Ég elska mexíkóskar kjúklingasúpur og hef prófað ótal uppskriftir en þessi stendur alltaf upp úr. Uppskriftin kemur úr gömlu Bistró-blaði og er bæði einföld og fljótleg. Mér finnst sjaldan hægt að fylgja súpuuppskriftum nákvæmlega heldur alltaf þurfa að smakka þær til, eins og með flestan annan mat. Með þessa uppskrift finnst mér ég oftast þurfa að bæta við meiri krafti eða chili sósu. Ég set líka oft smá karrý út í súpuna og finnst það gefa mjög gott bragð.
Mexíkósk kjúklingasúpa
- 2 kjúklingabringur
- salt
- 1/2 blaðlaukur, smátt saxaður
- 1 rauð paprika, smátt söxuð
- 1 msk ólívuolía
- 1 líter vatn
- 1 kjúklingateningur
- 1 dós saxaðir tómatar
- 4 msk chili-sósa
- 3 msk tómatþykkni (tomato paste)
- 100 gr rjómaostur
- nachos-flögur
- rifinn ostur
- sýrður rjómi
Byrjaðu á að sjóða kjúklingabringurnar í vatni með smá salti þar til þær eru eldaðar í gegn. Það tekur ca 8 mínútur. Taktu þær úr vatninu og skerðu í litla bita.
Steiktu blaðlaukinn og paprikuna í ólífuolíunni við miðlungs hita. Hitaðu vatnið í potti og leystu kjúklingateninginn upp í vatninu. Bættu grænmetinu út í kjúklingasoðið ásamt hökkuðum tómötum, chili-sósu og tómatmauki og leyfðu súpunni að malla við vægan hita í 10 mínútur (ég einfalda þetta oftast með því að steikja grænmetið í súpupottinum og hella svo vatninu beint yfir grænmetið og spara mér þar með uppvaskið á pönnunni).
Bættu rjómaostinum í súpuna í litlum skömmtum og láttu hana malla aðeins á milli svo að rjómaosturinn leysist upp. Bættu að lokum kjúklingabitunum út í.
Súpuna ber ég alltaf fram með sýrðum rjóma, rifnum osti (ferskrifinn cheddar er í uppáhaldi þessa dagana) og nachos.
Elska þessa súpu 🙂 Mjög gott að setja dáldið cumin útí hana. Takk fyrir mig 🙂
Hæ – veistu hvað þessi súpa er ætluð mörgum? Þarf að gera stóra uppskrift og langar að vita upp á margföldun að gera 🙂
Sæl Dagga.
Ég myndi segja að uppskriftin sé fyrir 4-5 fullorðna. Ég elda hana fyrir okkur fimm (tveir fullorðnir, unglingur og tveir 9 ára) og á yfirleitt afgang í eina góða skál daginn eftir.
Bestu kveðjur,
Svava.
Mjög góð súpa en bætti í hana ferskum kóríanderlaufum sem mér finnst alltaf ómissandi í allan mexíkóskan mat. En varúð, sumir þola ekki kóríander.
Hvernig chili-sósa er þetta? Sweet chili eða? 🙂
Nei, ekki sweet chili heldur bara venjuleg chili sósa (t.d. þessar í glerflöskunum frá Hunt´s).
þú bjargar mér altaf, 🙂 , altaf með það besta af því besta og ég þarf ekki að prófa margar uppskriftir , takk fyrir síðuna
Þessi er oft elduð á mínu heimili og dótturdóttir mín búin að ákveða að hafa hana í fermingarveislunni sinni. Ég einfalda hana ennþá meira með því að sjóða bringurnar (niðurbrytjaðar að sjálfsögðu) í súpunni áður en ég set rjómaostinn í, slepp þá við að elda þær áður 🙂
Sniðug ertu! Ég ætla að fara að þínum ráðum næst þegar ég elda súpuna. Takk 🙂
hvað geymist hún í marga daga i kæli?
Ég myndi ekki þora að geyma hana lengur en tvo daga. Hef þó aldrei látið á það reyna að geyma hana lengur 🙂
Sæl Svava. Veislu hvað ég þarf ca.stóra uppskrift í um 100 manna veislu ( að sjálfsögðu kökur í eftirrétt. )
Einföld uppskrift passar fyrir 5 fullorðna. Ég myndi meta það út frá því hversu margir fullorðnir verða í veislunni og hversu mörg börn og á hvaða aldri þau séu 🙂