Hafarstykki með jarðaberjasultu

Hafarstykki með jarðaberjasultu

Ef þetta veður er ekki kjörið til þess að dunda sér í eldhúsinu þá veit ég ekki hvað. Síðan er jú líka svo brjálæðislega notalegt að setjast niður með nýbakað kvöldkaffi þegar rigningin ber rúðurnar. Ég bakaði um daginn hafrastykki sem strákarnir mínir elskuðu og mig grunar að þeir hafi borðað þau í öll mál daginn eftir því þau voru búin þegar ég kom heim úr vinnunni.

Hafarstykki með jarðaberjasultu

Uppskriftin kemur frá Ree Drummond sem er kannski betur þekkt sem The Pioneer Woman. Ég á nokkrar af matreiðslubókunum hennar og get lofað að uppskriftirnar klikka aldrei! Þessi uppskrift var engin undantekning. Hafrastykkin minna óneytanlega á hjónabandssælu og kannski helsti munurinn sá að það er jarðaberjasulta í þeim. Skemmtileg tilbreyting sem vert er að prófa!

Hafarstykki með jarðaberjasultu

Hafrastykki með jarðaberjasultu – uppskrift frá The pioneer woman

 • 200 g smjör
 • 250 g hveiti
 • 140 g haframjöl
 • 200 g púðursykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • ¼ salt
 • 1 krukka St. Dalfour jarðaberjasulta (284 g)

Hitið ofninn í 175° og smyrjið (eða klæðið með smjörpappír) form sem er um 22 x 33 cm að stærð.

Blandið saman hveiti, haframjöli, púðursykri, lyftidufti og salti. Skerið smjörið í bita og blandið saman við þurrefnin þannig að úr verði gróf mylsna. Setjið helminginn af mylsnunni í formið og þrýstið henni í botninn á því. Setjið sultuna yfir. Setjið seinni helminginn af mylsnunni yfir og þrýstið aðeins yfir hana.

Bakið í 35-40 mínútur. Látið kólna í forminu og skerið síðan í bita.

Hafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultuHafarstykki með jarðaberjasultu

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Mjúk appelsínukaka

Mjúk appelsínukaka

Eftir annasömustu viku í langann tíma og alveg svakalega byrjun á helginni þá langar mig að gera alveg ofboðslega lítið í dag. Nýta þetta fallega veður í góðann göngutúr, baka köku með kaffinu og eyða kvöldinu í náttfötum í sjónvarpssófanum horfandi á The Good Wife.

Mjúk appelsínukaka

Ef það eru fleiri en ég í bökunarhugleiðingum þá er ég með uppskrift af æðislegri appelssínuköku sem allir kunnu að meta hér á bæ. Yfir kökuna bræddi ég einfaldlega suðusúkkulaði sem fór vel með appelsínubragðinu en það má líka bara sigta flórsykur yfir hana eða gera glassúr úr flórsykri og ferskum appelsínusafa.

Mjúk appelsínukaka

Mjúk appelsínukaka

 • 1 ½ bolli hveiti
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • ½ bolli sykur
 • 2 egg
 • 3 msk mjólk
 • ¾ bolli nýkreistur appelsínusafi (u.þ.b. 3 appelsínur)
 • ½ bolli olía (ekki ólífuolía)
 • 1 tsk vanilludropar
 • 5-6 msk fínrifið appelsínuhýði (u.þ.b. 3 appelsínur)
 • Smá salt

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel.

Sigtið saman þurrefnin í skál og blandið þeim saman.

