Páskarnir og dásamlega páskatertan

Eftir alla veðurblíðuna yfir páskana verð ég að viðurkenna að mér þykir pínu notalegt að fá hvassviðri í dag og get dundað mér hér heima á náttsloppnum án nokkurs samviskubits. Við höfum átt yndislega páska með útivist, afslöppun og allt of mikið af góðum mat. Alveg eins og páskar eiga að vera. Ég fór aldrei á skíði eins og ég hafði hugsað mér og verð að horfast í augu við þá staðreynd að árskortið mitt í Bláfjöllum voru verstu kaup síðasta árs. Ég læri vonandi af reynslunni núna en árskortið mitt síðasta vetur reyndist heldur ekki borga sig.

Það er hefð fyrir því hér heima að vera með góðan morgunverð á páskadag. Núna sofa unglingarnir svo lengi að morgunmaturinn er borðaður í hádeginu en það er bara notalegt. Ég gerði mér létt fyrir í ár og keypti bæði frosin crossant sem ég fyllti með skinkumyrju og frosin súkkulaðicrossant. Síðan steikti ég beikon og gerði eggjahræru. Allir voru alsælir. Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið, bara gott!

Á páskadag er ég alltaf með lambakjöt í kvöldmat. Sjálf er ég hrifnust af lambahryggi en virðist þó oftast kaupa lambalæri á páskunum. Ég hafði hugsað mér að gera kartöflugratín og bernaise með lærinu en þegar ég spurði krakkana langaði þeim í gamaldags lambalæri með sveppasósu og brúnuðum kartöflum. Lærið fékk að hægeldast frá hádegi og varð svo æðislega gott að við borðuðum yfir okkur.

Í eftirrétt bauð ég upp á páskaköku með nutellafyllingu og appelsínurjóma. Ég var svo södd eftir matinn að ég rétt gat smakkað kökuna en hún vakti mikla lukku viðstaddra. Uppskriftin kemur hér ef einhverjum langar að prófa.

Páskakaka – uppskriftin er fyrir um 15 manns (uppskrift frá Coop)

 • 100 g smjör
 • 2 dl mjólk
 • 4 dl hveiti
 • 1 dl kakó
 • 2 tsk lyftiduft
 • 4 egg
 • 2 dl sykur
 • 2 dl hrásykur

Fylling

 • 5 dl rjómi
 • 400 g Nutella við stofuhita
 • 1/4 dl appelsínusafi (ég var með trópí)
 • fínrifið hýði af einni appelsínu
 • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið í potti. Takið af hitanum og bætið mjólkinni saman við. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman. Hrærið egg, sykur og hrásykur saman þar til blandan er létt og loftkennd. Hrærið þurrefnunum saman við og bætið smjörmjólkinni í. Hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í smurt form (24 cm) og bakið í miðjum ofni í um 40 mínútur (ég þurfti að bæta aðeins við bökunartímann). Stingið prjóni í kökuna til að sjá hvort hún sé tilbúin. Látið kólna.

Þeytið rjómann. Hrærið Nutella saman við rúmlega helminginn af rjómanum. Hrærið appelsínusafa, appelsínuhýði og vanillusykri saman við restina af rjómanum.

Skiptið tertubotninum í þrennt með löngum hnífi. Setjið nutellafyllinguna á milli botnanna og endið á að setja appelsínurjómann yfir hana.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Oreo súkkulaðikaka

Ég er búin að vera ein heima síðan á miðvikudag og því óhætt að segja að páskafríið í ár hafi byrjað rólega. Ég hef lítið annað gert en að dunda mér hér heima. Í gær dreif ég mig síðan í búðina og verslaði inn fyrir páskana og um kvöldið fórum við Hannes og fengum okkur sushi og litum síðan í heimsókn til vina. Í dag koma strákarnir heim og í kvöld sækum við Malínu og Oliver út á flugvöll en þau hafa eytt vikunni í Kaupmannahöfn. Það sem mig hlakkar til að fá alla heim!

Ég bakaði svo góða köku um daginn sem mér datt í hug að setja hingað inn ef einhver sem er ekki kominn með nóg af súkkulaði (er það annars hægt?) er að leita af góðum eftirrétti. Kakan er bara svo dásamlega góð að það nær engri átt. Blaut í sér og mjúk. Mín vegna má sleppa Oreo kexinu í henni en krakkarnir taka eflaust ekki undir það. Þau elska allt með Oreo! Kexið gefur kökunni þó kröns sem fer vel á móti dúnmjúkri kökunni.

Oreo súkkulaðikaka

 • 200 g suðusúkkulaði
 • 150 g smjör
 • 175 g púðursykur
 • 4 egg
 • 5 msk hveiti
 • 1 tsk salt
 • 1 pakki Oreo (gott að nota með tvöfaldri fyllingu), sparið nokkrar kexkökur ef þið viljið setja yfir kremið

Hitið ofn í 180°. Hrærið egg og púðursykur saman. Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti og blandið við eggja- og púðursykurblönduna. Hrærið hveiti og salti saman við (athugið að þeyta ekki). Hakkið Oreokexið og blandið helmingnum af því þeim í deigið. Setjið deigið í form (24 cm) og stráið seinni helmingnum af Oreokexinu yfir. Bakið í 30 mínútur.

Krem

 • 100 g mjúkt smjör
 • 50 g sigtað kakó
 • 200 g flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • ½ dl mjólk

Hrærið smjör og kakó saman í skál. Hrærið flórsykri og vanillusykri saman við. Bætið mjólkinni smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Hrærið áfram í nokkrar mínútur, svo deigið verði létt í sér og mjúkt. Setjið yfir kalda kökuna.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa

Það er alveg hreint dásamlegur súpubar í Borgartúninu og þar sem ég vinn í sama húsnæði hef ég ósjaldan skotist þangað í hádeginu. Uppáhalds súpan mín er bara í boði á mánudögum en á þriðjudögum fæst stórgóð frönsk linsubaunasúpa sem mér heyrist vera í uppáhaldi hjá flestum.

Ebba Guðný, heilsugúrú og snillingur, gaf í þætti sínum Eldað með Ebbu uppskrift af linsubaunasúpu sem ég lét loksins verða af að elda um daginn, en franska linsubaunasúpan frá Súpubarnum var einmitt fyrirmynd þeirrar uppskriftar. Súpan er dásamlega góð! Ég bætti smá sellerý og cayenne pipar út í súpuna en því má auðvitað sleppa. Súpuna setti ég síðan í 4 box og átti nesti út vikuna. Stórkostlega gott!

Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa (uppskrift frá Ebbu Guðnýju)

1 stór blaðlaukur eða 2 litlir
1 1/2 dl grænar/brúnar/puy linsur
6-8 hvítlauksrif, pressuð
1 1/2 tsk. Himalaya- eða sjávarsalt
2 msk. lífrænn gerlaus grænmetiskraftur
1 krukka maukaðir tómatar
500 ml vatn
3-4 greinar ferskt rósmarín
1 1/2 msk. timjan (þurrkað)
4-6 gulrætur (ferð eftir stærð – 4 stórar eða 6 fremur litlar)
250 ml rjómi (1 peli)
1 stiki af sellerý
smá cayenne pipar
Graslaukur til að skreyta með í lokin og bragðbæta (má sleppa)

Skerið blaðlauk, sellerý og gulrætur smátt. Hitið smá vatn í botni á rúmgóðum potti og steikið grænmetið. Bætið hvítlauk saman við og síðan hráefnunum hverju á fætur öðru. Látið sjóða þar til baunirnar eru orðnar mjúkar (ég lét súpuna sjóða við vægan hita í um 30 mínútur). Berið fram með góðu brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Sænsk súkkulaðikaka deluxe

Hryðjuverkaárásin í Stokkhólmi á föstudaginn hefur verið ofarlega í huga mínum yfir helgina. Mér þykir hún svo hræðilega nálægt mér. Ég bjó í Stokkhólmi, á vini þar og fer reglulega þangað. Ég hef svo margoft staðið þar sem árásin átti sér stað, síðast núna í ársbyrjun.

Ég get ekki hætt að hugsa um 11 ára stelpuna sem var að koma úr skólanum og ætlaði að hitta mömmu sína við neðanjarðarlestina, en komst aldrei til hennar. Hvernig mamma hennar leitaði af henni á spítölum borgarinnar í örvæntingu áður en lögreglan bankaði upp á hjá henni. Vörubílsstjórann sem skildi lyklana eftir í bílnum á meðan hann skaust frá og mun eflaust seint jafna sig á því. Myndir af lögreglumönnum sem hikuðu aldrei, heldur hlupu beint að hættunni.

Þegar Viktoría prinsessa var spurð af blaðamanni „hvernig höldum við áfram eftir þetta?“ svaraði hún „í sameiningu“. Það er svo fallegt að sjá samheildina sem myndast við svona aðstæður. Þegar fólk staldrar við og sér hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu.

Ég hef verið á leiðinni að setja hingað inn uppskrift af svo góðri klessuköku sem ég bakaði um daginn og það er kannski sérlega viðeigandi að setja hana inn núna. Að baka köku og setjast niður með ástvinum gerir maður aldrei of oft. Njótum stundarinnar og veljum vandlega hvernig við eyðum tímanum.

Sænsk súkkulaðikaka deluxe

 • 3 egg
 • 3,5 dl sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 4-5 msk kakó
 • 2 dl hveiti
 • 150 g brætt smjör

Krem:

 • 50 g smjör við stofuhita
 • 2 msk kalt kaffi
 • 2,5 dl flórsykur
 • 1 msk kakó
 • 1 tsk vanillusykur

Yfir kökuna:

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 175°.

Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman egg og sykur. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim saman við eggjablönduna. Hrærið að lokum smjörinu í deigið. Athugið að þeyta aldrei deigið heldur bara að hræra það saman því ef það myndast of mikið loft í deiginu er hætta á að það verði þurrt. Smyrjið lausbotna form og setjið deigið í það. Bakið kökuna í miðjum ofni í 20-30 mínútur. Kakan á að vera blaut í miðjunni þegar hún er tekin úr ofninum. Látið kökuna standa í ísskáp í nokkra tíma áður en kremið er sett á hana.

Hrærið öllum hráefnunum í kremið saman og setjið yfir kökuna. Stráið kókosmjöli yfir. Geymið kökuna í ísskáp.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Mongolian beef

Um daginn spurði Jakob mig hvort við gætum ekki haft kínverskan í kvöldmat fljótlega. Ég verð alltaf jafn ánægð þegar krakkarnir stinga upp á kvöldmat og set óskirnar beint inn á vikumatseðilinn. Þar sem ég átti nautakjöt í frystinum féll valið á Mongolian beef. Ég lumaði á uppskrift sem sagan segir að komi frá PF Chang’s (ég sel það þó ekki dýrar en ég keypti það!) sem mér þótti upplagt að prófa. Rétturinn var æðislegur! Fljótgerður og svo mikið betri en take away. Fullkominn föstudagsmatur!

Mongolian beef

 • 500 g nautakjöt, skorið í bita
 • ⅛ bolli kornsterkja (maizena mjöl)
 • ½ msk sesam olía
 • ½ msk canola eða grænmetisolía
 • 3 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 tsk engifer, fínrifið
 • ½ bolli sojasósa
 • ½ bolli vatn
 • ¾ bolli púðursykur
 • olía til að steikja í
 • vorlaukur til að skreyta með (má sleppa)

Veltið nautakjötinu upp úr maizena mjölinu (gott að setja saman í poka og hrista vel) og látið standa í ísskáp í 10 mínútur. Á meðan er sósan gerð.

Hitið sesam og canola eða grænmetisolíu á pönnu. Bætið hvítlauki og engiferi á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur. Hrærið sojasósu, vatni og púðursykri saman við. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 2-3 mínútur. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Hitið olíu á djúpri pönnu (um 1 bolli eða 2,5 dl er passlegt) og djúpsteikið nautakjötið. Passið að setja það í skömmtum á pönnuna, svo það sé ekki of mikið kjöt á henni í einu. Brúnið kjötið á báðum hliðum, í um 1-2 mínútur á hvorri hlið. Takið kjötið úr olíunni og látið renna af því á eldhúspappír.

Setjið nautakjötið í sósuna og blandið vel saman. Látið suðuna koma aftur upp og sjóðið í 2-3 mínútur (sósan þykknar aðeins við þetta). Stráið vorlauk yfir og berið strax fram með hrísgrjónum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Þá var aftur kominn sunnudagur og tímabært að skipuleggja næstu viku. Ég fór á fleygiferð um bæinn í gær þar sem það vantaði orðið eitt og annað, eins og nýtt lak á rúmið okkar, fótboltasokka á Gunnar og nestisboxin í Ikea (þið vitið, þessi úr glerinu sem eru svo góð). Ég endaði ferðina síðan á stórum vikuinnkaupum. Þegar ég vaknaði í morgun og leit út um gluggan var ég svo fegin að hafa klárað allt í gær, því nú þarf ég ekki að fara út úr húsi í dag. Sumar í gær, vetur í dag. Vonandi kemur vor á morgun!

Vikumatseðill

Mánudagur: Fiskur í okkar sósu

Þriðjudagur: Quiche Lorraine

Miðvikudagur: Kjötbollur í möffinsformi

Fimmtudagur: Pasta með salami og blaðlauki

Föstudagur: Satay kjúklingasalat

Með helgarkaffinu: Sítrónuformkaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur

Í gær dundaði ég mér við að gera þessar sérlega góðu kókoskúlur. Það sem gerir þær svo dásamlega góðar er að það er bæði brætt súkkulaði í deiginu og utan um kókoskúlurnar. Súkkulaði gerir allt aðeins betra, þannig er það bara! Það er upplagt að gera tvöfaldan skammt og geyma í frysti því það er bara svo gott að geta nælt sér í eina kókoskúlu til að eiga með kaffibollanum. Annars er best að geyma þær í ísskáp en þá er hætta á að þær klárist einn, tveir og tíu!

Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur (uppskriftin gefur um 25 kúlur)

 • 4 dl haframjöl (ég var með tröllahafra en hvaða haframjöl sem er dugar)
 • 100 g smjör
 • 1,5 dl flórsykur
 • 2 msk kakó
 • 2 msk sterkt kaffi (kalt)
 • 1/2 msk vanillusykur
 • 50 g rjómasúkkulaði

Utan um kókoskúlurnar:

 • 200 g súkkulaði (ég var með rjómasúkkulaði og suðusúkkulaði til helminga)
 • kókosmjöl

Setjið haframjöl í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til haframjölið er fínmalað. Bætið smjöri, flórsykri, kakó, kaffi og vanillusykri saman við og vinnið saman í sléttan massa. Bræðið súkkulaðið og látið kólna. Bætið því síðan vel saman við massann.

Mótið kúlur, leggið þær á smjörpappír og látið standa í frysti í um 30 mínútur.

Bræðið súkkulaðið og setjið kókosmjöl í skál. Dýfið kókoskúlunum, einni í einu, í brædda súkkulaðið og veltið þeim síðan upp úr kókosmjölinu (mér þótti best að nota teskeið til að setja kúluna í súkkulaðið og var síðan með gaffal í kókosmjölinu, byrjaði á að moka kókosmjöl yfir kúluna og velti henni síðan um í kókosmjölinu). Geymið kókoskúlurnar í ísskáp eða frysti.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Boston!

Þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust áttað sig á því að ég var í fríi í Boston, sem skýrir fjarveruna hér á blogginu. Hannes þurfti að fara þangað á fundi og við ákváðum að gera smá frí úr ferðinni. Það sem við höfðum það gott! Hannes var flesta morgna á fundum en var alltaf kominn að hitta mig fljótlega upp úr hádegi. Ég nýtti tímann á meðan í dekur á snyrtistofunni og rölt um Boston með viðkomu í nokkrum vel völdum verslunum.

Við gistum á The Colonnade hótelinu sem er vel staðsett og með allt í göngufæri. Morgunmaturinn á hótelinu er dásamlegur og við nýttum okkur herbergisþjónustuna óspart. Herbergið okkar var rúmgott og með útsýni yfir Boston og það var ósköp notalegt að byrja dagana þar með morgunverðinn við gluggann.


Handan við hornið er upplagt að fara í hand- og fótsnyrtingu. Bara nokkur skref frá hótelinu og opnar snemma. Mér fannst æðislegt dekur að skottast þangað eftir morgunverðinn og fá snyrtingu og fótanudd morguninn eftir að við komum út.

  

 
Á móti hótelinu, í Prudential verslunarmiðstöðinni, er æðislegur matarmarkaður, Eataly. Þar settumst við niður á hverjum degi og fengum okkur osta, skinkur og vínglas. Það var svo notalegt að sitja þar við barinn og gæða sér á matnum. Mæli með því! Síðasta daginn versluðum við góðgæti og æðislegt rauðvín sem við tókum með okkur heim.


Annar staður sem ég mæli með er Taj Boston sem er á horni Newbury og Arlington. Þar inni er æðislegur bar sem er notalegt að setjast á eftir að hafa rölt um bæinn. Við fórum tvisvar þangað, í annað skiptið settumst við inn í drykk eftir að hafa rölt bæinn þveran og endilangan og í seinna skiptið fórum við í kampavín. Þarna er boðið upp á bestu hnetur sem ég hef smakkað. Ég borðaði mig sadda af þeim í bæði skiptin.

Það er nú varla hægt að fara til Ameríku án þess að fara á steikhús. Við fórum á Capital Grille og fengum okkur nautalund og humar, trufflufranskar og kartöflugratín. Brjálæðislega gott!

 

Kvöldið sem við komum út fórum við á Cheesecake factory, sem var beint á móti hótelinu okkar. Við fengum svo góðan mat (spicy cashew chicken og thai coconut-lime chicken) að það hálfa væri nóg. Við tókum síðan eftirréttinn, ostakökusneið, með okkur upp á hótel. Þæginlegt að þurfa bara að rölta yfir götuna, sérstaklega þar sem við vorum hálf þreytt eftir ferðalagið.

Mig hefur lengi langað til að smakka hin margrómaða Shake Shack borgara en get ekki sagt að hann hafi staðið undir væntingum. Borgarinn var hvorki fugl né fiskur en ostafranskarnar voru hins vegar æðislega góðar.

Við áttum yndislega daga í Boston og móttökurnar sem biðu okkur heima gátu ekki verið betri. Þegar við komum heim var búið að þrífa allt hátt og lágt, skipta um á rúmunum og á borðinu beið nýbakað bananabrauð. Yndisgull sem ég á ♥

Vikumatseðill

Það er svo dásamlegt að koma fram á morgnanna þessa dagana og mæta dagsbirtunni sem skín inn um gluggana. Þegar ég kom fram í morgun skein sólin inn og helgarblómin sem Hannes keypti á föstudaginn stóðu svo fallega í birtunni. Hann á hrós skilið fyrir hversu fallega vendi hann kaupir fyrir helgarnar. Hann veit hvað það gleður mig að hafa afskorin blóm hér heima og er lunkinn við að velja í fallega vendi. Yndislegur ♥

Vikumatseðill

Mánudagur: Brasilískur fiskréttur

Þriðjudagur: Salamibaka með fetaosti

Miðvikudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Fimmtudagur: Þunnbrauðsvefja með pulsu og kartöflumús

Föstudagur: Indverskur Butter Chicken

Með helgarkaffinu: Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Nautahakkshamborgarar

Í kvöld fer lítið fyrir eldamennskunni hjá mér því ég er að fara í saumaklúbb. Áður en ég fer ætla ég þó að hendast í Hagkaup í Smáralindinni því ég sá að það er 20% afsláttur af snyrtivöru þar í kvöld út af konukvöldi. Tímasetningin gæti ekki verið heppilegri því ilmvatnið mitt er að klárast og augnblýanturinn er á síðustu metrunum. Síðan má alltaf á sig glossum bæta, sérstaklega þegar það er afsláttur. Áður en ég hleyp út má ég þó til með að setja inn uppskrift af nautahakkshamborgurum sem mér þykja passa svo vel á helgarmatseðilinn. Ég sá þá fyrir löngu á Pinterest og lét loksins verða af því að elda þá um daginn. Einfaldir og súpergóðir!

Nautahakkshamborgarar – lítillega breytt uppskrift frá Kevin & Amanda

 • 450 g nautahakk
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk pepper
 • 1 tsk kúmin (ath. ekki kúmen)
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk reykt paprika
 • 2 bollar hakkaður laukur (ca 1 stór eða 2 litlir laukar)
 • 3-4 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 2 dl hakkaðir tómatar í dós með chili (ég var með frá Hunts)
 • 1 tsk sykur
 • 1 nautateningur
 • ostur (ég var með cheddar ost)
 • 6 hamborgarabrauð

Gljái

 • 1/2 bolli (8 msk) smjör
 • 2 msk púðursykur
 • 1 msk Worcestershire sósa
 • 1 msk sinnep
 • 1 msk sesamfræ

Hitið ofninn í 175° og smyrjið eldfast mót sem rúmar 6 hamborgarabrauð.

Hitið pönnu vel og setjið hakkið á pönnuna. Látið það brúnast vel og kryddið með salti, pipar, kúmin, sinnepsdufti og reyktri papriku. Bætið lauk og hvítlauk á pönnuna og steikið áfram þar til laukurinn er mjúkur. Hrærið hökkuðu tómötunum saman við og látið sjóða saman í smá stund.

Setjið neðri helmingana af hamborgarabrauðunum í eldfasta mótið. Setjið nautahakkið yfir og ost í sneiðum (gott að setja vel af honum). Setjið lokin af hamborgarabrauðunum yfir.

Setjið öll hráefnin í gljáann í pott og hitið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið yfir hamborgarana og setjið í ofninn í um 25 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í