Salamibaka með fetaosti

Salamibaka með fetaosti

Ég er svo ánægð með að þriðja sería af Skam er komin inn á RÚV og get ekki beðið eftir að sjá hana. Eruð þið búin að horfa á þessa þætti, sem hafa orðið svo vinsælir að rauðir varalitir rjúka úr hillum verslana og unglingar um alla Skandinavíu eru farnir að sletta á norsku? Við horfðum á fyrstu tvær seríurnar á einu bretti og höfum síðan beðið spennt eftir þeirri þriðju. Núna er hún loksins komin inn á RÚV með íslenskum texta. Besta sem við höfum séð í langan tíma!

Salamibaka með fetaosti

Ég má til með að gefa uppskrift af æðislegri böku sem við vorum með í kvöldmat um daginn. Ég bar hana fram með salati sem ég setti bæði olíu af fetaostinum og smá balsamik gljáa yfir. Ég ætlaði ekki að geta hætt að borða. Léttur kvöldverður og ef heppnin er með þér og það verður afgangur þá passar bökusneið vel í hádeginu daginn eftir. Súpergott!

Salamibaka með fetaosti

Salamibaka með fetaosti

Botninn:

 • 3 dl hveiti (eða hveiti og heilhveiti til helminga)
 • 125 g smjör
 • 2 ½ msk kalt vatn

Skerið smjörið niður og setjið í skál ásamt hveitinu. Látið skálina standa í smá stund svo smjörið mýkist aðeins. Blandið saman með höndunum eða handþeytara. Bætið köldu vatni saman við og vinnið saman í slétt deig. Þrýstið deiginu i botn á bökuformi (eða lausbotna kökuformi) og stingið með gaffli yfir botninn. Látið standa í ísskáp í 20 mínútur, eða á meðan fyllingin er útbúin.

Salamibaka með fetaosti

Fylling:

 • 1 rauðlaukur (eða 1 lítill púrrulaukur)
 • 1 hvítlauksrif
 • um 120 g salami
 • 150 g fetaostur
 • 250 g kirsuberjatómatar
 • ½ dl fersk hökkuð basilika eða 1 msk þurrkuð
 • 2 dl rifinn ostur
 • 3 egg
 • 2 ½ dl rjómi
 • ¾ tsk salt
 • smá af svörtum pipar

Fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið lauk og hvítlauk í smjöri þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Skerið salami í strimla, fetaostinn í teninga (ef notaður er fetakubbur) og tómatana í tvennt. Ef notuð er fersk basilika þá er hún hökkuð.

Takið bökubotninn úr ísskápnum og setjið lauk og hvítlauk yfir hann. Setjið þar á eftir salami, fetaost, tómata og basiliku yfir. Stráið rifnum osti yfir.

Hrærið saman eggjum, rjóma, salti og pipar. Hrærið saman þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir bökuna. Bakið í neðri hluta ofnsins við 200° í um 40 mínútur eða þar til bakan hefur fengið fínan lit. Berið fram með salati.

Salamibaka með fetaosti

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

VikumatseðillVikumatseðill

Í morgunn vökuðum við Jakob snemma og gerðum okkur góðan morgunverð. Hér vakna krakkarnir nánast aldrei fyrir hádegi lengur og því um að gera að grípa tækifærið þegar það loksins gefst. Eftir morgunmatinn fór Jakob að læra og ég að skrifa vikumatseðil. Ég er núna fyrst að detta almennilega í rútínu eftir jólin og víst ekki seinna vænna. Ég er með nokkrar góðar uppskriftir sem ég ætla að setja inn í vikunni en fyrst af öllu kemur loksins vikumatseðill!

Vikumatseðill

Fiskur með gulrótum í ljúffengri sósu

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Quiche Lorraine

Þriðjudagur: Quiche Lorraine

Kálbúðingur

Miðvikudagur: Kálbúðingur

Pylsupasta sem rífur í

Fimmtudagur: Pulsupasta sem rífur í 

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Föstudagur: Klúbbsamloka með sweet chili majónesi

Sænskar pönnukökur

Með helgarkaffinu: Sænskar pönnukökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Stokkhólmur

Stokkhólmur

Það hefur verið rólegt hér á blogginu undanfarna daga þar sem við Hannes skelltum okkur í helgarferð til Stokkhólms. Eftir að ég póstaði mynd úr ferðinni á Instagram var ég beðin um Stokkhólmsfærslu sem ég ákvað að setja strax inn. Stokkhólmur er ein af mínum uppáhalds borgum. Strákarnir mínir eru fæddir í Svíþjóð og við bjuggum bæði í Uppsölum og Stokkhólmi í fjögur ár. Það er því alltaf notalegt tilfinning að koma þangað.

StokkhólmurStokkhólmurStokkhólmurStokkhólmurStokkhólmur

Við vorum síðast í Stokkhólmi í maí og gistum þá á Berns hotel. Núna gistum við á Haymarket sem hefur verið hælt mikið á sænskum bloggum síðan það opnaði í maí. Staðsetningin er frábær og hótelbarinn er þéttsetinn frá hádegi og fram á nótt. Þar er lifandi jazztónlist á kvöldin og stemningin er æðisleg. Á hótelinu er einnig kaffihús og veitingastaður sem hefur fengið góða dóma. Frábært hótel í alla staði!

StokkhólmurStokkhólmurStokkhólmur

Það er mikið af góðum veitingastöðum í Stokkhólmi og vandamálið er að velja úr þeim. Það eru þó nokkrir staðir sem eru í uppáhaldi:

 • Sturehof er elsti sjávarréttarstaður Stokkhólms. Ég fer þangað í hverri Stokkhólmsferð og panta alltaf það sama, toast skagen og hvítvínsglas. Ég fer helst í hádeginu og á sumrin bið ég um borð úti. Þar er auðveldlega hægt að sitja fram á kvöld og fylgjast með mannlífinu.
 • Riche. Hér fæ ég mér sænskar kjötbollur og enda máltíðina á klassíska sænska eftirréttinum Gino. Súpergott!
 • Berns Aisatiska. Góður matur undir stórum kristalljósakrónum í fallegu umhverfi. Líf og fjör!
 • Farang. Ég borðaði þar í fyrsta sinn núna eftir að vinkonur mínar mæltu með honum. Prófið Farang meny eða Meny Fan Si Pan. Matarupplifun sem gleymist seint.

StokkhólmurStokkhólmur

Stokkhólmur

Síðan er nóg af góðum skyndibitum í Stokkhólmi. Ég mæli með:

 • Vapiano. Ítalskur matur sem svíkur engann. Hér færðu góðar pizzur og æðislegt pasta. Við höfum dottið hér inn á milli búða og pantað okkur ostabakka, bruchetta og rauðvín á meðan við hvílum fæturnar.
 • Burger and lobster. Einfaldur matseðill þar sem einungis hamborgari og humar eru í boði. Verðið er það sama á báðum réttunum, 285 sek. Gott!
 • Phils burger er vinsæll hamborgarastaður sem margir líkja við Shake Shack.
 • Max hamburger. Svo margfalt betri en McDonalds. Melted cheddar dip er möst með frönskunum. Ég kaupi minn á flugvellinum á heimleiðinni.

Stokkhólmur

StokkhólmurStokkhólmurStokkhólmur

Það væri synd að fara til Svíþjóðar án þess að fá sér kanilsnúð. Fyrir alvöru snúð er Saturnus málið!

