúllassúpa með nautahakki

Fimmtudagur: Gúllassúpa með nautahakki

Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Með helgarkaffinu: Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Súpergott sýrópsbrauð

Súpergott sýrópsbrauð

Síðasta laugardag bakaði ég æðislegt brauð sem við lifðum á yfir helgina. Ég nýt enn góðs af því og sit hér með morgunmatinn minn yfir tölvunni, nýristaða brauðsneið með miklu smjöri og osti. Uppskriftin er nefnilega svo stór að það er upplagt að skera brauðið niður og frysta það á meðan það er enn svolítið volgt. Klikkgott!

Súpergott sýrópsbrauð

Sýrópsbrauð

 • 1 líter súrmjólk eða ab-mjólk
 • 400 g rúgmjöl
 • 600 g hveiti
 • 3 dl sýróp
 • 4 tsk matarsódi
 • 2 tsk lyftiduft

Setjið súrmjólk og sýróp í stóra skál og hrærið saman þar til hefur blandast vel. Bætið öllum öðrum hráefnum í og hrærið saman í kekkjalaust deig. Setjið deigið í smurt (eða bökunarpappírsklætt) eldfast mót í stærðinni 25 x 30 cm. Látið inn í kaldann ofn. Kveikið því næst á ofninum og hitið hann upp í 150°. Bakið brauðið í um klukkustund frá því að það er sett inn í kalda ofninn. Ef þið notið hitamæli í brauðið þá er það tilbúið við 97°.

Súpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauð

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Karamellubrúnkur með botni úr saltstöngum

Karamellubrúnkur með saltstöngum

Mér þykir vikan hafa flogið frá mér og nú er helgin handan við hornið. Ég var í matarboði í gær, fer í saumaklúbb í kvöld og annað kvöld ætlum við Hannes út að borða þannig að það fer lítið fyrir eldamennskunni hjá mér þessa dagana. Þegar ég var með saumaklúbbinn hjá mér fyrir jól var ég með eftirrétt sem var hálf misheppnaður en þó á sama tíma mjög lofandi. Það sem klikkaði var að karamellan sauð of lengi og varð því of hörð. Nú hef ég hins vegar gert kökuna aftur og í þetta sinn varð karamellan svo passlega mjúk og kakan svo æðislega góð að ég verð að koma uppskriftinni hingað inn. Þunnur og stökkur botn úr saltstöngum, mjúk brúnka sem er örlítið blaut í sér og mjúk karamella með sjávarsalti yfir. Svo ólýsanlega gott. Það er þess virði að bruna út í búð og kaupa hitamæli til að karamellan verði fullkominn. Annars þarf að passa vel að sjóða hana ekki of lengi!

Karamellubrúnkur með saltstöngum

Karamellubrúnkur með botni úr saltstöngum – uppskrift úr Buffé

Botn:

 • 125 g saltstangir
 • 75 g smjör, brætt
 • 2 tsk sykur

kaka:

 • 400 g suðusúkkulaði (eða 70% súkkulaði)
 • 175 g smjör
 • 5 egg
 • 4 ½ dl púðursykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 1 tsk salt
 • 1 ½ dl hveiti (90 g)

Karamella

 • 50 g smjör
 • 1 ½ dl sykur
 • 1 ½ dl rjómi
 • 3/4 dl sýróp
 • 2 tsk maldonsalt

Hitið ofn í 175°. Byrjið á botninum. Vinnið saltstangirnar, smjör og sykur saman í matvinnsluvél í grófa mylsnu. Þrýstið mylsnunni í botninn á eldföstu formi í stærðinni 25 x 30 cm, sem hefur verið klætt bökunarpappír. Bakið í miðjum ofni í 6 mínútur. Takið út og látið kólna.

Karamellubrúnkur með saltstöngumKaramellubrúnkur með saltstöngum

Kakan: Grófhakkið súkkulaðið og bræðið ásamt smjöri í skál yfir vatnsbaði. Leggið til hliðar og látið kólna aðeins. Hrærið egg, púðursykur, vanillusykur og salt saman þar til blandan er orðin létt í sér. Bætið súkkulaðismjörinu saman við á meðan hrært er í blöndunni. Siktið hveitið í deigið og hrærið saman í slétt deig. Hellið deiginu yfir botninn og bakið í miðjum ofni í 30-35 mínútur. Kakan á að vera aðeins blaut í sér. Látið kökuna kólna áður en karamellan er sett yfir.

Karamella: Setjið smjör, sykur, rjóma og sýróp í pott. Látið suðuna koma upp og sjóðið á miðlungshita þar til 120° er náð. Hrærið annað slagið í pottinum.

Hellið karamellunni yfir kökuna og dreifið úr henni þar til hún myndar jafn lag yfir kökunni. Stráið maldonsalti yfir. Látið kólna í ísskáp og skerið síðan í smáa bita.

Karamellubrúnkur með saltstöngum

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Salamibaka með fetaosti

Salamibaka með fetaosti

Ég er svo ánægð með að þriðja sería af Skam er komin inn á RÚV og get ekki beðið eftir að sjá hana. Eruð þið búin að horfa á þessa þætti, sem hafa orðið svo vinsælir að rauðir varalitir rjúka úr hillum verslana og unglingar um alla Skandinavíu eru farnir að sletta á norsku? Við horfðum á fyrstu tvær seríurnar á einu bretti og höfum síðan beðið spennt eftir þeirri þriðju. Núna er hún loksins komin inn á RÚV með íslenskum texta. Besta sem við höfum séð í langan tíma!

Salamibaka með fetaosti

Ég má til með að gefa uppskrift af æðislegri böku sem við vorum með í kvöldmat um daginn. Ég bar hana fram með salati sem ég setti bæði olíu af fetaostinum og smá balsamik gljáa yfir. Ég ætlaði ekki að geta hætt að borða. Léttur kvöldverður og ef heppnin er með þér og það verður afgangur þá passar bökusneið vel í hádeginu daginn eftir. Súpergott!

Salamibaka með fetaosti

Salamibaka með fetaosti

Botninn:

 • 3 dl hveiti (eða hveiti og heilhveiti til helminga)
 • 125 g smjör
 • 2 ½ msk kalt vatn

Skerið smjörið niður og setjið í skál ásamt hveitinu. Látið skálina standa í smá stund svo smjörið mýkist aðeins. Blandið saman með höndunum eða handþeytara. Bætið köldu vatni saman við og vinnið saman í slétt deig. Þrýstið deiginu i botn á bökuformi (eða lausbotna kökuformi) og stingið með gaffli yfir botninn. Látið standa í ísskáp í 20 mínútur, eða á meðan fyllingin er útbúin.

Salamibaka með fetaosti

Fylling:

 • 1 rauðlaukur (eða 1 lítill púrrulaukur)
 • 1 hvítlauksrif
 • um 120 g salami
 • 150 g fetaostur
 • 250 g kirsuberjatómatar
 • ½ dl fersk hökkuð basilika eða 1 msk þurrkuð
 • 2 dl rifinn ostur
 • 3 egg
 • 2 ½ dl rjómi
 • ¾ tsk salt
 • smá af svörtum pipar

Fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið lauk og hvítlauk í smjöri þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Skerið salami í strimla, fetaostinn í teninga (ef notaður er fetakubbur) og tómatana í tvennt. Ef notuð er fersk basilika þá er hún hökkuð.

Takið bökubotninn úr ísskápnum og setjið lauk og hvítlauk yfir hann. Setjið þar á eftir salami, fetaost, tómata og basiliku yfir. Stráið rifnum osti yfir.

Hrærið saman eggjum, rjóma, salti og pipar. Hrærið saman þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir bökuna. Bakið í neðri hluta ofnsins við 200° í um 40 mínútur eða þar til bakan hefur fengið fínan lit. Berið fram með salati.

Salamibaka með fetaosti

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

VikumatseðillVikumatseðill

Í morgunn vökuðum við Jakob snemma og gerðum okkur góðan morgunverð. Hér vakna krakkarnir nánast aldrei fyrir hádegi lengur og því um að gera að grípa tækifærið þegar það loksins gefst. Eftir morgunmatinn fór Jakob að læra og ég að skrifa vikumatseðil. Ég er núna fyrst að detta almennilega í rútínu eftir jólin og víst ekki seinna vænna. Ég er með nokkrar góðar uppskriftir sem ég ætla að setja inn í vikunni en fyrst af öllu kemur loksins vikumatseðill!

Vikumatseðill

Fiskur með gulrótum í ljúffengri sósu

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Quiche Lorraine

Þriðjudagur: Quiche Lorraine

Kálbúðingur

Miðvikudagur: Kálbúðingur

Pylsupasta sem rífur í

Fimmtudagur: Pulsupasta sem rífur í 

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Föstudagur: Klúbbsamloka með sweet chili majónesi

Sænskar pönnukökur

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Stokkhólmur

Stokkhólmur

Það hefur verið rólegt hér á blogginu undanfarna daga þar sem við Hannes skelltum okkur í helgarferð til Stokkhólms. Eftir að ég póstaði mynd úr ferðinni á Instagram var ég beðin um Stokkhólmsfærslu sem ég ákvað að setja strax inn. Stokkhólmur er ein af mínum uppáhalds borgum. Strákarnir mínir eru fæddir í Svíþjóð og við bjuggum bæði í Uppsölum og Stokkhólmi í fjögur ár. Það er því alltaf notalegt tilfinning að koma þangað.

StokkhólmurStokkhólmurStokkhólmurStokkhólmurStokkhólmur

Við vorum síðast í Stokkhólmi í maí og gistum þá á Berns hotel. Núna gistum við á Haymarket sem hefur verið hælt mikið á sænskum bloggum síðan það opnaði í maí. Staðsetningin er frábær og hótelbarinn er þéttsetinn frá hádegi og fram á nótt. Þar er lifandi jazztónlist á kvöldin og stemningin er æðisleg. Á hótelinu er einnig kaffihús og veitingastaður sem hefur fengið góða dóma. Frábært hótel í alla staði!

StokkhólmurStokkhólmurStokkhólmur

Það er mikið af góðum veitingastöðum í Stokkhólmi og vandamálið er að velja úr þeim. Það eru þó nokkrir staðir sem eru í uppáhaldi:

 • Sturehof er elsti sjávarréttarstaður Stokkhólms. Ég fer þangað í hverri Stokkhólmsferð og panta alltaf það sama, toast skagen og hvítvínsglas. Ég fer helst í hádeginu og á sumrin bið ég um borð úti. Þar er auðveldlega hægt að sitja fram á kvöld og fylgjast með mannlífinu.
 • Riche. Hér fæ ég mér sænskar kjötbollur og enda máltíðina á klassíska sænska eftirréttinum Gino. Súpergott!
 • Berns Aisatiska. Góður matur undir stórum kristalljósakrónum í fallegu umhverfi. Líf og fjör!
 • Farang. Ég borðaði þar í fyrsta sinn núna eftir að vinkonur mínar mæltu með honum. Prófið Farang meny eða Meny Fan Si Pan. Matarupplifun sem gleymist seint.

StokkhólmurStokkhólmur

Stokkhólmur

Síðan er nóg af góðum skyndibitum í Stokkhólmi. Ég mæli með:

 • Vapiano. Ítalskur matur sem svíkur engann. Hér færðu góðar pizzur og æðislegt pasta. Við höfum dottið hér inn á milli búða og pantað okkur ostabakka, bruchetta og rauðvín á meðan við hvílum fæturnar.
 • Burger and lobster. Einfaldur matseðill þar sem einungis hamborgari og humar eru í boði. Verðið er það sama á báðum réttunum, 285 sek. Gott!
 • Phils burger er vinsæll hamborgarastaður sem margir líkja við Shake Shack.
 • Max hamburger. Svo margfalt betri en McDonalds. Melted cheddar dip er möst með frönskunum. Ég kaupi minn á flugvellinum á heimleiðinni.

Stokkhólmur

StokkhólmurStokkhólmurStokkhólmur

Það væri synd að fara til Svíþjóðar án þess að fá sér kanilsnúð. Fyrir alvöru snúð er Saturnus málið!

Stokkhólmur

Hvað verslun varðar þá má finna allar helstu búðir í Stokkhólmi. Ég eyði góðum tíma í NK sem er á Hamngatan. Þar er hægt að þræða hverja hæðina á fætur annarri og setjast niður á kaffihúsin inn á milli. Í kjallaranum er matvörubúð sem ég kem alltaf við í. Síðan fer ég yfir á Biblioteksgatan þar sem m.a. Cos, And other stories og Sephora eru. Þar á eftir fer ég í Sturegallerian þar sem m.a. Massimo Dutti er að finna. Lagerhaus er við hliðina á Sturegallerian, þar má finna ýmislegt skemmtilegt fyrir heimilið. Uppáhalds búðin mín er síðan Svenskt tenn. Þangað fer ég alltaf og kem aldrei tómhent út. Í miðbænum eru einnig Gallerian og Mood  (ég er hrifnari af Mood). Södermalm er skemmtilegt hverfi sem gaman er að rölta um og fyrir þá sem vilja komast í góða verslunarmiðstöð þá er Mall of Scandinavia málið. Lestin fer beint úr miðbænum og stoppar þar beint fyrir utan.

Stokkhólmur

Ég fer sjaldan á söfn en Moderna museet og Fotografiska museet eru bæði í göngufæri við miðbæinn og á báðum stöðum er hægt að gera góð kaup í gjafaverslunum (það er t.d. gott úrval af plakötum á Fotografiska). Eins er Vasasafnið skemmtilegt og ef börn eru með í för þá eru Junibacken og Skansen ómissandi. Eins er Gröna Lund tívolígarðurinn skemmtilegur. Á vorin er fallegt að sjá kirsuberjatréin í blóma í Kungsträdgården og Humlegården stendur alltaf fyrir sínu á hlýrri dögum. Allt er þetta í göngufæri við miðbæinn.

 

HAGKAUP