Það er orðið langt síðan ég setti pastauppskrift hingað inn en pastaréttir eru alltaf vinsælir hér heima. Pastaréttir eru líka frábærir til að nýta grænmeti og álegg sem eru að syngja sitt síðasta. Ef sósan er góð þá þykir mér útkoman aldrei klikka.
Núna prófaði ég að gera sósu úr laktósafría kryddostinum og rjómanum frá Örnu og útkoman var hreint út sagt æðisleg. Það varð smá afgangur sem fór í nestisbox og var borðaður með bestu lyst daginn eftir. Hér fer ekki arða til spillis!
Pasta með pepperóní og sveppum í hvítlauksostasósu
- 400 g (ósoðið) pasta
- 1 sóló hvítlaukur eða 2-3 hvítlauksrif
- 1-2 msk smjör
- 250 g sveppir (1 askja), sneiddir
- 150 g pepperóní, skorið í fernt
- 150 g (1 askja) laktósafrír kryddostur með hvítlauk frá Örnu, rifinn svo hann bráðni hraðar
- 500 ml laktósafrír rjómi frá Örnu
- salt og pipar
Bræðið smjör á pönnu og pressið hvítlaukin saman við. Steikið sveppi og pepperóní í hvítlaukssmjörinu og kryddið með pipar. Hellið rjóma yfir og hrærið kryddosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita undir loki á meðan pasta er soðið eftir leiðbeiningum á pakkningu. Smakkið sósuna til með pipar og salti áður en soðnu pastanu er blandað saman við hana.
*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu
Ein athugasemd á “Pasta með pepperóní og sveppum í hvítlauksostasósu”