Krakkarnir báðu mig um að hafa lasagna í matinn um daginn. Ég ákvað að fara einföldu leiðina og útkoman varð svo góð að ég mun eflaust halda mér við hana í framhaldinu.
Ég skipti ostasósunni út fyrir kotasælu sem sparaði mér bæði tíma og uppvask. Í kjötsósuna notaði ég æðislega pastasósu í glerkrukku frá Hunt´s sem ég má til með að benda ykkur á. Hún er þykk, bragðgóð og kostar ekki mikið. Ég sá að sósan fæst í fleiri bragðtegundum sem ég ætla hiklaust að prófa á næstunni en sú sem ég var með heitir Garlic & Herb.
Við vorum öll á einu máli um að lasagnað væri stórgott og ég tók þann litla afgang sem varð með mér í nesti daginn eftir. Það var ekki verra þá, því get ég lofað.
Lasagna
- 1 bakki nautahakk (um 500 g)
- 1 laukur, hakkaður
- salt og pipar
- 1 dós góð pastasósa (ég var með Hunt´s pastasósu í glerkrukku með bragðtegundinni garlic & herb)
- 1 dós sýrður rjómi
- 1 grænmetisteningur
- 1 stór dós kotasæla
- lasagnaplötur
- rifinn ostur
Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann byrjar að mýkjast. Bætið nautahakkinu á pönnuna og kryddið með pipar og salti.
Hellið pastasósunni og sýrða rjómanum yfir og hrærið saman. Setjið grænmetistening út í og látið sjóða við vægan hita um stund (10 mínútur duga en ef þú hefur tímann með þér þá er um að gera að leyfa kjötsósunni að sjóða lengur).
Setjið til skiptis í eldfast mót lasagnaplötur, kjötsósu og kotasælu. Þú ættir að ná tveim til þrem lögum miðað við meðalstórt mót.
Stráið rifnum osti yfir og bakið við 200° í um 20 mínútur.
mig langar svo að spurja, hef pælt í þessu lengi en lasagnaplöturnar eru þær harðar eða sýðuru þær fyrst ? og glerkrukkan frá Hunts er þetta ekki sama og er í álumbúðunum ?
ps takk fyrir frábæran vef
Ef lasagnaplöturnar eru ekki ferskar (sem eru mjúkar) þá eru þær harðar (þessar í kössunum). Ég sýð þær aldrei fyrst heldur nota þær harðar og svo mýkjast þær í ofninum. Pastasósan frá Hunt´s er ný á markaðnum og er alls ekki eins og sú sem er í dósunum.
Þetta er miklu matarmeiri og þykkri sósa, meiri gæði og æðislega bragðgóð.
Langar til ad benda á,ég legg alltaf lasagnaplöturnar í bleyti í c.a 10-15 mín,þá verða þær mjúkar
En hvar fást svona hunt’s sósur í krukkum? Ég hef eldað þetta nokkrum sinnum og notað allskonar sósur með góðum árangri en myndi mjög svo gjarnar prófa þetta með svona sósu eins og í uppskriftinni
Ég hef notað Hunt’s sósurnar í mörg ár, þær eru líka til í stórum niðursuðudósum í Bónus sem ég held að sé ennþá hagstæðara. Mér finnst líka gott að bæta við þetta papriku, sveppum, blaðlauk og gulrótum. Ætla að prófa sýrðan rjóma og kotasælu við tækifæri, hef alltaf bara notað rifinn ost – takk fyrir 🙂
Passata frá Euroshopper er frábær vara og kostar mjög lítið. Fæst í 1/2 líters fernum í Bónus en passata er ókrydduð sósa úr tómötum eins og ítölsku húsmæðurnar búa til 🙂 og krydda svo sjálfar.
Girnilegt lasagna, geri oft svona sjálf en góð hugmynd með sýrða rjómann! Bæti honum í næst, eykur mýktina. Mjög gott að nota kotasælu.
Ætla aðeins að gefa smá tip í lasagnað – og reyndar allar kjötsósur og súpur – en það er dash af Sweet chili sósu! Gerir gæfumuninn. Fæst í flöskum í Bónus, ódýrt.
Það hljómar vel að setja sweet chili sósu út í. Ætla að prófa það næst 🙂 Takk fyrir ábendinguna 🙂
Hef notast við uppskrift úr ostabók sem gefin var út fyrir mörgum árum hér heima. Þar er kotasælan notuð og sósan krydduð frá grunni, og tomatpure notað með. Þessi er örugglega góð og ég þarf að prófa að setja sýrðan rjóma í sósuna 🙂
Gerði þetta lasagna í kvöld – ótrúlega gott! 🙂
Gaman að heyra! 🙂
Prófaði þessa uppskrift í gær og hún hitti vel í mark! Reyndar bætti ég rifnum parmesan og grænmetisteningi út í kotasæluna 🙂 Takk fyrir frábærar uppskriftir og hugmyndir.
Fyrir hversu marga er þessi uppskrift? 😀
Ég gerði þetta um daginn og eins og stóð, notaði ég 1 dós af sýrðum rjóma og krukku eða stóra dós af pasta sósu. Ég hellti því öllu út í við eldamennskuna og sá strax að það var of mikið af hvoru, ég notaði einnig litla dós af kotasælu því ég sá að stór var of mikið. En því miður var þetta nánast óætt eftir að þetta kom úr ofninum. 🙂
Mig langaði bara að benda á þetta, eins og allt annað er meiriháttar hérna inni að þá þarfnast þessi uppskrift smá ‘tweak’.