Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur

Í gær dundaði ég mér við að gera þessar sérlega góðu kókoskúlur. Það sem gerir þær svo dásamlega góðar er að það er bæði brætt súkkulaði í deiginu og utan um kókoskúlurnar. Súkkulaði gerir allt aðeins betra, þannig er það bara! Það er upplagt að gera tvöfaldan skammt og geyma í frysti því það er bara svo gott að geta nælt sér í eina kókoskúlu til að eiga með kaffibollanum. Annars er best að geyma þær í ísskáp en þá er hætta á að þær klárist einn, tveir og tíu!

Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur (uppskriftin gefur um 25 kúlur)

 • 4 dl haframjöl (ég var með tröllahafra en hvaða haframjöl sem er dugar)
 • 100 g smjör
 • 1,5 dl flórsykur
 • 2 msk kakó
 • 2 msk sterkt kaffi (kalt)
 • 1/2 msk vanillusykur
 • 50 g rjómasúkkulaði

Utan um kókoskúlurnar:

 • 200 g súkkulaði (ég var með rjómasúkkulaði og suðusúkkulaði til helminga)
 • kókosmjöl

Setjið haframjöl í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til haframjölið er fínmalað. Bætið smjöri, flórsykri, kakó, kaffi og vanillusykri saman við og vinnið saman í sléttan massa. Bræðið súkkulaðið og látið kólna. Bætið því síðan vel saman við massann.

Mótið kúlur, leggið þær á smjörpappír og látið standa í frysti í um 30 mínútur.

Bræðið súkkulaðið og setjið kókosmjöl í skál. Dýfið kókoskúlunum, einni í einu, í brædda súkkulaðið og veltið þeim síðan upp úr kókosmjölinu (mér þótti best að nota teskeið til að setja kúluna í súkkulaðið og var síðan með gaffal í kókosmjölinu, byrjaði á að moka kókosmjöl yfir kúluna og velti henni síðan um í kókosmjölinu). Geymið kókoskúlurnar í ísskáp eða frysti.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Boston!

Þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust áttað sig á því að ég var í fríi í Boston, sem skýrir fjarveruna hér á blogginu. Hannes þurfti að fara þangað á fundi og við ákváðum að gera smá frí úr ferðinni. Það sem við höfðum það gott! Hannes var flesta morgna á fundum en var alltaf kominn að hitta mig fljótlega upp úr hádegi. Ég nýtti tímann á meðan í dekur á snyrtistofunni og rölt um Boston með viðkomu í nokkrum vel völdum verslunum.

Við gistum á The Colonnade hótelinu sem er vel staðsett og með allt í göngufæri. Morgunmaturinn á hótelinu er dásamlegur og við nýttum okkur herbergisþjónustuna óspart. Herbergið okkar var rúmgott og með útsýni yfir Boston og það var ósköp notalegt að byrja dagana þar með morgunverðinn við gluggann.


Handan við hornið er upplagt að fara í hand- og fótsnyrtingu. Bara nokkur skref frá hótelinu og opnar snemma. Mér fannst æðislegt dekur að skottast þangað eftir morgunverðinn og fá snyrtingu og fótanudd morguninn eftir að við komum út.

  

 
Á móti hótelinu, í Prudential verslunarmiðstöðinni, er æðislegur matarmarkaður, Eataly. Þar settumst við niður á hverjum degi og fengum okkur osta, skinkur og vínglas. Það var svo notalegt að sitja þar við barinn og gæða sér á matnum. Mæli með því! Síðasta daginn versluðum við góðgæti og æðislegt rauðvín sem við tókum með okkur heim.


Annar staður sem ég mæli með er Taj Boston sem er á horni Newbury og Arlington. Þar inni er æðislegur bar sem er notalegt að setjast á eftir að hafa rölt um bæinn. Við fórum tvisvar þangað, í annað skiptið settumst við inn í drykk eftir að hafa rölt bæinn þveran og endilangan og í seinna skiptið fórum við í kampavín. Þarna er boðið upp á bestu hnetur sem ég hef smakkað. Ég borðaði mig sadda af þeim í bæði skiptin.

Það er nú varla hægt að fara til Ameríku án þess að fara á steikhús. Við fórum á Capital Grille og fengum okkur nautalund og humar, trufflufranskar og kartöflugratín. Brjálæðislega gott!

 

Kvöldið sem við komum út fórum við á Cheesecake factory, sem var beint á móti hótelinu okkar. Við fengum svo góðan mat (spicy cashew chicken og thai coconut-lime chicken) að það hálfa væri nóg. Við tókum síðan eftirréttinn, ostakökusneið, með okkur upp á hótel. Þæginlegt að þurfa bara að rölta yfir götuna, sérstaklega þar sem við vorum hálf þreytt eftir ferðalagið.

Mig hefur lengi langað til að smakka hin margrómaða Shake Shack borgara en get ekki sagt að hann hafi staðið undir væntingum. Borgarinn var hvorki fugl né fiskur en ostafranskarnar voru hins vegar æðislega góðar.

Við áttum yndislega daga í Boston og móttökurnar sem biðu okkur heima gátu ekki verið betri. Þegar við komum heim var búið að þrífa allt hátt og lágt, skipta um á rúmunum og á borðinu beið nýbakað bananabrauð. Yndisgull sem ég á ♥

Vikumatseðill

Það er svo dásamlegt að koma fram á morgnanna þessa dagana og mæta dagsbirtunni sem skín inn um gluggana. Þegar ég kom fram í morgun skein sólin inn og helgarblómin sem Hannes keypti á föstudaginn stóðu svo fallega í birtunni. Hann á hrós skilið fyrir hversu fallega vendi hann kaupir fyrir helgarnar. Hann veit hvað það gleður mig að hafa afskorin blóm hér heima og er lunkinn við að velja í fallega vendi. Yndislegur ♥

Vikumatseðill

Mánudagur: Brasilískur fiskréttur

Þriðjudagur: Salamibaka með fetaosti

Miðvikudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Fimmtudagur: Þunnbrauðsvefja með pulsu og kartöflumús

Föstudagur: Indverskur Butter Chicken

Með helgarkaffinu: Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Nautahakkshamborgarar

Í kvöld fer lítið fyrir eldamennskunni hjá mér því ég er að fara í saumaklúbb. Áður en ég fer ætla ég þó að hendast í Hagkaup í Smáralindinni því ég sá að það er 20% afsláttur af snyrtivöru þar í kvöld út af konukvöldi. Tímasetningin gæti ekki verið heppilegri því ilmvatnið mitt er að klárast og augnblýanturinn er á síðustu metrunum. Síðan má alltaf á sig glossum bæta, sérstaklega þegar það er afsláttur. Áður en ég hleyp út má ég þó til með að setja inn uppskrift af nautahakkshamborgurum sem mér þykja passa svo vel á helgarmatseðilinn. Ég sá þá fyrir löngu á Pinterest og lét loksins verða af því að elda þá um daginn. Einfaldir og súpergóðir!

Nautahakkshamborgarar – lítillega breytt uppskrift frá Kevin & Amanda

 • 450 g nautahakk
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk pepper
 • 1 tsk kúmin (ath. ekki kúmen)
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk reykt paprika
 • 2 bollar hakkaður laukur (ca 1 stór eða 2 litlir laukar)
 • 3-4 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 2 dl hakkaðir tómatar í dós með chili (ég var með frá Hunts)
 • 1 tsk sykur
 • 1 nautateningur
 • ostur (ég var með cheddar ost)
 • 6 hamborgarabrauð

Gljái

 • 1/2 bolli (8 msk) smjör
 • 2 msk púðursykur
 • 1 msk Worcestershire sósa
 • 1 msk sinnep
 • 1 msk sesamfræ

Hitið ofninn í 175° og smyrjið eldfast mót sem rúmar 6 hamborgarabrauð.

Hitið pönnu vel og setjið hakkið á pönnuna. Látið það brúnast vel og kryddið með salti, pipar, kúmin, sinnepsdufti og reyktri papriku. Bætið lauk og hvítlauk á pönnuna og steikið áfram þar til laukurinn er mjúkur. Hrærið hökkuðu tómötunum saman við og látið sjóða saman í smá stund.

Setjið neðri helmingana af hamborgarabrauðunum í eldfasta mótið. Setjið nautahakkið yfir og ost í sneiðum (gott að setja vel af honum). Setjið lokin af hamborgarabrauðunum yfir.

Setjið öll hráefnin í gljáann í pott og hitið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið yfir hamborgarana og setjið í ofninn í um 25 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Tælenskt kjúklingapasta frá California Pizza Kitchen

Við Hannes erum á leið til Bandaríkjanna síðar í mánuðinum og ég hef undanfarin kvöld verið að skoða veitingastaði þar. Ég bóka alltaf borð áður en ég fer erlendis, bæði því mér þykir svo gaman að vera búin að hugsa út staði til að borða á og líka til að koma í veg fyrir að við endum dauðþreytt eftir daginn á næsta nálæga veitingastað. Reynslan hefur kennt okkur að panta borðin seint, þar sem við erum oftast á þvælingi langt fram eftir degi. Það er svo notalegt að komast aðeins upp á hótel, henda sér í sturtu og jafnvel fá sér einn drykk á meðan verið er að hafa sig til fyrir kvöldið.

Ég sé oftast til þess að ná einni ferð á California Pizza Kitchen þegar ég er í Bandaríkjunum en þangað fer ég helst í hádeginu. Það var á tímabili frábær pizza á matseðlinum hjá þeim sem ég síðar fann uppskrift af á netinu og eldaði hér heima. Það er dálítið tímafrekt að gera hana en mér þykir pizzan svo góð og vel þess virði að leggja smá á sig fyrir hana. Uppskriftina setti ég hingað inn fyrir löngu, það má finna hana hér.

Í þessum hugleiðingum rifjaðist upp fyrir mér uppskrift af tælensku kjúklingapasta frá California Pizza Kitchen sem hefur gengið um á netinu. Mér þótti því áhugavert að prófa uppskriftina og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þessi pastaréttur sló svo í gegn hér heima að ég get ekki hætt að hugsa um hann. Þennan rétt á ég eftir að elda aftur og aftur, svo mikið er víst!

Tælenskt kjúklingapasta – uppskrift frá California Pizza Kitchen

 • 450 g spaghetti
 • 3 msk sesam olía
 • 1 bolli gulrætur, skornar í strimla
 • 2 bollar kínakál, skorið í strimla
 • 2 bollar eldaðar kjúklingabringur, skornar í bita
 • 8 vorlaukar
 • 5 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 msk rifið engifer
 • 1/4 bolli hunang
 • 1/4 bolli hnetusmjör (creamy)
 • 1/4 bolli sojasósa
 • 3 msk hrísgrjónaedik
 • 1 – 1,5 msk sriracha hot chilli sósa

Setjið vatn í rúmgóðan pott og hitið að suðu. Bætið 1-2 msk af salti út í vatnið. Bætið spaghetti í pottinn og sjóðið skv. leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá og hrærið 2 msk af sesamolíu saman við spaghettíið.

Þurrkið pottinn og setjið 1 msk af sesamolíu í hann. Setjið vorlauk (takið fyrst smá af honum frá til að setja yfir réttinn sem skraut), gulrætur, kínakál, kjúkling, hvítlauk og engifer í pottinn. Steikið í 1-2 mínútur og bætið þá hunangi, hnetusmjöri, sojasósu, ediki og Sriracha sósu í pottinn. Hærið öllu vel saman og bætið að lokum spaghettíinu í pottinn. Blandið öllu vel saman. Skreytið með vorlauk og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

 

 

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Góðan daginn!

Ég sit hér við eldhúsborðið í náttsloppnum og ætla að drífa mig á fætur og út í göngutúr um leið og færslan er komin inn. Veðrið er svo fallegt að það væri synd að nýta það ekki í útivist. Í kvöld ætlum við Hannes á Bestu lög Vilhjálms Vilhjálmssonar tónleikana í Hörpu og síðan á Food and fun á Apótekið. Ég get ekki beðið! Krakkarnir verða hér heima á meðan og ætla að gera sér pizzur. Það er ákveðinn lúxus sem fylgir því að vera með svona stór börn. Malín er að verða 19 ára og því hálf fullorðin. Það er því lítið mál að bregða sér frá.