Hrærið egg, mjólk, appelsínusafa, olíu, appelsínuhýði og vanilludropa saman í annari skál. Blandið þurrefnunum varlega saman við í skömmtum og hrærið þar til allt hefur blandast vel. Passið að hræra ekki deigið of lengi. Setjið deigið í smurt kökuformið og bakið í 30-40 mínútur, eða þar til prjóni sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Brasilískur fiskréttur

Brasilískur fiskréttur

Ég er svolítið hrædd um að færslan mín í gær hafi misskilist. Ég hef nefnilega fengið skilaboð frá hugulsömum lesendum sem hafa boðist til að taka þátt í að greiða af blogginu og jafnvel hvatt mig til að gera bloggið að áskriftarsíðu. Á sama tíma og það hlýjar mér inn að hjartarótum hvað þið hugsið fallega og að ykkur er annt um bloggið þá fæ ég samviskubit ef færslan hefur skilist á þann hátt að ég væri í vandræðum með að greiða kostnaðinn sem fylgir því að halda blogginu úti. Ég vil því útskýra málið betur. Ég er ekki í neinum vandræðum með að fjármagna bloggið, heldur snérist vandamálið um það að WordPress (sem hýsir bloggið mitt) virtist synja kortinu mínu þrátt fyrir að kortafyrirtækið sagði að greiðslan hafi verið tekin út af því. Ég var því hrædd um að bloggið myndi hverfa þar sem WordPress vildi ekki kannast við að hafa móttekið greiðsluna. Þetta virtust þó óþarfa áhyggjur því bloggið er hér enn! Ég sendi fyrirspurn á WordPress varðandi þetta bíó og þeir eru að reyna að finna út úr þessu. Bloggið er því ekki að fara neitt enda veit ég fátt skemmtilegra en að halda því úti.

Brasilískur fiskréttur

Eins og flesta mánudaga var hér fiskur á borðum í kvöld. Ég þarf að fara að breyta því fyrirkomulagi því strákarnir fá fisk í skólanum á mánudögum og myndu því eflaust þiggja eitthvað annað hér heima. Þessi réttur var þó vinsæll og ég gat ekki betur séð en að allir voru mjög ánægðir með hann.

Brasilískur fiskréttur

Brasilískur fiskréttur – uppskrift frá Recipetineats.com

Fiskurinn

 • 500 g þorskur
 • 1 msk sítrónusafi
 • ¼ tsk salt
 • svartur pipar
 • 1 msk ólífuolía

Sósan

 • 1½ msk ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð eða pressuð
 • 1 lítill laukur, fínhakkaður
 • 1 stór rauðpaprika, sneidd
 • 1½ tsk sykur
 • 1 msk kúmin (ath. ekki það sama og kúmen)
 • 1 msk paprikukrydd
 • ½ – 1 tsk cayenne pipar
 • ½ tsk salt
 • 1 dós (400 ml) kókosmjólk
 • 1 dós (400 ml) hakkaðar tómatar
 • 1 teningur fiskikraftur
Yfir réttinn
 • 1 msk lime safi
 • 3 msk grófhakkað ferskt kóriander

Fiskurinn:

Skerið fiskinn í 2,5 cm bita og blandið saman við lime safa, salt og pipar. Setjið plast yfir skálina og látið standa í ísskáp í um 20 mínútur.

Hitið 1 msk af ólífuolíu í stórum potti eða djúpri pönnu yfir háum hita. Setjið fiskinn í pottinn og steikið þar til fiskurinn er næstum fulleldaður og farinn að brúnast aðeins. Takið fiskinn úr pottinum og leggið hann til hliðar.

Sósan:

Lækkið hitan undir pottinum í miðlungsháann og bætið 1½ af ólífuolíu í hann. Setjið hvítlauk og lauk í pottinn og steikið í um 1½ mínútu eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið paprikunni í pottinn og steikið í 2 mínútur til viðbótar. Setjið það sem eftir er af hráefnunum í sósuna í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið sjóða í 15-20 mínútur eða þar til sósan er farin að þykkna. Smakkið til með salti og pipar. Bætið fiskinum í pottinn og látið sjóða í um 2 mínútur, svo fiskurinn nái að hitna aftur. Hrærið lime safa saman við og skreytið með fersku kóriander áður en rétturinn er borinn fram. Berið fram með hrísgrjónum

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Vikumatseðill

Ég sit hér í smá vafa yfir hvort að bloggið mitt verði ennþá til á morgunn. Það kostar nefnilega peninga að halda úti bloggi og þegar bloggið er orðið jafn stórt og mitt þá er það enn dýrara því því það tekur meira pláss. Þegar ég greiddi reikninginn fyrir auka plássið í gær fékk ég tilkynningu um að greiðslan hafi ekki farið í gegn en á sama tíma fékk ég staðfestingu fyrir greiðslunni í símann minn. Ég skil því hvorki upp né niður í þessum misvísandi skilaboðum og verð ekki róleg fyrr en ég fæ botn í málið. Þið látið ykkur því ekki bregða ef bloggið liggur niðri á morgunn, það er þá vonandi bara tímabundið ástand!

