
Ég fer til Bandaríkjanna síðar í mánuðinum og hef undanfarin kvöld verið að skoða veitingastaði þar. Ég bóka alltaf borð áður en ég fer erlendis, bæði því mér þykir svo gaman að vera búin að hugsa út staði til að borða á og líka til að koma í veg fyrir að við endum dauðþreytt eftir daginn á næsta nálæga veitingastað. Reynslan hefur kennt okkur að panta borðin seint, þar sem við erum oftast á þvælingi langt fram eftir degi. Það er svo notalegt að komast aðeins upp á hótel, henda sér í sturtu og jafnvel fá sér einn drykk á meðan verið er að hafa sig til fyrir kvöldið.

Ég sé oftast til þess að ná einni ferð á California Pizza Kitchen þegar ég er í Bandaríkjunum en þangað fer ég helst í hádeginu. Það var á tímabili frábær pizza á matseðlinum hjá þeim sem ég síðar fann uppskrift af á netinu og eldaði hér heima. Það er dálítið tímafrekt að gera hana en mér þykir pizzan svo góð og vel þess virði að leggja smá á sig fyrir hana. Uppskriftina setti ég hingað inn fyrir löngu, það má finna hana hér.

Í þessum hugleiðingum rifjaðist upp fyrir mér uppskrift af tælensku kjúklingapasta frá California Pizza Kitchen sem hefur gengið um á netinu. Mér þótti því áhugavert að prófa uppskriftina og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þessi pastaréttur sló svo í gegn hér heima að ég get ekki hætt að hugsa um hann. Þennan rétt á ég eftir að elda aftur og aftur, svo mikið er víst!
Tælenskt kjúklingapasta – uppskrift frá California Pizza Kitchen
- 450 g spaghetti
- 3 msk sesam olía
- 1 bolli gulrætur, skornar í strimla
- 2 bollar kínakál, skorið í strimla
- 2 bollar eldaðar kjúklingabringur, skornar í bita
- 8 vorlaukar
- 5 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 1 msk rifið engifer
- 1/4 bolli hunang
- 1/4 bolli hnetusmjör (creamy)
- 1/4 bolli sojasósa
- 3 msk hrísgrjónaedik
- 1 – 1,5 msk sriracha hot chilli sósa
Setjið vatn í rúmgóðan pott og hitið að suðu. Bætið 1-2 msk af salti út í vatnið. Bætið spaghetti í pottinn og sjóðið skv. leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá og hrærið 2 msk af sesamolíu saman við spaghettíið.
Þurrkið pottinn og setjið 1 msk af sesamolíu í hann. Setjið vorlauk (takið fyrst smá af honum frá til að setja yfir réttinn sem skraut), gulrætur, kínakál, kjúkling, hvítlauk og engifer í pottinn. Steikið í 1-2 mínútur og bætið þá hunangi, hnetusmjöri, sojasósu, ediki og Sriracha sósu í pottinn. Hærið öllu vel saman og bætið að lokum spaghettíinu í pottinn. Blandið öllu vel saman. Skreytið með vorlauk og berið fram.
Líkar við:
Líkar við Hleð...