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Um síðustu helgi vorum við Hannes bara tvö í mat og nýttum því tækifærið til að fá okkur osta og rauðvín. Ég prófaði að gera ostaídýfu úr bræddum ísbúa sem varð svo góð að uppskriftin verður að komast hingað inn. Best er að bera hana fram með góðu kexi eða stökku brauði, t.d. baquette sem hefur verið skorið í sneiðar og ristað á pönnu eða í ofni. Síðan er líka gott að setja smá chilisultu yfir. Vert að prófa!

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoniOstaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

 • 1 laukur, hakkaður
 • 1 tsk sykur
 • 4 beikonsneiðar, eldaðar og hakkaðar
 • 1/2 dl sýrður rjómi
 • 1/2 dl majónes
 • 100 g ísbúi, rifinn
 • salt og pipar

Setjið smá ólífuolíu á pönnu og hitið við lágan hita (ég var með stillingu 3 af 9). Steikið laukinn í 20 mínútur, setjið þá sykur yfir hann og steikið í 45-60 mínútur til viðbótar. Hrærið annað slagið í pönnunni svo laukurinn brenni ekki.

Steikið beikonið (mér þykir best að steikja það í ofni, við 200° í 5-10 mínútur). Látið það kólna aðeins og skerið svo fínt niður.

Blandið saman majónesi, sýrðum rjóma, beikoni, salti og pipar. Hrærið rifnum Ísbúa og karamelluseruðum lauki saman við. Setjið blönduna í lítið eldfast mót, stráið 2 msk af rifnum Ísbúa yfir og bakið við 200° í um 20 mínútur.

Berið heitt fram með kexi eða brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ofnbökuð ostapylsa

Ofnbökuð ostapylsa

Það er nú fátt svo slæmt að því fylgi ekki eitthvað gott og þó að ég hefði glöð viljað sleppa við snjóinn sem kom aðfaranótt sunnudags þá gleðst ég yfir hvað hann bar með sér gott skíðafæri. Eftir vinnu í gær brunuðum við upp í fjall og skíðuðum þar fram á kvöld í blíðskapaveðri. Þvílík sæla!

Ofnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsa

Þar sem við komum seint heim var ákveðið að hafa fljótlegan kvöldverð og urðu pulsur fyrir valinu. Ég má til með að benda ykkur á þessa eldunaraðferð sem lyftir pulsunum upp á hærra plan. Pulsubrauðið er smurt að utan með smjöri og svo lagt opið með smjörhliðina niður á ofnplötu. Vel af rifnum osti er stráð yfir pulsubrauðið. Pulsan er skorin eftir henni endilangri þannig að hún rétt hangi saman og er lögð opin með sárið niður á sömu ofnplötu og pulsubrauðið var sett á. Eftir skamma stund er pulsunni snúið við og síðan að lokum er hún sett í brauðið ásamt meiri osti. Svakalega gott!

Ofnbökuð ostapylsa

Ofnbökuð ostapylsa

 • pulsur
 • pulsubrauð
 • mjúkt smjör
 • pizzaostur
 • cheddarostur

Kveikið á grillinu á ofninum. Smyrjið pulsubrauðin með mjúku smjöri að utan og leggið þau opin á ofnplötu með smjörhliðina niður. Stráið rifnum cheddar og pizzaosti yfir þau (mér þykir gott að hafa mikinn ost, set um 1 dl á hvert brauð). Skerið pulsurnar eftir þeim endilöngum þannig að þær haldast saman en geta legið flatar á ofnplötunni. Setjið þær á ofnplötuna með pulsubrauðunum með flötu hliðina niður. Setjið í ofnin í um 2 mínútur, snúði þá pulsunum við og látið grillast í 1 mínútu til viðbótar. Setjið pulsuna þá á aðra hliðina á pulsubrauðinu, stráið um 3 msk af rifnum osti yfir, lokið pulsubrauðinu og grillið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram með tómatsósu og sinnepi.

Ofnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsa

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP