Tikka masala kjúklingur að hætti Jamie Oliver

Ég hef oft horft á þessa uppskrift og skil ekki af hverju ég hef ekki eldað hana fyrr. Uppskriftin kemur úr bók sem heitir Jamie Oliver; Jamie´s dinners og þó það séu mörg ár síðan ég eignaðist bókna þá held ég að þetta sé fyrsta uppskriftin sem ég elda úr henni.

Ég á nokkrar uppskriftabækur eftir Jamie Oliver og hef aldrei eldað annað en góðan mat upp úr þeim. Þær eru algjör gullnáma og alltaf hægt að treysta á þær. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar við fórum á Jamie Oliver staðinn í Covent Garden í London því maturinn þar var sá lakasti sem við borðuðum í allri ferðinni.

Þessi tikka masala kjúklingur er einn sá besti sem ég hef smakkað. Okkur fannst hann öllum alveg æðislegur og ég hefði verið alsæl hefði ég fengið hann í Covent Garden. Ég er samt fegin að ég eldaði hann bara hér heima því þá get ég gert hann aftur fljótlega.

Tikka Masala kjúklingur

  • 6 hvítlauksrif
  • 7,5 cm engifer
  • 2-3 fersk rauð chilli, fræhreinsuð
  • 1 msk sinnepsfræ
  • 1 msk paprikuduft
  • 2 tsk cumin
  • 2 tsk kóriander
  • 3 msk garam masala
  • 200 gr jógúrt
  • 4 kjúklingabringur, skornar í grófa bita
  • 1 msk smjör
  • 2 miðlungs laukar, afhýddir og skornir í fínar sneiðar
  • 2 msk tómat purée
  • lítið handfylli af fínmöluðum cashew hnétum
  • sjávarsalt
  • 115 ml rjómi
  • handfylli af ferskum kóriander, hakkað
  • safi af 1-2 lime

Rífið hvítlauk og engifer á fínasta hlutanum á rifjárninu og setjið í skál. Skerið chilli-ið eins fínt niður og þið getið og bætið í skálina með hvítlauknum og engiferinu. Hitið góða skvettu af ólivuolíu á pönnu og setjið sinnepsfræin á pönnuna. Þegar þau byrja að skoppa eru þau tekin af pönnunni og bætt í hvítlauks- og engiferblönduna ásamt paprikudufti, cumin, kórialnder og 2 msk af garam masala. Setjið helminginn af þessari blöndu í skál og bætið jógúrtinu og kjúklingabitunum í skálina. Hrærið og leyfið að marinerast í ca 30 mínútur.

Bræðið smjörið á pönnunni sem sinnepsfræin voru á og bætið fint skornum lauknum á pönnuna ásamt seinni helmingnum af kryddblöndunni.  Leyfið þessu að eldast á pönnunni við vægan hita í 15 mínútur án þess að brúna blönduna of mikið. Á meðan kemur dásamleg lykt í eldhúsið. Bætið tómat purée, fínmöluðum hnétunum, hálfum lítra af vatni og hálfri teskeið af salti. Hrærið vel og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn við háan hita á pönnu eða grillið þar til hann er eldaður í gegn.

Hitið sósuna aftur og bætið rjómanum út í ásamt einni matskeið af garam masala. Smakkið til og bætið við kryddi eftir þörfum. Um leið og suðan kemur upp er sósan tekin af hitanum og kjúklingnum bætt út í. Smakkið aftur til  og stráið ferskum kóriander yfir ásamt lime-safanum. Berið fram með basmati hrísgrjónum, nanbrauði og köldum bjór.

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Þessir BBQ-kjúklingaleggir lenda reglulega á grillinu hjá okkur á sumrin. Uppskriftina fékk ég hjá Helgu P, vinkonu og samstarfskonu minni, og hún hefur aldrei klikkað.  Áður en ég fékk þessa uppskrift forðuðumst við að grilla kjúkling því hann átti það til að verða þurr hjá okkur. Við vorum alltaf að passa svo vel að hann væri grillaður í gegn. Ég hef hins vegar ekki fengið þurran kjúkling af grillinu síðan ég prófaði þessa aðferð í fyrsta sinn. Kjúklingaleggirnir verða alveg æðislega góðir en það er í raun hægt að nota hvaða hluta kjúklings sem er. Leggirnir hafa verið í uppáhaldi hjá okkur og krökkunum finnst gott að setja bara álpappír um endann og sleppa við hnífapörin.

Það er alveg upplagt að gera þessa BBQ-kjúklingaleggi fyrir veislur eða matarboð því það er hægt að undirbúa kjúklinginn áður þannig að það þurfi bara rétt að skella honum á heitt grillið í nokkrar mínútur.

Kjúklingaleggirnir eru soðnir í potti með kjúklingakrafti (ca 1 kjúklingateningur á hvern bakka af kjúklingaleggjum) í ca 8 mínútur. Þá eru þeir teknir úr pottinum og látnir kólna aðeins. BBQ-sósu er síðan penslað á kjúklingaleggina og þeir að lokum grillaðir við háan hita í stutta stund þannig að BBQ-sósan karamellist utan um kjúklingalegginn.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Ég elska mexíkóskar kjúklingasúpur og hef prófað ótal uppskriftir en þessi stendur alltaf upp úr. Uppskriftin kemur úr gömlu Bistró-blaði og er bæði einföld og fljótleg. Mér finnst sjaldan hægt að fylgja súpuuppskriftum nákvæmlega heldur alltaf þurfa að smakka þær til, eins og með flestan annan mat. Með þessa uppskrift finnst mér ég oftast þurfa að bæta við meiri krafti eða chili sósu. Ég set líka oft smá karrý út í súpuna og finnst það gefa mjög gott bragð.

Mexíkósk kjúklingasúpa

  • 2 kjúklingabringur
  • salt
  • 1/2 blaðlaukur, smátt saxaður
  • 1 rauð paprika, smátt söxuð
  • 1 msk ólívuolía
  • 1 líter vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dós saxaðir tómatar
  • 4 msk chili-sósa
  • 3 msk tómatþykkni (tomato paste)
  • 100 gr rjómaostur
  • nachos-flögur
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Byrjaðu á að sjóða kjúklingabringurnar í vatni með smá salti þar til þær eru eldaðar í gegn. Það tekur ca 8 mínútur. Taktu þær úr vatninu og skerðu í litla bita.

Steiktu blaðlaukinn og paprikuna í ólífuolíunni við miðlungs hita. Hitaðu vatnið í potti og leystu kjúklingateninginn upp í vatninu. Bættu grænmetinu út í kjúklingasoðið ásamt hökkuðum tómötum, chili-sósu og tómatmauki og leyfðu súpunni að malla við vægan hita í 10 mínútur (ég einfalda þetta oftast með því að steikja grænmetið í súpupottinum og hella svo vatninu beint yfir grænmetið og spara mér þar með uppvaskið á pönnunni).

Bættu rjómaostinum í súpuna í litlum skömmtum og láttu hana malla aðeins á milli svo að rjómaosturinn leysist upp. Bættu að lokum kjúklingabitunum út í.

Súpuna ber ég alltaf fram með sýrðum rjóma, rifnum osti (ferskrifinn cheddar er í uppáhaldi þessa dagana) og nachos.

Kjúklinganaggar með basilikusósu

Þessir kjúklinganaggar vekja alltaf lukku hjá börnunum og okkur þykja þeir svo miklu betri heldur en keyptir naggar. Það er varla hægt að líkja þeim saman.

Mér finnst þetta vera ekta föstudagsmatur sem hægt er að borða fyrir framan sjónvarpið. Ég fylli stóran disk af nöggum, set franskar kartöflur í skál, sósur í litlar skálar og legg á sjónvarpsborðið. Með þessu hef ég síðan ískalt gos.

Það er eflaust best að gera brauðraspinn sjálfur en ef ég á að vera hreinskilin þá nota ég alltaf ströbröd frá Euroshopper. Hann er fíngerðari en íslenski raspurinn og mér finnst hann passa svo vel á naggana. Krakkarnir borða naggana með kokteilsósu, tómatsósu og frönskum en við Öggi fáum okkur salat og basilikusósu með þeim.

Kjúklinganaggar

  • 500 gr kjúklingabringur
  • 1 egg
  • 1 dl brauðraspur
  • 1/2 dl fínrifinn parmesan (má alveg vera keyptur tilbúinn)
  • 1 tsk sítrónupipar
  • smá salt
  • smjör og olía til að steikja í

Basilikusósa

  • 2 dl sýrður rjómi
  • 1 búnt fersk basilika
  • 1/2 tsk salt

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Hrærið eggið létt með gaffli. Blandið í annari skál saman brauðraspi, parmesan, sítrónupipar og salti. Dýfið kjúklingabitunum fyrst í hrærða eggið og síðan í brauðraspblönduna. Steikið bitana í blöndu af smjöri og olíu þar til þeir fá fallegan lit. Ég hef pönnuna á miðlungsháum hita (stillingu 7 af 9) til að þeir nái að eldast í gegn án þess að brenna. Passið að kjúklingurinn sé steiktur í gegn.

Maukið basilikuna með töfrasprota í smá sýrðum rjóma. Blandið saman við restina af sýrða rjómanum og saltið.

Laksa með kjúklingi

Ég elska núðlusúpurnar á Núðluskálinni á Skólavörðustíg og þessi súpa minnir óneitanlega á þær. Uppskriftina fann ég í sænskri matreiðslubók sem heitir Kärlek, oliver och timjan. Þetta er gullfalleg bók eftir mægður og það er vel þess virði að eignast hana þó ekki væri nema bara til að skoða myndirnar því þær eru æðislegar. Uppskriftin er fyrir þrjá en við Öggi kláruðum súpuna upp til agna. Ég myndi því segja að hún sé fyrir tvo svanga.

  • 200 gr eggnúðlur
  • 4 skarlottulaukar
  • 100 gr ferskar baunaspírur eða 50 gr ferskt spínat
  • 1/2 lime í þunnum sneiðum
  • 2 kjúklingabringur
  • 1 msk jarðhnetuolía eða önnur olía
  • 5 cm bútur af fersku engiferi
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/2 – 1 ferskt rautt chili
  • ca 2 msk rautt curry paste
  • 4 dl kókosmjólk
  • 4 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1-2 msk fiskisósa
  • ferskt kóriander eða basilika

Takið hýðið af laukunum og skerið hann í þunnar sneiðar. Skolið baunaspírurnar eða spínatið vel. Skolið lime-ið og skerið í mjög þunnar sneiðar. Skrælið engiferið og skerið í örþunnar sneiðar. Takið hýðið af hvítlauknum og skerið í þunnar sneiðar. Fræhreinsið chili og skerið í þunna strimla. Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Leggið þetta til hliðar á meðan súpan er undirbúin.

Leggið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið þar til þær eru tilbúnar (ca 5 mínútur). Látið renna af núðlunum í sigti og skiptið þeim í 3 skálar. Setjið laukinn, baunaspírurnar eða spínatið og limesneiðarnar ofan á.

Steikið hvítlaukinn í olíu, bætið engiferi og curry paste í pottinn. Það er mikilvægt að láta curry paste-ið hitna það mikið að það sjóði því þá fyrst kemur bragðið fram og það fer að ilma dásamlega í eldhúsinu.

Bætið núna kókosmjólkinni saman við í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli þannig að curry paste-ið nái að blandast vel með kókosmjólkinni í hvert skipti. Bætið síðan vatninu út í og kjúklingakraftinum. Látið suðuna koma upp og bragðbætið með fiskisósunni. Leggið kjúklingabitana í og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til kjúlingabitarnir eru soðnir í gegn. Smakkið súpuna til og bætið ef til vill meiri fiskisósu út í og jafnvel smá sykri.

Bætið súpunni í skálarnar (ofan á núðlurnar, baunaspírurnar og limesneiðarnar) og látið hana standa í 2 mínútur til að brögðin nái að blandast. Skreytið með fersku kóriander eða basiliku  og leggið rauðu chilistrimlana yfir.

Fylltar kjúklingabringur með pestó-rjómaostafyllingu og beikoni

Það hafa engin þrekvirki verið unnin á þessu heimili í dag heldur var sofið til hádegis og aldrei farið almennilega á fætur. Við vorum ánægð með að endurheimta nágrannana frá Vestmannaeyjum og fengum þau yfir í tertuafganga og spjall.  Í kvöldmat eldaði ég síðan þennan kjúklingarétt sem okkur þykir alltaf jafn góður.

  • 5 kjúklingabringur
  • 1 fetakubbur
  • 1 pakki Philadelphilaostur með jurtum og hvítlauk
  • ca 1 msk pestó (ég nota grænt)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 dós léttur sýrður rjómi
  • sítróna
  • kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur eða það rótargrænmeti sem þú kýst

Skerið kartöflurnar og rótargrænmetið í báta eða sneiðar  og setjið í eldfast mót. Hellið smá ólivuolíu yfir og kryddið með salti og pipar og þeim kryddum sem þér þykir góð. Ég notaði í kvöld gott jurtasalt með salvíu, rósmarín og timjan. Setjið í 200° heitan ofninn.

Myljið hálfan fetakubbinn í skál og blandið ca 3/4 af Philadelphiaostinum saman við. Hrærið ca 1 msk af pestói saman við og jafnvel smá pipar (það þarf ekki salt því það er næg selta í fetaostinum).

Hamrið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar og leggið gott lag af fetaostahrærunni ofan á hverja bringu. Leggið beikonsneiðarnar á fat og rúllið utan um kjúklingabringurnar þar til kjúklingurinn er þakin af beikoni. Steikið kjúklingabringurnar í smjöri eða ólivuolíu þar til þær hafa fengið fallegan lit. Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og setjið það sem eftir var af fetaosthrærunni í kringum kjúklinginn í forminu. Það er líka alveg hægt að sleppa því að steikja kjúklingabringurnar á pönnunni og setja þær bara beint í ofninn. Færið kartöflurnar og rótargrænmetið neðst í ofninn og setjið kjúklingabringurnar í miðjan ofninn í ca 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er gegnum steiktur.

Blandið restina af fetaostinum með heilli dós af létt sýrðum rjóma, pressið hvítlauksrif út í, kreistið smá sítrónusafa og kryddið með góðu jurtasalti. Mixið saman með töfrasprota.

Berið fram með góðu salati.

Endið máltíðina í sjónvarpssófanum með smá nammi, það gerðum við alla vega.

 

 

Mexíkósk kjúklingabaka

Ég ákvað fyrir viku að gera þessa böku í kvöld og er búin að hlakka til í allan dag.  Okkur finnst hún æðislega góð og það er ekki hægt annað en að elska hana. Hún er einföld, fljótgerð og fullkominn endir á vinnuvikunni.  Þið bara verðið að prófa.

Botn

  • 3 dl hveiti
  • 100 gr smjör
  • 2 msk vatn

Fylling

  • 3 kjúklingabringur
  • 1 laukur, hakkaður
  • nokkrir niðurskornir sveppir
  • 1 rauð paprika, skorin smátt
  • 150 gr. rjómaostur
  • 1/2 dós chunky salsa
  • 3 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°. Blandið hráefninu í botninn saman þannig að það myndi deigklump, fletjið hann út og fyllið út í bökumót (ég nota oft bara venjulegt kökuform). Forbakið í ca 10 mínútur.

Bræðið smjör á pönnu og mýkið laukinn, sveppina og paprikuna við miðlungsháan hita. Á meðan passar vel að skera kjúklingabringurnar í lekkera bita. Þegar grænmetið er tilbúið er það tekið af pönnunni og kjúklingabitarnir steiktir upp úr smjöri. Bætið grænmetinu aftur á pönnuna ásamt rjómaostinum og salsasósunni og leyfið að malla saman um stund.

Setjið fyllinguna í forbakaðan botninn og stráið rifnum osti yfir. Bakið þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Berið fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma og guacamole.