Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hefur verið mikið um sætindi hér upp á síðkastið og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég missti mig í sætindunum í sumar.  Ég fékk ekki einu sinni móral, ja nema kannski út af öllu Lindubuffinu. Allt hefur þó sinn tíma og til að bæta upp fyrir allt þá eldaði ég ljúffengan og bráðhollan kjúklingarétt þegar við vorum í sveitinni.  Ætli ég hafi ekki eldað hann kvöldið sem ég áttaði mig á því að ég hafði borðað 5 kassa af Lindubuffi á þremur dögum og fannst ég skulda mér góðan kvöldverð.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hafa eflaust margir eldað sína útgáfu af þessum kjúklingarétti og það væri gaman að heyra hvernig þið gerið hann. Okkur þykir rétturinn mjög góður og ekki skemmir fyrir hvað hann er hollur. Fyrir utan að kjúklingurinn er steiktur á pönnu þá fer allt hráefnið í eitt eldfast mót og inn í ofn. Einfaldara getur það varla verið.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það gæti þótt tómlegt að bera kjúklingarétt fram án meðlætis en mér þykir það sem leynist í eldfasta mótinu standa fyrir sínu eitt og sér, enda er allt þar. Spínat, sætar kartöflur, kjúklingur, tómatar, fetaostur, furuhnetur…. þetta getur ekki klikkað! Það má þó auðvitað vel bera brauð eða salat fram með réttinum og það myndi ég eflaust gera ef ég væri með matarboð en fyrir okkur fjölskylduna dugar þetta vel svona.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Ég verð að viðurkenna að ég er sérlega skúffuð með myndatökuna hér hjá mér og íhugaði að gefa ekki uppskriftina út af því hversu lélegar myndirnar eru. Ég kenni sumarbústaðarbirtunni um, viðarveggjum og lofti sem gáfu myndunum gulan blæ. Eða að Lindubuffið hafi gert mig hálf sloj. Jú, það hlýtur að vera ástæðan. Ég kenni Lindubuffinu um og treysti því að þið dæmið ekki réttinn af myndunum.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

 • 1 stór sæt kartafla
 • 1 poki spínat
 • 4-5 kjúklingabringur
 • 1 krukka fetaostur
 • 1 lítill rauðlaukur, skorinn fínt
 • heilsutómatar eða konfekttómatar, skornir í bita
 • furuhnetur
 • balsamik gljái

Hitið ofninn í 180°. Skrælið sæta kartöflu og skerið í sneiðar eða sneiðið með ostaskera. Látið kartöflusneiðarnar í eldfast mót, setjið smá ólífuolíu yfir, saltið og piprið og setjið inn í ofn í 15 mínútur eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið stutt (lokið þeim) á heitri pönnu. Kryddið eftir smekk (mér þykir t.d. gott að nota fajita krydd).

Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 15 mínútur eru þær teknar út. Setjð spínat yfir sætu kartöflurnar og kjúklinginn yfir spínatið. Stráið tómötum og rauðlauk yfir og hellið að lokum fetaostinum ásamt olíunni yfir allt. Setjið í ofn og bakið í 30 mínútur.

Á meðan rétturinn er í ofninum eru furuhnetur ristaðar.  Þegar rétturinn kemur úr ofninum er furuhnetunum stráð yfir og balsamik gljáa dreypt yfir.

48 athugasemdir á “Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

 1. Geri þessa útáfu pottþétt næst. Ég hef gert þennan rétt með heilum bringum og worcestershire sósu en aldrei prófað með lauk, tómötum og furuhnetum.

 2. Ég hef gert þetta með sætum kartöflum, 1 poki af spínati, 4 kjúklingabringur steiktar á pönnu uppúr Mango Chutney sósu, 1 krukka af fetaosti og svo mulið ritz kex ofan á. Þinn er hollari og örugglega mjög mjög góður en þetta er líka mjög gott. Ég hef bringurnar yfirleitt heilar, sker þær stundum í helminga þá er skammturinn akkurat bringan og það sem er undir og yfir henni á diskinn svo passlegur.
  Kv. Brynja

 3. Prófaði þennan í kvöld, rosalega góður. Skipti reyndar sætu kartöflunun út fyrir grasker 🙂 bkv. Maj-Britt

 4. Það hefur hingað til verið mission impossible að gera öllum fjölskyldumeðlimum til hæfis hvað kvöldmat varðar. Prófaði þennan á fimmtudaginn sl. og það heyrðist ekki aukatekið orð á meðan borðað var, að undanteknu einstaka mmmm-i 🙂 Takk fyrir að deila þessu með okkur!

  1. En æðislega gaman að heyra 🙂 Það er alltaf svo gaman þegar uppskriftirnar falla í kramið hjá allri fjölskyldunni. Takk fyrir að segja mér frá 🙂

 5. Alveg geggjaður réttur og ekki skemmir fyrir hvað hann er einfaldur. Ég nota ristuð graskersfræ í stað furuhnetanna 🙂

 6. Hlakka til ad profa hef gert tennan adeins ødruvisi en ætla ad profa tessa gerdina: Gaman ad heyra ad fleiri hafa misst sig i tessum litlu lindubuffum. Eg er ny buin ad eiga og akvad ad taka a matarædinu og keypti mer bok sem hefur matsedil fyrir 14 daga. Dagur 1 byrjar vel en sidan kemur vinkona min fra Islandi hingad ut med 2 pakka af tessum lindubuffum, omg eg hef aldrei lent i ødru eins. Eg var eins og eiturlyfjasjuklingur, reyndi ad blekkja sjalfa mig og læsa kassana inn i skap en vissi ju hvar lykilinn var svo sotti hann bara aftur hahahh. Enda a tvi 2 døgum seinna ad gefa restina tvi eg hafdi enga stjorn a sjalfri mer. Svo nu er dagur 1 aftur i dag og ekki neitt Lindubuff. Flott sida og gaman ad fylgjast med.

 7. Mà til með að kommenta à þennan rétt 🙂 ofsalega góður og allir fjölskyldumeðlimir sammála og ekki verra að hann er einfaldur að útbúa 🙂
  Takk fyrir frábært blogg 🙂
  Kv. Auður Björk

 8. Sæl.
  Ef ég sleppi fetaostinum, get ég sett einhverja aðra olíu í staðinn? og hve mikið þá?:)
  Takk kærlega annar fyrir æðislegt blogg! Búin að prófa mikið af því:)

 9. Á maður að rista hneturnar á pönnu? Sorrí með þessa kjánalegu spurningu, er ekki mikill meistari í eldhúsinu, skildi samt allt hitt sko 🙂

 10. Útbjó þennan rétt fyrir nokkrum vikum og hann sló heldur betur í gegn.. Í kvöld var beðið um: æjh þú veist þetta hrikalega góða sem þú gerðir um daginn með kjúklingnum, fetaostinum, furuhnetunum og því 😉 – og auðvitað verð ég við því!

 11. Þessi réttur er æðislegur og svo er hann líka rosalega góður með lambagúllasi í staðinn fyri kjúklinginn, algjört sælgæti 🙂 Takk fyrir frábæra síðu 🙂

 12. Takk fyrir þennan rétt! var að elda þetta í kvöldmatinn og sem betur fer var smá afgangur í hádegismat í vinnuna á morgun. mmm….

 13. Ummmmm alveg geggjaður réttur, allir gestirnir svo ánægðir og gerði hvítlauksbrauðið sem dugar fyrir marga með, yndisleg máltíð 😉

 14. Frábær réttur, ég notaði smá kjúkklingakridd, vel af hvítlauksdufti og helling af túrmerik,
  og notaði kókosolíu til steikngar. Takk fyrir góða síðu.

 15. Omg!!!! Geggjaður réttur 😉 bý in the USA svo eg fann ekki kryddið en notaði taco krydd og smá red pepper þegar ég eldaði kjuklinginn. Elskaði líka the recommendation að nota osta skerrara til að skera kartöfluna 😉 maðurinn min gat ekki hætt að borða 😉 love, love,love

 16. Þessi er algjört dundur… rann ljúflega niður í mannskapinn. Sé að ég þarf að stækka uppskriftina þegar ég geri hann næst 🙂
  takk kærlega fyrir mig.

 17. Einn af mínum uppáhaldsréttum sem ég geri reglulega, hef alltaf kúskús sem meðlæti, finnst það ómissandi 🙂 Takk kærlega fyrir mig.

 18. Þessi réttur er alveg frábær, það er svo gott að vera með allt i einu móti. Er búin að gera hann með fiski sem ég kryddaði og búnaði á pönnu i staðinn fyrir kjúklinginn, það þótti ekki siðra.

 19. Ég hef gert þennan oft en steikt kjúllan uppúr pestói.. stundum rautt og stundum grænt – það er mjög gott líka.

 20. Leitaði enn og aftur í smiðju hjá þér – þessi réttur er æðislega góður og féll vel í kramið! Takk fyrir mjög góða síðu!

 21. Elska þennan rétt , í gær notaði ég brokkolí í staðinn fyrir spínat og það var líka æði.
  Takk fyrir frábærar og skiljanlegar uppskriftir sem meira að segja ég get töfrað fram

 22. Sæl, smá pæling bara til að vera viss áður en ég hendi mér í að elda þennan gómsæta rétt, tæmir þú alveg úr allri fetaost krukkunni þegar þú eldar réttinn? Fyrir hversu marga telur þú að magnið af matnum sé fyrir? 🙂

 23. Þakka fyrir þessa fábæru uppskrift, hef gert þennan rétt mörgu sinnum, einn af mínum uppáhalds, allir borða vel af réttinum líka barnabörnin á öllum aldri, var að enda við að senda þennan rétt auðvita á Facebook til dóttur minna sem býr í Hollandi, hana hlakkar mikið til að útbúa réttinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s