Vikumatseðill

Mexíkófiskur

Mánudagur: Mexíkófiskur

Nautahakks og makkarónupanna

Þriðjudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Pylsugratín með kartöflumús

Miðvikudagur: Pylsugratín með kartöflumús

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Fimmtudagur: Pasta í rjómasósu með beikoni og sveppum

Tælenskur kjúklingur með kókos

Föstudagur: Tælenskur kjúklingur með kókos

Bananakaka með súkkulaðikremi

Með helgarkaffinu: Bananakaka með súkkulaðikremi

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Góð byrjun á deginum

Góð byrjun á deginum

Ég efast ekki um að flesti leggi meira í morgunverðinn um helgar en á virkum dögum. Ég gef mér varla tíma fyrir morgunverð yfir vinnuvikuna en bæti þó vel upp fyrir það um helgar. Fæ æði fyrir einhverjum ákveðnum helgarmorgunmat og borða það sama helgi eftir helgi svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir áður en ég breyti til. Þessar kotasælupönnunkökur voru fastur liður hér á borðum í ansi langan tíma og ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef hitað frosið crossant í ofninum og fyllt þau síðan með eggjahræru og skinku.

Góð byrjun á deginum

Nýjasta æðið eru ristaðar beyglur með rjómaosti og góðri sultu (sulturnar frá St. Dalfour eru í algjöru uppáhaldi). Þetta æði hófst um það leiti sem nýja brauðristin kom í hús en á henni er sérstök beyglustilling sem ristar þær fullkomlega (það er líka hægt að hita beyglurnar í ofni sé þessi fítus ekki til staðar á brauðristinni). Ef ég ætla að gera virkilega vel við mig geri ég heitt súkkulaði með rjóma með. Svo ótrúlega notaleg byrjun á deginum. Ég mæli með þessu, sérstaklega núna þegar það er kuldalegt úti og extra notalegt að sitja inni yfir góðum morgunverði og lesa blaðið í ró og næði.

Góð byrjun á deginum

Og úr helgarmorgunverðinum í helgarkvöldverðinn. Ef þið eruð hugmyndasnauð fyrir helgarmatnum þá sting ég upp á Pad thai á föstudagskvöldinu, kjúkling með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu á laugardagskvöldinu og hægeldað boeuf bourguignon á sunnudagskvöldinu. Að því sögðu óska ég ykkur góðrar helgar.

Kjúklinga Pad ThaiKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuBoeuf bourguignon

HAGKAUP

McDonalds möffins með Dumle

Mc´Donalds möffins með Dumle
Ég hef í fleiri mánuði ætlað mér að fara yfir myndinar á flakkaranum mínum. Þær eru svo margar og nánast bara af mat, hálf glatað eitthvað. Ég verð að verða duglegri að taka myndir af daglega lífinu og krökkunum. Í gærkvöldi voru strákarnir að læra undir próf svo ég ákvað að nýta tækifærið og hefjast handa við að hreinsa út af diskinum. Það gekk nú ekki betur en svo að ég eyddi ekki einni einustu mynd út því ég rak strax augun í þessar möffins sem mig langaði að baka. Ég hélt að uppskriftin hefði farið á bloggið á sínum tíma en eftir að hafa leitað að færslunni í dágóða stund varð ég að játa mig sigraða. Annað hvort er færslan gjörsamlega týnd og tröllum gefin, eða að hún fór hreinlega aldrei inn.
Mc´Donalds möffins með Dumle
Ég ákvað því að koma færslunni inn því möffinsin voru svakalega góð en þá tók næsta vandamál við. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvar ég hefði fengið uppskriftina. Ég fór í gegnum Pinterest, bookmarks í tölvunni hjá mér og byrjaði að fletta í gegnum uppskriftamöppur þegar þetta loksins rifjaðist upp fyrir mér. Þetta kennir mér að setja uppskriftirnar strax inn á bloggið, því annars er hætta á að ég finni þær ekki aftur.
Mc´Donalds möffins með Dumle
Þar sem kvöldið fór að mestu leiti í að leita að uppskriftinni varð ekkert úr bakstrinum hjá mér en uppskriftinni ætla ég að koma örugglega fyrir hér á blogginu svo ég geti gengið að henni vísri næst þegar löngunin grípur mig. Þessi möffins eru nefnilega fullkomin! Á Svíþjóðarárum mínum var ég fastakúnni á McDonalds og ég hefði nú getað sparað mér ansi margar ferðir þangað hefði ég átt þessa uppskrift þá. Vinkonur mínar eru enn að hlægja af því þegar afgreiðslukonan í bílalúgunni á McDonalds staðnum mínum benti mér vingjarnlega á að þeir seldu líka jógúrt. Þetta er að eflaust ekki uppskriftin frá McDonalds en með tveimur tegundum af súkkulaði OG Dumle karamellum (sem er ekki í möffinsinu þar) gefa þær þeim ekkert eftir!
McDonalds möffins með Dumle (uppskriftin gefur 12 stór möffins) – uppskrift úr Veckorevyn
 • 130 g brætt smjör
 • 2 dl sykur
 • 2 egg
 • 2 tsk vanillusykur
 • 5 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • smá salt
 • 1 ½ dl kakó
 • 1 ¾ dl súrmjólk
 • 75 g grófhakkað dökkt súkkulaði
 • 75 g grófhakkað rjómasúkkulaði
 • 20 Dumle karamellur, grófhakkaðar

Hitið ofninn í 200° og raðið 12 möffinsformum á ofnplötu (best er þó að setja þau í möffinskökuform sé það til).

Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, vanillusykri, kakói og salti í skál.

Hrærið brædda smjörið, súrmjólk, sykur og egg saman í annari skál. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman í slétt deig. Hrærið ¾ af hakkaða súkkulaðinu og helmingnum af Dumle karamellunum í deigið. Setjið deigið í möffinsformin og stráið því sem eftir var af súkkulaðinu og Dumle karamellunum yfir. Bakið í miðjum ofni í 15-18 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Sætkartöflu pizzabotn úr 3 hráefnum!

Sætkartöflu pizzabotn

Ég veit að það er hefð á mörgum heimilum að vera með pizzur á föstudagskvöldum. Sjálf gæti ég eflaust lifað á pizzum og fæ ekki leið á þeim. Mér þykir hins vegar gaman að prófa nýjar uppskriftir og mismunandi áleggstegundir. Hér undir uppskriftaflipanum að ofan má finna nokkrar tegundir af pizzum sem mér þykja góðar og nú bæti ég enn einni í safnið.

Sætkartöflu pizzabotn

Þessi pizza er ólík þeim flestum þar sem botninn er gerður úr sætri kartöflu. Uppáhalds áleggið er síðan sett yfir, rétt eins og um hefðbundinn pizzabotn sé að ræða. Ég breytti þó út af vananum með áleggið í þetta sinn. Mér þykir satay sósa svo góð með kjúklingi og sætum kartöflum þannig að hún fékk að fara yfir botninn ásamt kjúklingi, rauðlauk og vel af osti. Þegar pizzan kom úr ofninum setti ég mangó, ferskt kóriander, kokteiltómata og salthnetur yfir hana. Útkoman var æðisleg!

Sætkartöflu pizzabotn (uppskriftin gefur einn stóran botn) – uppskrift frá Pinch of Yum

 • 1 meðalstór sæt kartafla
 • ⅔ bolli haframjöl
 • 1 egg
 • ½ tsk salt
 • krydd eftir smekk (má sleppa)

Hitið ofn í 200°. Setjið sætu kartöfluna og haframjölið í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til blandan er orðin fín. Bætið eggi og kryddum (séu þau notuð) saman við og látið vélina taka nokkra snúninga í viðbót til að allt blandist vel. Setjið blönduna á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og mótið pizzabotn sem er 0,5 – 1 cm á þykkt. Bakið í 25-30 mínútur, eða þar til botninn er þurr viðkomu.  Takið pizzabotninn úr ofninum, látið hann kólna og setjið hann síðan aftur á bökunarpappírsklædda bökunarplötuna en nú með þurru hliðina (sú sem hafði snúið upp í ofninum) niður. Takið bökunarpappírinn varlega af, penslið yfir botninn með ólífuolíu og bakið í 5-10 mínútur til viðbótar til að fá stökkann botn. Setjið sósu, álegg og ost yfir pizzubotninn og bakið þar til osturinn hefur bráðnað.

Sætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotnSætkartöflu pizzabotn

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Smjörsteiktur þorskur

Smjörsteiktur þorskur

Eftir að hafa vakað yfir kappræðunum í nótt og eftir þær farið í tölvuna til að lesa viðbrögðin við þeim, og þar með ekki farið að sofa fyrr en að ganga fjögur í nótt, var ekkert spes að vakna í vinnuna kl. 6.45 í morgun. Það var hins vegar brjálæðislega gott að sofna í sófanum þegar ég kom heim seinni partinn. Það sem maður leggur á sig!

Smjörsteiktur þorskur

Mánudagar eru fiskidagar, það er eldgömul saga. Í gær vakti fiskurinn þó óvenju mikla lukku þrátt fyrir að vera eldaður á eins einfaldan máta og mögulegt er. Það sem gerði hann svo æðislega góðan var að þorskurinn var kryddaður með ljúffengri kryddblöndu áður en hann var bæði steiktur upp úr smjöri og eftir að hafa verið snúið á pönnunni var smjör látið bráðna yfir hann. Útkoman var svo góð að það var barist um síðasta bitann á pönnunni.

Smjörsteiktur þorskur

 • 600-700 g þorskur
 • 6 msk smjör
 • ¼ tsk hvítlauksduft
 • ½ tsk salt
 • ¼ tsk mulinn pipar
 • ¾ tsk paprikukrydd
 • sítróna, skorin í sneiðar
 • fersk steinselja

Hrærið saman hvítlauksdufti, salti, pipar og paprikukryddi. Skerið þorskinn í passlega stóra bita (eftir smekk). Kryddið þorskinn á öllum hliðum með kryddblöndunni.

Hitið 2 msk af smjöri á pönnu yfir miðlungsháum hita (ég var með stillingu 7 af 9). Þegar smjörið hefur bráðnað er þorskinum bætt á pönnuna og steiktur í 2 mínútur. Lækkið hitan örlítið (ég lækkaði hann niður í stillingu 5), snúið þorskinum og setjið það sem eftir var af smjörinu yfir hann. Steikið þorskinn í 3-4 mínútur. Þá hefur smjörið á fiskinum bráðnað og hann orðinn fulleldaður. Passið að steikja þorskinn ekki of lengi! Kreystið sítrónusafa yfir þorskinn og berið hann strax fram.

Smjörsteiktur þorskur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

 

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Ég las í morgunn að það væru minna en 100 dagar til jóla. Það þóttu mér góð tíðindi enda fyrir löngu farin að hlakka til jólanna og meira að segja hefur eitt og eitt jólalag heyrst hér á heimilinu upp á síðkastið (sem er allt of snemmt, ég veit!). En tíminn er fljótur að líða og eftir tvo mánuði verða aðventuljósin dregin fram, smákökurnar bakaðar og jólalögin fá að njóta sín. Það sem ég hlakka til!

Planið fyrir daginn var að fara í góðan göngutúr, gera vikuinnkaup, grilla kjúkling og fara í bíó en þegar ég var að borða morgunmatinn fékk ég tak í bakið sem virðist ekki ætla að gefa sig. Ég eyddi því deginum í að dunda mér við að gera vikumatseðil og plana komandi viku. Ísskápurinn er tómur og ég hef ekki farið út fyrir húsins dyr í allan dag en kjúklingurinn skal á grillið og vikumatseðillinn er klár!

Vikumatseðill

Fiskgratín með sveppum

Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum

Spaghetti bolognese

Þriðjudagur: Spaghetti bolognese

Gúllassúpa með nautahakki

Miðvikudagur: Gúllassúpa með nautahakki

Ferskt tortellini í pestósósu

Fimmtudagur: Tortellini í pestósósu

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Föstudagur: Kjúklingaborgari með alls konar góðgæti

Skúffukaka

Með helgarkaffinu: Skúffukaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kjúklinga Pad Thai

Kjúklinga Pad Thai

Nú er enn ein helgin handan við hornið og í þetta sinn sit ég á hreint út sagt frábærum föstudagasrétti sem ég eldaði síðasta föstudag við gífurlegar vinsældir hér heima. Rétturinn var svo vinsæll að afgangurinn var borðaður í morgunmat á laugardagsmorgninum og fengu færri en vildu.

Kjúklinga Pad Thai

Ég hef aldrei áður endað Pad thai en hef hins vegar margoft keypt mér Pad thai á veitingastöðum því mér þykir það svoooo gott. Ég held að ástæðan fyrir því að ég hef ekki eldað það fyrr er að ég klúðraði einhvern tímann hrísgrjónanúðlum þegar ég sauð þær og síðan þá hef ég haldið mér frá þeim. Núna klúðraðist hins vegar ekkert enda svo sem erfitt að klúðra svona einfaldri eldamennsku.

Kjúklinga Pad Thai

Það eina sem er tekur tíma við þennan rétt er að skera niður kjúklinginn og grænmetið. Ég mæli því með að byrja á að sjóða núðlurnar og á meðan þær sjóða að skera niður allt sem þarf að skera niður. Að því loknu tekur enga stund að koma réttinum saman.

Kjúklinga Pad Thai

Uppskriftin er stór og dugar vel fyrir 6 manns. Við vorum 5 í mat og áttum smá afgang sem Jakob náði að fá sér í morgunmat daginn eftir, við litlar vinsældir Gunnars sem einfaldlega var ekki nógu snöggur á fætur. You snooze you lose…

Kjúklinga Pad thai

Kjúklinga Pad Thai (uppskrift frá Cooking Classy)

 • 280 g hrísgrjónanúðlur  (Thai rice noodles)
 • 500 g  kjúklingabringur, skornar í strimla
 • 2 msk grænmetisolía
 • 1/4 bolli púðursykur
 • 1/4 bolli sojasósa
 • 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • 1 msk ferskur limesafi
 • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
 • 1 rauð paprika, skorinn í þunna strimla
 • 1 1/2 bolli gulrætur, skornar í strimla á stærð við eldspítur
 • 2 hvítlauksrif
 • 4 vorlaukar, hvíti hlutinn er fínhakkaður og græni hlutinn skorinn í sneiðar
 • 2 bollar baunaspírur (ég var með eina dós af niðursoðnum)
 • 3 stór egg
 • 1/2 bolli salthnetur, hakkaðar gróflega
 • 1/3 bolli kóriander, hakkað

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka (passið að sjóða þær ekki of lengi og kælið þær um leið og þær koma úr pottinum).

Hrærið saman púðursykri, sojasósu, hrísgrjónaediki, limesafa og fiskisósu. Setjið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður (það tekur um 4-6 mínútur). Takið kjúklinginn af pönnunni. Setjið papriku og gulrætur á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur, bætið þá hvítlauk, vorlauk og baunaspírum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur til viðbótar. Ýtið grænmetinu til hliðar á pönnunni og brjótið eggin í miðjuna. Hrærið í eggjunum þar til þau eru fullelduð. Bætið kjúklingi, núðlum og sósu á pönnuna og blandið öllu vel saman. Steikið saman í 1-2 mínútur. Stráið fersku kóriander og salthnetum yfir og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP