Einföld og góð skúffukaka

Ég kenni tengdamóður minni alfarið um að hafa ekki litið hingað inn í gær. Hún fór í frí til Svíþjóðar og kom heim í gær með fulla tösku af uppskriftarbókum og -blöðum handa mér. Ég vissi varla hvernig ég átti að hegða mér í gærkvöldi með allar þessar nýju bækur sem ég vildi lesa spjaldana á milli og prófa allt sem ég sá. Takk elsku Malín fyrir að vera alltaf svona yndisleg og góð við mig.

Föstudagskvöldið var nokkuð hefðbundið að öðru leiti. Ég eldaði þessa kjúklingasúpu og hún varð sérlega góð. Það er svo skrýtið að mér þykir hún aldrei verða eins. Ég hef eldað hana svo oft en veit aldrei hvernig hún endar. Hún er þó alltaf góð og hefur aldrei klikkað. Í gær setti ég smá karrý út í hana og chilisósu frá Felix sem mér þótti gera hana að spánýrri súpu. Eftir matinn settum við nammi í skál og horfðum á X-factor. Gleðin hélt síðan áfram þegar við uppgötvuðum að það var verið að sýna tónleika með Adele í norska sjónvarpinu. Allt kvöldið var ég þó að laumast í nýju matreiðslubækurnar og grípandi í prjónana þess á milli.

Ég er búin að eyða morgninum í að fletta uppskriftum og skrifa vikumatseðilinn. Áður en ég fer út í búð ætla ég að gefa uppskrift af þessari góðu skúffuköku sem ég baka svo oft og síðast núna í vikunni. Mikið þykir mér þessi kaka alltaf góð og með ískaldri mjólk er hún gjörsamlega ómótstæðileg.

Einföld og góð skúffukaka

  • 150 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk kakó
  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 dl mjólk

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið  og látið það kólna aðeins. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þurrefnunum saman og hrærið saman við eggin og sykurinn. Bætið smjörinu og mjólkinni saman við og blandið öllu vel saman. Setjið deigið í smurt skúffukökuform og bakið í miðjum ofni í ca 25 mínútur.

Glassúr

  • 75 g smjör
  • 2 msk kaffi
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 1/2 dl flórsykur

Bræðið smjörið og blandið hinum hráefnunum saman við þannig að allt bráðni saman. Breiðið glassúrnum yfir kökuna og stráið grófu kókosmjöli yfir.

34 athugasemdir á “Einföld og góð skúffukaka

  1. Sæl og þakka þér fyrir frábæra síðu. Er búin að nota uppskriftir frá þér og þær eru meiriháttar. Langar að spyrja þig, hvað eru málín á kökumótinu fyrir skúffukökuna?
    Þarf að kaupa skúffukökumót áður enn ég baka þessa skúffuköku :=) Bestu kveðjur Gerður

    1. Sæl Gerður og takk fyrir kveðjuna. Skúffukökuformið mitt er ca 32 x 23 cm. Ég held að það sé bara hefðbundin stærð sem fæst t.d. í Húsasmiðjunni.
      Bestu kveðjur, Svava.

    1. Já, hún er yndisleg og dekrar við mig í hvert skipti sem hún fer til Svíþjóðar. Þessar bækur eru æði og mig langar að baka allar uppskriftirnar í Pernillu bókinni. Þú verður að kíkja á hana 🙂

  2. Yndislega góð kaka…við fjölskyldan bökuðum hana á nýársdag og kláruðum hana nánast alla…

    Takk fyrir frábært blogg 🙂

  3. Þessi er hrikalega góð. Ég var án gríns bara 5 mín að hræra í hana og þetta eru hráefni sem maður á alltaf til í skápunum hjá sér. Takk fyrir dásemdar síðu ég er mjög dugleg að elda og baka uppskriftir frá þér og þær hafa enn ekki klikkað 🙂

  4. Hæ! Getur verid ad had eigi ad vera meira en 2 msk af kakó í kökunni? Mér fannst mín koma út svo svakalega ljós og lítid súkkuladibragd (en kremid var ædi!).
    Takk fyrir frábæra sídu!!

    1. En skrýtið, ég hef alltaf fylgt uppskriftinni alveg en ekki lent í því að fá ljósa köku. Hvaða kakótegund notaðir þú? Þær eru kannski eitthvað misjafnar. Ég er yfirleitt með frá Hershey’s eða Kötlu.

      Sent from my iPhone

      >

      1. Takk Svava, já kakó tegundin er örugglega málið. Ég bý í Bandaríkjunum og er því að notast við einhverja allt aðra tegund … ég man bara að nota meira af henni næst! (og kakan er samt ljómandi góð)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s