Pizzastangir með pepperoni

Þessi fyrsta sumarfrísvika mín hefur boðið upp á æðislegt veður og þrátt fyrir að hafa lofað uppskrift af pizzastöngum hingað inn þá hef ég ekki getað setið inni við tölvuna þegar sólin loksins lét sjá sig.

Ég gerði pizzastangirnar fyrir úrslitaleik HM og fékk fjölmargar fyrirspurnir um uppskriftina eftir að ég setti mynd af þeim í Insta story. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti pizzadeigið tilbúið, þetta sem er upprúllað. Þá þurfti bara að rúlla því út, setja fyllinguna í og síðan notaði ég smjörpappírinn sem pizzadeigið kemur á, til að brjóta deigið saman. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og vakti mikla lukku yfir leiknum. Fullkomið föstudagssnarl!

Pizzastangir með pepperoni

 • 1 rúlla pizzadeig
 • 3-4 tsk ítölsk hvítlauksblanda
 • 1/2 tsk red pepper flakes
 • 6 msk rifinn parmesan
 • 3 msk ólífuolía
 • 1 bréf pepperoni (um 120 g)
 • rúmlega 1/2 poki rifinn mozzarella (um 120 g)

Hitið ofninn í 200°.

Blandið ítalskri hvítlauksblöndu, red pepper flakes og rifnum parmesan saman í skál.

Rúllið deiginu út (eða fletjið það út í ferhyrning ef notað er heimagert) og stráið helmingnum af kryddblöndunni yfir deigið. Skerið pepperoni í fernt og dreifið yfir helminginn af deiginu. Brjótið helminginn sem er ekki með pepperoni yfir pepperoni-helminginn, þannig að fyllingin verði inn í. Skerið deigið í stangir og snúið hverri stöng í nokkra hringi. Penslið yfir brauðstangirnar með ólífuolíu og stráið kryddblöndu yfir. Færið brauðstangirnar yfir á bökunarplötu með bökunarpappír og snúið krydduðu hliðinni niður. Penslið með olíu og stráið kryddblöndu yfir (þannig að það er olía og krydd bæði undir og yfir brauðstöngunum) og bakið í 8-10 mínútur, eða þar til brauðstangirnar eru orðnar gylltar og fallegar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Tillögur að snarli yfir leikjum helgarinnar

Það styttist óðum í lokahnykkinn á HM þar sem síðustu leikirnir eru núna um helgina. Það sem ég hlakka til! Mér þykir þó lítið varið í að horfa á leikina án góðra veitinga. Hér koma því tíu góðar tillögur að léttu snarli til að njóta yfir úrslitaleiknum:

1. Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni er skotheldur hittari. Skerið pizzuna í sneiðar og berið fram með köldum bjór. Einn lesandi sagðist bæta döðlum á þessa pizzu og það er ég búin að vera á leiðinni að prófa. Mig grunar að það sé klikkað!

2. Tómatcrostini með þeyttum fetaosti er öruggt kort sem slær alltaf í gegn. Ég gæti lifað á þessu!

3. Fræhrökkbrauð með sítrónu- og fetamauki er hættulega gott kombó. Það er hægt að útbúa bæði hrökkbrauðið og fetamaukið deginum áður sem mér þykir alltaf vera kostur. Helsti ókosturinn fyrir mig er hins vegar að ég ræð ekki við mig með þetta fyrir framan mig og borða alltaf manna mest.

4. Brauðtertan hennar mömmu er orðin „klassiker“ þegar kemur að stórviðburðum og hún hefur boðið upp á hana yfir ófáum landsleikjum. Það er alltaf stemning þegar mamma mætir með brauðtertuna og það væri ekki hægt að taka saman þennan lista án þess að hafa hana með.

5. Nutelladip og ávextir er vinsælt snarl sem hverfur yfirleitt strax ofan í krakkana.

6. Krydduð pretzel- og hnetublanda passar stórvel með köldum bjór og fótboltaleik.

7. Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avókadó og sýrðum rjóma og kælt hvítvín… þarf að segja eitthvað meira??

8. Pekanhjúpuð ostakúla hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég gerði hana fyrst og ég býð upp á hana við hvert tækifæri sem gefst. Mér þykir passa best að bera hana fram með Ritzkexi.

9. Beikonvafin pulsubrauð er réttur sem kemur skemmtilega á óvart. Stundum er það einfalda bara best. Þetta hverfur alltaf hratt af borðinu og vekur alltaf lukku.

10. Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum er einfaldlega klikkgott og passar við öll tilefni

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Vöfflur með sýrðum rjóma, kavíar, rauðlauki og dilli

Ég veit að það eru ekki allir hrifnir af kavíar en ég fæ ekki nóg af honum, sérstaklega þegar hann er borinn fram með sýrðum rjóma og öðru góðgæti. Ég veit ekki hversu oft ég hef boðið upp á þetta snakk (það er klikkað!) og þessi pizza er með þeim betri sem hægt er að hugsa sér (og passar svo vel með kældu hvítvíni). 

Ég ákvað um helgina að bjóða heim í vöfflur yfir leiknum (Svíþjóð – England, sem útskýrir sænska fánann á borðinu). Ég bar vöfflurnar fram með sultum, nutella og rjóma en þar sem leikurinn var fljótlega eftir hádegi vildi ég líka bjóða upp á matarmeiri vöfflur. Ég átti kavíar í ísskápnum sem fékk að fara á vöfflurnar ásamt sýrðum rjóma, rauðlauki og dilli (eins og á pizzunni góðu). Það kom brjálæðislega vel út! Þetta er einfaldlega nokkuð sem allir þurfa að prófa, líka þeir sem þykjast ekki borða kavíar!

Besta vöffluuppskriftin kemur frá Food 52:

 • 1½ bolli hveiti
 • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
 • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
 • 2 egg
 • 3 tsk sykur
 • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur. Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni.

Yfir vöfflurnar:

 • sýrður rjómi (hrærið hann aðeins upp, svo hann verði kekkjalaus og mjúkur)
 • kavíar
 • rauðlaukur, fínhakkaður
 • ferskt dill

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Síðasta vinnuvikan mín fyrir sumarfrí er framundan og eins og flesta sunnudaga sit ég við tölvuna og undirbý vikuna. Ég er með svo margar uppsafnaðar uppskriftir frá síðustu vikum sem eiga eftir að koma inn á bloggið og síðan er ég með mikið af uppskriftum sem mig langar að prófa. Listinn er langur! Það verður gaman að fara inn í sumarfríið með gott matarplan.

Lífið hefur snúist svolítið um HM upp á síðkastið. Í gær kom mamma til okkar í vöfflukaffi yfir Svíþjóð-England leiknum og um kvöldið hittumst við SSSskutlurnar og borðuðum saman yfir Rússland-Króatíu. Ég hef aldrei horft jafn mikið á fótbolta eins og undanfarnar vikur. Hef reyndar aldrei horft á fótbolta nema þegar Ísland er að spila landsleiki eða Gunnar að spila með Blikunum. Ég er þó búin að átta mig á að HM er fjör með góðum mat og spennandi leikjum. Hlakka mikið til leikjanna í vikunni og úrslitaleiksins um helgina!

Vikumatseðill

Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum

Þriðjudagur: Chili con carne

Miðvikudagur: Blómkálssúpa

Fimmtudagur: Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Föstudagur: Japanskt kjúklingasalat

Með helgarkaffinu: Uppáhalds vöfflurnar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Þá er kominn nýr mánuður og ný vinnuvika. Sumarið (sem hefur þó varla verið neitt sumar hér á höfuðborgarsvæðinu) fer að verða hálfnað! Hér á heimilinu er enginn byrjaður í fríi en við strákarnir fórum í skemmtilega dagsferð á laugardaginn með vinnunni minni, þar sem við gengum upp á Stóra-Dímon og inn í Nauthúsagil og enduðum daginn síðan í grilli. Þetta er skemmtilegur hringur og passar vel fyrir dagsferðir, það er hægt að stoppa við Seljalandsfoss í leiðinni og enda daginn á einhverjum af fjölmörgum veitingastöðum á suðurlandinu.

Í gær var svo hefðbundinn sunnudagur með vikuinnkaupum og vikuundirbúningi. Ég setti myndir um helgina á Insta stories, meðal annars af gróðrastöð fyrir eldhúsið og hef sjaldan fengið jafn mörg skilaboð með fyrirspurnum. Ég held að ég sé búin að svara öllum en gróðrastöðin fæst í Eirberg (þar er útsala núna og 25% afsláttur af gróðrastöðum, þannig að það er um að gera að nýta sér það!) og ég bind miklar vonir við að geta nú loksins átt ferskar kryddjurtir í eldhúsinu. Hingað til hefur mér gengið illa að halda þeim á lífi en gróðrastöðin á að sjá um þetta fyrir mig. Hún veitir birtu og er með sjálvirku vökvunarkerfi. Ég sótti app í símann sem tengdist við gróðrastöðina, þar hakaði ég við þær kryddjurtir sem ég er með og þar með þarf ég varla að gera meira en að skipta um vatn annað slagið. Súpersniðugt!

Planið er síðan að planta þessum pipar í gróðrastöðina (þeir fást líka í Eirberg). Mér þykir það dálítið spennandi, það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu. Ég er með millistærðina af gróðrastöðinni, þessa hér og setti tvær tegundir af basiliku (venjulega og rauða) og rósmarín í hana. Það er æðisleg lykt í eldhúsinu!

Við vorum búin að ákveða að vera með pizzur í kvöldmatinn í gær, þar sem ég átti mikið af skinku og salami sem ég vildi fara að losna við. Það fór þó svo að þegar basilikan var komin í eldhúsið fékk ég óstjórnlega löngun í tómatapizzu. Úr varð æðisleg pizza sem ég ákvað að skrifa strax niður svo ég geti endurtekið hana. Botninn er úr smiðju Ebbu Guðnýjar en Gunnari þykir þessi pizzabotn vera sá allra besti og velur hann alltaf fram yfir hefðbundinn hveitibotn.

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Botn:

 • 250 g lífrænt spelt
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft (má sleppa)
 • 1/2 – 1 tsk sjávarsalt
 • 1-2 tsk óreganó
 • 3 msk kaldpressuð ólífuolía (ég var með kaldpressaða hvítlauksólífuolíu)
 • 135-150 ml heitt vatn

Sjóðið vatnið. Blandið þurrefnum saman. Setjið olíu og vatn út í þurrefnin og hrærið saman í deig (tekur stutta stund, ekki hnoða of lengi). Þetta deig dugar í 4 þunnar pizzur og það er best að forbaka botnana í 4-5 mínútur við 180° (ég var þó með hærri hita á pönnupizzunni). Ég notaði helminginn af deiginu í pönnupizzuna.

Yfir pizzusuna:

 • 2 kúlur ferskur mozzarella
 • tómatar (ég var með litla)
 • 1/2 – 1 avokadó
 • handfylli af ferskri basiliku
 • grænt pestó
 • salt og pipar

Setjið helminginn af deiginu í 30 cm steypujárnspönnu (eða fletjið deigið út á ofnplötu) og bakið við 220° í 4-5 mínútur. Stráið þá rifnum ferskum mozzarella og tómötum yfir og bakið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Skerið avokadó í sneiðar og setjið yfir pizzuna ásamt ferskri basiliku og doppum af pestói. Sáldrið góðri hvítlauksolíu yfir, kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kókoskúlur í ofnskúffu

Getum við verið sammála um að heimagerðar kókoskúlur eru óstjórnlega góðar? Sérstaklega þegar þær eru súkkulaðihúðaðar eins og þessar. Þegar þær eru kaldar úr ísskápnum þá er ekki hægt að standast þær með kaffibollanum. Það fer svo brjálæðislega vel saman.

Eins og mér þykja kókoskúlur góðar þá nenni ég sjaldan að gera þær. Jakob tekur sig stundum til og gerir skammt en er þá oftast fljótur að klára þær sjálfur, ef hann býður ekki vinum sínum upp á þær. Ég datt því heldur betur í lukkupottinn þegar ég sá þessa snjöllu aðferð á Instagram, að setja deigið einfaldlega í ofnskúffu, setja súkkulaði og kókos yfir og skera síðan í passlega stóra bita. Tekur enga stund. Stórkostlegasta uppfinning ever!

Kókoskúlur í ofnskúffu

 • 400 g smjör við stofuhita
 • 2 dl flórsykur
 • 1 dl kakó
 • 1 dl Nesquik (eða annað drykkjarkakaó)
 • 2 msk vanillusykur
 • 1 dl kaffi
 • 100 g rjómasúkkulaði
 • um 18 dl haframjöl

Yfir kókoskúlurnar

 • 200 g súkkulaði (ég var með suðusúkkulaði)
 • kókosmjöl

Byrjið á að þeyta smjör og flórsykur saman þar til blandan verður létt. Bætið kakói, Nesquik, vanillusykri, kaffi og bræddu rjómasúkkulaði í skálina og hrærið öllu vel saman. Hrærið haframjöli smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Blandan á að vera blaut í sér en þéttur massi. Þrýstið blöndunni í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og látið standa í ísskáp í smá stund.

Bræðið súkkulaðið til að setja yfir kókoskúlurnar og dreifið því yfir kókoskúludeigið. Stráið kókosmjöli yfir og látið síðan standa í ísskáp í um 30 mínútur.

Skerið kókoskúlurnar í bita. Geymið í loftþéttum umbúðum í ísskáp eða frysti.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Ferskur drykkur með freyðivíni, gini og sítrónu

Ég var búin að lofa að setja inn uppskriftina af fordrykknum sem við vorum með í matarboði um daginn og rétt næ því í tæka tíð fyrir HM annað kvöld. Þegar ég fæ mér sterkan drykk verður G&T oftast fyrir valinu og því kannski ekki skrítið að gindrykkir verði einnig fyrir valinu þegar ég býð upp á drykk hér heima (hér er önnur góð uppskrift af gindrykk). Þessi fannst mér æðislegur! Ferskur og sumarlegur… þrátt fyrir að sumarið láti bíða eftir sér!

Ferskur drykkur með freyðivíni, gini og sítrónu

 • 2-3 cl gin (ég nota Tanqueray)
 • 2 cl sykursýróp (sjóðið vatn og sykur í jöfnum hlutföllum saman þar til sykurinn hefur bráðnað – tekur enga stund!)
 • 3 cl sítrónusafi
 • freyðivín (það fór 1 flaska í 4 glös)
 • klaki
 • sítróna

Hellið gini, sykursírópi og sítrónusafa í stórt vínglas. Fyllið glasið með klaka og hellið síðan freyðivíni í það. Hrærið varlega í glasinu. Setjið sítrónusneið í glasið og berið strax fram.