Vikumatseðill

Þar sem það er aftur frídagur á morgunn má segja að þessi sunnudagur sé hálfgerður laugardagur. Ég er svo ánægð með að fá þrjá frídaga í röð núna og hef notið þess að sofa út síðustu tvo morgna. Ekki nóg með það heldur gerðist það seinni partinn í gær, eftir Ikea ferð og stórinnkaup í matvörubúðinni, að ég lagði mig í sófann og steinsofnaði í tæpa tvo tíma. Hversu notalegt!

Ég fékk um daginn fyrirspurn frá lesanda um hvort ég gæti gefið hugmyndir af grænmetisréttum og ákvað í kjölfarið að vera með græna þriðjudaga hér á blogginu í maí. Það munu því koma nýjar grænmetisuppskriftir hingað inn næstu fimm þriðjudaga. Sjálf hef ég reynt að vera með einn kjötlausann dag í viku en einhverra hluta vegna hafa þessar uppskriftir ekki skilað sér nógu vel hingað inn. Ef það eru fleiri óskir um það þið viljið sjá meira af hér á blogginu þá tek ég fagnandi á móti þeim. Það er bara gaman að fá slíkar ábendingar!

Vikumatseðill

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaosti

Þriðjudagur: Brokkólí- og sveppabaka

Miðvikudagur: Kálbúðingur

Fimmtudagur: Rjómalöguð kjúklingasúpa

Föstudagur: Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Með helgarkaffinu: Silvíukaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Bananakaka

Í svona leiðindarveðri þykir mér fátt eins notalegt og að dunda mér heima, sérstaklega ef það stendur nýböku kaka á eldhúsborðinu til að njóta með kaffinu. Ég var svo heppin að strákarnir bökuðu möffins í skólanum í gær sem ég get gætt mér á í dag en ég neyðist engu að síður til að fara í búðina þar sem ískápurinn er tómur og helst þyrfti ég að skjótast í Ikea (hafið þið smakkað kleinurnar sem fást í bakaríinu hjá þeim? Þær eru alltaf nýbakaðar og svo góðar!) því mig langar að koma betra skipulagi á einn eldhússkápinn hjá mér. Mest af öllu langar mig þó að sitja sem fastast hér heima, hlusta á vindkviðurnar fyrir utan og kúra í sjónvarpssófanum.

Ef einhverjir eru í bökunarhugleiðingum þá sting ég upp á þessari bananaköku en uppskriftin kemur úr fystu matreiðslubókinni sem ég eignaðist. Ég bakaði kökuna síðast um páskana (sem skýrir litlu eggin á henni) og hún vekur alltaf sérlega lukku hjá yngra fólki.

Bananakaka

 • 2 ½ bolli hveiti
 • 2 ½ tsk lyftiduft
 • ¾ tsk salt
 • 1/8 tsk negull
 • 1 ¼ kanil
 • ½ tsk múskat
 • ½ bolli smjör
 • 1 ¼ bolli sykur
 • 2 egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 ½ bolli marðir bananar

Hitið ofn í 200°. Hrærið smjör og sykur létt. Bætið eggjunum út í og hrærið slétt. Hrærið þurrefnum saman við og endið á að hræra bönunum og vanilludropum í deigið. Setjið í tvö form eða eitt skúffukökuform og bakið í 25 mínútur (stingið í kökuna með prjóni til að sjá hvort hún sé tilbúin).

Bananasmjörkrem

 • ½ banani, stappaður
 • ¼ bolli smjör, við stofuhita
 • 3 ½ bolli flórsykur

Hrærið smjör og banana saman. Hrærið flórsykri saman við þar til réttri áferð er náð.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

París ♥

Ég átti langa helgi í París í síðustu viku, sem er ástæða fjarveru minnar hér á blogginu. Þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust áttað sig á því, en þar uppfærði ég bæði með myndum og á Insta stories. Við vorum síðast í París í lok október en núna var vor í lofti og annar bragur á borginni. Tíminn flaug frá okkur og ég hefði gjarnan viljað framlengja um nokkrar nætur. Það var þó svo að vinnan kallaði og börnin biðu, þannig að það var bara að koma sér aftur heim. Ég tók bara myndir á símann í þessari ferð og myndgæðin eru eflaust eftir því. Það verður þó að fá að duga.

Við nýttum tímann vel og fórum meðal annars í vínsmökkum hjá O´Chateu sem ég má til með að mæla með. Vínin voru dásamleg og meðlætið ekki síðra en vínið var parað með frönskum ostum og skinkum ásamt baquette. Ég var í himnaríki!

  

Við fórum í hjólaferð og náðum þannig bæði að sjá áhugverða staði og fá smá fróðleik í leiðinni. Það er gaman að hjóla um París og við vorum sérlega heppin með leiðsögumann. Við vorum fjögur saman og ferðin tók 1,5 klst. Við komumst yfir furðu mikið á svo skömmum tíma.

Það er varla hægt að fara til Parísar án þess að borða góðan mat. Við borðuðum foi gras á hverjum degi, drukkum rósarvín og nutum þess að vera til. Ég skrifaði um L´Avenue eftir síðustu Parísarferð og get ekki annað en imprað á því hversu góður staðurinn er. Núna sátum við úti í blíðskaparveðri, drukkum kalt rósarvín og borðuðum snigla, tælenskar vorrúllur, humar og önd. Það væri synd að láta þennan stað framhjá sér fara.

  

Síðan má ég til með að benda á Le Meurice Alain Ducasse en þar fékk ég einn besta mat sem ég hef á ævinni borðað. Staðurinn skartar tveim Michellin stjörnum og ekki að ástæðulausu. Við fengum foi gras í forrétt, nautalund í aðalrétt og ís með súkkulaði í eftirrétt. Umhverfið er svo fallegt og maturinn dásamlega góður. Ef maður ætlar að gera vel við sig, þá er þetta staðurinn. Ég vara þó við að hann er ansi dýr.

Það má vel eyða deginum í Galleries Lafayette og þó planið sé ekki að versla er klárlega vert að líta við. Byggingin er stórkostlega falleg og á efstu hæð eru svalir með útsýni yfir París.

Fyrir fleiri ábendingar um París er hægt að skoða fyrri færslu sem er hér. París er dásamleg borg og verður eflaust ekki heimsótt nógu oft. Mig langar strax aftur!

 

Páskarnir og dásamlega páskatertan

Eftir alla veðurblíðuna yfir páskana verð ég að viðurkenna að mér þykir pínu notalegt að fá hvassviðri í dag og get dundað mér hér heima á náttsloppnum án nokkurs samviskubits. Við höfum átt yndislega páska með útivist, afslöppun og allt of mikið af góðum mat. Alveg eins og páskar eiga að vera. Ég fór aldrei á skíði eins og ég hafði hugsað mér og verð að horfast í augu við þá staðreynd að árskortið mitt í Bláfjöllum voru verstu kaup síðasta árs. Ég læri vonandi af reynslunni núna en árskortið mitt síðasta vetur reyndist heldur ekki borga sig.

Það er hefð fyrir því hér heima að vera með góðan morgunverð á páskadag. Núna sofa unglingarnir svo lengi að morgunmaturinn er borðaður í hádeginu en það er bara notalegt. Ég gerði mér létt fyrir í ár og keypti bæði frosin crossant sem ég fyllti með skinkumyrju og frosin súkkulaðicrossant. Síðan steikti ég beikon og gerði eggjahræru. Allir voru alsælir. Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið, bara gott!

Á páskadag er ég alltaf með lambakjöt í kvöldmat. Sjálf er ég hrifnust af lambahryggi en virðist þó oftast kaupa lambalæri á páskunum. Ég hafði hugsað mér að gera kartöflugratín og bernaise með lærinu en þegar ég spurði krakkana langaði þeim í gamaldags lambalæri með sveppasósu og brúnuðum kartöflum. Lærið fékk að hægeldast frá hádegi og varð svo æðislega gott að við borðuðum yfir okkur.

Í eftirrétt bauð ég upp á páskaköku með nutellafyllingu og appelsínurjóma. Ég var svo södd eftir matinn að ég rétt gat smakkað kökuna en hún vakti mikla lukku viðstaddra. Uppskriftin kemur hér ef einhverjum langar að prófa.

Páskakaka – uppskriftin er fyrir um 15 manns (uppskrift frá Coop)

 • 100 g smjör
 • 2 dl mjólk
 • 4 dl hveiti
 • 1 dl kakó
 • 2 tsk lyftiduft
 • 4 egg
 • 2 dl sykur
 • 2 dl hrásykur

Fylling

 • 5 dl rjómi
 • 400 g Nutella við stofuhita
 • 1/4 dl appelsínusafi (ég var með trópí)
 • fínrifið hýði af einni appelsínu
 • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið í potti. Takið af hitanum og bætið mjólkinni saman við. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman. Hrærið egg, sykur og hrásykur saman þar til blandan er létt og loftkennd. Hrærið þurrefnunum saman við og bætið smjörmjólkinni í. Hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í smurt form (24 cm) og bakið í miðjum ofni í um 40 mínútur (ég þurfti að bæta aðeins við bökunartímann). Stingið prjóni í kökuna til að sjá hvort hún sé tilbúin. Látið kólna.

Þeytið rjómann. Hrærið Nutella saman við rúmlega helminginn af rjómanum. Hrærið appelsínusafa, appelsínuhýði og vanillusykri saman við restina af rjómanum.

Skiptið tertubotninum í þrennt með löngum hnífi. Setjið nutellafyllinguna á milli botnanna og endið á að setja appelsínurjómann yfir hana.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Oreo súkkulaðikaka

Ég er búin að vera ein heima síðan á miðvikudag og því óhætt að segja að páskafríið í ár hafi byrjað rólega. Ég hef lítið annað gert en að dunda mér hér heima. Í gær dreif ég mig síðan í búðina og verslaði inn fyrir páskana og um kvöldið fórum við Hannes og fengum okkur sushi og litum síðan í heimsókn til vina. Í dag koma strákarnir heim og í kvöld sækum við Malínu og Oliver út á flugvöll en þau hafa eytt vikunni í Kaupmannahöfn. Það sem mig hlakkar til að fá alla heim!

Ég bakaði svo góða köku um daginn sem mér datt í hug að setja hingað inn ef einhver sem er ekki kominn með nóg af súkkulaði (er það annars hægt?) er að leita af góðum eftirrétti. Kakan er bara svo dásamlega góð að það nær engri átt. Blaut í sér og mjúk. Mín vegna má sleppa Oreo kexinu í henni en krakkarnir taka eflaust ekki undir það. Þau elska allt með Oreo! Kexið gefur kökunni þó kröns sem fer vel á móti dúnmjúkri kökunni.

Oreo súkkulaðikaka

 • 200 g suðusúkkulaði
 • 150 g smjör
 • 175 g púðursykur
 • 4 egg
 • 5 msk hveiti
 • 1 tsk salt
 • 1 pakki Oreo (gott að nota með tvöfaldri fyllingu), sparið nokkrar kexkökur ef þið viljið setja yfir kremið

Hitið ofn í 180°. Hrærið egg og púðursykur saman. Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti og blandið við eggja- og púðursykurblönduna. Hrærið hveiti og salti saman við (athugið að þeyta ekki). Hakkið Oreokexið og blandið helmingnum af því þeim í deigið. Setjið deigið í form (24 cm) og stráið seinni helmingnum af Oreokexinu yfir. Bakið í 30 mínútur.

Krem

 • 100 g mjúkt smjör
 • 50 g sigtað kakó
 • 200 g flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • ½ dl mjólk

Hrærið smjör og kakó saman í skál. Hrærið flórsykri og vanillusykri saman við. Bætið mjólkinni smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Hrærið áfram í nokkrar mínútur, svo deigið verði létt í sér og mjúkt. Setjið yfir kalda kökuna.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa

Það er alveg hreint dásamlegur súpubar í Borgartúninu og þar sem ég vinn í sama húsnæði hef ég ósjaldan skotist þangað í hádeginu. Uppáhalds súpan mín er bara í boði á mánudögum en á þriðjudögum fæst stórgóð frönsk linsubaunasúpa sem mér heyrist vera í uppáhaldi hjá flestum.

Ebba Guðný, heilsugúrú og snillingur, gaf í þætti sínum Eldað með Ebbu uppskrift af linsubaunasúpu sem ég lét loksins verða af að elda um daginn, en franska linsubaunasúpan frá Súpubarnum var einmitt fyrirmynd þeirrar uppskriftar. Súpan er dásamlega góð! Ég bætti smá sellerý og cayenne pipar út í súpuna en því má auðvitað sleppa. Súpuna setti ég síðan í 4 box og átti nesti út vikuna. Stórkostlega gott!

Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa (uppskrift frá Ebbu Guðnýju)

1 stór blaðlaukur eða 2 litlir
1 1/2 dl grænar/brúnar/puy linsur
6-8 hvítlauksrif, pressuð
1 1/2 tsk. Himalaya- eða sjávarsalt
2 msk. lífrænn gerlaus grænmetiskraftur
1 krukka maukaðir tómatar
500 ml vatn
3-4 greinar ferskt rósmarín
1 1/2 msk. timjan (þurrkað)
4-6 gulrætur (ferð eftir stærð – 4 stórar eða 6 fremur litlar)
250 ml rjómi (1 peli)
1 stiki af sellerý
smá cayenne pipar
Graslaukur til að skreyta með í lokin og bragðbæta (má sleppa)

Skerið blaðlauk, sellerý og gulrætur smátt. Hitið smá vatn í botni á rúmgóðum potti og steikið grænmetið. Bætið hvítlauk saman við og síðan hráefnunum hverju á fætur öðru. Látið sjóða þar til baunirnar eru orðnar mjúkar (ég lét súpuna sjóða við vægan hita í um 30 mínútur). Berið fram með góðu brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Sænsk súkkulaðikaka deluxe

Hryðjuverkaárásin í Stokkhólmi á föstudaginn hefur verið ofarlega í huga mínum yfir helgina. Mér þykir hún svo hræðilega nálægt mér. Ég bjó í Stokkhólmi, á vini þar og fer reglulega þangað. Ég hef svo margoft staðið þar sem árásin átti sér stað, síðast núna í ársbyrjun.

Ég get ekki hætt að hugsa um 11 ára stelpuna sem var að koma úr skólanum og ætlaði að hitta mömmu sína við neðanjarðarlestina, en komst aldrei til hennar. Hvernig mamma hennar leitaði af henni á spítölum borgarinnar í örvæntingu áður en lögreglan bankaði upp á hjá henni. Vörubílsstjórann sem skildi lyklana eftir í bílnum á meðan hann skaust frá og mun eflaust seint jafna sig á því. Myndir af lögreglumönnum sem hikuðu aldrei, heldur hlupu beint að hættunni.

Þegar Viktoría prinsessa var spurð af blaðamanni „hvernig höldum við áfram eftir þetta?“ svaraði hún „í sameiningu“. Það er svo fallegt að sjá samheildina sem myndast við svona aðstæður. Þegar fólk staldrar við og sér hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu.

Ég hef verið á leiðinni að setja hingað inn uppskrift af svo góðri klessuköku sem ég bakaði um daginn og það er kannski sérlega viðeigandi að setja hana inn núna. Að baka köku og setjast niður með ástvinum gerir maður aldrei of oft. Njótum stundarinnar og veljum vandlega hvernig við eyðum tímanum.

Sænsk súkkulaðikaka deluxe

 • 3 egg
 • 3,5 dl sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 4-5 msk kakó
 • 2 dl hveiti
 • 150 g brætt smjör

Krem:

 • 50 g smjör við stofuhita
 • 2 msk kalt kaffi
 • 2,5 dl flórsykur
 • 1 msk kakó
 • 1 tsk vanillusykur

Yfir kökuna:

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 175°.

Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman egg og sykur. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim saman við eggjablönduna. Hrærið að lokum smjörinu í deigið. Athugið að þeyta aldrei deigið heldur bara að hræra það saman því ef það myndast of mikið loft í deiginu er hætta á að það verði þurrt. Smyrjið lausbotna form og setjið deigið í það. Bakið kökuna í miðjum ofni í 20-30 mínútur. Kakan á að vera blaut í miðjunni þegar hún er tekin úr ofninum. Látið kökuna standa í ísskáp í nokkra tíma áður en kremið er sett á hana.

Hrærið öllum hráefnunum í kremið saman og setjið yfir kökuna. Stráið kókosmjöli yfir. Geymið kökuna í ísskáp.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í