Vikumatseðill

Sunnudagskvöldin hér heima hafa verið heilög undanfarnar vikur þar sem við höfum komið okkur upp svo skemmtilegri hefð. Ég elda eitthvað gott, mamma kemur í mat og svo horfum við saman á Allir geta dansað. Svo gaman! Í kvöld ætlum við að grilla kjúklingabringur, gera þessar kartöflur, kalda sósu og gott salat. Svo verðum við líka með pizzu með skinku, rjómaosti, döðlum og fl. Síðan fáum við okkur alltaf eitthvað sætt yfir sjónvarpinu. Fullkominn endir á helginni!

Vikumatseðill

Mánudagur: Mexíkófiskur

Þriðjudagur: Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með chili og mozzarellafylltar brauðbollur

Fimmtudagur: Baka með sætum kartöflum, spínati, fetaosti og kasjúhnetum

Föstudagur: Chilihakkpizza

Með helgarkaffinu: Snickersbitar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Grænmetisbaka með piparosti

Ég er að reyna að fjölga kjötlausu dögunum hér heima, bæði vegna þess að mér þykja grænmetisréttir vera svo léttir og góðir í maga en líka vegna þess að það er til svo mikið af spennandi grænmetisuppskriftum sem mér þykir gaman að prófa. Þetta framtak mitt fellur síður en svo í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum en ég mun ekki gefa mig. Ég bara neita að trúa að það sé ekki hægt að verða saddur af grænmetisréttum eins og hörðustu mótmælendur reyna að halda fram.

Ég má samt til með að taka það fram að meirihlutinn við matarborðið dásamaði matinn og það varð sneið eftir sem ég tók með mér í nesti í dag. Ég bar bökuna fram með einföldu salati sem samanstóð af spínati, rauðlauki, kokteiltómötum, fetaosti og ristuðum kasjúhnetum. Síðan setti ég smá balsamikgljáa yfir. Súpergott!

Ég keypti tilbúið bökudeig úr heilhveiti sem var mjög þægilegt en ég linka hér fyrir neðan á uppskriftina sem ég er vön að nota þegar ég geri deigið sjálf.

Grænmetisbaka með piparosti (uppskrift fyrir 4-5)

 • bökubotn (hér er uppskrift en einnig er hægt að kaupa tilbúið deig)
 • 1 rauð paprika
 • 1 græn paprika
 • 1/2 púrrulaukur
 • 1 lítill spergilkálshaus
 • krydd, t.d. ítalskt salatskrydd
 • 5 kokteiltómatar
 • 3 egg
 • 2,5 dl rjómi
 • 1 box rifinn piparostur (100 g)
 • paprikukrydd
 • salt
 • pipar
 • rifinn ostur

Hitið ofn í 175°. Setjið bökudeigið í bökuform (eða smelluform), stingið aðeins yfir botninn með gaffli og forbakið í 10 mínútur.

Skerið paprikur, púrrulauk og spergilkál smátt og steikið á pönnu þar til hefur fengið fallegan lit og farið að mýkjast. Kryddið eftir smekk (ég notaði ítalskt salatskrydd). Setjið grænmetið yfir forbakaða bökuskelina. Skerið tómatana í tvennt og setjið yfir grænmetið.

Hrærið saman egg og rjóma. Bætið piparostinum saman við og kryddið með paprikukryddi, salti og pipar. Hellið blöndunni yfir grænmetið og setjið vel af rifnum osti yfir. Bakið við 175° í 35 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Crunshwrap

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir á fimmtudögum sem gætu hentað að elda yfir helgina. Á virkum dögum elda ég yfirleitt mat sem tekur stuttan tíma að gera og er kannski meiri hversdagsmatur. Um helgar vil ég hafa meiri stemningu í þessu og reyni að finna rétti sem hitta í mark hjá krökkunum. Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og um síðustu helgi prófaði ég að gera crunchwrap í fyrsta sinn. Svo gott!

Ég reyndi að mynda hvernig tortillan er brotin saman en veit ekki hvort það hafi tekist nógu vel. Þetta segir sig kannski bara sjálft?

Crunchwrap – uppskrift fyrir 5-6

 • 4 kjúklingabringur (um 1 kg), skornar í strimla
 • 1 msk olía
 • safi af 1 lime
 • 1 bréf fajita krydd

Blandið saman og látið marinerast í 1 klst.

 • 1 laukur, sneiddur
 • 1 rauð paprika, sneidd
 • 1 græn paprika, sneidd
 • 1 tsk salt
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 dl bjór (pilsner gengur líka)
 • 10 tortillur
 • rifinn ostur

Grænmetið er steikt á pönnu, saltað og pressuðum hvítlauki bætt við, og steikt aðeins áfram. Kjúklingnum er bætt á pönnuna og steiktur þar til nánast fulleldaður.  Hellið bjór yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Rifinn ostur er settur á miðja tortillu, svo kjúklingablandan sett yfir, brotið saman og sett á ofnplötu með sárið niður. Rifinn ostur settur yfir og bakað við 180° í 15-20 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Hakk í pulsubrauði

Ég á fullan frysti af nautahakki og er að reyna að elda úr því. Það er síður en svo flókið verk, enda til heill hafsjór af góðum uppskriftum með nautahakki í. Ég fékk þó í vikunni alveg svakalega löngun í rétt sem mamma eldaði oft í gamla daga handa okkur og mér þykir alltaf jafn góður. Ég ætlaði að vera með hann á laugardagskvöldinu en plönin breyttust og úr varð að ég bauð mömmu í mat og Allir geta dansað áhorf á sunnudagskvöldinu og bauð þá upp á þennan gamla góða rétt.

Þetta er svo súpereinfalt og ég get varla ímyndað mér annað en að öll börn séu hrifin af þessu. Það er auðvitað hægt að setja salat og grænmeti með hakkinu í pulsubrauðið en við erum ekki svo heilsusamleg þegar við erum á annað borð í þessum gír heldur bætum hrásalati og kokteilsósu í brauðið. Síðan höfum við franskar með. Maður verður stundum að leyfa sér!

Hakk í pulsubrauði

 • 500 g nautahakk
 • 1 laukur, smátt saxaður
 • 1/2 bolli chilisósa
 • 1/2 bolli sweet relish
 • 5 pulsubrauð

Nautahakkið og laukurinn er steikt saman og kryddað með pipar og salti. Chilisósu og sweet relish bætt út í og látið blandast saman við hakkið.

Smyrjið pulsubrauðin með smjöri að innan og hitið þau við 200° í ofni þar til heit og stökk að utan. Setjið kjötfyllinguna inn í og berið fram með þeim sósum sem lokka.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Föstudagskvöld

Fyrir nokkrum vikum keypti ég stand fyrir síma og ipad í Ikea. Þessi einfaldi hlutur hefur nánast verið í stöðugri notkun síðan. Það er frábært að hafa hann í eldhúsinu þegar verið er að nota uppskriftir af netinu og eins er hann nánast ómissandi þegar verið er að Facetime-a. Malín og Oliver tóku standinn meira að segja með sér þegar þau fóru til New York um daginn og voru þá búin að hlaða niður bíómyndum á Netflix til að horfa á í fluginu. Ég gerði mér að lokum ferð í Ikea til að kaupa fleiri standa, þannig að núna er til einn á mann hér heima. Og ódýrir eru þeir, 245 kr. Tips, tips!

Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum

Ég hef verið óvenju dugleg að elda grænmetisrétti upp á síðkastið, stráknum til mikillar mæðu. Þeir eru búnir að fá sig fullsadda af grænmetissælunni. Um daginn ætlaði ég að hafa þennan karrýrétt í kvöldmat en þeir mótmæltu svo harðlega að ég snarskipti um skoðun og hitaði kjötbollur sem ég átti í frystinum. Daginn eftir voru þeir ekki í mat og þá nýtti ég tækifærið og eldaði karrýréttinn. Þar sem uppskriftin er ágætlega stór og við vorum bara tvö í mat, varð góður afgangur af réttinum. Ég skipti því niður á nokkur nestisbox sem fóru í frysti og hafa komið sér vel sem nesti í vinnuna.

Ég bar réttinn fram með nanbrauði og ristuðum kasjúhnetum en þegar ég hef borðað hann í vinnunni hef ég bara tekið súrdeigsbrauðsneið með mér (ég á það oftast niðurskorið í frystinum). Ég kaupi súrdeigsbrauðið í Ikea (það er bæði gott og á góðu verði), sker niður í sneiðar þegar ég kem heim og set beint í frysti. Um helgar þykir mér gott að rista brauðið og setja stappað avokadó, sítrónusafa, maldonsalt og chili explosion yfir. Svo gott!

Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum (breytt uppskrift úr bókinni Nyfiken Grön)

 • 1 laukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 sæt kartafla
 • 1/2 msk karrý
 • 2 dl rauðar linsubaunir
 • 2 dósir kókosmjólk (400 ml. hvor)
 • 2 grænmetisteningar
 • 3-5 dl vatn
 • 1 lítill blómkálshaus
 • steinselja eða kóriander (má sleppa)
 • salt og pipar
 • þurrristaðar kasjúhnetur til að setja yfir réttinn (má sleppa)

Afhýðið of hakkið lauk, hvítlauk og sætu kartöfluna. Mýkið í olíu ásamt karrý og linsubaunum í rúmgóðum potti. Hrærið vel í pottinum á meðan svo ekkert brennið við. Hellið kókosmjólk og vatni yfir og bætið grænmetisteningunum saman við. Látið sjóða undir loki í 10 mínútur. Skerið blómkálið í bita og bætið í pottinn. Látið sjóða áfram í um 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Stráið steinselju yfir áður en rétturinn er borinn fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

Síðasti dagurinn í páskafríinu

 

Gleðilega páska! Ég vona að þið séuð búin að eiga gott páskafrí. Veðrið hefur jú leikið við okkur hér á höfuðborgarsvæðinu og undir lokin var ég næstum farin að óska eftir slagveðri svo ég gæti eytt deginum í sófanum án þess að fá samviskubit. Ég get nú ekki sagt að við höfum verið dugleg í útivistinni þrátt fyrir veðurblíðuna en ég dreif mig út og þreif gluggana hér heima og svo gengum við einn daginn hringinn í kringum Hvaleyrarvatn og enduðum ferðina á Brikk.

Við byrjuðum páskafríið á að grilla okkur hamborgara. Mér þykja hamborgarar svo góðir en elda þá sárasjaldan. Þessir voru eins einfaldir og hægt er að hafa þá en góðir engu að síður. Ostur, kál, laukur og margar sósur til að velja á milli. Gott!

Krakkarnir hafa verið að koma með páskaegg heim vikurnar fyrir páska  og síðan fékk ég eitt frá vinnunni. Ég ákvað því að kaupa ekki fleiri páskaegg (í fyrra voru þau svo mörg að við vorum borðandi þau langt fram á vor) heldur gaf krökkunum frekar páskagjafir. Malín fékk bkr brúsa og tilheyrandi klakabox sem ég vissi að hana langaði í (hún drekkur vatn með öllu og er alltaf í ræktinni, þannig að brúsinn nýtist vel) og strákarnir fengu Playstation heyrnatól sem hefðu varla getað vakið meiri lukku. Þeir eru með tvær tölvur hér heima og geta núna talað á milli.

Ég eyddi mörgum stundum í horninu á sófanum yfir páskana, ýmist með prjónana eða bók og kaffibolla. Fyrir páskafríið fyllti ég vel á kaffibyrgðirnar og taldi mig ekki þurfa að fara í Nespressobúðina næstu vikurnar. Þar hafði ég nú heldur betur rangt fyrir mér…

Ég bakaði pizzasnúða á skírdag og flýtti mér að setja helminginn í frysti áður en þeir kláruðust. Ég sé fyrir mér að krakkarnir geti fengið sér þá þegar þau koma heim úr skólanum.  Á myndinni sést kannski að það eru tvenns konar form á snúðunum, þ.e. sumir eru hærri en aðrir. Ég setti helminginn af snúðunum beint á bökunarpappír en hinn helminginn (þeir sem eru hærri) setti ég í bökunarform fyrir möffins (álform sem er fyrir nokkur möffins, ekki pappaform). Snúðarnir uðru háir og fínir við það.

Við fórum í mat til mömmu á föstudeginum langa. Mamma gerði súpu sem hún hefur gert áður og uppskriftin endaði þá hér á blogginu. Svo góð!! Í eftirrétt gerði hún Söru Bernharðs-köku sem hún bar fram með rjóma. Ég var gjörsamlega afvelta eftir þetta.

Ég bauð mömmu og bróður mínum í mat á páskadag í hefðbundið páskalæri. Lærið fór inn í ofn fyrir hádegi í lokuðum ofnpotti við 100° og fékk að dúsa þar yfir daginn. Gæti ekki verið þægilegra. Meðlætið var einfalt, brúnaðar kartöflur, sveppasósa, gular baunir og salat. Eftirréttinn mun ég setja hingað inn fljótlega, hann var æði!

Þessum síðasta frídegi verður eytt í afslöppun. Við hituðum okkur crossant í morgunmat (kaupi þau frosin) og í kvöld verður afgangur síðustu tveggja kvölda í kvöldmat. Nú tekur stutt vinnuvika við, bara fjórir dagar, áður en helgarfrí skellur á. Vorið er alltaf ljúft hvað frídaga varðar. Eftir veislumat síðustu daga langar mig mest til að taka grænmetisviku hér heima en veit að það fengi ekki góðar undirtektir hjá strákunum. Við sjáum hvað setur…