Tælenskar kjúklinganúðlur

Það er stutt vinnuvika framundan hjá mér og strákarnir eru nú þegar komnir í páskafrí. Við verðum heima yfir páskana og helst vil ég eyða dögunum í sófanum með bók og páskaegg, á milli þess sem ég borða góðan mat og dunda mér í eldhúsinu.

Þar sem við verðum heima yfir páskana þá er ég búin að liggja yfir uppskriftum til að prófa. Ég er alltaf með lamb á páskadag og ætla að vera með hægeldaðan lambahrygg þetta árið. Síðan er ég með kjúklingauppskriftir sem mig langar að prófa og auðvitað eftirrétti, helst á hverju kvöldi. Ég prófaði hins vegar um daginn uppskrift af tælenskum kjúklinganúðlum sem okkur þóttu æðislegar! Kannski ekki hefðbundinn páskamatur en frábær réttur sem gæti verið upplagt að bjóða upp á í páskafríinu.

Tælenskar kjúklinganúðlur – uppskrift fyrir 3-4

  • 2 kjúklingabringur
  • 6 dl vatn
  • 1,5 kjúklingateningur
  • 2 msk fiskisósa
  • 1,5 msk sykur
  • 1 tsk chilliflögur
  • 1 lime, fínrífið hýðið (passið að taka bara græna hlutann) og safinn úr helmingnum
  • 50 g ferskt engifer, rifið
  • 200 ml kókosmjólk
  • 1 hvítlauksrif
  • 100 g glass noodles
  • 1/2 dós bambus, skolið vel og skerið í aðeins minni bita

Setjið vatn, kjúklingakraft, fiskisósu, sykur, chilliflögur, lime (hýðið og safann) og rifið engifer í pott og látið suðuna koma upp. Skerið hvora bringu í tvennt eftir þeim endilöngum og leggið í pottinn. Látið sjóða án loks í um 40 mínútur, eða þar til kjúklingakjötið nánast dettur í sundur og vökvinn hefur minnkað til muna. Takið kjúklinginn úr pottinum og rífið hann í sundur með tveim göfflum. Bætið kókosmjólk og hvítlauk út í soðið sem var eftir í pottinum og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hitanum og leggið núðlurnar í hann. Látið þær liggja í nokkrar mínútur eða þar til þær hafa tekið mestu sósuna í sig. Klippið núðlurnar aðeins niður í pottinum með skærum. Endið á að hræra kjúklingnum og bambusnum út í . Berið fram með hökkuðum salthnetum og sojasósu.

3 athugasemdir á “Tælenskar kjúklinganúðlur

Færðu inn athugasemd