Súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri

Ég ætlaði að setja þessa uppskrift hingað inn í gær en kvöldið tók óvænta stefnu þegar við ákváðum að setja jólatréið upp. Krakkarnir eru í prófum og stóru „börnin“ að vinna þau kvöld sem þau eru ekki að læra og því erfitt að ná öllum saman. Í gærkvöldi voru hins vegar allir heima og enginn að læra undir próf þannig að við gripum gæsina og vorum með hálfgerð litlu jól hér heima. Undir jólaplötu Michael Bublé var jólatréið skreytt á milli þess sem við gæddum okkur á nýbökuðum eplaskífum, flatkökum með hangikjöti, súkkulaðismákökum og heitu súkkulaði með rjóma. Dásamlegt í alla staði.

Helginni var eytt í jólaundirbúning. Það voru keypt jólaföt, við horfðum á jólamynd, keyptum gjafir frá mömmu til strákanna og ég bakaði æðislegar súkkulaðismákökur sem krakkarnir hafa notið þess að gæða sér á í próflestrinum. Ég stóð mig að því að hugsa að vonandi væru þær ekki búnar, þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag, því þær eru æðislegar með kaffibollanum. Heppnin var með mér og nú sit hér hér með kaffibolla og smáköku við tölvuna. Elska svona notalegheit!

Súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri 

 • 2 1/2 bolli hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk sjávarsalt
 • 3/4 bolli kakó
 • 1 bolli ósaltað smjör, við stofuhita
 • 1 bolli sykur
 • 1 bolli púðursykur
 • 2 stór egg, við stofuhita
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 bolli suðusúkkulaðidropar eða grófhakkað suðusúkkulaði

Súkkulaðihjúpur

 • 200 g suðusúkkulaði
 • 1 dl rjómi
 • 1 bolli mulinn bismark brjóstsykur eða jólastafabrjóstsykur

Hitið ofninn í 175° og setjið bökunarpappír á bökunarplötu.

Hrærið saman hveiti, matarsóda, sjávarsalt og kakó. Setjið til hliðar.

Hrærið saman smjöri, sykri og púðursykri í hrærivél (eða með handþeytara). Hrærið eggjunum, einu í einu, saman við. Hrærið vanilludropum í deigið. Bætið þurrefnunum varlega smátt og smátt út í og hrærið saman í deig. Hrærið að lokum súkkulaðinu í deigið.

Mótið litlar kúlur úr deiginu (notið um msk af deigi í hverja kúlu) og raðið á bökunarplötuna. Þrýstið örlítið á kúlurnar og bakið í um 10 mínútur, eða þar til kökurnar hafa fengið stökkan hjúp en eru mjúkar að innan. Passið að ofbaka þær ekki. Takið úr ofninum og látið standa á plötunni í smá stund áður en þær eru færðar yfir á grind og látnar kólna alveg.

Á meðan kökurnar kólna er súkkulaðihjúpurinn útbúinn. Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið. Látið blönduna standa í 30-45 sekúndur og hrærið síðan í henni þar til blandan er slétt. Dífið helmingnum af kökunum í súkkulaðið, setjið á grind (eða bökunarpappír) og stráið muldum brjóstsykri yfir. Látið kökurnar standa í 1-2 klst eða þar til súkkulaðið er orðið hart. Það má flýta fyrir með því að setja kökurnar í ísskáp.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

Smákökubakstur

Gleðilega aðra aðventu kæru lesendur. Aðventan þetta árið er stutt þar sem fjórði sunnudagurinn er aðfangadagur og mér finnst hún vera að hlaupa frá mér. Gunnar var að keppa í gær og eftir leikinn fórum við í Smáralindina og keyptum jólaföt á hann. Í dag ætlum við Jakob í leiðangur og síðan ætla ég að baka smákökur til að eiga. Hér hafa lakkrístoppar verið bakaðir á færibandi síðustu vikur (Malín á heiðurinn af þeirri framleiðslu) og alltaf klárast þeir samdægurs. Ef fleiri eru í baksturhugleiðingum þá koma hér fimm góðar tillögur að marenstoppum!

Piparlakkrístoppar 

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Lakkrístoppar með karamellukurli

Marengstoppar með frönsku núggati

Karamellutoppar

 

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

 

Nutellafylltar blondies

Ég held að ég hafi aldrei verið eins sein í jólabakstrinum og þetta árið. Ég bakaði piparlakkrístoppana í nóvember sem kláruðust samstundis og síðan hefur tíminn bara flogið. Ég sem vil alltaf eiga sörur og saffransnúða í frystinum áður en aðventan byrjar klikkaði algjörlega þetta árið.

Þó ég hafi ekki staðið mig í smákökubakstrinum hef ég þó bakað ýmislegt annað. Þessar nutellafylltu blondies bauð ég upp á hér heima eitt kvöldið og daginn eftir kláruðum við þær. Okkur þóttu þær dásamlega góðar og ekki síðri daginn eftir.

Nutellafylltar blondies (uppskrift frá Ambitious Kitchen)

 • 1 bolli smjör
 • 2 bollar púðursykur
 • 2 egg
 • 1 msk vanilludropar
 • 2 bollar hveiti
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • ¼ tsk salt
 • 2 bollar dökkt súkkulaði, grófhakkað (ég notaði suðusúkkulaðidropana frá Síríus)
 • 1 bolli Nutella (16 msk)
 • sjávarsalt til að strá yfir

Hitið ofn í 175° og klæðið skúffukökuform (í sirka stærðinni 23 x 33 cm, má líka vera aðeins minna) með smjörpappir.

Bræðið smjör í potti yfir miðlungsháum hita. Þegar smjörið byrjar að freyða er byrjað að hræra í pottinum. Eftir nokkrar mínútur byrjar smjörið að brúnast  í botninum á pottinum, haldið þá áfram að hræra og takið af hitanum um leið og smjörið er komið með gylltan lit og farið að gefa frá sér hnetulykt. Takið smjörið strax úr pottinum og setjið í skál til að koma í veg fyrir að það haldi áfram að brúnast. Látið smjörið kólna áður en lengra er haldið.

Hrærið saman smjör og sykur þar til hefur blandast vel. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið þar til blandan er mjúk og létt. Bætið þurrefnunum varlega saman við og endið á að hræra varlega súkkulaðinu saman við deigið.

Skiptið deiginu í tvennt. Setjið helminginn í botninn á kökuforminu (deigið kann að virðast of lítið til að fylla út í formið en hafið ekki áhyggjur af því þótt það verði bara þunnt lag, það á eftir að hækka!). Setjið Nutella jafnt yfir (það getur verið gott að setja matskeiðar af Nutella með jöfnu millibili yfir deigið og dreifa svo úr því með sleif eða hníf). Endið á að setja seinni helminginn af deiginu yfir og passið að það hylji alveg Nutellafyllinguna. Bakið í 23-27 mínútur eða þar til kanntarnir á kökunni eru orðnir gylltir á lit. Það er betra að baka hana aðeins styttra en lengur, svo hún verði frekar blaut í sér en ekki þurr. Stráið sjávarsalti yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum og látið hana síðan standa í 20 mínútur áður en hún er skorin í bita.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Pestójólatré

Á föstudagskvöldinu vorum við með eitt af því besta sem ég veit og minn uppáhalds föstudagsmat, osta og skinkur. Fyrir utan hvað mér þykir það gott þá er ekki hægt að vera með einfaldari mat en að raða góðgæti á bakka og taka tappa úr góðri rauðvínsflösku. Engin eldamennska og nánast ekkert uppvask. Síðan veit ég fátt skemmtilegra en að sitja lengi yfir matnum og það gerist alltaf þegar það er plokkmatur. Þá sitjum við yfir matnum þar til við förum að sofa. Malín gerir oft grín af því að við Hannes sitjum hátt í heilan vinnudag yfir ostum og rauðvíni en það er bara svo notalegt og gaman.

Við héldum að við yrðum bara tvö í mat en eftir því sem leið á daginn fjölgaði við matarborðið og á endanum voru allir í mat. Svo gaman! Krakkarnir borða öll osta en kannski ekki sem kvöldmat eins og við Hannes gerum. Ég keypti því kokteilpulsur sem ég bætti á borðið, setti jólaplaylista á spotify og gerði pestójólatré upp á stemninguna. Það reyndist vinsælast af öllu!

Pestójólatréið er bæði fallegt á borði og gaman að bera fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu sem verða þá nokkurs konar brauðstangir. Sniðugt að bera fram með ostum eða með fordrykk, þá þarf bara að hafa servéttur með. Einfalt, jólalegt og æðislegt!

Pestójólatré

2 rúllur ferskt smjördeig
1 lítil krukka pestó
1 upphrært egg
maldonsalt

Rúllið annari smjördeigsrúllunni út á ofnplötu. Smyrjið pestó yfir og leggið hina smjördeigsrúlluna yfir. Þrýstið saman þannig að ekkert loft sé á milli. Skerið út jólatré og skerið síðan lengjur upp jólatréið sem er síðan snúið til að mynda greinar. Penslið jólatréið með upphrærðu eggi og stráið maldonsalti yfir. Bakið við 200° á blæstri í um 10-12 mínútur eða þar til jólatréið er orðið loftkennt og hefur fengið fallegan lit. Berið strax fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu og borða eins og stangir.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Chilihakkpizza

 

Í lok október las ég um verkefni sem foreldri í Green School á Balí setti í gang fyrir nokkrum árum, The SHIFT. Verkefnið snýst um að gera eitthvað ákveðið á hverjum degi í heilan mánuð. Þetta á hvorki að vera risavaxin né stór áskorun, heldur litlir hlutir sem auðvelt er að framkvæma. Með þessu er til dæmis auðvelt að komast yfir leiðinleg verkefni sem hafa setið á hakanum, eins og að fara yfir myndirnar í tölvunni (sem er stöðugt á verkefnalistanum mínum). Það er þá hægt að ákveða að eyða 10 mínútum á dag í heilan mánuð í að fara yfir myndirnar og klára verkið þannig. Það er líka hægt að láta verkefnið snúast um að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi í einn mánuð, eins og að horfa á þátt á Netflix á hverju kvöldi eða að láta eftir sér góðan súkkulaðimola með kaffinu á hverjum degi.

Mér fannst þetta sniðug hugmynd og ákvað að prófa The SHIFT í nóvember. Ég valdi að hætta að skoða Instagram og Snapchat upp í rúmi á kvöldin og gefa mér í staðin meiri tíma til að lesa. Í kvöld er síðasta kvöldið en ég ætla þó að halda þessari rútínu, því mér hefur þótt æðislegt að slökkva á símanum áður en ég skríð upp í rúm með bókina mína á kvöldin. Ég er vön að lesa fyrir svefninn en síminn var farinn að taka tíma frá bókunum. Þetta var því góð leið til að venja mig af því að láta Instagram svæfa mig. Ég byrja ennþá dagana á að renna yfir flæðin í símanum áður en ég fer á fætur og hef engin plön um að hætta því. Mér þykir notalegt að vakna rólega að ég gef mér alltaf korter á morgnana í rúminu til að vakna á meðan ég renni yfir miðlana og helstu fréttir.

Á morgun hefst nýr mánuður og því er upplagt að finna sér verkefni sem gerir hvern einasta dag í desembermánuði örlítið betri. Ég mæli með að prófa þetta, það er engu að tapa!

Það styttist enn og aftur í helgina og því ekki seinna vænna en að fara að huga að föstudagsmatnum. Við höfum verið að prófa mismunandi álegg á pizzur upp á síðkastið sem hefur verið skemmtileg tilbreyting frá hefðbundu pizzunum (það er svo létt að festast í því sama). Ég hef sett inn tvær útfærslur af pizzum sem við höfum gert, eðlupizzuna og döðlupizzuna, og ætla núna að bæta þeirri þriðju í safnið. Þessi þótti okkur alveg æðisleg! Matarmikil og súpergóð!!

Chilihakkpizza

 • 500 g nautahakk
 • 1 laukur, skorinn í þunna hálfmána
 • 1 dós Hunt´s for chili (eða annað sambærilegt)
 • 1 rúlla tilbúið pizzadeig (eða annað pizzadeig)
 • pizzasósa
 • rifinn ostur

Hitið olíu á pönnu og steikið nautahakk vel. Bætið lauk á pönnuna og látið mýkjast. Hellið Hunt´s for chili yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Rúllið pizzabotninum út (eða fletjið út annað pizzadeig) og fletjið hann út svo hann fylli út í ofnskúffu. Setjið pizzasósu yfir, síðan hakkblönduna og að lokum ost yfir. Bakið í funheitum ofni þar til botninn er stökkur og osturinn bráðnaður. Stráið fínhökkuðum rauðlauki og fersku kóriander eða steinselju yfir áður en pizzan er borin fram.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kjúklingapasta sem rífur í

 

Ég verð að viðurkenna að þessi kuldi er alveg að fara með mig. Eftir vinnu fór ég í heitan tíma í ræktinni (hef varla stigið fæti inn í ræktarsalinn síðan í vor) og mikið var gott að fá smá hita. Gæti jafnvel endað svo að ég fari aftur fljótlega. Maður getur alltaf vonað. Ég hef verið í krónísku letikasti frá ræktinni síðan ég man eftir mér þannig að líkurnar eru ekki með mér.

Við Hannes erum bara tvö í mat í kvöld og hann er á leiðinni heim með sushi. Það liggur hvítvínsflaska í ísskápnum og ég get ekki beðið eftir að setjast niður og eiga notalega kvöldstund. Elska svona hversdagslúxus.

Á meðan ég bíð eftir að Hannes detti í hús með matinn datt mér í hug að setja inn uppskrift af æðislegum pastarétti sem ég var með um daginn. Þessi réttur vakti mikla luku hjá öllum hér heima. Marineringin rífur aðeins í án þess að gera réttinn of sterkann. Súpergott!

Kjúklingapasta sem rífur í (uppskrift fyrir 4)

600 g kjúklingabringur
1 tsk sambal oelek
½ msk rifið engifer
1 hvítlauksrif
2 tsk ólífuolía
1 lime
3 msk balsamik edik
½ sítróna
1 hvítlauksrif
2 msk hunang
250 g spaghettí (ekki soðið)

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Setjið sambal oelek, engifer, pressað hvítlauksrif og ólífuolíu í poka. Rífið hýðið af lime-inu og setjið í pokann, skerið það svo í tvennt og pressið safann líka í pokann. Kryddið með salti og pipar. Bætið kjúklingabitunum í pokann og látið marinerast í 30 mínútur.

Steikið kjúklinginn með allri marineringunni. Bætið balsamik ediki, sítrónusafa, pressuðu hvítlauksrifi og hunangi á pönnuna og látið allt sjóða saman þar til kjúklingurinn er fulleldaður.

Sjóðið spaghettí og bætið saman við kjúklinginn (það er gott að setja smá af pastavatninu með). Berið fram með salati.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Ofnbakaðar kjötbollur í dásamlegri kóksósu

Það er alltaf gaman að bæta smá hversdagslúxus í tilveruna og sérstaklega þegar flensan hefur legið á heimilisfólki lengur en við kærum okkur um. Þá er nánast lífsnauðsynlegt að gera vel við sig með góðum mat og huggulegheitum. Það gerðum við einmitt í gærkvöldi.

Ég eldaði kjötbollur sem urðu svo góðar að það var ekki svo mikið sem skítugur diskur eftir. Og til að toppa allt þá ákvað Hannes að rjúka í vínbúðina rétt fyrir lokun og kaupa rauðvín með matnum. Á meðan lagði ég á borð og síðan sátum við lengi yfir matnum og dásömuðum hann í bak og fyrir.

Þessar kjötbollur eru æðislegar og henta bæði með pasta og parmesan, eins og við gerðum, eða sem pinnamatur á veisluborðið. Ég hefði þó mátt taka þær aðeins fyrr úr ofninum til að fá meiri sósu. Hún þykknar nefnilega eftir því sem bollurnar eru lengur í ofninum. Ef þið ætlið að nota þær sem pinnamat mæli ég með að gera bollurnar minni og hafa þær í ofninum örlítið lengur því þá þykkist sósan og hjúpar bollurnar betur. Sósan er bragðmikil og ólýsanlega góð.

Ofnbakaðar kjötbollur í dásamlegri kóksósu – uppskrift fyrir 5 (sem kvöldverður)

 • 500 g nautahakk
 • 1 dl brauðraspur
 • 1 egg
 •  1 msk vatn
 • 1 laukur, fínhakaður og skipt í tvennt (helmingur í bollurnar og helmingur í sósuna)
 • 1/2 tsk ítölsk hvítlauksblanda (ég var með frá Pottagöldrum)
 • 1 lítil græn paprika, fínhökkuð og skipt í tvennt (helmingur í bollurnar og helmingur í sósuna)
 • salt
 • pipar
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 2,5 dl tómatsósa (ég var með stevíu tómatsósuna frá Felix)
 • 2,5 dl kók
 • 2 tsk worcestershire sósa

Hitið ofn í 180° og spreyið 20×30 cm eldfast mót með olíu.

Blandið vel saman nautahakki, brauðraspi, eggi, vatni, hálfum fínhökkuðum lauki, hálfri fínhakkaðri papriku, hvítlaukskryddi, salti og pipar. Rúllið blöndunni í bollur og raðið í eldfasta mótið.

Setjið hálfan fínhakkaðan lauk, hálfa fínhakkaða papriku, pressuð hvítlauksrif, tómatsósu, kók, worcestershire sósu, salt og pipar í skál og hrærið saman. Hellið yfir kjötbollurnar og setjið í ofninn í 50-60 mínútur. Snúið bollunum í sósunni tvisvar á meðan þær eru í ofninum.  Athugið að ef það á að nota kjötbollurnar sem pinnamat er gott að hafa bollurnar aðeins lengur í ofninum (60 mínútur) til að þykkja sósuna. Ef það á að borða þær með pasta er betra að hafa þær í styttri tíma, til að fá meiri sósu.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Kókoskúlukaka

Krakkarnir mínir eru öll sólgin í kókoskúlur og þegar ég fer til Svíþjóðar reyni ég alltaf að kaupa sænskar kókoskúlur þar til að taka með heim. Okkur þykja þær bestar. Þegar Malín kom heim frá Stokkhólmi um daginn kom hún heim með bæði venjulegar kókoskúlur og kókoskúlur með dökku súkkulaði, sjávarsalti og karamellukurli. Þær voru dásamlegar. Í Ikeaferðum kippi ég oft kókoskúlum með mér, krökkunum til mikillar gleði. Það ætti því kannski ekki að koma á óvart að hér heima eru oft gerðar kókoskúlur og þá er þessi uppskrift vinsælust en þessi þykir okkur sú allra besta. Það er bara aðeins meira maus að gera þær og því verða hinar oftar fyrir valinu.

Um daginn bakaði ég síðan kókoskúluköku og var með í eftirrétt. Það þarf eflaust ekki að taka það fram að hún sló rækilega í gegn hér heima. Þetta er svo dásamlega einföld kaka sem er hrærð saman í potti með sleif. Það fylgir því bakstrinum lítið uppvask og ekkert vesen. Ég vil hafa kaffið sterkt í henni en það er auðvitað smekksatriði. Síðan þykir mér gott að hafa hana aðeins blauta í sér. Með léttþeyttum rjóma verður kakan gjörsamlega ómótstæðileg!

