Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti

Þegar líða fer að helginni berst talið oft að helgarmatnum og hugmyndir fara að fljúga á milli í vinahópnum. Í slíkum pælingum um daginn minntist vinkona mín úr vinnunni á rétt sem maðurinn hennar gerir sem henni þykir svo góður. Ég varð auðvitað ekki róleg fyrr en hún var búin að fá hann til að senda sér uppskriftina. Hann átti eflaust ekki von á að hún myndi enda hér (ég fékk samt leyfi til að birta hana – takk Kalli!) en ég get ekki annað, bæði svo fleiri geta notið og svo ég geti fundið hana aftur.

Þessi kjúklingaréttur er í einu orði sagt æðislegur. Krakkarnir höfðu öll orð á því hvað hann væri svakalega góður og meira að segja Gunnar, sem borðar helst ekki kjúkling, sagðist furða sig á því hvað þetta væri æðislega gott því hann borði nánast ekkert af því sem er í réttinum.

Við vorum 5 í mat og það varð smá afgangur eftir sem Jakob borðaði í morgunmat daginn eftir. Ég bar réttinn fram með brauði, annars hefði hann eflaust klárast upp til agna.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti (uppskrift fyrir 5)

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 dósir sataysósa (mér þykir langbest frá Thai Choice)
  • 1 rauðlaukur
  • 1 dós fetaostur
  • 150-200 g spínat
  • 3 dl kús kús
  • 3 dl vatn

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í smjöri. Hellið sataysósunni yfir og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur.

Hitið vatn að suðu (mér þykir gott að setja 1 kjúklingatening í vatnið), hrærið kús kús út í, setjið lok á pottinn og takið af hitanum. Látið standa í 5 mínútur.

Setjið kús kús, niðurskorinn rauðlauk, fetaost og spínat út í kjúklinginn og berið fram.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hefur verið mikið um sætindi hér upp á síðkastið og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég missti mig í sætindunum í sumar.  Ég fékk ekki einu sinni móral, ja nema kannski út af öllu Lindubuffinu. Allt hefur þó sinn tíma og til að bæta upp fyrir allt þá eldaði ég ljúffengan og bráðhollan kjúklingarétt þegar við vorum í sveitinni.  Ætli ég hafi ekki eldað hann kvöldið sem ég áttaði mig á því að ég hafði borðað 5 kassa af Lindubuffi á þremur dögum og fannst ég skulda mér góðan kvöldverð.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hafa eflaust margir eldað sína útgáfu af þessum kjúklingarétti og það væri gaman að heyra hvernig þið gerið hann. Okkur þykir rétturinn mjög góður og ekki skemmir fyrir hvað hann er hollur. Fyrir utan að kjúklingurinn er steiktur á pönnu þá fer allt hráefnið í eitt eldfast mót og inn í ofn. Einfaldara getur það varla verið.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það gæti þótt tómlegt að bera kjúklingarétt fram án meðlætis en mér þykir það sem leynist í eldfasta mótinu standa fyrir sínu eitt og sér, enda er allt þar. Spínat, sætar kartöflur, kjúklingur, tómatar, fetaostur, furuhnetur…. þetta getur ekki klikkað! Það má þó auðvitað vel bera brauð eða salat fram með réttinum og það myndi ég eflaust gera ef ég væri með matarboð en fyrir okkur fjölskylduna dugar þetta vel svona.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Ég verð að viðurkenna að ég er sérlega skúffuð með myndatökuna hér hjá mér og íhugaði að gefa ekki uppskriftina út af því hversu lélegar myndirnar eru. Ég kenni sumarbústaðarbirtunni um, viðarveggjum og lofti sem gáfu myndunum gulan blæ. Eða að Lindubuffið hafi gert mig hálf sloj. Jú, það hlýtur að vera ástæðan. Ég kenni Lindubuffinu um og treysti því að þið dæmið ekki réttinn af myndunum.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 poki spínat
  • 4-5 kjúklingabringur
  • 1 krukka fetaostur
  • 1 lítill rauðlaukur, skorinn fínt
  • heilsutómatar eða konfekttómatar, skornir í bita
  • furuhnetur
  • balsamik gljái

Hitið ofninn í 180°. Skrælið sæta kartöflu og skerið í sneiðar eða sneiðið með ostaskera. Látið kartöflusneiðarnar í eldfast mót, setjið smá ólífuolíu yfir, saltið og piprið og setjið inn í ofn í 15 mínútur eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið stutt (lokið þeim) á heitri pönnu. Kryddið eftir smekk (mér þykir t.d. gott að nota fajita krydd).

Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 15 mínútur eru þær teknar út. Setjð spínat yfir sætu kartöflurnar og kjúklinginn yfir spínatið. Stráið tómötum og rauðlauk yfir og hellið að lokum fetaostinum ásamt olíunni yfir allt. Setjið í ofn og bakið í 30 mínútur.

Á meðan rétturinn er í ofninum eru furuhnetur ristaðar.  Þegar rétturinn kemur úr ofninum er furuhnetunum stráð yfir og balsamik gljáa dreypt yfir.