Fölsk moussaka

Moussaka hefur aldrei heillað mig sérstaklega þar sem ég er ekki nógu hrifin af eggaldin, sem er eitt af grunnhráefnunum í hefðbundnu moussaka. Mér þykir það vera svo óspennandi grænmeti að ég kaupi það aldrei. Eflaust bara eitthvað rugl í mér. Hakkréttir eru þó vinsælir á þessu heimili og þegar ég rakst á þessa moussakauppskrift hjá Matplatsen sem er án eggaldins varð ég því spennt að prófa hana.

Rétturinn sló í gegn hér heima og ég var fegin að hafa gert hvítlauksbrauð með því það var borðað svo vel. Ég hafði hugsað mér að bera réttinn fram með salati en gleymdi að kaupa kál. Hvítlauksbrauðið fékk því að duga sem meðlæti og ég held að engin hafi saknað salatsins nema ég.

Fölsk moussaka (uppskrift fyrir ca 5)

Kjötsósa:

 • 500 g nautahakk
 • 400 g hakkaðir tómatar í dós
 • 2 dl vatn
 • 2 nautakraftsteningar
 • 1 msk sojasósa
 • 1 tsk oregano
 • 1/2 msk sykur
 • salt og pipar

Bechamel:

 • 25 g smjör
 • 3/4 dl hveiti
 • 4 dl rjómi
 • 1 dl mjólk
 • 2 dl fínrifinn parmesan
 • salt og pipar

Á milli:

 • 8 kartöflur

Steikið nautahakkið og bætið tómötum, krafti, sojasósu og kryddum saman við. Látið sjóða við vægan hita eins lengi og tími gefst (gjarnan 1-2 klst.).

Bræðið smjörið í bechamelsósuna og hrærið hveiti saman við. Hrærið rjóma og mjólk smátt og smátt saman við smjörbolluna og hrærið allan tímann í þannig að blandan verði mjúk og kekkjalaus. Látið sjóða í 2-3 mínútur og takið svo af hitanum. Hrærið rifnum parmesan út í og látið bráðna. Smakkið til með salti og vel af svörtum pipar.

Afhýðið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar.

Byrjið á að setja smá bechamel í botninn á eldföstu móti og setjið kjötsósu yfir. Leggið eitt lag af kartöflum yfir og haldið svo áfram að setja til skiptis bechamel, kjötsósu og kartöflur í formið. Endið með bechamelsósu efst. Bakið við 175° í um 1 klst. Ef rétturinn er farinn að dekkjast mikið er ágætt að setja álpappír yfir formið. Látið standa í smá stund (til að láta mesta hitann rjúka úr) áður en rétturinn er borinn fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Ég hef varla farið á fætur alla helgina heldur höfum við bara haft það svo notalegt hér heima að það hálfa væri nóg. Borðuðum nammi og gerðum eðlu bæði föstudags- og laugardagskvöld og horfðum á tvær myndir sem voru báðar góðar, I Tonya og The Big Sick (báðar á leigunni/vodinu… eða hvað þetta nú heitir). Núna er ég hins vegar klædd og að bíða eftir að strákarnir verða tilbúnir því við þurfum að útrétta í dag. Gunnari vantar enskubók, mig vantar snyrtivörur og síðan þarf að versla inn fyrir vikuna. Í kvöld kemur mamma í mat til okkar og við ætlum að horfa á Allir geta dansað. Það verður góður endir á helginni.

Vikumatseðill

Mánudagur: Bessastaðaýsa

Þriðjudagur: Súpergott tacogratín

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Fimmtudagur: Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Föstudagur: Kjúklingagyros

Með helgarkaffinu: Mjúkir og loftkenndir snúðar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Föstudagskvöld

Ég las um daginn svo skemmtilega bók sem ég má til með að benda áhugasömum á, Amy Schumer – The Girl with the Lower Back Tattoo. Ég gat ekki lagt bókina frá mér og skemmti mér konunglega yfir lestrinum. Hló oft upphátt og las upp úr henni fyrir krakkana, sem hlógu jafnvel enn meira en ég. Léttmeti eins og það gerist best!

Tælensk núðlusúpa

Síðustu dagar og vikur hafa farið í menntaskólapælingar því strákarnir klára 10. bekk í vor. Ég held að ég geti fullyrt að ég velti þessu meira fyrir mér en þeir og bíð spennt eftir hverju einasta opna húsi í skólunum. Í gær skoðuðum við Kvennó og á fimmtudaginn opnar Versló dyrnar. Eftir þessa viku verða bræðurnir vonandi búnir að gera upp hug sinn. Ég sit á skoðunum mínum og ætla sem minnst að skipta mér að þessu.

Það hefur verið lítið fréttnæmt úr eldhúsinu upp á síðkastið þar sem ég hef notið góðs af matarboðum og þess á milli höfum við mest fengið okkur eitthvað fljótlegt á hlaupum. Það var þó eitt kvöldið um daginn sem ég eldaði tælenska núðlusúpu sem var alveg hreint æðislega góð. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þessi matarmikla súpa féll í kramið hjá öllum. Það var strax óskað eftir að ég myndi elda hana fljótlega aftur sem hljóta að vera góð meðmæli með súpunni.

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi

 • 2 msk ólífuolía
 • 2 kjúklingabringur
 • 1 laukur, hakkaður
 • 2 gulrætur, skornar í sneiðar
 • 3 msk rautt karrýmauk
 • 1 msk ferskt rifið engifer
 • 4 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 dósir kókosmjólk
 • 1 líter vatn
 • 2 kjúklingateningar
 • 2 msk sojasósa
 • 2 msk fiskisósa
 • 1 tsk mulið kaffir lime
 • 2 msk púðursykur
 • 1/2 msk basilika
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 1 rauð paprika
 • 2-3 dl blómkál
 • 1 lítil sæt kartafla
 • 100 g hrísgrjónanúðlur
 • 1- 1,5 tsk sriracha
 • kóriander
 • lime
 • salthnetur

Hitið 1 msk af olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í um 2 mínútur á hvorri hlið (það þarf ekki að elda hann í gegn, heldur bara að brúna hann). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.

Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og mýkið í 3 mínútur. Bætið karrýmauki, engifer og hvítlauki í pottinn og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið kjúklinginn í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, kjúklingateningum, sojasósu, fiskisosu, kaffir laufum, púðursykri, basiliku, salti og pipar. Látið suðuna koma upp og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur.

Takið kjúklinginn aftur úr pottinum og látið hann kólna aðeins þannig að hægt sé að skera eða rífa hann í sundur. Bætið papriku, blómkáli og sætri kartöflu í pottinn og látið sjóða í 5-8 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Bætið núðlunum í pottinn og sjóðið áfram eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið rifinn /niðurskorinn kjúklinginn í súpuna og smakkið súpuna til með sriracha og limesafa.

Berið súpuna fram með kóriander, limesneiðum og salthnetum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Svíþjóðarkaka

Silvíukakan er ein af vinsælustu kökuuppskriftunum hér á blogginu enda er kakan æðislega góð, fljótgerð og hráefnin eru oftast til í skápunum. Ég hef bakað hana óteljandi sinnum og alltaf klárast hún jafn hratt. Um daginn bakaði ég köku sem minnti svolítið á silvíukökuna nema í þessari er botninn klofinn í tvennt og vanillusmjörfylling sett á milli, sem botninn sýgur í sig og gerir hann dásamlega góðan.

Það sem kökurnar eiga sameiginlegt er að botninn er svipaður, það tekur stutta stund að baka þær og hráefnin eru einföld. Mikilvægast af öllu er þó að þær eru báðar æðislega góðar!

Svíþjóðarkaka

 • 3 egg
 • 3 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 dl sjóðandi vatn

Fylling:

 • 100 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 3 msk vanillusykur

Hitið ofn í 175°. Klæðið botn á kökuformi með smjörpappír og smyrjið hliðarnar.

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin mjög létt í sér og ljós. Blandið hveiti og lyftidufti saman við með sleikju. Hellið sjóðandi vatni saman við og hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í um 30-35 mínútur. Kakan á að vera þurr þegar prjóni er stungið í hana.

Fylling: Hitið mjólk og smjör að suðu og hrærið vanillusykri saman við þar til blandan er slétt.

Látið kökuna kólna. Kljúfið hana svo í tvennt, þannig að það sé botn og lok. Hellið mjólkurblöndunni yfir botninn, hellið varlega þannig að kakan nái að sjúga í sig vökvann. Setjið síðan lokið yfir og sigtið flórsykur yfir kökuna.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

 

 

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu

Þessi kjúklingaréttur var á boðstólnum hjá mér fyrir tæpu ári síðan þegar ég bauð mömmu í mat. Okkur þótti maturinn ægilega góður og allir voru sammála um að uppskriftin yrði nú að fara beinustu leið á bloggið, svo fleiri gætu notið hennar.

Það fór þó svo að ég týndi uppskriftinni og hún rataði því aldrei á bloggið. Ég hélt myndunum sem ég hafði tekið til haga ef uppskriftin skyldi nú koma í leitirnar, sem gerðist svo loksins í gær. Hér kemur hún því, ári síðar en algjörlega biðarinnar virði!

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu (uppskrift fyrir 6, af blogginu 56kilo.se)

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1 stór laukur
 • 5 hvítlauksrif
 • smjör til að steikja úr
 • 2,5 dl grófhakkaðir sveppir
 • 6 dl rjómi
 • 2 tsk salt
 • smá svartur pipar
 • 2 kjúklingakraftsteningar
 • 2-3 tsk þurrkað rósmarín
 • 6 hakkaðir sólþurrkaðir tómatar
 • hýði og safi úr 1 sítrónu
 • 2 dl svartar ólífur
 • 1 búnt steinselja
 • 2 dl rifinn parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í þrennt á lengdina. Bræðið smjör í rúmgóðum potti og steikið kjúklinginn þar til hann hefur fengið lit. Saltið og piprið og takið úr pottinum. Setjið fínhakkaðan lauk og hvítlauk í pottinn ásamt grófhökkuðum sveppum og steikið úr smjöri þar til farið að mýkjast. Bætið kjúklingnum aftur í pottinn og setjið rjóma, sólþurrkaða tómata, sítrónusafa, kjúklingateninga og rósmarín í pottinn. Látið sjóða við vægan hita í um 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Hrærið ólífum, hakkaðri steinselju, sítrónuhýði og rifnum parmesan saman við áður en rétturinn er borinn fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Þvílík veðurblíða sem við höfum fengið hér á höfuðborgarsvæðinu yfir helgina. Svo fullkominn endir á góðri viku. Ég náði að fara fjórum sinnum í ræktina í vikunni (örugglega persónulegt met!), fara fjórum sinnum út að borða (lúxus!) og eiga rólegar stundir hér heima þess á milli (besta sem eg veit!). Í dag ætla ég að elda fullan pott af kjötsúpu til að eiga eftir ræktina á morgun og jafnvel að fara í góðan göngutúr á meðan súpan stendur á hellunni. Síðan er þvottakarfan víst full, þannig að ég þarf að gera eitthvað því. Það er alltaf eitthvað. Vikuinnkaupin voru gerð í gær en fyrir þá sem eru að plana matarvikuna þá kemur hér tillaga að vikumatseðli.

Vikumatseðill

Mánudagur: Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Þriðjudagur: Baka með sætum kartöflum, spínati, kasjúhnetum og fetaosti

Miðvikudagur:  Kjúklinga pad thai

Fimmtudagur: Quesadillas með nautahakksfyllingu

Föstudagur: Himneskar humarvefjur

Með helgarkaffinu: Bananakaka með súkkulaðibitum

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í