Kókoskúlukaka 

 • 125 g smjör
 • smá salt
 • 3 dl sykur
 • 1/2 dl kakó
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1 dl haframjöl
 • 1 msk kaffi (gjarnan sterkt kaffi)
 • 1 dl hveiti
 • 2 egg

Skraut

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°.

Bræðið smjörið í rúmgóðum potti. Bætið salti, sykri og kakói í pottinn og hrærið vel. Bætið öllum öðrum hráefnum í pottinn og hrærið saman í deig. Setjið deigið í smurt kökuform og stráið kókos yfir. Bakið neðst í ofninum í 20-24 mínútur. Látið kólna í forminu og berið síðan fram með léttþeyttum rjóma.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Kjúklinga- og spínatquesadillas

Um síðustu helgi var ég með heimagerðan skyndibita í matinn sem ég má til með stinga upp á ef einhver er að leita að hugmynd fyrir föstudaginn. Quesadillas þykir mér nefnilega vera hinn fullkomni föstudagsmatur, bæði því það tekur stuttan tíma að reiða hann fram og hann vekur lukku hjá öllum hér heima.

Til að hafa sem minnst fyrir kvöldmatnum keypti ég tilbúinn fajitas kjúkling sem var niðurskorinn í bita en það er auðvitað líka hægt að vera með heilan kjúkling og rífa niður. Síðan ætlaði ég að kaupa ferskt guacamole í Hagkaup eins og ég geri svo oft, en það var búið. Ég brá þá á það ráð að kaupa guacamole úr salatbarnum og þar rak ég augun í ferskt salsa sem ég keypti líka. Það var því lítil fyrirhöfn að koma matnum á borðið.

Ég bar quesadillurnar fram með eðlu, svörtu Doritos, fersku salsa, venjulegu salsa, heitri ostasósu, sýrðum rjóma og guacamole. Súpergott!!

Kjúklinga- og spínatquesadillas

 • 1 poki tortillur (8 stk)
 • 1 kjúklingur, rifinn niður (eða 1 bakki fajitas kjúklingur frá Holta)
 • spínat
 • rifinn ostur (ég var með blöndu af gratín- og pizzaosti)

Setjið rifinn ost, handfylli af spínati, kjúkling og rifinn ost (þannig að osturinn sé bæði undir og yfir) á annan helming tortilluköku. Brjótið tóma helminginn yfir, þannig að tortillan myndi hálfmána, og steikið á pönnu eða hitið í ofni þar til osturinn hefur bráðnað.

Skerið í sneiðar og berið fram með því sem hugurinn girnist!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Piparlakkrístoppar

Hér heima eru jólalögin byrjuð að hljóma, nánast allar jólagjafirnar hafa verið keyptar og nokkrum hefur þegar verið pakkað inn (ég hef ALDREI verið svona snemma í þessu!) og fyrsta smákökusortin var bökuð í gær. Ég gat hreinlega ekki setið á mér að prófa að gera lakkrístoppa með nýja piparlakkrískurlinu. Í fyrra taldið ég lakkrístoppana verða fullkomna með tilkomu piplarlakkrísins (uppskriftin er hér) en nú veit ég ekki, þessir gefa hinum í það minnsta ekkert eftir. Þeir kláruðust á stundinni og það verða klárlega bakaðar nokkrar umferðir af þeim fram að jólum. Þetta verða allir að prófa!

Piparlakkrístoppar

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g púðursykur
 • 150 g piparlakkrískurl (1 poki)
 • 150 g rjómasúkkulaðidropa (ég var með síríus sælkerabaksturs rjómasúkkulaðidropa)
Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Þeytið vel og lengi til að fá marensinn mjúkan og seigan. Blandið lakkrískurli og súkkulaði varlega saman við.
Mótið toppa með tveim teskeiðum og bakið við 140° í 20 mínútur.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave