Vikumatseðill

Vikumatseðill

Ég las í morgunn að það væru minna en 100 dagar til jóla. Það þóttu mér góð tíðindi enda fyrir löngu farin að hlakka til jólanna og meira að segja hefur eitt og eitt jólalag heyrst hér á heimilinu upp á síðkastið (sem er allt of snemmt, ég veit!). En tíminn er fljótur að líða og eftir tvo mánuði verða aðventuljósin dregin fram, smákökurnar bakaðar og jólalögin fá að njóta sín. Það sem ég hlakka til!

Planið fyrir daginn var að fara í góðan göngutúr, gera vikuinnkaup, grilla kjúkling og fara í bíó en þegar ég var að borða morgunmatinn fékk ég tak í bakið sem virðist ekki ætla að gefa sig. Ég eyddi því deginum í að dunda mér við að gera vikumatseðil og plana komandi viku. Ísskápurinn er tómur og ég hef ekki farið út fyrir húsins dyr í allan dag en kjúklingurinn skal á grillið og vikumatseðillinn er klár!

Vikumatseðill

Fiskgratín með sveppum

Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum

Spaghetti bolognese

Þriðjudagur: Spaghetti bolognese

Gúllassúpa með nautahakki

Miðvikudagur: Gúllassúpa með nautahakki

Ferskt tortellini í pestósósu

Fimmtudagur: Tortellini í pestósósu

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Föstudagur: Kjúklingaborgari með alls konar góðgæti

Skúffukaka

Með helgarkaffinu: Skúffukaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kjúklinga Pad Thai

Kjúklinga Pad Thai

Nú er enn ein helgin handan við hornið og í þetta sinn sit ég á hreint út sagt frábærum föstudagasrétti sem ég eldaði síðasta föstudag við gífurlegar vinsældir hér heima. Rétturinn var svo vinsæll að afgangurinn var borðaður í morgunmat á laugardagsmorgninum og fengu færri en vildu.

Kjúklinga Pad Thai

Ég hef aldrei áður endað Pad thai en hef hins vegar margoft keypt mér Pad thai á veitingastöðum því mér þykir það svoooo gott. Ég held að ástæðan fyrir því að ég hef ekki eldað það fyrr er að ég klúðraði einhvern tímann hrísgrjónanúðlum þegar ég sauð þær og síðan þá hef ég haldið mér frá þeim. Núna klúðraðist hins vegar ekkert enda svo sem erfitt að klúðra svona einfaldri eldamennsku.

Kjúklinga Pad Thai

Það eina sem er tekur tíma við þennan rétt er að skera niður kjúklinginn og grænmetið. Ég mæli því með að byrja á að sjóða núðlurnar og á meðan þær sjóða að skera niður allt sem þarf að skera niður. Að því loknu tekur enga stund að koma réttinum saman.

Kjúklinga Pad Thai

Uppskriftin er stór og dugar vel fyrir 6 manns. Við vorum 5 í mat og áttum smá afgang sem Jakob náði að fá sér í morgunmat daginn eftir, við litlar vinsældir Gunnars sem einfaldlega var ekki nógu snöggur á fætur. You snooze you lose…

Kjúklinga Pad thai

Kjúklinga Pad Thai (uppskrift frá Cooking Classy)

 • 280 g hrísgrjónanúðlur  (Thai rice noodles)
 • 500 g  kjúklingabringur, skornar í strimla
 • 2 msk grænmetisolía
 • 1/4 bolli púðursykur
 • 1/4 bolli sojasósa
 • 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • 1 msk ferskur limesafi
 • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
 • 1 rauð paprika, skorinn í þunna strimla
 • 1 1/2 bolli gulrætur, skornar í strimla á stærð við eldspítur
 • 2 hvítlauksrif
 • 4 vorlaukar, hvíti hlutinn er fínhakkaður og græni hlutinn skorinn í sneiðar
 • 2 bollar baunaspírur (ég var með eina dós af niðursoðnum)
 • 3 stór egg
 • 1/2 bolli salthnetur, hakkaðar gróflega
 • 1/3 bolli kóriander, hakkað

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka (passið að sjóða þær ekki of lengi og kælið þær um leið og þær koma úr pottinum).

Hrærið saman púðursykri, sojasósu, hrísgrjónaediki, limesafa og fiskisósu. Setjið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður (það tekur um 4-6 mínútur). Takið kjúklinginn af pönnunni. Setjið papriku og gulrætur á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur, bætið þá hvítlauk, vorlauk og baunaspírum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur til viðbótar. Ýtið grænmetinu til hliðar á pönnunni og brjótið eggin í miðjuna. Hrærið í eggjunum þar til þau eru fullelduð. Bætið kjúklingi, núðlum og sósu á pönnuna og blandið öllu vel saman. Steikið saman í 1-2 mínútur. Stráið fersku kóriander og salthnetum yfir og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Portúgalskur saltfiskréttur og ávextir með hrákremi

Portúgalskur saltfiskréttur

Um daginn bauð mamma okkur í mat. Mamma gerir svo góðan mat að það er alltaf tilhlökkunarefni að fara í mat til hennar. Hún eldar rétti sem mér myndi aldrei detta í hug að elda, eins og þennan saltfiskrétt, og opnar augu mín fyrir nýjungum. Ég minnist þess ekki að hafa eldað saltfisk en mun gera það eftir að hafa fengið þennan rétt. Hann var svo góður! Krakkarnir fengu sér öll ábót og ég borðaði svo yfir mig að ég lá í sófanum hjá mömmu í þrjá tíma að jafna mig.

Portúgalskur saltfiskréttur

Ég var ekki með myndavélina með mér heldur smellti af myndum á símann og gæðin eru eftir því. Ég vona að það fyrirgefist, mig langaði bara svo til að deila uppskriftinni með ykkur. Eftir matinn bauð mamma upp á eftirrétt sem er í miklu uppáhaldi hjá strákunum, ávexti með hrákremi. Svo gott!

Portúgalskur saltfiskréttur og ávextir með hrákremi

Portúgalskur saltfiskréttur

 • 600 g saltfiskur, soðinn og skorinn í bita (passið að hafa fiskinn ekki of saltan)
 • 600 g kartöflur, soðnar og skornar í bita
 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 rauð paprika
 • 100 g smjör
 • 3 msk olía
 • 1 stk Gull ostur, skorinn í bita
 • 1 poki gratín ostur
 • 1 askja kokteil tómatar

Byrjið á að sjóða fiskinn í einum potti og kartöflurnar í öðrum. Skerið fiskinn og kartöflurnar í bita og leggið til hliðar.

Hakkið lauk, papriku og hvítlauk. Bræðið smjör og olíu á pönnu og mýkjið laukinn, paprikuna og hvítlaukinn. Bætið fiskinum, kartöflunum og Gull ostinum saman við. Setjið blönduna í eldfast mót, stráið gratín ostinum yfir og að lokum kokteiltómötum sem hafa verið skornir til helminga. Bakið í 15 mínútur við 180°.

Hrákrem

 • 3 eggjarauður
 • 3 msk flórsykur
 • 5 dl rjómi

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman í skál. Þeytið rjómann í annari skál. Blandið eggjablöndunni varlega saman við rjómann. Berið fram með ferskum ávöxtum.

Allt hráefni í þessar uppskriftir fæst í

HAGKAUP

 

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Ég og strákarnir skutumst í Hagkaup í seinnipartinn í gær eftir smá laugardagsnammi. Yfirleitt enda slíkar ferðir í vitleysu og þegar í búðina er komið þykir mér ekkert eðlilegra en að kaupa sælgæti í kílóavís, snakk, ídýfu og gos. Í gær tók ferðin þó óvænta stefnu þegar ég rak augun í múslí og granóla frá sænska Paulúns. Ég get orðið svo glöð yfir nýjungum í matvörubúðunum og þegar nýjungarnar eru sænskar æsist ég öll upp í nostalgíukasti. Þannig að í staðin fyrir að fylla körfuna af sælgæti og snakki gengum við út með múslí, granóla, ab-mjólk, banana. Strákarnir fengu smá nammi sem ég síðan endaði á að borða frá þeim. Nú vona ég bara að ég eigi eftir að sjá fleiri vörur frá Paulúns í hillunum, supermixið stendur efst á óskalistanum mínum.

Vikumatseðill

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Mánudagur: Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Þriðjudagur: Kjötbollur með mozzarella og basiliku

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Miðvikudagur: Mögulega besta tómatsúpa í heimi

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Fimmtudagur: Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Carnita taco

Föstudagur: Carnito taco

möndlukaka

Með helgarkaffinu: Möndlukaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Ef það er einhvern tímann árstími fyrir gúllas þá er það þegar daginn tekur að stytta og veðrið fer kólnandi. Þá held ég að það sé fátt notalegra en að leyfa gúllas að malla í eldhúsinu á meðan verið er að dunda sér við annað. Ég hef prófað allmargar uppskriftir af gúllas og verð að segja að þessi er með þeim bestu. Það sem gerir hana kannski frábrugðna hefðbundum gúllasuppskriftum er að í henni er rautt karrý, mango chutney og kókosmjólk sem fer alveg svakalega vel með tómötunum og engiferinu. Útkoman verður alveg hreint ótrúlega bragðgóð og það voru allir á einu máli um að gúllasið væri stórgott.

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk

Uppskriftin er frekar stór og dugði okkur í tvær máltíðir. Ég bar gúllasið fram með hrísgrjónum og snittubrauði fyrra kvöldið og heimagerðri kartöflumús það seinna. Bæði meðlætin voru góð en mér þótti kartöflumúsin þó eiga vinninginn. Þessi réttur verður eldaður aftur og aftur hér á bæ, svo mikið er víst.

Gúllas með rauðu karrý og kókosmjólk (uppskrift fyrir 8 manns)

 • 2 tsk olía
 • um 1 kg. gúllasbitar
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 1 stór laukur, skorinn í teninga
 • 3-4 hvítlauksrif, pressuð
 • 3 tsk rautt karrýmauk (thai red curry paste)
 • 2 lárviðarlauf
 • 1 dós (400 ml) hakkaðir tómatar
 • 1 dós (400 ml) kókosmjólk
 • 3 msk mango chutney
 • 3 msk sítrónusafi
 • 1 grænmetisteningur
 • 2 tsk fínrifið engifer
 • 3-4 dl gulrætur, skornar gróflega niður
 • 1 rauð paprika, skorin í teninga

Hitið olíu í góðum þykkbotna potti og brúnið kjötið í tveimur skömmtum. Takið kjötið úr pottinum og leggið til hliðar. Kryddið með salti og pipar.

Bætið smá olíu í pottinn ef þörf er á og setjið lauk og hvítlauk í hann. Látið mýkjast í um 3-5 mínútur (passið að hafa hitann ekki of háann) og bætið síðan kjötinu aftur í pottinn. Hrærið karrýmauki saman við og steikið í eina mínútu. Bætið þá tómötum, kókosmjólk, mangó chutney, sítrónusafa, engifer og lárviðarlaufi í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann, setjið lok á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 75 mínútur.  Bætið þá gulrótunum og grænmetisteningi í pottinn og sjóðið áfram í 30-45 mínútur, eða þar til kjötið er orðið meyrt og gulræturnar mjúkar.  Bætið þá paprikunni saman við og sjóðið án loks í 5 mínútur. Takið lárviðarlaufin úr pottinum áður en rétturinn er borinn fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Það fór eflaust ekki framhjá neinum að Justin Bieber hélt tónleika í Kórnum hér í Kópavogi fyrir helgi (ja, nema kannski honum sjálfum sem hélt að hann væri staddur í Reykjavík þegar hann heilsaði tónleikagestum). Þar sem við búum í Kórahverfinu og strákarnir ganga í unglingadeild Hörðuvallaskóla, sem er staðsett í sjálfum Kórnum, er óhætt að segja að við vorum með í stuðinu. Krakkarnir skelltu sér á tónleikana en ég hélt mér heima við og bakaði köku sem ég bauð upp á eftir tónleikana.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Og það var engin smá kaka! Mýksta súkkulaðikaka sem hægt er að hugsa sér með mjúku smjörkremi á milli botna. Krakkarnir voru að vonum alsælir þegar þeir komu heim og á móti þeim tók bökunarlykt og nýbökuð súkkulaðikaka stóð á borðinu. Þau voru fljót að skipta yfir í þægilegri föt og koma sér vel fyrir, enda nóg að ræða eftir að hafa loksins barið Bieberinn augum. Ljúfur endir á frábæru kvöldi hjá þeim.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Hershey´s súkkulaðikaka (jább, uppskriftin er aftan á kakóboxinu)

 • 2 bollar sykur
 • 1  3/4 bolli hveiti
 • 3/4 bolli kakó
 • 1 ½ tsk. lyftiduft
 • 1 ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 egg
 • 1 bolli mjólk
 • ½ bolli olía (ekki ólívuolía)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 bolli sjóðandi vatn

Hitið ofninn í 175°. Blandið sykri, hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti saman. Bætið eggjum, mjólk, olíu og vanillu saman við og hrærið vel. Hrærið sjóðandi vatni varlega saman við. Setjið deigið í 2 smurð bökunarform með lausum botni (ég var með þrjú minni form) og bakið í 25-30 mínútur. Látið botnana kólna í 15 mínútur í formunum, takið þá síðan úr formunum og látið þá kólna alveg áður en kremið er sett á.

Smjörkrem

 • 12 msk mjúkt smjör
 • 5 ½ bolli flórsykur
 • 1 bolli kakó
 • 2/3 bolli mjólk
 • 2 tsk vanilludropar
Setjið smjör í skál. Setjið um 1/3 af flórsykrinum saman við og hrærið vel. Setjið þá um 1/3 af mjólkinni og vanilludropana saman við og blandið vel. Þar á eftir er um 1/3 af kakóinu sett út í og blandað vel. Endurtakið þar til allt er komið í skálina. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir kökuna.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Þessi helgi hefur verið svo ljúf og góð. Á föstudagskvöldinu fóru krakkarnir á Justin Bieber tónleikana og á meðan átti ég mjög rólegt kvöld hér heima. Ég dundaði mér í eldhúsinu við að baka köku á milli þess sem ég horfði með öðru auganu á The Voice. Eftir að hafa sofið út í gær fórum við í smá rúnt niður í bæ, kíktum í Epal og borðuðum á Jómfrúnni. Kvöldinu eyddum við síðan með vinafólki yfir sushi og hvítu. Nú bíða hins vegar vikuinnkaup og göngutúr. En áður en ég kem mér út má ég til með að birta enn eina hugmyndina að vikumatseðli.

Vikumatseðill

Mexíkófiskur

Mánudagur: Mexíkófiskur

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Þriðjudagur: Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Pulsu- og makkarónuskúffa

Miðvikudagur: Pulsu- og makkarónuskúffa

Súpergott tacogratín!

Fimmtudagur: Súpergott tacogratín

Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Föstudagur: Tígrisrækjur með tælensku ívafi

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Með helgarkaffinu: Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Caesarbaka

Caesarbaka

Það ætti ekki að koma neinum sem lesa hér á óvart að ég bæði geri og fylgi vikumatseðlum. Það hef ég gert síðan ég eignaðist tvíburana mína fyrir tæpum 14 árum og sá hag minn í því að fækka búðarferðum eins mikið og möguleiki var á. Ég plana því alltaf matarvikuna og í gærkvöldi stóð skýrum stöfum gúllas á matseðlinum, haustlegur matur sem ég ætlaði að láta malla á meðan ég færi í langan göngutúr. Ég sá fyrir mér að ég kæmi svöng heim, myndi sitja lengi við matarborðið og njóta kvöldverðarins.

Caesarbaka

Síðan komst ég að því að strákarnir yrðu ekki í mat og skömmu síðar þegar ég opnaði ísskápinn rak ég augun í fimm tegundir af ostum sem við keyptum í ostabúðinni um daginn. Malín og Oliver eru ekki mikið fyrir osta en voru fullkomlega sátt við að hita sér lasagna sem var til í frystinum og því fengum við Hannes okkur osta og rauðvínskvöldverð. Svo gott! Ég tók ostana snemma út og á meðan við fórum í göngutúr náðu þeir að standa í tvo tíma á borðinu. Það þykir mér best. Kaldir ostar beint úr ísskápnum þykja mér ekki spennandi og passa því alltaf að taka þá tímalega út.

Caesarbaka

Ég ætla þó ekki að birta hér myndir af rauðvíni og ostum heldur gefa uppskrift af Caesarböku sem ég gerði um daginn og var svo góð. Ég elska Caesar salat (hver gerir það ekki!) og á enn eftir að gefa hér uppskrift af lang besta Caesar salatinu. Ég þarf bara að fá leyfi hjá vinkonu minni sem gaf mér uppskriftina til að birta hana hér, já og auðvitað að elda það (sem ég geri reglulega) og mynda. En áður en það gerist kemur hér uppskrift af Caesarbökunni góðu. Það væri eflaust mjög gott að bera hana fram með Caesar dressingu, en ég átti hana ekki til og lét bökuna því duga svona. Það kom ekki að sök, hún var stórgóð!

Caesarbaka

Caesarbaka

Botn:

 • 3 dl hveiti (180 g)
 • 100 g smjör
 • 2 msk vatn

Hitið ofninn í 225°. Blandið hveiti og smjöri saman (gott að nota matvinnsluvél ef hún er til). Bætið vatni saman við og vinnið snögglega saman í deig. Þrýstið deiginu í um 24 cm form með lausum botni. Stingið göt í botninn með gaffli og bakið í miðjum ofni í um 10 mínútur.

Fylling:

 • 1 grillaður kjúklingur
 • 1 púrrulaukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 msk smjör
 • smá salt og svartur pipar
 • 3 egg
 • 3 dl mjólk
 • 2 +2 dl parmesan ostur, rifinn

Takið húðina af kjúklingnum og skerið kjötið í bita. Hreinsið og strimlið púrrulaukinn. Afhýðið og sneiðið hvítlaukinn. Steikið hvítlauk og púrrulauk í smjöri þar til mjúkt. Bætið kjúklingnum saman við og kryddið með salti og pipar. Setjið blönduna á forbakaða bökubotninn.

Hrærið saman egg, mjólk og 2 dl af parmesan ostinum. Hellið blöndunni yfir fyllinguna. Stráið 2 dl af parmesanosti yfir. Lækkið hitann á ofninum í 200°. Bakið í neðri hluta ofnsins í um 40 mínútur.

Yfir bökuna:

 • um 150 g beikon
 • romansalat (eða annað salat)
 • 25 g parmesan ostur

Skerið beikonið í strimla og steikið þar til stökkt. Skerið salatið í strimla. Setjið beikon, salat og parmesanost í sneiðum yfir heita bökuna og berið strax fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma

Ég hef eflaust oft skrifað hér að súkkulaðimús sé uppáhalds eftirréttur strákanna. Gunnar gæti lifað á henni og fengi hann að ráða þá væri súkkulaðimús í eftirrétt á hverju kvöldi. Eftir að hafa prófað óteljandi uppskriftir þá er þessi sú sem stendur upp úr. Ég held mér orðið alfarið við hana en passa að hafa rjómann bara léttþeyttann. Það þykir mér gera músina sérlega góða. Ég ber súkkulaðimúsina alltaf fram með berjum en í gærkvöldi ákvað ég að poppa hlutina upp.

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma

Fyrir utan að gera gömlu góðu súkkulaðimúsina þeytti ég rjóma sem ég sætti aðeins og muldi Oreo kex. Þetta setti ég síðan á víxl í skálar og úr varð þessi fíni eftirréttur sem er óhætt að segja að sló í gegn!

Súkkulaðimús með Oreo og sætum rjóma (uppskrift fyrir 5)

Það sem þarf er:

Gerið súkkulaðimús (uppskriftin sem ég linka á er einföld og góð!) og leggið til hliðar.

Þeytið rjóma og flórsykur saman og leggið til hliðar.

Myljið Oreo kexið í matvinnsluvél eða með öðrum hætti.

Setjið súkkulaðimús í botn á glasi eða skál, rjóma yfir og síðan Oreo mulning. Setjið síðan annað lag af súkkulaðimús, rjóma yfir og endið á Oreo. Geymið í ísskáp þar til borið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Mikið tekur september vel á móti okkur, með fallegasta haustveðri sem hugsast getur. Haustið hefur alltaf heillað mig, með sínum fallegu litum í náttúrunni og haustloftinu sem er svo brakandi ferskt. Síðan er það rútínan sem á svo vel við mig, þegar skólarnir byrja hjá krökkunum og allt fer í gang. Grillkvöldum er skipt út fyrir súpur og hægeldaða pottrétti og ég tek þessu öllu fagnandi.

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Um helgina mun ég ekki bjóða upp á hægeldaðan haustmat heldur hafa strákarnir óskað eftir mexíkóskri kjúklingasúpu annað kvöld á laugardagskvöldinu er ég að fara á árshátíð. Þá munu krakkarnir eflaust borða lasagna sem ég á í frystinum. Ég bauð þó upp á dásamlega hindberjaköku í eftirrétt um daginn sem ég ætla að baka aftur núna um helgina. Kakan er súpereinföld, með bara 5 hráefnum og tekur enga stund að gera. Stundum er það einfalda bara best. Kakan á að vera aðeins blaut í sér og kanturinn seigur, passið því að ofbaka hana ekki. Ég bar kökuna fram heita með vanilluís sem var svakalega gott, en léttþeyttur rjómi fer eflaust líka stórvel með.

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Hindberjakaka (uppskrift frá Hembakat)

 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 100 g smjör, brætt
 • 2-3 dl hindber, fersk eða frosin

Hitið ofninn í 180°. Hrærið egg og sykur ljóst og létt. Bætið hveiti og bræddu smjöri saman við og hrærið blöndunni varlega saman í deig. Setjið deigið í smelluform (23-24 cm) sem hefur verið smurt eða klætt með bökunarpappír. Setjið hindberin yfir deigið og stráið smá sykri yfir. Bakið í miðjum ofni í 45 mínútur.

Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!Hindberjakaka með aðeins 5 hráefnum!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP