Pönnukökurúlla með skinku- og ostafyllingu

Þegar við Gunnar vorum í Stokkhólmi í sumar rifum við okkur upp á hverjum morgni til að ná morgunverðinum á hótelinu. Það þarf mikið til að hann rífi sig upp á morgnana, hvað þá í miðju sumarfríi, en morgunmaturinn á Haymarket er bara svo góður að það er ekki hægt að sofa hann frá sér. Gunnar endaði alltaf morgunmatinn á að fá sér sænskar pönnukökur og síðasta morguninn lofaði ég að gera sænskar pönnukökur þegar við kæmum heim.

Ég hef enn ekki staðið við að baka hefðbundnar sænskar pönnukökur (uppskrift af þeim er hér) en ég gerði þó aðra tegund af sænskri pönnuköku í kvöldmat um daginn, fyllta ofnskúffupönnuköku. Svíar gera oft pönnuköku í ofnskúffu og setja þá jafnvel beikon í hana, en hér er fyllingu smurt yfir pönnukökuna og henni svo rúllað upp. Svo gott!

Pönnukökurúlla með skinku- og ostafyllingu (uppskrift fyrir 6)

Deig:

 • 125 g smjör
 • 2,5 dl hveiti
 • 3 dl mjólk
 • 4 egg

Fylling:

 • 3 msk smjör
 • 4 msk hveiti
 • 3 dl mjólk
 • 1,5 dl rjómi
 • 3 msk fínhökkuð basilika
 • 100 g skinka, skorin í bita
 • 1 dl rifinn ostur
 • 150 g kokteiltómatar
 • 1 tsk salt
 • smá svartur pipar

Yfir:

 • 1,5 dl rifinn ostur

Hitið ofn í 200°. Bræðið smjör í potti. Hrærið hveiti og mjólk saman við smjörið og hitið þar til deigið losnar frá könntum pottarins (hrærið reglulega í pottinum). Takið pottinn af hitanum og hrærið einu eggi í einu saman við deigið með handþeytara. Setjið deigið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og bakið í neðri hluta ofnsins í um 20 mínútur. Þegar pönnukakan er tilbúin er best að hvolfa henni á nýjan bökunarpappír og taka bökunarpappírinn sem pönnukakan bakaðist á af. Látið pönnukökuna kólna.

Fylling: Bræðið smjörið í potti. Hrærið hveiti saman við. Bætið mjólk smátt og smátt saman við og hrærið stöðugt í pottinum á meðan. Bætið rjóma í pottinn og látið sjóða við vægan hita í um 5 mínútur. Bætið basiliku, skinku og osti í pottinn. Skerið tómatana í tvennt og hrærið þeim saman við fyllinguna. Smakkið til með salti og pipar.

Dreifið fyllingunni yfir pönnukökuna og rúllið henni upp frá langhliðinni. Setjið pönnukökuna á bökunarpappír með sárið niður. Stráið rifnum osti yfir og bakið í 10 mínútur. Berið pönnukökuna fram heita.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Hér heima eyddum við allri síðustu viku í flensu, þar sem fjölskyldumeðlimir leystu hvort annað af í veikindunum. Ég tók síðust við keflinu og hef legið síðan ég kom heim úr vinnunni á föstudaginn. Nú vona ég að við náum þessu úr okkur í dag og að allir fari frískir inn í nýja viku.

Ég leitaði í gamlar uppskriftir fyrir matseðil vikunnar og fann ýmislegt sem ég var búin að gleyma. Ég man að pastarétturinn var mjög vinsæll hér heima á tímabili og það verður gaman að sjá hvort hann veki enn sömu lukku. Milljón dollara spaghettíið hefur alltaf verið vinsæl uppskrift á blogginu og virðist falla í kramið hjá öllum aldurshópum. Að lokum þá er himneska hnetusmjörskakan uppskrift sem má ekki gleymast, hún er allt of góð til þess!

Vikumatseðill

Mánudagur: Steiktur fiskur í kókoskarrý

Þriðjudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni

Miðvikudagur: Milljón dollara spaghetti

Fimmtudagur: Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Föstudagur: Pizzuídýfa

Með helgarkaffinu: Himnesk hnetusmjörskaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Pizza með fíkjusultu, hráskinku, ruccola og parmesan

Það styttist í helgina og eflaust einhverjir farnir að huga að helgarmatnum. Pizzur eru fastur liður á föstudagskvöldum hjá mörgum og hér heima tökum við tarnir í pizzubakstri. Þá höfum við pizzu um hverja helgi og prófum nýtt álegg sem oftast. Þessa samsetningu sá ég hjá The Pioneer Woman og okkur fannst hún meiriháttar góð – eins og allt sem kemur frá henni!

 

Pizza með fíkjusultu, hráskinku, ruccola og parmesan

 • pizzabotn (keyptur eða heimabakaður, uppskrift hér)
 • 1/2 bolli fíkjusulta
 • maldonsalt
 • um 350 g ferskur mozzarella, skorinn í þunnar sneiðar
 • um 225 g hráskinka
 • um 350 g ruccola
 • parmesan

Hitið ofn í 250° og setjið ofnplötu í neðstu grind.

Fletjið pizzadegið út og smyrjið fíkjusultunni yfir. Stráið smá maldonsalti yfir sultuna. Leggið mozzarellasneiðar yfir og bakið pizzuna í 12-15 mínútur, eða þar til botninn er orðinn stökkur og osturinn bráðnaður. Setjið hráskinkuna strax yfir heita pizzuna og leggið síðan vel af ruccola yfir hráskinkuna. Endið á að strá parmesanosti yfir.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

London!

Ég, mamma og Malín skelltum okkur til London yfir helgina og eyddum þar langri helgi saman með bróður mínum sem flutti þangað í vor. Ferðin var æðisleg, veðrið gott og yndislegt að fá smá frí saman.

Við flugum til London snemma á fimmtudagsmorgninum og ég var svo þreytt að það náði engri átt. Mamma var þó fersk og til í fjörið sem var framundan.

Eyþór bróðir vinnur í Seðlabankanum og við fengum að heimasækja hann og skoða bankann. Skoðunarferðin endaði á hádegismat í mötuneyti bankans (frábært úrval og góður matur) og rúnt um fjármálahverfið, með viðkomu á helstu börum á svæðinu sem voru allir þéttsetnir. Svo gaman að sjá! Það voru strangar reglur varðandi heimsókn okkar í bankann og bannað að taka myndir þar. Þessi mynd var tekin af okkur mæðgunum á einum af börunum við bankann.

Við gengum hátt í 15 km á dag, kíktum í búðir og fengum okkur hressingu inn á milli. Við vorum dauðar þegar við komum upp á hótel á kvöldin og ég var svo fegin að hafa tekið mér frídag í gær og geta sofið út.

Það sem þessar tvær eru mér dýrmætar! Yndislegir dagar að baki sem gáfu ómetanlega inneign í minningabankann.

Marmara-bananakaka

Mér finnst ég hafa hrúgað ansi mörgum uppskriftum af bananakökum hingað inn og held nú áfram að bera í barmafullan lækinn. Það er bara ekki hægt að eiga of margar uppskriftir af bananakökum. Þær geymast vel en klárast þó alltaf strax. Ég baka því oftast tvær í einu því ég veit að fyrri kakan klárast samdægurs. Þessi uppskrift kemur frá Smitten Kitchen og er jafn dásamleg og allt sem kemur þaðan.

Marmara-bananakaka

 • 3 stórir þroskaðir bananar
 • 1/2 bolli (115 g) smjör, brætt
 • 3/4 bolli (145 g) ljós púðursykur
 • 1 stórt egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/4 tsk salt
 • 1 bolli (130 g) plús 1/4 bolli (35 g) hveiti
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/4 bolli (20 g) kakó
 • 3/4 bolli (130 g) súkkulaðidropar (eða hakkað súkkulaði)

Hitið ofn í 180° og smyrjið formkökuform.

Bræðið smjörið og stappið bananana saman við það. Hrærið púðursykri, eggi, vanilludropum, matarsóda og salti saman við. Bætið 1 bolla (130 g) af hveiti saman við og hrærið snögglega saman við deigið.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál (þarf ekki að vera nákvæmt mál en helmingurinn af deiginu er um 365 g, veltur þó á stærðinni á bönununum). Hrærið því sem eftir var af hveitinu  ásamt kanilnum saman við annan helming deigsins. Hrærið kakó og súkkulaðibitum saman við hinn helming deigsins.

Setjið stórar doppur af deigunum í botninn á forminu (það getur verið gott að miða við að setja einn lit í miðjuna á forminu og hinn sitt hvoru megin við). Setjið næsta lag af deigi þannig að ljóst deig fari yfir dökkt deig og öfugt. Endurtakið þar til allt deigið er komið í formið. Notið smjörhníf eða spaða til að blanda deiginu örlítið saman (það getur verið gott að miða við að gera áttur með hnífnum á tveim til þrem stöðum – passið að gera ekki of mikið!).

Bakið kökuna í 55-65 mínútur eða þar til prjónn sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp (það má þó gera ráð fyrir að það komi brætt súkkulaði á hann). Látið kökuna standa í forminu í smá stund áður en hún er tekin úr því.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í 

Blómkálssúpa með camembertsmurosti og sweet chili

Fyrir mörgum árum kom Jakob þeirri hefð á að það væri súpa í matinn einu sinni í viku. Sú hefð hélt í fleiri ár og ég held að allir hafi verið ánægðir með það fyrirkomulag. Mér þykja súpur svo góðar og sérlega notalegur matur þegar fer að kólna úti. Með súpunum vil ég helst hafa heimabakað brauð og gott smjör (þeytt smjör er í uppáhaldi).

Ég setti á sínum tíma hingað inn uppskrift af blómkálssúpu sem ég fékk hjá vinkonu minni. Í þeirri uppskrift er meðal annars sveppasmurostur en ég prófaði um daginn að skipta honum út fyrir camembertsmurost og breytti aðeins hlutföllunum í leiðinni. Súpan varð æðisleg! Ég bar hana fram með nýbökuðu Gló-brauði og við ætluðum ekki að geta hætt að borða. Dásamleg máltíð á haustkvöldi.

Blómkálssúpa með camembertsmurosti og sweet chili (uppskrift fyrir 5)

 • 10 dl vatn
 • 2  kjúklingateningar
 • 1 dós camembertsmurostur
 • um 700 g blómkál
 • 1-2 msk sweet chili sósa
 • nokkrir dropar hunang
 • ½ – 1 tsk balsamik edik
 • salt og pipar

Hitið saman vatn og kjúklingateninga í rúmgóðum potti. Skolið blómkálið og brytjið það niður. Hrærið smurostinum saman við soðið. Bætið blómkálinu út í og sjóðið þar til það er orðið meyrt. Bætið sweet chili sósu , hunangi og balsamik ediki út í og hrærið. Smakkið til með salti og pipar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Hamborgarar með pipar- og mexíkóosti

Það fór lítið fyrir grillkvöldunum hjá mér þetta sumarið og í raun var grillið skammarlega lítið notað. Það fær þó að standa frammi eitthvað áfram, enda svo sem engin ástæða til að ganga frá því strax. Ég er vön að rúlla grillinu inn í skúr þegar haustlægðirnar byrja að ganga yfir því ég er svo hrædd um að það fari á flakk annars. Veit ekki hversu oft ég hef hlupið út á pall á náttsloppnum til að koma grillinu í skjól á haustnóttum. Ég vona að mér takist að koma í veg fyrir slík ævintýri í ár.

Ein vinkona mín sagði mér frá svo góðum hamborgurum sem þau hjónin gera sér stundum og ég mátti til með að prófa þá. Ég veit að þau eru snjöll í eldhúsinu og hef nú þegar birt aðra æðislega uppskrift frá þeim hér á blogginu, sem ég mæli svo sannarlega með. Þegar þau eru búin að grilla hamborgara á annari hliðinni þá snúa þau honum við og raða piparosti og mexíkóosti yfir (skera þá í þunnar sneiðar og leggja þá hlið við hlið yfir borgarann), setja svo rifsberjahlaup yfir ostana og ost (t.d. Gouda) yfir rifsberjahlaupið. Þau loka svo grillinu og leyfa þessu að bráðna yfir hamborgarann. Hamborgarinn er svo borinn fram með hefðbundu meðlæti og það er sérlega gott að setja líka sterkt sinnep á borgarann. Klikkaðslega gott!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í