Súkkulaði- og bananabaka með rjóma

Í dag er síðasti dagurinn í sumarfríi og á morgun tekur vinnan við. Ég get ekki annað en farið sátt og glöð til vinnu eftir frábært sumarfrí. Við erum búin að fara til London, þræða alla Vestfirðina, hitta vini, halda og fara í nokkur matarboð, fara margar ferðir í núðlusúpur á Skólavörðustíginn, prjóna, lesa Hungurleikana með strákunum og gera svo margt skemmtilegt. Ég var búin að gera lista fyrir sumarfrí yfir hluti sem ég ætlaði að gera, m.a. að baka Franskar makkarónukökur og fara út að hlaupa að minnsta kosti annan hvern dag, en það gleymdist alveg.

Í gær fengum við Ernu, Óla og fjölskyldu í mat. Það telst varla til tíðinda því það líður varla sá dagur að við hittumst ekki, enda nágrannar og við Erna búnar að vera það síðan við vorum fimm ára. Við buðum þeim upp á Orange Chicken í aðalrétt en í eftirrétt gerði ég þessa dásamlegu súkkulaði- og bananaböku með rjóma.

Ég keypti mér nýlega bökuform með lausum botni og var spennt að nota það. Það var því engin spurning um að gera böku í eftirrétt. Þegar kom að því að velja uppskrift mundi ég eftir að hafa séð uppskrift að þessari böku og langað að prófa hana. Vandamálið var hins vegar að ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvar ég hefði séð hana. En þrjóskan getur launað sig og eftir hálftíma leit fann ég uppskriftina. Því verður ekki neitað að leitin var vel þess virði því bakan var æðislega góð, svo gott að ég laumaðist í síðustu sneiðina um miðnætti því ég gat ekki hætt að hugsa um hana. Ég ætla að baka bökuna aftur við allra fyrsta tækifæri og hlakka til að leyfa fleirum að njóta.

Uppskriftin kemur frá Love & olive oil og eina breytingin sem ég gerði var að skipta vanilludropum út fyrir vanillusykur. Ég geri það nánast alltaf þegar ég baka því ég er ekki hrifin af dropabragði og finnst vanillusykurinn gefa svo mikið betra bragð.

Botninn

 • 1 bolli hveiti
 • 115 gr ósaltað kallt smjör
 • 1/4 tsk salt
 • 1/4 bolli kakó
 • 1/4 bolli sykur
 • 1/4 bolli vatn

Skerið smjörið í litla teninga og setjið í skál ásamt hveiti, salti, kakaói og sykri. Hnoðið saman í mulning og bætið þá vatninu við í smáum skömmtum. Notið bara eins mikið af vatni og þarf til að deigið haldist saman. Fletjið deigið út og leggði í bökuform (mitt form er 22 cm).  Þrýstið deiginu vel í botninn og upp á kantinn og leggið síðan álpappír yfir (þrýstið honum að deiginu). Setjið deigið í ískápinn í 10 mínútur eða á meðan þið hitið ofninn í 175°.  Til að deigið lyfti sér ekki í ofninum er gott að leggja baunir eða hrísgrjón ofan á álpappírinn. Bakið í 20 mínútur, takið þá álpappírinn af (og baunirnar eða grjónin) og bakið áfram í 10-15 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna alveg.

Vanillu- og súkkulaðikrem

 • 3/4 bolli sykur
 • 1/3 bolli hveiti
 • 1/4 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk
 • 3 eggjarauður
 • 1 msk ósaltað smjör
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1/4 bolli suðusúkkulaði, saxað

Blandið saman sykri, hveiti, salti og 1 bolla af nýmjólkinni í potti. Hrærið vel saman og látið suðuna koma upp yfir miðlungs hita. Hrærið stöðugt þar til blandan verður slétt og þykk, það tekur um 2 mínútur, og takið þá pottinn af hitanum og látið kólna aðeins.

Hrærið saman eggjarauðum og 1 bolla af nýmjólk í skál. Bætið þykkri mjólkurblöndunni úr pottinum saman við í 4 skömmtum og hrærið vel á milli. Setjið blönduna aftur í pottinn og látið suðuna koma aftur upp. Hrærið stöðugt í pottinum. Þegar suðan kemur upp er hitinn lækkaður og látið sjóða í ca 1 mínútur eða þar til blandan minnir á þykkan búðing. Takið pottinn af hitanum og hrærið strax smjöri og vanillusykri saman við. Setjið helminginn af blöndunni í skál og leggið til hliðar. Bætið söxuðu suðusúkkulaði saman við þann helming sem eftir er í pottinum og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan orðin slétt. Látið báðar fyllingarnar kólna aðeins.

Ofanálag og samsetning

 • 2 bananar, skornir í sneiðar
 • 1 bolli rjómi
 • 3 msk sykur
 • 1/2 tsk vanillusykur

Breiðið vanillufyllingunni yfir bökubotninn. Raðið einu lagi af niðurskornum banönum yfir og breiðið súkkulaðifyllingunni yfir bananana. Setjið í ískáp og leyfið að kólna alveg. Rétt áður en bakan er borin fram er rjóminn léttþeyttur, sykri og vanillusykri bætt út í og þeytt áfram þar til rjóminn er tilbúinn. Alls ekki þeyta hann of mikið. Breiðið rjómann yfir bökuna og skreytið með dökku súkulaði.