Stokkhólmur

Hvað verslun varðar þá má finna allar helstu búðir í Stokkhólmi. Ég eyði góðum tíma í NK sem er á Hamngatan. Þar er hægt að þræða hverja hæðina á fætur annarri og setjast niður á kaffihúsin inn á milli. Í kjallaranum er matvörubúð sem ég kem alltaf við í. Síðan fer ég yfir á Biblioteksgatan þar sem m.a. Cos, And other stories og Sephora eru. Þar á eftir fer ég í Sturegallerian þar sem m.a. Massimo Dutti er að finna. Lagerhaus er við hliðina á Sturegallerian, þar má finna ýmislegt skemmtilegt fyrir heimilið. Uppáhalds búðin mín er síðan Svenskt tenn. Þangað fer ég alltaf og kem aldrei tómhent út. Í miðbænum eru einnig Gallerian og Mood  (ég er hrifnari af Mood). Södermalm er skemmtilegt hverfi sem gaman er að rölta um og fyrir þá sem vilja komast í góða verslunarmiðstöð þá er Mall of Scandinavia málið. Lestin fer beint úr miðbænum og stoppar þar beint fyrir utan.

Stokkhólmur

Ég fer sjaldan á söfn en Moderna museet og Fotografiska museet eru bæði í göngufæri við miðbæinn og á báðum stöðum er hægt að gera góð kaup í gjafaverslunum (það er t.d. gott úrval af plakötum á Fotografiska). Eins er Vasasafnið skemmtilegt og ef börn eru með í för þá eru Junibacken og Skansen ómissandi. Eins er Gröna Lund tívolígarðurinn skemmtilegur. Á vorin er fallegt að sjá kirsuberjatréin í blóma í Kungsträdgården og Humlegården stendur alltaf fyrir sínu á hlýrri dögum. Allt er þetta í göngufæri við miðbæinn.

 

HAGKAUP

Sloppy Joe Mac n Cheese

Sloppy Joe Mac n Cheese
Mig grunar að margir séu að taka matarræðið í gegn núna í upphafi árs, eftir að hafa lifað lífinu í desember. Sjálf sit ég hér með nýbakaða skúffuköku á meðan ég fer í gegnum uppskriftir og dáist að öllum þeim sem hamast í ræktinni þessa dagana. Ég á aldrei ræktarkort þar sem útivist hentar mér betur. Að fara í göngutúra, fjallgöngur eða á skíði yfir vetrartímann þykir mér bæði endurnærandi og skemmtilegt. Hver og einn verður að finna sitt, ekki satt?
 Sloppy Joe Mac n Cheese
Ég gerði svo góðan hversdagsrétt eitt kvöldið fyrir jól og þar sem ég veit að margir mikla fyrir sér bollamálin þá passaði ég upp á að mæla allt í desilítum. Nú er ég hins vegar búin að snúa öllu við og finn ekki blaðið sem ég skrifaði desilítramálin á. Það hefur örugglega endað í ruslinu fyrir mistök. Rétturinn var þó svo góður (krakkarnir hrósuðu honum í bak og fyrir!) að ég ætla að setja uppskriftina inn þrátt fyrir bollamálin. Uppskriftin er lítil en lítið mál að tvöfalda hana.
 Sloppy Joe Mac n Cheese
Sloppy Joe Mac n Cheese (uppskrift fyrir 2-3) – uppskrift frá Taste and tell
Sósan:
 • ¾ bolli tómatsósa í dós
 • 2 msk púðursykur
 • 1 msk tómatpúrra
 • 2 tsk Worcestershire sósa
 • ½ tsk salt
 • ¼ tsk mulinn svartur pipar

Hrærið öllu saman og leggið til hliðar.

 • 2 bollar ósoðið pasta
 • 1 msk olía
 • ¾ bolli hakkaður laukur
 • 1 græn paprika, skorin smátt
 • 2 hvítlauksrif, pressuð eða fínhökkuð
 • 225 g nautahakk
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita og steikið lauk, papriku og hvítlauk þar til mjúkt. Bætið nautahakki á pönnuna og steikið þar til fulleldað. Bætið þá sósunni á pönnuna ásamt soðnu pastanu og setjið rifinn ostinn yfir. Lækkið hitann undir pönnunni og blandið varlega saman þar til osturinn hefur bráðnað og allt hefur blandast vel.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum

Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum

Sumir segja að nýjársdagur sé rólegasti dagur ársins og í ár tökum við heilshugar undir það. Við fórum ekki út fyrir hússins dyr heldur dunduðum okkur hér heima á náttfötunum allan daginn. Jólaskrautinu var pakkað og komið fyrir inni í geymslu, heimilið þrifið og um kvöldið borðuðum við kalkúnaafganga og horfðum á bíómynd. Notalegt!

Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetumBeikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum

Við áttum æðisleg áramót og gleðin stóð langt fram á nótt. Ég eldaði kalkún og þar sem við vorum svo mörg ákvað ég að vera með smá forrétt sem ég fann í Gestgjafanum, beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum. Ég tvöfaldaði uppskriftina og ekki veitti af. Mjög gott!

Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetumBeikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum

Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum – uppskrift úr Gestgjafanum

 • 10 fransbrauðsneiðar
 • 200 g rjómaostur
 • 100 g döðlur, saxaðar
 • 50 g valhnetur (ég var með kasjúhnetur)
 • hnefafylli graslaukur, smátt saxaður
 • um 20 beikonsneiðar

Hitið ofn í 190°. Skerið skorpuna af brauðinu og fletjið sneiðarnar út með kökukefli. Blandið saman rjómaosti, döðlum, valhnetum og graslauk. Bragðbætið með salti og pipar. Smyrjið brauðsneiðarnar með rjómaostablöndunni og rúllið þeim þétt upp. Vefjið beikoni utan um brauðið og skerið hverja rúllu varlega í tvennt (mér fannst betra að skera rúlluna fyrst í tvennt og vefja beikoninu síðan utan um hvor helming fyrir sig). Raðið á ofnplötu og bakið í ofninum  í um 20 mínútur, eða þar til beikonið hefur eldast hæfilega. Látið kólna lítillega áður en borið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Þá er síðasti dagur ársins runninn upp. 2016 var skítaár víða í heiminum og góð áminning um hversu gott það er að búa á Íslandi, langt frá stríðsástandi og þeirri hræðilegu eymd sem margir búa við. Hvað snýr að mér, get ég ekki sagt annað en að ég átti frábært ár! Veðrið lék við okkur og við nýttum það heilmikið í útivist, bæði í göngutúra og á skíðum á meðan opið var í fjallinu. Það fór lítið fyrir innanlandsferðalögum þetta árið, bara ein sumarbústaðarferð, en hins vegar ferðuðumst við til Brussel, Stokkhólms, Spánar, Kaupmannahafnar og Parísar. Strákarnir fermdust og lesendahópur Ljúfmetis stækkaði enn frekar. Ég kveð árið full af þakklæti ♥

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Í kvöld verða hér níu manns í mat og mig grunar að ég sé með mat fyrir helmingi fleiri. Ég mun eyða deginum í eldhúsinu, að dekra við kalkúninn og undirbúa meðlætið. Eftirréttirnir eru tilbúnir og forréttinn á bara eftir að setja í ofninn rétt áður en hann verður borinn fram.

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Flugeldarnar eru komnar í hús og eru að sjálfsögðu keyptar af björgunarsveit. Ég ætla í tilefni dagsins að birta lista yfir 10 vinsælustu uppskriftir ársins á blogginu, eins og ég hef gert undanfarin ár. Mig langar þó fyrst að þakka ykkur fyrir árið sem er að líða. Takk fyrir lesturinn, kommentin og kveðjurnar. Takk fyrir að vera með mér hér ♥

10 vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Vinsælasta uppskrift ársins er kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti, en sú uppskrift var skoðuð tæplega 300.000 sinnum á árinu og henni hefur verið deilt yfir 10.000 sinnum. Skál fyrir því!

Einföld og góð skúffukaka

Einföld og góð skúffukaka er önnur vinsælasta uppskrift ársins. Það þurfa allir að eiga sína go-to uppskrift af skúffuköku. Þessi er fullkomin sem slík! Hráefnin eru yfirleitt til í skápunum og því lítið mál að baka þessa dásemd þegar skúffukökulöngunin dembist yfir mannskapinn. Sem gerist auðvitað oft.

Bananabrauð

Þriðja vinsælasta uppskriftin er uppáhalds bananabrauðið. Ég hef heyrt að þetta brauð sé orðið uppáhalds á fleiri heimilum en mínu og mér þykir vænt það. Þetta brauð er bara svo gott að það hálfa væri nóg.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei situr í fjórða sæti. Skiljanlega, því það nennir enginn að gera pizzu sem gæti klikkað. Þessi er líka ávísun á gott föstudagskvöld því hún er algjört æði.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Í fimmta sæti er þykk og góð mexíkósk kjúklingasúpa. Svo góð!

Mexíkósúpa

Mexíkósku kjúklingasúpurnar viðrast heilla lesendur því í sjötta sæti er önnur mexíkósk súpa, sú sem ég elda hvað oftast. Ef Gunnar fengi að ráð væri þessi súpa í matinn í hverri viku. Ég elda hana að minnsta kosti tvisvar í mánuði, alltaf við mikinn fögnuð heimilismanna!

Ofnbakaðar kjötbollur

Ofnbakaðar kjötbollur eru sjöunda vinsælasta uppskriftin. Það er ekki annað hægt en að elska kjötbollur! Með kartöflumús, góðri rjómasósu og sultu væri skammlaust hægt að bjóða kóngi í mat.

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Í áttunda sæti eru heimsins bestu súkkulaðibitakökur. Skiljanlega, því þær eru heimsins bestu í alvöru.

Mexíókskt kújklingalasagna

Mexíkóskt kjúklingalasagna er níunda vinsælasta uppskrift ársins. Ef einhver hefur ekki prófað þessa uppskrift þá mæli ég með að það verði áramótaheiti hjá viðkomandi. Klikkgott!

Hakkbuff með fetaosti

Síðast en ekki síst er hakkabuff með fetaosti í tíunda sæti yfir vinsælustu uppskriftirnar á árinu sem er að líða.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

10 góðar tillögur að áramótaeftirréttum

Það hljóta fleiri en ég að sitja yfir uppskriftum þessa dagana, að reyna að fá innblástur fyrir áramótin. Við fórum í gær og keyptum kalkún og meðlæti en ég er enn að gæla við forrétti og eftirrétti. Ég spurði strákana hvort þeir væru með óskir um eftirrétti og það stóð ekki á svarinu, súkkulaðimús! Ég gerði þrefalda uppskrift af súkkulaðimúsinni fyrir aðfangadagskvöld og hún kláraðist upp til agna. Ég mun því gera hana aftur á gamlárskvöld en ætla að finna annan eftirrétt til að hafa með. Oreo-ostakakan kemur sterklega til greina, hún er vinsæl hjá krökkunum og það hentar mér vel að geta útbúið hana strax í kvöld.

Ég hef áður listað upp hugmyndir af eftirréttum fyrir áramót og datt í hug að endurtaka leikinn. Hér koma því 10 góðar tillögur að eftirréttum fyrir áramótin.

Súkkulaðimús

Súkkulaðimús

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin
Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

Karamelluperur og ís

Karamelluperur

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Ísbaka með bourbon karamellu

Ísbaka með bourbon karamellu

Litlar marengskökur

marange

Pannacotta með hindberjasýrópi

Pannacotta með hindberjasýrópi

Oreo-ostakaka
Oreo-ostakakaOreo-ostakaka

Nutellaís

Heimsins besti og einfaldasti ís - Nutellaís!

Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósuSúkkulaðipavlova með maltesers, daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Jólakveðja

Jólakveðja

Gleðileg jól kæru lesendur. Ég vona að jóladagarnir hafi staðið undir væntingum og allir geti tekið undir með Baggalúti og sagt að jólin eru æði! Við höfum átt æðisleg jól, svo góð að krakkarnir segja þetta bestu jól sögunnar. Ekki skemmir hvað veðrið er búið að vera jólalegt og fallegt. Ég var að tæma myndavélina og sá að hún hefur greinilega ekki verið mikið á lofti undanfarna daga en einhverjum myndum náðist að safna saman úr símunum hjá mannskapnum. Myndagæðin eru eftir því en fá að duga í þetta sinn.

Jólakveðja

Ég er búin að vera í fríi síðan á miðvikudaginn. Á fimmtudeginum varð ég fertug! Við Hannes fórum í göngu um snjóþakta Heiðmörk um morguninn og þar dró hann upp kampavín og franskar makkarónur í tilefni dagsins. Þegar við komum heim um hádegi beið mín óvæntur afmælisbröns með allri fjölskyldunni. Það sem ég var hissa! Þegar leið á daginn fórum við í  Bláa lónið, síðan út að borða og um kvöldið komu vinir hingað heim í léttar veitingar. Æðislegur dagur í alla staði!

Jólakveðja

Jólakveðja

img_0315

Seinnipart þorláksmessu fórum við í skötu á Þrjá Frakka. Mamma var búin að bíða spennt allan mánuðinn og strákarnir voru hugaðir og smökkuðu bæði skötu og hákarl, en pöntuðu sér þó saltfisk. Sjálf gæti ég vel lifað án skötunnar og er enn að berjast við að ná lyktinni úr úlpunni minni. Eftir matinn röltum við um bæinn og enduðum kvöldið á Geira smart.
Aðfangadagur rann síðan loksins upp, hvítur og fallegur. Kertasníkir hafði litið við um nóttina og skilið eftir sig gjafir sem féllu í kramið. Hinn hefðbundni möndlugrautur var í hádeginu og venjunni samkvæmt fékk Gunnar möndluna (hvernig er þetta hægt!!). Eftir að Gunnar hafði opnað möndlugjöfina dró Hannes fram auka möndlugjöf til mín, skó! Hann hafði hugsað fyrir öllu og fengið skóna í tveimur stærðum svo þeir myndu örugglega passa. Yndislegur ♥

JólakveðjaJólakveðja

Við erum mjög föst í venjum yfir hátíðirnar og hér er alltaf hamborgarahryggur og sama meðlætið, ár eftir ár. Og ár eftir ár borðum við yfir okkur. Þegar búin var að opna allar gjafirnar og gestirnir voru farnir heim gengum við frá og lögðumst svo í sófann og horfðum á jólamynd saman. Þegar klukkan var lang gengin þrjú fengum við okkur annan disk af jólamatnum áður en við skriðum upp í rúm. Dásamlegt.

Jólakveðja

Jólakveðja

Í gær var hefðbundið jólaboð hjá mömmu þar sem við fengum hangikjöt. Seinna um kvöldið fór ég svo og hitti vinkonur mínar, þar sem var boðið upp á heitreykta gæsabringu, osta, smákökur og freyðivín. Það er því hver veislan á fætur annari þessa dagana.

JólakveðjaJólakveðjaJólakveðja

Í kvöld erum við Hannes þó bara tvö og ætlum að elda okkur humar og opna hvítvínsflösku. Það verður notalegt. Á morgun hefst svo fjörið á ný því strákarnir verða 14 ára! Tíminn flýgur…

 

HAGKAUP

Sultukökur

Sultukökur

Í dag er vika í aðfangadag. Mér þykir aðventan hafa liðið svo brjálæðislega hratt og man varla eftir jafn skemmtilegum desembermánuði. Tveir saumaklúbbar, vinkonuhittingar, matarboð, jólaboð, jólahlaðborð, Baggalútstónleikar og kampavínshittingur er þegar afstaðið og stuðið heldur áfram því í næstu viku bíður annað jólahlaðborð, skötuveisla og síðast en ekki síst – ég verð fertug!

Sultukökur

Ég hef ekki verið nógu dugleg í smákökubakstrinum þessa aðventuna og það litla sem ég hef bakað hefur klárast samstundis. Hér eru því engin smákökubox á borðum en ég á sörur í frystinum og konfekt í skápnum þannig að það væsir ekki um okkur.  Mig grunar að þetta verði síðasta smákökuuppskriftin sem ég set inn fyrir þessi jól en hún er ekki af verri endanum. Klassískar sænskar sultukökur sem eru svo góðar að það hálfa væri nóg. Uppskriftin er ekkert brjálæðislega stór og því snjallt að tvöfalda hana.

Sultukökur

Það er upplagt að setja nokkrar kökur í poka og færa ástvinum fyrir jólin. Gjöf sem gleður!

Sultukökur – uppskrift úr tímaritinu Hembakat

 • 2,5 dl hveiti (150 g)
 • 120 g smjör við stofuhita
 • 3/4 dl flórsykur (45 g)
 • 1 tsk vanillusykur
 • St. Dalfour hindberjasulta

Hitið ofninn í 200°. Hrærið smjör, flórsykur og vanillusykur saman þar til blandan er létt. Bætið hveitinu saman við og vinnið vel saman. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið kökurnar á bökunarpappírsklædda bökunarplötu. Gerið smá holu í miðja kökuna og setjið hindberjasultu þar í. Bakið í 12-15 mínútur.

SultukökurSultukökurSultukökurSultukökur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Lampaást og dásamlegt Dumlefudge

Lampaást og dásamlegt Dumlefudge

Ég fékk mér lampa í vikunni, sem væri kannski ekki frásögu færandi nema að þegar ég kom heim með hann áttaði ég mig á því að ég hef fengið mér nýja lampa undanfarin þrjú jól. Það má því kannski segja að lampakaup séu að verða nokkurs konar furðuleg (og galin) jólahefð hjá mér.

Lampaást og dásamlegt Dumlefudge

Í fyrra keypti ég PH lampann sem mig hafði dreymt um lengi og fæ ekki nóg af. Árið þar á undan var það hvítur Flowerpot. Nýi lampinn heitir Leimu og er frá Iittala. Ég hef horft hlýjum augum á hann í nokkurn tíma og hann varð enn fínni hér heima en ég átti von á.

Lampaást og dásamlegt Dumlefudge

En að máli málanna, Dumlefudge. Hversu dásamlega gott! Krakkarnir eru að missa sig yfir þessu. Ég var með saumaklúbb í gærkvöldi og strákarnir báðu mig um að skammta stelpunum af góðgætinu svo það myndi ekki klárast. Þær áhyggjur reyndust þó óþarfar því ég gleymdi að bjóða upp á herlegheitin…

Lampaást og dásamlegt Dumlefudge

Ég mæli með að fjárfesta í hitamæli áður en farið er af stað í sælgætisgerð. Þeir kosta ekki mikið, ég keypti minn á 1.500 krónur um daginn, og eru hverrar krónu virði. Það munar svo miklu að geta fylgst vel með hitastiginu á karamellunni svo hún verði hvorki of mjúk né of hörð. Hér varð hún fullkomin!

Lampaást og dásamlegt Dumlefudge

Dumlefudge 

 • 3 dl rjómi
 • 3 dl sykur
 • 1 dl sýróp
 • 50 g smjör
 • 140 g Dumlekaramellur
 • 1 handfylli litlir sykurpúðar
 • maldonsalt

Setjið rjóma, sykur og sýróp í pott. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið sjóða þar til blanda nær 120° (það má líka nota kúluprófið, þ.e. setja smá af blöndunni í kalt vatnsglas og þegar það gengur að móta kúlu úr blöndunni þá er hún tilbúin). Takið pottinn af hitanum og hrærið smjörinu saman við þar til það hefur bráðnað. Hrærið hakkaðar Dumlekaramellur saman við þar til blandan er slétt. Hrærið að lokum sykurpúða varlega saman við (þeir eiga ekki að bráðna) og hellið blöndunni í form sem hefur verið klætt með bökunarpappír (ég var með form sem er 20 x 20 cm). Stráið maldonsalti yfir. Látið kólna áður en skorið niður í bita. Geymið í ísskáp.

Lampaást og dásamlegt DumlefudgeLampaást og dásamlegt DumlefudgeLampaást og dásamlegt DumlefudgeLampaást og dásamlegt DumlefudgeLampaást og dásamlegt DumlefudgeLampaást og dásamlegt DumlefudgeLampaást og dásamlegt DumlefudgeLampaást og dásamlegt Dumlefudge

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP