Tælenskar kjúklinganúðlur

Það er stutt vinnuvika framundan hjá mér og strákarnir eru nú þegar komnir í páskafrí. Við verðum heima yfir páskana og helst vil ég eyða dögunum í sófanum með bók og páskaegg, á milli þess sem ég borða góðan mat og dunda mér í eldhúsinu.

Þar sem við verðum heima yfir páskana þá er ég búin að liggja yfir uppskriftum til að prófa. Ég er alltaf með lamb á páskadag og ætla að vera með hægeldaðan lambahrygg þetta árið. Síðan er ég með kjúklingauppskriftir sem mig langar að prófa og auðvitað eftirrétti, helst á hverju kvöldi. Ég prófaði hins vegar um daginn uppskrift af tælenskum kjúklinganúðlum sem okkur þóttu æðislegar! Kannski ekki hefðbundinn páskamatur en frábær réttur sem gæti verið upplagt að bjóða upp á í páskafríinu.

Tælenskar kjúklinganúðlur – uppskrift fyrir 3-4

  • 2 kjúklingabringur
  • 6 dl vatn
  • 1,5 kjúklingateningur
  • 2 msk fiskisósa
  • 1,5 msk sykur
  • 1 tsk chilliflögur
  • 1 lime, fínrífið hýðið (passið að taka bara græna hlutann) og safinn úr helmingnum
  • 50 g ferskt engifer, rifið
  • 200 ml kókosmjólk
  • 1 hvítlauksrif
  • 100 g glass noodles
  • 1/2 dós bambus, skolið vel og skerið í aðeins minni bita

Setjið vatn, kjúklingakraft, fiskisósu, sykur, chilliflögur, lime (hýðið og safann) og rifið engifer í pott og látið suðuna koma upp. Skerið hvora bringu í tvennt eftir þeim endilöngum og leggið í pottinn. Látið sjóða án loks í um 40 mínútur, eða þar til kjúklingakjötið nánast dettur í sundur og vökvinn hefur minnkað til muna. Takið kjúklinginn úr pottinum og rífið hann í sundur með tveim göfflum. Bætið kókosmjólk og hvítlauk út í soðið sem var eftir í pottinum og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hitanum og leggið núðlurnar í hann. Látið þær liggja í nokkrar mínútur eða þar til þær hafa tekið mestu sósuna í sig. Klippið núðlurnar aðeins niður í pottinum með skærum. Endið á að hræra kjúklingnum og bambusnum út í . Berið fram með hökkuðum salthnetum og sojasósu.

M&M kökur

Það er fátt jafn notalegt og að dunda sér í eldhúsinu um helgar og baka eitthvað gott til að eiga með helgarkaffinu. Um daginn gerði ég M&M kökur sem voru svo æðislega góðar að ég má til með að setja þær hingað inn ef einhver er í baksturshugleiðingum í dag.

M&M kökur (uppskriftin gefur 40-45 kökur)

  • 200 g smjör
  • 200 g púðursykur
  • 200 g sykur
  • 2 egg
  • 2,5 tsk vanilludropar
  • 365 g hveiti
  • 1 tsk maldonsalt
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 300 g M&M (í brúna pokanum)

Hitið ofninn í 175°.

Hrærið saman smjör, púðursykur og sykur. Hrærið eggjum og vanilludropum saman við.Bætið hveiti, salti, matarsóda og lyftidufti í blönduna og hrærið varlega saman þar til allt hefur blandast vel. Hrærið helmingnum af M&M út í deigið.

Kælið deigið í ísskáp í klukkutíma.

Rúllið deiginu í kúlur á stærð við golfbolta og rúllið þeim upp úr M&M. Raðið 6 kökum í einu á ofnplötu með bökunarpappír (þær renna út í ofninum) og bakið í um 15 mínútur. Látið kökurnar kólna á grind.

Kjúklingur og sætar kartöflur í æðislegri sósu

Það átti nú ekki að líða svona langt á milli færslna en ég fór í tveggja vikna frí í byrjun mars og hef verið löt að prófa nýjar uppskriftir eftir að ég kom heim. Það hefur því lítið verið til frásagnar úr eldhúsinu síðustu vikurnar en þó eitt og annað, og nú er ég allt í einu með nokkrar æðislegar uppskriftir sem bíða eftir að komast inn.

Ég eldaði svo þægilegan kjúklingarétt á sunnudagskvöldinu sem allir voru sammála um að væri æðislega góður. Einfaldara verður það varla! Allt fór saman í ofnpott og inn í ofn. Á meðan gekk ég frá í eldhúsinu, lagði á borð og lagðist svo í sófann þar til maturinn varð tilbúinn.

Jakob stakk upp á því að bæta hnetum út í réttinn og það ætla ég að gera næst. Ég held að nanbrauð gæti líka passað vel með. Ég bar hann bara fram með hrísgrjónum og einföldu salati en í raun væri hægt að sleppa öllu meðlæti þar sem það er bæði kjúklingur og sætar kartöflur í honum.

Kjúklingur og sætar kartöflur – uppskrift fyrir 4

  • 1 lítil dós kókosmjólk (160 ml)
  • 2 msk púðursykur
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk hnetusmjör
  • 1 msk fiskisósa
  • 1 tsk karrýmauk (red curry paste)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk pipar
  • 1 dós hakkaðir tómatar í dós (400 ml)
  • 2 miðlungsstórar sætar kartöflur, afhýddar og skornar í sneiðar
  • 900 g beinlaus kjúklingalæri

Hitið ofn í 200°. Hrærið saman öllum hráefnum fyrir utan sætar kartöflur og kjúkling. Leggið sætu kartöflurnar í botninn á ofnpotti (eða eldföstu móti), setjið kjúklinginn yfir og endið á að hella sósunni yfir. Setjið lokið á pottinn (eða álpappír yfir eldfasta mótið) og bakið undir loki í 45 mínútur. Takið lokið af og bakið áfram í 15 mínútur.

Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

Ég var svo heppin að fá að gera nokkrar uppskriftir í samstarfi við Örnu (þið finnið pastauppskrift hér og fylltar kjötbollur með piparostasósu hér) en Arna er með frábært úrval af laktósafríum mjólkurvörum. Ég hefði gefið mikið fyrir að fá þessar vörur fyrr á markaðinn, þar sem heimilið okkar var mjólkurlaust í fjölda mörg ár sökum laktósaóþols.

Ef þið hafið ekki smakkað kryddostana frá Örnu þá mæli ég með að gera það. Þeir eru frábærir, bæði á ostabakkann og líka til að hita eða bræða í rjóma (t.d. laktósafría rjómanum frá Örnu). Ég prófaði um daginn að setja beikon og paprikuostinn á tortillur með skinku, döðlum, klettasalati og furuhnetum og okkur fannst það svo gott að ég hefði þurft að gera helmingi meira. Þetta ætla ég því að gera aftur fljótlega. Mér þykja tortillurnar passa vel sem snarl með fordrykk og hlakka til að bjóða upp á þær næst þegar ég er með saumaklúbb.

Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

  • 3 pizza tortillur
  • 150 g (1 askja) laktosafrír kryddostur með beikoni og papriku frá Örnu, rifinn
  • silkiskorin skinka
  • döðlur, skornar í bita
  • klettasalat
  • balsamik gljái
  • furuhnetur
  • sojasósa

Byrjið á að þurrrista furuhneturnar á heitri pönnu. Undir lokin er smá sojasósu hellt yfir og ristað í nokkrar sekúndur til viðbótar (bara rétt til að hneturnar þorni). Leggið til hliðar.

Setjið tortillurnar (þykkari tegundina, sem er merkt pizza) á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Rífið kryddost yfir botninn og setjið silkiskorna skinku og döðlur yfir. Bakið við 200° í 5-7 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað aðeins (hann bráðnar ekki alveg en hitnar í gegn). Takið úr ofninum og stráið klettasalati og ristuðu furuhnetunum yfir. Endið á að sáldra balsamik gljáa yfir og berið fram.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu

Vikumatseðill

Þeir eru orðnir ansi margir vikumatseðlarnir hér á blogginu og enn held ég áfram að bæta í safnið. Mér þykir svo gott að vita hvað ég er að fara að borða í kvöldmat og stundum hlakkar mig til allan daginn að komast heim og byrja að elda matinn. Það er misjafnt hvað hentar fólki en fyrir mig einfaldar svona skipulag lífið til muna. Hér kemur því enn ein tillagan að vikumatseðli.

Mánudagur: Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp

Þriðjudagur: Pulsu- og makkarónuskúffa

Miðvikudagur: Blómkálssúpa og sýrópsbrauð

Fimmtudagur: Kjúklinga Pad Thai

Föstudagur: Tortillakaka

Með helgarkaffinu: Drømmekage

Súkkulaðiformkaka með kaffiglassúr

Í gærkvöldi vorum við með steiktan fisk í ofni í matinn og gerðum síðan vel við okkur með nýbakaðri súkkulaðiköku í eftirrétt. Þetta mætti verða að mánudagshefð mín vegna. Ljúfari byrjun á vikunni er varla hægt að fá.

Kakan er með æðislegum kaffikeim og ég mæli með að setja smá rommdropa í glassúrið. Það fer mjög vel saman við kaffibragðið. Ég setti hluta af glassúrinu yfir kökuna og bar restina af því fram í skál, fyrir þá sem vildu setja meira af því yfir kökuna. Það enduðu allir á að gera það.

Súkkulaðiformkaka með kaffiglassúr (uppskrift frá Ida Gran Jansen)

  • 125 g sykur
  • 1 egg
  • 125 g hveiti
  • smá salt
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 50 g kakó
  • 1 dl mjólk
  • 3/4 dl uppáhellt kaffi
  • 2 msk rapsolía

Glassúr

  • 60 g smjör
  • 0.5 dl uppáhellt kaffi
  • 1/2 msk kakó
  • 250 g flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 5 dropar rommdropar (má sleppa)
  • 1 smá salt

Hitið ofninn í 175°og klæðið formkökuform með bökunarpappír. Setjið egg og sykur í hrærivél og þeytið saman á mesta hraða í 5 mínútur. Blandið saman hveiti, salti, matarsóda og kakói. Hrærið þurrefnunum í eggjablönduna ásamt kaffinu, mjólkinni og rapsolíunni. Setjið deigið í formið og bakið í 30-35 mínútur.

Glassúr:

Bræðið smjörið í potti og hrærið hinum hráefnunum saman við þar til blandan er slétt (flórsykurskekkir bráðna í hitanum, hrærið bara áfram þar til þeir eru horfnir). Þegar kakan kemur úr ofninum er stungið með hnífi um hana til að gera smá holur og glassúrnum síðan hellt yfir.

Tacobaka á pönnu

 

Mér þykir mexíkóskur matur vera svo góður helgarmatur, sérstaklega á föstudagskvöldum þegar enginn nennir að standa lengi í eldhúsinu eftir vinnuvikuna og sjónvarpssófinn lokkar sem aldrei fyrr. Við fáum heldur ekki leið á mexíkóskum mat og ef það er afgangur læt ég hann oft standa á borðinu því það er haldið áfram að narta í hann fram eftir kvöldi.

Ég keypti mér nýja matreiðslubók þegar ég var í Boston um daginn og var búin að ákveða að elda tacoböku úr henni í gærkvöldi. Þegar ég hins vegar ætlaði að byrja að elda komst ég að því að ég átti ekki hráefnin í hana. Ég nennti alls ekki út í búð (nennir því einhver eftir að vera komin heim á föstudegi?) og ákvað því að nota það sem til var í skápunum og útbúa svipaðan rétt. Útkoman varð æðislega góð og sló í gegn hjá krökkunum.

Það tók enga stund að koma matnum á borðið og það væri hægt að flýta enn meira fyrir (og stytta kryddlistann) með því að nota tacokryddið í bréfunum. Ég átti það bara ekki til. Eins er hægt að skipta baununum út fyrir þær baunir sem eru í uppáhaldi, eða bara sleppa þeim. Mér þykja pintobaunir þó passa mjög vel í mexíkóskum mat. Það er eflaust gott að bera réttinn fram með grænmeti og salsa- og/eða ostasósu í tortillum. Ég bar hann bara fram með nachos, salsasósu, heitri ostasósu og sýrðum rjóma, svolítið eins og supernachos. Svo brjálæðislega gott!

Tacobaka á pönnu 

  • 1 laukur, hakkaður
  • 1 rautt chillí, fræhreinsað og hakkað
  • 550 g nautahakk
  • 1 tsk chillí krydd
  • 1 tsk salt
  • 1/2 tsk laukrydd
  • 1/2 tsk oregano
  • 1/2 tsk kúmín
  • 1/2 tsk rauðar piparflögur (red pepper flakes)
  • 1/2 tsk paprikukrydd
  • 1/4 tsk cayenne
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 dós pintobaunir
  • 2 dl maísbaunir
  • handfylli af rifnum osti
  • avokadó
  • ferskt kóriander

Hitið olíu á pönnu við miðlungsháann hita og mýkjið lauk og chillí. Hækkið hitann og bætið nautahakkinu á pönnuna. Steikið hakkið þar til fulleldað og kryddið með kryddunum. Bætið hökkuðum tómötum, baunum og maísbaunum á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita í um 10 mínútur. Stráið rifnum osti yfir og látið bráðna undir loki. Berið fram beint af pönnunni.

Pasta með pepperóní og sveppum í hvítlauksostasósu

Það er orðið langt síðan ég setti pastauppskrift hingað inn en pastaréttir eru alltaf vinsælir hér heima. Pastaréttir eru líka frábærir til að nýta grænmeti og álegg sem eru að syngja sitt síðasta. Ef sósan er góð þá þykir mér útkoman aldrei klikka.

Núna prófaði ég að gera sósu úr laktósafría kryddostinum og rjómanum frá Örnu og útkoman var hreint út sagt æðisleg. Það varð smá afgangur sem fór í nestisbox og var borðaður með bestu lyst daginn eftir. Hér fer ekki arða til spillis!

Pasta með pepperóní og sveppum í hvítlauksostasósu

  • 400 g (ósoðið) pasta
  • 1 sóló hvítlaukur eða 2-3 hvítlauksrif
  • 1-2 msk smjör
  • 250 g sveppir (1 askja), sneiddir
  • 150 g pepperóní, skorið í fernt
  • 150 g (1 askja) laktósafrír kryddostur með hvítlauk frá Örnu, rifinn svo hann bráðni hraðar
  • 500 ml laktósafrír rjómi frá Örnu
  • salt og pipar

Bræðið smjör á pönnu og pressið hvítlaukin saman við. Steikið sveppi og pepperóní í hvítlaukssmjörinu og kryddið með pipar. Hellið rjóma yfir og hrærið kryddosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita undir loki á meðan pasta er soðið eftir leiðbeiningum á pakkningu. Smakkið sósuna til með pipar og salti áður en soðnu pastanu er blandað saman við hana.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu

Svínalund í æðislegri rjómasósu

Ég hef lítið dundað mér í eldhúsinu upp á síðkastið enda hafa krakkarnir verið út og suður og fáir heima í mat. Um helgina náðist þó hópurinn saman og á föstudagskvöldinu prófaði ég uppskrift af frábærum föstudagsmat (uppskriftin kemur!) og í gærkvöldi vorum við með svínalundir í svo æðislegri sósu að við gátum ekki hætt að dýfa meðlætinu í hana eftir að við  vorum búin að borða. Svo brjálæðislega gott!

Svínalund í rjómasósu (uppskrift fyrir 5-6)

  • 2 svínalundir (ég gleymdi að athuga þyngdina en þær voru í meðalstærð)
  • salt og pipar

Sósa:

  • 5 dl rjómi
  • 2 msk kálfakraftur
  • 2 msk dijon sinnep
  • 2 tsk salvía (þurrkuð)
  • 1 tsk hunang
  • nokkrir dropar af sítrónusafa
  • salt og pipar

Skerið svínalundirnar í um 2,5 cm þykkar sneiðar og kryddið með salti og pipar. Bræðið smjör og olíu saman á pönnu og steikið kjötið þar til það hefur fengið steikingarhúð á báðum hliðum. Takið kjötið af pönnunni og leggið til hliðar. Setjið öll hráefnin fyrir sósuna á pönnuna (ekki þrífa hana eftir kjötið!) og látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Leggið kjötið í sósuna og látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur.

Ofnbakaðar kjötbollur með bbq- og piparostafyllingu og piparostasósa með sveppum

 

Ég hef sett nokkrar kjötbolluuppskriftir hingað inn í gegnum árin en við munum eflaust seint þreytast á heimagerðum kjötbollum með kartöflumús og góðri sósu (svo fæ ég mér líka alltaf rifsberjahlaup eða hindberjasultu með). Um helgina prófaði ég að setja smá bbq-sósu, karamelluseraðan lauk og nýja kryddostinn frá Örnu saman við hakkið og útkoman var æðisleg.

Það tekur styttri tíma að gera kjötbollur frá grunni en margir halda. Ég set öll hráefnin saman í hrærivélina og læt hana hræra þeim saman með K-inu. Síðan nota ég ísskeið til að móta bollurnar. Að lokum fara þær í ofninn á meðan kartöflumúsin er útbúin (eða kartöflur soðnar). Þegar ég geri kartöflumús sker ég kartöflurnar niður áður en ég sýð þær, til að stytta suðutímann. Þá tekur þetta enga stund.

Ég notaði hálfa öskju af piparkryddostinum í kjötbollurnar og hinn helmingurinn af ostinum fór í sósuna, ásamt sveppum, grænmetiskrafti og rjóma. Þetta kom æðislega vel út og ég ætlaði ekki að geta hætt að dýfa kartöflumús ofan í sósuskálina, eftir að við vorum búin að borða. Æðisleg máltíð sem vakti lukku hjá öllum.

Ofnbakaðar kjötbollur með bbq- og piparostafyllingu og piparostasósa með sveppum (uppskrift fyrir 5-6 manns)

  • 850 g blanda af nauta- og svínahakki (líka hægt að nota bara nautahakk)
  • 1 lítill laukur, hakkaður
  • smjör
  • 1 msk sykur
  • 1/2 dl bbq-sósa
  • 1 egg
  • 75 g (hálf askja) laktósafrír kryddostur með pipar frá Örnu, skorinn í teninga

Hakkið laukinn og steikið upp úr smjöri þar til mjúkur. Stráið sykri yfir og steikið áfram í um 1 mínútu. Setjið laukinn í skál ásamt hakki, bbq-sósu, eggi og kryddosti. Blandið öllu vel saman (ég læt hrærivélina taka nokkra snúninga með K-inu). Mótið kjötbollur  (ég gerði 16 stórar bollur) og raðið á bökunarpappirsklædda ofnplötu. Bakið við 180° í um 20 mínútur.

Piparostasósa með sveppum

  • um 5 sveppir, sneiddir
  • smjör
  • pipar
  • 75 g (hálf askja) laktósafrír kryddostur með pipar frá Örnu
  • 2,5 dl rjómi frá Örnu
  • 1 grænmetisteningur

Bræðið smjör í potti við meðalháan hita og steikið sveppina í nokkrar mínútur. Kryddið með pipar og hellið rjóma yfir. Bætið grænmetisteningi og kryddosti í pottinn og látið bráðna í rjómanum.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu