Vikumatseðill

Konudagsblómin hafa staðið falleg alla vikuna og standa enn. Ég vil helst alltaf hafa afskorin blóm hér heima en það gengur ekki alveg upp. Ég kaupi þó oft vendi fyrir helgarnar og verð alltaf jafn glöð þegar þeir standa svona lengi og ná jafnvel tveimur helgum, eins og núna. En úr einu í annað, hér kemur tillaga að matseðli fyrir vikuna!

Vikumatseðill

Mánudagur: Fiskur í sweet chili

Þriðjudagur: BBQ-kjöthleifur

Miðvikudagur: Kjúklingasúpan hennar mömmu

Fimmtudagur: Satay-kjúklinganúðlur

Föstudagur: Tacopizzubaka

Með helgarkaffinu: Franskar brauðrúllur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Pink Gin Fizz

Um síðustu helgi ákváðum við Hannes að hætta við að fara út að borða eins og við höfðum ákveðið og í staðin að elda góðan mat heima. Ég gerði pizzuna sem ég setti inn uppskrift af í gær en fyrir matinn fengum við okkur fordrykk og snarl. Ég vel mér oftast gindrykki þegar kemur að sterkum drykkjum en fæ mér yfirleitt bara gin og tonic. Þetta var því skemmtileg tilbreyting. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir bleikum greipsafa en ég skipti honum út fyrir Sparkling Ice Pink Grapefruit flavoured sparkling water sem ég fann í goskælinum í Hagkaup. Það kom mjög vel út!

Pink Gin Fizz

 • 30 ml gott gin
 • 100 ml bleikur greipsafi (pink grapefruit juice)
 • 150 ml tonic
 • vel af klaka (ég nota mulinn klaka)
 • safi úr 1/2 lime

Blandið öllu saman og hellið í glas.

Pizza með pestó, hráskinku, sólþurrkuðum tómötum og ólífum

Á morgun er föstudagur og pizzakvöld á mörgum heimilum. Við erum búin að vera dugleg að prófa nýjar pizzur upp á síðkastið, eða öllu heldur ný álegg á pizzurnar, og um síðustu helgi gerðum við ítalska pizzu hér heima.

Ég keypti bæði tilbúinn botn og tilbúið pestó, sem gerði það að verkum að það tók enga stund að gera pizzuna. Kósýföt, kertaljós, pizza og rauðvín í glasinu… helgin getur varla byrjað betur!

Pizza með pestó, hráskinku, sólþurrkuðum tómötum og ólífum

 • pizzadeig
 • rautt pestó
 • hráskinka
 • ólífur
 • sólþurrkaðir tómatar
 • rifinn ostur
 • fersk basilika

Fletjið botninn út og smyrjið rauðu pestói yfir. Stráið rifnum osti yfir og setjið svo hráskinku, ólífur og sólþurrkaða tómata yfir. Stráið smá rifnum osti yfir og bakið í funheitum ofni þar til osturinn er bráðnaður. Setjið ferska basiliku yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

Brauðtertan hennar mömmu

Ég skammast mín ofan í tær fyrir að hafa gleymt að setja inn uppskriftina að brauðtertunni hennar mömmu, sem svo margar báðu um þegar ég birti mynd af henni fyrr í vetur. Ég hef sjaldan fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift eins og þessa. Mamma gerir brauðtertuna við hvert tækifæri sem gefst og kom með tvær síðast þegar það var landsleikur. Hún gerir bestu brauðtertur sem ég veit um og þessar hendir hún í eins og ekkert sé.

Þegar ég fór í saltkjöt og baunir til mömmu í síðustu viku var ég ákveðin í að skrifa niður uppskriftina hjá henni. Eyþór bróðir mætti síðan með kampavín og sagði okkur svo frábærar fréttir að ég steingleymdi að fá hana. Núna er ég þó loksins komin með uppskriftina, eða öllu heldur aðferðina, því mamma gerir brauðtertuna alltaf eftir tilfinningu. Þegar hún heyrði að uppskriftin væri á leiðinni á bloggið ætlaði hún að fara að hræra í sósuna til að geta gefið nákvæm mál. Klukkan var 23 á sunnudagskvöldi og ég tók það ekki í mál!

Ég veit ekki af hverju, en ég hef alltaf kallað þessa brauðtertu fyrir þá færeysku. Ég hlýt að hafa misheyrt eitthvað í gamla daga og það var ekki fyrr en nýlega þegar ég spurði mömmu hvort hún ætlaði að gera þá færeysku, að í ljós kom að mamma vissi bara ekkert um hvað ég var að tala. Í kjölfarið komst ég að því að brauðtertan hefur aldrei gengið undir þessu nafni og tengist Færeyjum ekki neitt! Það er því stórfurðulegt að ég hafi haldið að brauðtertan heiti sú færeyska í öll þessi ár og hafi komist upp með að kalla hana því nafni án athugasemda.

Brauðtertan hennar mömmu 

Það eru engin nákvæm mál og í raun hægt að nota hvað sem er á brauðtertuna. Mamma tekur skorpuna af brauði (hún notar ýmist fransbrauð eða heilhveitibrauð) og rífur brauðið í botn á eldföstu móti (hún segir að það sé betra að rífa það en að raða sneiðunum í formið, því þá gangi betur að fá sér af brauðtertunni). Síðan hrærir hún saman 2-3 kúfaðar msk af majónesi og 2 kúfaðar msk af sýrðum rjóma (það er best að nota 34% sýrða rjómann) og kryddar sósuna með smá af karrý og aromat (ca 1/2 tsk af hvoru). Hér er mikilvægt að smakka til. Sósuna setur hún síðan yfir brauðið, hún á að fara aðeins inn í brauðið en það á ekki vera þykkt sósulag yfir því (því mömmu finnst það svo ólekkert). Síðan er raðað því sem hugurinn girnist yfir. Mamma er yfirleitt með doppu af rauðkáli í miðjunni, síðan raðar hún í kringum það harðsoðnum eggjum, ananas, skinku, rækjum, reyktum laxi eða silungi (þá sleppir hún annað hvort skinkunni eða rækjunum). Stundum hefur hún hangikjöt, egg, blandað grænmeti og fl. Það virðist sama hvað hún setur yfir, þetta alltaf jafn brjálæðislega gott!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Krakkarnir eru í vetrarfríi næstu dagana og munu því hafa það notalegt hér heima á meðan ég verð í vinnunni. Þau eru enn sofandi en ég sit hér með kaffibollann minn og skipulegg vikuna. Það er skemmtileg vika framundan með vinkonuhittingi, bíóferð og deitkvöldi með Jakobi. Ég ákvað um áramótin að fá eitt kvöld í mánuði með hverju barni og núna er komið að Jakobi. Hann veit fátt betra en svínarif og við ætlum að prófa rifjakvöld á Mathúsi Garðabæjar. Ég hlakka til! Í síðustu viku var mikið útstáelsi á mér og bloggfærslurnar urðu færri fyrir vikið. Það mun ekki endurtaka sig í þessari viku. Nú verð ég betur skipulögð!

Vikumatseðill

Mánudagur: Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp

Þriðjudagur: Nautahakkschilli með cheddarskonsum

Miðvikudagur: Salamibaka með fetaosti

Fimmtudagur: Tælenskur kjúklingur með kókos

Föstudagur: Chilihakkpizza

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðibaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Blómkáls- og eplasúpa

Ég ætlaði að setja uppskriftina af þessari blómkálssúpu inn í gær en hreinlega steingleymdi því! Veit ekki hvernig það gat gerst. Blómkálssúpuna eldaði ég í síðustu viku og hún var bara svo æðislega góð. Þykk og matarmikil, með sætu frá eplunum sem fór svo vel með blómkálinu. Ég átti smá sýrðan rjóma (kannski 2 msk) sem ég bætti í súpuna en það er algjör óþarfi. Súpan er þykk en það er lítið mál að bæta meira vatni í til að þynna hana. Okkur þótti hins vegar svo gott að hafa súpuna þykka og dýfa heitu snittubrauði með smjöri í hana. Namm!

Blómkáls- og eplasúpa (uppskrift fyrir 4)

 • 1 gulur laukur
 • 1/2 blómkálshaus
 • 2 epli (ég var með rauð)
 • smá þurrkað timjan (1/2 – 1 tsk)
 • 2 grænmetisteningar
 • salt og pipar

Afhýðið og hakkið laukinn. Skerið blómkálið og eplin í bita. Steikið lauk, blómkál og epli í rúmgóðum potti og kryddið með timjan. Hellið vatni yfir þannig að það rétt fljóti yfir grænmetið og bætið grænmetisteningum í pottinn. Látið sjóða undir loki þar til grænmetið er orðið mjúkt (tekur 5-10 mínútur). Mixið súpuna slétta með töfrasprota. Smakkið til með salti og pipar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Ofnbökuð eggjakaka með grænmeti

Fyrir nokkrum vikum fékk ég uppskrift hjá vinkonu minni af svo frábæru nesti sem hún hafði gert sér og mér leist svo vel á. Ég er oftast með nesti með mér í vinnunni og finnst því gott að eiga í frystinum til að taka með mér.  Ég hef oft gert linsubaunasúpur og fryst í passlegum skömmtum en þessi eggjakaka er góð tilbreyting frá súpunum.

Þetta er í raun engin nákvæm uppskrift heldur er grænmeti sem þér þykir gott eða átt til steikt á pönnu og kryddað eftir smekk. Grænmetið er síðan sett í eldfast mót, nokkrum eggjum er hrært saman og svo hellt yfir grænmetið. Það er líka t.d. hægt að setja ost yfir eða fetaost í eggjahræruna. Þetta er síðan sett inn í ofn þar til eggjahræran er orðin passlega elduð.

Ég var með sæta kartöflu, papriku, brokkólí, sveppi og rauðlauk í minni eggjaköku og kryddaði grænmetið með ítalskri hvítlauksblöndu frá Pottagöldrum. Þegar eggjakakan kom úr ofninum skar ég hana í sneiðar og frysti. Á morgnanna tók ég svo bara eina sneið með mér sem ég hitaði aðeins í örbylgjuofninum áður en ég borðaði hana í hádeginu. Einfalt, hollt og gott!

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í