Indverskur Butter Chicken

Indverskur Butter Chicken

Ja hérna hér, vikan leið án þess að nokkur bloggfærsla liti dagsins ljós. Það átti ekki að fara þannig en vikan hreinlega flaug frá mér og áður en ég vissi af var helgin liðin og aftur kominn mánudagur. Þetta eru hálf furðulegir dagar, ég er ekki í sumarfríi en hegða mér eins og ég sé í fríi. Fer allt of seint að sofa og kemst varla á fætur á morgnanna. Fer hálf þreytt í gegnum vinnudaginn og er svo orðin eldhress þegar ég kem heim og næ að endurtaka leikinn. Þegar svo kemur að helginni er ég eins og sprungin blaðra. Sofnaði klukkan 20.30 á föstudagskvöldinu og svaf í einum rykk til 11 morguninn eftir. Geri aðrir betur!

Indverskur Butter ChickenIndverskur Butter Chicken

Á laugardeginum bauð mamma okkur í bröns sem toppaði alla brönsstaði bæjarins og vel það. Hún bauð meðal annars upp á tvíreykt hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, nýbakað brauð, ofnbökuð egg sem voru vafin í hráskinku, heitur brauðréttur, laxavefjur og ég veit ekki hvað og hvað. Svo var skálað í cava og í eftirrétt hafði mamma gert hráköku sem hún bar fram með rjóma. Við borðuðum svo yfir okkur að við vorum enn södd um kvöldið og fengum okkur bara eðlu í kvöldmat.

Indverskur Butter Chicken

Í gærkvöldi eldaði ég hins vegar besta indverska kjúklingarétt sem ég hef fengið í langan tíma. Þennan verðið þið að prófa! Diskarnir voru sleiktir og það var ekki svo mikið sem sósudropi eftir af matnum og því óhætt að segja að hann vakti mikla lukku. Ég setti kjúklinginn í marineringu um morguninn en það er líka hægt að gera það kvöldið áður. Síðan bar ég réttinn fram með hrísgrjónum, léttri jógúrtsósu og besta keypta naan-brauði sem ég hef smakkað (frá Stonefire). Með matnum drukkum við bragðmikið Toscana vín, Mediterra. Þvílík veisla!

Indverskur Butter Chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5) – lítillega breytt uppskrift frá Whats Gaby Cooking

 • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri eða -bringur
 • 1 dós grísk jógúrt (350 g)
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 ½ msk túrmerik
 • 2 msk garam masala
 • 2 msk kumin (ath ekki það sama og kúmen)
 • 1 tsk cayenne pipar
 • ½ bolli smjör
 • 1 laukur, hakkaður
 • 4 hvítlauksrif, grófhökkuð
 • 2 msk rifið ferskt engifer
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • ½ bolli vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 7,5 dl rjómi
 • 1 tsk tómat paste
 • salt
 • ferskt kóriander til skrauts

Hrærið saman kjúklingi, grískri jógúrt, sítrónusafa, rúmerik, garam masala, kumin og cayenne pipar í skál. Látið standa í ísskáp yfir nóttu ( það dugar líka yfir daginn).

Hitið stóra pönnu yfir miðlungsháum hita og bræðið smjörið. Hrærið lauknum saman við smjörið og hægeldið þar til laukurinn er orðinn glær (passið að hafa ekki of háan hita). Bætið hvítlauk og engifer á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur til viðbótar.  Bætið niðursoðnum tómötum á pönnuna og látið sjóða í 5 mínútur. Bætið kjúklingnum ásamt marineringunni á pönnuna, látið suðuna koma upp, lækkið svo hitann og látið sjóða við vægan hita í 30 mínútur. Hrærið rjóma og tómatpaste saman við og látið sjóða í 15 mínútur til viðbótar. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ofnbakaður lax með fetaosti

Ofnbakaður lax með fetaosti

Í letikastinu um helgina, þegar við Malín vorum bara tvær í kvöldmat bæði laugardags- og sunnudagskvöld, rifjaðist upp fyrir mér að ég átti vænan bita af laxi í frystinum. Malín elskar lax og því þótti mér tilvalið að elda laxauppskrift sem ég hef verið á leiðinni að prófa.

Ofnbakaður lax með fetaosti

Þessi réttur er með þeim einfaldari sem hægt er að elda og hann var alveg dásamlega ljúffengur. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og einföldu tómatsalati sem passaði mjög vel með. Við mæðgurnar vorum alsælar með þetta og það kom ekki annað til greina en að geyma þann litla bita sem varð eftir af laxinum. Kvöldið eftir, þegar vorum ný búin að borða þorsk, rifjaðist upp fyrir Malínu að það hefði verið afgangur af laxinum. Hún rauk upp, hitaði laxbitann og fékk sér hann í eftirrétt! Það hljóta að vera góð meðmæli, ekki satt?

Ofnbakaður lax með fetaosti (uppskrift fyrir 2)

 • 400 g lax
 • 1/2 dós sýrður rjómi (um 90 g)
 • 100 g fetaostur (t.d. fetakubbur)
 • 1/2 fiskiteningur
 • sítrónupipar

Hitið ofn í 220°. Leggið laxinn í eldfast mót. Hrærið saman sýrðum rjóma, fetaosti, fiskiteningi og sítrónupipar og setjið blönduna yfir laxinn. Setjið í ofninn, eftir 15-20 mínútur er slökkt á honum en laxinn tekinn út þegar 30 mínútur eru liðnar.

Tómatsalat

 • tómatar
 • rauðlaukur
 • ólífuolía
 • balsamikedik
 • salt og pipar

Skerið tómatana og rauðlaukinn í sneiðar og setjið í skál. Hrærið saman ólífuolíu og balsamikediki í jöfnum hlutföllum (1-2 msk af hvoru) og kryddið með salti og pipar. Hellið yfir tómatana og rauðlaukinn og berið fram.

Öll hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Ég ætlaði að gera svo margt í gær en endaði á að gera nánast ekki neitt. Það tekur á að byrja að vinna eftir frí og vikan er búin að vera annasöm. Ég var því eins og sprungin blaðra í gær, svaf í tæpa 11 klukkutíma án þess að rumska og eyddi síðan deginum að mestu í að dunda mér hér heima. Um kvöldið vorum við Malín bara tvær í mat og hún sótti pizzu handa okkur í kvöldmatinn. Lúxus!

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Ég er ákveðin í að baka í dag en áður en ég fór til Spánar bakaði ég æðislega köku, hálfgerða sjónvarpsköku með Tvix súkkulaði. Uppskriftina fann ég í dönsku blaði, Spis bedre, og þegar ég las í gegnum uppskriftina rak ég augun í orðið „sødmælk“. Eftir að hafa klórað mér í hausnum og blótað því að hafa ekki fylgst betur með í dönskutímunum hér í den ákvað ég að senda snapp á systur mína, sem hefur búið í Kaupmannahöfn undanfarin 15 ár, og spyrja hana hvað þetta væri. Hún svaraði um hæl að sødmælk væri feitasta tegundin af mjólk, líklega það sem heitir léttmjólk á Íslandi! Hahaha… ég held svei mér þá að hún ætti að kíkja oftar í heimsókn heim.

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Kakan er bökuð í formkökuformi en ef þið eigið það ekki þá er það ekkert vandamál að nota bara venjulegt springform.

Sjónvarpskaka með twix súkkulaði (uppskrift úr Spis Bedre)

 • 50 g smjör
 • 4 egg
 • 300 g sykur
 • 300 g hveiti
 • 3 tsk lyftiduft
 • korn úr 1 vanillustöng (ég notaði 2 tsk vanillusykur)
 • 2 dl nýmjólk

Ofanbráð

 • 90 g Twix (ca 4 stykki)
 • 75 g smjör
 • 75 g púðursykur
 • 75 g kókosmjöl
 • ½ dl nýmjólk

Hitið ofninn í 200°. Bræðið smjörið og látið það kólna örlítið. Hrærið egg og sykur ljóst og létt, og hrærið smjörinu síðan saman við. Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið í deigið. Hrærið að lokum mjólkinni saman við. Setjið deigið í smurt formkökuform (1 lítra form) og bakið í 25 mínútur.

Hakkið Twix súkkulaðið gróft og látið í pott ásamt smjörinu, púðursykrinum, kókosmjölinu og nýmjólkinni. Látið allt bráðna saman við vægan hita.

Athugið með kökuna eftir 25 mínútur (þið gætuð þurft að bæta nokkrum mínútum við), takið hana út og hækkið hitan á ofninum upp í 225°. Setjið ofanbráðið yfir kökuna og bakið hana síðan áfram í 5 mínútur. Látið kökuna kólna aðeins í forminu áður en hún er tekin úr því.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Spánarfrí

Spánarfrí

Þeir sem fylgja mér á Instagram hafa kannski áttað sig á að ég búin að vera í sumarfríi á Spáni undanfarnar tvær vikur, sem útskýrir fjarveruna hér á blogginu. Eins og oft fyrir frí íhugaði ég að taka tölvuna með mér og blogga úr fríinu en komst líkt og áður að þeirri niðurstöðu að það hefur eflaust enginn áhuga á daglegum uppfærslum af sumarfrísflandri mínu nema elsku mamma mín.

Spánarfrí

Við vorum síðast á Spáni í haust og hefðum því eflaust valið annan áfangastað í ár en ferðin núna kom til vegna keppnisferðar strákanna okkar með 4. flokki Breiðabliks til Spánar. Við ákváðum að framlengja ferðinni og tvískiptum henni, eins og við gerðum sl. haust. Þá vorum við fyrri vikuna í Alicante og þá seinni í Calpe. Núna var fyrri vikan fyrirfram ákveðin þar sem strákarnir voru að keppa á Barcelona cup. Mótið var þó ekki í Barcelona heldur í strandbænum Salou. Dagarnir í Salou snérust aðallega um að fylgjast með leikjunum hjá strákunum en einn daginn sem þeir voru ekki að keppa stungum við af og keyrðum til Sitges, sem er yndislegur standbær sem vert er að heimsækja ef þið eruð á þessum slóðum.

SpánarfríSpánarfrí

Það gekk á ýmsu fyrstu dagana. Gunnar náði að slasa sig í fyrsta leiknum og endaði í gipsi. Hann fékk fyrirmæli frá lækninum um að taka því rólega og var settur í fótboltabann í tvær vikur. Hann lét það sem vind um eyru þjóta og spilaði leik strax morguninn eftir. Hann missti því bara af leiknum sem var spilaður á meðan hann var á spítalanum. Maður fer víst ekki í keppnisferð til Spánar til að sitja á bekknum.

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Jakob gleymdi keppnistreyjunni sinni á hótelinu einn morguninn en það vildi svo heppilega til að hann var með grænu ferðatreyjuna með sér. Það var því hægt að bjarga málunum með hvítu teypi. Það hefði verið einfaldara ef hann væri númer 11 en allt gekk þetta að lokum.

SpánarfríEftir viku í Salou keyrðum við til Benidorm, með viðkomu í Valencia. Í hreinskilni sagt var ég mjög tvístígandi með þá ákvörðun þar sem það var ekki laust við að Benidormfordómar blunduðu í mér, en ég var fljót að skipta um skoðun eftir að við komum þangað. Hótelið okkar var staðsett á ströndinni og var með bílageymslu þannig að það var aldrei vandamál að leggja bílnum. Útsýnið okkar var stórkostlegt og ég fékk ekki nóg af að sitja á svölunum og horfa yfir ströndina. Við fórum í Carrefour og keyptum baguette, osta, ólíkar tegundir af hráskinkum, melónur, kirsuber, köku og hvítvín sem við höfðum sem kvöldsnarl á svölunum okkar. Ég gat setið endalaust yfir því!

Spánarfrí

Benidorm er nokkuð vel staðsett og það er t.d. stutt yfir til Villa Joiosa, Altea, Albir og Alicante. Fyrir utan að vera með bíl þá leigðum við okkur hjól í viku og hjóluðum til Albir og Altea..

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Við eyddum kannski minnstum tíma á Benidorm þar sem við ferðuðumst mikið um nærsveitir. Það var löngu ákveðið að taka dag í Alicante til að versla og borða á uppáhalds tælenska staðnum okkar þar, Thai Corner. Eins er ekki hægt að fara til Alicante án þess að fá sér tapas á besta tapasstað bæjarins, Cerveceria Sento. Við vorum heppin að vera þar um miðjan dag því staðurinn er pínulítill og á kvöldin er hann bæði þétt setinn og margmenni stendur fyrir utan með diskana, því bara örfáir komast að inni við barborðin.

SpánarfríSpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Það er alltaf stutt í glensið.

SpánarfríSpánarfrí

Það væri synd að fara á þessar slóðir án þess að heimsækja gamla bæinn í Altea. Steinlagðar þröngar götur frá 17. öld með yndislegum litlum veitingahúsum heilla mig upp úr skónum. Við fórum tvisvar þangað og enduðum síðasta kvöldið okkar þar í tapas.

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Það var saumaklúbbur í húsi númer 43. Sá sætasti sem ég hef séð.

Spánarfrí

Ströndin í Altea er líka falleg. Við vorum þar seinni part dags þegar flestir voru farnir. Lúxus.

SpánarfríSpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Við hjóluðum yfir á ströndina í Albir. Þar gafst Gunnar upp á gipsinu, reif það af sér og óð svo beint út í sjó. Ég skildi það vel, við vorum við búin að vera að hjóla í 36° hita og vorum því að kafna úr hita og síðan var kominn sandur undir það.

SpánarfríSpánarfrí

Villa Joiosa er sjarmerandi bær og gaman að ganga þar um gamla bæinn. Á meðan Altea skartar bara hvítum húsum er litagleðin alsráðandi í Villa Joiosa. Það er svo fallegt að ganga um þröngar göturnar í gamla bænum og dást að fallegu litlu hurðunum inn í húsakynnin.

Spánarfrí

Að lokum má ég til með að benda þeim sem eiga leið á þessar slóðir á Les fonts de l´Algar, sem er í tæplega 30 mínútna akstursfjarlægð frá Benidorm/Albir. Þar er hægt að synda í náttúrulaugum, fossum og gjám. Skemmtilegt fyrir alla!

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Ég veit að það er næstum eins agalegt og að blóta í kirkju að óska eftir rigningu svona um mitt sumar en eftir 2 vikur í vel yfir 30° hita get ég ekki að því gert. Fersku rigningarlofti myndi ég taka fagnandi! Annað sem ég hlakka alltaf til eftir ferðalög er að komast í eldhúsið mitt og borða heimalagaðan mat. Eins yndisleg og svona frí eru þá er nú samt alltaf gott að koma aftur heim.

HAGKAUP

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Um daginn var ég með einn saumaklúbbinn minn hjá mér, Stjörnurnar. Ég furða mig á að það séu liðin 18 ár síðan við byrjuðum að hittast, þá allar á þeim tímamótum í lífi okkar að móðurhlutverkin voru ýmist að hefjast eða handan við hornið. Núna 18 árum síðar erum við mörgum börnum ríkari, nokkrar búnar að flytja erlendis og heim aftur, sumar sestar að erlendis og ein flutt norður í land. Engu að síður höldum við alltaf saman og þessar vinkonur mínar verða mér alltaf kærar.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Og hvað bauð ég þeim svo upp á? Sitt lítið af hverju. Osta, beikonvafðar döðlur, tapasskinku, ber, pekanhjúpaða ostakúlu, ofnbakaðan camembert og súkkulaðiköku. Einfalt, fljótlegt og gott.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Súkkulaðikakan var svakaleg, þó ég segi sjálf frá, og jafnvel betri daginn eftir. Ég bar hana fram með rjóma, saltkaramelluís frá Häagen-Dazs (ég mæli með að þið prófið hann…. eða haldið ykkur alveg frá honum því hann er ávanabindandi!) og jarðaberjum. Skothelt!

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

 • 4 egg
 • 6 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 9 msk kakó
 • ½ msk vanillusykur
 • smá salt
 • 200 g smjör

Súkkulaðikaramellukrem

 • 75 g smjör
 • ½ dl sykur
 • ½ dl sýróp
 • 1 msk kakó
 • 1½ dl rjómi
 • 200 g mjólkursúkkulaði (ég var með frá Cadbury)

Botninn:

Hrærið lauslega saman egg og sykur. Blandið hveiti, kakói, vanillusykri og salti saman og hrærið saman við eggjablönduna. Bræðið smjörið og hrærið því saman við. Setjið deigið í smurt form (ca 24 cm) og bakið við 175° í um 40 mínútur. Látið kökuna kólna.

Kremið:

Bræðið smjör í potti og bætið sykri, sýrópi, kakói og rjóma saman við. Látið suðuna koma upp á meðan þið hrærið í blöndunni og látið síðan sjóða við vægan hita í 5-10 mínútur. Takið pottin af hitanum og bætið hökkuðu súkkulaði í hann. Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellið kreminu yfir kökuna og látið hana síðan standa í ísskáp til að kremið stífni.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Það er óhætt að segja að það rættist úr 17. júní veðrinu. Okkur var boðið í grill um kvöldið til vinafólks okkar, Kristínar og Rikka. Rikki átti afmæli fyrr í vikunni og fékk ginflöskuna hér að ofan í síðbúna afmælisgjöf frá okkur. Þar sem veðrið var svo gott ákváðum við að borða úti á palli hjá þeim og enduðum á að sitja þar fram eftir kvöldi. Það er nú ekki á hverjum degi sem það er hægt, en mikið er ljúft þegar það gerist. Sól, grillmatur, hvítvín og góður félagsskapur, það gerist varla betra. Þegar leið á kvöldið var hvítvíninu skipt út fyrir G&T og áður en við vissum af var liðið langt fram á nótt. Það má jafnvel segja að það varð aðeins of mikið af ljúfa lífinu hjá okkur þarna um kvöldið og laugardagurinn fór svolítið í það að jafna sig. Maður er víst ekki tvítugur lengur. Í dag erum við hins vegar eldhress, verkfræðingurinn á leið í vinnuferð til Hollands og ég ætla að kíkja aðeins í Smáralindina. En fyrst kemur hér, eins og svo oft á sunnudögum, hugmynd að vikumatseðli.

Vikumatseðill

Ítalskur lax með fetaostasósu

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Einfalt og stórgott lasagna

Þriðjudagur: Einfalt og stórgott lasagna

Sveppasúpa

Miðvikudagur: Sveppasúpa

Parmesanbuff í rjómasósu

Fimmtudagur: Parmesanbuff í rjómasósu

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Föstudagur: Kjúklingaborgari

Drømkage

Með helgarkaffinu: Drømmekage

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Kung Pao kjúklingur

 

Kung Pao kjúklingur

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Ó, hvað ég vona að veðrið haldist þurrt og að allir geta notið skemmtanahalds þar sem þeir eru. Ég ætla ekki að taka þátt í 17. júní hátíðarhöldum þetta árið (sem þykir svo sem ekki fréttnæmt þar sem ég er lítið fyrir slík skemmtanahöld, sé bara fyrir mér engin laus bílastæði og hvergi laus borð á veitingastöðum… nei, þetta er einfaldlega ekki fyrir mig) heldur er okkur boðið í grill til vinafólks okkar í kvöld. Börnin séu orðin svo stór að þau vilja helst að ég haldi mér heima á meðan þau skemmta sér á Rútstúni og ég mun ekki mótmæla því. Hef hugsað mér að fara á meðan í góðan göngutúr og síðan dunda mér í eldhúsinu þannig að það bíði þeirra nýbökuð kaka þegar þau koma heim. Smá þjóðhátíðarkaffi getur maður alltaf gert sér að góðu, ekki satt?

Kung Pao kjúklingur

Eins og alltaf fyrir helgar leitar hugurinn að helgarmatnum. Um daginn gerði ég æðislegan kjúklingarétt sem mér þykir passa vel sem helgarmatur, eða EM matur ef út í það er farið. Strákarnir voru ekki heima þetta kvöld en við sem vorum í mat voru stórhrifin af réttinum. Þegar Jakob kom heim fékk hann sér það sem eftir var og kláraði það upp til agna. Þegar ég svo spurði hvort honum hafi ekki þótt þetta æðislega gott þá svaraði hann „þetta var mjög gott en ég hef fengið betra“. What! Súpergott segjum við hin og klárlega réttur til að prófa.

Kung Pao kjúklingur

Kung Pao kjúklingur

 • 3-4 kjúklingabringur, skornar í munnbita
 • Salt og pipar
 • 1½ bolli maísmjöl
 • 3 egg
 • ¼ bolli canola olía
 • ¼ bolli soja sósa
 • ¼ bolli edik
 • 1 matskeið rautt chillí paste (t.d. Sriracha)
 • 1 tsk pressaður hvítlaukur
 • ¼ bolli púðursykur
 • ½ msk maísmjöl
 • 1 rauð paprika, hökkuð
 • ¼ bolli salthnetur
 • vorlaukur til skrauts

Hitið ofninn í 180°.

Skerið kjúklinginn í munnbita og kryddið með salti og pipar. Setjið maísmjöl í eina skál og léttilega hrærð egg í aðra skál. Hitið olíuna á pönnu.

Veltið kjúklingnum upp úr maísmjölinu, síðan eggjunum og setjið hann að lokum á pönnuna. Steikið þar til kjúklingurinn er byrjaður að brúnast. Færið kjúklinginn þá af pönnunni yfir í eldfast mót.

Hrærið saman sojasósu, ediki, chillí paste, hvítlauk, púðursykri og maísmjöli. Hellið blöndunni yfir kjúklinginn og blandið vel. Setjið hakkaða papriku og salthnetur yfir. Bakið í klukkutíma en hrærið í réttinum á 15 mínútna fresti. Berið fram með hrísgrjónum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Gærkvöldið tók óvænta stefnu þegar ég ákvað skyndilega að bjóða mömmu og Eyþóri bróður í mat og fótboltaáhorf til okkar. Þvílíkt kvöld og þvílíkur leikur! Ég hef ekki taugar í þetta og hef því blendnar tilfinningar fyrir næsta leik. Tilhlökkun og kvíði fyrir stressfaktornum sem fer upp úr öllu veldi, en það er kannski bara partur af programmet? Hvað veit ég. Ég sem hef aldrei fylgst með fótbolta sit orðið allar helgar og horfi á 4. flokk Breiðabliks keppa og núna bætist Evrópumótið við. Maður veit víst aldrei hvað bíður manns. Kannski fer ég bráðum að halda með liði í ensku deildinni eða eitthvað. Nei, ég segi bara svona…

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggirGrillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Þar sem matarboðið kom skyndilega upp og mig langaði hvorki í hamborgara né pizzu, þá ákvað ég að grípa í uppskrift sem ég fékk fyrir nokkrum árum og hefur verið notuð óteljandi sinnum hér heima, grillaðir BBQ-kjúklingaleggir. Þessi uppskrift er með þeim einföldustu og bestu, ég lofa! Kjúklingaleggirnir eru forsoðnir þannig að þeir þurfa bara stutta stund á grillinu. Með þessari eldunaraðferð fær maður safaríka og góða kjúklingaleggi en ekki þurra eins og vill verða þegar þeir eru bara grillaðir. Skotheld uppskrift sem vekur alltaf lukku!  Með matnum drukkum við Allegrini Soave sem setti algjörlega punktinn yfir i-ið. Frábært hvítvín á góðu verði.

grillaður bbq1

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Kjúklingaleggirnir eru soðnir í potti með kjúklingakrafti (ca 1 kjúklingateningur á hvern bakka af kjúklingaleggjum) í 10-15 mínútur. Þá eru þeir teknir úr pottinum og látnir kólna aðeins. BBQ-sósu er síðan penslað á kjúklingaleggina og þeir að lokum grillaðir í stutta stund þannig að BBQ-sósan karamellist utan um kjúklingalegginn. Gott er að pensla smá auka BBQ-sósu á kjúklinginn þegar hann er á grillinu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Fyrir utan heimsókn á læknavaktina í gærmorgun (sem betur fer var lítið að gera þar, enda hálf þjóðin í Color run) sem endaði á sýklalyfi, ofnæmislyfi og sterakremi, þá hefur helgin verið sérlega góð. Hápunktur helgarinnar var klárlega gærkvöldið, þegar við fórum með mömmu og Eyþóri bróður mínum á Bjórgarðinn í drykk og léttan kvöldverð og síðan yfir í Borgarleikhúsið á Mamma Mía. Þvílík sýning! Við skemmtum okkur stórkostlega og erum enn í skýjunum. Ég segi bara ekki láta hana framhjá ykkur fara!

Vikumatseðill

Fiskur með gulrótum í ljúffengri sósu

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Brokkólí- og sveppabaka

Þriðjudagur: Brokkólí- og sveppabaka

Kjúklingalaksa

Miðvikudagur: Laksa með kjúklingi

Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Fimmtudagur: Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Dásamlegur BBQ kjúklingur - með öllu í einum pakka!

Föstudagur: Dásamlegur BBQ-kjúklingur með öllu í einum pakka!

Sítrónukaka með kókos

Með helgarkaffinu: Sítrónukaka með kókos

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld og helgarfrí framundan. Það er búið að vera stöðugt prógramm þessa vikuna og því ljúft að eiga rólegt kvöld framundan með mexíkóska kjúklingasúpu í kvöldmat og nammi yfir sjónvarpinu. Ég er með æði fyrir nýja nóakroppinu með piparduftinu og súkkulaðihúðuðu saltkringlunum en uppgötvaði nýlega hvað það er líka gott að blanda venjulegu nóakroppi og poppi saman. Áður en ég hendi mér í sjónvarpssófann með nammiskálarnar ætla ég þó að reima á mig skóna og taka smá göngutúr. Ég gekk 5.75 km hring hér um Kópavoginn í gærkvöldi á tímanum 54.35 sem er ekkert til að státa sér af. Í kvöld skal ég gera betur!

HAGKAUP